Hitaveita Laugaráss 1980-2002

Framhald af: Hitaveita 1964-1980

Hér er byggt á þessum heimildum: að stærstum hluta er um að ræða fundargerðir hitaveitunnar, Hagsmunafélags Laugaráss og hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og einnig upplýsingum Benedikts Skúlasonar, sem var starfsmaður veitunnar allan þann tíma sem hér um ræðir.


1980

Það virtist ekki vera neitt sérstakt tilefni til bjartsýni varðandi málefni hitaveitunnar þegar haldið var inn í árið 1980. Fjárhagsstaðan var erfið, ekki síst vegna vanskila einstakra notenda og stjórn Hagsmunafélagsins sá fram á að þurfa að fara að beita lokunaraðgerðum til að þrýsta á greiðslur. Við þetta bættist, að seint gekk  að fá leyfi ráðuneytis til að hækka gjöld um 60%, sem talið var nauðsynlegt, en á þessum tíma var verðbólga í hæstu hæðum. Loks stóðu Laugarásbúar frammi fyrir skorti á heitu vatni ef ekkert yrði að gert.  Á aðalfundi hitaveitustjórnar, sem var haldinn í mars, voru þeir mættir, Jón Eiríksson framkvæmdastjóri  og Gísli Einarsson, oddviti. Þar tók Jón ástandið saman svona:

Ástandið hjá hitaveitunni er, eins og oftast áður peningavandræði og meiri peningavandræði. Þetta orsakast einkum af sífelldri þenslu og bólgu, ennfremur af vanskilum notenda.
Um þessar mundir taldi Jón að lokun vofði yfir hjá veitunni.
Athugun formanns sýnir að vatn sé af skornum skammti til dælanna og gerir ekki betur en nægja þegar fullt álag er. Því ekki tímabært að leigja meira út
.

Ljótt er það maður! Undirskriftir stjórnarmanna

Þrátt fyrir að þarna hefði fengist leyfi til gjaldskrárhækkunar um 60% vegna dælingar að gróðurhúsum og 80% á íbúðarhús, var fátt sem jók mönnum kæti, að því er virtist.

Það var við þessar aðstæður sem nýr gæslumaður, Benedikt Skúlason, var boðinn velkominn til starfa á fundi hitaveitustjórnar þann 1. júlí.

Á aðalfundi hagsmunafélagsins í byrjun júní, kvað formaður „vatnsskort yfirvofandi til heitavatnsdælanna ef bætt yrði á neysluna frá því sem nú er.“ Það var sem sagt orðið ljóst, þegar hér var komið, að framundan væri að leita leiða til að auka við það vatn sem kæmi frá hverunum og á þessum fundi var þessi tillaga samþykkt:

Afstaða helstu hvera á hverasvæðinu í Laugarási og dæluhússins. (teikn. pms)

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.

Þessi samþykkt reyndist síðan vega nokkuð þungt þegar ákveðið var að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu.

Nýja gæslumannsins biðu ýmis verkefni. „Framkvæmd var vettvangsathugun – gengið með leiðslum og athugað ástand í dæluhúsi. Verkefnum síðan raðað niður, gæslumanni til leiðbeiningar og eftirbreytni.  Sent verður bréf til gæslumanns um það sem gera þarf.“

Þá var hugað að því að „auka á sjálfvirkni í dæluhúsum “og nýja gæslumanninum falið að „loka hjá tveim mönnum vegna vanskila.“

Í október lá fyrir úttekt frá Fjarhitun, á möguleikum á að afla meira vatns úr hverunum, þar sem fram kom að þeir telji „aukningu aðeins mögulega með því að lækka vatnsborð og dæla með öxultengdri dælu, það vill segja grafa hverina út og sameina þá í þró á lægsta punkti t.d. niðri við lón.“  Hverirnir sem þarna var um að ræða voru Hildarhver og Draugahver.


1981

Hörður Magnússon, Hörður V. Sigurðsson og Skúli Magnússon

Stjórn hagsmunafélagsins var, á þessum tíma, skipuð þeim Herði Magnússyni í Varmagerði, Herði V. Sigurðssyni í Lyngási og Skúla Magnússyni í Hveratúni. Þeir félagar gerðu nokkrar athugasemdir við drög að samningi Biskupstungnahrepps og Laugaráslæknishéraðs um jörðina og hitaveituna, sérstaklega þó hitaveituna: „Samþykkt að taka skýrt og ákveðið fram að allar samþykktir hitaveitufunda og oddvitafunda um veituna, verði látnar standa varðandi framkvæmd og skipulag hitaveitunnar að öðru leyti.

Minnt var sérstaklega á samþykkt sem var gerð á fundi í Varmagerði 1. jún 1978 um að hver “gróðrarstöð hér geti fengið 4 sekl” í framtíðinni og miða framkvæmdir við það, varðandi hitaöflun og lagnir. (áætlað 85 sekl.) Bent á að “allir stjórnarmenn Hagsmunafélagsins hafa verið til kvaddir og virkir” á hitaveitunefndarfundum undanfarin þrjú ár og það væri skýlaus krafa að svo yrði áfram. Það hafi ávallt verið leitað til stjórnar Hagsmunafélagsins varðandi meiriháttar mál, t.d. mætti nefna dælukaup, mannaráðningar, uppsagnir, kaup díselrafstöðva o.s.frv. Þess bæri einnig að gæta, að það væri fólkið í Laugarási sem “hefur greitt rekstur og framkvæmd hitaveitunnar frá upphafi og á hana.“

Á fundi fráfarandi hitaveitustjórnar í maí lagði Jón Eiríksson fram samninginn um hitaveituna og skýrði hann. Þar töldu fulltrúar hagsmunafélagsins að vel mætti við una.   

