Vestari stöpullinn, sumarið 1953

viðtal við Sigurð Sigurdórsson

Páll og Sigurður í Slakka

Ég hitti Sigurð fyrst í Slakka í Laugarási, þegar brúarljósin höfðu verið tendruð á Hvítárbrúnni þann 31. október, 2022. Mér fannst ómögulegt að sleppa honum án þess að fá hann til að segja mér frá tímanum þegar hann starfaði við byggingu vestari stöpuls brúarinnar, sumarið 1953. Hann tók því vel þegar ég fór fram á að fá að heimsækja hann til að fræðast um þetta.
Ég lét svo til skarar skríða í fyrri hluta nóvember og við hittumst heima hjá honum í Hveragerði og ræddum minningar hans frá tímanum sem þarna var um að ræða. Við fórum nú yfir víðan völl, en hér fylgir sá hlutinn sem snýr að brúarvinnunni.
Það var gott að heimsækja Sigurð, þó hann segði nú að konan hans hefði skammað hann ef hún sæi að hann bæri fram mjólkina í kaffið, í fernunni. Konu sína, Sigríði Erlu Ragnarsdóttur, missti Sigurður í lok ágúst þetta ár.

Uppruni.

Sigurður Sigurdórsson

Sigurður fæddist í Götu í Hrunamannahreppi þann 1. júlí, 1933. Foreldrar hans voru Katrín Guðmundsdóttir (1895-1976) og Sigurdór Stefánsson (1891-1970). Systkini Sigurðar voru  Stefán  (1920-2011), tvíburarnir  Guðmundur (1921-2004) og Guðfinna (1921-2003) og Ágústa (1923-2012). Sigurður var langyngstur systkina sinna. Hálfbróðir hans, samfeðra, var Sigurgeir (1915-2010).

Árið 1947, þegar Sigurður var 14 ára tóku við búinu, systir hans Ágústa og maður hennar Stefán Scheving Kristjánsson. Í framhaldi af því fór Sigurður að vinna fyrir sér, „flæktist hingað og þangað, var m.a. á jarðýtu í Ölfusinu og uppi í hrepp.“ Hann fór á síld 1950 á bát sem var gerður út frá Reykjavík en síldveiðin fór fram fyrir norðan land. Svo var hann „svona á flakki“ og var í Vestmannaeyjum á vertíð 1953.

Það var svo í vertíðarlok (11. maí) 1953 að Sigurður fékk vinnu við að hefja byggingu Hvítárbrúar hjá Iðu.

Nú gef ég Sigurði orðið.

Loftur Bjarnason á Iðu

Ég fór í vertíðarlok beint upp að Iðu, en ég hafði þá fregnað að það væri verið að ráða mannskap til brúarbyggingarinnar.  Til að byrja með var ég bara að snúast í kringum Sigurð Björnsson brúarsmið, en þá var vinnuflokkurinn ekki kominn á staðinn. Sigurður var þá að mæla út stefnu brúarinnar og svoleiðis og Loftur á Iðu og ég vorum í því að róa honum yfir ána sitt á hvað.  En svo kom að því að fólkið sem átti að byggja þennan vestari stöpul brúarinnar fór að tínast á staðinn.

Fólkið og daglegt líf

Sigurður mundi nöfn flestra þeirra sem störfuðu að brúarbyggingunni þetta sumar og meðfylgjandi mynd auðveldaði upprifjunina.

Hluti brúarvinnuflokksins sumarið 1953.
Fremri röð:
Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir frá Iðu, Guðmundur Einarsson frá Iðu, Trausti Ólafsson frá Kjóastöðum, Jón Ingi Eldon Hannesson, Kristín Sveinsdóttir frá Ósabakka, Ólafur Rafnar Guðmundsson frá Drumboddsstöðum, Sýrus Guðvin Magnússon frá Hellissandi, Kristmundur Magnússon frá Hellissandi, Skarphéðinn Sveinsson frá Ósabakka.
Aftari röð: Sigurður Sigurdórsson frá Götu, Gestur Bergmann Magnússon frá Hellissandi, Guðjón Sigfússon Öfjörð frá Eyrarbakka, Stefán Sch.Kristjánsson, Sigurbjörn Ingimundarson frá Reykjavöllum (líklegast).

