„Þetta er náttúrulega orðið mitt ævistarf,
þessi ósköp.“

Viðtal við Benedikt Skúlason, sem gegndi starfi gæslumanns og hitaveitustjóra Hitaveitu Laugaráss frá 1980 þar til veitan varð hluti af Biskupstungnaveitu og síðar Bláskógaveitu.

Benedikt Skúlason og Kristín Sigurðardóttir

Það var í lok nóvember árið 2022, sem ég mælti mér mót við Benedikt á heimili hans og Kristínar Sigurðardóttur í Kirkjuholti í Laugarási. Við Benedikt erum bræður, frá Hveratúni, synir þeirra Guðnýjar Pálsdóttur og Skúla Magnússonar. Mér þykir rétt að halda tengslum okkar til haga, því mögulega hafa þessar sameiginlegu rætur okkar áhrif á útkomuna úr þessu viðtali.

Kristín, eiginkona Benedikts, er dóttir hjónanna Jónu Þuríðar Ólafsdóttur og Sigurðar Erlendssonar á Vatnsleysu og þannig með sterkar rætur í Tungunum.  Kristín og Benedikt eiga þrjú börn, Bergþóru Kristínu sem fæddist 1981, Valgerði Björk 1985 og Sigurð Skúla 1991.

Auglýsingin í Tímanum. 29. okt. 1979

Þegar auglýsing birtist í Tímanum í lok október, árið 1979, hafði Benedikt lokið sveinsprófi í blikksmíði og starfaði hjá blikksmiðjunni Blikk og stál á Bíldshöfða í Reykjavík, en fyrirtækið hafði þá fyrir nokkru fengið viðurkenningu frá Félagi blikksmiða fyrir góðan aðbúnað fyrir starfsfólk.

Í upphafi viðtalsins sat Kristín með okkur og því lék mér forvitni á að vita, hvernig það kom til að þau ákváðu að bregðast við auglýsingu um starf gæslumanns hitaveitunnar í Laugarási.

Eigendur Blikks og stáls, ásamt starfsmönnum, með viðurkenninguna. Benedikt er í hringnum.

Benedikt: Það var nú bara þannig að það kom auglýsing í Tímanum, þar sem var auglýst eftir gæslumanni við Hitaveitu Laugaráss. Það var nú ekki mikið flóknara en það. Hann átti að skaffa sér ýmislegt – rafsuðu og logsuðu. Við sóttum um, en ég held að Kristín hafi verið harðari í því að sækja um. Mér leið ágætlega í þessu starfi sem ég var í hjá Blikk og stál.

Kristín: Okkur langaði allavega til að prófa að sækja um.

Benedikt: Við sóttum sem sagt um. Ég svaraði auglýsingunni nokkurn veginn svona:  „Ég sæki hér með um starfið sem var auglýst í Tímanum, þennan og þennan dag,“, lét það duga og það dugði.

Þeir hjá Blikk og stáli leyfðu mér að fara.

Þá bjuggum við í Reykjavík. Þegar við fluttum síðan í Laugarás, í Helgahús, vorum við 21 og 23 ára. Á þessum tíma var Hörður Magnússon í Varmagerði formaður veitustjórnarinnar. Þarna hafði samningi við Pétur Guðmundsson, verið sagt upp og hann og Svandís Ottósdóttir voru að flytja úr Helgahúsi þegar við komum til að skoða aðstæður. Ekki leist okkur meira en svo þær, en þetta gekk.

Helgahús

Helgahús, fjósið, hlaðan og JCB-grafan árið 1988. (Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir)

Jón Eiríksson

Við vorum með húsakostinn (íbúðarhúsið, fjósið og hlöðuna) á leigu eftir að við komum og hitaveitan leigði fljótlega af okkur, þann hluta sem við kölluðum kjöthúsið. Svo keyptum við fjósið síðar. Við greiddum í leigu fyrir þetta og jarðarafnot, upphæð sem svaraði til 30 stunda vinnu á mánuði.  Ég þurfti að fara niður í Vorsbæ til Jóns (Jóns Eiríkssonar, oddvita Skeiðahrepps) með vinnuskýrslur, mánaðarlega og þá greiddi hann mér laun, að frádreginni leigu.  Okkur var einnig ætlað að vera með í fæði, alla starfsmenn sem komu að viðhaldi og endurbótum og stundum einnig að hýsa þá. Svona var þetta öll árin.

Kirkjuholt 2008 (mynd pms)

Við vildum gjarnan kaupa íbúðarhúsið, en læknishéraðið vildi ekki selja okkur það, þannig að við byggðum okkar eigið, Kirkjuholt og fluttum svo þangað árið 1990. Árið 1993 ákváðum við síðan að fara fram á að kaupa útihúsin. Við ætluðum ekkert að vera þarna á einhverri leigu alltaf. Við vildum bara kaupa þetta allt, en þeir vildu það ekki. Svo seldu þeir auðvitað íbúðarhúsið. 

Blómkálsrækt á hverasvæðinu.

Launin voru ekki mikil og þessvegna urðum við að afla tekna með öðrum hætti líka. Þannig ræktuðum við blómkál í heitum garði á hverasvæðinu og ég var í allskyns verktöku og Kristín vann á garðyrkjustöðvum í Laugarási.

Benedikt: Ég var ráðinn þarna með titilinn gæslumaður hitaveitunnar , en með reglugerð sem kom um 1985 breyttist starfsheiti mitt yfir að að vera hitaveitustjóri, sem breytti auðvitað öllu – eða þannig.

Það er óhætt að segja smá sögu í sambandi við þennan hitaveitustjóratitil. Þá var ég að vísu nýtekinn við Biskupstungnaveitu. Ég var að leggja lagnir í Kistuholtinu með Gauja gas (Guðjón R. Guðjónsson frá Tjörn) og var ofan í skurði með handskóflu. Þá kom 9 ára strákur á skurðbakkann, en hann var að koma úr skólannum. Þetta var Ingi Rafn Ragnarsson. Hann spurði mig eins og hans var von og vísa: „Ert þú ekki veitustjóri, Benni?“ Ég svaraði þessu, rogginn: „ Jú, það passar“, og horfi til hans upp úr skurðinum. Þá sagði Ingi Rafn: „Ekki finnst mér þetta vera virðingarvert starf.“

Ofan í skurði …

Ég gerði smá vísu um þetta seinna:

Veitustjórans vald er svert,
verst að barnið spurði.
Varla er það virðingarvert
að vera oní skurði.

