Oddvitar hreppanna sem stóðu að Laugaráslæknishéraði.

Starf og verkefni oddvitanefndarinnar

Það má skipta störfum og verkefnum stjórnarnefndar læknishéraðsins í grófum dráttum í fjögur tímabil.

  1. Frá tímanum frá því hrepparnir keyptu jörðina, þar til fólki byrjaði að fjölga í Laugarási. Þetta tímabil má kalla frumbýlingsárin.

  2. Tímann meðan mesta uppbyggingin átti sér stað, með innviðunum sem þróunin krafðist.

  3. Tímann þegar helstu verkefnum hafði verið komið í hendur stjórna yfir einstökum þáttum, svo sem stjórn heilsugæslunnar, stjórn hitaveitunnar og stjórn vatnsveitunnar.

  4. Tímann frá því Biskupstungnahreppur tók jörðina á leigu af hreppunum.

Frumbýlingsárin (1922-1945)

Alla jafna hittist oddvitanefndin árlega fyrstu árin og á þessum fundum var fjallað fyrst og fremst um fjármál vegna kaupa og viðhalds á læknisbústaðnum (Konungshúsinu). Helgi Ágústsson var forsvarsmaður eða formaður nefndarinnar meðan hann var oddviti Hrunamannahrepps, eða til 1934. Þá tók sr. Guðmundur Einarsson á Mosfelli við. Hlutverk hans var að “hafa umsjón með öllum málefnum læknisbústaðarins, semja reikninga hreppanna, sjá um greiðslur og kvitta fyrir greiðslum hreppanna og leigu eftir Laugarás, gjöra byggingarbréf og ganga frá samningum við lækninn og hafa eftirlit með því sem þar er gjört.

Fyrsti læknisbústaðurinn / Konungshúsið

Það kom fljótt í ljós að Konungshúsið var hálfgerður gallagripur og það voru vandræði með hitun hússins. Allt kostaði þetta fé, sem hrepparnir urðu að standa skil á og þar var ekki feitan gölt að flá. Það þurfti að taka lán og leita leiða til að greiða af þeim, leita eftir styrkjum úr ríkissjóði og semja við lækninn um eftirgjald af jörðinni.

Eftir miðjan fjórða áratuginn þótti orðið ljóst að ekki borgaði sig lengur að tjasla við Konungshúsið og þá hófst undirbúningur að því að rífa það og byggja nýjan læknisbústað í þeirri von að ríkið greiddi þriðjung kostnaðar við nýbygginguna. Af þessu tilefni var ákveðið að hækka gjald á íbúa úr 80 aurum í eina krónu. Þannig skyldu árlegar greiðslur hreppanna nema þessum upphæðum fyrst um sinn, eða næstu 5 ár: Laugdælingar 176 kr. Grímsnesingar 312 kr. Tungnamenn 392 kr. Skeiðamenn 260 kr. Hrunamenn 400 kr og Gnúpverjar 250 kr.
Að 5 árum liðnum, árið 1942, var þessi upphæð endurskoðuð miðað við fólksfjöldabreytingar í hreppunum og skyldi þá gjaldupphæð hvers hrepps nema 1 kr. á ári á íbúa til 1946. Samkvæmt manntali við endurskoðunina hafði Laugdælum fækkað um 16, voru 160, Grímsnesingum fjölgað um 20 (217), Tungnamenn höfðu bætt við sig 8 íbúum (399), Skeiðamönnum hafði fækkað um 13 (247), Hrunamönnum hafði fækkað um 15 (385) og Gnúpverjum hafði fækkað talsvert, eða um 33 (217).
Þegar kom að því að greiða af kreppulánum sem hvíldu á læknisbústaðnum, var eignarhlutur hreppanna reiknaður út og þeir skyldu hver greiða sinn hlut í samræmi við sinn hlut. Svona varð skiptingin milli hreppanna:
1. Grímsneshreppur             19,0%   
2. Laugardalshreppur             9,2%     
3. Biskupstungnahreppur    23,0%   
4. Hrunamannahreppur       22,3%   
5. Gnúpverjahreppur           12,4%     
6. Skeiðahreppur                 14,2% 
Fasteignamat jarðarinnar árið 1945, þegar eignarhlutir hreppanna voru ákveðnir, var kr. 61.800.   

Ekki virðast oddvitarnir hafa hugað mikið að því, framan af, að afla annarra tekna af jörðinni, en þeirra sem læknirinn greiddi í leigu. Það var ekki fyrr en á fundi þeirra 1936 sem þeir fara að hreyfa þeim möguleika að leigja land undir sumarbústaði. Sigurður Jónasson, forstjóri, hafði þá falast eftir að fá land á leigu fyrir sumarhús. “Var þetta samþykkt að láta umbeðið land á erfðafestu í 50-80 ár gegn 200 kr árlegu gjaldi og leyfi til að nota heita upsprettu til upphitunar sumarbústaðarins. sem er innan svæðisins og laga hana til eða bora upp svo hún verði vel nothæf, en þó þannig, að ekki dragi frá öðrum heitum laugum í landinu.” Eins og síðar átti eftir að koma í ljós, var nokkuð vanhugsað að gera ekki ráð fyrir að fyrirbærið “vísitala” gæti skipt máli á næstu 50-80 árum. Þá hefur þekking á þeim jarðhita sem var að finna í Laugarási verið harla lítil, fyrst samþykkt oddvitanna felur í sér efann um hvort það væri nægilegt heitt vatn til ráðstöfunar til að hita læknishúsið og einn sumarbústað.
Ekki varð neitt úr því að Sigurður Jónasson byggði sér sumarhús þessu sinni.

