Sigurmundur Sigurðsson (1877-1962)

héraðslæknir í Laugarási 1925-1932


Uppruni

Sigurmundur Sigurðsson stúdent 1899

Sigurmundur Sigurðsson stúdent 1899

Sigurmundur fæddist og ólst upp í Reykjavík, en rakti ættir sínar austur í hreppa. Faðir hans, Sigurður Sigurðsson, steinsmiður, fæddist á Gelti í Grímsnesi, 1840. Hann var sonur hjónanna Sigurðar Einarssonar og Ingunnar Bjarnadóttur, sem þar buggu.
Langafi Sigurmundar var Einar Einarsson bjó í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi alla ævi ásamt langömmu hans, Guðnýju Jakobsdóttur.

Sigurður, steinsmiður, fluttir úr foreldrahúsum á Gelti að Öndverðanesi í Grímsnesi og þaðan að Ormsstöðum í sömu sveit. Síðan var Sigurður á Bíldsfelli í Grafningi og giftist dóttur bóndans þar, Sigríði. Þau reistu síðan búa á Torfastöðum í sömu sveit, voru þar í eitt ár, síðan 8 ár á Hæðarenda. Árið 1874 fluttu þau síðan til Reykjavíkur. Þar reisti hann ásamt bróður sínum Bjarna, steinhús vestur í bæ sem hlaut nafnið Bræðraborg.

Sigurður var afar vandvirkur steinsmiður og því var honum falið að hlaða hina miklu vegbrún sem var í efstu beygjunni í Kömbum, þegar sá vegur var gerður og og sagði hann fyrir hvernig verkinu skyldi haga.

Síðustu árin dvaldi Sigurður hjá syni sínum, Sigurmundi í Laugarási, þá orðinn blindur. Hann lést 1931. Konu sína missti hann 1880.

Svo varð hann læknir

Sigurmundur Sigurðsson

Sigurmundur Sigurðsson

Árið 1899 sigldi Sigurmundur til Kaupmannahafnar, þar sem hann innritaðist í læknadeildina. Þar staldraði hann stutt við og kom heim um aldamótin. Lauk síðan embættisprófi 1907 og hélt að því búnu til Hafnar til framhaldsnáms.

Eftir það gerðist hann staðgöngumaður héraðslæknisins í Þingeyrarhéraði um sinn. Síðan var hann skipaður héraðslæknir á Breiðamýri árið 1908 og var þar, þar til vorið 1925, en fékk þá Grímsneshérað, með aðsetri í Laugarási, þar sem hann var til 1932. Þann 1. júní, það ár tók hann við Flateyjarhéraði á Breiðafirði, og var þar til 1934, þegar hann fékk Hólshérað (Bolungavík). Árið 1946 lét hann af embætti og fluttist suður, enda þá var hann farinn að kenna þess sjúkdóms sem leiddi hann til dauða.

Eins og sjá má af þessu gegndi hann læknisstörfum víða um land, alla sína starfsævi, í nálega 40 ár. Sum læknishéraðanna voru víðlend og torsótt yfirferðar, og fararskjótar oft á þeim árum harðgengir hestar og útbúnaður í ferðalög ekki sambærilegur við það, sem nú gerist. Sigurmundur mun oft hafa komið veðurbarinn og uppfenntur til bæja eftir löng og erfið ferðalög, ýmist gangandi eða á skíðum, enda engir bílar þá til eða hægt að koma þeim við fyrstu árin, sem hann var héraðslæknir í Reykdælahéraði. En úr þessu héraði fór hann í hérað, sem var hægt og rólegt yfirferðar, þó að oft muni hafa verið erilsamt í Hólshéraði.

Sigurmundur Sigurðsson

Sigurmundur Sigurðsson

Alls staðar mun Sigurmundur hafa stundað störf sín af kostgæfni og samvizkusemi. Hann lét sér annt um sjúklinga sína, var oft og tíðum glöggur á greiningu kvillanna, og að því loknu var hann skjótur í ályktunum, hvort heima væri unnt að veita viðeigandi hjálp eða eigi. Í einangrun og afskekktu héraði hefur mörgum héraðslækni verið það þung raun og mikið áhyggjuefni að geta eigi notið samstarfs og vinnuráðlegginga félaga sinna nema símleiðis eða bréflega, ef það var þá hægt.
(byggt að stórum hluta á minningargrein sem Ólafur Ólafsson skrifaði í Læknablaðið 1963)

Fjölskyldan

Sigurmundur kvæntist árið 1913, Kristjönu Önnu (Önnu Kristjönu) Eggertsdóttur, Jochumssonar (1894-1932). Þeim varð sjö barna auðið og þau voru:
Ástríður (1913-2003), Sigurður (1915-1999), Kristjana ( 1917-1989), Eggert Benedikt (1920-2004), Þórarinn Jón (1921-2008) og Guðrún Jósefína (1923-2017).

Fyrir átti Sigurmundur synina Ágúst (1904-1965) og Gunnar (1908-1991).

Fjölskyldumynd, sem líklegast er að tekin hafi verið þegar fjölskyldan var að flytja í Laugarás. Myndin er fengin úr bók Sigurðar: Á milli landshorna - bernsku- og æskuár, útg. 1993.
Frá vinstri: Sigurður, Sigurmundur með Eggert Benedikt, Kristjana, Anna Eggertsdóttir með Guðrúnu Jósefínu, Þórarinn Jón og Ástríður að baki.

Faðir Sigurmundar, Sigurður steinsmiður Sigurðsson, dvaldi síðsutu æviár sín í hjá fjölskyldunni í Laugarási og lést þar árið 1931, árið áður en fjölskyldan flutti frá Laugarási. Þá hafði Sigurmundur fengið veitingu fyrir Flateyjarlæknishéraði. Á meðan hann sinnti læknisstörfum í Flatey hugðist Anna reka kúabú á Þóroddsstöðum í Reykjavík (Skógarhlíð 22) og hafa börnin þar hjá sér.
Þetta fór á annan veg.

SLYS.

Það sviplega og sorglega slys vildi til á Brúarfossi, er hann fór héðan seinast vestur og norður, að á laugardagsnóttina hvarf af skipinu frú Anna Eggertsdóttir, kona Sigurmundar Sigurðssonar læknis í Flatey. Hafði hún ætlað að ganga snöggvast úr káetunni, sem þau hjónin höfðu í skipinu, og er lækninum tók að lengja eftir henni, fór hann að grenslast um hvar hún mundi vera. Fanst hún þá hvergi í skipinu, og mun hafa fallið fyrir borð og druknað. Enginn af skipverjum varð þó var við það að hún kæmi upp á þilfar.

