Fyrsti læknisbústaðurinn 

Eitt var að ákveða að læknissetur skyldi vera í Laugarási og kaupa jörðina. Annað að skapa þar aðstöðu fyrir nýjan héraðslækni. Það varð úr að festa kaup á Konungshúsinu, sem hafði verið reist við Geysi árið 1907, þegar Friðrik konungur áttundi heimsótti landið og hafði viðkomu á Geysi.

Konungshúsið við Geysi 1909
(ljósm. Bárður Sigurðsson 1877-1937)

Þetta hús var 16 álna* langt eða um 10 metrar og líklegast um 7 álna breytt eða 4-5 m., þar með um 50 fermetrar að stærð. (*dönsk alin 62,77 cm)

Í Lögréttu, þann 17. júlí, 1907 er farið yfir stærðir skálanna sem reistir voru á Þingvöllum og við Geysi:

Skálarnir miklu á Þingvöllum og við Geysi eru 54 og 55 álnir, milli stafna, en Þingvallaskálinn er 24 álna breiður, en hinn 13. Svefnklefar eru fyrir 50—60 manns í hvorum. Konungshúsin eru 18 [11 m.] og 16 [10 m.] álna löng, þau reist til frambúðar, en skálar til rifs, og er þó eftirsjá að Þingvallaskála.

Eftir konungsheimsóknina voru skálarnir seldir. Þannig greindi Lögrétta frá því í október þetta ár að Jón á Laug hefði keypt konungsskálann fyrir 2600 kr. Jón þessi á Laug var Jónsson og virðist hafa rekið ferðaþjónustu við Geysi, þjónustu sem sumum mun hafa þótt heldur dýru verði keypt, ef marka má blaðaskrif ferðamanna sem þarna áttu leið um. Ég leyfi mér að birta hér hluta einnar ferðasögunnar, en hana skrifaði Árni Óla í Morgunblaðið árið 1919. Hann hafði þá verið á ferð með hópi fólks og dvaldi við Geysi í tvær nætur. Um dvölina skrifaði Árni þetta:

Ég get eigi skilið svo við Geysi og dvöl okkar þar, að ég minnist eigi lítið eitt á framkomu fólksins þar. Næsti bær við Geysi heitir Laug. Þar býr bóndi sem Jón heitir. Voru fyrst falaðir að honum hagar fyrir hestana og vildi hann fá 50 aura fyrir hvern hest um sólarhringinn og gættum við þeirra sjálfir um nætur. Auk þess krafðist hann þess að fá 10 krónur fyrir hvert tjald, sem reist væri hjá Geysi. Konungshúsið hjá Geysi er leigt söðlasmið. Var hann ekki heima, en sagt var okkur að hann mundi geta leigt tvær stofur meðan við dveldum þarna. Þótti það gott, svo að kvenfólkið þyrfti ekki að liggja í tjöldunum, því að kalt var um nætur. Var nú Jón bóndi á Laug fenginn til þess að sækja söðlasmiðinn. Var hann að því í tvo tíma og krafðist hann þess að fá 25 krónur fyrir það viðvik. Litlu síðar kom upp úr kafinu að hann átti engan rétt á tjaldstæðum hjá Geysi. Var það bóndinn á Haukadal er umráð hafði yfir þeim og kvaðst hann eigi vilja taka fé fyrir það þó tjöldin stæðu þar. Enn fremur bauðst hann til þess að taka af okkur alla hesta gegn 40 aura gjaldi af hverjum um sólarhringinn og gæta þeirra nótt og dag. Var því boði tekið, en þá ætlaði Jón á Laug að ganga af göflunum. Kemur hann enn meira við þessa sögu.
Seint á sunnudagskvöldið komu seinustu hestarnir að Geysi og var þá orðið svo dimt, að eigi var farið með þá alla leið að Haukadal heldur voru þeir reknir áleiðis þangað. Í býtið morguninn eftir kemur bóndi á bæ er Bryggja heitir og er skamt þaðan, með þrjá hestana og segir að þeir hafi verið komnir í engjar sínar, sem eru rétt hjá Geysi. Heimtaði hann 15 krónur fyrir það að færa okkur hestana.
Hjá söðlasmiðnum fengum við leigðar tvær stofur í þessar tvær nætur og einn dag sem við vorum þar. Var ekki samið neitt um leigu en þegar átti að fara að gera upp reikningana, vildi húsráðandi fá 60 krónur í húsaleigu. Þykir húsaleiga dýr í Reykjavík, en hvað er hún á móti þessu? Veit ég eigi hve háa leigu stjórnarráðið tekur af söðlasmiðnum fyrir alt húsið um árið, en eigi þykir mér ólíklegt, að litlu muni á henni og þeirri leigu, sem við áttum að greiða fyrir nokkurn hluta þess í hálfan annan sólarhring.
Suður á Laug var fengið rúm handa Jacobsen, því að hann á bágt með að sofa í tjaldi. Var hann þar í þessar tvær nætur og eins tveir fylgdarmannanna. En á þriðjudagsmorgun, er við áttum að fara á stað átti ekki að sleppa Jacobsen frá Laug. Vildi bóndinn halda honum sem gísl þangað til hann fengi fulla borgun fyrir alt sitt.
Því miður hefir það víða brunnið við á þessu ferðalagi, að bændur hafa talið það nokkurs konar hvalreka að fá leiðangurinn í nánd við sig. Hefir þó ágirndin hvergi komið jafn greinilega og skammarlega í ljós eins og þessa stuttu stund, sem við dvöldum hjá Geysi. Er þjóðinni að því lítil virðing að slíkir menn sem þar eru, skuli verða fyrir flestum útlendingum, sem um landið ferðast. Það er eigi nema sjálfsagt að bændur, sem verða fyrir átroðningi af ferðamönnum fái vel borgað þar fyrir, en hitt styður lítt að því að við íslenzku þjóðina haldist það gestrisnuorð, sem af henni hefir farið, og helzt hefir mátt færa henni til hróss, að blóðsugur sitji fyrir ferðamönnum og sitji um að að flá þá sem allra mest. Bóndann á Laug veit ég þann manna, er leiðinlegast hefir komið fram gagnvart erlendum ferðamönnum hér á landi. Fór saman hjá honum ágirnd, ósanngirni og framkoma sem ég veit að til þessa hefir verið talin ósæmileg hverjum íslenzkum bónda. Er leiðinlegt að þurfa að hafa orð á þessu, en gæti orðið til þess, að eitthvað yrði um það hugsað fremur en áður, að taka svo á móti ferðamönnum er til Geysis koma, að landinu yrði eigi skömm að, þá væri tilganginum með línum þessum náð. Landið á sjálft jarðir þarna og það á þarna gistihús. Sýnist því hægt um vik að gera þar þann áfangastað, er eigi þyrfti að fæla menn frá að koma þangað.