Tjaldbúðir við Hvítá og í baksýn barnaheimili Rauða krossins.

Það var komið þarna með vinnuskúra og tjöld. Við bjuggum í tjöldum sem sett voru upp á flöt sem var neðan vegar skammt frá vinnusvæðinu. Flötin sést ekki lengur fyrir trjám. Þegar eystri stöpullinn var svo byggður, voru búðirnar þeim megin, fyrir neðan brúna á flöt sem þar var,  en þegar lokaáfanginn var síðan byggður 1957 voru búðirnar aftur við vesturendann. Tjöldin voru góð,  láku ekki. Ég kunni ákaflega vel við að gista í þessum tjöldum. Það voru tveir saman í hverju tjaldi. Við þurftum auðvitað sjálfir að þrífa í kringum okkur, enda var það nú ekki mikið verk.  Þau voru með trébotna, tvö rúmstæði og olíuofn til að hita upp. Seinna gistu menn síðan í skúrum, í kojum. Ég veit ekki hvort það er nokkuð betra. 

Mennirnir í flokknum voru svona á aldrinum frá 15 ára og síðan upp undir þrítugt. Þetta voru sem sagt mest ungir menn, en það var svona einn og einn inn á milli sem hafði meiri reynslu og aldur, svona til að hafa stjórn á þessu.  Einn þeirra var Hugi (Jóhannesson), sem síðar leiddi sinn eigin brúarvinnuflokk. Annar þessara reynslubolta var Gestur [Bergmann] Magnússon. Þarna voru auðvitað menn sem voru búnir að vera í brúarvinnu árum saman og kunnu því til verka. Þeir voru þarna nýlega búnir að byggja brúna á Jökulsá á Fjöllum.

Ýmislegt átti sér stað, fyrir utan vinnuna við að byggja stöpulinn þetta sumar, en meðal þess er margt sem ég vil nú ekki segja frá.

Guðjón Sigfússon var svakalega góð eftirherma. Hann átti það til að herma svoleiðis eftir Helga Hjörvar, þegar hann kallaði í Úlf, son hans, að hann hélt að pabbi sinn væri kominn. Úlfur var nú svona – frekar þungur til vinnu – ekki mikið fyrir að halda áfram. Og þegar karlinn öskraði á hann með rödd föður hans ....!  Úlfur kom úr Reykjavík og það voru fleiri sem komu þaðan. Það var einhver klíkuskapur með það að koma ungum mönnum sem voru í skóla í þessa vinnu. Þannig var einnig svo um Jón [Hannesson, barnabarn Hlínar].

Kristín Sveinsdóttir (Stína á Ósabakka) var mjög lengi ráðskona í svona vinnuflokkum.  Hún var mjög hress og skemmtileg og þær báðar  - Sigurlaug líka. Það var mikið starf hjá þeim að sjá um mat fyrir allan hópinn sem þarna var. Ég kom frá Vestmannaeyjum. Þar kostaði fæðið hjá Hraðfrystistöðinni 40 kr á dag. Þá var kaupið, að mig minnir 8 kr. Þegar ég kom upp að Iðu kostaði fæðið 16 kr.,  fyrir utan það, að það var lúxus fæði, en hitt var nú svona upp og ofan, sást aldrei mjólk eða vatn eða neitt svoleiðis. Á Iðu var yfirlitt alltaf aðalréttur og eftirréttur. Máltíðirnar voru einar sex á dag. Morgunkaffi, hálftíu kaffi, hádegismatur, síðadegiskaffi, kvöldmatur og kvöldkaffi.  Þetta var alveg öndvegis konur og öndvegis matur. Báðar alveg einstaklega þægilegar, hugsuðu vel um okkur. 

