“Gamla” læknishúsið

Húsið sem tók við af Konungshúsinu, er fyrir augum íbúa í Laugarási alla daga. Það stendur enn, efst á Laugarásholtinu og fylgist með lífinu í Laugarási, eins og það hefur gert í ríflega átta áratugi. Það má segja að saga þessa húss hefjist með ákvörðun oddvitanefndarinnar um að byggt skuli nýtt hús, í september árið 1937.

Byrjað að byggja

Jón Guðmundsson
(1911-2003)

Þann 25. apríl árið eftir var tilboð frá Jóni Guðmundssyni á Blesastöðum um að byggja húsið, samþykkt, en það hljóðaði upp á kr. 22.000.

VERKSAMNINGUR

Við, undirritaðir hreppsnefndaroddvitar í Grímsneslæknishjeraði, annarsvegar og Jón Guðmundsson, Blesastöðum, hinsvegar, gerum með okkur svofelldan samning:

Jón tekur að sér að byggja læknisbústað í Laugarási í Biskupstungum, samkvæmt uppdrætti og útboðslýsingu húsameistara ríkisins, dags. 6. apríl, 1938.
- Við útboðslýsinguna skal þó gera þá breytingu, að bráðabirgðaskúr fyrir lækni minnki úr 50 ferm niður í 40 ferm. og hólfist í tvennt. Lausir gluggar mega vera úr origon pine í teaktrje.
- Sjúkraherbergi má veggfóðrast.
- Verksali lofar að leggja til gufusuðupotta í eldhús, er gildi e: 160 kr og setja þar niður, svo vel sé frá gengið.
- Einnig að setja 7 cm fylltar vikurplötur innan á alla útveggi, að undanskildu geymsluherbergi í kjallara, og húða síðan og fínhúða eptir því sem við á.
- Vírnetsleggja alla trjeveggi, húða og fínhúða. Ennfremur setja hillur og skápa í lyfjaherbergi læknis, eptir því sem þörf er á.
- Fyrir verk þetta greiðist verksala kr 22.000, er greiðist þannig: kr. 7000 fyrir 1. ág. þ. árs eptir samkomulagi við formann. Ennfremur kr 10.500 fyrir 1. desember, eða eftir því sem þá um semst. Eftirstöðvarnar, kr. 4500 greiðast fyrir 31. júní, 1939, svo fremi að verkinu sje að fullu lokið.
- Fari svo, að steypuefni í bygginguna verði að sækja lengri leið, en fram er tekið í útboðslýsingu, raskar það ekki samningi þessum, svo fremi að vegur ekki hindri þann flutning á bifreiðum.
- Samkvæmt útboðslýsingu skal húsið vera hæft til íbúðar svo fljótt sem unnt er og skal verktíma að fullu lokið fyrir næstu áramót. Þó skal óátalið, ef veðrátta hamlar, að verkinu geti orðið að fullu lokið fyrr en vorið 1939, svo sem málningu að utan og þessháttar.
-Lækni skal falið að hafa daglegt eptirlit með verkinu, eptir því sem við verður komið og má hann þá kveðja með sjer til þess eptirlits, formann, eða þann sem hann setur í sinn stað, ef hann telur að ábótavant sé.

Nýja húsið skyldi rísa á sama stað og Konungshúsið hafði staðið, sem augljóslega þýddi að læknisfjölskyldan varð að flytja annað á meðan.

Þegar síðan kom að því að byggja nýtt hús fyrir lækninn, flutti fjölskyldan í skúr, sem hafði verið slegið upp fyrir sunnan húsið. Nýja húsið var byggt á sama stað og það gamla stóð áður.