Þetta var síðasti fundur hitaveitustjórnar áður en rekstur hennar fluttist til Biskupstungnahrepps og þar með einnig síðasti fundur Jóns Eiríkssonar í hlutverki formanns veitunnar.

Úlfar Harðarson

Í byrjun júní valdi hreppsnefnd síðan fulltrúa sína í nýja stjórn hitaveitunnar, en það voru þeir Gísli Einarsson og Þorfinnur Þórarinsson, en til vara Skúli Magnússon.  Á þessum fundi nefndarinnar skýrði oddviti frá mælingu á heitu vatni í Laugarási sem Úlfar Harðarson hafði gert í maí og var niðurstaða hennar, að vatn það sem runnið gat að dælunum var 45,5 sek/l. Þá var einning kynnt skýrsla Jóns Eiríkssonar um notkun á heitu vatni í Laugarási. „Samkvæmt henni er útleyst vatn 38,92 sek/l, áætluð notkun heilsugæslustöðvar og starfsfólks er 0,43sek/l og vatn til Iðumanna 0,95sek/l, eða alls 40,3 sek/l og er því samkvæmt þessu 5,2 sek/l af virkjuðu vatni, umfram það sem leggja ber fram.“

Það var viðbúið, að með því hitaveitumálin flyttust til nýrrar stjórnar, þar sem hreppurinn hefði meirihluta fulltrúa, yrði eðlisbreyting á Hagsmunafélagi Laugaráss, en þar höfðu hitaveitumálin verið fyrirferðamesta umfjöllunarefnið. Á aðalfundi félagsins í júní var samþykkt að formaður félagsins hverju sinni skyldi sitja sem fulltrúi notenda í nýrri stjórn hitaveitunnar. Hörður Magnússon var kjörinn formaður og þar með fulltrúi í hinni nýju stjórn.  

Á þessum fundi voru hitaveitumálin, að vanda, fyrirferðarmikil og menn létu í ljós áhyggjur af fjárhagslegri stöðu veitunnar. „Talið ógerlegt að safna meiri skuldum, heldur reyna að ná þeim niður. Töldu menn að hækka þyrfti um 80% svo lag geti komist á reksturinn. Stungið var upp á að listi yrði látinn ganga milli bæja og leitað álits um hvort fólk vildi fúslega borga meira, svo mögulegt væri að halda fyrirtækinu gangandi og gera eitthvað til endurreisnar.“

Á fyrsta fundi hinnar nýju stjórnar hitaveitunnar, var Hörður kjörinn formaður og falin framkvæmdastjórn veitunnar. Gísli varð ritari og Þorfinnur meðstjórnandi. Það bar helst til tíðinda á þessum fundi, að öll stjórn Hagsmunafélagins mætti til hans, sem kallaði á þessa færslu í fundargerð:

Talsverð umræða í upphafi fundar um veru stjórnarmeðlima Hagsmunafélags Laugaráss á fundinum og vildi Þorfinnur fá skýringu á setu fleiri en eins fulltrúa frá Laugarásbúum. Var gerð grein fyrir því og vísað til þeirrar venju er verið hefur undanfarin ár að meðstjórnendur hagsmunafélagsins sætu alla fundi hitaveitunnar með fullu málfrelsi og tillögurétti. Fallist var á óbreytt fyrirkomulag funda.

Þar með hófst nýr kafli í sögu Hitaveitu Laugráss. 

Á fyrstu fundum stjórnar hitaveitunnar voru færðar tvær fundargerðir, önnur í bók stjórnarinnar, sem Gísli skráði og hin í bók hagsmunafélagsins, sem Hilmar Magnússon, ritari félagsins skráði.
Fyrstu umfjöllunarefnin lutu að hækkun gjaldskrár, svo sem vanalegt taldist, og nauðsynlegu viðhaldi. Þá var hugað að aukinni sjálfvirkni í dæluhúsinu, til að spara raforkukostnað og til að spara gæslumanni sporin.

Ljóst var, að til yrði að koma meira vatn til að halda í við þörfina og Fjarhitun var falið að leggja til leiðir til að standa að því.


1982

Á þessu ári var frá því greint að í Laugarási væri 17 garðyrkjustöðvar, misstórar auðvitað, en vaxandi að stærð, sem eðlilega kallaði á meira vatn til upphitunar.  Þar sem hitaveitan var komin að þolmörkum og gat ekki tryggt að garðyrkjubændur fengju það vatn sem þeir þurftu, varð aukin vatnsöflun stóra málið hjá hitaveitunni á þessu ári.

Fjarhitun hafði skilað teikningum að nýrri virkjun og breyttu fyrirkomulagi á dælingu. Þá lá fyrir að vinna kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna. Það var ýmislegt samþykkt á fyrsta fundi stjórnarinnar í janúar á þessu ári.
- að hanna nýja virkjun á hverasvæðinu „þar sem dýrt yrði að lappa upp á kerfið eins og það var – það taldist orðið úrelt.“

Þá var samþykkt
- að setja hemla á heimtaugar.
- að garðyrkjubýli yrðu að taka í það minnsta 1 sek/l.
- að leggja nýja stofna og endurnýja aðra.
- að leyfa aðeins eina heimtaug á hvert garðyrkjubýli.