Það hefur fylgt þessu veitustjórastarfi og heilmikið verið mitt hlutskipti, að vera ofan í skurði.


Hér eftir er það bara Benedikt sem er viðmælandi. Það má greina það, hér og þar, að til hliðsjónar í viðtalinu eru fundargerðarbækur Hitaveitu Laugaráss, Biskupstungnahrepps og Oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs.

Það breyttist ýmislegt við stofnun hitaveitunnar árið 1964. „Þarna áður voru menn bara með dæluskúr þarna, eins og pabbi (Skúli í Hveratúni), Jón Vídalín (á Sólveigarstöðum) og Hjalti Jakobsson (garðyrkjustöð Ólafs Einarssonar). Rauði krossinn var með í þessu. Það var bara dæluskúr einhversstaðar þar sem Hveratúnsþróin er nú. Svo voru þeir komnir Sævar og Páll Dungal og þeir voru bara með dælur úti í Hildarhver. Þannig dældi bara hver fyrir sig.“

Laugarás 1982, hverasvæðið. Hægra megin má sjá dæluhúsin tvö sem koma við sögu og lengst til hægri fjósið og hlöðuna. (mynd Ingibjörg Bjarnadóttir)


Tekið til starfa

Á fyrstu árum mínum þarna hjá hitaveitunni var flest með öðrum hætti en nú er og aðstæðurnar þættu hreint ekki boðlegar í dag. Rafmagnið fór ansi oft af. Og þá þurfti maður alltaf að fara niður í dæluhús til að setja í gang rafstöð, því auðvitað mátti aldrei verða eitthvert hlé á dælingunni. Og svo þegar rafmagnið kom aftur fór maður náttúrulega aftur niðureftir og slökkti á rafstöðinni. Mig minnir að þetta hafi alltaf verið í einhverjum blindbyl og myrkri.  Ég var með bjöllu, sem ég er nú reyndar með enn í dag, en ég skipti ekki um batterí í henni lengur. Nú fæ ég þetta bara í símann.

Þórmundur Þórmundsson (mynd Tómas Jónsson)

Það var ofboðslega stressandi, fannst mér, þegar ég var að skríða þarna niðureftir í vondum veðrum  til að setja inn dælur. Það bara drapst á öllu og var bara oft rafmagnslaust lengi og menn vissu ekkert af hverju. Maður fór bara niðureftir og ræsti rafstöðina og setti síðan dælurnar í gang. Og svo þegar ég var búinn að því og var kannski að reyna að fara að sofa, þá var bankað upp á og þá var það Þórmundur (Þórmundsson frá Rafmagnsveitum ríkisins) og karlar með honum. Hann vildi athuga hjá mér hvort dælurnar snérust rétt. Þá voru þeir einhversstaðar í einhverju mixi, og höfðu kannski ruglað fösum, þannig að þær myndu snúast öfugt. „Ég var náttúrulega svolítið blankur með þetta fyrst og fór niður í dæluhús til að athuga hvort væri ekki allt í lagi. Auðvitað hefði bara dugað að skrúfa frá krana, því ef þær snérust öfugt, þá hefði ekki komið neitt vatn, sko. (hlátur)  Svoleiðis var þetta þá. Núna er þetta orðið þannig, að þú færð bara  eitthvert sms og þú getur ekki talað við nokkurn mann, það kemur bara einhver “robbóti og talar við þig. Þetta er allt orðið svona. Þórmundur kom bara og spurði hvort dælurnar snérust rétt. Þá var einhver bilun einhversstaðar.“

Það kom alloft fyrir í kuldatíð, að það var hringt, seint um kvöld og ég varð að fara, í skítakulda og mæla hvort það gæti verið að stöðin fengi ekki sinn skammt.  Þá gekk hér allt út á garðyrkju, ég held að það hafi verið 17 stöðvar í Laugarási þá og aldrei mátti missa niður hitann í húsunum. Það var og er, náttúrulega eðlilegt, að ekki sé hægt að halda hita í rosa kuldum.  Það var, sem sagt hringt, og sagt: „Hitinn er kominn niður í 14 gráður, það getur ekki verið að ég fái vatnið mitt. Þú verður að koma og mæla.“ Merkilegt alltaf með þessar 14 gráður ...

Sigurjón Þórðarson

Þegar ég kom var ekkert sem hét sjálfvirkni á dælunum. Þá þurfti maður bara að hlaupa og slökkva og kveikja, aðallega á sumrin. Einnig var þetta mjög þreytandi í miklum kuldum, því þá, náttúrulega fengu garðyrkjustöðvarnar aldrei nóg vatn. Þær voru allar á hámarksskammti, mismiklum, eins og er enn í dag. Fljótlega eftir að ég kom, fórum við í að auka við sjálfvirknina.
Þarna var Sigurjón í Árvirkjanum (Sigurjón Þórðarson) með mér og við fundum upp svona system til að slökkva á dælunum þegar það var orðið of mikið trukk. Það gekk ansi lengi, eða alveg þangað til við keyptum tíðnibreyti - hraðastýringu á dælurnar, sem virkar þannig, að við aukinn þrýsting þá hægja þær á sér. Við vorum með þeim fyrstu til að fá okkur svoleiðis.

Tíðnibreytar Hitaveitu Laugaráss í dag (mynd pms)

Svo var fengin iðnaðartölva til að slökkva og kveikja á dælum með. Þegar ein var komin í botn, þá kveikti tölvan á næstu. Þá keyrði hún sig niður. Þetta var stillt þannig, að ákveðinn þrýstingur átti að fara út og dælurnar dældu eftir því.  Við Sigurjón vorum búnir að mixa þetta með þrýstinemum og klukkum. „Þetta var svo sem líka mjög gott, en núna set ég tíðnibreyti á hverja einustu dælu.“


Framkvæmdir á hverasvæðinu.