Í steypuna í grunn hússins var notuð möl sem tekin var á eyrinni við ána. Mölin í húsið sjálft kom annarsstaðar frá. Steypan var fyrst hrærð á palli með skóflum, í það minnsta þegar útihúsin voru steypt. Þá „gengu menn berserksgang sitthvorumegin“ (Jósef). Síðar var komin stór eikartunna, sem kaðli var vafið upp á. Hann var festur við hest sem var látinn draga út á tún ákveðna leið og þá snérist tunnan á meðan, fyrst meðan blandað var saman sementi og möl og síðan þegar vatnið var komið saman við. Svo var sturtað í hjólbörur. (viðtal við Ólafsbörn)

Í ágúst kom nefndin saman til að afgreiða ýmis mál varðandi byggingu hússins, þar á meðal:

- GE falið að gera samning við Jón Guðmundsson á Blesastöðum um það, að hann tryggi hitaveituna í læknisbústaðnum með þvi að stækka ofninn í hvernum og leggja nýja, 2“ leiðslu frá hvernum og heim að íbúðarhúsinu, auk ýmislegs annars, sem tryggi endingu leiðslunnar og öryggi.
- GE falið að semja við JG um uppsetningu á ofni í anddyri, er kosti c.a. 35 kr.
- Fyrir þetta allt er oddvita heimilt að greiða JG kr 500, ennfremur sje honum heimilt að setja 100 lítra heitavatnsgeymi í stað 250 lítra, sem áskilinn var og að dúkar á 1. hæð, sjeu límdir aðeins á skeytum.
- 100 lítra heitavatnsgeymirinn sje greiddur af læknishjeraðinu.

Húsið tekið í notkun

Frá því um 1970. Fjærst hægra megin er Lindarbrekka, þá læknisbústaðurinn og vinstra megin hans Laugarásbýlið. (Mynd: Sólveigarstaðir)

Byggingunni var síðan lokið þegar fundur var haldinn í oddvitanefndinni í maí, 1939 og þá var orðið ljóst hvað húsið hafði kostað: byggingarkostn læknisbústaðarins 25.248,52, auk gamla hússins og eru þar innifalin afföll af lánum.

Fyrstu íbúar þessa nýja læknisbústaðar voru Ólafur Einarsson læknir og fjölskylda hans og má nærri geta að viðbrigðin hafi verið mikil. Í húsinu bjuggu þau þar til Ólafur varð að láta af embætti vegna heilsubrests.

Þegar Ólafur og fjölskylda hurfu á braut varð sú grundvallarbreyting, að læknirinn hafði þá ekki lengur með búskap á jörðinni að gera og Helgi Indriðason tók alfarið við leigu á jörðinni til búskapar. Því var það, að til voru kallaðir úttektarmenn til að taka jörðina út, svo og þær eignir sem voru héraðslæknisins:

Úttektarmenn mátu álag á leiguhús og girðingar samtals á kr. 2176.
Þá virtu þeir til peningaverðs eftirtalin hús og girðingar, sem fráfarandi læknir á, á jörðinni:
Fjós kr 10.000 
Hús á Launrjett á kr. 771
Hlaða, sama stað kr 732
Girðing sama stað kr 85
Girðing á Stekkatúni kr 537 
Geymsluhús kr. 2900 
Þvottahús kr 1500 
Hænsnahús kr 50 
Bílskúr kr 400 
Raflögn í íbúðarhúsið kr. 1500 
Þrír  gufusuðupottar kr 1860
Samtals kr 20.335
Ofangreinda upphæð greiði læknishjeraðið fyrir 1. okt. n.k

Haustið 2015. Læknisbústaðurinn fyrir miðju. Vinstra megin er íbúðarhús Matthildar Róbertsdóttur og Jens Péturs Jóhannsonar. Lindarbrekka hægra megin. Myndin er tekin út myndskeiði sem Magnús Skúlason tók með dróna.