— Anna var dóttir Eggerts Jochumssonar, bróður séra Matthíasar skálds. Eiga þau Sigurmundur læknir sjö börn, hið yngsta á fyrsta ári. Anna var mesta myndar kona, eins og hún átti ætt til, ágæt móðir og stjórnsöm húsmóðir. Munu allir, sem kynst hafa henni, sakna hennar innilega og syrgja hið sviplega fráfall henar. (Mbl. 23. ágúst, 1932)

Eftir lát Önnu fóru börnin, nema Ástríður, til föður síns í Flatey.

Minningar fá Laugarási

Kápa bókar Sigurðar Sigurmundssonar.

Kápa bókar Sigurðar Sigurmundssonar.

Sonur Sigurmundar og Önnu, Sigurður, sem var 10 ára þegar fjölskyldan flutti í Laugarás, gaf út bókina “Á milli landshorna - bernsku- og æskuár”, árið 1993, þar sem megin viðfangsefni hans er dvölin í Laugarási frá 1925-1932. Rétt er að benda áhugasömu fólki á þess bók. Hér verða einungis tilfærðar glefsur úr bókinni.

En nú kom brátt að því, að til tíðinda drægi. Við fengum að vita, móðir okkar tjáði okkur það, að faðirinn hefði sótt um annað læknishérað, Grímsneshérað í Árnessýslu með aðsetri í Laugarási í Biskupstungum. Og því væri eins víst að við flyttum þangað og færum frá Breiðumýri. (bls 47)

Svo lá ákvörðun fyrir og um fardagaleytið 1925 rann burtfarardagurinn upp. Fjölskyldan hélt til Húsavíkur og þaðan með strandferðaskipinu Esju austur um land, til Reykjavíkur, með viðkomu hér og þar á leiðinni. Þá hafði Sigurmundur farið á undan með öðru skipi. Þegar þau hittust svo í Reykjavík var Sigurmundur búinn að fara í Laugarás til að kynna sér aðstæður (millifyrirsagnir eru ritstjóra):

Pabbi var þá kominn þarna líka, en hafði farið austur að Laugarási að færa þangað vistir og rúmföt og skoða staðinn áður en flutt væri þangað. Man ég það eitt, að hann hafði orðið fyrir miklum vonbrigðum. Húsið gisið og ófullgert og útihús léleg og tæplega nýtanleg, enginn vegur, enginn sími. Yfir því öllu var enginn ævintýraljómi. Ég man að það þyrmdi yfir svip móður minnar svo að hún grét. En hér varð ekki aftur snúið. (bls. 55-56)

Svo hófst ferðin austur fyrir fjall.

En nú lá ferðin austur yfir fjall í Laugarás. Síðasti áfanginn til fyrirheitna landsins. jölskyldan var stór, við systkinin sex, með Gunnar [hálfbróður Sigurðar] sjö, og foreldrarnir og Kristín vinnukona. Bíllinn, eins og þá tíðkaðist blæjubíll, sem ekki hefði þótt boðlegur kostur nú á tímum, sjö manna far eins og Gunnar minnir, varla stenst þar sem um 10 manns var að ræða.

Og enn um hríð var haldið áfram þar til kom að járnbrú sem hún liggur yfir á, blátæra og vatnsmikla, þ.e. Brúará. Hinumegin ár er vegurinn sprengdur inn í klettaklif, en er því sleppir nam bíllinn staðar. Komið á leiðarenda. Örskammt þaðan frá er bærinn Spóastaðir, en hann var í hvarfi. Þangað var nú haldið fótgangandi. Eftir 4 - 5 mín. er komið þar í hlað. Á Spóastöðum bjó þá ekkjan Steinunn Egilsdóttir víðfræg gáfukona. Mann sinn Þorfinn Þórarinsson missti hún árið 1914. Þarna bjó hún með börn sín 3, Hildi 15 ára, Þórarin 13 ára og Egil 11 ára. Auk þess fóstursonur Valdimar Pálsson. Þegar inn var komið var okkur tjáð að Steinunn húsfreyja væri ekki heima. “Hún skrapp austur að Skálholti.” sagði síðskeggjaður öldungur sem þar sat á rúmi, Lýður Þórðarson föðurbróðir húsfreyju, áður bóndi á Eiríksbakka.

Það er annmörkum háð á sveitabæ, þegar allt í einu kemur óvænt stór hópur fólks og öllu er boðið inn. Það getur verið litlu til að tjalda, en molakaffi fengum við öll og varð gott af.
Áformað var að gista næstu nótt í Skálholti, en þangað var um hálftíma ferð. Nú þurfti marga hesta undir allt þetta fólk. En stundum vill svo til, atvikin verða svo hliðholl, að úr öllu greiðist á réttri stundu. Guðmundur Einarsson (Guddi) var þá þar kominn með hestana landveg að norðan þann sama dag og var þarna mættur á Spóastöðum. Var nú gengið í að koma öllum á hestbak.

Vegir voru þá engir milli bæja, rignt hafði mikið um vorið og lá því víða í holtum og mýrarkeldum. Engin óhöpp urðu á þessari leið. Fyrr en varði var komið heim að túni í Skálholti.

Það má nokkra undrun vekja, að biskupsetri skyldi valinn staður í Skálholti, stað sem hlýtur að teljast mjög örðugur hvað allar samgöngur snerti. Árnar Hvítá og Brúará sitt hvorum megin og blautar fúamýrar beggja vegna. Útsýni lítið nema til suðurs þar sem við blasa Vörðufell og Hestfjall. Og þarna með tröðunum heim var mýradýki sem grjótið stendur upp úr.

