Æskuminningar

Péturs Á. Hjaltasonar, frá Laugargerði

Pétur Hjaltason 2009 (mynd pms)

Í upphafi árs 2009 tók Pétur Ármann Hjaltason sig til og hóf að skrá æskuminningar sínar á Facebook-síðu sína.  

Pétur flutti í Laugarás með foreldrum sínum Fríði Pétursdóttur og Hjalta Jakobssyni árið 1957. Fyrstu árin bjó fjölskyldan í Einarshúsi, svokölluðu, sem nú heitir Lauftún, en þau byggðu síðan garðyrkjustöðina Laugargerði.



Þessi minningabrot Péturs eru birt hér eins og þau birtust á Facebook, með þeim athugasemdum lesenda sem fjalla um innihald textans.

Fortíðarhyggja og upprifjanir sem Fésbókin gefur

Skrítið með þetta tölvudót, maður veit ekki af því hvað þar gerist, skráir sig inn og dettur í einhvern þann gír sem hugur stendur til hverju sinni. Undanfarna daga hef ég verið að horfa á fésið mitt og séð það formast og umbreytast eftir því sem vinum fjölgar. Um leið hellast yfir mann minningar, sumar frá því í fyrra og aðrar frá bernskudögum þegar var endalaust sólskin og gleði alla daga, hvenær vikunnar sem var.

Í æskunni þegar maður var svo grandalaus um það hvað lífið bæri í skauti sínu, að ekki einasta leiddi maður ekki hugan að því né gat séð svo langt inn í framtíð að það væri möguleiki.

Dettur í hug minning sem leitar á núna þar sem við sátum nokkrir leikfélagar, vorum nýbúnir að vera í káboj og indjáni í skóginum fram við veg, sátum og tuggðum strá og veltum fyrir okkur heiminum. Sennilega sjö frekar en átta, en þó komnir með nokkra þekkingu á því að reikna tíma, veltum fyrir okkur hvað við yrðum gamlir þegar aldamótin kæmu, náðum ekki niðurstöðu og ákváðum að það tæki því ekki að reikna þetta því við yrðum örugglega dauðir þá, svo langt var til þessarra tímamóta. Sit svo hér á því herrans ári 2009 og rifja þetta upp og finnst ég ekki degi eldri en svona liðlega þrítugur. Er þetta ekki skrítið ? 
Hugleiði nú að halda úti minningabrotum á þessarri síðu mér til upprifjunar og kannski einhverjum öðrum, kem örugglega til með að muna hluti vitlaust, en það verður að virða við mig, aldurinn færist yfir og minningin verður örlítið föl þegar langt er síðan. Kannski geta einvherjir leiðrétt misminni mitt og væri það vel. Eina sem ég vonast til að gera ekki það er að meiða einhvern og ef það tekst þá má öllum vera sama þó svo einhverjar misfellur kunni að rata inn í texta, skrifaðan í hita minninga og þess hugarástands sem viðkomandi er í þegar gjörningurinn er framinn. 
Kannski verður ekkert af þessu, hver veit, en ef þetta tekst þá væri gaman ef þeir sem muna með mér bættu inní það sem á vantar til þess að minningin verði heil. 
Ekki meira í dag.

Upphafið

Jæja, hvar er best að byrja að segja frá sjálfum sér? Er ekki nauðsynlegt að byrja á byrjuninni og segja frá hverjir standa að manni svo hægt sé að kenna um genetískum breytingum þegar þörf er á að horfast í augu við hinn kalda raunveruleika, "maðurinn er bilaður!"

Þar sem styrkur minn liggur ekki í því að rekja ættir mínar lengur en til forelda og í besta falli þeirra foreldra þá set ég punkt við þar og læt öðrum það eftir að skýra frá því sem lengra er aftur.

Ég tel mig vera Breiðfirðing að langfeðgatali, þar sem ættir mína liggja þangað lang flestar að mér sýnist. Ég er sonur þeirra sæmdar hjóna Hjalta Ólafs Elíasar Jakobssonar garðyrkjufræðings og Fríðar Esterar Pétursdóttur, húsmóður, en þau bjuggu lengst af sínum búskap í Biskupstungum. Föðurforeldar mínir voru þau Jakob Narfason verkamaður ættaður úr Hafnarfirði, en bjó lengst af í Mosfellssveit og (Ethelríður) Marta Hjaltadóttir verkakona ættuð af Rauðasandi vestur það ég best veit.

Föðurforeldrum mínum kynntist ég lítið, bæði var að ég var ekki mjög gamall þegar þau létust og eins hitt, eins og oft vill verða, þá stjórnaði móðir mín því meir hvernig tengsl væru ræktuð og hún beindi okkur frekar til sinna foreldra. Þau voru Pétur Björnsson Guðmundsson frá Rifi á Snæfellsnesi, vélstjóri að mennt, stundaði búskap um miðhluta sinnar æfi í Laxnesi í Mosfellssveit og Guðbjörg Sæmundsdóttir húsmóðir.

Jakob og Marta bjuggu síðust æviárin í bröggum þar sem hét Ullarnes í Mosfellssveit, þar bjuggu þau bragga tvo sem höfðu verið innréttaðar sem vistarverur, þættu ekki merkilegur húsakostur í dag, en mig minnir að mér hafi þótt svolítið flott í þá tíð. Minningar mínar af þeim er að amma Marta sat yfirleitt á kolli inni í eldhúsi eitthvað að sýsla en afi, lítil kall og alltaf órakaður sat vil lestur í stofunni þegar við komum þar að. Ömmu var gott að kyssa, hún var svo mjúk, en ég held að afi hafi notið þess að nudda órökuðum vanganum við mann þegar heilsað var, bara til þess að stríða manni. Mig grunar nú, að sú stríðni fylgi mér í gegnum föður minn enn í dag.

Pétur og Gauja amma fluttu frá Siglurfirði 1951 en þar hafði afi verði vélstjóri hjá síldarverksmiðjum ríkisins, suður í Laxnes sem var þá örreytiskot ofarlega í Mosfellsdal. Þar kynntust foreldrar mínir, mamma ný skvísa í sveitinni og pabbi sigldur maðurinn og kominn í ráðsmennsku hjá Stefáni bónda í Mosfellsdalnum. ´

Ávöxtur þeirra kynna vildi sjá lífsljósið snemma morguns í nóvember 1953 þannig, að ekki var um neitt annað að ræða en kalla til "svörtu Maríu" sem átti að flytja móður mína á Landsspítalann þar sem hún skyldi verða léttari. Nokkuð hafði snjóað og átti dorían í hinum mestu erfiðleikum með að komast áfram og voru ræstir út móðurbræður mínir Heiðar og Gunnar ásamt föður mínum og afa til þess að moka, draga og ýta, svo kæmist ég í heiminn með skikkanlegum hætti. Skráður er ég fæddur á Landsspítalanum í Reykjavík að morgni 22. nóvember, en sú saga sem ég held meira upp á er, að ég hafi tekið fyrsta andkafið í "svörtu Maríu" í ásunum svokölluðu sem loka Mosfellsdalnum til vesturs rétt við núverandi Vesturlandsveg. Sú saga er alla vega ævitýralegri í alla staði. En eplastrákurinn var ég kallaður fyrstu vikurnar því eftir því sem mér skilst þá hafði móðir mín mikla lyst á eplum meðan á meðgöngunni stóð og var jafnvel búist við að ég kæmi til með að líta út eins og epli, en svo var nú ekki og vóg ég 16 merkur og mældist 51 cm við fæðingu.

