Fjölskyldan sem fór, en fór samt aldrei 

Frásögn sem byggð er á viðtali sem Páll M. Skúlason átti við fjögur börn Ólafs Einarssonar, héraðslæknis og Sigurlaugar Einarsdóttur.

Síðdegis þann 17. ágúst, 2019, hafði ég mælt mér mót við systkinin Einar, Jósef, Sigríði og Sigurð Ólafsbörn. Það var Sigríður sem átti veg og vanda að því að skipuleggja og undirbúa þennan fund í sumarhúsi sínu í Stöðulmúla, eða Ólafslandi, eins og það er yfirleitt nefnt hér í Laugarási. Þarna svignuðu borð af krásum og börn, tengdabörn og barnabörn systkinanna voru þarna allt um kring. Í sófa fyrir framan mig sat fólk sem mér hefur alltaf fundist vera Laugarásbúar, þó þeirra aðal heimili og störf hafi verið á höfuðborgarsvæðinu.Svo hófst leikurinn og hér fyrir neðan hef ég skráð, eftir bestu getu það sem þarna kom fram ásamt viðbót sem unnin var eftir á, en Ólafur E. Jóhannsson, sonur Sigríðar hafði veg og vanda að henni.

Börn Sigurlaugar og Ólafs sem tóku þátt í þessu spjalli eru: Einar (f. 1928), Jósef (f. 1929), Sigríður (f. 1935) og Sigurður (f. 1942).

Hjónin eignuðust einnig synina Grétar (f. 1930, d. 2004) og Hilmar (f. 1936, d. 1986)

Viðmælendurnir, frá vinstri: Sigríður, Jósef, Einar og Sigurður Ólafsbörn.

Komið í Laugarás

Ólafur Einarsson (1895-1992) og Sigurlaug Einarsdóttir (1901-1985)

Þegar Ólafur tók við embætti héraðslæknis í Grímsneslæknishéraði árið 1932 höfðu þau Sigurlaug eignast þrjá syni, Einar, sem þá var fjögurra ára, Jósef þriggja ára og Grétar tveggja ára. Þá hafði Ólafur verið héraðslæknir í Flateyjarhéraði um skamma hríð.

Fjölskyldan kom með bíl að Skálholti, en þá var ekki kominn akfær vegur í Laugarás, aðeins slóði eða kerruvegur til flutninga. Mýrin milli Skálholts og Laugaráss (Langasund sjá kort) var erfið yfirferðar og Einar minnist þess að hafa verið þar eitt sinn á ferð á hesti, þegar hann stóð allt í einu í fæturna beggja vegna hestsins, sem þá hafði sokkið að kvið.

Dóttir Jörundar Brynjólfssonar fylgdi hópnum yfir mýrina í áttina að Auðsholtshamri (sjá mynd)og síðan um slóða eftir Laugarásholtinu, að læknisbústaðnum.

Fyrsti læknisbústaðurinn

Húsið sem beið fjölskyldunnar hafði hýst danska kónginn við Geysi 1907 og var orðið harla hrörlegt; hélt hvorki vindi né vatni. Það var járnklætt timburhús á steyptum kjallara, einangrað með gömlu heyi eða tróði. Þegar húsið var rifið, fann Hjálmar Tómasson í Auðsholti, kjálka úr manni í tróðinu, sem hafði verið fengið í Skálholti þegar húsið var standsett á þessum nýja stað. Svo segir sagan að Hjálmar hafði komið til vinnu daginn eftir að hann fann kjálkann, blóðrisa á öðru eyranu. Hann hafði þá sólbrunnið á eyranu, en sú saga varð til, að draugurinn, sem kjálkinn var ættaður frá, hefði rifið ofan af því.

 

Fyrsta læknishúsið. Þessi mynd er tekin 1932 eða 1933. Piltarnir á myndinni eru f.v. Einar Ólafsson, Jósef Ólafsson og frændi þeirra bræðra Gísli Steinsson.

Í kjallaranum var eldhúsið, á aðalhæðinni, lítið herbergi austast, en hitt var bara geimur. 

Á norðurhliðinni höfðu verið settar virðulegar dyr á sínum tíma, sem búið var að þilja fyrir. Inngangurinn í húsið var um forstofu sem byggð hafði verið á vesturenda þess.

Jósef sagði frá því, að einhvertíma hafi verið svo hvasst að það lék allt á reiðiskjálfi. Loftið í húsinu var þiljað, neðan á það pappír og á hann límdur málaður strigi. Í stormbeljandanum voru fjalirnar farnar að ganga niður og rífa strigann. Þá hringdi Sigurlaug í Guðmund Einarsson, prófast á Mosfelli og sagði honum að nú væri „kofinn bara að hrynja“.