Nýr læknisbústaður

Læknisbústaðarnefndin, eins og oddvitanefndin kallaði sig oft á þessum tíma, hittist tvisvar á fundi 1938, enda undirbúningur og byggingu nýs bústaðar kominn á skrið. Á fyrri fundinum, sem var haldinn í mars, var ákveðið að bjóða bygginguna út, en áætlaður kostnaður við hana var kr. 23.000. Að öðru leyti var fjallað um mögulega fjármögnun úr bönkum og sjóðum.
Mánuði síðar kom nefndin saman aftur til að samþykkja að taka tilboði Jóns Guðmundssonar á Blesastöðum, en hann bauðst til að byggja húsið fyrir kr. 22.000, en sú tala átti eftir að hækka. Samningurinn gerði ráð fyrir að húsið yrði fullbyggt vorið 1939. Byggingarkostnaðurinn reyndist vera kr, 25.248.52. Ólafur Einarsson, læknir og fjölskylda hans fluttu í húsið í fyllingu tímans.

Nýting jarðarinnar

Læknishúsið (gulur hringur) og húsin í nágrenninu.

Þegar nýi læknisbústaðurinn var risinn blasti við að greiða af lánum sem á honum hvíldu og sem fyrr voru hrepparnir hreint ekki vel stæðir. Á þessum tíma var ný atvinnugrein smátt og smátt að eflast, en það var gróðurhúsaræktun og smátt og smátt fóru uppsveitamenn að gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem fólust í jarðhitanum. Það þarf því ekki að koma á óvart að það var á þau mið sem oddvitanefndin réri, þegar öflun tekna af jörðinni, eða hlunnindum hennar var rædd. Það var því í beinu framhaldi af umfjöllun um fjármálin á fundi nefndarinnar í maí 1939, að sú stefna var tekin, að “reyna að hagnýta hlunnindi jarðarinnar, með því að leigja jarðhita og nauðsynlegt land til gróðurhúsa. Var samþykkt að leigja hvern sekúndulítra af heitu vatni á kr. 100 á ári og ca. 25 kr. fyrir hvern hektara lands.

Á tíma Ólafs Einarssonar í Laugarási voru honum falin talsverð völd og/eða verkefni varðandi málefni jarðarinnar, sem sjá má af því að honum, ásamt formanni nefndarinnar var falið að “leita eftir leigumöguleikum”.

Börge Johannes Magnus Lemming.

Fyrsti leigjandinn undirritaði samning árið 1940 og það var danskur maður, Börge Jóhannes Magnus Lemming. Lemming var að sögn þeirra sem til þekktu, nokkuð sérstakur maður. Hann fékk það land sem síðar varð Hveratún, en á hans tíma kallaðist það Lemmingsland.
Árið eftir samþykktu oddvitarnir samning við 5 leigjendur, en þeir gerðu ráð fyrir leigu til 60 ára.

Með fjölgandi leigusamningum tóku þeir breytingum. Þannig ákvað oddvitanefndin árið 1944, að þess yrði getið í samningum framvegis, “að læknishéraðið ætti forkaupsrétt að öllum mannvirkjum leigutaka, ef hann óskar að selja.”

Nefndin hélt tvo fundi þetta ár, enda ýmislegt í pípunum. Þannig hafnaði hún umsókn frá Stórstúku Íslands um land undir drykkjumannahæli, bæði vegna þess að stúkan vildi svo stórt land og vegna þess að nefndin taldi ekki æskilegt að fá slíka starfsemi í Laugarás.
Annað stórt mál á þessu ári var umsókn Rauða kross Íslands um land fyrir sumardvalarheimili barna og fyrir því var nefndin móttækilegri. Með samningnum við Rauða krossinn varð sú breyting, að sett var inn í samninga ákvæði um “meðalvísitölu 12 mánaða, næstu fyrir gjalddaga.” Með þessu var þó tryggt að leiguupphæðir rýrnuðu ekki eftir því sem tímar liðu.

Þegar þessu fyrsta tímabili, frumbýlingsárunum, lauk, greiddu sex aðilar leigu fyrir land og hita í Laugarási, auk læknisins. Þrír greiddu fyrir sumarhús, tveir fyrir garðyrkjulóðir og einn (RKÍ) fyrir aðra starfsemi.

