Gleði á bjartasta tíma ársins

Allar góðar hugmyndir þurfa að fá að gerjast áður en til framkvæmdar kemur. Þannig var það með hugmyndina um Jónsmessuhátíð í Laugarási. Fólkið sem bar ábyrgð á að ræða saman um hugmyndina og hrinda henni loks í framkvæmd voru þau Sigrún og Ingólfur á Engi, Karólína og Þórður á Akri og Dröfn og Páll í Kvistholti. Auk þeirra kom svo Hilmar Örn Agnarsson í Skálholti til sögunnar.

Frumkvöðlar: f.v Páll, Dröfn, Þórður, Karólína, Sigrún, Ingólfur, Hilmar Örn.

Frumkvöðlar: f.v Páll, Dröfn, Þórður, Karólína, Sigrún, Ingólfur, Hilmar Örn.

Hugmyndin snerist einfaldlega um að halda Jónsmessuhátíð í Laugarási, sem næst Jónsmessu. Eðlilega komu fljótt upp hugmyndir um að leita fyrirmynda að hátíðum af þessu tagi hjá nágrannaþjóðum, þar sem aldalöng hefð er fyrir því að koma saman og fagna lengstum sólargangi og þegar gróður er í mestum blóma.

Það varð niðurstaða um að byrja rólega og efna til samkomu á leikvellinum. Þetta var í júni árið 2001.


Þar sem ekki eru til ritaðar heimildir um þessar hátíðir og allt sem fram fór í kringum þær, er farin sú leið að leyfa ljósmyndum að segja söguna að stærstum hluta. Texti sem fylgir byggir aðallega á minninu og því sem myndirnar sýna.


Hátíðin 2001

Aðalmarkmið hátíðarinnar var auðvitað að safna Laugarásbúum saman til að eiga góða stund í gleði og söng. Á leikvellinum var leikið og keppt: það var t.d. keppt í stígvélasparki, sem síðan varð fastur liður í þessum hátíðahöldum og í blómaskreytingu. Ýmislegt fleira var gert þarna en samkomunni lauk síðan við varðeld við Brennuhól þar sem hópurinn átti góða stund við söng. Það var væta, eins og oft má búast við á þessum tíma.

Hátíðin 2002

Undirbúningurinn

Í aðdragandanum að næstu hátíð hittist hin sjálfskipaða nefnd til að leggja á ráðin um hvernig henni yrði best komið fyrir. Það var vilji til aukins metnaðar sem varð til þess að flytja hátíðina að Brennuhól, vera með útigrill þar sem fólk kæmi með sitt til að skella á grillið, hlaða þar í bálköst og reisa nokkurskonar maístöng svona í norrænum eða evrópskum anda. Þar höfðu einhverjir í hópnum hugmyndir um hvað gerast skyldi við þessa stöng.

Í Laugarási voru (og eru) ósköpin öll af aspartrjám og líklegast að fyrir valinu hafi orðið tré frá Akri, sem flutt var á staðinn með traktor. Að þessu öllu stóðu fjölskyldurnar á Engi, á Akri, í Kvistholti og Hilmar Örn og synir í Skálholti. Það þurfti að grafa holu fyrir stöngin, hlaða köstinn og slá og snyrta umhverfið. Einhver kom með kaffi og bakkelsi.
Talsvert meiri vinna en árið áður, en harla skemmtileg.

Hátíðin sjálf

Nú sótti hátíðina talsvert fleira fólk en árið áður og heimikil stemning í hópnum. Það voru keppnir þar sem til nýjunga mátti telja gúrkukappát og líklega einnig chilikappát, en það verður þó ekki fullyrt hér. Það var keppt í að skapa listaverk úr allskyns rusli. Gestum gafst kostur á að láta mynda sig í myndaramma og verðlaun fyrir sigur í einstökum greinum fólust í því að blómkrónublöðum var kastað yfir sigurvegarana, en það var siður sem tekinn var upp strax á fyrstu hátíðinni.

Hápunkti náði hátíðin með dansinum í kringum stöngina miklu, en fyrirmynda að þeim dansi var leitað til suðrænni landa, þar sem tré eru að jafnaði hærri en þarna var um að ræða. Hér er látið fylgja myndskeið af einum slíkum dansi.

Því verður varla haldið fram, að dansinn sem framkvæmdur var við Brennuhól hafi verið jafnglæsilegur og sá sem sjá má á myndskeiðinu, en hann var engu að síður afar skemmtilegur. Rétt er að geta þess að þessi siður, eins og hann er iðkaður í Evrópu, á sér stað í byrjun maí og er sjálfsagt til í ýmsum útfærslum. Stöngin kallast maístöng - majstang eða Maibaum eða Maypole. Þessar hátíðir eru haldnar 1. maí, eða um hvítasunnu, en í sumum löndum í kringum Jónsmessu (midsummer). Okkar stöng var sem sagt Jónsmessustöng.