Konungshúsið var nýtt til ferðaþjónustu við Geysi og gegndi einnig hlutverki samkomuhúss á vetrum, en í viðtali Guðmundar Óla Ólafssonar við Guðmund Ingimarsson í Litla Bergþór, 1984, kemur fram að þar hafi verið settar upp leiksýningar:

Það var á meðan húsið var uppistandandi þarna við Geysi, þetta svokallaða konungshús, þá voru nú haldnar skemmtanir þar að vetrinum. Og þá var freistandi að leika eitthvað.
- Var þetta stórt hús, konungshúsið?
- Nei, ekki mundi það nú þykja núna. En fólk setti það ekkert fyrir sig, þótt það yrði að standa og þétt það væru þrengsli. Fólk skemmti sér betur í gamla daga við lítil efni, heldur en nú er orðið. Hér voru tekin fyrir þó nokkuð stór stykki, Skugga-Sveinn, Nýársnóttin, Vesturfararnir.
- Það hefur nú þurft að koma saman til þess að geta leikið slíkt.
- Mestu erfiðleikarnir voru við æfingarnar að vetrinum, ef tíðarfarið var óstöðugt og óhagstætt.

Þarna hafði húsið sem sé staðið í ein 15 ár þegar það var selt uppsveitahreppunum handa lækni í Laugarási. Eins og vænta mátti, féllu fregnir af þessari sölu í misfrjóan jarðveg:

Húslaust við Geysi.
Sú óskiljanlega fásinna hefir verið gerð af landsstjórninni nú í vor, að selja til niðurrifs gistihúsið við Geysi, sem reist var þar sumarið 1907. En sala og niðurrif hússins er fjarstæða, þótt ekki sje tekið tillit til þess, sem sagt er, að verðið hafi verið altof lágt, en að boðið hafi verið mun hærra í húsið af fjelagi hjer í Reykjavík, sem ætlaði að láta það standa óhreyft til notkunar þarna, ef það hefði náð kaupum á því. Húsið fekk mikla viðgerð í fyrra. Til þeirrar viðgerðar var notaður skúr, sem reistur hafði verið til bráðabirgða fyrir konungskomuna þá um sumarið. Þá hafði og verið keypt til hússins mikið af innanstokksmunum, rúmum, sængurfatnaði, eldunaráhöldum o. s. frv., svo að þar mátti þá taka á móti 20 manns til gistingar, að sögn. En alt þetta er nú selt fyrir óverulegt verð, húsið á 3000 kr. og húsbúnaður á 1500 kr., að því er sagt er. Hjá því getur ekki farið, að reisa verði þarna aftur gistihús áður langt um líður, og mun það þá sýna sig, að til þess fari að minsta kosti nokkrir tugir þúsunda króna. En eftir viðgerðina, sem konungshúsið við Geysi frá 1907 fjekk í fyrra, hefði það lengi mátt endast og var sæmilegur gistingastaður. Oddafjelagar voru fyrir fáum dögum á ferð þarna eystra margir saman, en þá hafði húsið nýlega verið rifið og flutt burtu, svo að þeir munu fyrstir hafa fengið að kenna á gistihússleysinu við Geysi. En margir ferðamenn munu síðar finna sárt til þess. Eftir að þetta var skrifað, sem hjer er á undan, er Mbl. sagt, að það sje sýslunefnd Árnessýslu, sem keypt hafi húsið og ætli það til íbúðar á læknissetri þar uppi í sýslunni, en að það sje fjármálaráðherrann, sem selt hafi húsið. (Mbl. 27. júlí, 1922)

Svo var húsið flutt í Laugarás

Í ræðu sem hann hélt við opnun nýju heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási, þann 21. júní, 1997 fjallaði Jón Eiríksson í Vorsabæ meðal annars um þetta hús. Ræðan var síðan birt í Litla Bergþór, það sama ár:

Húsið var járnklætt að utan en panelklætt að innan. Magnús ráðherra lét rífa húsið, en Helgi fékk Tungnamenn til að flytja það í Laugarás. Var það flutt á útmánuðum, lentu þeir í rigningatíð og panellinn blotnaði.

Jóhann Guðmundsson á Iðu reisti svo húsið vorið 1923 uppi á Laugarásnum á brekkubrúninni, en Óskar Einarsson fyrsti læknirinn í Laugarási sat í Birtingaholti einn vetur á meðan á byggingu hússins stóð. Þegar húsið var komið upp og panellinn hafði þornað reyndist það svo gisið, að varla var líft í því. Þá var gripið til þess ráðs, að jarðhitinn var beislaður og er þessi læknisbústaður eitt fyrsta húsið á Suðurlandi, sem hitað er upp með jarðhita.

Það var Jón Erlendsson frá Sturlu-Reykjum sem steypti kringum einn hverinn og lagði einfalda gufuleiðslu upp í húsið, en ofna smíðaði hann úr sléttu járni og lóðaði. Gufan var einnig notuð til eldunar. Verkfræðingur var Benedikt Gröndal.

Heildarverð hússins var 26 þúsund krónur, og virðist ekki annar styrkur hafa komið frá ríkinu en húsið frá Geysi, metið á 8 þúsund krónur. Gufuofnarnir reyndust illa og voru þeir fjarlægðir á áliðnu hausti 1926 og komið á hringrásarkerfi með venjulegum ofnum. En gufan var notuð til eldunar fram á 5. áratuginn.

Heimilisfólk í Birtingaholti í byrjun desember 1922 (vefsjá kirkjubóka - sóknarmannatal í Stórnúpssókn))

Heimilisfólk í Birtingaholti í byrjun desember 1922 (vefsjá kirkjubóka - sóknarmannatal í Stórnúpssókn))

Nýr læknir, Óskar Einarsson, var settur héraðslæknir í Grímsneshéraði í byrjun árs 1922 og nokkrum mánuðum síðar var hann svo skipaður í embættið. Það var bara ekkert húsnæði fyrir hinn nýja lækni og því varð úr að hann fékk inni í Birtingaholti, en þar bjuggu þá þau Ágúst Helgason og Móeiður Skúladóttir ásamt syni sínum Skúla og konu hans Elínu Kjartansdóttur. Á bænum voru fjögur börn eldri hjónanna og sonur þeirra yngri.

Helgi Ágústsson var á þessum tíma oddviti Hrunamannahrepps og formaður oddvitanefndarinnar. Hann bjó á Syðra-Seli og var sonur Birtingaholtshjónanna. Hann virðist hafa fengið inni fyrir nýja lækninn hjá foreldrum sínum, þar til nýja húsið yrði tilbúið í Laugarási.


