Starfsfólk læknamiðstöðvar og heilsugæslu
- að læknum frátöldum.

Fram til ársins 1967 kom aldrei til tals að annar starfsmaður en héraðslæknir yrði ráðinn til starfa. Þegar Konráð Sigurðsson tók við embætti héraðslæknis var annað uppi á teningnum. Hann óskaði eftir því á fundi með oddvitanefndinni í mars 1967 “að athugaðir yrðu möguleikar á því að ráða héraðshjúkrunarkonu að embættinu og lýsti því sem skilyrði fyrir því að hann tæki við embættinu að hann fengi slíka aðstoð í einhverju formi.”

Auglýsing sem birtist þann 8. des., 1967

Nefndin var fús til að vinna að þessu og á fundi hennar með Konráð í nóvember upplýsti formaður nefndarinnar, að “hann hefði hreyft því við landlækni og heilbrigðismálaráðuneytið og hélt að ekki stæði á framlagi ríkisins, sem er 2/3 af launum slíkrar aðstoðarhjúkrunarkonu. Samþykkt var að ráða hjúkrunarkonu, ef hún fengist og ef það tækist ekki, að athuga með að ráða ólærða stúlku, en þá fengist enginn styrkur frá ríkinu.”

Það voru fleiri breytingar í farvatninu, enda fjölgaði skjólstæðingum umtalsvert með framkvæmdum við Búrfellsvirkjun, en árið 1967 voru starfsmenn við framkvæmdirnar þar milli 500 og 600. Þannig lét nefndin í ljós það álit sitt á þessum fundi að full þörf væri á aðstoðarlækni í héraðinu og var formanni falið að “hreyfa því máli við viðkomandi aðila.”

Hjúkrunarkonur / hjúkrunarfræðingar / ljósmæður

Frá því héraðslæknir kom til starfa í Skálholti árið 1900, þar til fyrsta hjúkrunarkonan var ráðin til starfa í Laugarási árið 1968, var það bara héraðslæknirinn sem var starfsmaður læknishéraðsins. Eins og fram kemur í umfjöllun um læknana sem embættinu gegndu á því tímabili, var það oft ekkert áhlaupaverk og nánast að okkur nútímamönnum kunni að finnast það hafa verið ofurmannlegt. Það má reikna með að þeir hafi haft einhvern til að aðstoða sig á álagstímum, t.d. heimilisfólk eða nágranna, en slíku fylgdu engin greidd laun.

Þegar Konráð Sigurðsson kom til starfa, fór saman, að honum fylgdi ný sýn á heilbrigðisþjónustuna og að mikil fjölgun hafði orðið í héraðinu, með virkjunarframkvæmdum við Búrfell. Konráð lét ekki bjóða sér þær aðstæður sem hann var þarna kominn í, og lét beinlínis vita af því, að ef hann ekki fengi aðstoð, myndi hann afþakka stöðuna. Hann óskaði eftir því að hjúkrunarkona kæmi til starfa og einnig að ráðinn yrði aðstoðarlæknir í sex mánuði á ári. Við þessum óskum var orðið, en á þessu var sá hængur, að það var ekkert húsnæði á lausu, sem hefur líklega haft sitt að segja um það, að fyrstu átta árin sem hjúkunarkonur störfuðu í Laugarási, gegndu starfinu fjórar konur, þrjár þeirra aðeins í eitt ár. Það var ekki fyrr en gamli læknisbústaðurinn hafði verið, að segja má, endurbyggður fyrir húkrunarfræðinga og afleysingafólk, að þessir starfsmenn fóru að staldra lengur við í Laugarási.

Elín Salka Stefánsdóttir, Ingveldur G Valdemarsdóttir, Arnhildur H. Reynis, G. Dagmar Jónsdóttir, Anna Ipsen og Matthildur Róbertsdóttir.

1968 - 1. nóv. 1969 Sigrún Jónsdóttir.
Á fundi oddvitanefndarinnar í apríl 1969 var greint frá því að Sigrún hefði verið ráðin “fyrir nokkru” og þar var greint frá því að laun hennar, kr. 20.000 á mánuði (um kr. 270.000 á verðlagi í lok árs 2021) væru greidd af þrem aðilum: ríkið greiddi kr. 9.000, læknishéraðið kr. 5,500 og héraðslæknirkinn kr. 5,500. Að auki fékk hún fæði og húsnæði án endurgjalds.
Sigrún staldraði stutt við, en hún sagði starfi sínu lausu frá 1. nóvember þetta ár. Hún mun síðan hafa flutt til Danmerkur og gifst þar. Ekki hafa fundist óyggjandi upplýsingar um hana að öðru leyti.