Á aðalfundi hagsmunafélagsins var gerð grein fyrir því helsta sem var í farvatninu varðandi hitaveituna og „Sýndist sitt hverjum eins og vant var.“

Á fundi sínum í lok apríl hélt stjórnin áfram að samþykkja ýmislegt:

- að öll íbúðarhús sem tengd eru beint inn á stofna og borga mínútulítra, fái stofninn að húsvegg og hitaveitan annist viðhald hans.
- að hitaveitan taki á leigu hjá umsjónarmanni hitaveitunnar geymsluhorn við hlöðuendann og kosti lokun á því.
-að boða til fundar með íbúum í Laugarási og þar yrði rætt um hvort menn hygðust nota sér rétt sinn til forgangs að fjórum sek/l á hvert garðyrkjubýli og hvort þeir vildu þá greiða stofngjöld af þeim þegar lagnir yrðu endurnýjaðar.

Á fundinum voru kynntar teikningar og áætlun Fjarhitunar um nýja virkjun og endurhönnun dælingar með henni. Áætlaður kostnaður við þetta var kr. 1. 760.000.
Þarna voru uppi hugmyndir um að setja upp svokallaðar djúpvatnsdælur, sem áttu að leiða til mikils raforkusparnaðar, þar sem „dælurnar dæla eftir álagi og þá þarf síður að setja upp hemla á hverri stöð “(sem stjórnin er frekar á móti.)“.  Skiptar skoðanir voru meðal notenda um þessa hemla, en þeir þóttu dýr kostur.

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru ræddar á öllum fundum á árinu, ásamt áðurnefndum 4 lítra mörkum. Einnig var fjallað talsvert um hemla á garðyrkjustöðvar, en þeim var ætlað að sjá til þess að stöðvarnar fengju ekki meira vatn en þær greiddu fyrir.   
Sem fyrr þjáðist hitaveitan af fjárskorti á miklum verðbólgutímum og á stjórnarfundi í hagsmunafélaginu í apríl var þetta skráð um þau mál:

Farið verður fram á 10% hækkun á hitagjöldum. Fundarmönnum kom saman um að bíða með hækkun þar til reikningum ásamt greinargerð um rekstraráætlun hefði verið dreift til notenda.  Komið hefur fram þó nokkur óánægja vegna mikilla hækkana á síðasta ári og byrjun þessa, sem nemur ca. 200% á ársgrundvelli.


1983

Hörður Magnússon lét af störfum sem framkvæmdastjóri veitunnar í lok árs 1982 og Hörður V. Sigurðsson tók þá við keflinu. Framundan voru miklar framkvæmdir við að afla meira vatns fyrir veituna, en fjárhagurinn var ekki burðugur frekar en fyrri daginn. Hugmyndir voru uppi um að leita leiða til að vinna að framkvæmdum í áföngum.

Á þessu ári var settur nýr rofabúnaður á dælurnar „sem er tengdur þrýstingi á kerfinu. Búnaður þessi hefur reynst vel og er talið að þessi búnaður spari rafmagn, sérlega á sumrin.“ Þá var bætt við þriðju 7 lítra dælunni og ákveðið að selja tvær tveggja lítra. 

Stjórn veitunnar ákvað að hefja framkvæmdir við nýtt dæluhús, en teikningar að því lágu fyrir um mitt ár.  Svo var húsið byggt og uppsteypu var lokið í lok nóvember. Síðan var stefnt á að byggja nýja dæluþró og aðrennslislögn sumarið eftir.

Rafstöðinni í gamla dæluhúsinu var komið í lag og hún gerð að vararafstöð.


1984

Á aðalfundi hagsmunafélagsins í apríl lagði Skúli Magnússon til  að skil yrðu gerð milli rekstraraðila eins og hitaveitunnar og hagsmunafélagsins. „Hörður kvað þessu vont að breyta fyrr en þessu kjörtímabili hreppsnefndar lýkur, þar sem hreppsnefndin hefði nánast skipað stjórn hagsmunafélagsins í stjórn hitaveitunnar.  Hinsvegar væri þetta alveg rétt hjá Skúla.“

Skurðurinn grafinn

Áfram var unnið við dæluhúsið og mönnum þótti brýnt að það kæmist í gagnið fyrir haustið, bæði vegna vetarins sem framundan var og vegna þess þess hve margir þurftu meira vatn, en í maí lá fyrir að 7 umsóknir um garðyrkjulóðir biðu afgreiðslu.

Hreppsnefnd fjallaði um málefni veitunnar á þrem fundum, bæði í maí, júní og október.  Þar var gerð grein fyrir ósk um „að Biskupstungnahreppur kostaði aðrennslislögn og dæluþró vegna aukinnar vatnsöflunar“  og að stjórn veitunnar  hefði samþykkt „að láta gera teikningar og kostnaðaráætlun vegna þessara framkvæmda.“

Asbestpípu komið á sinn stað.

Á fundi sínum í júni samþykkti hreppsnefnd síðan „að Biskupstungnahreppur leitaði eftir því að fá lán til að greiða kostnað við þennan þátt framkvæmdarinnar. Verði við það miðað að leiga fyrir heitt vatn geti staðið undir afborgunum og vöxtum. Til þess að ná þessu marki verði m.a. athugaðir möguleikar á endurskoðun á vatnsleigu og fyrirkomulag á greiðslu hennar.“
Þarna var um að ræða að greiða kostnað vegna fyrirhugaðrar aðveituæðar, annarsvegar, og þróar, hinsvegar, sem áætlað var að myndu kosta kr. 600.000.
Á árinu voru helstu framkvæmdirnar þessar: lokið var við viðbyggingu við gamla dæluhúsið og dælur lækkaðar um 2.5 metra. Þá var lögð ný aðveituæð að dæluhúsinu og var grafinn um 2 m djúpur skurður upp í hverina og lögð í hann asbestlögn. Erfiðleikar komu fram við framkvæmdina sérstaklega vegna klappar, sem lækka varð með loftbor og þetta tafði verkið nokkuð. Fyrirhugað var, að árið eftir yrði grafið ofan í hverina sjálfa. Áætlað var að aukning á vatnsmagni við þessar framkvæmdir yrðu um 20 sek/l.