Nýr læknisbústaður 1938

Þegar síðan kom að því að byggja nýtt hús fyrir lækninn, flutti fjölskyldan í skúr, sem hafði verið slegið upp fyrir sunnan húsið. Nýja húsið var byggt á sama stað og það gamla stóð áður.

Í steypuna í grunn hússins var notuð möl sem tekin var á eyrinni við ána. Mölin í húsið sjálft kom annarsstaðar frá. Steypan var fyrst hrærð á palli með skóflum, í það minnsta þegar útihúsin voru steypt. Þá „gengu menn berserksgang sitthvorumegin“ (Jósef). Síðar var komin stór eikartunna, sem kaðli var vafið upp á. Hann var festur við hest sem var látinn draga út á tún ákveðna leið og þá snérist tunnan á meðan, fyrst meðan blandað var saman sementi og möl og síðan þegar vatnið var komið saman við. Svo var sturtað í hjólbörur.

Samgöngur

Örnefnakort af Laugarási. Kortið teiknaði Atli Harðarson.

Eftir að farið var að leggja akfæran veg í Laugarás, náði hann lengi ekki lengra en að beygjunni (Skálholtsbeygjunni). Þessi vegur var lagður í þrem eða fjórum áföngum. Vegur upp brekkuna, sá sem nú er, kom miklu seinna. Jósef minnist þess þegar vegurinn var lagður að Auðsholtshamri (nú Ferjuvegur). Þá var stungin snitta og kastað upp í veginn og hlaðið upp í kantinum, síðan keyrt ofan á það möl á hestvögnum. Það voru Auðsholtsmenn sem unnu við þennan veg frá vegamótum við Kirkjuholt og að Auðsholtshamri. Þá var fjórbýlt í Auðsholti.

Heimilið og búskapurinn

Heimili læknishjónanna í Laugarási var mannmargt, en þar voru gjarnan um 20 manns á sumrin að vinnufólki meðtöldu. Ólafur læknir var með vinnumann á búi sínu og vetrarmann að auki, en eldri bræðurnir þrír hjálpuðu einnig til við bústörfin. Ýmsir komu þarna við sögu, þar á meðal bræðurnir Kristinn og Sigurjón Jónssynir frá Þverspyrnu í Hrunamannahreppi, sem voru vinnumenn hjá Ólafi. Þá var Ingólfur Jóhannsson frá Iðu oft fenginn til aðstoðar. Einnig voru ein eða fleiri vinnukonur í senn á heimilinu og nutu þær leiðsagnar læknisfrúarinnar, Sigurlaugar Einarsdóttur, sem hafði hlotið menntun sína í húsmæðraskóla í Kaupmannahöfn. Minnisstæðust er Jóna Sigurjónsdóttir frá Minnibæ í Grímsnesi, sem var bæði glaðlynd og skemmtileg. 

Í tröppunum á gamla læknisbústaðnum. Á myndinni eru aftast, Margrét Símonardóttir, móðir Sigurlaugar og Margrét Guðmundsdóttir sem síðar varð húsfreyja á Iðu. Þá Sigríður Ólafsdóttir, Ólafur Einarsson héraðslæknir, Sigurlaug Einarsdóttir, Grétar Ólafsson, Hólmfríður Einarsdóttir systir Sigurlaugar, Einar Ólafsson og Jósef Ólafsson. Fyrir framan Hólmfríði situr hundurinn Vaskur sem var í eigu fjölskyldunnar. Hilmar Ólafsson stendur í glugganum efst til vinstri, en honum var meinuð útganga vegna lasleika.

Jafnan var gestkvæmt á heimili læknishjónanna. Oft kom frændfólk Sigurlaugar norðan úr Skagafirði í heimsókn og var stundum á heimilinu um nokkra hríð. Þannig dvaldi frænka Sigurlaugar, Margrét Guðmundsdóttir, hjá þeim í nokkur misseri sem ung stúlka.  Guðmundur faðir hennar dvaldi á sínum yngri árum oft hjá foreldrum Sigurlaugar, þeim Margréti Símonardóttur og Einari Jónssyni hreppstjóra,  sem þá bjuggu í Brimnesi í Viðvíkursveit í Skagafirði. Það var alltaf mikið vinfengi á milli þessa fólks og einnig og ekki síður við móður Margrétar, Fanneyju. Þess má geta að Margrét var skírð í höfuðið á móður Sigurlaugar, Margréti Símonardóttur.

Þegar Margrét dvaldi í Laugarási kynntist hún Ingólfi Jóhannssyni frá Iðu, sem fyrr er getið um. Síðan giftust þau og hóf Margrét búskap með honum á Iðu.