Eins og gefur að skilja man ég þetta ekki sjálfur en byggi á frásögnum annarra af þessum fyrstu andartökum ævi minnar.

Fjósið á Stóra Fljóti

Kallinn er skírður að Mosfelli í Mosfellsdal á annan í jólum 1953, en í þeirri sömu ferð létu foreldrar mínir pússa sig saman. Pétur í höfuð móðurafa míns, en hvaðan Ármanns nafnið er komið veit ég ekki, hef held ég aldrei spurt að því en hitt er að það kemur sér vel að heita tveimur nöfnum þegar margir Pétrar eru samankomnir, en þannig var oft í Laxnesi og reyndar hefur það reynst oft síðan. Ekki veit ég hver presturinn var, en gaman væri að komast að því og bæta því hér við. Til eru myndir af mér undur myndarlegum í kjól í fangi móður minnar sem lítur nokkuð fullorðinslega út þó ekki væri orðin fullra átján ára.

Fljótlega upp úr þessu fóru nýgiftu hjónin að leita sér að samastað og varð niðurstaðan sú að karl faðir minn réði sig sem ráðsmann hjá Ragnari í Þórskaffi, en hann átti garðyrkjustöð á Stóra Fljóti í Biskupstungum og þangað var flutt vorið 1954.
Sjálfur var ég vafinn inn í bómull kærleikans heima í Laxnesi, en auk móður minnar og ömmu voru þar heima tvær yngri systur mömmu þær Kristný og Drífa, þannig að ekki væsti um kallinn.

Ekki eru nú margar minningar úr eigin ranni frá tímanum í Reykholti, en þó slæðist með eitt og eitt brot, þó svo ég viti varla hvort ég muni þetta sjálfur eða hafi fengið um þetta sögu síðar.

Í Reykholti kynntust foreldrar mínir miklu ágætis fólki, s.s. Eiríki Sæland og Huldu á Espiflöt, Inga og Helgu í Birkilundi, Kristni og Kristrúnu á Brautarhóli og fleirum sem ég ekki þori að nefna svo ekki verði farið vitlaust með.

Foreldrar mínir gerðu sér heimili í "fjósinu" á Stóra Fljóti, en það munu ekki hafa verið sérlega vistleg húsakynni, köld og óhrjáleg og heyrði ég mömmu oft tala um það, að þar hafi oft verið slæm vist, en þetta var heimili, þeirra fyrsta og því var það gott.

Mér er sagt að ég hafi átt leikfélaga þarna sem kallaður var "Kútur" hann er yngri bróðir Hilmars Björnssonar trésmiðs á Selfossi og skjalfesta dagbókarfærslu á ég þar sem Hilmar skrifar hjá sér að hann hafi verið að passa mig og Kút frá kl 13-15:30 tiltekinn dag. Foreldrar þessarra öðlings drengja voru garðyrkjufólk þarna á svæðinu þó ekki viti ég á hvaða stöð þau störfuðu.


Mér er sagt að ég hafi þarna í fyrsta skipti bragðað áfengi en þannig var, að Ingvar í Birkilundi kom einhverju sinni í heimsókn til foreldra minna og þáði "útíða" eins og tíðkaðist oft. Ég hafði skriðið upp í fangið á Ingvari og hann hampað mér og gefið mér annað slagið að sjúga molasykurinn sem difið var í kaffisopann. Mér er sagt að ég hafi sofnað glaður það kvöldið. Aðrir verða að dæma um hvort ég hafi hlotið skaða af. 
Ingvar þessi í Birkilundi var oftast kallaður " Ingi í mýrinni" og gekk undir því nafni þá ég man. Nú veit ég ekki hvort það viðurnefni stafaði af landkostum í Birkilundi eða hugsanlega vegna þess að Ingvari þótti gott að fá sér í staupinu. Ingvar lést vofeiflega er hann brann inni þegar hús hans brann í Birkilundi. Helgu hef ég séð annað slagið núna síðast við mótmæli á Austurvelli í búsáhaldabyltingunni.

Og áfram liðu árinn í óminni og gleði æsku og græsku.

Birgir Sigurðsson: Ég man man óljóst eftir þeim atburði þegar þú varst skýrður, mig minnir reyndar að það hafi verið í stofunni hjá afa þínum og ömmu í Laxnesi og foreldar þínir hafi gift síg í leiðinni. Presturinn hefur væntanlega verið séra Háldán Helgason að Mosfelli. Það var mjög fín veisla í Laxnesi þennan dag og ég man að búrið inn af eldhúsinu var fullt af góðgæti sem ungir piltar höfðu nokkurn áhuga á. 

Upp úr óminni æskunnar

Enn flæðir tímans stranga fljót áfram og ég kemst frá því að skríða til þess að ganga, þó svo að ekki hafi ég sleppt snuði fyrr en langt genginn fermingu, en það er nú önnur saga. Ungu hjónin í fjósinu á Stóra- Fljóti fóru seinnipart árs 1954 að huga að fjölgun íbúa í kotinu og sumarið 1955 fæddist þeim annar sonur, þann 22 júlí og var hann skírður Erlingur Hreinn. Og ég átti orðið bróðir. Það má segja um þann bróðir að hann bar nafn með rentu því hvernig sem okkur hinum strákunum tókst að gera okkur skítuga tókst Ella bró alltaf að halda sér ótrúlega hreinum þrátt fyrir að stunda útileiki af jafn miklu kappi og við hinir og oft meir. 

Pabbi stundaði ráðsmennsku á garðyrkjustöðinni og ég komst í þá aðstöðu að mega leika mér úti undir eftirliti að sjálfsögðu og hafði Hilli Björns það hlutskipti oftar en ekki, eins og áður er getið. Eitthvert sinn man ég að við félagar paufuðumst upp á holt, man reyndar ekki eftir ferðinni sjálfri en ég man þegar pabbi og einhver kall með honum komu til okkar þá langt liðið á dag, þar sem við lékum okkur grandalausir í óbyggðinni og báru okkur til bæjar þar sem fyrir okkur var lagt að gera aldrei svona aftur því mamma og pabbi yrðu svo hrædd. Síðan fékk ég að borða og það er svo skrítið að ég man sem gerst hefði í gær að ég fékk soðið skyr þó svo móðir mín kannist ekki við að slíkt hafi hún nokkurn tíma boðið mér uppá. 

