Búnaður og tæki

“... og tækin voru ryðgaður vasahnífur og ónýtt blóðþrýstitæki”
— Ólafur Ólafsson, landlæknir í ávarpi við víglsu heilsugæslustöðvar í Laugarási í júní 1997

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær breytingar sem hafa orðið að allskyns búnaði og tækjum sem læknum og starfsfólki innan heilbrigðisgeirans hafa staðið til boða til að ná sem mestum árangri í störfum sínum. Hér verður ekki fjölyrt um einstök lækningatæki eða búnað, heldur látið duga að taka saman þær upplýsingar sem koma fram í fundargerðum oddvitanefndar, frá 1935 og fram undir síðustu aldamót.

Lengi framan af er ekki minnst á lækningatæki eða búnað á læknissetrinu og ekkert slíkt var að finna þegar Ólafur Einarsson læknir lét af störfum 1947 og eignir hans á jörðinni voru metnar til peningaverðs. Ekki verður önnur ályktun dregin af því, en að læknirinn hafi sjálfur átt þau tæki og þann búnað sem hann þurfti vegna starfs síns.

Læknishéraðið sá héraðslækni fyrir húsnæði og viðhaldi á því, gegn leigu og, að því er virðist, ekkert umfram það.

Apótek flutt
Á aðalfundi héraðsins 1950, er ákvörðun tekin um “að færa eldhúsið upp á hæðina og apótekið niður. Er þessi breyting nauðsynleg meðal annars svo að unnt sé að hafa sjúkrastofu í húsinu, ef nauðsyn krefur.” Útgjöld sem þessu tóku á létta sjóði hreppanna og lántökur nauðsynlegar til að standa undir þeim.

Jeppabíll læknis
Héraðslækni þurfti, þegar vegasamgöngur fóru batnandi að kaupa sér bíl til að nota í læknisvitjanir og árið 1951 er greint frá því í fundargerð að beiðni hafi komið frá héraðslækni “um ábyrgð allt að kr. 30.000 til þess að hann geti keypt nýjan jeppabíl, sem honum hefur verið úthlutað.”

Rafstöð
Árið 1952 samþykkti oddvitanefndin að taka ábyrgð á láni sem héraðslæknirinn, Knútur Kristinsson, hugðist taka vegna nýrrar rafstöðvar. Rafmagn hefur hann þurft vegna lýsingar í sjúkrastofu, en varla vegna rafknúins búnaðar. Hann þurfti hinsvegar að kaupa rafstöðina sjálfur.
Rafmagn kom í Laugarás árið 1956, ári fyrr en brúin á Hvítá, en árin áður hafði talsvert verið deilt um það hvort skyldi fyrr koma, brúin eða rafmagnið.

Röntgenherbergi á sjötta áratugnum.

Gegnumlýsingartæki
Það var svo árið 1957, á janúarfundi oddvitanna að héraðslæknirinn, sem þá var Grímur Jónsson, kom á fundinn og lagði fram tillögu um, “að héraðið keypti þýsk gegnumlýsingar- og myndatökutæki, sem fáanleg eru. Verð þeirra var, fyrir síðustu gengisbreytingar 36.600 kr. Voru oddvitar á einu máli um að slíkt tæki myndi bæta mjög heilbrigðisþjónustu héraðsins og er héraðslækni falið að gera athuganir um kaup tækjanna og gera síðar frekari ráðstafanir í samráði við formann.”

Nýtt hús búið tækjum
Árið 1964, þegar styttist í að nýr læknisbústaður yrði tekinn í notkun, var héraðslækni, sem enn var Grímur Jónsson, falið, “að semja skrá yfir þau áhöld, sem nauðsynleg teljast á lækningastofuna og mælir stjórnarnefndin með því, að þau verði talin til stofnkostnaðar byggingarinnar.”

Þegar allt var svo klárt, ræddi nefndin um hin nýju húsakynni við lækninn um búnað og húsnæði embættisins “og þótti nefndinni rétt að ganga sem best frá læknisálmunni, svo og að kaupa lítinn kæliskáp fyrir lyfjageymslu.”
Grímur læknir og fjölskylda hans bjuggu síðan í hinu nýja læknissetri til ársins 1967 og engar frekari óskir komu frá honum um búnað, sem ástæða þótti að geta um í fundargerðum.

Nýr læknir - meira af tækum.
Konráð Sigurðsson kom til starfa þegar Grímur lét af störfum. Á fundi með oddvitanefnd gat Konráð þess að hann hefði sótt um læknishéraðið, “að því tilskyldu að læknishéraðið útvegaði ýmis lækningatæki og ætti þau.
a. Nefndarmenn töldu eðlilegt að verða við þessum tilmælum eftir þvi sem aðstaða er til.
b. Þá taldi læknirinn nauðsynlegt að koma upp sjúkradagbók fyrir íbúa læknishéraðsins og óskaði eftir því að héraðið kostaði uppsetningu hennar, að stofni til.”
Þarna var nýtt uppi á teningnum.