Í október var svo þetta skráð: „Er talið að þegar hafi fengist um 20 sek/l viðbót af heitu vatni og með tiltölulega lítilli framkvæmd muni vera unnt að fá annað eins.“

Á þessu ári óskaði RKÍ eftir niðurfellingu hitaveitugjalda frá áramótum, enda starfsemi barnaheimilisins ekki lengur fyrir hendi.


1985

 Hörður Magnússon, sem hafði verið viðloðandi stjórn hitaveitunnar frá upphafi, var fluttur úr Laugarási þegar hér var komið. Af þessum sökum var kosinn nýr formaður  veitunnar í ársbyrjun, Gústaf Sæland á Sólveigarstöðum.

Í byrjun árs fjallaði stjórnin um nauðsynlegar nýlagnir á árinu, en þær voru þessar helstar: norðan Höfðavegar, sem taldist nauðsynlega framkvæmd og að lóðum í Vesturbyggð. Þá var talið að frágangur á hverunum, Hildarhver og Draugahver, myndi kosta 2.3 milljónir.

Reglugerð fyrir hitaveituna.

Jónas A. Aðalsteinsson

Það voru lögð fram drög að nýrri reglugerð fyrir Hitaveitu Laugaráss, sem Jónas A Aðalsteinsson samdi, að beiðni framkvæmdastjóra.  Stjórnarmenn samþykktu þessi drög að mestu og vísuðu þeim síðan til hreppsnefndar til samþykktar.

Meðal breytinga var breytt tilhögum á innheimtu vatnsleigu, þannig að hún innheimtist með hitaveitugjöldum ef samningar um það næðust við stjórn Laugaráshéraðs og hreppsnefnd. Þá var einnig um að ræða hlutdeild hreppsins í vatnsöflun. Stjórn veitunnar samþykkti að óska eftir því að hreppsnefnd tilnefndi menn til að vinna með stjórn hitaveitunnar að lausn þessara mála.

Hreppsnefnd þurfti 2 fundi til að afgreiða málið, en samþykkti svo reglugerðina í apríl (sjá neðar).

Á aðalfundi hagsmunafélagsins á þessu ári kom fram almenn óánægja með að tengigjöld þeirra lóða sem ekki myndu byggjast á árinu lentu á herðum annarra notenda veitunnar. Töldu menn eðlilegt að úr því hreppurinn væri búinn að lofa og skipuleggja lóðir í hverfinu, þá skyldi hann standa straum af kostnaði vegna þeirra stofngjalda sem ekki yrðu greidd á árinu. Um þetta mál urðu menn harðorðir og vildu mótmæla þeirri „skipulagsvitleysu“ sem hér hefði viðgengist, sem hefði í för með sér stóraukinn kostnað við nýlagnir og þessvegna hærri gjöld á neytendur. Var talið að fylgt væri einhverri hentistefnu í skipulagsmálum hverfisins. Á fundinum var þetta síðan samþykkt:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 22/4, 1985 mótmælir eindregið þeirri aðferð sem notuð er við skipulagningu Laugaráshverfis, en hún felst í því, að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps lætur skipulegga lóðir hingað og þangað í landi Laugaráss og ætlar síðan Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitu Laugaráss að leggja stofna á þessi svæði, án þess að tryggt sé að þau byggist í náinni framtíð, eða jafnvel yfirleitt, eins og skipulag gerir ráð fyrir.
Af þessu ráðslagi leiðir, að kostnaður hitaveitu og vatnsveitu verður óhóflega mikill fyrir þá íbúa sem fyrir eru í Laugarási.
Aðalfundurinn telur hreppsnefnd ábyrga fyrir þessu skipulagshneyksli og fer þess á leit, að kostnaður sá sem hitaveita og vatnsveita verða fyrir, verði greiddur úr hreppssjóði.

Affall frá dæluhúsinu út í lón. (mynd pms)

Á aðalfundinum var nýja reglugerðin kynnt, en þar voru m.a. ákvæði um að  framvegis yrði meirihluti stjórnar skipaður notendum veitunnar og að gjaldskrá veitunnar yrði alfarið á borði hennar.  Helsta athugasemd fundarmanna laut að skorti á „ákvæðum í reglugerðinni þar sem fjallað væri um réttindi neytenda.“

Í apríl samþykkti hreppsnefnd síðan nýja reglugerð fyrir veituna.

Hin nýja reglugerð fyrir hitaveituna hljóðar svo:

Reglugerð um Hitaveitu Laugaráss í Biskupstungum

1. gr. Hitaveita Laugaráss er fyrirtæki sem Biskupstungnahreppur á og starfrækir og rekur sem sjálfstætt fyrirtæki.

2. gr Tilgangur hitaveitunnar er:
Að afla og veita varmaorku um orkuveitusvæði sitt.
Að stuðla að hagkvæmni í orkuvinnslu og dreifingu orkunnar og sölu.
Að reka aðra þá starfsemi, sem tengist orkuvinnslunni og orkusölunni.

3. gr. Orkuveitusvæði fyrirtækisins er byggðasvæði Laugaráss og nágrannabyggðir eftir því sem hreppsnefnd Biskupstungnahrepps ákveður og ráðherra samþykkir, samkvæmt gildandi orkulögum hverju sinni. Hitaveitan hefir einkarétt til sölu á varmaorku til notenda á orkuveitusvæði sínu.