Árin liðu og ýmsu þurfti að sinni í húsinu, eins og gengur, bæði eðlilegu viðhaldi, óskum nýrra lækna og breytingum á læknisþjónustu. Ekki verður annað séð en læknissetrið hafi verið talsverður fjárhagslegur baggi á sveitarfélögunum, en meginverkefni nefndarinnar næstu árin fólust í að afla fjár, greiða af lánum og deila niður kostnaðinum sem til féll. Þannig varð, til dæmis, kostnaður vegna breytinga og aðgerða á bústaðnum árið 1949 kr. 50.000. Árið 1952 kom í ljós að hluti af vesturvegg íbúðarhússins var lekur og gjörónýtur ásamt hita- og vatnsleiðslum, sem voru sundur brunnar. Miklar framkvæmdir voru við húsið og kostnaður vegna Sogsrafmagnsins sem var væntanlegt, varð til þess að taka þurfti stórt lán árið 1955.
Í júni 1955 námu útgjöld læknishéraðsins ríflega kr. 100.000, rúmur helmingur vegna læknishússins. Til þess að ráða bót á fjármálum læknishéraðsins, sem nú eru orðin mjög erfið viðfangs, var samþykkt að fela formanni stjórnarinna að leita eftir hagkvæmu láni til a.m.k. 10 ára hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Héraðslæknirinn sem þá var Jón G. Hallgrímsson lagði fram tillögu í byrjun árs 1957 um að keypt yrðu þýsk gegnumlýsingartæki Verð þeirra var, fyrir síðustu gengisbreytingar 36.600 kr. Voru oddvitar á einu máli um að slíkt tæki myndi bæta mjög heilbrigðisþjónustu héraðsins og er héraðslækni falið að gera athuganir um kaup tækjanna og gera síðar frekari ráðstafanir í samráði við formann.

Þá fór hann fram á að byggður yrði bílskúr fyrir hann, sem nefndi samþykkti. Skömmu síðar lét Jón af embætti og Grímur Jónsson tók við þetta sama ár og hann fór fram á ýmsar úrbætur:

Héraðslæknir bar fram óskir um eftirtaldar úrbætur á læknisbústaðnum og umhverfi hans.
Skolpleiðsla sé lagfærð og gert ráð fyrir að hægt sé að bæta við niðurföllum úr fleiri herbergjum, ef þurfa þykir.
Miðstöð sé löguð, hún lekur, sem getur orsakað alvarlegri bilun.
Dæling á neysluvatni komist í betra horf.
Lögð sé hellulögð stétt vestur af húsinu til þess að koma í veg fyrir að óhreinindi berist inn í húsið.

 Læknir minnir á að fyrri læknar hafi verið óánægðir með að hafa fjós bóndans svo nærri læknishúsinu, sem orsakar óþrif og óhollustu. Leggur hann áherslu á að úr þessu verði bætt hið fyrsta.
Áhersla sé lögð á  að bílskúrinn, sem áður var samþykkt að byggja heima við læknishúsið, verði reistur á vori komanda. Efni á þak er til, úr eldri bílskúr.
Æskilegt væri að girðing kring um læknishúsið verði endurbætt.

 Samþykkt að verða við óskum héraðslæknisins og formanni falið að sjá um þessar framkvæmdir í samráði við héraðslækninn.

Árið 2016. Vinstra megin Hverabrekka og læknisbústaðurinn. Framundan hverasvæðið, Lónið, Hvítá og Vörðufell. Hægra megin s´st í gróðurhús frá Hveratúni. og (fjær) Sólveigarstöðum. Myndin er tekin út myndskeiði sem Magnús Skúlason tók með dróna.

Ekki viðunandi lengur

Það var svo á fundi í febrúar árið 1959 sem oddvitunum þótti nóg komið af endurbótum og breytingum, mögulega vegna þess að stöðugt varð erfiðara að aðlaga húsið að breytingum í læknisþjónustu. Læknirinn skýrði frá því á þessum fundi, að nauðsynlegt væri að gera ymsar breytingar í kjallara hússins til þess að bæta aðstöðu við að taka á móti sjúklingum og veita þeim þjónustu. Einnig þyrfti að gera húsinu ýmislegt, svo sem laga þak, gera við hurðir og glugga o.fl.

Þarna varð niðurstaða nefndarinnar þessi:

Með tilliti til þessa og mikils viðhalds undanfarinna ára, ályktaði fundurinn að tímabært sé að athuga, hvort ekki beri frekar að hefja byggingu á nýjum læknisbústað á öðrum stað, frekar en leggja í kostnaðarsama breytingu á húsi, sem mun ekki lengi enn uppfylla þær kröfur  sem nú eru gerðar til læknisbústaða.