Þarna grilluðu gestir hver fyrir sig og loks var kveikt í bálkestinum og sungið af hjartans lyst í kvöldhúminu.

Myndir frá Sigrúnu Elfu Reynisdóttur.

Hátíðin 2003

Það liggur einhvernveginn í hlutarins eðli að allt sem er endurtekið, tekur einhverjum breytingum og þá oftast þannig að það er bætt í. Þannig var það með þessa þriðju Jónsmessuhátíð. Það fór fram einhver umræða um hvort rétt væri að stíga það skref að auglýsa hátíðina, sem þá myndi hafa í för með sér kostnað við hana, sem þá yrði til þess að fólk þyrfti að greiða einhvern aðgangseyri eða þá að styrkja yrði leitað. Það varð ekki mikil umræða áður en ákveðið var að halda hátíðina með sama fyrirkomulagi og áður. Stærsta breytingin á þróunarbraut hennar þessu sinni var sú, að það Laugaráskvartettinn tók nokkur lög fyrir gesti, en hann skipa þeir Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt II. Svo var grillað og farið í hefðbundna leiki og óhefðbundna, eins og t.d. reiptog, og dansað í kringum Jónsmessustöngina af hjartans lyst, áður en tekið var til við sönginn meðan logarnir sleiktu vörubretti og trjágreinar bálkastarins.

Þessi hluti myndanna var tekinn á myndavél frá Kvistholti.

Myndir Ingibjargar Bjarnadóttur

Hátíðin 2004

Undirbúningurinn

Það var gengið skrefinu lengra á þessari síðustu Jónsmessuhátíð sem haldin var í Laugarási í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar. Það var þannig að einhverjir í hópnum könnuðust við að víða í Evrópu snérust hátíðahöld af þessu tagi ekki aðeins um hátíðahöldin í í kringum maístöngina, eða Jónsmessustöngina, eftir að búið var að koma henni fyrir á sínum stað, heldur ekki síður aðdragandann að henni: val á tré og flutning á endanlegan stað. Þarna er víða um að ræða aldagamlar hefðir, sem við ákváðum að reyna að innleiða á Jónsmessuhátíðinni í Laugarási.

Akursbændur lögðu til aspartré, sem síðan var fellt við hátíðlega athöfn og síðan snyrt til þannig að úr var þessi fína stöng með laufskrúði í toppnum. Að snyrtingunni lokinni tóku viðstaddir sig til og gengu í skrúðgöngu, með stöngina á herðunum, sem leið lá austur Ferjuveg, inn Skógargötu, vestur Skúlagötu, norður Skálholtsveg, áður en beygt var inn á Ferjuveg. Þarna var sem sagt genginn “stóri hringurinn”. Göngunni lauk svo við Brennuhól þar sem stönginni var komið fyrir í þar til grafinni holu eftir að á hana hafði verið hengdur greinakrans, sem þróast hafði árin á undan. Þarna var komin veglegasta stöngin til þessa.

Nú var svæðið allt tekið í gegn og eðlilega bætt í frá árinu á undan. Til viðbótar við fyrri ár, var hátíðasvæðið afmarkað með borðum og útbúið glæsilegt hlið inn á það. Þá hafði undirbúnings- og framkvæmdanefndin fjárfest í partítjaldi, en það var hægt vegna þess að á fyrri hátíðum hafði verið tekið við frjálsum framlögum gesta. Boðið var upp á kalda gúrkusúpu Karólínu á Akri sem fólki fanns mikil lífsreynsla að smakka.

Aðalheiður Helgadóttir kom til liðs við hópinn við undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar og hreppurinn styrkti framkvæmdina.

Hátíðin sjálf

Fólk streymdi að í veðurblíðu. Hátíðin var sett, það var tekið til við að grilla og leika sér fram eftir kvöldi. Myndirnar tala sínu máli, en þær eru úr myndavél frá Kvistholti.

Þannig lauk þessu fjögurra ára tímabili Jónsmessuhátíða í Laugarási.

Árið eftir gekkst nefndin fyrir spurningakeppni og golfmóti í Slakka og nýtti þar það fé sem eftir var í sjóði.

Fólk kann að spyrja sig hversvegna ekki varð framhald á og við þeirri spurningu er ekkert eitt svar líklegra en önnur, en þarna hafði sama fólkið staðið að þessum hátíðum frá upphafi og orðin ákveðin þörf á endurnýjun á hópnum, eða viðbót við hann, sem ekki varð. Um þetta er óþarfi að fjölyrða frekar, en vissulega má segja, að það sé eftirsjá í þessum hátíðum, kannski fyrst og fremst vegna þess að þær voru tækifæri fyrir Laugarásbúa á öllum aldri, til að koma saman og gleðjast saman eina kvöldstund og gróðursælasta tíma ársins.

Uppfært í ágúst, 2019