Uppbyggingartími (1946-1967)

Þetta tímabil hófst þegar íbúar, að undanskildum þeim sem reistu sér sumarhús, voru því sem næst 10. Það stóð síðan þar til umfang verkefnanna var orðið meira en svo, að oddvitanefndin treysti sér til að halda í alla spotta. Það var árið 1967, en þá kom nefndin á fót framkvæmdanefnd fyrir Hitaveitu Laugaráss. Á þeim tíma var umfang starfs héraðslæknisins einnig orðið meira en svo að henn teldi sig ráða við það án aðstoðar. Þessi bólgnun á læknisstörfunum var ekki síst til komin vegna byggingarframkvæmda við Búrfellsvirkjun.

Læknirinn hættir búskap

Árið 1946 varð sú meginbreyting gerð, að héraðslæknirinn afsalaði sér ábúðarrétti á jörðinni og nefndin samþykkti “að heimila honum að ráðstafa jörðinni á þann hátt sem honum hentar. Þá skal jörðin ekki vera í ábúð lengur en til næstu fardaga frá því að hann hverfur frá starfi sínu sem læknir í Laugaráshjeraði.” Þegar Ólafur Einarsson, héraðslæknir hvarf síðan á braut árið eftir, tók héraðið við jörðinni eftir úttekt og Helgi Indriðason tók við sem leigjandi hennar og ábúandi í byrjun árs 1948.

Íbúafjölgun

Árið 1967 voru íbúar með fasta búsetu í Laugarási 83 að tölu - hafði þá fjölgað um 70 á 20 árum. Það má nærri geta, að umfangið í starfi oddvitanefndarinnar hafði vaxið mikið á þessu tímabili. Flestir nýbúar fluttu í Laugarás vegna jarðhitans og tóku til við að stunda ylrækt. Það þurfti að skipuleggaja og undirbúa lóðir og byggja upp innviði. Það má segja að hitaveitan hafi verið það mál sem mesta umfjöllun fékk, enda byggðist afkoma íbúanna að miklu leyti á því að hún sæi þeim fyrir nægu og öruggu heitu vatni í gróðurhúsin. Árið 1946 greiddu sjö aðilar fyrir heitt vatn og land, alls kr. 4358. Árið 1967 greiddi 21 aðili kr 224.554 fyrir leigu á landi (jarðarafgjald) og hita.

Áskoranir

Ýmislegt kallaði á aðkomu oddvitanefndarinnar á þessu tímabili og annir hennar fóru vaxandi. Íbúafjölgunin kallaði á heilmikið umstang: það þurfti að taka við og afgreiða umsóknir um land og hita frá fólki sem hafði hug á að setjast að í Laugarási. Þá þurfti að bjarga fjármálunum, skipuleggja jörðina og ræsa fram land til ræktunar. Þarna kom ný hengibrú yfir Hvítá hjá Iðu haustið 1957, sem skipti sköpum á margan hátt fyrir Laugarás. Það var með henni, sem segja má að allt hafi komist á hreyfingu.

Skálholt

Það þarf ekki að koma á óvart, að samhliða uppbyggingunni í Skálholti á þessum tíma, kæmu þaðan óskir um einhverskonar samvinnu. Í byrjun árs 1958 kom fram að “Skálholtsnefndin hefði í huga að sækja um að fá heitt vatn handa Skálholtsstað úr hverunum í Laugarási, gegn því að héraðið fái kostnaðarlaust vatn frá leiðslunni handa garðyrkjubændum er lönd leigja meðfram henni.” Þetta mál þróaðist síðan næstu árin, án þess að endanlega yrði úr samningur. Það var vissulega samþykktur samningur um heitt vatn til Skálholts, en það gekk treglega að undirrita hann og svo fór, að málið var farið að standa í vegi fyrir öðrum málum, sem kölluðu á stofnun hitaveitu fyrir Laugarás. Þannig varð það niðurstaðan að enginn samningur var gerður vegna Skálholts og hugmyndir um hann endanlega slegnar af haustið 1963.

Sláturfélagið

Haustið 1961 gengu forsvarsmenn Sláturfélags Suðurlands á fund nefndarinnar og föluðust eftir landi til að reisa á sláturhús. Nefndin samþykkti að selja SS 3 ha land og heitt vatn eftir þörfum, sem augljóslega jók þrýstinginn á að stofnuð yrði hitaveita og sannarlega einnig að aflað yrði nægilegs magns af köldu vatni, bæði fyrir sláturhúsið og vaxandi byggðina. Sláturhúsið var byggt og tekið í notkun við haustslátrun 1964.

