Saga læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu

Inngangur

Sú saga sem hér verður freistað að renna í gegnum, gerist að stærstum hluti í Skálholti og Laugarási í Biskupstungum. Þessir staðir liggja saman og árnar Hvítá og Brúará mynda um þá umgjörð. Þeir eiga það sameiginlegt að vera í hjarta uppsveita Árnessýslu, enda vegalengdir innan þess svæðis svipaðar, hvert sem leið liggur innan þess. Það er engin tilviljun, að á þessum stöðum var læknissetri fyrir uppsveitahreppana valinn staður.

Megin umfjöllunarefnið hér, er auðvitað saga læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu, frá því það var stofnað með lögum í lok 19du aldar, þar til Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók við læknisþjónustunni á fyrstu árum 21. aldar. Ég kýs hinsvegar, til að reyna að setja sögu læknishéraðsins í heldur meira samhengi við umhverfið, að reyna að búa einnig til mynd af fólkinu og umhverfinu sem læknissetrin í Skálholti og Laugarási urðu hluti af.

Skálholtsstaður þarfnast ekki mikillar kynningar, enda í þjóðareign og hafa verið gerð og munu varða gerð betri skil en ég mun nokkurntíma geta gert. Ég geri þó grein fyrir því hvaða einstaklingar hafa átt jörðina frá því hún var seld árið 1785, úr opinberri eigu og þar til hún komst aftur í opinbera eigu 1935. Þá tel ég einnig fram þá sem voru leiguliðar á jörðinni á þessum sama tíma, í sérstökum kafla.

Ég fjalla einnig um, í sérstökum kafla, eigendur Laugarásjarðarinnar frá byrjun 19du aldar og þar til nútímasaga Laugaráss hófst með kaupum uppsveitahreppanna á jörðinni fyrir læknissetur, árið 1922.

Samgöngur innan héraðs voru ekkert sérlega auðveldar í læknishéraðinu og var Hvítá einn erfiðasti farartálminn. Því er óhjákvæmilegt að fjalla um ferjurnar hjá Iðu og Auðsholti í sérstökum kafla.

Aðdragandinn að stofnun sérstaks læknishéraðs.

Þegar Íslendingar höfðu fengið fjárveitingavald, var eitt áhugamála Alþingis að bæta læknaskipun í landinu. Ákveðið var að skipta landinu í 20 læknishéruð, með lögum 15. október, 1875. Strax í kjölfarið, í febrúar 1876, var samþykkt fumvarp um læknaskóla.

Árnessýsla varð eitt þessara læknishéraða og var kölluð 19. hérað. Það var þó ekki fyrr tveim árum síðar, að Guðmundur Guðmundsson fékk veitingu fyrir héraðinu.

Næstu ár voru samþykkt með fjárlögum, fjárveitingar til aukalæknisembætta víða um land. Eins og nærri má geta voru flest læknishéraðanna afar víðáttumikil og erfitt að ná til læknis, „einkum á vetrardegi“.

Þrýstingur óx stöðugt á að læknum yrði fjölgað. Því var það, að árið 1889 var veitt fé til að ráða aukalækna til starfa á fimm stöðum:
- í Dalasýslu og Bæjarhreppi í Strandasýslu,
- á Seyðisfirði ásamt með Mjóafirði, Loðmundarfirði og Borgarfirði,
- á Skipaskaga á Akranesi með 4 syðstu hreppum Borgarfjarðarsýslu,
- í Dyrhólahreppi og Eystri og Vestri Eyjafjallahreppum
- og í Dýrafirði ásamt Önundarfirði, Súgandafirði og Arnarfirði.

Árið 1893 bættust við tveir aukalæknar:
- í Þingeyjarsýslu fyrir austan Jökulsá
- og í Ólafsvík með vesturhluta Snæfellsnessýslu.

Enn reyndist þörf á að bæta í og 1894 og 1895 var bætt við sex aukalæknishéruðum, sem voru
- Héraðið milli Straumfjarðarár í Hnappadalssýslu og Langár á Mýrum,
- Eyjahreppur og Múla- og Gufudalshreppar í Barðastrandasýslu,
- Breiðdals-, Beruness- og Geitlandshreppar í Suðurmúlasýslu,
- Grunnavíkur- og Sléttuhreppar í Ísafjarðarsýslu og Strandasýsla.