Skepnuhald læknisins var umtalsvert, hestar, kýr og kindur, auk fiðurfjár. Kindurnar voru 60 til 70 talsins, en einnig voru á búinu 8 til 10 nautgripir, venjulega 6 mjólkandi kýr, en kvígur og kálfar að auki. Mjólkin var seld í mjólkurbú og var tekin á gatnamótunum á Auðsholtsvegi. Kúnum var haldið til beitar í Laugaráslandi og þegar þær voru reknar þangað, var venjulega farið upp Stöðulmúlann, þar sem sumarhús fjölskyldu Ólafs og Sigurlaugar standa nú.

Gamla fjósið sem stóð rétt norðan læknisbústaðarins, séð frá Hveratúni

Kýrnar voru í gömlu fjósi, sem var norðan við læknisbústaðinn og var það með áfastri skemmu. Upp á hæðinni var svo hesthús og einnig var þar lambhús, austur af læknisbústaðnum í nágrenni tjarna sem þar voru á þeirri tíð. Vikið er frekar að þessum tjörnum neðar. Fjárhúsið var aftur á móti á ásnum ofan við Launrétt, þar sem heilsugæslan og læknisbústaðirnir standa nú. Á vorin var féð rekið niður í Launrétt og rúið, áður en það var rekið á afrétt.

Ýmis amboð voru geymd í skemmunni, en þar var talinn vera mikll rottugangur. Það vakti því undrun að engin rotta sást þegar skemman var rifin og var það hald manna að rottuhersingin hefði stokkið í hverinn, enda horfin að mestu og eftir að minkurinn kom, hurfu rotturnar með öllu.

Átta hestar voru á búinu og rifja þeir bræður Einar og Jósef upp nöfn þeirra fyrirhafnarlaust. Þetta voru Gráni, Rauður, Brúnki, Blesi, Sörli, Funi, Skjóni og loks Sleipnir, sem kom úr Skagafirði og var reiðhestur Sigurlaugar móður þeirra.

Hænsakofi læknisfjölskyldunnar og sýnishorn af íbúum hans.

Nokkrar hænur sáu heimilinu fyrir eggjum. Gæsir voru þarna líka. Með gæsunum var álftarungi sem hafði slegist í hópinn og var sá kallaður Bíbbi. Hann lét líf sitt þegar hann flaug á loftnet sem lá frá staur sem stóð skammt frá læknishúsinu. Var hann systkinunum nokkur harmdauði.

Ferjurnar

Leiðirnar að ferjunum voru slóðar framhjá hverasvæðinu að Iðuferju og eftir Laugarásholtinu að Auðsholtsferju. Leiðin frá Iðuferju í Skálholt lá um Tíðaskarð í Kirkjuholti (sjá örnefnakort). Í Tíðaskarði sást að Skálholti og þegar sást til fólks þar á leið til kirkju, var bjöllunum hringt.

Iðuferja 1947. Næst má sjá í ferjubát við Iðuhamar, en handan árinnar er Skálholtshamar og fjærst á myndinni læknishúsið. Mynd: Geir Zoëga (geymd á Þjóðminjasafni).

Þegar farið var að ferjunum, var það annað hvort á hestum eða gangandi. Þegar vegurinn var kominn, áður en Hvítárbrú var byggð, var farið að keyra niður Grímsnes og síðan gegnum Selfoss að þaðan upp úr. Annars komu menn að sækja lækninn að Iðu eða Auðsholti og biðu þar eftir að læknirinn væri ferjaður yfir. Ólafur bar hnakk sinn á bakinu að ferjunni, því hann vildi bara nota sinn hnakk. Svo fékk hann oft bikkjur til reiðar þegar hann var sóttur í vitjanir.

Synirnir voru oft sendir til að kalla á ferjuna. „Maður stóð þarna og brýndi raustina. Það var tóft þarna sem maður stóð uppi á og galaði. Iðumenn höfðu gát á ef þeir heyrðu eitthvert hljóð. Það var raddæfing að kalla á ferju, en svona var kallað: Halló, halló, ferja!“ (Jósef)

Myndin var tekin í maí árið 1942 en þá keypti Ólafur sér sinn fyrsta bíl. Sá var af gerðinni Ford með númerinu X–53.
Með Ólafi á myndinni er Hilmar sonur hans. Í baksýn er vindmylla þar sem framleitt var rafmagn fyrir læknisbústaðinn. Kristján Einarsson rafvirki, bróðir Ólafs, sá um uppsetningu vindmyllunnar, ásamt tengingum og tilheyrandi búnaði.

Ferjumennirnir frá Iðu, Loftur Bjarnason (1891-1969) vinstra megin og Einar Sigurfinnsson (1884-1979).