Eftir þetta greiddi læknishéraðið fyrir tæki og búnað læknastöðvarinnar, allt þar til það varð verkefni ríkisins upp úr 1970.

Hér er gerð grein fyrir þeim tækjum og búnaði sem greint er frá í fundargerðum oddvitanefndar og stjórnar heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási til ársins 1994. Ennfremur eru tilteknar gjafir til heilsugæslustöðvarinnar, efir því sem upplýsingar hafa fundist um þær.


Nýtt læknissetur í Launrétt var búið nauðsynlegum tækjum eins og fram kemur hér fyrir ofan. Það þurfti samt að endurnýja búnað og kaupa nýjan og betri, eftir því sem árin liðu.

Sjöundi áratugurinn
Hér var unnin upp sjúkraskrá og komið fyrir í vönduðum skáp. Þá var nefnt að endurnýjaðir hefðu verið framköllunarbaukar fyrir kr. 25.000 (ca. 390.000 á núvirði (jan 2022)). Ekki er alveg ljóst hverskonar tæki er þarna um að ræða, en líklegast notuð við framköllun röntgenmynda. Þá var ákveðið að kaupa ýmsan búnað á árinu 1969 fyrir kr. 60.000 (jan 2022 -kr.800.000)

Áttundi áratugurinn
Röntgentækin sem keypt höfðu verið 1957 munu hafa verið orðin lúin og farin að bila. Þarna var fyrst gert við, en þegar ljóst var að það dygði ekki, var farið að skoða tæki til laus þegar leið á þennan áratug, en til þess þurfti að sækja um fjárveitingu. Hún fékkst undir lok áratugarins og var læknum þá falið að hefja leit að hentugu tæki til kaups.

Þar sem það var hlutverk ríkisins, þegar hér var komið, að leggja til fé til kaupa á búnaði og tækjum var sótt reglulega um fjárveitingar til kaupanna, en svo sem ekki tilgreint hvað um væri að ræða, utan þess að 1977 var keypt endurlífgunarsett og ári síðar, aðgerðabekkur.

Níundi áratugurinn
Þetta var áratugurinn þegar tæki urðu stöðugt fleiri og fjölbreyttari.

Leit að röntgentæki einkenndi fyrstu árin. Það fréttist af því að mögulega væri hægt að fá keypt 20 ára gamalt tæki frá sjúkrahúsinu á Selfossi, en þar átti kaupa nýtt. Valið var þarna um að kaupa þetta gamla tæki eða að skella sér á nýtt. Það var fenginn sérfræðingur austur til að fara yfir þessi mál. Hann “lýsti fyrst röntgentækjum fyrir heilsugæslustöðvar, svonefndum „mobiltækjum“ sem eru hreyfanleg tæki. Taldi hann það kosta 12-15 millj. í dag án baðs, framkallara ofl.  Staðall ráðuneytisins er miðaður við slík tæki, sem taka útlimamyndir og lungnamyndir. Með borði og öðrum búnaði kosti slík tæki 25-30 millj nú.”

Gamla tæki sem stóð til boða frá Selfossi mun hafa verið vandaðra en “mobil” tækið og þó það væri gamalt myndi það duga í Laugarási lengi, að mati sérfræðingsins. Niðurstaða varð um að kaupa þetta tæki, væri það enn falt. Líklegt verð átti eða vera kr. 10 millj.
Þegar var farið að skoða aðstöðuna sem tækina var ætlað reyndist hún of þröng, sem myndi kalla á breytingar á húsnæðinu og voru menn á því að láta það ekki standa í veginum. Árið 1981 reyndist rekstrarstjórn sjúkrahússins á Selfossi jákvæð fyrir því að selja tækið, þegar nýja sjúkrahúsið tæki til starfa með nýju tæki.

Það varð svo úr, eftir að Geislavarnir ríkisins gerðu ýmsar athugasemdir varðandi ástand röntgentækis stöðvarinnar og umbúnað þess, að ákveðið var að falla frá kaupum á Selfosstækinu og kaupa nýtt tæki. Nýja tækið sem keypt var 1983, kostaði um kr. 320.000 og árið eftir er greint frá því að það hefði verið tekið í notkun.

Með því að meinatæknir tók til starfa á stöðinni þurfti að útvega ýmis tæki fyrir hann, meðal þessara tækja var blóðskilvinda.

Á aðalfundi stöðvarinnar 1984 lagði starfsfólk fram óskir um tæki og búnað sem það taldi að útvega þyrfti. Hér er listi yfir það helsta sem nefnt var: Ný innrétting í barnaskoðunarherbergi, bætt aðstaða á biðstofu, diktafónn, sótthreinsunarpottur, skrifborð, ný ritvél, peningakassi í lyfjasölu, verkfæri til aðgerða, skápur fyrir röntgenmyndir, aðgerðarlampi, hjólaborð.