Eftir þetta fór aðeins að rofa til í 19. héraði, Árnessýslu, sem enn var sinnt af aðeins einum lækni. Með fjárlögum 1896 til 1897 voru stofnuð þrjú aukalæknishéruð, sem voru:
- Grímsnes-, Biskupstungna-, Hrunamanna-, Gnúpverja-, Skeiða- og Þingvallahreppar í Árnessýslu,
- Breiðabólstaðar-, Engihlíðar-, Vindhælis-, Torfalækjar-, og Svínavatnshreppum í Húnavatnssýslu
- og Breiðdals-, Valla- og Fljótsdalshreppar, Fellahreppur fyrir ofan Þorleifará og Jökulsdalshreppur fyrir ofan Gilsá, að mestu leyti hið núverandi FJjótsdalshérað.

Hið nýja aukalæknishérað í uppsveitunum kallaðist Grímsnesshérað, eða Grímsnesslæknishérað og fyrsti læknirinn sem þjónaði því, var Magnús Ásgeirsson (1863-1902) og var aðsetur hans í Miðengi í Grímsnesi. Búseta læknisins mun hafi ráðið nafni héraðsins.

Magnús tók við héraðinu, eftir að hafa nýlokið embættisprófi. Hann þjónaði héraðinu til 1899, en þá fékk hann veitingu fyrir embætti í Dýrafirði. Haustið 1902 tók hann svo við Flateyjarhéraði, en lést skömmu síðar, tæplega fertugur að aldri. Um hann segir í Ísafold þar sem greint var frá andláti hans:

„Hann hafði lengi verið heilsutæpur; dó úr tæring. Honum er svo lýst, að „hann var trúr vinum sínum og óbrotinn við alla, orðvar og óhlutsamur um annarra hagi”. Kvæntur var hann Magneu Ísaksdóttur frá Eyrarbakka, er lifir mann sinn“.

Í ritinu Eir, sem var „mánaðarrit handa alþýðu um heilbrigðismál“, er svo greint frá hvernig lög um læknishéruð þróuðust á Alþingi, í júníblaði árið 1900:

Þegar Alþingi hafði stofnsett öll þessi aukalæknishéruð og flestöll voru skipuð læknum, kom það fram, að talsverð óánægja varð með héraðaskiftinguna; allir vildu eiga sem hægast með að ná til læknisins.
Á alþingi 1895 skoraði því neðri deild þingsins á stjórnina, að búa undir næsta þing frumvarp til laga um nýja skipun læknahéraðanna.
Stjórnin varð við þessari áskorun og lagði fyrir þingið 1897 frumvarp um þetta efni, er gekk fram, en þó með breytingum, sem stjórnin ekki gat gengið að.
Á þinginu 1899 var málið tekið upp aftur og gekk þá frumvarpið fram og var samþykkt sem lög 13. okt. 1899. Samkvæmt þeim lögum er landinu skift í 49 læknishéruð, og af þeim eru nú við aldamótin 30 skipuð héraðslæknum; í 3 héruð er læknir settur fyrst um sinn.

Skúli Árnason, héraðslæknir í Grímsnesshéraði frá 1900-1922.

Með þessum lögum varð Grímsnesshérað til, sem 33. læknishérað. Héraðinu tilheyrðu Grímsneshreppur, Biskupstungnahreppur, Hrunamannahreppur, Gnúpverjahreppur, Skeiðahreppur og Þingvallahreppur. Íbúar í þessum hreppum voru hálft þriðja þúsund á þessum tíma.

Skúli Árnason (1865-1954) var skipaður læknir í héraðinu við stofnun þess. Hann var 29 ára þegar hann lauk embættisprófi árið 1894 og var þá settur til að gegna embætti héraðslæknis í Árnessýslu í forföllum Guðmundar Guðmundssonar. Hann var þá með aðsetur í Hraungerði. Þessu embætti gegndi hann í tvö ár, en fór þá til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Að því búnu gegndi hann embætti í Ólafsvík um tíma, þar til hann tók formlega við Grímsnesshéraði þann 1. janúar, árið 1900. Skúla eru gerð nánari skil í sérstökum þætti.

Hvar átti læknirinn að búa?

Fyrsti læknirinn, eftir að Grímsnesshérað hafði verið stofnað sem aukalæknishérað, sat í Miðengi í Grímsnesi, en þegar Skúli tók við embættinu þurfti að velja honum eða hann að velja sér, stað til fastrar búsetu. Málið kom til kasta sýslunefndar og niðurstaða hennar var þessi, á fundi 1899:

Viðvíkjandi bústað læknisins í uppsýslunni áskilur nefndin að hann sitji í grend við Skálholt, en lætur honum þó frjálst um eins árs tíma ef hann telur sér það nauðsynlegt, að taka sér bústað nokkru fjær, á einhvern veg, en þó eigi á útjöðrum héraðsins.