Nýr læknisbústaður

Í byrjun árs 1959 þótti nefndinni einsýnt að það þyrfti að byggja nýjan læknisbústað. “Með tilliti til þessa og mikils viðhalds undanfarinna ára, ályktaði fundurinn að tímabært sé að athuga, hvort ekki beri frekar að hefja byggingu á nýjum læknisbústað á öðrum stað, frekar en leggja í kostnaðarsama breytingu á húsi, sem mun ekki lengi enn uppfylla þær kröfur  sem nú eru gerðar til læknisbústaða.” Þar með fór í gang nokkurra ára ferli áður en heimild fékkst til framkvæmdanna. Á öllum fundum nefndarinnar var ítrekuð þörfin fyrir nýjan bústað, en það var ekki fyrr en um mitt ár 1962, að fyrir lá að fé yrði veitt til byrjunarframkvæmda. Húsinu var ákveðinn staður á hæðinni austur af dýralæknishúsinu og þar voru ætlaðar fyrir hann þrjár lóðir eins og skipulagsstjóri hafði teiknað þær á skipulagsuppdrætti af Laugarási.
Það var svo í ágúst 1963 sem framkvæmdir hófust og húsið var tilbúið um mitt ár 1965.

Hitaveita

Sláturhúsið kallaði á að stofnuð yrði hitaveita í Laugarási, en fram til þessa höfðu garðyrkjubændur og aðrir sem höfðu rétt til heits vatns í Laugarási, bjargað sér án formlegs félags um öflun og dreifingu á heitu vatni. Í byrjun janúar 1964 var haldinn kynningarfundur um stofnun hitaveitu í húsnæði Rauða krossins. Gróðurhúsamenn voru misánægðir með uppleggið og töldu það sér óhagstætt, en áfram var haldið og á fundi hitaveitunefndar með garðyrkjumönnum í byrjun febrúar varð samkomulag um reglugerð fyrir veituna. Í mars samþykkti oddvitanefndin svo eftirfarandi:

Þar sem fyrir liggja meðmæli meirihluta aðila í Laugarási um að stjórnarnefndin stofnsetji og reki hitaveitu fyrir byggðasvæði Laugaráss og samkomulag um reglugerð og gjaldskrá liggur fyrir, lýsir stjórnarnefndin hér með þeim vilja sínum, að koma hitaveitunni á. Til þess að svo geti orðið, samþykkir nefndin að leita frekar eftir framlagi  úr atvinnubótasjóði og lánum hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og Framkvæmdabankanum.
Nefndin vill miða við að hitaveitan geti tekið til starfa á næsta hausti.

Hitaveitan tók til starfa 24. janúar 1965.

Vatnsveita

Ein forsenda þess, að hægt yrði að starfrækja sláturhús í Laugarási, var aðgangur að nægu, góðu köldu vatni. Fram til þessa höfðu íbúar látið kælt hveravatn eða vatn úr opnum lindum, duga. Nýja brúin á Hvíta skapaði möguleika á að leita vatns sunnan ár og þar fannst álitleg lind við rætur Vörðufells, í landi Iðu.
Þegar nær dró byggingu sláturhússins óx þrýstingur á Biskupstungnahrepp að afla þess vatns sem til þurfti. Þessa færslu er að finna frá fundi oddvitanefndarinnar í janúar 1962:

Þar sem komið hefur í ljós við athugun á vatnsveitu úr Vörðufelli í Laugaráshverfi, að ýmsir örðugleikar eru á fyrir Laugarásnefndina* að koma á vatnsveitufélagi til þess að hrinda verkinu í framkvæmd, m.a. vegna þess að veitan þarf að vera  við vöxt með tilliti til aukinnar byggðar og sérstaklega uppbyggð vegna mikillar vatnsnotkunar sláturhúss um stuttan tíma og þá hætta á að hún nyti ekki styrks frá ríkissjóði nema að nokkru leyti.
Þá skorar læknisbústaðarnefnd Laugaráshéraðs* á hreppsnefnd Biskupstungnahrepps að taka að sér forgöngu um stofnun vatnsveitufélags ef það reyndist tiltækilegt, eða annist framkvæmdina, ef það teldist hagkvæmara.
(*hér er átt við oddvitanefndina, en hún gekk undir ýmsum nöfnum gegnum árin.)

Áskorun á hreppsnefnd Biskupstungnahrepps var áréttuð árið eftir og árið 1964 var málið komið á talsverðan rekspöl, en um vatnið þurfti að semja við eigendur jarðarinnar Iðu og það mál átti eftir að valda titringi í samskiptum héraðsins og Iðumanna mörg næstu ár. Upphaflega fékkst leyfi fyrir “nægilegu vatni” gegn 1/2 sek/l. af heitu vatni í Laugarási. Síðar þetta ár samþykkti oddvitanefndin þetta:

Stjórnarnefnd Laugaráshéraðs fellst á, fyrir sitt leyti, að eigendur jarðarinnar Iðu, fái allt að ½ sek/l frá væntanlegri hitaveitu Laugaráss, eftir þeim reglum sem ákveðnar verða í reglugerð og gjaldskrá hitaveitunnar, þó þannig, að ekki verði krafist gjalds fyrir hitaréttindi, enda fái vatnsveitan fullan rétt á köldu vatni úr Vörðufelli án frekari greiðslu.

