Hvítárbrú hjá Iðu 60 ára - brúarhátíð

Myndskeið frá brúarhátíðinni, en myndefnið tóku þeir upp Magnús Hlynur Hreiðarsson og Magnús Skúlason.
Klippingu annaðist Brynjar Steinn Pálsson og þulur er Egill Árni Pálsson.

Af þrennskonar tilefni var haldin hátíð í Laugarási í Biskupstungum, laugardaginn 9. desember.  Í fyrsta lagi var því fagnað, að þann 12. desember voru liðin 60 ár frá því umferð var hleypt á brúna. Í annan stað voru tendruð ljós á nýrri ljósakeðju sem íbúar í Skálholtssókn söfnuðu fyrir og í þriðja lagi var brúin opnuð formlega, eða vígð, en það mun hafa farist fyrir þarna í desember 1957.

Gestir stóðu við stöplana beggja vegna meðan á athöfninni stóð.

Í einstakri vetrarblíðu, kom fjöldi fólks að brúnni til að njóta þessarar uppákomu. Kjarninn í henni var nokkurskonar gjörningur, þar sem fulltrúar íbúa við brúna í 60 ár framkvæmdu, með eldi, orði og í tónum, formlega vígslu.  Þarna komu við sögu þau Páll M Skúlason, sem flutti ávarp í upphafi hátíðarinnar, Ásta Skúladóttir á Sólveigarstöðum, fædd, uppalin og búsett í Laugarási og Guðmundur Ingólfsson, fæddur, uppalinn og búsettur á Iðu.  Þá tóku einnig þátt í gjörningnum þau Unnur Malín Sigurðardóttir, sem flutti tónlist og vígslubiskupinn Kristján Valur Ingólfsson, sem þarna var maður orðsins. 

Athöfnin eða gjörningurinn fólst í því að Ásta og Guðmundur kveiktu á 32 kyndlum sem hafði verið komið á brúarhandriðunum, hvort frá sínum enda brúarinnar og mættust síðan á miðri brúnni. Þar með taldist brúin hafa verið opnuð formlega og í þann mund voru ljósin kveikt á nýrri ljósakeðju á burðarstrengjum hennar.  Síðasti hluti þessarar uppákomu fólst í því að börnum á staðnum var boðið að ganga fyrst gestanna inn á brúna, umkringja þar Ástu og Guðmund og þannig taka við mannvirkinu fyrir hönd framtíðarinnar.  

Það voru íbúar í Skálholtssókn sem áttu frumkvæði að þessu verkefni og hrintu því í framkvæmd en fyrir þeim fóru þau Páll M. Skúlason, Elinborg Sigurðardóttir og Jakob Narfi Hjaltason. Án stuðnings frá samfélaginu er ólíklegt að þetta hefði tekist, en fjölmargir einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir hafa lagt sitt af mörkum í smáu eða stóru. Hér eru einungis tilgreindir þeir aðilar sem gáfu hæstu upphæðirnar til verkefnisins, en það eru Uppbyggingarsjóður Suðurlands, Kvenfélag Biskupstungna, Bláskógabyggð, Lionsklúbburinn Geysir í Biskupstungum og Vegagerðin.

Í lok athafnarinnar á brúnni hófu gestir kyndlana 32 á loft og héldu í blysför í Dýragarðinn í Slakka. Þar tóku húsráðendur tóku á móti gestunum af einstökum höfðingsskap og velvild, eins og þeim er lagið.  Fyrir utan heitt kakó, kaffi og smákökur sem Slakkafólkið bauð gestum, lögðu fjölmargir íbúar í Skálholtssókn og reyndar víðar að, allskyns góðgæti á borð í því sem kallast mun „Pálínuboð“. 

Í Slakka var myndasýning á tjaldi, þar sem sýndar voru gamlar myndir frá því fyrir daga brúarinnar og meðan á byggingu hennar stóð.  Þá tóku einnig ýmsir til máls, þar á meðal Marinó Þ. Guðmundsson, sem vann við lokaáfanga brúarbyggingarinnar haustið 1957.

Í kaffisamsætinu í Slakka afhentu systkinin frá Iðu, þau Jóhanna, Guðmundur, Hólmfríður og Loftur peningagjöf til minningar um foreldra sína þau Margréti Guðmundsdóttur og Ingólf Jóhannsson. Gjöfinni er ætlað að vera fyrsti vísirinn að gerð söguskiltis við Hvítárbrú.

uppf. 09.2018