Málefni læknishéraðanna tveggja Árnessýslu, Grímsnesshéraðs og Eyrarbakkahéraðs, voru talsvert mikið á borði Sýslunefndar Árnessýslu. Þegar læknissetur þess fyrrnefnda var flutt í Laugarás 1922 fengu uppsveitahrepparnir meira hlutverk í umsýslu þess.

Sýslunefnd fjallaði um amtsbréf á fundi sínum árið 1900, þar sem hún var beðin um álit sitt á því hvar hentugast væri að setja niður læknissetur í Árnessýslu. „Nefndin áleit héraðslæknana hvorn fyrir sig, bezt setta þar sem þeir nú hafa bústað, hj. læknirinn í Eyrarbakkahéraði á Eyrarbakka og læknirinn í Grímsneshéraði í Skálholti“.

Aftur tók nefndin fyrir amtsbréf tveim árum síðar en í því var spurt hvort ekki væri ráðlegt að „útvega héraðslæknum jarðir, sem gætu orðið föst læknissetur”.

Nefndin vildi, að svo komnu ráða frá því, með því vandséð er hvort það er haganlegt, bæði frá haganlegu sjónarmiði læknanna og almennings. Bæði er það að enn er varla fengin full reynsla fyrir því, hvort hin nýju læknissetur eru svo heppilega sett sem kostur kann að vera og hins vegar mundi það, að áliti sýslunefndarinnar, þröngva kosti læknanna að gjöra þeim svo að segja að skyldu, að búa ekki betur en búskapur borgar sig nú, ekkjum þeirra væri og illa borgið, er læknanna misti við, ef þær yrðu að hrekjast frá þeim stað, er menn þeirra væru búnir að búa um sig. Það gæti, að áliti nefndarinnar fyrst orðið veruleg spurning um þetta, ef almenn ósk kæmi um þetta frá læknastéttinni.

Ekki virðist hafa neitt komið upp sem hamlaði því að Skúli læknir fengi að sitja í Skálholti, en 1905 sá sýslunefndin ástæðu til að skora á stjórnarráðið að láta aðsetur læknis í Eyrirbakkahéraði vera á Eyrarbakka.

Hræringar í uppsveitum

Það komst smám saman reynsla á læknishéruðun tvö í Árnessýslu og það komu fram hnökrar sem sýslunefnd þurfti að fjalla um og taka afstöðu til. Strax árið 1900 lagði sýslunefnd til „að neðri hluti Grafnings, frá Úlfljótsvatni, að þeim bæ meðtöldum, skyldi leggjast til Eyrarbakkalæknishéraðs, en 6 efstu bæirnir í Grafningi skyldu fyrst un sinn lagðir til Kjósarlæknishéraðs“.

Það voru áfram einhver vandræði með stöðu Grafningshrepps, því 1905 lagði nefndin það til „að Grafningshreppur verði numinn frá Grímsnesshéraði og lagður undir Eyrarbakkahérað“.

Þá fóru „flestir bændur Þingvallahrepps“ fram á það árið 1905, að Þingvallahreppur yrði skilinn frá Árnessýslu og lagður til Kjósarsýslu í staðinn. Landfræðilega var hreppurinn ekki í góðri stöðu þegar kom að þjónustu læknis, sem búsettur var í Skálholti. Sýslunefnd afgreiddi þetta erindi svona: „Jafnvel þótt nefndin viðurkenndi það, að ýmislegt mælti með þessu frá sjónarmiði Þingvallahrepps, eins og sakir standa nú, þá þótti nefndinni það viðurhlutamikið að fallast, að svo komnu, á þetta, sem gæti valdið óhagræði fyrir sýslufélagið yfirleitt, að sýslubúum forspurðum og ákvað því að fresta málinu til næsta fundar. Að setja nefnd í það milli funda var fellt“.

Ekki gáfust bændur í Þingvallahreppi upp við svo búið, en fyrir sýslunefndarfundi 1907 lá tillaga frá þeim um að sýslunni yrði skipt í tvö sýslufélög annaðhvort þannig, að Hvítá ráði mörkum, eða skift væri um þvert. Nefndin ræddi þetta og tillaga var lögð fram, um að setja nefnd í málið, en hún var felld og þannig féll málið. Í Þjóðólfi er svo greint frá þessu:

Rætt var um að skipta sýslunni í 2 sýslufélög, annaðhvort þannig að Hvítá og Ölfusá réðu sýsluskiptunum, eða skipta sýslunni um þvert, og yrðu þá í neðri hlutanum : Flói, Skeið, Ölfus og Selvogur, en tillaga um það var feld.