Íbúarnir og vistin

Óskar Einarsson og Guðrún Snæbjörnsdóttir

Það fer engum sögum af dvöl Óskars og konu hans Guðrúnar Snæbjörnsdóttur í Konungshúsinu í Laugarási. Þau stöldruðu þar stutt við og við tók Sigurmundur Sigurðsson, sem flutti á staðinn með fjölskyldu sína. Kona hans var Kristjana Anna Eggertsdóttir og þau komu með sex börn í Laugarás, á aldrinum 2-11 ára.

Sigurmundur var læknir í Laugarási frá 1925 til 1932. Hann var hreint ekki sáttur við húsnæðið sem stóð honum og fjölskyldunni til boða, ekki síst vegna þeirrar leigu sem honum var gert að greiða fyrir það. Hann skrifaði heilmikla grein í Læknablaðið í apríl, 1927, sem bar heitið “Um stéttamál”. Í síðari hluta greinarinnar fjallar hann um aðstöðuna í Laugarás og lýsir húsinum sem eitt sinn var Konungshús, en var nú læknissetur í Grímsneshéraði:

Sigurmundur, Kristjana og börn þeirra.

Vorið 1925 flutti ég til Grímsneshéraðs, að Laugarási frá Breiðumýri í Suður-Þingeyjarsýslu; hafði ég dvalið þar í fjölda ára, samfleytt. Um haustið 1925 komu oddvitar allra hreppa læknishéraðsins að Laugarási, í því skyni, að semja við mig um leigu eftir læknisbústaðinn, hús hitað með hveragufu, jarðarafnot o. fl. Hafði ég sótt um þetta hérað mest vegna hitunarinnar, sem að landfleyg var orðin og mjög látið af.

Enda þótt oddvitarnir viðurkendu, að ýmislegt væri í ólagi, sérstaklega hitunin, sögðust þeir samt ekki treysta sér til annars en gera þá kröfu, að leigan yrði látin hækka æðimikið frá því, sem verið hafði hjá fyrirrennara mínum. Krafa þeirra var, að ég næstu árin borgaði árlega 1900 kr. samtals fyrir öll þægindin; í þessu eru talin 10 skyldudagsverk eða þeirra verð. Þetta er næstum helmingur minna föstu launa. Þó skal þess getið, að það ár (1925, flutningsár mitt, var ekki krafist, að ég borgaði meira en 1625 kr., og gerði engin skyldudagsverk. Á móti var því lofað, að það, sem var í ólagi við hitun hússins og matarsuðu, skyldi verða komið í sæmilegt lag fyrir næsta nýár, 1. jan. 1926, svo framarlega að frost í jörðu hindraði ekki slíkar aðgerðir. Mér þótti þetta í rauninni meiningarlaust gjald, og lét það í ljósi, benti á niðurníðslu jarðarinnar, ólagið á hituninni o. fl., lét þó að lokum þar við sitja, með því að ég þekti lítið héraðið, praxis í því o. s. frv.

Þá var ástandið á hitun hússins á þessa leið: í aðalstofunum voru ekki venjulegir gormofnar, heldur voru í þeirra stað járnhylki, svipuð í lögun áhöldum þeim, sem notuð eru til þess að láta nemendur fljóta, við sundkenslu; voru áhöld þessi lóðuð saman á hornum og hliðum; var lóðun sú jafnan að bila. Streymdi þá hveragufan inn í stofurnar, og fylgdi því fúl hveralykt, svo að varla varð vært inni; alt það, sem var úr málmi í stofunum litaðist svart. Í öðrum stofum voru ofnar af betri gerð, en sumir þeirra voru stíflaðir og því ónothæfir, og við það fékst ekki gert þá; einn til tveir ofnar máttu kallast sæmilegir, að öðru leyti en því, að þeir voru ekki megnugir þess að hita stofurnar, ef vindur stóð á glugga; þeir voru einfaldir og stórir og þurfti því mikið til. Þegar frost var, kom alls enginn hverahiti í húsið. Varð þá heimilisfólkið að hafast við í eldhúsinu; er þar eldavél. Brent var kolum og olíu, er ég lagði sjálfur til. Var, eins og gefur að skilja, ekkert skemtileg æfi að þurfa að húka þar heila daga, því að húsið var afar kalt, og ekki líft í því annarsstaðar en þar sem hitað er. Hér við bættist, að gólfið í eldhúsinu er svo illa steypt, að í því eru stórar grópir eða gryfjur; verður því að fara varlega, til þess að forðast fall á steingólfinu, sem gæti orðið skaðlegt eða óþægilegt að minsta kosti. Matinn varð að elda úti allan veturinn, við hveragufu, þegar hana var að hafa, annars á eldavélinni. Húsið er ekki alveg fullgert enn. Er það var bygt, hefir viðurinn sennilega ekki verið nógu vel þur, ber því æðimikið á því, að þiljur hafi glenst sundur, við það, að viðurinn hefir þornað síðar, sömuleiðis samsettar hurðir. Er bráð þörf á, að þetta sé lagfært. Hver á að gera það? Líklega ekki leigjandi, en það má búast við því, að það dragist lengur en góðu hófi gegnir, ef aðrir aðiljar eiga að annast það.