4. gr. Stjórn fyrirtækisins skal skipuð fimm mönnum tilnefndum af hreppsnefnd Biskupstungnahrepps, þar skulu minnst þrír vera notendur hitaveitunnar á orkuveitusvæði hennar. Formann stjórnar og varformann skal tilnefna sérstaklega.

5. gr. Stjórn hitaveitunnar skal tilnefnd til fjögurra ára í senn og skal það tímabil vera hið sama og kjörtímabil hreppsnefndar.

6. gr. Verkefni stjórnar hitaveitunnar er að fara með málefni fyrirtækisins og annast um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.
Hún annast framkvæmdir allra hitaveitumála á orkuveitusvæði sínu í samræmi við ákvarðanir hreppsnefndar og ákvæði sveitastjórnarlaga.
Hún semur gjaldskrá fyrir veituna og leggur hana fyrir ráðherra til staðfestingar.
Hún undirbýr samninga og orkukaup og orkusölu.
Hún sér um reikningshald, reikningsskil og fjármál hitaveitunnar.
Hún leggur fjárhagsáætlun og ársreikning veitunnar fyrir hreppsnefnd.
Hún ræður framkvæmdastjóra fyrirtækisins, veitustjóra og aðra fasta starfsmenn.
Hún gefur hreppsnefnd þær skýrslur, sem óskað er eftir.

7. gr. Veitustjóri annast allan daglegan rekstur og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum, sem stjórn veitunnar hefir gefið út. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur veitustjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn veitunnar, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins.
Veitustjóri ræður starfsmenn til veitunnar eftir þörfum umfram hina föstu starfsmenn. Veitustjóri situr fundi stjórnar veitunnar með málfrelsi og tillögurétt.

8. gr. Hitaveita Laugaráss skal hafa sjálfstætt reikningshald og sjálfstæðan fjárhag. Tekjum hennar skal fyrst og fremst varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði, þannig að tryggður sé öruggur rekstur veitunnar, svo og til greiðslu afborgana og vaxta of skuldum hennar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af stjórn hitaveitunnar að fengnum tillögum framkvæmdastjóra.
Stjórn ásamt framkvæmdastjóra ber ábyrgð á reikningshaldi og meðferð fjármála fyrirtækisins.

9. gr. Við gerð gjaldskrár skal þess gætt að orkuverð sé við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan, með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum, tryggt notendum sínum næga hitaorku á sem hagkvæmustu verði.

10. gr. Hitaveitan hefur viðhaldsskyldu á dreifikerfi sínu. Hús- og landeigendum er óheimilt að hylja þessar lagnir eða gera þær óaðgengilegar til eftirlits og viðgerða.

11. gr. Hitaveitan er ekki bótaskyld, þótt notendur verði fyrir tjóni vegna frosts, ófullnægjandi hita eða vegna rafmagnstruflana, breytinga á hverum eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.
Þá er hitaveitan ekki bótaskyld, þótt tjón verði á mönnum, munum, eða eignum frá hitalögnum innanhús.

12. gr. Húseigendur og aðrir, sem óska að gerast notendur hitaveitunnar, skulu senda framkvæmdastjóra hennar skriflegar umsóknir um aðild að veitunni ásamt upplýsingum um vatnsmagn það, sem þeir óska að fá, svo og upplýsingar um stærð húsa. Þeir notendur, sem óska eftir að fá fram breytingar á vatnsmagni sínu, skulu og senda umsóknir þar um til framkvæmdastjóra.
Stjórn hitaveitunnar getur tekið sér frest, allt að 2 árum, til að verða við beiðni. Heimilt er að setja það skilyrði fyrir orkukaupum að lagning dreifiæða um landeignir sé hitaveitunni að kostnaðarlausu varðandi bætur til landeigenda.

13. gr. Óheimilt er að tengja dælur við heimaæðar og innanhúskerfi nema með leyfi stjórnar hitaveitunnar.

14. gr. Hitaveitan getur fyrirskipað takmörkun á hitanotkun, ef hún telur það nauðsynlegt, eða lokað fyrir hita vegna viðgerða. Full hitagjöld ber að greiða, þótt notendur hafi orðið fyrir lokun af slíku.

15. gr. Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsingar liggi við, samkvæmt öðrum lögum. Mál út of slíkum brotum á reglugerð þessari skal farið með að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Biskupstungna, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 3 31. janúar 1953 um hitaveitur utan Reykjavíkur, til þess að öðlast gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur fyrri reglugerð frá 10. september, 1964 úr gildi.

Iðnaðarráðuneytið, 20. maí 1985.
Sverrir Hermannsson.

 Með þessari reglugerð breyttist starfstitill eina fastráðna starfsmanns veitunnar, úr því að vera gæslumaður, yfir í að vera veitustjóri.

Á fundi hreppsnefndar í maí voru kynntar hugmyndir um viðbótarvirkjun á heitu vatni í Laugarási. Fjarhitun h.f. hafði þá gert áætlun um nýja dælustöð. Þar var gert ráð fyrir að byggja eina dælustöð í stað þeirra tveggja sem þarna voru notaðar.

Fram kom, að á stjórnarfundi í Hitaveitu Laugaráss 23. jan. 1985 hafi verið óskað eftir því að hreppsnefnd tilnefndi menn til að koma á samningum við stjórn hitaveitunnar og stjórn Laugaráslæknishéraðs, um breytta tilhögun á innheimtu fyrir heitt vatn í Laugarási og hlutdeild Biskupstungnahrepps í vatnsöflun. Gísla Einarssyni og Þorfinni Þórarinssyni stjórnarmönnum í Hitaveitu Laugaráss, ásamt Sigurði Þorsteinssyni var falið að fara með umboð hreppsnefndar í þessu máli.