Þegar leið á þennan áratug var keypt hjartalínuritstæki, ljósritunarvél, skápar fyrir sjúkraskýrslur, eldtefjandi skápur og farið var að huga að tölvukaupum, enda tölvuöldin handan við hornið.
Óskir læknis um kaup á tæki til að mæla ýmis efni í blóði og tæki til að mæla þrýsting í miðeyra kölluðu á umsókn um fjárveitingu.

Tíundi áratugurinn
Það var svo árið 1990 sem fyrsta tölvan kom á heilsugæslustöðina í Laugarási og kostaði rúmlega kr. 200.000.
Þarna í byrjun áratugarins var keypt mjög fullkomið blóðrannsóknatæki, farsími handa hjúkrunarforstjóra og svo var samþykkt að kaupa tæki til rannsókna á miðeyra og tvö símaboðtæki fyrir læknana og telefaxtæki, forrit til að gera rannsóknaskýrslur og, ekki síst, að ósk meinatæknis, tæki fyrir rannsóknir í blóðmeinafræði, sem gerir það, að hægt er að fá niðurstöður á meðan sjúklingurinn bíður. Tækið kostar um 900000 kr. Pétur Skarphéðinsson lýsti áhuga sínum fyrir kaupum á tækinu. Það myndi bæta þjónustuna og þá yrði hægt að rannsaka 80-90% blóðsýna á staðnum.
Samþykkt að kaupa tækið, en söluaðili hefur boðist til að selja það með góðum greiðsluskilmálum.

Árið 1993 fékkst heimild ráðuneytisins til að mynda sjóð, með 10% af komugjöldum og eftirstöðvum, til tækjakaupa. Það ár voru tæki keypt fyrir kr. 500.000.

Gjafir

Gegnum tíðina hafa kvenfélög í uppsveitunum safnað fyrir tækjum og búnaði handa heilsugæslustöðinni og hafa þá gert það í samráði við starfsfólkið. Fleiri samtök hafa einnig reitt fram góðar gjafir sem nýst hafa í við lækningar og greiningar. Hér eru tilgreind dæmi um þær gjafir sem stöðinni bárust frá því læknissetrið var flutt í Launrétt á sjöunda áratugnum og fram undir það að nýja heilsugæslustöðin var vígð á síðari hluta þess tíunda. Hér er um að ræða gjafir sem greint er frá í fundargerðum stöðvarinnar.

Kvenfélögin í héraðinu gáfu hjartaritunartæki og kr. 30.000 til kaupa á lækningatækjum, árið 1968. Þau greiddu síðan stóran hluta smásjár sem var keypt 1975, slysatösku gáfu þau 1984 og eyrnaþrýstimæli árið 1993.

Kvenfélag Biskupstungna gaf leiktæki í biðstofu 1977.
Kvenfélag Gnúpverja gaf súrefnistæki og Kvenfélag Skeiðahrepps vörtubrennara árið 1979.

Kvenfélag Grímsneshrepps og Zontaklúbbur Suðurlands gáfu heyrnarmælingatæki 1984 og Lionsklúbburinn Geysir gaf tæki til að taka hjartalínurit.

Krabbameinsfélag Árnessýslu gaf stöðinni tæki fyrir kr. 40000 til notkunar við krabbameinsleit árið 1985 og tveim árum síðar skoðunarbekk og stól og ýmis tæki.

Við vígslu nýju heilsugæslustöðvarinnar, árið 1997, var greint frá ýmsum gjöfum sem stöðinni höfðu borist af tilefninu og skulu þær tilgreindar hér:

Leyfi ráðherra fékkst til að nýta kr. 10.000.000 sem tilboð í bygginguna var lægra en áætlun gerði ráð fyrir, til tækjakaupa.
Oddfellowstúkurnar í Árnessýslu, Hásteinn og Þóra gáfu 1 milljón króna til kaupa á sjúkraþjálfunartækum.
Kvenfélag Grímsneshrepps gaf kr 100 þúsund til kaupa á brjóstamjaltavél og eyrnaskoðunartæki.
Kvenfélög Biskupstungna, Skeiða, Gnúpverja og Hrunamanna gáfu 300 þúsund til tækjakaupa.
Landsbankinn í Reykholti gaf 30-40 þúsund til kaupa á hljómflutningstækjum á biðstofu.
Starfsfólk stöðvarinnar gaf kr. 25 þúsund til kaupa á örbylgjuofni og samlokugrilli.
Lyfjasalan í Laugarási gaf 60-70 þúsund til kaupa á uppþvottavél.
Krabbameinsfélag Árnessýslu gaf kr. 270.000 til kaupa á aðgerðaljósi.
Rauði kross Íslands, Árnesingadeild gaf nálega kr. 300 þúsund til kaupa á EKP tæki og 3 blóðþrýsingsmælum á vegg.
Kiwanisklúbburinn Gullfoss gaf 56 þúsund til kaupa á afspilunartæki fyrir hljóðanældur.
Sigríður og Már á Hótel Geysi gáfu kr 80 þúsund til kaupa á þrekhjóli.
Búnaðarbankarnir á Laugarvatni og Flúðum gáfu fé til tækjakaupa.

Uppfært 02/2022