Nú var aðeins eftir síðasti áfanginn af hinni löngu ferð norðan úr Þingeyjarsýslu suður í Árnessýslu, stutt bæjarleið frá Skálholti að Laugarási. Er á daginn leið, voru hestar tilbúnir og var þá þar kominn og slóst í förina, Óskar Einarsson fráfarandi læknir í Grímsneshéraði. Kom hann til að afhenda staðinn og ganga frá viðskiptum.
Þegar komið var norður fyrir tún í Skálholti og stefnt í austurátt sagði faðir minn: “Þarna sjáið þið Laugarás.” Þetta var langþráð stund, enda orðin föst í minni. Þarna var þá Laugarás og bar hátt, ekki lengur þokukenndar sýnir 10 ára drengs.
Fyrir austan og neðan tún í Skálholti var keldan illfæra, sem skilu landamörk Skálholts og Laugaráss og liggur í Undapoll sem kemur úr Hvítá. Austan keldu er Söðulholt þar sem reiðverum var sprett af hestum fyrr á öldum meðan biskupar sátu staðinn. Bærinn í Laugarási stendur uppi á brún hárrar brekku en þar fyrir neðan er víðáttu og vatnsmikið hverasvæði. Þaðan stíga reykirnir hátt á loft í kyrru veðri. Leiðin frá Skálholti að Laugarási er áþekk og þaðan að Spóastöðum. Ferðin yfir mýrina gekk því fljótt yfir, þótt blaut væri með varasömum keldum. Og fyrr en varði var hópurinn allur kominn í hlað í Laugarási. (bls. 59 - 62)

Fyrsta upplifunin af Laugarási.

Þegar litast er um á hlaði í Laugarási er náttúrufegurð mikil og útsýni svo fagurt, að leitun er að öðru eins. Þar nærri, í suðvestur blasa við austurhlíðar Vörðufells. Það byrgir Hestfjalli sýn, en lengra í vestri sést Ingólfsfjall, þá Búrfell og Mosfell nær, síðan taka við Laugardalsfjöll og austast Bjarnarfell í Biskupstungum. En bakvið öll þau fjöll skín á blikandi hjarnbreiður Langjökuls. Lengra uppi á hálendinu rís Bláfell yfir byggðina og enn lengra tindar Kerlingarfjalla. “Og við austur blasir sú hin mikla mynd,” eins og segir í Gunnarshólma. Eyjafjallajökull, Þríhyrningur, Tindfjöll og Hekla þar sem hún rís í allri sinni tign og veldi. (bls. 63-64)

Guðmundur, Steinunn og Óskar

Þegar hér var komið höfðu búið í Laugarási hjónin Guðmundur Þorsteinsson frá Höfða og Steinunn Ögmundsdóttir frá Þórarinsstöðum. Þangað höfðu þau komið frá Lambastöðum í Flóa árið 1917. Af þeim var jörðin keypt sem læknisbústaður. En þegar lokið var samningum, vildi Guðmundur rifta kaupum. Hefur víst ekki gert sér grein fyrir verðmæti jarðhitans. Kaupverðið 11.000 kr. Þar varð engu um þokað þar sem allt var fært inn í veðlánabækur og afsali þinglýst 16/12 1924. En hér mun fleira hafa komið til en fjármunir einir. Laugarás er staður sem mikið aðdráttarafl hefur. Það sannast á flestum þeim, sem þar hafa átt heima. Þau munu hafa og þá sér í lagi Steinunn húsfreyja, tregað Laugarás alla tíð og þótt sem þau hafi hrökklast þaðan burtu. Og Ögmundur sonur þeirra [1913-1987], sem fór þaðan 10 ára, 1923, lét svo um mælt, eftir að við höfðum gengið þar um garða og landareign, sumarið 1981: “ En hvergi finnst mér í reynd, að ég hafi átt heima nema þar.”
Óskar læknir Einarsson sat […] einn vetur í Birtingaholti á meðan á byggingu hússins stóð og fékk hann Guðmund Þorsteinsson til að sitja jörðina einu ári lengur en hann annars ætlaði. Óskar læknir var áhugasamur um búskap og hugðist reka gott bú í Laugarási. Vorið 1923 var húsbyggingu lokið og tók hann við jörðinni, en það ár bjó þar með honum Sigurður Eiríksson síðar bóndi í Langholtskoti. En heilsa Óskars læknis leyfði ekki, að hann gæti sinnt svo erfiðu læknishéraði. Hann var því ekki nema eitt ár í viðbót- 1924-25, og sagði héraðinu lausu 1925. Hér var framtíðaráætlun hans brotin og eftirsjá hans var mikil. Hann sagði við móður mína: “Með þér hefði ég viljað búa í Laugarási.” (bls. 66)

Ekki mun húsakosturinn hafa verði neitt sérstakur.

Húsakostur var vægast sagt lélegur við komu föður míns á staðinn. Fjósið með fimm básum einstætt, svo lélegt að ekki þótti fært að hafa kýr í því um veturinn, síðar breytt í hesthús. Hlaðan lítil tók um 200 h.b. auk þess þar austar heygarður. Gamalt eldhús stórt og skemma þar austur af. Bærinn, besta húsið hafði illu heilli verið rifinn og seldur í burtu. Norður á túni var hestarétt og suður í túnjaðri lambhús. (bls. 68)

Vonbrigði Sigurmundar

(1926) En nú var komin upp sú staða, að óvíst var hvort við yrðum áfram í Laugarási. Faðir minn hafði orðið fyrir vonbrigðum með viðtökur í héraðinu. Honum var tekið fremur fálega. Það var að honum, á ýmsan hátt, þrengt. Fleiri læknar voru í sýslunni sem skorti svigrúm. Það kom fleira til. Í Reykdælahéraði hafði enn ekki verið skipaður læknir, Haraldur Jónsson aðeins verið settur. Og nú vildu Reykdælir ólmir fá hann aftur. Það varð úr, að hann sótti um Reykdælahérað aftur og var skipaður. En ekkert varð úr för norður aftur, slíkt var ókleyft eins og á stóð og hefði riðið öllum fjárhag að fullu. Þessu lauk svo með því, að honum var aftur veitt Grímsneshérað.
En á skammri stund skipast veður í lofti. Honum þótti sem sér væri nauðsynlegt að fá einhverja endurnýjun í starfi og fór því til Danmerkur til starfs þar á sjúkrahúsum sumarlangt. Að sjálfsögðu varð að fá annan mann til læknisþjónustu á meðan, í fjarveru hans. Til þess réðist þá ungur læknastúdent, Magnús Ágústsson frá Birtingaholti, þá enn ekki útskrifaður. (bls. 73-74)

