Byggingarsaga heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási.

byggð á samantekt og myndum Jóns Eiríkssonar í Vorsabæ.

Opna úr myndaalbúmi Jóns Eiríkssonar

Það sem hér fer á eftir er byggt á þessari byggingarsögu eins og hún birtist í myndaalbúmi sem Jón lét eftir sig.
Textinn er að mestu Jóns og myndirnar eru frá honum komnar og eru bara sýnishorn fjölda mynda sem myndaalbúmið geymir.

Það var í nóvember árið 1977, sem fyrst var tæpt á því að byggð yrði ný heilsugæslustöð í Laugarási.
Árið 1982 samþykktu hreppsnefndir í uppsveitunum að ráðist skyldi í þetta verkefni. Síðan tók við langt ferli við að freista þess að fá ríkið til að leggja fé til verksins. Um þetta ferli fram að þeim tímapunkti er málið var í höfn, með fjárveitingum ríkisins, er fjallað hér: Á Launréttarholti.

1991

Málið var farið að þokast talsvert áfram í upphafi 10. áratugarins og heimsókn heilbrigðisráðherrans Sighvats Björgvinssonar í Laugarás, í nóvember 1991 vakti talsverðar vonir um að það færi að sjást til lands. Í þeirri heimsókn skáluðu ráðherrann og Jón Eiríksson fyrir nýrri heilsugæslustöð.

1993 Undirbúningur

Benedikt grefur og Narfi fylgist með.

Í september 1993 var hafinn undirbúningur byggingar, meðal annar með því að gerð var jarðvegsskönnun. Það var Narfi Hjörleifsson frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem setti niður mælipunkta. Það reyndust tveir metrar niður á fast. Holurnar gróf Benedikt Skúlason í Laugarási með traktorsgröfu sinni …. (JE)

Þessi samsetta mynd, úr tveim mynda Jóns Eiríkssonar, er einskonar inngangur að byggingarsögu heilsugæslustöðvarinnar. Myndvinnsla Páll M Skúlason.

1995 Undirritun, fyrsta skóflustungan og framkvæmdir hefjast.

Þann 8. febrúar, árið 1995 var samkoma í húsnæði Lýðháskólans í Skálholti. Tilefni hennar var undirritun samnings milli ríkisins og uppsveitahreppanna um fjármögnun og framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð í Laugarási. Sem nærri má geta var gert fleira en undirrita samning. Þarna voru fluttar ræður og ávörp og veitinga notið, svona eins og gengur.

Samninginn undirrituðu oddvitar hreppanna sem á þessum tíma voru þessir, talið frá vinstri á meðfylgjandi mynd: Kjartan Ágústsson fyrir Skeiðahrepp, Þórir Þorgeirsson fyrir Laugardalshrepp, Gísli Einarsson fyrir Biskupstungnahrepp, Loftur Þorsteinsson fyrir Hrunamannahrepp, Böðvar Pálsson fyrir Grímsneshrepp og Már Haraldsson fyrir Gnúpverjahrepp.
Ráðherrarnir sem undirrituðu samninginn voru þeir Friðrik Sófusson, fjármálaráðherra og Sighvatur Björgvinsson, sem var þarna var heilbrigðisráðherra.

Með þessari undirritun um fjármögnun og framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð, var ekki eftir neinu að bíða.

Tilboð í byggingu stöðvarinnar voru opnuð hjá Ríkiskaupum þann 4. apríl. 11 aðilar buðu í verkið og áttu þeir Þröstur Jónsson og Gísli R. Magnússon á Flúðum lægsta tilboðið, að upphæð kr. 51.998.312. Það var 79% kostnaðaráætlunar, sem var kr. 65.368.000.

Þann 12. maí var fyrsta skóflustunga að stöðinni tekin, að viðstöddu starfsfólki, sveitastjórnarmönnum, þingmönnum og fjölmiðlafólki.
Fyrstu skóflustunguna tók Ingibjörg Pálmadóttir, þann 12. maí þetta ár, en hún hafði þá tekið við embætti heilbrigðisráðherra.

Jarðvegsframkvæmdir hófust 12. júlí með því byrjað var að grafa fyrir og moka upp möl úr Hvítá.

Í byrjun ágúst var síðan byrjað að slá upp fyrir sökklum og fyrstu steypunni hellt í mótin þann 17. ágúst og í framhaldinu slegið frá sökklum.

Áfram héldu framkvæmdir og áfram hélt Jón að taka myndir.
Eftir að möl hafði verið keyrð í grunninn kom að því að járnabinda, koma fyrir lögnum og steypa botnplötuna, en það gerðist þann 13. september.

Þann 29. september var steypt í milliveggi og og farið að slá upp útveggjum í beinu framhaldi.
Viðar Magnússon vann að frárennslinu.

Þann 20. október var unnið við járnabindingu útveggja og um miðjan nóvember voru þeir steyptir. “Veður var gott, logn, þykknaði upp og smávegis súld eða ísing síðdegis. Hiti 1°C - og veður hélst áfram gott og fór hlýnandi.”

Næst var slegið undir loftplötu og veturinn lét vita af sér. Þann 22. desember var unnið að járnabindingu plötunnar í norðan kalda, -10°C og snjór var á jörðu.

Árið 1996

Þann 11. janúar var komið að því að steypa loftplötuna.

Stórgjöf frá Eiríki í Miklaholti

Eiríkur Ívar Sveinsson var fæddur í Miklaholti í Biskupstungum 8. október 1913. Hann andaðist í Reykjavík 23. mars 1996. Foreldrar hans voru Sveinn Eiríksson, bóndi, Miklaholti, f. 1880, d. 1972, og kona hans Júlíana Jónsdóttir frá Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi, f. 1886, d. 1965.

Eiríkur var bóndi í Miklaholti með föður sínum frá 1939, síðar með Jóni bróður sínum. Lét af búskap 1983 og settist þá að í Bergholti í Biskupstungum.

Þann 11. febrúar Eiríkur gaf heilsugæslustöðinni kr. 1.000.000 til tækjakaupa, en þessi upphæð samsvarar um það bil kr. 3.000.000 nú (janúar 2021).

… og byggingarframkvæmdir héldu áfram.

Þegar platan hafði verið steypt varð ýmislegt auðveldara, enda hægt að veður og vindar ekki jafn afgerandi inni í steyptum kassanum. Í mars var unnið að ýmsu þarna í skjólinu, en einning var lokið við að setja þakefni á húsið.

Þegar þakið var frá gengið tók við fjölbreytt vinna við að græja húsið að uutan og innan. Þegar Jón átti leið um með myndavélina í lok júli unnu múrarar að einangrun, píparar að pípulögnum og búið var að smíða fögin í glugga.

Í október var húsið “steinað” og unnið að ýmsu utandyra og innan.

Árið 1997 - lokahnykkur

Í lok mars voru málararnir langt komnir með að mála í apríl unnu rafvirkjar sína störf, dúkalangingarmenn dúklögðu og smiðir við settu niður innréttingar.

Nú styttist í vígslu nýju heilsugæslustöðvarinnar, en allskyns frágangur eftir. Það tókst að ljúka öllu á tilsettum tíma, þannig að hægt var að taka stöðina í notkun og vígja, þann 21. júní.

Vígsluhátíðinni eru gerð skil í sérstöku myndasafni og þar er að finna nöfn flestra gesta og lýsingar Jóns Eiríkssonar.

Uppfært 01/2022