Úlfar Harðarson

Um það leyti sem ég kom til starfa var Úlfar Harðarson á Flúðum heilmikið viðloðandi framkvæmdir við hitaveituna og hafði eitthvað verið að vinna í hverunum með Pétri Guðmundssyni. Hann mældi líka vatnsmagnið, sem var þá 40-48 l/sek. „Úlfar sá eiginlega um allt varðandi hverina þá.  Hann var meira að segja að hámarksstilla garðyrkjustöðvarnar með því að sjóða rær fyrir afrennslið, til að garðyrkjubændurnir gætu ekki tekið meira magn en eitthvert hámark sem var nauðsynlegt.“  Ég, sem sagt, fylgdist aðeins með því sem fram fór á hverasvæðinu áður en ég fór sjálfur að vinna þarna.

Úlfar var búinn að vinna í Hildarhver og Draugahver. Hann virkjaði þá þannig, að hann setti stórgrýti í þá. Þeir áttu að koma svona upp með grjótinu. Og svo var lögð leiðsla úr steinrörum niður í  gamla dæluhúsið.

Haraldur Sigurðsson, Guðmundur Jónsson og Svavar Sveinsson

Þeir voru fleiri sem komu að vinnu við hitaveituna áður en ég kom, aðallega þá við lagnirnar. Þannig voru þarna á einhverjum tíma viðloðandi, ásamt Úlfari, þeir  Halli í Höfða (Haraldur Sigurðsson), Gvendur í Þverspyrnu (Guðmundur Jónsson) og Svavar á Drumboddsstöðum (Svavar Sveinsson). Á þessum tíma voru lagnirnar með frauðplasteinangrun og vafðar með tjörupappa og síðan vafið utan um með baggabandi.

Það var svo komið, árið 1981, að það vantaði bara meira vatn, enda hafði garðyrkjustöðum fjölgað og þær sem fyrir voru, voru stækkaðar. Þá var leitað til verkfræðistofunar Fjarhitunar, sem var svo hitaveitunni til ráðgjafar lengi.  Frá þeim kom teikning af húsi – viðbyggingu. Það var gert ráð fyrir að  að lækka á hvernum, en þeir höfðu trú á því að það myndi virka. Þarna var farið í að byggja þessa viðbyggingu, sem var tveim og hálfum metra neðar en hitt. Þetta dæluhús er hluti af núverandi dæluhúsi.  „Þegar ég kom var þarna gamla dæluhúsið og í því voru voru bara tvær dælur. Svo var bensínmótor 6cyl Chevrolet mótor, sem var búið að afleggja. Það var líka komin þarna gömul rafstöð, Buddah, helv merkileg, sem þeir höfðu keypt hjá KFUM. Einn veturinn bilaði hún og Iðumenn voru fengnir til að redda henni – ég var ekki kominn þá. Þeir voru alla nóttina að reyna að koma henni í gang, því það var allt að frjósa og karlarnir komu bara vaðandi yfir og allt straumlaust. Það var svo oft sem var straumlaust. Þeir gátu reddað henni, en þá var keypt ný stöð og hún var komin þegar ég kom, 42kw Lister.“

Lister rafstöðin er enn í dæluhúsinu og er annar valkosturinn í straumleysi. (mynd pms)

Svo þegar var farið að virkja meira, þá var byrjað á því að byggja við dæluhúsið, það var síkkað niður, alveg um 2,50 m og síðan var lögð önnur lögn upp í hver, það var bara grafið fyrir röri þarna á milli.  Þegar við grófum fyrir dæluhúsinu var dælt stöðugt sjóðandi vatni frá okkur til þess að hægt væri að steypa það upp. Þetta var um 1983-1984 og þá var Ólafur Sigurðsson frá Selfossi í því með mér. Húsið varð ekki eins og hugmyndir frá Fjarhitun gerðu ráð fyrir. „Þar áttu að vera þessar þrær sem vatnið átti bara að renna í, í kjallaranum, svo átti að koma öxull niður og dælan átti að vera niðri í kjallara og mótorinn uppi. Mér leist náttúrulega ekkert á það, vegna þess að litla dæluhúsið (sem stendur nær brekkunni) var með svona system: þró við hliðina, sem míglak alltaf inn. Það er það sem að mér leist ekkert á í þessu. Ég náttúrulega vissi ekkert um þetta, en þessar hugmyndir um að setja þetta með öxuldælu niður, voru bara flautaðar af. En ég á teikningar af þessu, það vantar ekki.“

Ólafur Sigurðsson

Allt að einu var húsið byggt og við það störfuðum við Óli og vorum ekki lengi að því. „Ég man það bara, að það stytti ekki upp allt sumarið. Við vorum í galla allt sumarið. Þetta hefur verið 1983. Allavega stytti ekki upp.“

Dæluhúsið var sem sagt lækkað og það var Einar Harðarson frá Flúðum, bróðir Úlfars sem gróf fyrir því og gróf þarna líka annað sem grafa þurfti og það reyndist ekki þörf á að sprengja neitt. „Einar kom á beltavél og gróf þetta og var hérna heilmikið í þessu með okkur. Hann gróf skurðinn síðan upp í hver. (Frá dæluhúsinu og upp í Hildarhver og Draugahver). Ég man að hann var alltaf í hvítum sokkum og tréklossum, en alveg rosagóður gröfumaður.