Síminn kemur og vegur í augsýn

En eitt var það sumarið 1927 sem breytti lífinu og var merkur atburður í sögu hins einangraða læknisseturs. Þetta ár hafði verið ákveðið að leggja síma frá Minniborg um Mosfell og upp að Torfastöðum, með hiðarlínu í Laugarás, svo héraðsbúar gætu haft samband við lækni sinn. Í línunni lentu Spóastaðir og Skálholt. Það var nýstárlegt að sjá stauraröðina rísa á holtunum að Laugarási og heyra fyrstu hringingu, sem boð um nýja tíma tæknivæðingar. Einhver byrjun á vegagerð norðan við Skálholt var þá hafin, sem vísir að því sem koma skyldi en hann var svo mjór að lítið tók út fyrir hjólaför hestvagna. (bls. 82)

Enn var hugað að brottför

(1929) En nú, að mér fannst, voru slæm tíðindi í nánd og dökkar blikur á lofti. Það má furðu gegna hvað læknar gátu verið bráðlátir að sækja um önnur læknishéruð og það án nokkurrar fyrirhyggju. Pabbi hafði nú sótt um Keflavíkurhérað sem var laust til umsóknar, og sagði því lausu sínu héraði. Hann fékk ekki Keflavík, Jónas Jónsson var þá enn við völd. Og samkvæmt sögn hans sjálfs, hefði ekki sá læknir sem sótti um héraðið, dregið sig til baka, mundi hann hafa staðið uppi embættis- og vegalaus. Hættan var liðin hjá, verunni í Laugarási var ekki lokið. (bls. 103)

Vegavinna

(1930) Þetta vor var nokkuð unnið í veginu frá Spóastöðum að Skálholti. Nú varð það vinnuflokkur frá Stokkseyri sem tók það að sér. Engir voru þar frá bæjum í Skálholtssókn. En pabbi hafði það mikinn áhuga fyrir verkinu að hann vildi senda mig þangað og var ég fús til þess. Keyrð var möl á hestvögnum til ofaníburðar og var ég þar “kúskur” eins og kallað var. Verkstjórinn hét Bjarni Brynjólfsson og unglingspiltur, Svanþór Jónsson, man ekki fleiri nöfn. Man ég að þeim þótti bændurnir áhugalitlir um verkið, að pabbi væri sá eini sem sýndi áhuga á málinu. Ég hef víst verið sama sinnis þó ungur væri, og fór þreyttur heim á kvöldin að sofa. Þessa er ekki síst getið vegna þess, að um morguninn var mér sagt, að um kvöldið hefði ég verið kominn sofandi fram á gólf og farið að strjúka sængina og sagt: “Ég er að slétta veginn.” Var ég látinn fara aftur upp í rúm. (bls. 110)

Breyting í loftinu

(1931) Það hvarflaði ekki að föður mínum þetta vor að sækja um annað læknishérað. Nú var hann með fullan hugann af ræktunar- og búskaparhug. Hann sá móana í holtinu bjóða sig fram og í anda túnið breiðast út.

Hann hugðist því fjölga fénu og stækka hlöðu og fjárhús norður í Langholti, um helming.

Það lá einhver breyting í loftinu, einhverra tíðinda var að vænta.

En þegar ræða skyldi við pabba um framhaldið [vinna við húsin í Langholti] var hann óákveðinn og varð fátt um svör.


Og þar kom að við […] yrðum að vita um áframhaldið, pabbi væri að líkindum hættur við allt saman, ég yrði að fá úr því skorið. Ég fór því á hans fund og spurði ákveðið, hvort ætti að vinna þarna áfram eða ekki. Honum varð tregt um svar. Ég sá að hann var beygður en ekki bugaður. Þar til loks hann segir á þá leið, að vera yrði svo að því væri lokið. Og þar með var sagan öll. (bls. 137-139)

Þóroddstaðir við Öskjuhlíð - hugað að brottför

Reykjavík hefur löngum búið yfir aðdráttarafli, dregið að sér fólk af landsbyggðinni, sem hugðist bregða búi í sveit og flytja til borgar. Einkum voru það konur sem hugðu þar betra að lifa, sem svo reyndist oft á tíðum hillingar einar og tálsýnir vera.
Þegar á vorið leið fór móðir mín til Reykjavíkur, sem hún við og við gerði og dvaldi þá í nokkra daga að gera innkaup til heimilis og hitta kunningja. Í þeirri ferð fréttir hún að til sölu væri býli þar í Reykjavík - Þóroddsstaðir við Öskjuhlíð.

Hún sá þetta í einhverjum dýrðarljóma án nokkurs raunsæis, en hafði ekki að baki sér neina reynslu á sviði viðskiptamála. Þar dugðu engar ábendingar né aðvaranir kunningja og vina. Það varð engin ástæða fundin sem ýtti á eftir því að farið yrði frá Laugarási að svo komnu máli. Það mætti segja, að þar hafi hún lifað bestu ár ævi sinnar og enginn vissi til annars en hún yndi sér þar vel. Einnig átti hún góðar nágrannakonur að vinum, þar sem hún var líka aðalstofnandi og formaður kvenfélags sveitarinnar.

Hún áleit, eins og fleiri, að auðveldara væri að mennta börnin þegar til Reykjavíkur væri komið. Hún mun hafa séð að framtíðin gat ekki verið mörkuð í Laugarási yfir lengri tíma, þar sem að líka pabbi var kominn á þann aldur, 55 ára, og ferðalög hefðu orðið honum ofviða um víðlent hérað. Auk þess ber að geta þess sem hér vegur þungt, að með láti afa míns féll þeim í skaut arfafé, sem hér verður ekki tíundað frekar.
….
Geta ber þess að nú, að 7 árum liðnum átti hún barn í vændum.

En ekki hefur verið þrautalaus gangan gegn vilja pabba því að hún hafði ríka samúð með honum og skildi afstöðu hans. Hún bar bæði þann virðuleik og festu í framkomu, að hún deildi ekki við aðra, en yfirveguð orð hennar voru þung á metum, en þrátt fyrir það gat hún sefað hið ótamda, ólgandi skap hans. En hann var vandur að virðingu sinni, hafði hlotið menntun sína í lærða skóla 19. aldar. Hún benti jafnan okkur börnunum á, að meta hann og virða, þoldi ekki að á hann væri hallað. Hún bar þá persónu, þótt ómenntuð væri, að hann vildi ekki og gat ekki staðið gegn henni. Hann vildi ekki gríða til þeirra örþrifaráða sem alger uppgjöf hefði haft í för með sér (að því er hann sagði síðar). En ekki fækkaði ferðum hans austur á holtið að horfa yfir slétturnar. Hún horfði á eftir honum og leið önn fyrir hann. (bls 139-140)

Viðhorf Sigurðar til þess arna.

