Álfkona í Launrétt


Til eru tvær kenningar um nafn Launréttar.

Annarsvegar að þangað var hægt að reka fé án þess að það yrði þess vart fyrr en það lokaðist inni í réttinni (SS).

Hin styðst við munnmæli um að á þessum stað hafi flökkulýður safnað saman stolnu fé, slátrað þar og soðið ketið í hverunum (GI).

Klettarnir eru í leyni bak við holtið og ef til vill hefur það eitt dugað til að nafnið hafi myndast.

Sýn frá Hvítárbrú. (mynd pms)

Í Launrétt endar Launréttarholtið í allháum bergvegg sem blasir móti stakstæðum klettum eða steinum og saman myndar þetta hina margnefndu rétt. En til þess að gott væri að króa fé þarna af þurfti að girða frá berginu í mótlægan klett. Sigurður Sigurmundsson og bræður hans Þórarinn og Eggert hlóðu þarna garð um 1930 og ætluðu síðan að girða þar ofan á með gaddavír. Ætluðu þeir þá að festa vírinn með því að vefja utan um klettinn. En áður en að þeirri framkvæmd kæmi dreymdi Þórarin að til sín kæmi álfkona sem kvaðst búa í Launrétt og lagði blátt bann við gaddavírnum, sem þeir bræður hlýddu. Þeir Þórarinn og Eggert urðu í fleiri skipti varir við álfabyggð í Launrétt en Sigurður aldrei.

Launrétt, frá Hvítárbrú (mynd pms)

Uppfært 01/2019