Lyfjasala í Laugarási

Fyrst er getið um lyf eða lyfjamál á læknissetrinu í Laugarási í verksamningi um byggingu læknisbústaðarins, frá 1938, sem finna má í fundargerð oddvitanefndarinnar. Þar segir: Ennfremur setja hillur og skápa í lyfjaherbergi læknis, eptir því sem þörf er á. Ekki skiptu oddvitarnir sér að lyfjamálunum, en þau voru alfarið á hendi læknisins, í það minnsta er hvergi minnst á lyf í gögnum nefndarinnar fyrr en nýja læknastöðin var risin í Launrétt. Þá var það skráð að rétt teldist að kaupa lítinn kæliskáp í lyfjageymslu.
Framboð og úrval lyfja jókst, eftir því sem tuttugustu öldinni vatt fram og því urðu lyf af ýmsu tagi stærri þáttur heilbrigðisþjónustunnar. Þá urðu breytingar samhliða því að lög voru sett, eða þeim breytt.

Lyfjasala var löngum umdeild.

Það var í rauninni ekki fyrr en læknarnir í Laugarási voru orðnir tveir, sem lyf fóru að koma til umræðu á fundum oddvitanefndarinnar. Læknarnir munu hafa rekið lyfsöluna saman og meðan það fyrirkomulag var viðhaft, má ætla að hún hafi verið ágæt viðbót við tekjur þeirra og hafi því verið, í það minnsta að einhverjum hluta, ástæða þess hve vel gekk að fá lækna til að setjast að í Laugarási.

Rétt er að halda því til haga, að lyfjamál voru með öðrum hætti en nú er algengast. Ýmis lyf munu hafa verið blönduð á staðnum, eftir uppskriftum ………………

Árið 1971 var svo gerð breyting á lyfsölulögum, sem fól í sér, að stofnað var til sérstaks lyfjaeftirlits, sem stjórnað var frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, og í árslok 1973 var sett sérstök reglugerð um lyfjaeftirlit ríkisins. Lyfjaeftirliti ríkisins var falið að framkvæma eftirlit og sinna leiðbeininum, meðal annars hjá lyfjasölu héraðslækna.

Læknarnir og lyfjasalan

Læknarnir Konráð Sigurðsson, sem var læknir í Laugarási frá 1967 til 1982 og Guðmundur B. Jóhannsson, læknir frá 1972-1983, ráku lyfjasöluna saman og þegar Konráð hélt á brott, keypti læknishéraðið helmingshlut hans. Jafnframt var ákveðið að skipting arðs af lyfjasölunni skyldi vera þannig, að læknishéraðið fengi fjórðung, en 75% skyldu koma í hlut læknanna.

Þegar Guðmundur lét síðan af störfum árið eftir keypti læknishéraðið einnig hlut hans. Jafnframt var ákveðið, að hagnaði af rekstrinum skyldi skipt “jafnt milli læknanna og eigenda”. Ekki er ljóst hvernig ber að skilja þetta. Líklegt þó, að hlutur læknanna, hvors um sig, skyldi vera 25% og héraðsins 50%.
Samhliða þessu var Pétri Skarphéðinssyni falinn rekstur lyfjabúðarinnar við brotthvarf Guðmundar.

Lyfsölumálin virðast hafa verið talsvert til umræðu árið 1984, en þá var fyrst ákveðið, að frá áramótum 1984-5 skyldi “ágóðahluta af rekstri lyfjasölunnar skipt í þrjá jafna hluta, þannig að heilsugæslustöðin fái 1/3.” Á aðalfundi heilsugæslustöðvarinnar þetta ár óskuðu læknarnir eftir að fá keyptan lager lyfsölunnar “miðað við það verð sem heilsugæslustjórnin keypti lagerinn á, …” Þetta taldi stjórn heilsugæslustöðvarinnar vera það stórt mál að þörf væri á að ræða það í oddvitanefndinni, en í fundargerð aðalfundar hennar þetta ár, er ekkert vikið að þessu og því hefur það líklegast gengið í gegn.

Á aðalfundi oddvitanefndarinnar 1989 voru menn sammála um að rekstur lyfsölunnar “væri góður og nauðsynlegur þáttur í þjónustu við íbúa læknishéraðsins.”

Lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og lög um heilbrigðisþjónustu.

Um áramótin 1989-1990 tóku gildi lög nr. 87/1989 um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þar sem segja má, að þau lög hafi verið undanfari laga um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 75/1990. Lögin frá 1989 fólu í sér, að starfsfólk, sem ráðið hafði verið af sveitarfélögum eða stofnunum, sem reknar voru af ríki og sveitarfélaginu í sameiningu, gerðist ríkisstarfsmenn. Átti þetta við um starfsfólk sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva og annarra stofnana, sem ekki var þegar á launaskrá hjá ríkinu.
Þarna voru sjúkrasamlög lögð niður, en stað þeirra urðu sjúkratryggingar hluti af almannatryggingakerfinu.

Í lögunum frá 1990 segir svo um lyfjasölu:

Lyfjaútibú eða lyfjaútsala skv. 43. og 44. gr. lyfsölulaga eða lyfjasala undir eftirliti lækna stöðvarinnar skal jafnan vera á heilsugæslustöð, ef lyfjabúð er ekki á staðnum. Ráðherra getur ákveðið að lyfjabúð skuli vera í heilsugæslustöð.