Hvað sem þessu leið, þá var Vatnsveitufélag Laugaráss stofnað þann 12. júní, 1964; félagsskapur Sláturfélags Suðurlands, Rauða kross Íslands, Biskupstungnahrepps og annarra notenda. Starfsemi þessa félags eru gerð skil á öðrum stað á þessum vef, og kom kaldavatnsveitan lítið inn á borð oddvitanefndarinnar, utan þau vandræði sem sköpuðust við skiptin á köldu vatni og heitu, sem er alveg sér kapítuli. Árið 1990 var síðast færsla í fundargerð oddvitanefndarinnar varðandi þetta mál:

Samþykkt að fela stjórn Hitaveitu Laugaráss og VL að ganga frá samningum við eigendur Iðu um kaldavatnsréttindi á grundvelli upphaflegs samkomulags um þau. Formaður kalli nefndirnar saman.

Á síðasta ári þessa tímabils uppbyggingar, með tilheyrandi braski samþykkti oddvitanefndin að stofna sérstaka framkvæmdanefnd yfir hitaveituna.
Vatnsveitumálið var óleyst, en kalda vatnið var komið á alla bæi.
Sláturhús var risið og tekið til starfa.
Nýr læknisbústaður hafði verið tekinn í notkun og ákveðið hafði verið að ráða hjúkrunarkonu með nýja lækninum, Konráð Sigurðssyni, að hans kröfu. Á þessum árum stóð yfir bygging Búrfellsvirkjunar, og því blasti við að álag á héraðslækninn ykist og því var farið að vinna að því að fá aðstoðarlækni.

Kröftum dreift (1968-1981)

Í lok þess tímabils sem hér um ræðir, gerði Biskupstungnahreppur samning við læknishéraðið, þar sem hreppurinn tók jörðina á leigu og hreppurinn tók þá einnig Hitaveitu Laugaráss yfir. Læknisþjónusta í Laugarási vatt heldur betur upp á sig og Heilsugæslustöðin hafði fengið sérstaka stjórn. Með því að losa sig frá daglegum rekstri hitaveitunnar og heilsugæslunnar, varð oddvitanefndin yfirstjórnin, sem þurfti ekki að hittast nema einu sinni á ári, en það var ekki þar með sagt að hún þyrfti að óttast verkefnaskort.

Stærstu verkefni oddvitanefndarinnar á því 12 ára tímabili sem hér um ræðir var það sem hér fer á eftir.

Hitaveita

Þó svo daglegur rekstur hitaveitunnar væri kominn í hendur sérstakrar framkvæmdastjórnar, sem skipuð var formanni oddvitanefndarinnar, oddvita Biskupstungnahrepps og einum fulltrúa notenda veitunnar, þurfti nefndin að koma að málum hennar með ýmsum hætti, ekki síst þar sem hún var í stöðugri uppbyggingu. Endurskoðandi reikninga veitunnar, Páll Diðriksson, taldi rektrarafkomu veitunnar “óforsvaranlega slæma og afskriftir alltof litlar. Hitagjöldin væru alltof lág og einnig væri sanngjarnt að Biskupstungnahreppur legði hitaveitunni til 20% af þeim útsvarstekjum sem hann hefði af hverfinu.” Hitaveitan átti erfið ár meðan uppbyggingin stóð sem hæst. Árið 1972 varð úr að formanni nefndarinnar var falið “að athuga hvort ekki væri tiltækilegt að ráða sérstakan starfsmann til þess að vinna við hitaveituna og fleiri sameiginleg verkefni á vegum stjórnarnefndarinnar.” Starfsmaður var síðan ráðinn í hlutastarf.

Á fundi nefndarinnar 1973 kom til tals að breyta rekstrarformi hitaveitunnar, þannig í stjórn hennar sætu notendur og sveitarstjórn Biskupstungnahrepps - eða fulltrúar hennar. Oddvitanefndin var nokkuð áfram um að losa af herðum sínum ábyrgð á rekstri veitunnar og í nefndinni komu fram tillögur um að “notendur tækju við rekstri hennar og jafnvel Biskupstungnahreppur.”
Hér er kosið að líta þannig á, að þegar hér var komið, hafi vilji oddvitanefndarinnar staðið til að losa sig frá daglegu umstangi með Laugarásjörðinni, en taka þess í stað einhverskonar hlutverk yfirstjórnar, eða eftirlitsaðila með þessari eign sinni. Þannig gerðist það um þetta leyti, að formaður hitaveitunefndarinnar hóf að leggja fram skriflegar skýrslur um rekstur veitunnar á liðnu ári, þar sem farið er yfir framkvæmdir, ástand og horfur. Þá sinntu stjórn hitaveitunnar, Jón Eiríksson, formaður, Gísli Einarsson ritari, og Hörður Magnússon fulltrúi notenda, daglegum rekstri veitunnar og höfðu sér til fulltingis gæslumann. Til að byrja með sinnti Gústaf Sæland á Sólveigarstöðum þessu starfi í íhlaupum, en í maí 1975 var stigið það skref að ráða “gæslumann Hitaveitu Laugaráss og annarra eigna héraðsins í Laugarási”. Þegar við hann var gerður ráðningarsamningur fékk hann starfsheitið “ráðsmaður”.