En hvað um viðhorf hans sjálfs gagnvart þeim atburðum sem hér um ræðir?
Ævintýrið vakti ekki hrifningu hans, og lítt var vitað um þær hugrenningar sem innra með honum bærðust. Hann var, á þeim árum, ekki fyrir að bera hug sinn á torg. En afstaða hans duldist þó engum. Hann skynjaði að nú var teningunum kastað. Það syrti að í huga hans, orða hans og andstaða yrðu léttvæg fundin. En norður á Langholti stóð opin og yfirgefin hlöðutóft sem talandi tákn um ósigur sem ekki varð umflúinn. (bls. 141)

Flestir hugðu gott til þeirra breytinga sem í vændum voru, yfir þeim var einhver hillingaljómi. En í huga mér olli burtförin dimmum skugga, sem þyngdist æ meir eftir því sem nær dró. (bls. 154)

Læknir á krossgötum

Dagarnir mjökuðust áfram og örlögin spunnu sinn vef. Þau urðu ekki umflúin. En eitt var það, sem enn var óútkljáð. Bústaðaskiptin höfðu það í för með sér, að nú varð það hlutskipti föður míns að verða viðskila við fjölskylduna. Hann varð að halda sínu starfi. Hann hafði orðið undan að láta, en síðasta hálmstrá hans var, að reyna að halda læknishéraðinu áfram. Hann gerði tilraun til þess að leigja öðrum jörðina, sitja þar og þjóna áfram. Það bar, að vonum engan árangur. Því sótti hann um Flateyjarhérað á Breiðafirði og fékk veitingu fyrir því frá 1. júní [1932]. (bls. 158)

Laugarás kvaddur

Næst lá fyrir að leggja á stað úr hlaði. Það voru síðustu sporin frá Laugarási að Spóastöðum. Höf. þessara lína hefur ekki borið höfuðið hátt, þetta voru þyngstu sporin, sem hann enn hafði stigið og ætti ekki eftir að stíga önnur þyngri. Þegar kom yfir mýrina að vegarenda, nemur hann staðar og lítur yfir þá jörð þar sem æskuspor hans hafa legið í 7 ár. Laugarás hafði ekki brugðist bernskuhugsjónum hans.

Og þarna gat að líta hlöðutóftina á hólnum sem beið þess, að hrynja saman með árunum og verða að grasigróinni laut sem geymir minningar um þá dapurlegu sögu sem hér hafði gerst. Og hann heyrist segja: ,,Þetta er ógæfuspor sem aldrei verður aftur tekið.” (bls. 161)

Skrif Sigurmundar

Sigurmundur kom vel fyrir sig orði í rituðum texta og nokkra er að finna í blöðum og ritum. Hér eru tekin tvö dæmi um texta sem hann ritaði; báðir birtust í Læknablaðinu árið 1927, þegar Sigurmundur var læknir í Laugarási, en þeir taka á harla ólíkum málum.
Í þeim fyrri fjallar hann um hagsmunamál læknastéttarinnar, tilveru læknafélagsins og leigu á læknabústöðum til sveita, en sá þáttur er birtur hér fyrir neðan.
Í síðari textanum sem hér er birtur fjallar Sigurmundur um læknisfræðilega aðgerð og skráir birtir sjúkrasögu sem henni tengist.

Um leigu á læknisbústöðum til sveita.

Ennfremur vildi ég biðja hið heiðraða Læknablað um rúm fyrir greinarkorn um þetta mál, og frásögn um einn slíkan leigusamning. Er sú frásögn í aðalatriðum lík þeirri, er send var til Stjórnarráðsins í febr. síðastl., en nokkuð fyllri þó.

Vorið 1925 flutti ég til Grímsneshéraðs, að Laugarási frá Breiðumýri í Suður-Þingeyjarsýslu; hafði ég dvalið þar í fjölda ára, samfleytt. Um haustið 1925 komu oddvitar allra hreppa læknishéraðsins að Laugarási, í því skyni, að semja við mig um leigu eftir læknisbústaðinn, hús hitað með hveragufu, jarðarafnot o. fl. Hafði ég sótt um þetta hérað mest vegna hitunarinnar, sem að landfleyg var orðin og mjög látið af.

Enda þótt oddvitarnir viðurkendu, að ýmislegt væri í ólagi, sérstaklega hitunin, sögðust þeir samt ekki treysta sér til annars en gera þá kröfu, að leigan yrði látin hækka æðimikið frá því, sem verið hafði hjá fyrirrennara mínum. Krafa þeirra var, að ég næstu árin borgaði árlega 1900 kr. samtals fyrir öll þægindin; í þessu eru talin 10 skyldudagsverk eða þeirra verð. Þetta er næstum helmingur minna föstu launa. Þó skal þess getið, að það ár (1925, flutningsár mitt), var ekki krafist, að ég borgaði meira en 1625 kr., og gerði engin skyldudagsverk. Á móti var því lofað, að það, sem var í ólagi við hitun hússins og matarsuðu, skyldi verða komið í sæmilegt lag fyrir næsta nýár, 1. jan. 1926, svo framarlega að frost í jörðu hindraði ekki slíkar aðgerðir. Mér þótti þetta í rauninni meiningarlaust gjald, og lét það í ljósi, benti á niðurníðslu jarðarinnar, ólagið á hituninni o. fl., lét þó að lokum þar við sitja, með því að ég þekti lítið héraðið, praxis í því o. s. frv.