Einstaka fleiri brot man ég og finnst skrítið sumt af því, eins og til dæmis man ég eftir rólu þar sem ég mátti róla mér og fannst ógurlega gaman. Ég sé ekki hvað mér hefur getað fundist merkilegt við það. Kannski á það fyrir mér að liggja að festast í æskuminningum þegar aldurinn og bilað höfuð sækja að enn frekar, það er ekki gott að segja, en stundum skilur maður ekki hvers vegna maður man sumt dauða ómerkilegt, en annað sem ætti að sitja í minni er ekki þar og hefur ekki verið lengi. 

Gera má ráð fyrir því að hugur pabba hafi staðið til frekara sjálfstæðis í atvinnulegu tilliti og eflaust hefur margt verið hugsað og ýmislegt planað áður en tókst að rífa sig úr ráðsmennsku og gerast eigin herra, þó svo að fyrstu árinn á því sviði væru menn leiguliðar manna "að sunnan" eins og oft er sagt um þá sem ekki sitja eignir sínar en leigja til rekstrar. 

Það mun hafa verið seinni hluta ársins 1956 sem fréttist að til leigu væri gróðrarstöð niðri í Laugarási og það sem enn betra var, henni fylgdi hús til íbúðar. Karl faðir minn fór í bingógallann settist upp í Dodsinn sinn og ók á fund þeirra sem með þessa stöð höfðu að gera til að fala á hana á leigu. 
Og um svipað leyti fóru að festast sæmilega í höfði mér þær minningar sem ég man í dag og þarf minna á annarra minningum að halda, þó svo að hugsanlega þurfi ég aðstoð til að muna rétt. 
Meira um það næst. 

Rauðamöl í stað gólfs

Alltaf fylgir því nokkur spenna að flytja. Ekki það að ég hafi verið eitthvað spenntur, enda vissi ég varla hvað um var að vera, en samt fór að bera á ákveðinni spennu hjá foreldrum mínum, sem ég, smábarnið, skynjaði án þess að tengja. 
Pabbi fór að fara í burtu heilu dagana og kom oft þreyttur heim, svo var farið að tala um að það þyrfti að mála og laga þetta og laga hitt og ég fór að skynja að mikið stæði til. Svo kom að því einn morguninn að mamma sagði mér að ég mætti fara með pabba, það ætti að fara laga nýja húsið okkar. Það var útbúið nesti, mikið nesti. Ella bró var komið fyrir í pössun og ég fékk að sitja frammí hjá mömmu og pabba, því að það voru kallar í aftursætinu þegar lagt var af stað niður í Laugarás til þess að græja nýja heimilið.

Niður í Laugarás frá Reykholti var langur vegur, mér var nær að halda að við yrðum aldrei kominn, ekki svo að skilja að ég hlakkaði sérstaklega að sjá þetta hús sem við ætluðum að flytja í, heldur hitt, að mamma bjó til nesti sem átti að borða í þessu ferðalagi og hún gerði meira, hún setti mjólk á flösku og setti svo flöskuna í ullarsokk og mér var sagt að mjólkin væri ætluð mér. Gat nokkuð annað verið jafn spennandi? Ég efast um það. 
Svo rann sjálfennireið föður míns í hlað hjá þessu nýja húsi. Öllum var mikið í mun að komast út úr bílnum og inn í þetta hús og í spenning annarra sótti ég smá áhuga á að fá að sjá umrætt framtíðarheimili mitt. 

Og gætu vonbrigði orðið meiri? Var hægt að láta lemja sig fastar? Mamma var búin að tala spennt um nýja húsið sem við ætluðum að flytja inn í. Það yrði mikið flottara og betra en "fjósið".... og svo þetta! 
Þegar inn í húsið var komið rak mig í rogastans. Það var ekkert gólf í þessu húsi bara svona rauður vegur eins og var á leiðinni til afa og ömmu í Laxnesi. Þvílík skelfing! 

Kallarnir fóru að moka og vinna. Mamma var eitthvað að sýsla og ég ráfaði út í góða veðrið, búinn að steingleyma því hvað ég var spenntur yfir því að fá nestið og mjólk úr flösku í sokk. 

Seinna var búið að steypa gólf í húsið, setja dúk á gólfin og mála veggi og þá var þetta flottasta hús í heimi. Húsið var reyndar ekki stórt innan við 50 fm, en flott. Það var nánast ferhyrnt og geymdi 3 herbergi, eldhús og lítið klósett. Við húsið hafði verið byggt bíslag sem bætti við það forstofu og litlu herbergi þar innaf, sem lengi framan af var kalt og notað sem geymsla, en síðar var sumarstrákurinn settur í þetta herbergi.

 
Þegar inn úr forstofunni var komið var komið inn á lítinn gang, strax til vinstri var hurð inn á klósett og þar við hliðina farið inn í eldhús, sem var svona herbergi þar sem illa mátti skipta um skoðun, þó var hægt að koma þar fyrir litlu eldhúsborði til að matast við. Ískápurinn var hafður fram á gangi og þar áfram var herbergi okkar bræðra. Hægra megin af ganginum var farið inn í litla stofu og þar inn af var svefnherbergi hjónanna, svo lítið að ekki var hægt að loka hurðinni og hjónarúmið fyllti nánast horn í horn. 
Ekkert bað eða þvottahús var í litla húsinu okkar, en austan við húsið var lítið gróðurhús sem lá samhliða brekkunni og við endan á því að norðanverðu var lítll vinnuskúr.  Þar hafði mamma þvottavélina sem var svona Rafha bulluvél sem hafði svona keflavindu sem var notuð til að ná mesta vatninu úr þvottinum áður en hann var hengdur út, nú eða inni og þá inní gróðurhúsi þegar það var mögulegt. Þarna vorum við bræður settir í bað öll árin sem við bjuggum í þessu húsi, bornir af foreldrum okkar frá bæ, umvafðir handklæðum og yfir í baðskúrinn settir þar í þvottabala og baðaðir og síðan vafðir handklæði inn í bæ til þess að fara að sofa. Þetta var lúxus þess tíma og þótti vel boðlegt.
Við vorum flutt í Laugarás og ég fór í það að kynna mér staðhætti og alla þá krakka sem þar voru að alast upp samferða mér.