Læknissetur - læknamiðstöð - heilsugæslustöð

Byggðin við Launrétt 1985 (mynd Ingibjörg Bjarnadóttir)

Læknissetrið óx stöðugt að umfangi. Árið 1968 var kominn aðstoðarlæknir, hluta úr ári, í það minnsta, og 1969 fjallar nefndin um kjör nýráðinnar hjúkrunarkonu.
Í júlí 1970 virðist héraðslæknirinn, Konráð Sigurðsson, hafa verið langt kominn með að bugast vegna vinnuálags, en þá óskaði hann eftir fundi með oddvitanefndinni, landlækni og deildarstjóra í Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu. Konráð tilkynnti, að ef ekki yrði ráðinn annar læknir með honum, myndi hann segja starfi sínu lausu. Hann sagði að “vegna stöðugrar fólksfjölgunar væri ekki unnt að láta í té eðlilega þjónustu ef einn læknir er til starfa allt árið. Þörf væri á því, að tveir læknar störfuðu í Laugarási hálft árið.” Það varð úr að ákveðið var að ráða aðstoðarlækni í 6 mánuði á ári, en þá vaknaði spurningin um húsnæði fyrir þennan starfsmann.
Árið 1969 samþykkti Alþingi breytingu á læknaskipunarlögum þannig að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum væri hægt að stofna læknamiðstöðvar í læknishéruðum. Oddvitanefndin samþykkti á síðari fundi sínum þetta ár, þessi verkefni:

1. Að stofnuð verði læknamiðstöð í Laugarási, sbr. lög nr. 35/1969 um breytingu á læknaskipunarlögum nr. 43/1965, er nái yfir núverandi Laugaráshérað, þar sem starfi tveir læknar og hjúkrunarkona.
2. Að byggð verði íbúð yfir lækni þann, sem kemur til starfa í héraðinu, sbr. lið 1.
3. Að héraðshjúkrunarkonu verði séð fyrir einstaklingsíbúð.
4. Að bætt verði starfsaðstaða í læknisálmu læknisbústaðarins, svo þar geti starfað samtímis tveir læknar.

Með þessu sættist Konráð á að halda áfram störfum, en þarna var augljóslega heilmikið verkefni framundan og og þau stærstu voru að vinna að byggingu íbúðarhúss fyrir lækni og stækka lækningaálmuna svo tveir læknar gætu haft þar starfsaðstöðu. Í nóvember var formanni oddvitanefndar, og oddvita Biskupstungnahrepps falið að vinna að famgangi þessara mála. Þeir ásamt héraðslækni, mynduðu síðan byggingarnefnd vegna íbúðarhúss læknis og lengingar lækningaálmu læknisbústaðarins og þessi sömu þrír voru síðan valdir til að setjast í stjórn læknamiðstöðvarinnar í Laugarási. Nýr læknir, Guðmundur Jóhannesson tók svo til starfa þann 1. okt. 1972.

Um áramótin 1973-4 varð læknamiðstöðin svo, óformlega, að heilsugæslustöð, sem hafði ýmsar breytingar í för með sér, bæði að því er varðaði húsnæðið og mönnun stöðvarinnar. 1974 var kosið í nýja stjórn heilsugæslustöðvarinnar, þrír menn frá oddvitanefndinni og 2 fulltrúar valdir af starfsfólki stöðvarinnar. Með lögum nr 57/1978 var svo staðfest, að heilsugæslustöðin í Laugarási væri viðurkennt sem heilsugæslustöð H2, “þar sem starfa tveir læknar hið minnsta ásamt hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki samkvæmt reglugerð.”

Þegar þarna var komið voru tveir stærstu póstarnir sem höfðu verið á borði oddvitanefndarinnar komnir í hendur undirnefnda, sem breytti stöðu nefndarinnar talsvert.

Laugarásjörðin - allt undir

Tekið í átt á Laugarásholtinu, en þar má sjá íbúðarhús og gripahús Helga Indriðasonar. Myndina tók Ingibjörg Bjarnadóttir um 1964. Þarna leiðast bræðurnir Bjarni og Atli V. Harðarsynir, en konan er líklega barnfóstra.

Fyrri hluta árs 1970 var orðið ljóst að Helgi Indriðason, bóndi, yrði að hætta búskap af heilsufarsástæðum. Oddvitanefndin ákvað að auglýsa jörðina lausa til ábúðar, en það hefur líklega verið flestum fulljóst, að búskapur með kvikfé færi ekki sérlega vel með allri ylræktinni sem komin var til að vera í Laugarási. Hún hafði smám saman þrengt að möguleikum til skepnuhalds á jörðinni. Það varð svo raunin, að með Helga lagðist hefðbundinn búskapur af í Laugarási. Læknishéraðið keypti byggingar í eigur Helga af honum. Þegar síðan var ráðinn ráðsmaður vegna hitaveitunnar og læknastöðvarinnar, var íbúðarhús jarðarinnar (Helgahús) leigt nýbúum í hverfinu og ráðsmanni.