Er formanni falið að ræða, fyrir aðalfund, við landlækni og skipulagsstjóra, um málið.

Á fundi nefndarinnar í ágúst þetta ár var þetta samþykkt einróma:

Þar sem héraðslæknirinn telur læknisbústaðinn ekki í þannig standi, að viðhlítandi sé, með tilliti til fullkominnar læknisþjónustu, þá vill fundurinn árétta  það álit sitt, frá síðasta fundi, að réttast sé að byggja nýtt hús og felur formanni og héraðslækni að vinna að því við landlækni svo fljótt, að hægt sé að hefja byggingu á næsta ári.

Nýbyggingunni sem í framhaldinu var ráðist í, eru gerð skil í sérstökum kafla, en áfram þurfti að sinna gamla læknishúsinu, og viðhaldið gerði ekkert nema aukast.

Hlutverk hússins í framhaldinu

Mars 2016. Læknisbústaðurinn hægra megin. Myndin er tekin út myndskeiði sem Magnús Skúlason tók með dróna.

Í júlí 1963 barst bréf frá Dóms- og kirkjumálaráðuneyti þar sem ýtt var á um að grein verði gerð fyrir horfum á sölu hins gamla bústaðar.

Í byrjun árs 1964 voru þeir Jón Eiríksson, Steinþór Gestsson og Skúli Gunnlaugsson valdir til að semja við ráðherra um eignarrétt á gamla læknisbústaðnum. Það varð úr að bústaðurinn var auglýstur til sölu að áeggjan dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Eitt tilboð barst, frá Jóni G. Hallgrímssyni, lækni, sem hljóðaði upp á kr. 125.000, en hann hafði verið héraðslæknir í Laugarási frá 1956-57. Nefndin ákvað að kynna ráðuneytinu tilboðið og leita eftir því, að læknishéraðið fengi húsið keypt á grundvelli þessa verðtilboðs. Þetta gekk ekki eftir og það næsta sem fram kom um hugsanlega sölu á húsinu var árið 1965 þegar grein er frá því að fundi nefndarinnar hafi borist símskeyti frá Heilbrigðismálaráðuneytinu um, að matsverð gamla bústaðarins væri kr. 363.000.

Ákveðið var að fela formanni og Steinþóri Gestssyni að gera tilraun til að ná samkomulagi um eignarhlut ríkis og héraðs í húsinu og tekur nefndin ekki afstöðu til matsverðsins fyrr en það er á hreinu.
Jafnframt telur nefndin að henni sé ekki fært að  ráðstafa húsinu til leigu eða sölu fyrr en þessi athugun hefur verið gerð, þótt óskir hafi komið fram um það.

Í ágúst 1965, ákvað oddvitanefndin að gera tilboð í húsið að upphæð kr. 200.000 og var Jóni Eiríkssyni falið að ganga frá því og semja frekar við ráðuneytið um eignarhlut ríkisins í húsinu. Að þessu tilboði var gengið:

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur tilkynnt stjórnarnefnd Laugaráshéraðs með bréfi dags. 2. sept, 1965, að það hafi fallist á að nefndin fái gamla læknisbústaðinn keyptan fyrir kr. 200.000 og 1/3 hluti söluverðsins, kr. 66.667 gangi til greiðslu á hluta ríkissjóðs af byggingarkostnaði nýja læknisbústaðarins.

Á sjöunda áratugnum fjölgaði íbúum heilmikið í Laugarási, en þá streymdi á staðinn ungt, garðyrkjumenntað fólk. Það fékk lóðir á leigu til að byggja sér heimili og starfsvettvang. Skortur í íbúðarhúsnæði kom fljótt í ljós og gamla læknishúsið var einn mögulegra kosta sem komu til greina. Það komst í eigu læknishéraðsins 1965. Um 1970 gerði leigjandi í húsinu tilboð í það upp á eina milljón króna og nefndin tók því ekki ólíklega, en ekkert varð úr sölu. Á þessum tíma höfðu bræðurnir Sævar og Hilmar Magnússynir og fjölskyldur þeirra húsið á leigu.