Ferjumennirnir voru þeir Loftur Bjarnason og Einar Sigurfinnsson. Það var þarna einhverntíma lúður, en um slíkt var ekki að ræða á þessum tíma. Það var nokkru auðveldara að eiga við Auðsholt, þar sem bæirnir stóðu nær ferjustaðnum og þeir sáu þegar einhver var kominn á hamarinn. Iðubæirnir tveir voru miklu fjær og það sást betur yfir frá Auðsholtsbæjunum.

Það var kvöð á þessum bæjum að sjá um ferjurnar og ef fólkið var til dæmis á engjum út með ánni, þá varð einhver að fara úr heyskapnum. Það var dálítið undir hælinn lagt hvort þeir heyrðu kallið á Iðu. Þar snéri annar bærinn að fjallinu. „Við vorum nú mjóróma á þessum tíma við að kalla á ferjuna“ (Jósef).

Strákarnir voru oft sendir með meðul sem Ólafur hafði blandað, niður að ferju, en þau voru síðan sótt á ferjubátnum. Þetta taldist hluti af starfi ferjumannsins. Þegar það kom fyrir að læknisins var þörf að nóttu til, þurfti einhver að koma á bát yfir til að sækja hann og vekja upp.

Svo var einnig um það að ræða að fólk kom til læknisins, á hestum ofan úr Tungum eða þá með ferjunni yfir og síðan á hestum eða gangandi.

Það breyttist margt þegar sveitasíminn kom. Þá var miðstöðin á Minni-Borg í Grímsnesi og símstöðvarstjórinn var Ragnheiður Böðvarsdóttir, móðir Böðvars Stefánssonar sem lengi var var skólastjóri Ljósafossskóla. Síminn þar var tvær langar, en síminn í Laugarás var ein löng.

Umræða um væntanlega brú á Hvíta var engin á þessum árum utan að það heyrðist af því að verið væri að biðja um fjárveitingar til hennar. Jörundur Brynjólfsson vann að málinu og teikningar að brúnni voru klárar löngu áður en kom að byggingu hennar, þannig að hún var eiginlega byggð eftir 20 ára gömlum teikningum. Byggingarsaga brúarinnar var heilmikil þrautaganga. Einar og Jósef unnu báðir að smíði stöplanna.

Hverasvæðið

Læknishúsið var hitað með því að það voru miðstöðvarofnar í einum hvernum og síðan hringrás upp í Laugaráshúsið. Þetta var svona „hivert system“. Miðstöðvarofnarnir voru í hvernum við suðurenda eystra gróðurhúss Ólafs.

Mynd tekin af hlaðinu við læknishúsið á síðari hluta fimmta áratugarins. Neðst vinstra megin eru agúrkuhúsið og vínberjahúsið. Hægra megin má sjá braggann sem var áfastur við fyrra gróðurhúsið sem Ólafur byggði. Aðrar byggingar á myndinni tilheyrðu Hveratúni.

Fyrir neðan brekkuna byggði Ólafur gróðurhús sem var kallað „vínberjahúsið“. Sigríður segist aldrei hafa smakkað jafngóð vínber og þau sem þar voru ræktuð. Svo byggði hann annað lítið hús, nær brekkunni, sem var kallað „agúrkuhúsið“ þar sem voru ræktaðar gúrkur og melónur.

Skólaganga

Steinunn Egilsdóttir

Synirnir á bænum fengu fyrst heimakennslu hjá Steinunni Egilsdóttur á Spóastöðum, en hún var móðir Þórarins, sem lengi var bóndi á Spóastöðum. Hann var faðir Þorfinns sem þar býr nú. Steinunn var fróð kona og kennaramenntuð, en hún kom í Laugarás og kenndi piltunum svona ýmis grunnatriði, en síðan tók við skólaganga í Reykholti, við níu eða tíu ára aldur, í fjóra vetur í yngri og eldri deild. Helst var fólkið á því að þar hefði verið um að ræða hálfan mánuð í skóla og hálfan heima, en Einar kvaðst viss um að upphaflega hafi það verið mánuður í skóla og mánuður heima. Þá var heimavistin á efstu hæðinni í skólahúsinu, þar sem nemendurnir sváfu í kojum og skólastofur á miðhæðinni. Í kjallaranum var eldhús og matsalur.

Sundlaugin var sérstök. Það var djúp laug og grynnri laug og strengdur kaðall á milli. Einhverju sinni stökk Jósef út í laugina með gúmmíkút þá slitnaði bandið sem hélt honum. Hann var þarna buslandi á hundasundi, komin út í djúpu laugina og gat ekki bjargað sér. Þá sá ráðskonan, sem hét Sigríður, hann út um gluggann og kom hlaupandi og „stökk út í laugina í öllum pilsunum. Ég man eftir að pilsið flæddi um allt“ (Jósef) og bjargaði honum. Hann telur að þarna hefði hann drukknað ef ráðskonan hefði ekki brugðist svo skjótt við.