Skurðurinn

Eðlilega þurfti einnig að lækka lögnina frá dæluhúsinu í Hildarhver og Draugahver. Þarna var því grafinn mikill skurður og í hann sett 12 tommu asbestlögn, sem er þar enn þann dag í dag. Það kom heilmikið heitt vatn úr skurðinum sjálfum og til að nýta það voru lögð steinrör sitthvorumegin við asbestpípuna. Til að drena vatnið úr skurðbökkunum í steinrörin, var sett grús yfir þetta og síðan þurfti að gera sérstakan brunn fyrir framan húsið til að sameina þetta vatn, áður en það fór um yfirfall inn á dælurnar.  Grúsin var keypt hjá Jóni á Svínavatni (Jóni Ingileifssyni). „Ég fór þarna, alveg nýr í öllu hérna og talaði við Jón á Svínavatni til að velja grús hjá honum. Og þá kom hann þarna í leðurjakkanum út á hlað: „Við skulum fara að skoða þetta.“  Fljótlega sá hann tjald úti í móa og það voru einhverjar stelpur í því. Honum var mikið í mun að kynna sér það nánar og fór rakleiðis að tjaldinu þar sem hann spjallaði eitthvað við tjaldbúana. Ég var alveg hissa. Grúsin skipti engu máli „Hún er þarna og þarna. Hvað heldurðu að þú þurfir?“ (hlátur)“

“Fronturinn” steyptur

En, áfram með skurðinn.  Heita vatnið rann bara úr öllum veggjum á skurðinum. Það var bara ekki hægt að loka þessu nema drena frá því . Vatnið bara spratt þarna fram. Það var steyptur nokkurskonar „frontur“, sem er ennþá. Hann stendur langt upp fyrir vatnsborðið á hvernum, og þar kemur asbestlögnin inn. Þar er brunnur og maður sér alveg hvernig fossar inn í hann. Einar var með mér í þessu, á gröfunni. Allavega þá lækkuðum við í hvernum.  Svo þurfti að kaupa nýjar dælur. Þá ákvað ég að færa dælurnar yfir – taka dæluna frá 6 cyl Chevrolet mótornum og setja rafmagnsmótor við hana. Ég byrjaði á að færa hana yfir í nýja húsið. Ég smíðaði stigana niður, breytti þessu þannig að þetta var bara þurrt hús og dælurnar neðst.  Fyrir utan er bara yfirfall og svo er smá brunnur fyrir utan húsið áður en vatnið fer inn í dæluhús.

Innskot í viðtalið

Þegar unnið var að því að slá upp fyrir nýja dæluhúsinu, fannst mér að norðurveggurinn myndi verð frekar eyðilegur, stór og gluggalaus. Ég fékk leyfi til að festa fimm hringlaga álskífur og tvo lista, innan á uppsláttinn. Þetta átti að tákna gufubólstra og pípur sem fluttu vatnið úr iðrum jarðar til notenda. Þetta merki útfærði ég löngu síðar og það var tekið upp sem merki Bláskógaveitu. (Páll M. Skúlason)

Merkið á dæluhúsinu og merki Bláskógaveitu. (myndir pms)

1984 er verið að tala um að skoða nýja dæluhúsið og verið að tala um að það hafi fengist 20 sek/l til viðbótar og 1985 eru hugmyndir um viðbótarvirkjun.

Búið að loka hverunum og lögnin í dæluhúsið frágengin.

Það er þá sem við vorum að fara í þetta, – afla meira vatns með því að lækka á hvernum. Þá var búið að byggja nýja dæluhúsið og inntakið á því var miklu neðar en gamli og svo var bara grafið upp í hver, grafið ofan af hvernum. Þá fékk ég strengjabita, sem eru þarna enn, sem voru bara lagðir yfir sprunguna. Einar gróf í sprunguna, hreinsaði bara allt ofan af, svo lögðum við þessa bita þétt saman, þversum yfir, svo var settur dúkur, sem ég fékk einhversstaðar og jarðveg yfir og þannig er það núna.

Unnið við hverinn.

Við röðuðum þessu yfir þarna og þannig var gengið frá, að það kæmust ekki óhreinindi ofan í hverinn.
„Margt af því sem þarna var gert kom dálítið mikið til vegna þess að Hörður Sig (Hörður V. Sigurðsson í Lyngási) hafði svo ofboðslega trú á mér. Hann leyfði mér bara allt, og það fór nú í taugarnar á mörgum stjórnarmönnum. „Hann bara ræður þessu. Við skiptum okkur ekki af þessu“, sagði Hörður. Þarna átti að fara að fá einhverja risastóra dælu, sem átti svo að setja niður í kjallarann á nýja dæluhúsinu, en það var hætt við það.

Dæluhúsið sem er tengt Bæjarhver og Þvottahver. (mynd pms 11/2023)

Það var einnig annað dæluhús á hverasvæðinu og er þar enn, nær brekkunni.  Það var byggt síðar, en hitaveitan réði þá Sverri Ragnarsson í Ösp og Þröst Leifsson á Birkiflöt, til að byggja það. Þvottahver og Bæjarhver voru sameinaðir í það hús. Sverrir og Þröstur voru smiðir ofan úr Búrfelli sem komu hér og gerðust garðyrkjubændur. Fjarhitun teiknaði þetta hús, en það var búið áður en ég kom til skjalanna.

Laugaráshérað var auðvitað landeigandinn og hagsmunafélagið gerði kröfu um að héraðið borgaði fyrir virkjun hveranna, sem landeigandi og sú mun hafa orðið raunin. Síðan borguðu notendurnir auðvitað vatnsleigu til héraðsins, sem átti að bera kostnað af virkjunni. Það gerði það, held ég. Veitan átti dæluhúsið.


Lagnir, skipulag og rekstur

Á þessum tíma þurfti að fara að leggja lagnir um allar trissur og hagsmunafélagið mótmælti eindregið, eins og það gerði nú oft, því að verið væri að leggja lagnir þvers og kruss  - og ætla hitaveitunni og vatnsveitunni síðan að leggja stofna á þessi svæði, t.d. Austurbyggð og Vesturbyggð.  Var einhver hiti í kringum þetta?

Þetta var alltaf svona, eins og þetta er bara enn þann dag í dag. Það er alltaf verið að drita húsum hingað og þangað. Til dæmis byggði Konni (Konráð Sigurðsson læknir) þarna lengst austur á túni, í Árósi og það átti að leggja lögn þangað. Þá notaði ég einhver gömul rör sem voru til og lagði þau á stultum til hans, þarna fyrir neðan– frá Lindarbrekku. „Þetta var allt eitthvað svona drullumix. Seinna, þegar Gulli (Gunnlaugur Skúlason, dýralæknir) kom líka og það fjölgaði í Austubyggðinni, var farið í það að grafa lögnina niður.“

Séð yfir Austurbyggð 2015 (mynd pms)

Það lá fyrir skipulag fyrir Austurbyggðina sem gerði ráð fyrir ákveðnum sverleika á pípum?