15. des. 1969-1970 Elín Salka Stefánsdóttir (1945 -)
Elín var nýútskrifuð sem ljósmóðir og var frá Syðri-Reykjum. Hún var í Laugarási í eitt ár í fullu starfi, enda stefndi hún á frekara nám. Hún bjó hjá Ástu og Gústaf á Sólveigarstöðum. Eftir tímann í Laugarási fór hún til náms í hjúkrun og lauk því.

1. mars, 1971-1975 Ingveldur Guðrún Valdemarsdóttir (1933 - ) Teigi.
Ingveldur var nýflutt í Laugarás ásamt manni sínum, Ágúst Eiríkssyni. Áður hafði hún starfað í 12 ár í Reykjavík.

1975 - des 1975 Arnhildur H. Reynis,(1933-2009) ljósmóðir frá 1954.
Arnhildur lauk námi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1954. Sama ár hélt hún til Danmerkur til frekara náms. Þar giftist hún og bjó í 16 ár en flutti heim með börn sín 1970. Á Íslandi starfaði hún m.a. á fæðingardeild Landspítalans, sem héraðshjúkrunarkona á Kópaskeri og í Laugarási og einnig á Elliheimilinu Grund. Arnhildur hafði aðsetur í gamla bænum í Hveratúni, meðan hún starfaði í Laugarási.

Des. 1975 - maí 1976 Ingveldur Guðrún Valdemarsdóttir .
Ingveldur hljóp í skarðið þar til ný hjúkrunarkona fékkst til starfa. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar um starfið bárust engar umsóknir fyrr en um haustið.

Sept 1976 - 1. feb 1982 Guðbjörg Dagmar Jónsdóttir (1950 -)
Hún flutti ásamt fjölskyldu sinni í gamla læknisbústaðinn, sem þá hafði verið tekinn í gegn, ásamt Jörundi Ákasyni kennara og barni þeirra. Hún starfaði síðan í Laugarási fram í nóvember 1980, en þá fór hún í barnsburðarleyfi, sem hún sneri ekki aftur úr.

1980 - 1981 Anna Ipsen (1948 -) Þegar Dagmar fór í fjögurra mánaða barnsburðarleyfi, var Anna ráðin tímabundið, en hún kom frá Hellisholtum.

Ágúst 1982 Matthildur Róbertsdóttir (1954 -). Matthildur flutti í gamla læknishúsið með fjölskyldu sinni. Hún starfaði síðan samfellt við heilsugæslustöðina næstu 20 árin, frá 1986 sem hjúkrunarforstjóri. Hún fór í launalaust leyfi frá 2002-2004 og starfaði á Selfossi. Hún snéri svo til baka árið 2015. Starfi hennar í föstu starfshlutfalli lauk hún 2021.
Matthildur fór til náms í ljósmæðrafræðum frá 1991-1993 og fékk starfsleyfi sem slík árið 1996.

Elín Stefánsdóttir, Margrét Árnadóttir, Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, Ásta Oddleifsdóttir, Alda Sigurðardóttir.

1982 -1997 Elín Stefánsdóttir (1930 - 2022) var ráðin ljósmóðir í hlutastarfi (25%) og starfaði síðan við heilsugæslun meira og minna til ársins 1997. Hún var frá Miðfelli.

1985 -1992 Margrét Árnadóttir (1935-2004) var fastur starfsmaður í fullu starfi við heilsugæsluselið á Laugarvatni. Margrét var frá Galtafelli í Hrunamamnnahreppi.

1990 - 1993 Anna Ipsen frá Hellisholtum, var ráðin í 40% starf, aðallega til að sinna heimahjúkrun.

Sept 1991- 1993 Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, frá Grund, var ráðin í starf hjúkrunarforstjóra í námsleyfi Matthildar Róbertsdóttur.

1992 Hafrún Harðardóttir, var ráðin til starfa á Laugarvatni, en hætti störfum eftir skamman tíma.
1993 Harpa Karlsdóttir, tók við starfinu af Hörpu, en hún staldraði einnig stutt við.

1993 Ásta Oddleifsdóttir frá Hrepphólum var ráðin í Laugarás, í 50-60% starf.

1993 var Alda Sigurðardóttir ráðin í heilsugæsluselið á Laugarvatni.

Annað starfsfólk

Eftir því sem starf læknastöðvarinnar í Laugarási varð umfangsmeira og með lögum um heilbrigðisþjónustu 57/1978, þurfti fleira starfsfólk. Með þessum lögum féll heilsugæslustöðin í Laugarási í flokk sem kallaðist H2, sem samkvæmt skilgreiningu þýddi að þar skyldu “starfa tveir læknar hið minnsta ásamt hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki samkvæmt reglugerð.”