Elstu strákarnir þrír voru allir fermdir á sama degi í Torfastaðakirkju og það var Jósef sem fermdist á „réttu ári“, 1943.

Bernskubrek

Ólafsbörn um 1942. Aftar f.v. Jósef, Einar og Grétar. Framar Sigríður og Hilmar.

Jósef segir Grétar hafa verið uppátækjasaman og stundum hafi hann ratað í vandræði. Þannig hafi menn verið að draga bát undir brekkunni neðan við bæinn niður að ánni, en Grétari hafi verið harðbannað að fara með. Hann hlýddi því ekki og datt síðan í dý sem talið var botnlaust. Honum tókst þó á yfirnáttúrulegan hátt að krafsa sig upp úr dýinu og fékk verðskuldað tiltal fyrir að elta bátinn sem dreginn var af hesti yfir dýjamýrina.

Ólafssynir í kringum lýðveldisárið. Aftar f.v. Jósef, Einar og Grétar. Framar Hilmar og Sigurður.

Það voru ýmsar hættur sem leyndust í nágrenninu. Þannig voru tvær tjarnir á Laugarástúninu, kallaðar Stóratjörn og Litlatjörn. Þarna var prýðilegt skautasvell á vetrum. Einhverju sinni voru bræðurnir, Einar, Jósef og Grétar að leika sér við stærri tjörnina og var Grétar með skóflu sem hann henti út á ísinn. Þegar hann hugðist ná í skófluna, brast ísinn undan honum þannig að hann fór á kaf. Eldri bræðurnir, Einar og Jósef lögðust þá á ísinn og Einar fikraði sig að vökinni, en Jósef hélt í fótinn á honum. Náði Einar taki á úlpu Grétars og þannig tókst þeim að ná honum á þurrt. Einar man vel eftir því, að Grétar grenjaði mikið þegar hann hljóp heim, þar sem hann var háttaður ofan í rúm. Þeir Einar og Jósef telja að þeir hafi verið fjögurra, fimm og sex ára gamlir þegar þessi atburður varð.

Læknisbörnin þrjú sem fæddust í Laugarási, frá vinstri: Sigríður, Sigurður og Hilmar.

Blautt var á þegar myndin var tekin. Strákarnir nenntu ekki i skóna sína, svo systir þeirra skaut undir þá poka svo þeir myndu ekki blotna í fæturna við myndatökuna, en þessi mynd var tekin um 1945.

Þetta var eina óhappið sem þá bræður rekur minni til að orðið hafi á tjörnunum, þar sem þeir skemmtu sér gjarnan á skautum á vetrum. Skautarnir voru af frumstæðri gerð, smíðaðir í Laugardal og gerðir úr sagarblöðum sem felld voru í trésóla og var síðan þessi búnaður bundinn við skóna með ólum. Skautar af þessari gerð þótti þeim bræðrum mikil gersemi. Þeir reyndu einnig að búa sér til sína eigin skauta úr kýrleggjum, en það gekk ekki.

Það er ævintýraljómi yfir æskuárunum í Laugarási.

Læknirinn Ólafur

Það gerðist margt á ferðum Ólafs um héraðið, meðal annars átti fólk það til, að koma til hans á förnum vegi og biðja hann að rífa úr sér tennur, sem hann þá gerði alla jafna. Fólk vildi oft láta rífa úr sér ódeyft þegar það var kannski búið að vera lengi með verk frá tönninni.

Ólafur læknir með tvo til reiðar.
Hestar voru farartæki héraðslæknisins þar til vegir og brýr opnuðu leið fyrir ökutæki. Það var ekki fyrr en um 1930 sem akvegur kom milli Spóastaða og Laugaráss og brú á Hvítá hjá Iðu

Starfi héraðslæknis fylgdu mikil ferðalög, enda héraðið stórt. Til að byrja með náði það á Þingvelli, en mörkin voru komin að Soginu þegar synirnir fóru að muna eftir sér. Einhverju sinni þegar Ólafur var að koma úr vitjun austur í hreppum, beið hans boð um að vitja sjúklings vestast í héraðinu. Þetta voru ferðir í öllum veðrum á öllum tímum sólarhrings. Það var nokkuð algengt, eftir að síminn kom, að þegar fólk frétti af lækninum á ferðinni fékk það hann til að koma við vegna einhvers sem það var búið að fresta. „Á sama tíma og héraðslæknirinn var einn um að sinna þessu stóra héraði munu fjórir eða fimm prestar hafa verið á þessu svæðinu. Það þurfti að jarða fólkið!“ (Sigurður)