Stjórn heilsugæslunnar í Laugarási fjallaði um þessi mál á fundi 1990 þar sem formaður stjórnar skýrði frá gangi mála varðandi lyfjasöluna og viðræðum við læknana og ráðuneyti. Á þessum fundi var þessi samþykkt gerð:

Fundur stjórnar og undirbúningsstjórnar Heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási, 13/02 1990 leggur á það þunga áherslu, að lyfjasala verði þar áfram, svo að íbúar héraðsins njóti þess hagræðis sem er að hafa lyfjasölu á staðnum.
Vegna breytts rekstrarforms telur fundurinn eðlilegast, að heilsugæslustöðin kaupi lyfjalagar sveitarfélaganna og reki síðan lyfjasöluna í samvinnu við lækna. Með því vinnst, að lyfjasalan festist þar í sessi, heilsugæslustöðin fær arð af rekstri hennar og læknar tekjur, sem stuðlar að því að gera læknisstöður við heilsugæslustöðina eftirsóknarverðari.
Oddvitar allra þeirra sveitarfélaga, sem aðild eiga að heilsugæslustöðinni hafa lýst þeim vilja sínum með yfirlýsingu, að selja heilsugæslustöðinni lyfjalagerinn, og verði andvirði hans greitt með arði af lyfjasölunni, en eftirstöðvar verðbættar á hverjum tíma.
Með vísun til þess sem að framan greinir staðfestir fundurinn umsókn þá, sem formaður hefur sent heilbrigðisráðuneytinu um að heilsugæslustöðin fái leyfi til að eiga og reka lyfjasölu, og fer fram á samþykki þess til kaupanna.
Fundurinn telur eðlilegast, að hin nýja skipan gildi frá 1. janúar, 1990. Lyfjasalan verður sjálfstætt fyrirtæki og bókhald hennar aðskilið frá annarri starfsemi heilsugæslustöðvarinnar.
Þá samþykkir fundurinn fyrir sitt leyti, að verðlagning lyfjalagersins verði byggð á talningu starfsfólks í lyfjabúri 30. des sl.

Þarna var um það að ræða, að heilsugæslustöðin keypti lyfjalagerinn af læknishéraðinu og að óskað yrði leyfis fyrir því að stöðin fengi leyfi til að reka lyfjasölu. Í framhaldinu myndi heilsugæslustöðin semja við læknana um reksturinn, gegn tilteknu starfshlutfalli og hlutfalli af arði.

Ekki verður annað skilið en ráðuneytið hafi tekið jákvætt í þetta, en vildi samt að maður frá þeim kæmi austur til að telja lagerinn. Ekki segir frekar af því, en það næsta sem gerðist var, að í bréfi sem læknarnir sendu stjórn stöðvarinnar seint árið 1990 tilkynntu þeir “að Pétur Skarphéðinsson hafi fengið heimild til lyfsölu í Laugarási til 1. okt. 1991 og hann ætli að stofna félag með Gylfa Haraldssyni um lyfsölu í Laugarási og hefja rekstur um áramótin 1990-91.”

Í hönd fóru samningaviðræður um hvernig rekstri lyfjasölunnar yrði best fyrir komið. Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu kom austur “til þess að ræða þessi mál og reyna að leysa þau með heimamönnum.” Vilji var til þess innan stjórnarinnar að leysa þetta mál með samkomulagi stöðvarinnar og læknanna. Fenginn var löggiltur endurskoðandi til að gera tillögu um skiptingu lageraukningarinnar og þrem stjórnarmönnum var falið “að semja við læknana um kaup á lyfjalager og leigu fyrir aðstöðuna í heilsugæslustöðinni.”

Á fundi stjórnar og starfsfólks heilsugæsælustöðvarinnar í janúar 1992, kynnti formaður bréf læknanna þar sem þeir sögðu upp samningi frá 1992, þar sem fjallað var um skiptingu arðs af lyfjasölu. Jafnframt tilkynntu þeir í bréfinu “að starfsemi og rekstur lyfsölunnar verði alfarið í þeirra höndum frá 1. jan 1992.” Jafnframt kom fram á fundinum, að réttur læknanna til þessa væri ótvíræður.
Stjórn stöðvarinnar tilnefndi þrjá stjórnarmenn til að semja við læknana “um kaup á lyfjalager og leigu fyrir aðstöðuna í heilsugæslustöðinni.”

Á aðalfundi oddvitanefndarinnar í nóvember lá fyrir greinargerð hins löggilta endurskoðanda frá Rekstri og ráðgjöf. Niðurstaðan fól í sér mat á því hve mikið hvor aðili ætti að greiða hinum, mynd hann kaupa hlut hins í lyfsölunni.
Á þessum fundi var samþykktur samningur um kaup læknanna á hluta héraðsins í lyfjalager lyfsölunnar í Laugarási.

Ný lyfjalög 1994

Lyfjalög nr. 93/1994 breyttu stöðu lyfjasölunnar í heilsugæslustöðinni. Þar segir í fyrstu grein: „Markmið laga þessara er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni."

Lögin tóku gildi 1. júlí 1994 að undanskildum kafla um lyfjaverð og kafla um stofnun lyfjabúða og um lyfsöluleyfi. Gildistöku þessara kafla var frestað til 1. nóvember 1995. Fresturinn var síðan framlengdur til 15. mars 1996 að því er varðaði lyfjabúðir og til 1. júlí varðandi lyfjaverð.

Þessi lög höfðu það í för með sér, að rekstur læknanna gat ekki gengið til lengdar og árið 1998 setti Árnes apótek upp lyfjasölu þar sem heilsugæslan var áður til húsa, í Launrétt 2. Þar var Árnes apótek síðan þar til Lyfja keypti það og síðan hefur lyfjasala í Laugarási verði á hennar hendi.

Uppfært 02/2022