„Það var svo mikið skipulag þarna, að Úlfar byrjaði á að leggja skolpveitu í þetta hverfi og hún er þarna neðanjarðar, risastórt rör, því þetta hverfi átti að vera svo mikið og stórt. Þessi skolplögn er notuð ennþá. Ég held að Sigga, í Austurbyggð 24, hafi verið tengd við hana og önnur hús ekki. Hún er bara í götunni frá Siggu og niður fyrir Hjalta Geir (Hjalti Geir Kristjánsson, Árósi). Þar var sett einhver rotþró, sem var mjög lítil, en þetta var skolpveita fyrir allt hverfið sem var búið að skipuleggja. En svo bara dagaði það uppi eins og gerist hjá sveitarfélögum – vaðið af stað í eitthvað ...“

Svo lagði ég nýjan stofn þarna upp – miklu seinna, því þá var ég búinn að fá sögina. Þá sagaði ég niður brekkuna, hélt í traktorinn með gröfunni og lét hann síga niður og sagaði síðan beint niður í hitaveitu frá brekkubrún. Þar er stofninn í dag og sá dugar fyrir heilmikið svæði.

1987 var stofnuð hitaveita fyrir sunnan Hvítá

„Já. Hörður Sig var ofsalega ánægður með stofnun þessarar veitu og ég líka, því þetta var eilíft vesen á þeim.“  Ég held að við getum sagt að sú hitaveita sé bara allt annar kapítuli, sem ekki er rétt að fara út í hér. Hún var starfrækt þar til hitaveiturnar í Tungunum voru sameinaðar.

„Laugaráshérað hvarf smám saman út úr öllu í sambandi við veituna, með Jóni í Vorsabæ. Hitaveitan varð sérstök eining og tengdist ekki endilega samningi milli Biskupstungnahrepps og héraðsins um jörðina.  Í stjórn hennar komu þá Gísli (Einarsson í Kjarnholtum) og Þorfinnur (Þórarinsson á Spóastöðum). Mér skildist á Herði Sig að þetta hafi verið vegna þess að það var auðveldara á fá rekstrarlán frá Jöfnunarsjóði eða eitthvað. Það voru alltaf einhver bankalán sem var verið að taka. Þetta var alltaf á hausnum meira og minna.“

Árið 1989 virðist aftur hafa blasað við vatnsskortur og veitan í stöðugu basli fjárhagslega.

Hún var alltaf í basli, fjárhagslega, en svo kom að því að það varð umsnúningur á því. Þannig var framkvæmdastjóra og hitaveitustjóra þökkuð góð afkoma veitunnar árið 1994. Þá var veitan komin á gott ról. „Hörður  hringdi í mig einusinni og sagði að ég yrði að stöðva allar framkvæmdir. Það væri ekki til peningur og þetta væri allt að fara til fjandans. Svo hringdi hann í mig aftur, einu sinni, og sagði þá „Nú er bara fullt til af peningum! Ég veit ekki hvað við eigum að gera. Við verðum bara að fara að lækka veituna.“ Gjöldin voru lækkuð.“

Það hefur tekið nokkur ár að endurnýja lagnirnar?

Það var farið í að skipta úr lögnum veitunnar um miðjan níunda áratuginn. Þessar nýju lagnir voru með úrethan einangrun, í plastkápu. „Já, þú (viðmælandinn) varst með mér í þessu.“


Myndirnar hér fyrir neðan eru frá Kirkjuholti komnar og sýna vinnu við úrethan lögnina. Starfsmennirnir eru þeir Benedikt Skúlason og Páll M. Skúlason.


Þá var ég orðinn svo leiður á að vera alltaf á fá einhvern til að grafa, að ég keypti gröfu á Hraðastöðum í Mosfellssveit og Steini á Húsatóftum (Þorsteinn Vigfússon) fór og náði í hana fyrir mig. „JCB, 71 módel, algera belju.“ Það var líklega í kringum 1990. „Þá sleit ég fyrsta símann minn og þá var ég próflaus. Þá var það þannig, að ef þú sleist síma þá kom löggan og tók skýrslu. Það var alvöru sko. Þetta er ekki svoleiðis núna. Þú ert bara rukkaður.“


Rafstöðvarnar

Þegar ég kom var búið að kaupa Listerinn, en hann var of lítill og það var orðið þannig, að ég gat ekki keyrt allar dælurnar þegar rafmagnið fór af og það var hörkugaddur. „Listerinn hafði verð keyptur í einhverju algeru bráðræði, þegar allt var í hönk.“

Af þessum sökum var farið í kaupa stærri rafstöð. Ég leitaði að og keypti síðan rafstöð, af Íslandsbanka. Þetta var þannig að ég hringdi í Heklu,  sem var með umboð fyrir Caterpillar, til að fá upplýsingar um hvað þannig stöð kostaði og sá sem ég talaði við benti mér á rafstöðina sem síðan var keypt. Þetta var rafstöð sem Íslandsbanki átti, en sem einhver fiskeldisstöð hafði keypt, en var þarna farin á hausinn.

Volvo Penta, 150 Kw rafstöðin (mynd pms 2023)

Ég hringdi í karl þar og við buðum í hana og fengum hana. Þegar ég fór svo að skoða hana, reyndist hún vera bara í kassanum, óupptekin, með sjálfvirkum ræsibúnaði og allt, 150 Kw stöð.“  Þarna fengum við rafstöð á 800.000, sem er bara alls ekki mikið. „Við ákváðum að bjóða þeim bara milljón, svo var það bara gert. Þetta var Volvo Penta rafstöðin og hún er búin að vera hér síðan.“  Þetta hefur líklega verið 1992 eða 1993.

Svavar Árnason

Svavar í Brautarholti (Svavar Árnason frá Galtafelli) fór með mér að ná í nýju rafstöðina og kom henni inn með mér og síðan fékk hann gömlu Buddah stöðina í staðinn. Hann vildi ekki taka annað fyrir þetta. Ég bað hann bara um að reyna að farga þessu einhversstaðar. Hún er rafstöð á Galtafelli enn þann dag í dag.