Nágrennið allt

Mér lá svo á að segja frá þeirri upplifun minni að flytja, í síðasta pistli, að ég gleymdi að segja frá örlagavaldi í lífi þessarrar fjölskyldu, sem efalítið á sinn þátt í því að fjölskyldan tók sig upp og flutti búferlum neðar í sveitina. En þannig var, að þann 18 febrúar 1957 eignaðist ég annan bróðir sem í fyllingu tímans var skírður Hafsteinn Rúnar og með það nafn eins og Ella bró hef ég ekki hugmynd um hvaðan er komið.
Ég get aftur á móti sagt ykkur frá því af hverju peyinn var alltaf kallaður Golli (frb. godli (pms)) þar til hann komst til vits og ára og enn innan fjölskyldunar.
Þannig var að læknisfrúin í Laugarási, frú Gerða Jónsson, var heimagangur á mínu heimili, hress kona sem talaði tungum, enda dönsk og ekki á allra færi að skilja íslenskuna hennar. Hún, einusinni sem oftar, var einhvað að kjá í vöggu litla bróður og hann svaraði með hjali sem hljómaði einhvern veginn golla golla golla goll. Kella fór þá að kalla strákinn "Golla" og það festist við hann.

En talandi um Gerðu Gríms þá væri kanski ekki úr vegi að renna augum yfir það umhverfi sem ég kom þarna inn í og mátti alast upp með þar til ég komst til manns (ef ég hef þá náð þeim áfanga enn) 
Laugarás liggur milli tveggja ása sem snúa svona nokkuð suðvestur-norðaustur. Sennilegt er að þetta sé gamall árfarvegur Hvítár sem náð hefur að fyllast upp og mynda þetta bæjarstæði, en ekki ætla ég að fullyrða það. Mikið hverasvæði liggur með austurásnum, frá svona miðjum ásnum og alveg fram í ána sem rennur fram úr að vestanverðu. Byggðin í Laugarási var þá, séð frá Einarshúsi, sem stóð rétt ofan hverasvæðisins, miðað við að horfa til norðurs og síðan sólarsinnis hringinn.
Ef horft er í norður af hlaðinu hjá Einarshúsi er ekkert að sjá nema mýrarfláka allt upp að Höfða sem er bóndabýli upp með Hvíta að vestanverðu, uppi í ásnum að austanverðu rétt ofan við Einarshús stóð annað álíka hús steinsteypt eða hlaðið, hvítt að lit með rauðu þaki og var oftast kallað Ólafshús, en þar hafði sumarbústað Ólafur Einasrsson fyrrv. héraðslæknir í Laugarási og þá héraðslæknir í Hafnarfirði.
Uppi á hæðinni var svo býlið Laugarás og um það leyti sem við fluttum var verið að byggja fjósið og haughúsið sem enn stendur fram í brekkuna en þar norður af var braggi og fjárhús. Íbúðarhúsið stóð örlítið frá og innar á hæðinni. Þar bjuggu Helgi Indriðason og Guðný Guðmundsdóttir með börnum sínum, Birgi (Bigga) sem var nokkuð eldri en ég og Gróu sem er á aldur við mig, en þó sennilega 1-2 árum eldri. Áfram suður með ásnum þá komum við næst að læknishúsinu tveggja hæða húsi (sennilega því stærsta í hverfinu um þetta leyti). Læknastofurnar voru á neðri hæðinni þar sem Grímur Jónsson héraðslæknir réði ríkum og þeirri efri þar sem Gerða hin danska réð öllu og börnin voru. Nonni (Grímur Jón), Lalli (Lárus), leikfélagi minn Doddi ( Þórarinn),  Egill,  Jónína og Begga ( Bergljót) reyndar ekki öll fædd þegar ég flutti en læt öll fylgja með til að reyna að gleyma engum. 
Vestast og syðst á holtinu var Lindarbrekka en þar réði ríkjum Guðmundur Indriðason (bróðir Helga bónda) og Jóna "sæl komdu" en hún hafði þann orðakæk sem mér þótti afar merkilegur að heilsa svona en ekki "komdu sæl" . Börn þeirra Indriði, Jón Pétur, Katrín Gróa og Grímur. Húsið Lindarbrekka hangir fram á brekkubrúninni og oft velti ég því fyrir mér hvort ekki væri hættulegt að eiga heima þarna. 
Þar framan á ásnum var lítið sumarhús sem ég man aldrei eftir að nokkur kæmi í og þar fyrir framan lítið gróðrarstöð tvö gróðurhús, lítið hús rautt á lit sem danskur maður bjó í með hund einn rosalegan (sennilega scheffer) sem við óttuðumst verulega og reyndar kallinn líka. Einhvern veginn hvarf þessi maður í burt á meðan á æskunni stóð án þess að ég vissi hvernig eða hvers vegna, kannski lést hann eða flutti til Danmerkur, það veit ég ekki, en alla vega fór garðyrkjustöðin í eyði og varð leikvöllur okkar.
Niðri við hverasvæðið voru svo tvær stöðvar og skal fyrst nefna Hveratún þar sem Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir bjuggu ásamt börnum sínum þeim Ástu og Sigrúnu sem voru nokkuð eldri en ég Palla (Páli Magnúsi) sem var minn helsti leikfélagi og vinur, Benna (Benedikt) og Manga (Magnúsi). Einnig bjó þar á þeim tíma afi Palla, Magnús gamli en honum ætla ég að reyna að gera skil síðar. Hveratún var þá lítið steinhús sem stóð fast við gróðrarstöðina, hvítt steinhús með asbestflögu þaki rauðbrúnu. 
Síðast nefni ég Sólveigarstaði, sem stóð við hveralækinn suðvestan við Hveratún, lítið járnklætt timburhús sem stóð nánast ofan í lækinn, þar sem bjó Jón Vídalín og Jóna kona hans ásamt börnum sínum sem voru nokkur en ég man ekki hvað heita nema ég man eftir Magga og Láru, en þau voru mikið fleiri þannig að ég verð að treysta á minni annarra til að draga mig að landi.

Síðar byggðist upp mikið meira í Laugarásnum sem ég ætla að reyna að gera betri skil síðar en dreg hér strik.  Velti því reyndar fyrir mér afhverju Laugarás er alltaf kallað hverfi en ekki þorp eins og öll almennileg þorp, því sannarlega er þetta þorp í sveit og íbúarnir þar þorparar, allavega í augum þeirra sem byggðu Tungurnar ofar í sveit, en alltaf var nokkur rígur þarna á milli, sennilega því í Laugarási var að litlu leyti búið hefðbundnum búskap, en þar varð fjölgunin og afkoma garðyrkjubænda á þessum árum þokkaleg miðað við það sem gerðist.