Skipting Biskupstungnahrepps, ef hefði náð fram að ganga.

Ekki létu Biskupstungnamenn sitt eftir liggja í því að hugsa út fyrir rammann. Á þessum sama fundi sýslunefndar (1907) var þetta erindi frá hreppsnefnd Biskupstungnahrepps tekið fyrir:

…að skifta hreppnum í 2 hreppa. Sýslunefndim mælti með því að skifti þessi fari fram á þann hátt:
1. - að Tungufljót ráði takmörkum hinna nýju hreppa, og nefnist eystri hreppurinn Tunguhreppur [Bræðratunguhreppur], en ytri hreppurinn Skálholtshreppur.
2 – að eignum og skuldum hins forna hrepps verði skift milli nýju hreppanna að réttu hlutfalli eftir sveitarútsvari næstundanfarinna 6(5) ára.


Hvað þarna lá að baki er ekki ljóst enn, en það er ekki óvarlegt að ætla, að það hafi tengst þessu nýja læknishéraði með einhverjum hætti. Svona var greint frá þessum hræringum í Þjóðólfi:

Helzta sveitamál var, að mælt var með því, að Biskupstungnahreppur skiftist í 2 hreppa; ráði Tungufljót. Nefnist vestri hreppurinn Skálholtshreppur, en hinn eystri Tunguhreppur (þ. e. Bræðratunguhreppur).
Lagt var til, að Stóra-Laxá ráði takmörkum milli Hrunamanna- og Gnúpverjahreppa. Og skorað var á Biskupstungna-, Skeiða- og Hrunamannahreppa, að koma sér sem fyrst saman um að láta Hvítá og Stóru-Laxá ráða takmörkum milli sín. Nú eru þau óeðlileg.

Of stór læknishéruð

Í þrjú ár í röð, 1919, 1920 og 1921, samþykkti sýslunefndin tillögur um að læknishéruðum í sýslunni yrði fjölgað úr tveim í þrjú. Þar má reikna með að tvennt hafa ráðið mestu, Annarsvegar, auðvitað, sú staðreynd, að héraðið er landfræðilega stórt og erfitt yfirferðar, vegna stórfljótsins Hvítár og annarra vatnsfalla. Hinsvegar vegna þess að héruðin voru fjölmenn, miðað við flest landsbyggðarhéraðanna.
Í manntali 1920 er mannfjöldi á Íslandi greindur eftir læknishéruðum.
Í Eyrabakkahéraði voru 3639 og í Grímsneshéraði 2070.
Meðalfjöldi íbúa í hverju læknishéraði, en þau voru 48, var 1.973 og ef frá væru tekin Reykjavíkurhérað með 18.065 og Akureyrarhérað með 5.709, var meðalfjöldi íbúa í hverju héraði 1.542.
35 læknishéruð voru með færri en 2.000 íbúa og 14 með færri en þúsund.
Ekki fékkst fjölgun læknishéraða í Árnessýslu í gegn og svo stóðu menn frammi fyrir því að héraðslæknirinn í Grímsneshéraði ákvað að hætta og við því varð að bregðast.

Skúli Árnason sagði lausu embætti sínu árið 1922, en bjó þó áfram í Skálholti um hríð. Hrepparnir í læknishéraðinu urðu því að leita leiða til að skapa nýjum héraðslækni stað til að búa á.

Laugarásjörðin keypt

Það var gengið í að kaupa Laugarásjörðina. Umsamið kaupverð var kr. 11.000. Seljandinn, Guðmundur Þorsteinsson, hafði þá átt hana frá því síðla árs 1916 og greiddi fyrir hana þá kr. 4.000.
Kaupsamningur var gerður þann 16. desember 1924 og honum var þinglýst 25. júní 1927.

Samþykkt Sýslunefndar Árnessýslu vegna kaupa á Laugarásjörðinni, 22. febrúar, 1922

Sýslunefnd samþykkir lántöku vegna kaupa á Laugarásjörðinni 26. febrúar, 1922

Svona er síðan texti afsalsbréfsins:

Nr 196
(innf) 19/5 1927
+110 kr
(þl) 25/6 1927

Með því að Helgi Ágústsson bóndi á Syðraseli hefur tekið að sjer fyrir hönd Grímsneslæknishéraðs, gagnvart Veðdeild Landsbanka Íslands greiðslu á veðskuld þeirri er hvílir á jörðinni Laugarási að upphæð kr. 1,141.00 og greitt mér eftirstöðvar kaupverðsins kr. 9859.00, samtals kr. 11,000.00 - ellefu þúsund krónur – þá lýsi ég hann fyrir hönd Grímsneslæknishéraðs hjermeð rjettan eiganda að jörðinni Laugarás í Biskupstungum upp frá þessum degi og ber mjer að svara til [um] vanhemildir.