Þessi nýja vél var, sem sagt, af gerðinni Volvo Penta, og er aðal varaaflsöð veitunnar, en Listerinn er enn til taks, tengdur við kerfið.

Þegar við vorum komnir með nýja og öfluga rafstöð, þá þótti það mjög sniðugt að bjóða heilsugæslustöðinni að tengjast henni og „það var bara lagður strengur þangað.  Snorri Jóhannesson, rafvirki, frá S.-Langholti kom og tengdi þetta á sinni tíð. Þetta er þannig núna, að ef er straumlaust í Laugarási, þá er ljós í heilsugæslustöðinni og hitaveituskúrnum. Alltaf straumur á heilsugæslustöðinni. Þetta er endurgjaldslaust.“

Þetta þótti svo merkileg vél, að Loftur (Þorsteinsson í Haukholtum) kom með Hannibal (Kjartansson), sem hafði þá verið ráðinn að hitaveitunni á Flúðum, til að sjá þessa merkisstöð hjá okkur og hvað þetta væri orðið flott hjá okkur. Þá vorum við langt á undan þeim í þessu. Þeir voru bara með einhverja ógurlega sleggju, sem þurfti að setja í gang.“

Þið Hannibal eruð báðir búnir að vera lengi í þessu. Þetta virðist vera gott djobb?

„Já, þetta virðist vera gott djobb.“

Það þurfti að leita heilmikið til rafvirkja eins og nærri má geta. „Ég var alltaf með Árvirkjann. Mér fannst mikið traust í því að geta leitað til þeirra. Sigurjón (Þórðarson) var helv klár.“ Þetta fór fyrir brjóstið á sumum og það var svo komið að ég var orðinn alveg tilbúinn að skipta þarna um þjónustuaðila. „Hörður hélt nú ekki, „Benni ræður þessu. Hann ræður hverja hann fær í þetta, hann situr uppi með þetta. Við ræðum þetta ekkert meir“, sagði Hörður. Þannig var það afgreitt.“

Brauðbakstur á hverasvæðinu 2015 (mynd pms)

Það voru ekki alltaf allir sáttir með mig þarna í hitveitustjórninni.   Þegar stóð til að merkja hverinn og girða, til þess að hafa þetta löglegt, merkja að þetta væri hættulegt svæði og ég vildi bara að óviðkomandi væri bannaður aðgangur, eins og er nú allsstaðar. Þetta fór ekki vel í alla. Þarna yrði fólk að fá að skoða plöntur og ýmislegt og „ég sagði að þá væri það náttúrulega ekkert óviðkomandi.“  Það er þó nokkuð um það að fólk sé að þvælast á hverasvæðinu, þrátt fyrir merkingar. „Það var til dæmis hringt í mig um daginn og sagt að það væri komið fólk inn í dæluhús, ég yrði að fara að læsa þessu.“  Svo er auðvitað brauðpotturinn þarna og fólk fer í hann. Mesta hættan er auðvitað ef fólk er að þvælast niður fyrir dæluhúsið, niður í lón. Þar eru aðstæðurnar stórhættulegar.  

Svo hefur fólk einnig lýst áhyggjum af áhrifum þess að róta í hverunum til að afla þar vatns fyrir veituna. Þannig skrifaði Pétur Skarphéðinsson í Litla Bergþór árið 1993, en þar fjallaði hann um hverasvæðið í Laugarási. Hann lauk þar máli sínu svona:  „Eins og sést af þessum lestri hafa verið hér nokkrar minjar og er illt til þess að vita þegar framkvæmdagleði ber menn svo ofurliði að þeir gæta ekki þess sem fyrir er og rústa svo yfir það, að ekki er hægt að bæta þar fyrir. En svo sýnist hafa orðið við framkvæmdir við Hitaveitu fyrir Laugarás.

Hann talaði þarna líka um „einhverja skólasveina í Skálholti og ég veit ekki hvað og hvað. Ég man eftir þessu. Það var þegar við lækkuðum á hvernum. En þá var búið að gramsa í þessu öllu fyrir lifandis löngu.“


Spurning um að bora.

Það hefur aldrei komið til tals hér, að bora?

Magnús Ólafsson

Jú, það kom til tals. Það kom til vegna þess, að eftir að var búið að lækka á hvernum, var ég að fara inn á stofn niðri á hverasvæði og þurfti að brenna úr gat á hann. Þá kom í ljós að það var allt í útfellingum innan á rörinu. „Hvítt, bara. Ég vissi ekkert hvaðan á mig stóð veðrið.“  Ég fór og talaði við Orkustofnun, sem nú kallast ÍSOR, til að athuga hvort þeir vissu hvað væri í gangi hérna. Ég fór svo með sýni af þessu til þeirra.  Eftir það var sendur hingað maður að nafni Magnús Ólafsson. Hann kom hér og skoðaði þetta, en við vorum ekki búnir að loka hvernum þá. Hann kom, sem sagt, hérna og sagði að það væri greinilegt að það kæmist ferskvatn í hverinn, magnesium ríkt ferskvatn. Svo tók hann fram hitamæli með prjóni og fór og stakk svona allan hringinn um hverinn.  Það kom í ljós, að þeim megin sem snýr að brekkunni, þar bara skítkólnaði vatnið, niður í 20°C þegar hann stakk í bakkann. Það var því augljóst, að þar kom inn vatn. Það eina sem þeir ráðlögðu þá var þetta: „Nú verðið þið bara að bora og fóðra þetta af“