 Páll M Skúlason Þú manst nú eftir Mumma (Guðmundur Daníel) á Sólveigarstöðum. Það var vegna samskipta okkar við hann sem Sólveigarstaðabóndinn tók okkur verulega í karphúsið eitt sinn (örugglega vegna einhvers sem þú gerðir, segjum við).
Síðan var það líka Hilla (Hildur) dóttir Jónu (næstelst barnanna). Röðin var sem sé þessi:
Maggi, Hilla, Mummi, Lára, Guðný og Arngrímur. Þau fjögur síðast nefndu voru börn Jóns og Jónu, en þau tvö elstu eignaðist Jóna áður.
Pétur Hjaltason Ég vissi að þau voru mikið fleiri en gat enganveginn munað hvað þau hétu Sólveigarstaðakrakkarnir, en svona er þetta, sumt situr límt en annað tollir engan veginn. Treysti á þig í að leiðrétta mig. 
Vorum við ekki bara einhvað að prakkarast? Kannski rifjast þetta upp betur, en manninn leit ég aldrei réttum augum síðar

Að vera elstur innifelur ábyrgð

Sennilega má telja að mitt fyrsta ábyrgðarfulla hlutverk hafi verið vorið 1957, þá kominn á fimmta ár en þá var verið að reyna að fá Golla bróðir til þess að meðtaka snuð, en þá ennþá var það mitt uppáhald þó svo að Elli bró væri hættur fyrir nokkru. Foreldrum mínum var nokkur ami af því hve illa gekk að fá mig til að hætta snuðanotkun og datt það snjallræði í hug að fá mig til að láta snuðið mitt af hendi til litla bróður. 
Ég hef vafalítið átt í verulegri sálarkreppu með að láta minn besta félaga af hendi, en á móti kom það, að ég sem elstur, átti að sinna mér yngri bræðrum og niðurstaðan varð sú Golli bróðir fékk snuðið og ég hætti, en trúað gæti ég því að þessi stund hafi verið jafn þungbær og þegar ég ég hætti reykingum áratugum seinna, en greinilega var sogþörfin fyrir hendi langt fram eftir aldri.

Um leið og við gátum staðið uppréttir var leitað eftir því að við tækjum að okkur ýmis verkefni og var reynt að kenna okkur ábyrgðartilfinningu og það, að vinna þó svo störfin sem við sinntum væru ekki öll mjög merkileg, en þau bar að taka alvarlega. 
Þannig fékk ég það verkefni fljótlega að sækja mjólk upp í fjós og átti ég að gera þetta á hverjum morgni. Til verksins var mér afhentur mjólkurbrúsi, sem var sennilega þriggja lítra málmbrúsi með handfangi og loki. Þegar lágvaxinn maður hélt á brúsanum þá náði hann til jarðar þannig að alltaf varð að lyfta undir til þess að ekki rækist í og helltist niður. Ekki var ég nú alveg búinn að læra á klukku, þannig að örlítil vandræði voru með hvenær ætti að fara af stað til þess að sækja mjólkina. Því var sett viðmið sem var á þá leið að ég mætti ekki fara af stað fyrr en búið væri að kveikja í fjósinu. 
Því var það mitt fyrsta verk þegar rifaði í augun á morgnana að fara út í glugga á herbergi okkar bræðra, en þaðan blasti fjósið við, og gá að því hvort búið væri að kveikja, ef ekki var rétt að sofa áfram, en ef búið var að kveikja var ekkert annað að gera en klæðast og paufast af stað með brúsann.
Ekki nema einu sinni held ég að þessi tímamerki hafi klikkað, en þá þurfti bóndinn að sinna kvígu í burðarerfiðleikum og var í fjósi um rauða nótt þegar ég mætti með brúsann og vildi fá mjólkina, sem ég reyndar fékk, en klukkan var ekki nema liðlega þrjú af nóttu. 
Enginn má ætla sem svo að þetta hafi verið einhver auðnuleysisganga að sækja mjólkina þó ekki væri um langan veg að fara, því brekkan var brött beint upp að fjósinu neðan af vegi og svo eiga samskipti við Helga bónda, sem ekki var allra og alls ekki alltaf í góðu skapi þó svo að ekki léti hann það bitna á mér, þá var ég alltaf örlítið smeykur við kallinn, sennilega ekki kjarkmeiri en þetta.
Og svo að fara niður brekkuna aftur með þriggja lítra mjólkurbrúsa fullan af mjólk, og ekki mátti hella niður því það var einhver mesta skömm sem hægt var að komast í og það var stundum sleypt, og stundum snjór og stundum bara utangátta smápjakkur sem paufaðist þetta oft í svarta myrkri til þess að draga björg í bú.
Síðar fékk Elli bró þetta hlutverk og sinnti af kostgæfni, en þá var ég orðinn svo stór að hægt var að nota mig til einhvers annars, s.s. að vera slöngutemjari í garðyrkjunni. 

Eins var þannig að við krakkarnir lékum okkur öll saman og um það var þegjandi samkomulag að allir gættu að öllum. Þannig fengum við, þau sem eldri voru, það hlutskipti að gæta yngri krakkanna sem í hópnum voru og skipti þá ekki öllu máli hvort þau voru systkini eður ei og eflaust hafa okkur eldri krakkar haft augu með okkur, þó svo að við yrðum ekkert sérstaklega vör við þetta. Þarna virkaði því máltækið hvað ungur nemur gamall temur þó svo að aldursmunur þess sem var gætt og þess sem passaði væri kannski ekki nema örfá ár jafnel bara mánuðir. Þarna lærðum við að varast hverina og ána, sem voru leikvellir okkar krakkanna oftar en ekki, þó svo að stundum yrðu slys.  Í minni æsku voru þau engin alvarlegri en brunasár eftir heita vatnið sem bullaði upp úr jörðinni vítt og breytt um svæðið og stígvélafylli af 98°C vatni er vont að fá og gerist ekki oft hjá þeim sem það prófa. Mín reynsla af því varð í hvernum upp við Einarsstöð þar sem ég reyndi hæfni mína við að ganga á vatni á gúmmístígvélum sem fyllti með þeim afleiðingum að ég varð frá leikjum um nokkra vikna skeið meðan greri.

Heima hjá Dodda

Ég held einhvern veginn að við höfum aldrei pælt í því afhverju hlutirnir væru eins og þeir voru, þeir bara voru svona og það þurfti ekki að velta því fyrir sér.