Þarna var viðtekin venja, þegar var sólskin og gott veður, hlýtt, þá máttu allir, eftir hádegið, fara í ána. Við gerðum það dálítið, að synda yfir ána. Maður fór helvíti langt niður með ánni. Þær syntu einmitt báðar yfir, Stína á Ósabakka og Sigurlaug á Iðu. Sigurður sagði þetta vera varúðarráðstöfun - ef að við dyttum í ána þá værum við ekki óviðbúnir.

Afþreying utan vinnu fólst aðallega í að leika sér í fótbolta, stunda aðrar íþróttir og spila. Mötuneytisskúrinn var nokkuð stór svo þar var hægt að koma þar saman. Það voru stundum haldin böll, en Sigurður lagði nokkuð upp úr því af starfsmennirnir væru bara á staðnum, „til að forða ykkur frá sollinum“ eins og hann orðaði það.

Grétar Geirsson

Sigurður sendi boð til stúlknanna sem störfuðu á barnaheimilinu og svo voru þær sóttar yfir ána á báti og skilað aftur að dansinum loknum. Grétar Geirsson, sem var þarna um það bil 15 ára, spilaði þarna á nikku.  Ég held það hafi bara allir verið ánægðir á báðum stöðum, með þetta fyrirkomulag.

Ef Krossinn hefði ekki verið þarna, hefði verið um það að ræða að fara á ball á Vatnsleysu, Flúðum, Ásaskóla eða Brautarholti. Það voru böll nánast um hverja helgi í einhverju þessara samkomuhúsa.

Við vorum mestmegnis á staðnum um helgar. Laugardagar voru ekki neinir frídagar þarna og þá voru það ekki nema sunnudagarnir. Það var unnið frá 8  að morgni til 19 að kvöldi nema á sunnudögum. Margir áttu langt að fara heim til sín. Þarna voru til dæmis þrír bræður frá Hellissandi, Gestur, Sýrus og Kristmundur Magnússynir.

Vinnan við stöpulinn

Þegar ég kom þarna spurði Sigurður Björnsson mig að því, hvort ég væri vanur að smíða. Ég sagði nei. Þá segir Loftur á Iðu: „Ja, hann er nú ekki líkur pabba sínum ef hann getur ekkert smíðað“.  Þá var ég settur með Huga í smíðarnar. Svo sagði Hugi við mig, sko, „Sigurður, hann á til með að fá svona köst, þegar hann skammar allt og alla og allt er ómögulegt og þá skaltu bara passa þig á því að gera ekki neitt, því þegar hann er í því stuði er langbest að gera ekki neitt.“ Hugi var alltaf svo rólegur. Það var einstaklega gott að vinna með Huga. Einusinni þegar við vorum að steypa, þá brotnaði niður keyrslubrú – fyrir hjólbörurnar.  Karlinn (Sigurður) kom, alveg ... tók stóra planka og henti þeim til. Nú það voru allir eins og þeytispjöld. Svo leit hann á mig: „Af hverju gerir þú ekkert!?“. „Sýnist þér vera mikið gagn í þessu?“ segi ég. Þá leit hann upp, þá fór hann að hlæja. Þetta var nákvæmlega það sem Hugi var búinn að segja mér að myndi gerast. Hugi var sennilega sá eini sem þarna voru, sem stundaði brúarsmíðina áfram sem aðalstarf. Þarna var Gestur búinn að vera lengi í brúarsmíðinni. Sýrus varð rennismiður að ég held, en ég veit ekki með bræður hans, enda slitnaði á öll tengsl eftir að þessum tíma lauk. Þetta voru menn sem voru búnir að vera með  Sigurði árum saman. Stefán Kristjánsson var búinn að vera í brúarsmíðinni hjá honum norður á Hólsfjöllum og hann gat komið bara þegar honum hentaði, að vinna.

Í brúarvinnuflokknum unnu menn, í stórum dráttum, annaðhvort við smíðar eða járnabindingar og járnabeygjur.  Allt verkið var unnið á staðnum og steypan keyrð í hjólbörum. Mölin í steypuna var tekin á Murneyrum. Guðmundur Einarsson á Iðu var með vörubíl og sinnti þessum malarflutningum. Þá var vegurinn niður að Reykjum kominn þar sem núverandi vegur er. Gamli vegurinn hefði aldrei þolað flutningana að brúarstæðinu.