Kristján Sæmundsson

Þá kom Kristján Sæmundsson, sá merki maður, sem er, held ég við það að hætta hjá OS. Hann er búinn að vera að staðsetja holur um allt land. Frægur maður. „Hann strikaði svona með löppinni og ég man vel hvar það var á hverabakkanum. „Ef þið borið hérna fáið þið þennan hver að minnsta kosti tvöfaldan upp og haldið hvernum. Þetta er svo pottþétt vatn hérna.“.“  Ég fór síðan og gróf við hliðina á hvernum, þar sem vatnið kom og þar kom bara köld uppspretta. Við ræstum hana fram og lögðum síðan í steinrörum alveg niður í lón. Það var Vignir Svavarsson í Brautarholti, sem var í því með mér, á Atlas beltagröfu. Þessi lind var mjög afmörkuð. Kom bara á einum stað undan brekkunni. Það var meira að segja sett dæla þarna og það var dælt í þróna í Hveratúni til þess að vökva úr því, þetta var það mikið vatn. Það lá slanga þarna lengi. Þetta breytti því að útfellingin hvarf alveg. Þetta er alveg svakalega gott vatn sem við höfum hérna í Laugarási, eins og sjá má í skýrslu Magnúsar Ólafssonar hjá Orkustofnun frá því um síðustu aldamót, en þar segir hann: „Hvað efnainnihald varðar þá er heita vatnið úr hverum Hitaveitu Laugaráss í alla stað vel fallið til allra almennra nota í hitaveitu. Hitinn er reyndar hár og þarf að taka mið af  því við beina notkun þess.“

Svo þurfti að taka til hendinni í litla dæluhúsinu, sem Sverrir og Þröstur höfðu unnið við að byggja.  Ég gerði það allt upp og setti tanka inn í þróna sem var alltaf full af vatni. Þarna gróf ég upp hverina, bæði Bæjarhver og Þvottahver og steypti aftur utan um þá. Síðan lagði ég frá þeim í tankana og þaðan fáum við 8 l/sek og því er dælt úr þessu gamla húsi. „Það er ofboðslega mikið öryggi í því, því ef eitthvað bilar í hinu húsinu þá höfum við alltaf þetta. Ég setti þetta í gang í mestu kuldum. Dælan þar er ekkert í gangi nema í mestu kuldum. Garðyrkjustöðvar hafa margar fokkast upp hérna – þá hafa náttúrulega notin fyrir þetta dæluhús minnkað.“


Breytingar

Undir aldamót var talað um samvinnu við hitaveitu Reykholts. Er þetta aðdragandinn að því sem kom síðar?

Já, ég held það nú. Ég var nú ekki mikið fyrir sameiningar þá – og er ekki enn. Ég hef aldrei séð neina bót að þeim, en allavega þá þróaðist þetta áfram. Það var nú eitthvað haft eftir mér í fundargerð.

Þar sjást greinilega skoðanir þínar á þessu.  Var þetta ekki best rekna veitan á svæðinu?

„Jú, jú, hitt var allt á kafi í skuldum.“

Sigurlaug Angantýsdóttir

Þetta kom til út af því, að Bæjarholtið var skipulagt hérna. „Menn urðu fúlir yfir því að hreppurinn skipulagði bara og skipulagði og svo setti Laila (Sigurlaug Angantýsdóttir í Heiðmörk þá, formaður veitustjórnar) það inn einhverntíma, að vegna þess að það þyrfti að leggja þarna í þetta nýja hverfi, þyrfti að hækka hitaveitugjöldin. Þá varð allt vitlaust. Hreppurinn yrði þá bara að sjá um þetta.“ Þess vegna fóru menn í þessa vegferð. Þetta gerðist allt 2002.

Veiturnar voru sameinaðar árið 2002. Hitaveita Laugaráss var lögð niður 1. júní 2002.

Uppsögn þín kom til tals 2001?

Mér var sagt upp 2002 og svo var auglýst eftir veitustjóra fyrir þessa nýju, sameinuðu veitu. „Ég var uppi í Reykholti að sjóða bakrásina frá Gufuhlíð með Gauja gas (Guðjóni R. Guðjónssyni frá Tjörn), ég fór að hjálpa honum. Jæja, allavega man ég það, að ég var að sjóða, daginn sem umsóknarfresturinn rann út og Laila hringdi í mig og spurði mig hvort ég ætlaði ekki að sækja um. Ég kvaðst nú ekkert viss um að ég myndi gera það, því að fyrir þetta væru náttúrulega engin laun og hefðu aldrei verið.“ Umsóknarfresturinn átti að renna út kl. 12 á miðnætti. Ég skaust svo út á skrifstofu rétt fyrir lokun, með umsókn.“ Það er gaman að segja frá því að við Laila tókum svo þetta ráðningarferli fyrir á Þorrablóti Skálholtssóknar, þar sem við höfðum hlutverkaskipti. Það var haft orð á því í umhverfinu, að kröfurnar til væntanlegra umsækjenda væru þess eðlis, að það var bara einn sem gat mögulega uppfyllt þær (hlátur).

Þetta var nú ekki í eina skiptið sem mér var sagt upp í þessu starfi. Á Þorláksmessu 1991 vorum við nýflutt hingað í Kirkjuholt og þá kom Jón Eiríksson í heimsókn til okkar og afhenti mér uppsagnarbréf. Það væri vægt til orða tekið ef ég segði að ég hafi orðið heldur óhress við þessi tíðindi. Spurður um ástæður uppsagnarinnar, sagði Jón: „Nú, þetta er bara í gjörðabók“. Ég læt liggja milli hluta það annað sem fór þarna á milli okkar. Þarna tók ég við þessu uppsagnarbréfi og svo héldum við inn í jólin þó þessi aðdragandi hefði getað verið ánægjulegri. 

Bókunin í gjörðabókinni, sem var gerð á aðalfundi Laugaráslæknishéraðs, 29. nóvember, 1991 og sem Jón vísar til, hljóðar svona:

2. Endurskoðun leigusamnings um jörðina Laugarás við Biskupstungnahrepp, en samningurinn rann út um s.l. áramót.
Framkvæmdastjóri skýrði frá fundi sínum og Lofts Þorsteinssonar og Gísla Einarssonar, um endurskoðun samningsins og lagði hann fram tillögu þeirra að nýjum samningi. Samningurinn var samþykktur samhljóða með smávægilegum breytingum. Ekki var talið nauðsynlegt að segja upp samningi við Hitaveitu Laugaráss með tilliti til endurskoðunar nú.
Samþykkt var að segja upp samningi við Benedikt Skúlason með tilliti til endurskoðunar.