Áður hef ég lýst í grófum dráttum húsakynnum þeim sem ég var alinn upp í til 11 ára aldurs en þar var þröngt. Eldhúsið hjá mömmu var svo lítið að þar var aukið plássið með því að skræla kartöflurnar, þrátt fyrir það var pláss fyrir lítinn strák að leika sér í bílaleik á gólfinu með pottana og sleifarnar sem ekki var verið að nota við eldamennsluna hverju sinni. Það voru lagðir vegir úr eldhúsinu fram á gang og inn í herbergið okkar strákanna þar sem nú var kominn forláta koja smíðuð af föður mínum úr rafmangsrörum, þar sem við eldri bræðurnir sváfum, ég í neðri en Elli bró í efri, sennilega valið vegna þess að Elli var klifruköttur all svakalegur og kleif allt sem hann komst að, símastaura, stög á rafmagnsstaurum, húsveggi og hvaeina. Við endann á kojunni var svo barnarúm sem tók við þriðja bróðurnum þegar hann þurfti ekki lengur mömmu við.
Í stofunni var borðstofuborð, og tveir stólar úr sófasetti ásamt dívan sem var notaður til að sitja á við borðið eða að pabbi gamli lagði sig þar eftir hádegismatinn. Þá tíðkaðist heitur matur í hádegi og á kvöldin auk síðdegis og kvöldkaffis alla daga. Og alltaf var hafður grautur með þegar mikið var haft við s.s. á helgum dögum. 
Án vafa var húsnæði það sem læknishjónin bjuggu í, talsvert íburðarmeira og ég man að maður komst í ákveðna stemningu við að koma þar inn. Þangað mátti maður koma og leika sér, en ekki lengi í einu og ekki mátti hafa hátt þegar læknirinn var með sjúkling niðri. Frúin á þeim bænum var kapítuli út af fyrir sig og þar voru siðir allir aðrir en niðri í litla húsi. Í eldhúsinu þar, sem var bæði stórt og mikið, stíflakkaðir skápar og pera sem var hringur og blikkaði alltaf af stað þegar kveikt var á henni, seinna lærði ég að þetta var fluorescent pera svona æði merkileg. 
Í þessu húsi voru líka stofur, sófasett samstætt og píanó og flott skraut, glervasar og myndverk eftir húsbóndann, póleraðir skápar með glösum og vínflöskum, mottur á gólfi. Þvílíkur lúxus!
Þarna voru líka margir krakkar og alltaf gaman að koma og ekki skemmdi húsmóðirinn fyrir. Hún var sérstakur karakter, dönsk sem talaði illa íslensku, lét ekki neitt stoppa sig, stóð út á tröppum á morgunslopp með rúllur í hárinu kallandi á Dodda mína og Lalla mína koma nú og spise, eller kom gytter nu skal til leara. Húsbóndinn aftur á móti hægur og rólegur, sem heyrðist varla í, fór sér hægt en stjórnaði heimilinu samt með festu og öryggi. 
Sennilega var Laugarásbærinn næst flottastur, þó svo sjaldan fengi maður að koma þar inn, átti kannski síður erindi því þar voru færri leikfélagar. Þarna var stórt eldhús sem alltaf var komið inn í fyrst því yfirleitt var almúginn tekinn inn þvottahúsmegin þar sem bóndinn gekk um og kaupafólkið. Man eftir sérstökum húsbóndastól sem Helgi sat í og hlýddi á fréttir og veður úr stóru radionett samstæðunni og las blöðin. Þarna var líka alvöru sófasett með tréörmum og flott borðstofuborð sem strákgemlingur úr neðra, eins og Helgi kallaði okkur, settist andaktugur við þegar honum var boðið til sætis. 
Í Lindarbrekku kom ég afar sjaldan, bæði var það hús lengst frá og eins held ég, ef ég á að vera alveg sanngjarn, þá hafi ég ekki þorað, því mér fannst þetta hús standa æði hættulega fram á brekkubrúnina og ég hræddur við að ef ég kæmi inn í það færi það fram af og húrraði niður brekkuna og niður í hverina þar fyrir neðan.

Lífsins skóli og alvöru

Það verður að segjast alveg eins og er, að ég hef sjaldan öfundað nokkurn af því sem hann hefur en ég ekki og á það við bæði um veraldlega hluti og andlega. Þó skal það viðurkennt, að þrátt fyrir að ég ætti tvo afa og það í sjálfu sér alveg fína afa, þó svo að þeir byggju báðir í Mosfellssveitinni, þá öfundaði ég Palla vin minn af þeim afa sem hann átti og hafði hjá sér. Kannski var það vegna þess að hann hafði hann hjá sér, hann átti reyndar annan sem bjá á Baugstöðum, en þangað fékk ég að fara nokkrar ferðir með Hveratúnsfjölskyldunni, þar sem var viti og ýmislegt forvitnilegt í fjörunni við Stokkseyri, en afi hans Palla átti heima hjá honum. Og ekki einasta það heldur hafði hann alltaf tíma til að sinna okkur strákunum þar sem hann sat út í gróðurhúsi við iðju sína sem var af ýmsum toga. Magnús gamli var ábyggilega orðinn nokkuð fullorðinn þegar ég man eftir honum, sennileg nokkru eldri en afar mínir báðir en á móti kemur að ungum manni eins og mér, þá, fannst allt fullorðið sem var eldra en tvítugt og eldgamalt, þeir sem voru eldri en foreldrar mínir. Best man ég eftir vefnaðinum sem hann Magnús gamli var að sýsla við marga vetrardaganna, þá ekkert var í húsunum nema kannski eitthvert uppeldi í endanum á húsinu.
Þá fór Magnús gamli með heimasmíðaða vefstólinn sinn út í gróðurhús, kom sér þar fyrir og óf mottur í gríð og erg. Mér eru þessar mottur talsvert minnistæðar því þær skreyttu gólf, þá sérstaklega forstofugólf í Hveratúni, en þær voru þannig lagaðar, að Magnús klippti niður ýmsa fatabúta í strimla sem hann óf síðan úr listilega litríkar mottur á forstofur og ganga bæði ferhyrndar og hringlaga. Á þessum tíma var allt nýtt til enda, fyrst var elsta barnið látið ganga í brókinni þar til óx uppúr, þá tók það næsta við og síðan koll af kolli þar til brókin var ónothæf til íveru og jafnvel búið að bæta oft og mikið, þá var hún klippt í strimla ofnar úr henni mottur sem gengnar voru þar til sá í gólf, þetta er nýting.
En Magnús gamli gerði fleira en vefa, hann sagði okkur sögur, hafði ofan af fyrir okkur þegar illa viðraði til útiveru. Þá fórum við í gróðurhúsið til hans, lékum okkur eitthvað og hlustuðum á sögur og vísur, sem sumar hverjar væru fyrir fullorðna í dag og lærðum margt. Magnús var óþreytandi í að veita okkur af sinni visku. Ég held ég fari rétt með að hann hafi á sínum yngri árum búið upp á Jökuldal hvort það var á Sænautaseli þori ég ekki að segja, en ef mig brestur ekki minni, þá held ég að þegar hann brá búi hafi sú jörð farið í eyði, en þetta fæ ég alveg örugglega leiðrétt þegar þetta birtist. Þarna lærðum við líka margt í náttúrufræðum, gátum leikið okkur við grápödduna, haldið mýs og skoðað viðveru þeirra unga og hvernig mýsnar fluttu unga sína milli staða. Ekki ekki finnst mérólíklegt að einhverja hrekki höfum við sýnt þeim s.s. að láta þær draga hluti, fela fyrir þeim ungana og sitt hvað fleira ekki allt jafn gáfulegt. 
Magnúsi gamla vil ég þakka margt í minni lífsíns í dag, en hann lést einhvern tíma áður en ég varð 10 ára gamall þó svo ég muni ekki hvenær, eflaust saddur lífdaga enda vel fullorðinn, en harmur ungum dreng sem hafði gaman af sögum og vísum.
Þegar við vorum orðnir fimm ára þá fór hún Guðný Páls að kenna Palla að lesa. Páll var alltaf mikill námsmaður, allan þann tíma sem leiðir okkar lágu saman á skólabrautinni og án vafa eftir það líka, hafði það fram yfir mig, þó ég öfundaðist ekki yfir því og það kom fyrir að ég fékk að fylgjast með, jafnvel held ég að mamma hafi lagt inn orð um það að ég fengi að læra líka. Allavega man ég stundir þar sem setið var við borðstofuborðið í stofunni í Hveratúni og kveðið til stafs. Guðný sat við hlið nemandans og hélt prjóni að þeim stöfum og orðum sem átti að lesa og við lásum. Hún Guðný Páls hafði það sem marga skorti og svo mikil þörf er á nú um stundir, þolimæði til þess að gefa ungum sálum tíma til þess að átta sig á því hvað þeir væru að gera og gefa þeim möguleika á að finna út úr því sjálfum. Enda reyndist það oftast raunin að við sátum sem brottnumdir þegar við vorum í "tíma " hjá Guðnýju Páls. Þeir sem ekki voru að lesa áttu að sitja þögulir hinum megin borðsins og bíða eftir því að röðin kæmi að þeim. Þarna lærið ég að lesa og ekki nóg með það ég lærði að lesa á hvolfi, því ég las með þeim sem var við vinnuna hverju sinni, en horfði þá á lesmálið á haus en þessi lestararkunnátta nýtist mér enn ( þ.e. að lesa öfugt frá sér) þó svo að sjónin hafi dregið úr möguleikum mínum á að stunda þetta að einhverju ráði.