Þá var ástandið á hitun hússins á þessa leið: í aðalstofunum voru ekki venjulegir gormofnar, heldur voru í þeirra stað járnhylki, svipuð í lögun áhöldum þeim, sem notuð eru til þess að láta nemendur fljóta, við sundkenslu; voru áhöld þessi lóðuð saman á hornum og hliðum; var lóðun sú jafnan að bila. Streymdi þá hveragufan inn í stofurnar, og fylgdi því fúl hveralykt, svo að varla varð vært inni; alt það, sem var úr málmi í stofunum litaðist svart. Í öðrum stofum voru ofnar af betri gerð, en sumir þeirra voru stíflaðir og því ónothæfir, og við það fékst ekki gert þá; einn til tveir ofnar máttu kallast sæmilegir, að öðru leyti en því, að þeir voru ekki megnugir þess að hita stofurnar, ef vindur stóð á glugga; þeir voru einfaldir of stórir og þurfti því mikið til. Þegar frost var, kom alls enginn hverahiti í húsið. Varð þá heimilisfólkið að hafast við í eldhúsinu; en þar eldavél. Brent var kolum og olíu, er ég lagði sjálfur til. Var, eins og gefur að skilja, ekkert skemtileg æfi að þurfa að húka þar heila daga, því að húsið var afar kalt, og ekki líft í því annarsstaðar en þar sem hitað er. Hér við bættist, að gólfið í eldhúsinu er svo illa steypt, að í því eru stórar grópir eða gryfjur; verður því að fara varlega, til þess að forðast fall á steingólfinu, sem gæti orðið skaðlegt eða óþægilegt að minsta kosti. Matinn varð að elda úti allan veturinn, við hveragufu, þegar hana var að hafa, annars á eldavélinni. Húsið er ekki alveg fullgert enn. Er það var bygt, hefir viðurinn sennilega ekki verið nógu vel þur, ber því æðimikið á því, að þiljur hafi glenst sundur, við það, að viðurinn hefir þornað síðar, sömuleiðis samsettar hurðir. Er bráð þörf á, að þetta sé lagfært. Hver á að gera það? Líklega ekki leigjandi, en það má búast við því, að það dragist lengur en góðu hófi gegnir, ef aðrir aðiljar eiga að annast það.

Jörðin er með afbrigðum niðurnídd, svo að ekki verður komist hjá að taka jarðræktarlán til byggingar gripahúsa og annara jarðabóta, má þykja gott, ef hægt er að venda í það hornið, en afgjaldið hlýtur að hækka enn við það. Engin uppskera úr matjurtagörðum, vegna kartöflusýki. Praxis reyndist einkennilega lítill, eftir fólksfjölda í héraðinu, og veldur því að nokkru Hvítá, sem er oft ófær yfirferðar, og því mikill farartálmi, ennfremur símaleysi á læknissetrinu og í héraðinu. En miklar líkur eru á því, að það breytist á næstunni. Illir vegir til heimreiðar eða réttara algerðar vegleysur. Jörðin lítil og engið þannig, að það getur ekki borið sig að taka dýrt kaupstaðarfólk til að vinna þar, þó að það sé gert. En jarðræktarmöguleikar eru einir hinir bestu, sem ég hefi séð hér á landi. Það má vel vera, að ég hefði með harðneskju eða algerðri neitun getað fengið þetta lækkað að mun, en ég vildi það ekki; vildi ekki beita því, vegna þess, að ég vissi líka og fann á öllu, að héraðsbúar eru í miklum fjárhagsvandræðum með þennan eða vegna þessa læknisbústaðar. En mér var það strax ljóst, að við þessi kjör var óráð fyrir mig að una og best að fara hið fyrsta, — eiginlega sjálfgefið að fara strax, ella myndi ég sleppa illa. Auk hins umgetna leigugjalds kostar undir hver 100 kíló flutt úr kaupstað, kr. 10.00, að minsta kosti. Ennfremur leit ég þannig á, að jörðin væri fremur fyrir yngri mann, er hneigður væri til búskapar, því að hér er ærið starf fyrir slíkan mann, og að sumu leyti skemtilegt starf, en það er nokkuð erfitt og dýrt, hann þarf því helst að sitja hér lengi, helst alla sína embættistíð, til þess að geta notið ávaxtanna af erfiði sínu.

Héruð voru nokkur laus, mér fanst ekkert þeirra sérstakt keppikefli. Að íhuguðu þessu máli tók ég til þess bragðs, að sækja aftur um mitt gamla hérað, Reykdælahérað, með því að það var óveitt. Ég var að vísu mjög óánægður með það, eins og gefur að skilja; taldi það örþrifaráð. En ég vissi ekki hve lengi ég yrði að bíða hér eftir héraði, sem ég gerði mig ánægðan með. Ég hafði flúið erfiðleika, og að sækja í þá aftur, var ekkert gaman, en ég hugsaði mér að nota nú önnur ferðatæki en ég hafði áður notað þar, meira sleða, og hafa hann með sérstöku sniði o. s. frv. Þetta var því næst afráðið. Skrifaði ég þá fyrst einum oddvitanum um þetta, hér í Grímsneshéraði, að ég færi, ef ekki yrði lækkað þetta háa gjald og það lagað við hitunina, er mest vantaði. Svar frá honum kom nokkuð seint, hafði ég þá fengið aftur veitingu fyrir mínu gamla héraði. Það var meðal annars það, sem að nokkru réði um þetta, að þó að eitthvað yrði lagað í Laugarási, þá var það ótvírætt gefið í skyn, að ofna yrði varla skift um, vegna þess, að venjulegir gormofnar væru svo dýrir, að ég gat enga von gert mér um að þetta yrði í nokkru lagi með því móti. Ennfremur hafði ekki verið neitt gert til þess að lagfæra hitaleiðsluna fyrir áramót 1926, enda þótt jörð væri þá, og hefði verið, frostlaus. Hafði því þó verið lofað, eins og vikið var að.