Svo bara leið og beið.  “Á þessum tíma var ég ekki búinn að kaupa fjósið og hlöðuna og um vorið hitti ég Gísla oddvita og spurði ég hann hvenær ég þyrfti að vera búinn að losa fjósið. Þá kom hann af fjöllum og sagði að þetta hefði aldrei verið rætt. „Þetta er bara einhver bölvuð þvæla“, sagði Gísli þá. Hann kannaðist samt eitthvað við þetta.” Þeir ætluðu að fara að endurskipuleggja og endurleigja hagabeitina og eitthvað fleira. „Þessir oddvitar eru bara alltaf að koma, nýir og nýir. Sumum fannst að það gengi ekki að vera með einhvern hér sem drottnaði yfir öllu. Það var nú nógu oft talað um það.“ Allavega vildi Gísli fá mig og hann gerði við mig samning, varðandi hitaveituna og jörðina, en ekkert annað.  Það næsta sem gerðist var, að Jón kom til að athuga hvort við gætum ekki gert samning um að ég héldi áfram með heilsugæslustöðina. Viðbrögð mín voru þá þessi:  „Ég get sagt þér það, Jón minn, að ég mun aldrei koma nálægt þessari heilsugæslustöð  meir!“ Og þar við sat og þannig hefur það verið síðan. Þrátt fyrir það „hljóp ég nú alltaf til, sérstaklega fyrir Gylfa, því það var alltaf eitthvert smá vesen.“

„Jón var náttúrulega alveg ofboðslega vandaður maður, fyrir samfélög. Hann hugsaði bara um það, ekkert um fólkið sem hann var að „díla“ við. Hann var með hagsmuni alls almennings alveg yfir sér.“

Hvað sem segja má nú um þessa uppákomu sem þarna varð, þá varð ég bara svo steinhissa og velti eðlilega fyrir mér hvort ég hefði gert eitthvað af mér.


Hjálparhellur

Ef ég þurfti að bregða mér af bæ gat ég alltaf fengið einhvern til að vakta dælurnar, sérstaklega pabba og Simma, en líka fleiri, t.d Magnús (Magnús Skúlason í Hveratúni) eða Gústa (Gústaf Sæland á Sólveigarstöðum). Þetta var til dæmis, ef ég fór á þorrablót eða eitthvað í þá veru.

Pabbi var vanur því að vakta rafstöðina í Krossinum, þegar hann var og hét. Þá var þar hús sem kallaðist Rauða myllan, þar sem draslið var. Við endann á henni var svona hvítt steinhús og þar var rafstöðin. Pabbi hafði eitthvað séð um hana.

Skúli Magnússon 1981 (myndir pms)

Pabbi leysti mig eitt sinn af þegar við fórum í  leikhúsferð með kvenfélaginu. Ég hafði farið með honum og sýnt honum hvað ætti að gera ef það yrði straumlaust og það var ekkert mál. Þegar við síðan komum upp Skeiðin á leiðinni til baka, sá ég að það var allt slökkt í Laugarási.  „ Ég fór auðvitað beint niður í dæluhús þegar heim kom. Þá bara sat hann þarna í helv hávaðanum og tók í nefið, með húfuna skakka. Hann sat bara við hliðina á vélinni (hlátur) og allt í fínu standi.“ Rafmagnið hafði farið og ég veit ekki hve lengi hann var búinn að sitja þarna karlinn, að passa vélina.

Sigmar Sigfússon (mynd pms og Helgi Sveinbjörnsson)

Flóð í Hvítá. (mynd Kirkjuholt)

 Simmi (Sigmar Sigfússon, rennismiður í Laugarási) reyndist mér mjög vel, ekki síst þar sem hann gat smíðað nánast hvað sem var. Hann hljóp einnig stundum í skarðið fyrir mig og þannig var það eitt sinn, þegar við Kristín skelltum okkur á þorrablót. Þegar við komum síðan heim, hafði dæluhúsið flætt upp í dælur og það sló allt út. „Simmi var kominn þarna niður í dæluhús og svo kom ég þarna í sparifötunum, snarmildur og Simmi var glottandi. „Við bara þurrkum mótorana“, sagði hann, sem við og gerðum. Hann náði í einhverja viftu sem hann setti á og ég var með hárblásara frá Kristínu og við þurrkuðum mótorana og ræstum þetta bara. Það voru gömlu mótorarnir, sem eru aflagðir núna.“

Rúnar Magnússon og Magnús Ólafsson

„Það hefur alltaf reynst mér best, ef ég hef fundið einhverja góða karla til að leita til.“ Þannig var það með Rúnar Magnússon, orkuverkfræðing í Varma- og vélaverk. Þegar ég valdi dælurnar í dæluhúsið, þá var hann nýbúinn að stofna fyrirtæki sem hét Vélaverk, en hann var áður í fyrirtæki sem hét Varmaverk. Hann flutti inn dælurnar sem eru hérna núna. „Rosa fínar dælur. Ég var að hringja í hann í tíma og ótíma til að spyrja hann að hinu og þessu og alltaf sendi hann mér einhver gögn og tilboð í sambandi við skammtarana sem eru hérna um allt. Þetta var orðin mappa af pappírum sem ég fékk frá honum. Svo keypti ég þessar dælur, en hann fékk ekkert fyrir þetta kjaftæði í mér, ótal spurningar.“  Svo get ég líka nefnt Magnús Ólafsson, en hann hefur líka reynst mér mjög vel.  Ég er búinn að ná honum út á Laugarvatn meira að segja, núna, einusinni eða tvisvar út af útfellingum þar.


Í lokin

Margt fleira kom til tals varðandi hitaveituna og önnur mál sem tengjast Laugarási í spjalli okkar Benedikts, sem ekki rataði hér inn.  Hann var á því að ég ætti að reyna að vera ekki að blanda hans persónu inn í sögu hitaveitunnar, en ég er nú þeirrar skoðunar, að saga Hitaveitu Laugaráss verði ekki skrifuð, nema í ósundurgreinanlegu samkrulli við gæslumanninn og síðar hitaveitustjórann, Benedikt.

Páll M. Skúlason

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar í og við dælustöð Hitaveitu Laugaráss í lok nóvember, 2023 (myndir pms)

Uppfært 12/2023