En svo stefndi í að ég ætti að fara í alvöru skóla, skóla þar sem voru margir krakkar, jafnaldrar og eldri , en áður en til þess kom var væntanlegur maður heim til þess að meta þekkingu mína og stöðu, svona einhverskonar forskoðun og það leist mér ekki meir en svo á. Ég átti bágt með svefn og hugsaði mitt ráð um hvernig ég gæti komist hjá því að hitta þennan mann og einfaldlega losna við að fara í þennan skóla, því ég taldi mig orðin nokkuð menntaðan, kunni alla stafina, gat stautað og jafnvel lesið einfaldan texta í "Gagn og gaman" bókinni eða öðrum álíka eðalbókmenntum.
Skólatíma mínum í Reykholti geri ég betur skil síðar og set punkt hér.

Páll M Skúlason Ég er að komast að þeirri niðurstöðu að þú sért með einhvern límheila, eða þá að ég hef með einhverju móti burt kastað ýmsum minningum úr æskunni. Eitt man ég þó í sambandi við lestrarnámið, sem ég man ekki betur en þú hafir tekið þátt í líka um 5 ára aldurinn, en það voru tímar hjá Sigurbjörgu konunnar hans Braga dýralæknis í Launrétt.

Hér er slóð að upplýsingum um Magnús, afa minn, en hann lést í janúar 1965:
http://houseofsealand.blogcentral.is/sida/2211992/
Hann bjó s.s. á Rangárlóni í Jökuldalsheiði þegar pabbi fæddist, en aðeins um nokkurra ára skeið. Þetta er næsti bær við Sænautasel, hinumegin við Sænautavatn.
Hlakka til að heyra af fleiri gleymdum innlitum í æskuna :)

Atli Harðarson Mig rámar í að Magnús hafi talað við mig skömmu eftir að ég flutti, fjögurra ára að aldri, í gamla bæinn í Hveratúni með foreldrum mínum og Bjarna sem var tveggja ára. Ekki man ég þó neitt af því sem hann sagði enda hafði ég, að mig minnir, meiri áhuga á hænunum sem vöppuðu um fyrir utan húsið heldur en speki gamalla manna.

Pétur Hjaltason Mig minnir að við höfum verið hjá Sigubjörgu árið eftir þegar við höfðum lokið grunnnámi hjá Guðnýju Páls, en þó man ég minna eftir því en lestrarsetunum í Hveratúni. Endilega bætið þið við og lagið hjá mér ambögurnar því ekkert er heilagt í þessum fésheimi

 

Uppgangsplássið Laugarás

Á þessum árum rétt fyrir 1960 var allt að gerast í Laugarási, það voru miklir uppgangstímar, Launréttin var byggð sem var dýralæknisbústaður, Jón Vídalín byggði nýja húsið á Sólveigarstöðum, Simmi (Sigmar Sigfússon) byggði verkstæðið og innréttaði endann fyrir sig og Sigríði sína og Sigfús faðir hans kom sér fyrir í litlum skúr á lóð sunnanvert við Sólveigarstaði, Skúli í Hveratúni hóf byggingu nýja bæjarins, kallinn hann pabbi byrjaði að byggja Laugargerðisgróðurhúsin og fljótlega upp úr þessu var byrjað á byggingu sláturhússins sem SS byggði.

Ýmsar minningar koma í hugann eftir þessa upptalningu t.d. þegar ég fékk að fara með að sækja suðukallanna á Selfoss. 
Þá var ég ræstur eldsnemma því ég átti að fá að fara með á Selfoss af því að það þurfti að sækja suðumenn sem áttu að sjóða saman fyrsta gróðurhúsið í Laugargerði. Sennilega var farið í þessa ferð á Volvo vörubílnum hans pabba og sennilega hefur þetta verið um haust því ég mað að þegar við keyrðum niður Helgastaðbrekkuna stirndi á veginn og ég ræddi við pabba um það hverju sætti, fékk ústkýringar á því að þetta væri frostið sem ylli þessu, fannst þetta geysilega spennandi og fylgdist með veginum niður öll Skeið.
Þegar við komum á Selfoss þá voru þar allir sofandi enn, gamli hafði tekið tímann snemma. Við keyrðum niður að KÁ smiðjum sem voru þar sem vöruhúsið Kjarninn er núna, þar inn á stórt hlað með byggingum allt í kring og bílnum var lagt við ákveðnar dyr og drepið á. Ekki löngu seinna fóru kallarnir að tínast til vinnu og smátt og smátt iðaði planið allt og næsta nágrenni af lífi og fyrir ungan mann sem var að uppgötva lífið var margt að sjá og skoða.
Pabbi fór inn í eitthvað af þessum húsum og ég beið á meðan úti í bíl. Seinna komu nokkrir kallar með pabba og settu einhverjar græjur upp á pallinn á vörubílnum og við héldum af stað heim aftur.
Daginn eftir komu svo suðumennirnir og byrjuðu á að sjóða saman grindina í gróðurhúsið mitt, en til siðs var það að nefna húsin eftir börnunum og ég held að þetta hafi tíðkast á öllum stöðvunum þá.
Hveratúnshúsið nýja var slík höll að maður fylltist lotningu þegar þangað var komið inn. Þeirri byggingu var sennilega lokið 1961 eða 2, á sama tíma held ég að Jón Vídalín hafi klárað sitt hús.
Fljótlega eftir að nýja Hveratúnshúsið var tilbúið og fjölskyldan flutt þar inn kom nýtt fólk í gamla húsið. Það voru sæmdarhjónin Hörður Sigurðsson og Ingibjörg Bjarnadóttir með synina sína Atla og Bjarna, en þau eignuðust síðar eitt barn til viðbótar, Kristínu. Æði oft kom ég á þeirra heimili meðan það var í Hveratúnsbænum, en fátt minnistætt. Þó man ég einn hlut sem er, að Hörður átti, fyrir utan það að hlæja með einhverjum mest dillandi hlátri sem ég hef kynnst, forláta mikið pípusafn sem hann af natni stundaði eftir vinnu og á sérstökum helgistundum yfir miðjan daginn. Þetta safn var nokkuð að vöxtum, sennilega 6-8 pípur af mörgum gerðum, beinar og bognar, snúnir hausar og sléttir, en mig minnir að kallinn hafi reykt dollarapípu hvunndags.