Þegar Ólafur tók við starfinu í Laugarási, var hann 42 ára og þá þegar farinn að kenna kölkunar í mjöðm, með tilheyrandi verkjum. Þegar hann var læknir á Skagaströnd, áður en hann kom í Laugarás, fór hann að finna fyrir þessum verkjum í mjöðmum, en þar þurfi hann oft að ferðast fótgangandi í krapaófærð langar leiðir. Verkirnir voru sérstaklega sárir þegar reiðhestarnir sem hann fékk voru hastir. Hann tók þá oft á það ráð að slá í þá þannig að þeir fóru á stökki og það var mýkra. Fólk var oft hissa á þessari reiðmennsku læknisins og velti því upp hvort hann væri að flýta sér svona mikið, en þessu olli mjöðmin. Sumir töldu Ólaf vera reiðfant vegna þessarar reiðmennsku.

Einar minnist þess þegar hann heyrði bónda í Auðsholti, spyrja Ólaf: „Ertu haltur, Ólafur?“. Einar hafði þá aldrei tekið neitt eftir því, þar sem faðir hans hafði bara alltaf gengið haltur. Mjaðmavandamálið varð á endanum til þess að Ólafur varð að láta af störfum í Laugarási, árið 1947. Hann var orðinn ófær um að takast á við ferðalögin sem starfinu fylgdu óhjákvæmilega. Mjaðmirnar voru báðar orðnar mjög slitnar og voru eiginlega bara orðnar fastar.

Nágrannar

Loftmynd frá Landmælingum frá 1951. Á hana hafa verið sett heiti þeirra húsa eða býla sem koma við sögu.

Frá 1932 til 1940 var fjölskylda Ólafs og Sigurlaugar, ásamt vinnufólki, einu íbúarnir í Laugarási. Svo komu Börge og Ketty Lemming, en þau byggðu sér gróðurhús og síðar íbúðarhús þar sem varð Hveratún, sumarfólkið á Krosshóli og í kassafjalahúsinu, en það fékk síðar nafnið Lindarbrekka.

Lemmingsland / Hveratún

Ketty og Börge Lemming

Árið 1940 fluttu í Laugarás hjónin Ketty og Börge Lemming. Börge hafði komið til landsins með Gullfossi í janúar 1938. Ketty kom síðan í kjölfarið, þegar hún hafði aldur til, 1939. Þau fengu landskika þar sem nú er Hveratún, en sem var á þeirra tíma kallað Lemmingsland.

Börge byrjaði á því að byggja eitt um 100 ferm. gróðurhús og þau bjuggu síðan í endanum á því, nær hverasvæðinu, til að byrja með. Síðan byggði hann íbúðarhús við endann á gróðurhúsinu, sem var sambyggt við það.

Ketty eignaðist, í minningu systkinanna, alltaf barn í mars, að minnsta kosti þrjú, sem voru þau Sören Peter (3. mars, 1943), Hans Peder (5. mars, 1944) og Inge Birte (24. mars, 1945).

Börge er sagður hafa heitið fullu nafni Börge Johannes Magnus Nielsen Krychristiansen Lemming.

Sú saga er af Lemming, að eftir að hann kom aftur til Danmerkur, hafi hann greint frá því að hér hafi hann verið píndur og að illa hafi verið farið með hann og hann að lokum hrakinn burt af landinu. Hér hafi hann verið „stórgrósser“. Þetta mun þó ekki hafa verið allskostar rétt. Áður en Börge og Ketty komu í Laugarás, hafði Börge verið um skamman tíma að Laugarbóli í Mosfellssveit og þau saman í Reykjalundi í Grímsnesi.

Í minningunni var Börge sérvitur og ánægður með sjálfan sig og „stór í kjaftinum“. Sigríður kveðst hafa vorkennt Ketty afar mikið, en fátækt var mikil hjá þeim hjónum.

Húsið sem þau byggðu var aldrei fullklárað á þeirra tíma: „Það var ekkert í húsinu“ (Sigríður).

Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir keyptu Lemmingsland af banka 1946 og breyttu nafni þess í Hveratún.

Krosshóll eða Sigurðarstaðir

Sigurður Sigurðsson og Bryndís Ásgeirsdóttir

Árið 1942 fékk Sigurður Sigurðsson (1903-1986), berklayfirlæknir, land þar sem kallað var Krosshóll (oftast kallað Sigurðarstaðir af íbúum í Laugarási). Þarna var um að ræða 3ja-4ra hektara erfðafestuland. Hann og kona hans Bryndís Ásgeirsdóttir (1905-1980) byggðu þarna sumarhús.

Jón Ásgeirsson, bróðir Bryndísar, konu Sigurðar, byggði síðan lítið hús í landi Sigurðar í dalverpinu eða lægðinni fyrir neðan Krosshól og Sigurður byggði þar gróðurhús og réði síðan til sín menn til að sinna garðyrkjunni.