Á stjórnarfundi hitaveitunnar í nóvember kom fram að innheimta hjá nokkrum notendum hefði gengið illa. Stjórnin ákvað að fara fram á að sýslumaður Árnessýslu kvæði upp lögtaksúrskurð fyrir ógreiddum hitaveitugjöldum og framkvæmdastjóra var falið að leita til Jakobs Havsteen lögfræðings um hvort og hvernig skyldi beita þeirri lögtaksheimild.

Á þessum fundi kom einnig fram, að lögbýlin sunnan Hvítár og sumarbústaðir hefðu í athugun að stofna hitaveitu sunnan árinnar, sem fengi vatn frá Hitaveitu Laugaráss. Lagððar voru fram hugmyndir að samningum við væntanlega hitaveitu. Samþykkt var að að gefa Hitaveitu Iðumanna kost á að kaupa vatn austan Iðubrúar á sama gjaldi og garðyrkjubýlin.


1986

 Á stjórnarfundi hitaveitunnar í mars var samþykkt „að hefja lögtaksaðgerðir hjá 5 aðilum sem skulda hitaveitugjöld, löngu gjaldfallin.“ Nokkuð var fjallað um vandræði með innheimtu hjá nokkrum aðilum á árinu og í október ákvað stjórn að senda  „öllum notendum hitaveitunnnar bréf, þar sem skýrt væri frá hertum innheimtuaðgerðum og í framhaldi af því sendi lögfræðingurinn þeim bréf sem skulda hitaveitugjöld.“

Á stjórnarfundi í ágúst var  ákveðið að ráða Hörð V. Sigurðsson sem framkvæmdastjóra veitunnar og Benedikt Skúlason sem hitaveitustjóra.  
Þarna var einnig talið nauðsynlegt að hefja endurnýjun eldri lagna veitunnar sem voru orðnar illa farnar. Ákveðið var að hefja þetta verk við hverasvæðið og vinna það áfram, eftir því sem mögulegt væri.


1987

Stjórn hitaveitunnar réðst í kaup á rennslismæli, sem gerði það kleift að mæla vatnsmagn sem færi um einstakar lagnir.

Þá var stofnað hitaveitufélag sunnan Hvítár, sem óskaði eftir að kaupa vatn af Hitaveitu Laugaráss og um það var gerður samningur á þessu ári.

Teikning af hverasvæðinu í Laugarási, í skýrslu Magnúsar Ólafssonar.

Um haustið kom í ljós útfelling í leiðslu við hverinn, sem talin var stafa af því að kalt vatn kæmist í hann og það var staðfest af jarðfræðingum Orkustofnunar.  Í skýrslu Magnúsar Ólafsson fyrir Orkustofnun (MÓ-88/06, apríl 1988), kom meðal annars þetta fram:

Sumarið 1985 var heitari hverinn, svonefndur Hildarhver, grafinn upp, ný lögn lögð frá hver og nýtt dæluhús reist.  Gengið var frá hvernum á þann hátt, að yfir rásina sem var grafin  voru settar steyptar plötur og hitaþolinn dúkur á plötumótum. Ofan á þetta var settur jarðvegur. Strompur var settur á þekjuna, nálægt miðri rás. Veitan var tekin í notkun á ný haustið 1985, eftir þessar endurbætur og um leið var vinnslu á neðra hverasvæðinu, sem kennt hefur verið við Þvottahver, hætt.
Rennsli jókst nokkuð í Hildarhver þegar hann var grafinn niður, og var það mælt 55 l/sek árið 1986. Hiti vatnsins hefur verið um 96°C. Mesta vatnsþörf veitunnar  nú er talin vera um 50 l/sek. Rennsli úr Þottahver, sem ekki er notað, er 14,5 l sek.
Útfellingar
Síðastliðið haust var hluti dreifikerfis veitunnar endurnýjaður og kom þá í ljós, að hvítar útfellingar höfðu myndast innan á gömlum stofnæðum. Ekki er fyllilega ljóst hversu víðtækar þær eru.

Við greiningu hjá Orkustofnun kom í ljós, að um var að ræða „illa kristallað magnesíum sílikat. Slíkar útfellingar hafa fundist í hitaveitum, sem hita upp kalt vatn.“

Starfsmenn Orkustofnunar leituðu í framhaldinu að mögulegum orsökum útfellingarinnar og komust að því, að „kalt vatn kæmist inn í hverinn í NA horni hans. Ástæður þessa má trúlega rekja til þeirra „endurbóta“ sem gerðar voru á hvernum sumarið 1985. Þá hefur líklega verið grafið út úr hinni eiginlegu hveraskál og út í dý eða kalda uppsprettu utan við skálina og hverinn lækkaður óþarflega mikið.“

Til að ráð bót á þessum vanda kom tvennt til greina, að mati OS: „Í fyrsta lagi að veita kalda vatninu frá hvernum, með því að grafa skurð ofan við hverinn og veita köldu vatni í burtu, niður í skurð sem er vestan við hverasvæðið og liggur niður í Hvítá. Í öðru lagi að bora í jarðhitasvæðið.
Fyrri kosturinn var langtum ódýrari og hann gátu heimamenn unnið að mestu sjálfir. Aftur á mót var sá síðari öruggari.