Mér bauðst tækifæri til þess að dvelja í alt sumar á Amtssjúkrahúsinu í Árósum; ég hafnaði ekki því tækifæri, hvað sem öðru leið. Þegar ég kom þaðan, seint í október, var í þann veginn verið að ljúka við að leggja nýja hitaleiðslu í húsið. Hafði verið fenginn til þessa verkfræðingur í Reykjavik; taldi hann hið gamla lag, með hveragufuhitun, úr sögunni; hana eiga enga framtíð. Gömlu ofnarnir urðu að víkja, og í staðinn komu venjulegir miðstöðvarofnar. Er nú leitt um húsið vatn, sem hitað er í einum hvernum; fer þetta ágætlega. Sömuleiðis er nú hægt að elda matinn inni, við hveragufu. Er það án efa mest að þakka þessum verkfræðingi, í hve gott horf þetta er nú komið. Ég hafði fengið leyfi til þess að sitja í Grímsneshéraði til vors 1927, vegna þess, hve erfitt var að hafa jarðaskifti, þegar komið er langt fram á vor, einkum vegna hjúahalds og ávinslu, því að Reykdælahérað hafði verið auglýst svo seint til umsóknar og þar af leiðandi veitt svo seint að vorinu. Ég var ráðinn í því að fara norður aftur, hvað sem á dagana drifi, nema því aðeins, að eitthvert það hérað losnaði, er ég vildi fá og sækja um, vegna þess, að ég var viss um það, að efnalega myndi ég græða á því, að fara héðan aftur norður; kostnaðinn myndi ég brátt vinna upp aftur við flutninginn, en aðstaða mín góð þar, að öðru en því, er ég hafði flúið fyrir, - örðugleikana við ferðir á vetrum, sem ég hugsaði mér að gera léttbærari á þann hátt, er fyr er getið. Og þar ætlaði ég að sitja, meðan ég væri þjónandi læknir í landinu. Þó að ég léti það í ljósi við einhverja kunningja mína hér, sem gjarna vildu að ég færi hvergi, að skeð gæti, að ég sækti aftur um þetta hérað, þá var það aldrei alvara mín. Áður en ég fór að norðan, var ég tekinn að finna til lúagigtar í vinstri öxl og fæti. Hafði ég lítið með þetta gert, en það hefir haldið áfram að ágerast, og þreytt mig þannig í vetur, að kjarkur minn til þess að fara norður aftur og þjóna þar, er alveg bilaður. Ég hefi því ekki séð mér annan kost færan, en að sækja um að fá að sitja kyr hér, því að mínar efnahagsástæður eru ekki slíkar, að ég sjái mér fært að hætta starfi, enda maður enn á besta aldri, sem kallað er. Ég býst að vísu við því, að þetta myndi skána, ef ég tæki mér algerða hvíld og hefði nuddlækning. En ég þori ekki, fyrst svo er komið, að gera tilraun til þess að þjóna Reykdælahéraði aftur, því að hvernig sem í pottinn er búið með farartæki, þá á læknir þar jafnan á hættu að þurfa að ganga, ef svo ber undir, og vegalengdirnar þar eru ekki fyrir aðra en óbilaða.

Nú sit ég hér eitthvað í því trausti, að mér takist að fá árgjaldið lækkað töluvert; annars get ég ekki lifað hér sómasamlega, með öllum þeim tilkostnaði, er staðurinn þarf nauðsynlega sér til viðreisnar. Dýrtíðaruppbót hefir lækkað að miklum mun. Ég hugsa ekki til þess með neinni ánægju, bæði vegna þessara umgetnu erfiðleika með gjaldið, og svo er hérað þetta fremur erfitt og illir vegir. Ég á því von á því, að gigtin verði mér illur óvinur, jafnvel hér, enda þótt ferðalög séu hér alt öðru vísi og mun léttari en norðurfrá. Aðstaðan skánar og nokkuð, ef sími kemur í sumar á læknissetrið, sem nokkrar líkur eru til.

Náttúrufegurð er hér mikil, og þægindi að hverunum, önnur en að hita húsið; er sú hitun og matarsuðan nú í besta lagi, eins og drepið hefir verið á. Er það mikil bót. En engin þægindi eru slík, að ekki megi selja þau of háu verði.

Þetta óhæfilega háa eftirgiald, um 100 kílóm. frá verslunarstaðnum, vil ég svo minnast enn á fáeinum orðum. Það var ekki af óvilja til mín, að oddvitarnir gerðu þessa háu kröfu um gjaldið. Þeir fundu það sjálfir, að hún var alt of há, og fólkið í héraðinu fann það líka og blöskraði; ég býst því við, að þeir telji sig knúða til þess að lækka gjaldið töluvert, en ósamið er um það enn. Það ráð hefir verið tekið hér, eins og í sumum nágrannalöndum, að héruðin hafa verið látin byggja og annast um læknabústaðina. En þetta ætlar að verða sumum héruðum slíkur baggi, að þau stynja mjög undir og telja sig ekki fær um að bera hann, með allri annarri skuldasúpu; án efa er eitthvað hæft í því, að erfitt muni þetta vera. Menn ruku í það að koma þessum byggingum upp, þegar alt var í mesta geipiverðinu, alt er keypt yfir venjulegu sannvirði, fellur síðan aftur í verði, en skuldasúpan sú sama eftir. Þeir segjast ómögulega geta lækkað þetta gjald hér, nema með því móti, að eitthvað verði gefið eftir af skuldum þeim, sem hvíla á læknisbústaðnum. Þeir sjá það að vísu, að ekki dugar að skrúfa lækninn til að borga meira en hann er fær um og sanngjarnt er, enda hafa þeir lofað að gera hvað þeir gætu, til þess að létta á honum, ella óttast þeir, að þeir geti engum lækni haldið hjá sér. Þessi læknabústaðarmál, eins og þeim er nú varið, þarf og ber Læknafélagi Íslands að taka til meðferðar. Hér hefir það eitt mikilvægt verkefni meðal margra annara.

Laugarási, í mars 1927. Sigurm. Sigurðsson.

Hér er svo síðari textinn sem tekinn er sem dæmi um skrif Sigurmundar.

Tracheotomia superior eða inferior á ungbörnum, vegna croup
[Sýking í barkakýli, barka og berkjum sem koma aðallega fram hjá börnum].

Hvenær gera eigi tracheotomia superior og hvenær inferior, ber kenslubókum í handlækningum ekki alveg saman um. Þó má segja, að nýrri kenslubókum beri saman um það, að superior eigi að gera á fullorðnum, en inferior á börnum. Býst ég við, að það sé nú orðið lagt til grundvallar við kenslu. En í gamla daga var áherslan lögð á að læra að gera superior; hún talin venjulega aðferðin og æfð á líkum. Fyrir viðvaninga var það eins og talið sjálfsagt að gera superior. Mig langar til að segja hér eina stutta sjúkrasögu, er fyrir mig bar nýlega.