Njáll sigraði í sveitakeppni í Víðavangshlaupi ÍR 1948. Hér er hann ásamt félögum sínum, annar frá hægri.

Njáll Þóroddsson (1919-1997), sem síðar var í Friðheimum starfaði í gróðurhúsi Sigurðar ein tvö ár og var kallaður Tarzan vegna þess að hann gekk á sundskýlu allt sumarið. Þarna var einnig tvíburabróðir hans, Þór, sem síðar flutti til Ameríku.

Njáll var var mikill íþróttagarpur. Þeir bræður voru báðir kennaramenntaðir og tvíburar, en gjörólíkir. Þór glaður, kátur og hress en Njáll var frekar þungur. Síðar, um 1960 var þarna danskur maður, Hansen, sem m.a. gerði tilraun til að rækta tómata utandyra, en það gekk ekki og reyndist því í samræmi við það sem Skúli í Hveratúni hafði bent honum á.

Síðar Lindarbrekka

Jóhann Sæmundsson.JPG

Jóhann Sæmundsson byggði árið 1942 lítið hús sem síðar varð íbúðarhúsið á Lindarbrekku. Hann notaði í bygginguna timbur úr kössum utan af bílum sem höfðu verið fluttir til landsins.

Jóhann Sæmundsson var góður maður, að mati systkinanna. Til dæmis bauð hann krökkunum til sín á sunnudagsmorgnum til að kenna þeim grasafræði, en hann var afar fróður á því sviði. Jóhann var tryggingayfirlæknir og um stuttan tíma félagsmálaráðherra 1942-43.

Sigurður Jónasson

Sigurður Jónasson

Sigurður Jónasson keypti síðan af Jóhanni, en hann var „spútnik úr bænum“. Átti meðal annars Bessastaði. Hann var einhverntíma að kveikja í einhverju þarna hjá sér þegar eldur hljóp í brekkuna og yfir á land Krosshóls. Það varð enginn stórskaði af þessu, en samt brann þarna heilmikið.

Sigurður Sigurðsson og Jóhann Sæmundsson voru meira og minna hér með fjölskyldum sínum allt sumarið. Komu á vorin og fóru ekki aftur í bæinn fyrr en fór að hausta.

Síðar Grózka og Sólveigarstaðir

Það er talið, að 1943 hafi Eiríkur Grímsson og Bergþóra Runólfsdóttir sest að þar sem síðar varð Grózka og loks Sólveigarstaðir. Með þeim var Bergmann, bróðir Bergþóru, einhleypur og vinnumaður hjá Ólafi á þessum tíma og bjó þar. Hann hafði áður verið í vinnu hjá Jörundi Brynjólfssyni í Skálholti.

Eiríkur og Bergþóra munu hafa byggt litla, bárujárnsklædda timburhúsið, sem stóð austast í lóðinni, nálægt hveralæknum. Ekki er vitað til þess að þetta býli hafi fengið nafn fyrr en Náttúrulækningafélag Íslands keypti það 1945, en eftir það kallaðist það Grózka.

Eiríkur og Bergþóra voru skamman tíma í Laugarási, en þau hurfu á braut eftir að ung dóttir þeirra féll í hveralækinn. Systkinin minnast þeirra miklu sorgar sem þetta slys olli.

Jón Vídalín Guðmundsson

Jón Vídalín Guðmundsson

Jón Vídalín keypti Grózku af NLFÍ, líklegast 1948. Hann bjó þarna fyrst einn, en réði til sín ráðskonur. Ein þeirra var Hrönn Hilmarsdóttir, síðar húsmæðrakennari, en hún var ráðskona hjá Jóni 1949, þá 16 ára.

Jón var kallaður „Jón kokkur“, en hann var lengi búinn að vera kokkur á togurum áður en hann keypti Grózku, þá kominn á sextugsaldur. Sigurður segir Jónu Magnúsdóttur hafa komið til Jóns sem ráðskona, 1954, með börn sín tvö, Magnús og Hildi. Hann man það vegna þess að það ár var hann í vinnu hjá Guðmundi Einarssyni á Iðu, sem var þá með gróðurhús Ólafs á leigu.

Eftir Laugarás í Laugarási

Hólmfríður Einarsdóttir byggði hús sitt í Laugarási 1945, en hún naut þess ekki lengi þar sem hún lést árið 1950. Hún arfleiddi systurson sinn, Einar Ólafsson að húsinu sem stóð þá og stendur enn á lóð við Skúlagötu sem síðar hlaut nafnið Lauftún.