Á fundi oddvitanefndarinnar í júli 1978 þótti ástæða til að ræða framtíðaráætlanir hitaveitunnar og nefndin beindi því þar til hreppsnefndar Biskupstungnahrepps “að hún athugi möguleika á því að hreppurinn yfirtaki  hitaveituna og rekstur hennar og sjái um allan undirbúning frekari byggðar í Laugarási.
Verði undirtektir hreppsnefndar jákvæðar, verði teknar upp viðræður um hvernig þessi breyting geti átt sér stað.

“að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu eða keypti hana.”
— Quote Source

Ætli megi ekki halda því fram að þarna hafa verið sleginn sá tónn sem leiddi til þess að oddvitanefndin dró sig alfarið út úr umfjöllun um daglegan rekstur jarðarinnar og þess sem á henni var. Í framhaldi af þeim pælingum sem þarna áttu sér stað, urðu líklega umræður um þessi mál hjá hreppsnefndum, því á fundi nefndarinnar í apríl árið eftir var þetta hitaveitumál tekið upp aftur. Þar kvaðst Gísli Einarsson, vilja “ræða þessi mál á breiðari grundvelli. Hann sagði að Biskupstungnahreppur vildi gjarnan að þessi mál yrðu tekin vel í gegn og hitaveita [yrði] ekki tekin út úr sér, heldur tæki hreppurinn við öllum eignum héraðsins – nema læknamiðstöðinni og þeim lóðum sem það [læknishéraðið] þyrfti á að halda – og hitaréttindum.” Í framhaldinu gerði Gísli það að tillögu sinni “að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu eða keypti hana.”

Það er einkar áhugavert, að oddviti Biskupstungnahrepps hafi þarna lýst vilja hreppsins til að kaupa jörðin, ekki aðeins taka hana á leigu.

Á aðalfundi nefndarinnar í júlí þetta ár, óskaði nefndin eftir því að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps setti fram einhverjar hugmyndir eða tilboð um leigu eða kaup á jörðinni, “sem gætu orðið umræðugrundvöllur hjá hreppsnefndum hinna hreppanna.”

Svo var það á aðalfundi nefndarinnar í júní 1980 og málin fóru að skýrast frekar, en þá var eftirfarandi bókað:

Rætt um svör hreppsnefndanna við bréfi form um það hvort þær vildu hugsanlega leigja eða selja Biskupstungnahreppi jörðina Laugarás.
Svör hreppsnefndanna voru öll jákvæð hvað varðar leigu, en sumar töldu sölu varla koma til greina að svo komnu máli.
Fram kom á fundinum að Hagsmunafélag Laugaráss mælir með að Biskupstungnahreppur taki jörðina á leigu. Nokkrar umræður urðu um málið. Síðan var kosin viðræðunefnd til að ræða við nefnd sem Biskupstungnahreppur hefur kosið í þetta mál.
Í nefndina voru tilnefndir Jón Eiríksson, Daníel Guðmundsson og Þórir Þorgeirsson. Nefndin skyldi siðan leggja samningsdrög fyrir hreppsnefndirnar. Fyrst ætti þó að kalla saman oddvitafund til þess að fjalla um málið.

Fulltrúar Biskupstungnahrepps í samninganefndinni voru, auk Gísla Einarssonar, hreppsnefndarmennirnir Skúli Magnússon og Þorfinnur Þórarinsson. Nefndin kom tvisvar saman. Á fyrri fundinum, sem haldinn var í nóvember 1980, rifjaði Jón Eiríksson upp aðdragandann að því að skipað var í samninganefndina. Í fundargerðinni segir:

Jón Eiríksson rifjaði upp aðdraganda þessa samningafundar sem er, að á oddvitafundi 20. júlí, 1979 lýsti oddviti Biskupstungnahrepps hugmyndum Biskupstungnamanna um að kaupa eða leigja jörðina Laugarás og þá jafnframt yfirtaka Hitaveitu Laugaráss. Málið var sent hreppsnefndunum til umsagnar og lýstu þær því allar yfir, að þær vildu leigja jörðina, ef viðunandi samningar næðust, en ekki selja.

Þetta síðasta stangast á við það sem skráð er í fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, þann 10. júní 1980, en þar segir:

1. Samningar um Laugarás
Oddviti skýrði frá því, að formaður Heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási hefði skýrt frá því, að sent hefði verið bréf til hreppsnefnda hinna hreppanna í Laugaráslæknishéraði, þar sem spurt hefði verið hvort þeir væru reiðubúnir að leigja eða selja Biskupstungnahreppi Laugarás. Hefðu hreppsnefndirnar svarað þessu játandi, en hreppsnefnd Skeiðahrepps vildi leigja, en ekki selja.

