Herstöð í Smáholtum


Í miðjum Smáholtunum, norður af Böðvarsskeri, eru tveir samvaxnir tvíburahólar, grasi vaxnir efst og neðst með stuðlabergi. Sagði Runólfur þá heita Kirkjukletta og sund austan við þá Kirkjuskarð, en það afmarkast að austan af klettarana, sem heitir Skyrklettur, og á honum eru tóftarbrot eftir fjárhús. Óljósar sagnir voru tengdar huldukonu í Skyrkletti. Aðrir heimildamenn mínir, þeir Ólafur Einarsson, Guðmundur Indriðason og Sigurður Sigurmundsson, höfðu heyrt þessa tvíburakletta kallaða Skyrkletta, en ekki er ólíklegast, að þetta hafi víxlast fljótlega eftir að Runólfur var hér.

Séð af Vörðufelli 2016 (mynd pms)

Norðan Kirkjukletta, upp af Kirkjuskarði er mýri, fremur þurrlend, og heitir Brennimýri. Nafnið er vafalaust komið af því, að þarna hefur einhvern tíma verið kjarri vaxið. Við uppgröft fyrir húsgrunni í Brennimýri sumarið 1991 komu upp greinilegar skógarleifar. 

Holtið, sem rís upp af Geymslu og afmarkar Brennimýri að vestan, heitir Tíðaholt, og skarð í því sunnarlega, vestan Skyrkletta, Tíðaskarð (Sigurbjörn Einarsson: „Skálholtsstaður, stutt leiðsögn um staðinn og sögu“ Rvík 1963).

Nafngiftir þessar eru mjög eðlilegar, því um Tíðaskarð var þjóðbraut frá ferjustaðnum að Skálholti, og lágu steinhellur Stefáns grjótbiskups þaðan og yfir Geymslu, og sér þeirra enn merki norðan við Pollrás.

Jón Bjarnason og Sigurður Sigurmundsson höfðu heyrt holtið næst Geymslu nefnt Kirkjuholt, eða þá, að Kirkjuholt væri samnefni allra holtanna, sem hafa verið nefnd Smáholt. Á skipulagsuppdrætti frá 1958 og í lóðasamningi Hveratúns frá 1941 er talað um Kirkjuholt, og er annaðhvort átt við holtið austast, sem byggðin stendur í núna, eða þá öll holtin. 

Tíðaskarð sögðu Jón og Ögmundur að væri þar sem Krossinn var seinna, barnaheimili sem Rauði Krossinn rak á árunum 1952 til 1971 en nú hafa öll hús þar verið rifin. Þar er enn afgirt lóð sem, Rauði Krossinn leigir.
 

Hér eru öll nöfn mjög á reiki, en ég set hér fram tilgátu um það hvað muni upprunalegast (réttast?).
Tíðaskarð er upprunalega skarðið í Tíðaholti, sbr. götur Stefáns biskups, en færist með breytingum í samgöngum.
Smáholt er samnefni allra holtanna, og það er Kirkjuholt einnig. Nafnakenning Runólfs um Skyrklett og Kirkjukletta er væntanlega upprunalegri, en hin er þó orðin mjög föst í sessi og er þá gamli Skyrklettur nafnlaus. 

Yfir þeim stað sem herbragginn stóð á stríðsárunum. Nokkuð auðséð hvar hann hefur verið. Kola- eða kox hrúga er enn við SV hornið. - Magnús Skúlason

Síðarnefnda Tíðaskarðið afmarkast að norðan af holtsrönum sem heita Holtstögl eða Tögl. Í syðri Töglunum standa nú tvö íbúðarhús en á þeim nyrðri höfðu Bretar litla herstöð á stríðsárunum. Má enn sjá óljós merki um að þar hafa staðið mannvirki og braggi Bretanna er nú hálfur við gróðurhús Ólafs Einarssonar í Laugarási og hálfur á Iðu.

Í skarðinu miðju, rétt norðan við veg sem þarna liggur að hesthúsum, voru malargryfjur sem kallaðar voru Krossgryfjur.


Munnmælasögn er að tveir af sveinum Jóns Gerrekssonar hafi verið drepnir í Smáholtum og dysjaðir þar en ég hef ekki fundið því stað í prentuðum heimildum (GI). Vel má hugsa sér að einhverskonar dys sé í all sérstæðum grjóthól í Smáholtum, norðan við Brennumýri. Engar heimildir hef ég um nafn á hól þessum né heldur sagnir.

Uppfært 01/2019