Ólafur og fjölskylda tóku landið við Stöðulmúla á leigu 1945, og 1946 eða 1947 var sumarhúsið byggt. Hólmfríður Einarsdóttir, systir Sigurlaugar tryggði sér landið sem er norðan Skúlagötu og þar byggði hún litið hús (Lauftún), árið 1945. Hólmfríður lést árið 1950 og Einar tók húsið í arf eftir hana.

Bragginn og gróðurhúsin

Eftir stríðið keypti Ólafur hálfan herbragga, amerískan, frá Iowa, sem stóð úti við það sem oftast er kallað Skálholtsbeygja (sjá örnefnakort), í norðurenda Smáholtanna. Þessi hálfi braggi var settur niður við norðurendann á gróðurhúsi sem þá hafði verið byggt sunnan Skúlagötu. Hinn helmingur braggans fór að Iðu. Bragginn var úr góðu efni, galvaniserað beggja vegna.

Ólafur byggði svo annað gróðurhús við hlið hins fyrra, árið 1952. Hann sá um rekstur gróðurhúsanna, en synirnir Einar og Grétar og síðar Sigurður unnu í þeim á sumrin til að byrja með, en Guðmundur Einarsson á Iðu var með þeim í ræktuninni sumarið 1954.

Árin 1955 og 1956 var Einar aðalmaðurinn í ræktuninni, en árið 1957 fluttu Hjalti Jakobsson og Fríður Pétursdóttir í Laugarás og tóku gróðurhúsin á leigu. Þau bjuggu í litla húsinu sem Hólmfríður Einarsdóttir byggði. Þarna voru þau þar til þau fluttu árið 1965 í húsið sem þau höfðu þá byggt í Laugargerði.

Árin 1968 til 1969 leigði Skúli Magnússon gróðurhúsin, en eftir það tók Einar aftur við ræktuninni og hóf að rækta gulrætur.

Stöðulmúli

Mynd frá því skömmu eftir 1960. Þarna er ekki hafin bygging á heilsugæslustöðinni í Launrétt, sem lokið var við 1965 og þarna er íbúðarhúsið á Sólveigarstöðum risið, en í það var flutt 1960.
Fremst er sumarhús Ólafs og Sigurlaugar.

Við spurningunni um hversvegna fjölskyldan hefur haldið svo mikilli tryggð við Laugarás, sem raun ber vitni, segjast systkinin hafa fá svör, utan máltækið: „Römm er sú taug sem rekka dregur, föðurtúna til“. Grunnurinn að þessari tryggð er líklegast sá, að hér ólust þau upp að miklum hluta og hafi síðar verið hér öllum stundum á sumrin með foreldrunum. Ólafur var mikill áhugamaður um ræktun, ekki síst skógrækt. Eftir að gróðurhúsin höfðu verið byggð sáu þau systkinunum fyrir sumarvinnu, en Sigríður kveðst þá hafa verið ráðskona þeirra „Bakkabræðra“. Á spildunni fyrir neðan sumarhúsið var svo útirækt þar sem ræktaðar voru gulrætur og „eilífðarblóm“, en eilífðarblóm munu vera blóm sem eru hengd upp og þurrkuð. Þau voru síðan seld í það minnsta í blómaversluninni Flóru í Austurstræti. Það var Sigurlaug sem annaðist þessa ræktun fyrst og fremst.

Þessi mynd, sem er tekin frá þeim stað þar sem sumarhús Ólafs og Sigurlaugar stendur, er líklega frá því um 1950. Þarna er í byggingu hið síðara, af tveim gróðurhúsum sem fjölskyldan byggði, með herbraggann sem aðstöðuhús. Hveratún er í bakgrunni og gróðurhúsin á Sólveigarstöðum. Launrétt er þarna enn ósnert, en þar var lokið byggingu dýralæknisbústaðar 1955.

Með þessu móti myndaðist ákveðin samfella í þessu og þeim varð nauðugur einn kostur að framlengja dvölina hér, þannig að enn þann dag í dag dvelja þau og afkomendur þeirra hér þegar þau eiga lausa stund. Sigríður, Jósef, Sigurður og Einar og fjölskyldur þeirra byggðu öll frístundahús á þessu landi fjölskyldunnar. Þeim hefur ávallt liðið vel hér, sem er ekki síst ástæðan fyrir þessum tengslum við Laugarás.

--------

Eftir að ég hafði skráð frumdrög að viðtalinu fór það til yfirlestrar og viðbóta hjá systkinunum. Það voru þau Ólafur Einar og Sigurlaug Kristín Jóhannsbörn, börn Sigríðar sem tóku þennan þátt að sér. Fyrir það vil ég þakka þeim og auðvitað einnig systkinunum fjórum, fyrir að gefa sér tíma til að líta til baka með mér, til æskuára þeirra í Laugarási.

Uppfært 05/2022