Maður kemur til mín, og biður mig að koma með sér. Hann segir að börnin sín, 4 talsins, hafi undanfarið verið meira og minna lasin og kvartað um í hálsinum, og sjálfur hafi hann ekki verið frí. Flestum sé nú batnað, en á yngsta barninu hafi í morgun sést hvít skóf á úfnum. Þangað er 3—4 klukkustunda reið frá heimili mínu. Þegar þar kemur, virðast börnin hálflasin, föl og magnlítil, en ekkert sést í hálsi eldri barnanna, nema rauðar og stórar tonsillur [hálskirtlar] á einu þeirra. Hið yngsta 15—16 mánaða gamalt stúlkubarn, hafði difteriskóf [skóf vegna sýkingar tiltekinnar bakteríu] á báðum tonsillum, en enga á úfnum. Sótthiti enginn. Ég gaf barninu 12000 i. e. utanvert í lærvöðva, því sem hafði rauðar tonsillur 8000 i. e., og hin 2 fengu hvort um sig 1000 i. e., fyrir bænastað móðurinnar. Fór ég því næst heim og skipaði fyrir að láta mig vita, ef breyting yrði á, til þess lakara, og að gæta í hálsinn á barninu, til þess að sjá hvort eða hvenær skófin losnaði.

Daginn eftir er komið til mín með bréf þess efnis, að barnið sé lakara. Er komið undir kvöld, er ég kem þar í annað sinn. Barnið hefir nú fengið greinilegan stridor [mæði og surg bæði við inn- og útöndun], án þess þó að segja megi, að það eigi mjög erfitt. Heimilisfaðirinn ekki heima þá; auk móðurinnar og barnanna eru á heimilinu gömul hjón og unglingspiltur. Mér leist ekki þannig á, að svo ungt barn, með svo greinilegan stridor myndi lifa af nóttina, er í hönd fór, ef ekki yrði eitthvað til bragðs tekið. Sendi ég til næsta bæjar eftir manni, er mér þótt líklegur til aðstoðar. Á meðan sauð ég áhöld mín. Þegar gesturinn var kominn, lét ég hann gæta og viðhalda svæfingu (chloroform), eftir að ég hafði fyrst gefið nokkra dropa. Gamli maðurinn hélt á lampanum, en unglingsmaðurinn studdi við barnið. Lampinn var slæmur; kveikinn mátti lítið skrúfa. Undirbý ég því næst þetta eins og venja er til, þvæ mér, joða hálsinn o. s. frv.

Ætlaði mér að gera tracheot. super., og byrjaði því húðskurð við incisura carthil. thyroid. Þegar ég hafði gert hann, og tók að þukla eftir einstökum hlutum barkans, varð mér það strax ljóst, að erfiðlega myndi ganga, að átta sig á svo lítilli og mjórri barkapípu; sérstaklega var mér nauðsyn að vita með vissu, hvar cartilago cricoidea var, sem oftast gengur vel á t. d. 3ja mánaða börnum; hér var ég mjög í óvissu.

Ég lengdi því húðskurðinn niður undir jugulum [neðri hluti háls, að framan], í því skyni, að gera tracheot. inferior. Mér gekk ágætalega og á skömmum tíma, að komast þar inn á barkann milli fremri hálsvöðva; gland. thyroid [skjaldkirtill]. lyft upp á við og barkinn lá fyrir, til þess að opna hann. Mikinn óleik gerði það mér nú, hvað birtan var slæm, en þó hjálpaði það nokkuð, er við höfðum fengið lítinn vegglampa í viðbót. Við svo slæma birtu var erfitt að gera lengdarskurð nákvæmlega í miðlínu á svo mjórri pípu, en þar hjálpar ágætlega hinn litli, skarpi tracheotomi-haki, er stungið er inn á milli hringanna í fremri vegg barkans, og honum þannig lyft upp. Þegar gert hefir verið barkagatið, gengur vel að koma pípunni inn, og öndunin verður alveg óhindruð og létt.

Föðurnum er síðan fengið barnið til umsjónar, — hann kom heim um nóttina, — falið að taka út innri pípuna og hreinsa hana, þegar með þyrfti. Hafði sárið verið saumað saman aftur að ofan og neðan við pípuna. Áður en ég fór, sprautaði ég 8000 i. e. í lærið utanvert, til viðbótar. Fór ég því næst á næsta bæ til gistingar. Daginn eftir leið barninu vel. Skófin virtist byrja að losna af tonsill. Enn fékk það inj. í vöðva, 4000 i. e.; samtals hafði það því fengið 24000 i. e.

Á 5. sólarhring frá því að barkaskurður var gerður, kom ég aftur til þess að taka pípuna. Eftir það andaði barnið strax ágætlega um nefið. Sárið að mestu gróið, án nokkurrar ylgju eða roða, og þeir saumar, er eftir voru, teknir. Vona að örið verði ekki áberandi með tímanum. Síðan pípan var tekin úr hálsinum, er nú full vika, og barninu líður ágætlega og hinum börnunum líka.

Ég set ekki þessa sjúkrasögu hér af því, að nokkuð sé nýtt í henni, eins og hún ber með sér. Aðstaða mín þarna er svipuð þeirri, sem alstaðar getur komið fyrir á landinu, en það er, býst ég ekki við, svo oft, að gerður sé barkaskurður vegna croups, á rúmlega ársgömlu barni, því að talið hefir verið, að þau væru minna næm en eldri börn, í hverju sem það liggur, og þó að ólíklegt sé. En það er þetta, sem ég vildi með þessu benda á, hvað tracheot. inferior virðist vera auðveld aðgerð á ungum börnum; það er stutt leið inn á barkann, og engin hætta á, að vilst verði inn í vöðva, bilið er þarna svo breitt milli hálsvöðvanna að framan, ekki mikil hætta á, að ekki sé hægt að komast að barkanum miðjum. Gland. thyroid. er sem ekkert fyrir, og minni hætta á, að hún skaddist en við tracheot. superior. Það blæddi hér sama sem ekkert, og ekki þurfti því að binda fyrir nokkra æð. Ennfremur er því haldið fram, að minna beri hér á óreglu og óþægindum, eftir að pípan er tekin, en við tr. sup., af því að hér liggur pípan svo miklu fjær larynx og raddböndunum. Svo er það þetta atriði, að þegar barnið er mjög ungt og barkinn mjór, þá er svo erfitt að átta sig á einstökum hlutum eða einkennum barkans við tr. superior, eins og skeði hjá mér í þetta skifti; við tracheot. inferior kemur þetta síður til greina.

Laugarási, í mars 1927. Sigurm. Sigurðsson.