Á aðalfundi stöðvarinnar í júní 1978 greindi Konráð Sigurðsson læknir frá þessari nýju stöðu mála. “Í þeim lögum er staðfest að heilsugæslustöðin í Laugarási er viðurkennd sem heilsugæslustöð H2, með móttöku á Laugarvatni. Í lögum er ákveðið að fækka í stjórn hgst úr 5 í 3.
Einnig er ákveðið að ríkissjóður greiði helming af viðhaldskostnaði húsa og tækja heilsugæslustöðva.”

Það var, þrátt fyrir þetta, ekki vaðið í að bæta við starfsfólki, enda gaf húsnæðið ekki tilefni til slíks. Þessi lög hljóta þó að hafa verið byr í segl baráttunnar fyrir byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar. Þarna voru þó enn tveir áratugir í að þeirri baráttu lyki.

Hér verður þess freistað að gera grein fyrir öðrum starfsmönnum en læknum, hjúkrunarfræðingum og ljósmærðum við heilsugæsluna í Laugarási til aldamóta, í það minnsta.

Læknaritarar

Hluti starfsfólks Heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási.
Jörundur Ákason, Sigrún Reynisdóttir, Guðrún Hermannsdóttir, Toril Malmo, Sigríður Pétursdóttir, Anna Björg Þorláksdóttir, Birna María Þorbjörnsdóttir og Guðrún Ólafsdóttir.

Jörundur Ákason (1946-2016) var fyrstur til að gegna starfi læknaritara við heilsugæslustöðina, árið 1978, en hann var jafnframt kennari við Lýháskólann í Skálholti. Hann sinnti þessu starfi samhliða kennslunni. Kona hans var Guðbjörg Dagmar Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Laugarási. Þau fluttu á Selfoss, en Jörundur sinnti áfram starfi læknaritara þar til annar fékkst í hans stað.
Sigríður Jónsdóttir, sem þá var búsett á Hlemmiskeiði gegndi þessu starfi skamma stund 1982, en þá tók Guðrún Hermannsdóttir frá Galtafelli við keflinu, fyrst í stað í heimavinnu. Starfshlutfallið var síðan aukið í 50% árið 1985 og Guðrún gegndi því til ársloka 1986. Þá kom Inga Erlingsdóttir í Varmagerði við um eins árs skeið, áður en Anna Björg Þorláksdóttir í Reykholti kom til skjalanna. Hún gegndi starfinu síðan til ársins 1998, en þá tók Birna María Þorbjörnsdóttir við starfinu og gegndi því um hríð. Jenný Gísladóttir, sem leysti hana af hólmi lét af starfinu árið 2002, þegar Guðrún Ólafsdóttir í Vesturbyggð 1 var ráðin til starfans og hún gegnir því enn (2021).
Árið 1991 var starfshlutfall læknaritara aukið í 100%.

Meinatæknar

Á aðalfundi heilsugæslustöðvarinnar 1979 ákvað stjórnin að athuga með ráðningu á meinatækni til stöðvarinnar, en það var ekki fyrr en 1981 sem Sigrún Reynisdóttir frá Eyvík var ráðin til að gegna þessu nýja starfi. Til að byrja með var um tímavinnu að ræða og Sigrún þurfti að byrja á því að kaupa inn tól og tæki sem til þurfti, en á stöðinni var þá til “harla góð” smásjá og lítil skilvinda.

Árið 1982 var ákveðið að um 50% starf skyldi vera að ræða.
Sigrún gegndi starfi meinatæknis allt þar til staðan var lögð niður árið 2010, “fyrirvaralaust. þrátt fyrir áköf mótmæli þáverandi lækna, þeirra Péturs Skarphéðinssonar og Gylfa Haraldssonar”, að sögn Sigrúnar. Þá hafði Heilbrigðisstofnun Suðurlands yfirtekið alla stjórn á stöðinni.
Sigurður Guðmundsson á Reykjavöllum leysti Sigrúnu af í námsleyfi í tvö ár frá 1998-2000.

Árið 1993 var starfsheitinu breytt í yfirmeinatækni.

Ræsting

Sigríður Pétursdóttir (1936 -)í Sigmarshúsi í Laugarási sá um ræstingu læknastöðvarinnar og heilsugæslustöðvarinnar alla tíð, eftir því sem næst verður komist. Einhverjar afleysingar fékk hún og þar kom Alice Petersen (1968 -) í Lyngbrekku talsvert við sögu, en hún tók einmitt við af Sigríði, um tíma, þegar hún lét af störfum vegna aldurs.

Uppfært 02/2022