Endurbætur

Þá segir í skýrslu Magnúsar: “Í janúar-mánuði s.l. [1988] var grafinn skurður, nánast hálfhring umhverfis hverinn. Talsvert kalt vatn kom í skurðinn, á að giska 0,5-1,0 l/sek. Mest af því kom í einni uppsprettu austan við aðalhverinn.“   
Menn OS fóru síðan á staðinn til mælinga og sýnatöku. Í ljós kom hár styrkur magnesíums í kalda vatninu.  Eftir þessar aðgerðir við hverinn var talið að málið væri leyst, en talið var mikilvægt að fylgjast með stöðunni áfram.

Þegar hér var komið sögu hitaveitunnar fór staða hennar batnandi og innheimta gekk vel. Þá var tölvutæknin farin að halda innreið sína. Í nóvember samþykkti stjórnin „að stefna að því að bókhald og innheimta verði færð inn á hreppsskrifstofuna. Þetta var rætt vegna fyrirhugaðra tölvukaupa hjá hreppnum.“ 


1988 - 1994

Á árinu 1988 var veitan á góðri siglingu fjárhagslega. Á aðalfundi hagsmunafélagsins 1989 bárust þau ánægjulegu tíðindi, að veitan væri hvorki meira né minna, orðin ódýrasta hitaveitan á landinu. Þrátt fyrir góða afkomu hennar, voru enn nokkrir notendur sem voru í braski með að greiða sín gjöld. Þannig var með einn þeirra, sem stóð frammi fyrir lokun um miðjan vetur: „Hann sagðist ekki sjá neina leið til að greiða þessa skuld í vetur, en skuldin myndi ekki hækka til vors. Samþykkt að fresta lokun í trausti þess að þetta standi.“

Árið 1989 var talin þörf á að endurbyggja nyrðri stofnlagnir veitunnar, ennfremur að virkja hver til þess að tryggja það, að hægt yrði að standa við útleigt vatn og kaupa nýja dælu.

Árið 1990 var keyptur hraðastillir á eina dælanna.

Árið 1991 var helsta verkefnið að leggja í sumarhúsalóðir, hverfið vestan sláturhússins og að garðyrkjulóðum sem höfðu verið teiknaðar. Það bar einnig á því að nokkrir notendur gerðurst skuldseigir. Þrátt fyrir ítrekaðar innheimtuaðgerðir gekk hvorki né rak að fá 3 notendur til að greiða það sem þeim bar. Þeim hafði verið sent ábyrgðarbréf þar sem þeir voru áminntir um að gera skil við veituna þá þegar, en viðbrögð létu á sér standa. Þá varð bara niðurstaða um að setja lögfræðing í málið.

Árið 1992 þótti enn ástæða til að fjalla um góða fjárhagsstöðu veitunnar. Hagnaður fyrra árs nam rúmum 2 milljónum. Þetta leiddi til þess að hugað var að frekari framkvæmdum. Í framhaldinu var ráðist í að kaupa nýja dælu og díeselstöð árið 1993.

Árið 1994 þótti stjórnarmönnum ástæða til að þakka Herði V. Sigurðssyni framkvæmdastjóra veitunnar, og Benedikt Skúlasyni, hitaveitustjóra fyrir góð störf. Stjórnarmenn “lýstu ánægju sinni með ársreikning félagsins. Vegna góðrar stöðu veitunnar var ákveðið að lækka gjaldskrá veitunnar um 5%.”

Á þessu ári var unnið að undirbúningi fyrir byggingu Sambyggðar aldraðra í Laugarási og stjórn veitunnar ákvað að veita 50% afslátt á tengigjöldum vegna þeirra og jafnframt að upphitun á glergangi sem tengja skyldi þær saman, skyldi vera á sama taxta og gróðurhús.

Það helsta sem var framkvæmt á árinu var, að rennslismælir var settur við stöðvarhús, ný lögn var lögð í Austurbyggð og ný dæla var keypt í stöðvarhús veitunnar.


1996 -2000

Ætli megi ekki segja, að á árinu 1996 hafi verið tekið fyrsta skrefið að því sem síðar varð. Í lok febrúar kynnti formaður hugmyndir um samvinnu við Hitaveitu Reykholts, um kaup á  forriti og vinnu sem fram hefur farið á hreppsskrifstofunni. Stjórn veitunnar samþykkti, að þeim athugunum skyldi haldið áfram.  Fljótlega eftir þetta tilkynnti Hörður V. Sigurðsson, að hann óskaði eftir að verða leystur frá störfum sem gjaldkeri félagsins í lok ársins.

Rekstur veitunnar var með ágætum og því var ákveðið að lækka gjaldskrá enn, og nú um 12% á íbúðarhúsnæði og 20% á gróðurhús.

Ný og öflug rafstöð var keypt og stjórnin ákvað að  bjóða stjórn heilsugæslustöðvarinnar að tengjast við stöðina, þannig að hún yrði varaaflsstöð fyrir stöðina.

Sigurlaug Angantýsdóttir

Þegar Hörður V. Sigurðsson hætti störfum sem gjaldkeri veitunnar, árið 1996, var gerður samningur við Sigurlaugu Angantýsdóttur um að hún tæki að sér bókahald og innheimtu fyrir veituna.

Árið 1986 var gerður samningur milli hitaveitunnar, Biskupstungnahrepps og Laugaráshéraðs til 10 ára og á árinu 1996 var því komið að endurskoðun hans.  Formaður oddvitanefndar Laugaráshéraðs, Loftur Þorsteinsson, sagði samningnum því upp, til samræmis við það.