Ekki verður annað skilið af þessari bókun, en að allir hrepparnir, nema Skeiðahreppur, hafi verið tilbúnir að selja jörðina.
Annað sem vekur athygli við fundargerð samninganefndarinnar þarna í nóvember 1980 er, að “upphaf þessa máls væri, að Hagsmunafélag Laugaráss hafi óskað eftir því að hreppurinn taki jörðina á leigu og yfirtaki hitaveituna.”
Það er vissulega rétt, að stjórn Hagsmunafélagsins ræddi möguleikann á fundum sínum árið 1979, en engin samþykkt var gerð þá, né heldur skorað á Biskupstungnahrepp. Á aðalfundi félagsins 1979 er þetta bókað um málið: “Yfirtaka Biskupstungnahrepps: Rætt var lítillega um þennan möguleika.” Á grundvelli þessa verður að teljast vafasamt að tala um að frumkvæði í málinu hafi komið frá hagsmunafélaginu. Það var ekki fyrr en a aðalfundi félagsins í júní 1980, sem félagið tók formlega afstöðu með áskorun sinni:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.

Samningur um leigu Biskupstungnahrepps á Laugarásjörðinni var undirritaður þann 6. maí 1981.
Á þessum sama fundi var undirritaður samningur þar sem “Laugaráshérað hið forna selur Biskupstungnahreppi Hitaveitu Laugaráss í því ástandi sem hún er nú.”

Helstu önnur viðfangsefni

Fram til þess tíma þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, sá oddvitanefndin um að taka við og afgreiða umsóknir um lóðir og lönd til áhugasamra, en smám saman hafði Biskupstungnahreppur meira um það að segja hvernig landinu var ráðstafað. Það kemur nokkur skýrt fram þegar starfsmannafélag Sláturfélags Suðurlands óskaði eftir að fá 8 hektara “land undir sumarbústaði sunnan Auðsholtsvegar, austan Teigs og norðan túngirðingar.” Þetta land er þar sem Bæjarholt er nú. Oddvitanefndin samþykkti þessa umsókn og ákvað að leigan skyldi vera að minnsta kosti kr. 5000 á hektara á ári. Ári síðar kom þetta mál aftur til tals:

Formaður lagði fram uppkast að leigusamningi á sumabústaðalandi því sem stjórnarnefndin hafði gefið starfsmannafélagi SS kost á, sbr fundargerð aðalfundar 1972.
Á fundinum upplýsti oddviti Biskupstungnahrepps að hreppsnefndin hefði ákveðið að heimila ekki byggingu sumabústaða á þessum stað. Formanni var falið að tilkynna þetta starfsmannafélaginu og því gæti ekki komið til samninga við félagið.

Oddvitanefndin hafði á þessu tímabili með nýtingu jarðarinnar að gera: kom að úthlutunum lóða, hafði skoðanir á hitaveitu, vatnsveitu og heilsugæslu, en hún fjarlægðist smám saman þessi verkefni. Þar sem ekki var búið að stofna sérstakar framkvæmdanefndir, eins og varðandi hitaveiturna og heilsugæsluna, var það mikið til í höndum formanns nefndarinnar, Jóns Eiríkssonar og oddvita Biskupstungnahrepps, að sinna því sem sinna þurfti í umboði nefndarinnar. Þannig voru það þeir Jón og Gísli Einarsson, sem stóðu fyrir fundi árið 1975, um frárennslismál í Laugarási og unnu það mál síðan áfram. Hlutverk nefndarinnar var, sem sagt, smám saman viðaminna að því er varðaði málefni Laugaráss.

Það má kannski segja að með því læknissetrið í Laugarási var orðið að fullbúinni heilsugæslustöð, með tveim læknum og hjúkunarfræðingi, hafi verið komið að ákveðnum tímamótum í samstarfi hreppanna sem að stóðu. Þarna var eiginlega bara eftir að byggja nýja og nútímalega heilsugæslustöð og það gat auðveldlega gerst án þess að Laugarás að öðru leyti blandaðist í það.

Í nóvember 1978 hélt heilsugæslan boð í Laugarás sem endaði með kaffisamsæti í Aratungu. Þar fór Jón Eiríksson yfir söguna og það sem framundan var, en í nánustu framtíð var þá um það að ræða að stækka lækningaálmu stöðvarinnar og “tryggja þyrfti stöðu stöðvarinnar í lögum, en stofnun heilsugæslustöðvar í Laugarási var frestað, með lögum, 1973. Þrátt fyrir það hafi stofnunin notið fullra réttinda sem heilsugæslustöð.”

Laugarás 1982 (mynd Ingibjörg Bjarnadóttir)

4. Frá 1981 - Jörðin í umsjá Biskupstungnahrepps.

Biskupstungnahreppur tók við umsjá með málefnum Laugaráss árið 1981 og þá voru íbúar í Laugarási 90 að tölu.

Uppfært 07/2022