Við undirbúninginn var sprengd þó nokkuð djúp hola inn í Iðuhamarinn fyrir stöpulinn. Svo var settur hringur í kringum holuna, úr uppistöðum og mótin fyrir stöplinum voru öll hengd í þennan hring, þannig að þau náðu hvergi í jörð. Þau náðu bara niður að  brúninni á holunni, en voru hengd upp, neðan í hringinn. Þau voru sem sagt ekki reist á jörð. Það var þannig sprengd hola, sem síðan var fyllt af steypu. Það var mikið magn af steypu sem fór í þetta. Þarna var náttúrulega steypuhrærivél en keyrt að henni í hjólbörum. Mig minnir að þarna hafi síðan verið gálgi, sem síló var hengt neðan í, sem síðan hafi verið híft upp til að sturta í mótin. Það var svo notaður traktor við að draga sílóið upp og þetta gekk ótrúlega vel fyrir sig.

Stöplarnir voru steyptir alveg niðri við ána. Uppistöðurnar voru reistar upp, sex metra hæð í einu, síðan urðum við að labba eftir þessum staurum, og bera á milli okkar timbrið sem var svo sett yfir til þess að búa til gólfið í stillansana. Með þessu móti hækkaði uppslátturinn um sex metra í einu. Mig minnir að stöpullinn hafi farið í 26 metra. Það vandist að vera í þessari hæð. Maður varð ekkert meira lofthæddur á fyrstu sex metrunum en þegar  komið var alla leið upp. Gestur Magnússon hljóp eftir þessu. Það var einmitt svolítið merkilegt með hann, þegar verið var að byggja Þjórsárbrúna, gömlu bogabrúna, að þá datt hann. Hann náði þá í einhvern spotta, sem lafði út úr stillönsunum og sveiflaði sér inn í þá aftur. Svo hélt hann bara áfram. Það var ekki til í hans huga neitt sem hét lofthræðsla.

Þegar var verið að byggja Ölfusárbrúna, þá datt einn í ána hjá þeim, held að það hafi verið Jónas Gíslason, brúarsmiður, og hann bjargaði sér bara á sundi. Þetta sat svo alltaf í karlinum. Þannig að það þurfti að venja sig við hana.  Maður fór í ána, áður en Stóra Laxá var alveg búin að sameinast jökulvatninu. Þegar maður var búinn að synda út í jökulvatnið og inn í hitt aftur, var það bara eins og koma í volgt. Þegar synt var yfir, var farið út í fyrir sunnan brúarstæðið og komið í land hinumegin á sandeyrinni fyrir neðan Skálholtshamar hinumegin. Það var bara synt aðra leiðina, en bátur notaður til að komast til baka. Við fengum að nota ferjubátana þegar þurfti að fara yfir ána. Við þurftum ekkert að kalla út ferjumann til að komast yfir, það var nóg af ferjumönnum þarna, sko.

Þegar ég þurfti að fara um haustið var ekki búið að ljúka við að steypa stöpulinn. Ég var þá að fara að læra járnsmíði hjá Kaupfélagi Árnesinga. Mig minnir að síðan hafi ég komið aftur að brúarsmíðinni sumarið eftir, í sumarfríinu og þá við eystri brúarstólpann. Mig minnir að þetta hafi verið sumarið eftir, en það er mögulega misminni. [ýmsar framkvæmdir á vegum ríkisins lágu niðri 1954 vegna verkfalls verkfræðinga og mun eystri stöpull brúarinnar hafa verið steyptur umm sumarið 1955. Eitthvað kann þó að hafa verið unnið við brúarsmíðina.])