Húsið kom næst við sögu í fundargerðum í júní, 1975, á fundi í stjórn heilsugæslustöðvarinnar. Þá var rætt mögulegt húsnæði fyrir hjúkrunarkonu. Þá var það farið að kalla á umtalsvert viðhald: Gamla læknishúsið er mjög illa farið og nánast óíbúðarhæft. Fenginn hefur verið smiður til þess að skipta um þak á húsinu. Er það Friðgeir Kristjánsson. Hann gerði skýrslu um ástand hússins og kostnaðaráætlun. Hann telur að endurbygging hússins muni kosta 3-4 milljónir.

Stjórn Heilsugæslustöðvarinnar var sammála um að heppilegasta lausnin væri sú að Heilsugæslustöðin kaupi gamla læknisbústaðinn af Laugaráshéraði, endurbyggi hann síðan fyrir hjúkrunarkonu og annað starfsfólk (...?) til þess að fá framlag ríkisins sem er 85% kostnaðar vegna húsnæðis hjúkrunarkonu, ritara og meinatæknis.

Form hefur rætt þetta við Pál Sigurðsson rn.stj. og tók hann þessari málaleitan líklega. Formanni falið að lýsa ástandinu og sækja nú þegar um fjárveitingu til þessara framkvæmda.

Í viðtali form[anns] við ráðuneytisstjóra kom fram, að sótt verður um fjárveitingu á næsta ári til áframhaldandi uppbyggingar Heilsugæslustöðvarinnar.

Stjórnarnefndin/oddvitanefndin tók undir niðurstöðu stjórnar heilsgæslustöðvarinnar á ákveðið var að fá úttektarmenn Biskupstungnahrepps til að meta húsið til verðs. Það mat reyndist vera kr. 1.235.000 og nefndin ákvað að hlýta því mati.

Í skýrslu frá mars 1976, um framkvæmdir við húsið árið 1975, gerir formaður oddvitanefndar og stjórnar heilsugæslustöðvarinnar, Jón Eiríksson, grein fyrir endurbyggingu hússins svo:

Sett var nýtt þak á húsið, grafið í kringum það og ræst frá því jarðvatn. Skólplögn úti var endurnýjuð. Efri hæð var endurbyggð og snyrting á neðri hæð.
Bjarni Sæmundsson pípulagningameistari lagði nýja miðstöð, vatns- og skólplagnir.
Siggi Gíslason rafvirkjameistari lagði raflögn.
Sett var ný einangrun úr plasti á útveggi og múrað.
Sett var tvöfalt gler í glugga.
Um s.l. áramót var framkvæmdum þessum að mestu lokið. Síðan hefur verið gengið frá múrverki, plötur settar í loft, gengið frá milliveggjum.
Er húsið nú tilbúið undir málningu og ráðinn hefur verið Óskar Hróbjartsson málaram.
Smíði á eldhúsinnréttingu og skápum er að verða lokið og innihurði pantaðar.

Húsið ætti að verða íbúðarhæft í næsta mánuði.

Þegar síðan átti að sækja fé til verksins í Ríkssjóð kom nokkurt babb í bátinn: Undirtektir voru þungar og aðallega vegna þess, að framkvæmdir þessar voru ekki búnar að fara rétta leið í gegnum kerfið. Úr því var leyst með bankalánum, en reiknað hafði verið með 85% hlutdeild ríkisins í framkvæmdunum.

Þegar einungis átti eftir að ganga frá lóð og tröppum hússins var orðið ljóst að kostnaðurinn við þessar endurbætur væri orðinn 8 - 9 milljónir króna.
Dagmar Jónsdóttir hjúkrunarkona og Jörundur Ákason fluttu í nýuppgert húsið árið 1976 og bjuggu þar til 1982. Guðrún Bjarnadóttir var í því um nokkurra mánaða skeið, áður en Matthildur Róbertsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Jens Pétur Jóhannsson fluttu í það ásamt börnum sínum, 1982. Þar bjuggu þau til 2004, en þá var húsið selt.

Uppfært 01/2022