Roða-Teitur og þokulúður á Skálholtshamri


Ingólfur á Iðu hafði heyrt sögn um það, að þarna hefði um einhvern tíma búið einsetukarl og verið með eina kú og nokkrar kindur; hét sá Teitur, en kallaður Roða-Teitur.

Í Sýslumannaævum Boga Benediktssonar er í neðanmálsgreinum eftir Biskupstungnamanninn Hannes Þorsteinsson frá Brú einmitt getið um 'Roða-Teit á Skálholtshamri' og eru kunnir afkomendur hans, en ættir hans eru ekki raktar utan það að hann var Loftsson.
Teitur þessi hefur verið fæddur um 1696 og kona hans var Oddný Símonardóttir frá Höfða og þar bjuggu þessi hjón 1729 og áfram 1735 á móti foreldrum Oddnýjar, en þetta fólk virðist farið frá Höfða 1747 og sé ég þeirra ekki getið í Tungunum eftir það.

Í bændatölum og manntalsbókum sýslumanna frá 18. öld er hvergi minnst á búsetu á Skálholtshamri, þannig að ekki hefur þarna verið venjulegt bóndabýli eða hjáleiga heldur er sennilegra að Roða-Teitur hafi verið ferjumaður á vegum Skálholtsstóls. Líklegt er þá að þetta hafi verið einhverntíma eftir 1735 og fyrir 1785, en þá lagðist Skálholtsstóll af.

Tóftirnar, sem væntanlega eru eftir húskofa Teits, eru nú orðnar mjög ógreinilegar enda yfir 200 ára gamlar.
(Bogi Benediktsson: Sýslumannsævir, Rv. 1881-1932. Einnig ábúendatal jarða í Biskupstungum 1703-1786, unnið eftur ýmsum heimildum í Þjóðskjalasafni. Í eigu höf.)
 

Séð frá Iðu yfir á ferjustæðið. (mynd frá Iðu)

Fram til þess að brúin var fullgerð, 1957, var lögferja frá Iðu, og hefur svo verið frá fornu fari, þó vel megi vera, að hún hafi einhvern tíma verið rekin frá Skálholti.

Þokulúður, sem svipar til þess sem var á Skálholtshamri. (Mynd af vef Byggðasafns Reykjanesbæjar)

Af Iðubæjunum var góð útsýn yfir ferjustaðinn, en auk þess var svo hafður lúður á Skálholtshamri, sem líklega hefur komið með dragferju, sem hér var sett 1903 og var um nokkurra ára bil. Lúður þessi var handknúinn og dugði vel til þess að vekja upp á Iðu. Þegar hljóðbært var, heyrðist í lúðrinum alla leið niður að Álfsstöðum á Skeiðum, en þangað er um 6 km leið í beinni línu.
(Hafliði Ketilsson f. 1916 [d. 2003], Helgi Ketilsson f. 1905 [d. 1987] og Valgerður Ketilsdóttir f. 1905 [d. 1993], en þau eru öll fædd á Álfsstöðum og bjuggu þar fram til 1984, en það var fáum árum áður  en þau fluttu þaðan, að þau sögðu höfundi þetta).

úr teikn. AH

Runólfur Guðmundsson taldi að þetta hefði verið samskonar lúður og notaður var sem þokulúður á skipum.
Þetta var dálítill kassi úr harðviði og stóð á fæti, en út úr kassanum gekk sveif sem snúið var. Í kassanum voru blöðkur eins og í fýsibelg og út úr honum gekk svo látúnspípa, u.þ.b. 30 sm. löng sem vísaði víðara opinu í átt að Iðu. (IJ/RG) Hljóðið var skerandi og slitnaði aldrei alveg.
Lúðurinn var að sögn Runólfs gjöf frá erlendum ferðamanni sem hér kom.
Bæði austan og vestan Skálholtshamars eru eyrar, og nær sú vestari að klettanibbu, sem skagar út í ána, og úti fyrir þessari nibbu er lítið sker eða steinn, sem heitir Böðvarssker.
(Byskupa sögur, I. bindi. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Rv. 1953, bls. 22)

Böðvarssker (mynd pms)

Vörðusker þegar mikið er í ánni (mynd pms)

Úti fyrir eyrinni austan hamarsins, í miðri ánni, er allstórt, grýtt sker, sem heitir Vörðusker.
Á eyrum þessum eru varasamar sandbleytur, sérstaklega vestan hamarsins.

Uppfært 01/2019