Til staðfestu nafn mitt ritað í viðurvist tveggja vitundarvotta.
Þórarinsstöðum 8. júní, 1923
Guðm. Þorsteinsson (sign)

Vitundarvottar
Þorgeir Halldórsson (sign)
Ögm. Sveinbjörnsson (sign)

Eignarheimild þeirri er virðast mætti að jeg hefði á jörðinni Laugarás, samkvæmt framanrituðu afsali, afsala jeg mér hjer með fyrir [fult] og alt til handa Grímsneslæknishjeraði.

Syðraseli 16/12 1924
Helgi Ágústsson (sign)

Hversvegna kaupa heila jörð?

Sá sem þetta ritar áttar sig ekki fyllilega á því, hversvegna það þótti nauðsynlegt að kaupa heila jörð undir læknissetur. Núverandi læknissetur (2021), heilsugæslustöð, lyfjaverslun og fyrrum dýralæknisbústaður, standa á 3 hekturum lands og það er harla rúmt um þessar byggingar. Það verður að viðurkennast, að aðstæður og viðhorf voru með öðrum hætti fyrir einni öld. Læknar hafa þá þurft að stunda búskap sem aukagrein, þó sjálfsagt hafa læknisþjónusta við ríflega 2000 manns, verið þó nokkurt verkefni.
Laugarásjörðin er um það bil 350 hektarar að stærð, svo einhver gæti sagt sem svo, að fyrr mætti nú rota en dauðrota.

Og jörðin kostaði …

Úr því minnst er á aðstæður og viðhorf hér ofar, þá má slá því föstu að verðgildi þessarar jarðar nú væri talsvert annað, einmitt vegna breyttra aðstæðna og viðhorfa.
Guðmundur Þorsteinsson keypti jörðina af Guðmundi Vigfússyni, hómópata, 1916 á kr. 4.000 og seldi hana síðan sex árum síðar á kr. 11.000. Einhver gæti nú sagt að hann hafi ávaxtað sitt pund vel.

Til gamans var þess freistað að láta verðlagsreiknivél, sem er eða að finna á vef Hagstofu Íslands, reikna þessar upphæðir til dagsins í dag. Fyrirbærið verðbólga hafði ekki verið til að ráði þarna fyrstu áratugi aldarinnar og því ekki fjarri lagi að láta reiknivélina reikna, þó ekki sé hægt að reikna út tölur sem eru eldri en frá 1939.

Verðlagsreiknivélin segir að Guðmundur Þorsteinsson hafi keypt á rúma milljón á núvirði og selt Grímsneshéraði á tæpar þrjár.

Sagan segir, eða allavega Jón Eiríksson frá Vorsabæ, að Guðmundur hefði, þegar salan var frágengin, freistað þess að fá henni rift, eftir að hann áttaði sig á mikilvægi jarðhitans sem jörðin geymir, en þá varð það um seinan. Í ræðu sem Jón hélt við opnun nýrrar heilsugæslustöðvar í Laugarási, 1997, sagði hann þetta um kaupin á jörðinni:

Nú var sveitarstjórnum vandi á höndum, en þeim bar að sjá lækninum fyrir embættisbústað. Oddvitar komu saman árið 1921 til að athuga um kaup á jörð og kusu sérstaka framkvæmdanefnd, þá Pál Stefánsson oddvita Gnúpverjahrepps, sr. Eirík Stefánsson oddvita Biskupstungnahrepps og Helga Ágústson oddvita Hrunamannahrepps og var Helgi kosinn formaður nefndarinnar.
Þá vildi svo heppilega til að jörðin Laugarás í Biskupstungum reyndist föl og keyptu hrepparnir hana árið 1922 af Guðmundi Þorsteinssyni, á 11 þúsund krónur.
Guðmundur fékk síðar bakþanka af sölunni hafði verið bent á hve jarðhitinn væri mikils virði og vildi rifta kaupunum. En það gekk ekki og afsali er þinglýst 16. desember 1924.

Reyndar var það svo, að afsalinu var ekki þinglýst fyrr en 25. júní 1927, eins og sjá má af mynd hér fyrir ofan. Hvað sem því líður, þá fór í framhaldinu, að koma betur og betur í ljós, hve mikilvægur jarðhitinn væri.


Uppfært 12/2021