Enn frekari breytingar urðu á stjórn hitaveitunnar árið 1998, en þá tilkynntu þeir Gísli Einarsson og Hörður V. Sigurðsson að um væri að ræða síðasta aðalfund þeirra, þar sem þeir hyggðust ekki gefa kost á sér  eftir komandi kosningar. Þarna má segja að talsverð þáttaskil hafi orðið í sögu veitunnar, en báðir þessir menn höfðu setið í stjórn mjög lengi, Hörður meira og minna frá stofnun veitunnar og Gísli frá því Biskupstungnahrppur tók yfir rekstur hennar.

Að loknum kosningum tók ný stjórn félagsins við, en hana skipuðu Sigurlaug Angantýsdóttir formaður, Ingólfur Guðnason ritari, Benedikt Skúlason hitaveitustjóri, Jens Pétur Jóhannsson, og Páll M Skúlason.

Nýja stjórnin tók við góðu búi. Þegar stjórnarmenn skoðuðu aðstöðu hitaveitunnar á hverasvæðinu í mars árið 1999, „Leist mönnum vel á frágang og fyrirkomulag í dæluhúsinu.“


2001 - 2002

Stjórnarmönnum í veitunni þótti orkuleiga heldur há (um það bil kr. 800.000 á ári) og var framkvæmdastjóra falið að leita leiða til að lækka þann kostnað, sem og aðra kostnaðarliði, eins og rafmagn.

Á þessum tíma voru notaðir 54 sek/l úr veitunni, en lofaðir voru 62 sek/l. Veitustjóri áætlaði að veitan ætti 65 sek/l vatns, en það var áætlað magn. Athugun leiddi í ljós, að heildarvatnsmagn veitunnar hafði ekki breyst við Suðurlandsskjálftana.

Styttist í líftímanum

Þegar hér var komið, árið 2002, nálgaðist sá tími þegar Hitaveita Laugráss og Hitaveita Reykolts sameinuðust og eins og við mátti búast höfðu menn ýmsar skoðanir á því, enda veitan í afskaplega góðu standi.  Á árinu voru haldnir undirbúningsfundir vegna fyrirhugaðrar sameiningar.  Á stjórnarfundi í nóvember voru stjórninni kynnt drög að reglugerð fyrir fyrirhugaða Biskupstungnaveitu. Sigurlaug, formaður, gerði grein fyrir vinnu sinni, Knúts Ármanns og Ragnars S Ragnarsson vegna þessa.  

Á árunum 1998 til 2000 varð 8% aukning í sölu á heitu vatni frá veitunni, en á sama tíma hækkaði orkuleigan um 17.56%, en hún fylgdi bygginavísistölu. Stjórnin kvað samsetningu notenda veitunnar vera „óheppileg(a) miðað við samninginn, vegna þess að mjög stór hluti vatnsins er seldur til gróðurhúsa. Samþykkt var að leita til oddvita Biskupstungnahrepps til endurskoðunar.“

Í aðdraganda sameiningar veitnanna var nauðsynlegt að segja upp samningi við Benedikt Skúlason hitaveitustjóra.  Stjórnin hikaði aðeins við þetta og kallaði eftir staðfestum vilja hreppsnefndar áður en af uppsögninni yrði.

Árið 2002 var sameining hitaveitnanna tveggja enn ofarlega á baugi.  Á stjórnarfundi í janúar tók stjórnin fyrir ósk Hitaveitu Iðu um að Hitaveita Laugaráss tæki veituna yfir, en því erindi var vísað til væntanlegrar stjórnar Biskupstungnaveitu.

Í byrjun febrúar var haldinn stjórnarfundur þar sem sameiningin var til umræðu. Fundinn sat öll undirbúningsnefndin auk stjórnarmanna Hitaveitu Laugaráss.

Sigurlaug óskaði eftir því að stjórnarmenn lýstu áliti sínu á sameiningarferlinu í heild.

Pétur Skarphéðinsson taldi að „öll starfsemi sveitarinnar ætti að vera með sem hagkvæmustum hætti og leit svo á að sameining veitnanna væri til þess fallin.“

Benedikt Skúlason „taldi að erfitt myndi verða að reka veiturnar hvora í sínu lagi, ef til kæmu t.d. breytingar á starfsfólki. Hinsvegar benti hann á, að ekki [hafi verið] haft samband við stjórn Hitaveitu Laugaráss, einnig að líkur væru á að þeir þyrftu að taka á sig hluta skulda Hitaveitu Reykholts.“

Sigurlaug Angantýsdóttir lýsti sig hlynnta sameiningu veitnanna og „kvaðst vona að ekki myndi halla á veitusvæði Laugaráss. Innkaup og lagerhald, starfsmannahald myndi verða hagkvæmara sameinað.“

Ingólfur Guðnason sagði það vera álit sitt „að rétt væri að sameina hinar ýmsu veitustofnanir sveitarinnar í sem hagkvæmastar einingar og taldi þessa ráðstöfun vera skynsamlega.“

Á fundi sínum í apríl, 2002, voru sameiningarmálin enn til umræðu, en hér var um að ræða síðasta fund þessara síðustu stjórnar Hitaveitu Laugaráss. Þar var samþykkt að senda út kynningu á breyttu fyrirkomulagi veitumála frá 1. júní.

„Núverandi stjórn missir umboð sitt frá og með kjördegi.“


Með þessu lýkur samantekt um Hitaveitu Laugaráss, eins og hún birtist í skráðum gögnum sem fundist hafa. Um tímabilið frá 1980 til 2002 vísast þó einnig til viðtals við Benedikt Skúlason, sem gegndi starfi gæslumanns og veitustjóra á þessu tímabili.

Uppfært 12/2023