Ég var svo þarna aftur, sem sagt, þegar seinni stöpullinn var byggður. Ég var þá ekki ver liðinn en svo, að það var tjaldað sérstaklega fyrir mig með trégólfi og öllu saman. Og svo sagði Sigurður við mig: „Já, þú ert að læra járnsmíði. Nú verður þú að fara í járnin, en ekki smíðarnar.“ Ég sagði að mér væri alveg sama um það. Svo kom þarna bíll hlaðinn járni, sem átti að fara í turnana upp. Það var svaka járnabinding í þeim. Og ég var kominn með teikningar af þessu og fór svo inn til þeirra, þegar er búið að taka járnið af og fór að skoða. Fór svo inn til Sigurðar og sagði: Mér sýnist járnið vera of grannt.“  Og hann kom út með skífumál og mældi. „Já, það vantar einn og hálfan millimetra upp á“. Og hann í símann og hringdi og skipaði þeim að koma og hirða þetta helvítis drasl sem þeir höfðu komið með. Því eins og hann sagði: „Þetta eru mörg járn og þetta er burðarvirkið. Það má ekki vera minna heldur en teikningin segir.“  Og eftir þetta, bara, átti hann í mér hvert bein. Hann var svo ánægður með að ég skyldi taka eftir því að járnin voru grennri.“

Í botni stöpulsins er járnagrind yst sem innst. Allsstaðar járn. Burðarjárnin eða stofnjárnin upp stöplana  voru öll snittuð og skrúfuð saman með múffum. Minnir að þessi járn hafi verið á aðra tommu og þau voru mjög þétt. Svo var járnagrindin náttúrulega bundin – grennri járnin og hringurinn utan upp.

Nágrennið

Það voru ekkert sérlega mikil samskipti við fólkið í Laugarási, minnir mig, man þó að það var nú ekki vel séð hjá Jóni Vídalín að það væri verið að skoða stelpurnar sem voru að vinna hjá honum. Jón var þá bara eiginlega nýkominn í Laugarás úr „kokkaríinu“. Hann hafði verið kokkur á togurum.

Þeir komu þarna tveir bræður, auk Jóns, þeir Daníel á Efra-Seli og Konráð á Grund. Þeir komu fyrst að Seli, en svo hætti Konráð þar og byggði sér á Grund.

Knútur Kristinsson var læknir í Laugarási á þessum tíma (1947-1955). Það fór svolítið í marga sem til hans leituðu, að það var alltaf eins og hann væri að hlæja þegar hann var að tala við þá.

Þegar ég var krakki varð ég einusinni svo slæmur í bakinu að ég var alveg að farast. Það var bara eins og væri verið að rífa, bara. Svo ég fór til Knúts. „Ég veit það ekki hvað þetta er. Það er annaðhvort botnlanginn eða nýrun. Við skulum byrja á botnlanganum, það er minna“, sagði hann Ég var svo sendur á Hvítabandið og þá kom það í ljós að botnlanginn var gróinn við bakið.  Knútur var ágætur.

Nám, starf og kona frá Flateyri.

Brúðkaupsmynd.

Ég lærði járnsmíði hjá KÁ á Selfossi og námið tók 4 ár. Eftir það fór ég til Reykjavíkur og fór að vinna hjá Steypustöðinni og þar var ég í tvö ár. Þá flutti ég vestur á Vestfirði, til Flateyrar og var þar í 40 ár. Þá hafði komið til sögunnar kona þarna í Reykjavík, sem var frá Flateyri, Sigríður Erla Ragnarsdóttir. Þegar við komum til Flateyrar bjuggu þar milli 550 og 600 manns, en þar búa nú varla nema um 200.

Á Flateyri var ég fyrstu árin á sjó, sem vélstjóri. En síðan í 20 ár sem vélstjóri í frystihúsinu. Járnsmíðamenntunin kom að gagni við ýmislegt sem tengdist starfinu í frystihúsinu. Ég var svo fyrir rest kominn með verkstæði sjálfur.

Til þess að eiga eitthvað í bakhöndinni keypti ég mér trillu árið 1960, 6 tonna bát og var með hann á sumrin á skaki, svona til að leika mér. Ég átti svo alltaf bát meðan ég bjó á Flateyri, síðast Sóma 800. Það var ómögulegt að vera bátlaus.  Við vorum stundum þrír á bátnum. 