Sigurmundur víkur að hitun hússins í þessari grein, en um hana er lítillega fjallað í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands, síðla árs 1928:

Á Laugarási í Biskupstungum er húsið hitað með hver, sem liggur ca. 30 m. neðar en húsið. Er allbratt niður í hverinn, og var settur miðstöðvarofn í sjálfan hverinn, og lögð frá honum tvöföld veita upp til hússins, og sett í samband við miðstöðvarofnana þar. Vatnið rennur þá á venjulegan hátt, með eigin þyngdarrensli. Ennfremur er bygt yfir einn hverinn og gufan leidd heim til hússins og soðið við hana.

Á fyrsta fundi oddvitanefndarinnar sem fundist hafa gögn um, þann 8. apríl 1935, var Guðmundi Einarssyni, sem þá var formaður nefndarinnar, falið að ganga frá samninum við lækninn, sem þá var Ólafur Einarsson:

Læknirinn fær jörð og hús, þar með talin nýbyggð hlaða, sem skal tekin sem greiðsla á eptirgjaldi eins og hún kostaði, að frádreginni hlöðu sem fyrir var með álagi á hana; fyrir árlegt gjald 1200 kr.
Af þessum 1200 kr. heldur þó læknirinn eptir 200 kr, sem hann má nota til viðhalds íbúðarhúsinu, í allar stærri aðgerðir, sem nauðsynlegar eru, þó þannig, að næstu þrjú ár greiði hann 1200 kr, en haldi eptir af áföllnum greiðslum í vor 600 kr., en greiði hitt.
Að öðru leyti verður nánar tekið fram um þetta í byggingarbrjefi.

Árið eftir voru uppi vandamál vegna kjallara hússins og ákveðið að reyna enn að tjasla við þetta hús, sem virtist kalla á æ umfangsmeira viðhald.

Fyrsta læknishúsið. Þessi mynd er tekin 1932 eða 1933. Piltarnir á myndinni eru f.v. Einar Ólafsson, Jósef Ólafsson og frændi þeirra bræðra Gísli Steinsson.

Húsið sem beið fjölskyldunnar hafði hýst danska kónginn við Geysi 1907 og var orðið harla hrörlegt; hélt hvorki vindi né vatni. Það var járnklætt timburhús á steyptum kjallara, einangrað með gömlu heyi eða tróði. Þegar húsið var rifið, fann Hjálmar Tómasson í Auðsholti, kjálka úr manni í tróðinu, sem hafði verið fengið í Skálholti þegar húsið var standsett á þessum nýja stað. Svo segir sagan að Hjálmar hafði komið til vinnu daginn eftir að hann fann kjálkann, blóðrisa á öðru eyranu. Hann hafði þá sólbrunnið á eyranu, en sú saga varð til, að draugurinn, sem kjálkinn var ættaður frá, hefði rifið ofan af því.

Í kjallaranum var eldhúsið, á aðalhæðinni, lítið herbergi austast, en hitt var bara geimur.

Á norðurhliðinni höfðu verið settar virðulegar dyr á sínum tíma, sem búið var að þilja fyrir. Inngangurinn í húsið var um forstofu sem byggð hafði verið á vesturenda þess.

Jósef sagði frá því, að einhvertíma hafi verið svo hvasst að það lék allt á reiðiskjálfi. Loftið í húsinu var þiljað, neðan á það pappír og á hann límdur málaður strigi. Í stormbeljandanum voru fjalirnar farnar að ganga niður og rífa strigann. Þá hringdi Sigurlaug í Guðmund Einarsson, prófast á Mosfelli og sagði honum að nú væri „kofinn bara að hrynja“. (Úr viðtali við börn Ólafs Einarssonar)

Uppgjöf

Á fundi í september 1937 var oddvitanefndin endanlega búin að gefast upp á þessu þrjátíu ára gamla húsi.

Samþykkt: Nefndin telur húsið svo lélegt að ekki borgi sig að gera við það, heldur verði að rífa það og byggja nýtt hús, og væntir þess, að ríkið leggi fram 1/3 (?) hluta þess byggingarkostnaðar sem af því stafar.

Lýkur hér með sögu Konungshússins.

Uppfært 01/2022