Á þeim tíma sem ég var á sjó, var ég á bátunum yfir vetrarvertíðina. Á sumrin kom fullt af unglingum heim og þeir fóru á bátana og þá fór maður á trilluna. Trillan var bara sett upp á land á haustin og síðan niður á vorin. Tekjurnar af þessu voru ansi góðar.

Við hjónin fluttum suður árið 1999, og vorum þá búin að vera á Flateyri í 40 ár. Við settumst þá að í Hveragerði. Þá var ég farinn að nálgast eftirlaunaaldur – svona hérumbil.

Hluti fólksins sem var kom að byggingu vestari stöpulsins, sumarið 1953:

Sigurður Björnsson, brúarsmiður

Sigurður Björnsson (63), 1890-1964 brúarsmiður. Hann var þarna að nálgast lok starfsævinnar, kominn á sjötugsaldur og hafði þá komið að byggingu fjölda brúa.  Haustið 1951 mun hafa verið hafinn undirbúningur að byggingu brúarinnar yfir Hvítá hjá Iðu og Sigurður kom að honum og þá lá fyrir að hann myndi stýra þeirri framkvæmd þar á staðnum. Hann hafði þá nýlokið við að stýra smíði brúarinnar yfir Jökulsá í Lóni, sem var vígð sumarið 1953.

Hugi við Ölfusárbrú 1945 og á efri árum.

Hugi Jóhannesson (30) 1923-2015. Hugi vann fyrst við brúargerð yfir Ölfusá sumarið 1945 og vann síðan með skammvinnum hléum við brúarsmíði til ársins 1980. Hugi tók sveinspróf í smíðum í Iðnskólanum í Reykjavík frá 1969 til 1973, samhliða störfum fyrir Vegagerð ríkisins. Eftir að hann kvaddi brúarsmíðina vann hann í þrettan ár á brúardeild Vegagerðarinnar í fullu starfi og síðan í þrjú ár í hálfu starfi sem eftirlaunaþegi. Hann hætti endanlega 1996 og hafði þá verið hjá Vegagerðinni í 51 ár. (minningargrein í Mbl)

 

 

Flest þeirra sem voru í brúarvinnuflokknum sumarið 1953.

(myndirnar koma héðan og þaðan og sýna fólkið á ýmsum aldri)

Lítilsháttar upplýsingar um hvert og eitt þessa fólks.

Guðjón Sigfússon Öfjörð (24) 1929-1996  Síðar fór hann að stunda alla almenna vinnu, mest við smíðar, var lengst af hjá Trésmiðju Eyrarbakka eða allt til ársins 1960 að hann fluttist að Selfossi, en þar vann hann m.a. hjá Trésmiðju Kaupfélags Árnesinga mörg ár, síðar við fískvinnu í Straumnesi hf. meðan það starfaði, auk ígripavinnu hjá ýmsum, bæði á Selfossi og víðar. Þá rak hann í fjöldamörg ár lítið rammaverkstæði, fyrst á Selfossi, en síðar á Eyrarbakka eftir að hann fluttist þangað aftur.

Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir frá Iðu, ráðskona (31) 1922-2011 Sigurlaug vann ýmis skrifstofu- og verslunarstörf, lengst af í Búnaðarbankanum í Reykjavík.(minningargrein mbl)

Kristín Sveinsdóttir frá Ósabakka (29) 1924-2015 Eftir að hún fór að heiman vann hún ýmis störf, t.d. var hún í kaupavinnu, ráðskona í vegavinnu og í Keldnaholti. Hún var þerna á skemmtiferðaskipinu Gullfossi um skeið. (minningargrein)

Guðmundur Einarsson frá Iðu (24) 1929-2004 Rak lengst af garðyrkjustöð í Hveragerði.

Trausti Ólafsson frá Kjóastöðum (18) 1935-2016 Hann kom á öðru ári til þeirra Svanhvítar Samúelsdóttur og Gústafs Loftssonar, lengst af að Kjóastöðum í Biskupstungum.

Sýrus Guðvin Magnússon frá Fáskrúð á Hellissandi (22) 1931-2010 Sýrus nam ungur rennismíði hjá Steðja og var mikill hagleikssmiður. Lengst af starfaði hann hjá Neon og Neon-þjónustunni, bæði sem verkstjóri og síðar meðeigandi (minningargrein)

Kristmundur Magnússon frá Fáskrúð á Hellissandi(31) 1922-2006 Hann starfaði lengst af við afgreiðslu á bensínstöð Olís.

Gestur Bergmann Magnússon (25) 1928-2005 frá Fáskrúð á Hellissandi  Gestur lærði til smiðs ungur maður og vann við brúarsmíði lengi framan af, sem húsasmiður hjá Ístaki og húsvörður í Hofsstaðaskóla í nokkur ár til eftirlaunaaldurs. (minningargrein)

Skarphéðinn Sveinsson (19) 1934-2022 frá Ósabakka Hann fór og lærði húsasmíði hjá bróður sínum Guðmundi á Selfossi. Hann vann hjá honum þangað til hann stofnaði Selós sf. ásamt Hilmari Björnssyni og Stefáni Jónssyni 1973 og var þar starfandi þangað til starfsævinni lauk. Skarphéðinn stofnaði, ásamt níu öðrum vinum sínum, Bifreiðastöð Selfoss árið 1960. Þeir byggðu síðan Fossnesti og mörgum árum seinna bættist Inghóll við. (minningargrein)

Jón Ingi  Eldon Hannesson (16) 1937 - Móðir hans var Ethel Arnórsson, en hún var dóttir  Hlínar Jónsdóttur Johnson, sem bjó um tíma með Einari Benediktssyni, skáldi, í Herdísarvík.  Eftir sumarið í brúarvinnunni hóf hann nám í Menntaskólanum að Laugarvatni og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1956. Hann varð síðar framhaldsskólakennari.

Grétar Geirsson (16) 1937, harmonikkuleikari meðal annars. Bóndi í Áshóli í Ásahreppi

Stefán Scheving Kristjánsson (33) 1920-2010 Tók við búi í Götu, mágur Sigurðar Sigurdórssonar.

Ólafur Rafnar Guðmundsson (20) (1933-1972) frá Drumboddsstöðum í Biskupstungum.

Úlfur Hjörvar (18) 1935-2008 rithöfundur og þýðandi. Hann var sonur Helga Hjörvar, sem var meðal annars þekktur sem útvarpsmaður.

Ívar Grétar Egilsson (1930-2003) frá Króki í Biskupstungum. Hann bjó síðan lengst af í Kópavogi og starfaði hjá Fjölvirkjanum og síðar hjá Landvélum.

Sigurbjörn Ingimundarson frá Reykjavöllum (28) 1925-1999 Ekki er alveg öruggt að það hafi verið Sigurbjörn haf verið sá Reykjavallabræðra sem starfaði við brúna þetta sumar, en hann telst þó líklegastu, skki síst vegna þess að Sigurður kvað hann hafa verið eitthvað með vörubíl.

Jósef Ólafsson úr Laugarási (24) 1929-2021 Sonur læknishjónanna í Laugarási og lauk embættisprófi sem læknir 1957 og starfaði síðan sem slíkur.

Grétar Ólafsson úr Laugarási (23) 1930-2004 Sonur læknishjónanna í Laugarási. Hann lauk embættisprófi í lækningum 1958 og starfaði síðan sem slíkur.

Hilmar Ólafsson (17) 1936-1986 Sonur læknishjónanna í Laugarási. Hann lærði arkitektúr og starfaði sem arkitekt til æviloka.

Ekki man Sigurður eftir öllum sem þarna voru þetta sumar. Sumir stoppuðu styttra en aðrir.

Grétar Geirsson kveðst að auki muna eftir þeim Jónmundi Heiðari Árnasyni (26) (1927-1970) og Jóni Magnúsi Guðlaugssyni (33) (1929-1979) frá Vestri-Hellum í Gaulverjabæjarhreppi.

Uppfært 04/2023