Önnur hús bara urðu til án þess að mig reki sérstaklega minni til hvernig það varð, nema að sjáfsögðu sláturhúsið, en þá byggingu geymi ég í sér kafla, ásamt stærstu bygginu sem í hverfinu var og ég hef ekki getið áður og sér ekki stað í dag.

Nokkru seinna, sennilega eftir 1965 fór svo mýrin norðaustan við Einarshús og upp að Auðsholtsvegi (Höfðavegi) að byggjast og þangað fluttist fjöldi fjölskyldna s.s. Jóhann Eyþórsson og Ingigerður Einarsdóttir með fjóra stráka , Pál, Einar og Sævar og Ólaf.
Einnig kom um þetta leyti Palli Dunk (Páll Dungal), sérvitringur og útiræktunarmaður en fram að þvi höfðu bændur horft til gróðurhúsaræktunar.
Bræðurnir Hilmar og Sævar Magnússynir settust þarna að með fjölskyldur sínar og byggðu samliggjandi jarðir sem lágu við hlið lóðar Einars Ólafssonar frá þjóðvegi og upp að holti.
Gústi langi (Ágúst Eiríksson) kom þarna ögn seinna og síðast það ég man Sverrir Ragnarsson og Þröstur Leifsson og sennilega síðastur garðyrkjubænda, Hörður Magnússon harðjaxl en þessir þrír síðast töldu komu í kjölfar virkjanaframkvæmda í Búrfelli og settust þarna að. 

Þeir sem síðar komu, komu eftir að ég var farinn úr hverfinu og festust því ekki í því minni sem ég er að fletta þessa daga, en ef litið er yfir hverfið í dag sést þessu flest stað enn þó ýmis hús hafi horfið og önnur breyst og það sem mér finnst merkilegast að öll hafa þau minnkað og sum svo, að ég trúi ekki að þar hafi búið fólk og oft fjölmennar fjölskyldur .

Hafsteinn Rúnar Hjaltason Óttar Guðmundson byggði Teig fyrstur

Anna María Gunnarsdóttir Var Helgi Kúld ekki fyrsti bóndi í Asparlundi? 
Svo var ég nú svona að velta því fyrir mér í dag við Atla H. hvað hefðu eiginlega margir búið í Hveratúni. Það segir mér svo hugur að ég sé ekki eina stelpuskottið sem hafi lært að hjóla þar á afleggjaranum.
Ég lýsi eftir ábúendaskrá úr Hveratúni

 

Kristín Þóra Harðardóttir Já Óttar og Gilla bjuggu á Teigi og áttu börnin Björk og Kára ef mig misminnir ekki. Helgi Kúld og fjölskylda, bjuggu þau ekki í gamla bænum (í Hveratúni)

Bjarni Harðarson Pabbi og mamma voru fyrstu leigjendurnir í Hveratúni eftir að Skúli flutti í sitt nýja hús, svo eftir okkur komu held ég Óttar og Gilla, svo Helgi Kúld og ekki man ég hvað konan hans hét, svo Gunnar og Elsa og svo man ég varla meir...

Bjarni Harðarson voru dollarapípur ekki pípur með skrúfuðum haus? Ef það er rétt munað hjá mér þá held ég pabbi hafi ekki átt neina svoleiðis.

Pétur Hjaltason Það er rétt Bjarni, dollarpípurnar voru svoleiðis. Mér finnst eins og pabbi þinn hafi reykt slíka pípu en það má vel vera vilteysa í mér

Út í sumarið að leika.

Ég hygg að óvíða hafi verið betra að alast upp en í Laugarási æskunnar, talsverður fjöldi barna á misjöfnum aldri, á til þess að gera litlu svæði og nokkurt frelsi til þess að vera óvernduð í umhverfi sem bæði var barnvænt en víða stórhættulegt, s.s. nærri hverasvæðinu að ekki sé minnst á Hvítá sem rann þarna hjá, vatnsfall að stærstu gerð, þó svo að áin væri alla jafna hæg og róleg, en var samt hætta börnum að leik. Eftir á að hyggja fengum við ótrúlegt frjálsræði ég man aldrei eftir að okkur væri bannað eitthvað, að sjálfsögðu fengum við aðvörunarorð gagnvart heita vatninu og ánni en aldrei man ég eftir banni. Á hverina lærði ég "the hard way" en ég fór of djúpt á stígvélunum og fékk fyllu sem dugði mér til frátafa við leiki í einar þrjár vikur en það var allt.

Þó ég byrji á að tala um þessa hættulegu staði er það sennilega vegna þess að yfirleitt vorum við ekki að leika okkur þar því mikið áttum við af öðrum stöðum þar sem allt varð leikur og bara gaman.
Brúsapallurinn var sennilega einhver athyglisverðasti staðurinn í Laugarási. Þar hittumst við krakkarnir, sátum daglangt og veltum fyrir okkur lífsgátunni eða bara hverju sem var. Þarna var setið með glósubækur og bílnúmerum safnað af áráttu, fylgst með umferð og bíltegundir stúderaðar.
Handan þjóðvegarins á Einarslóð, var svæði þar sem óx víðikjarr, trjám hafði verið plantað. Þar var því fullkominn staður til að stunda ýmsa felu- og bófaleiki. Á þessu svæði var dvalið daga langa við ýmsa leiki, stundum slógust kúrekar og indjánar, stundum var verið í "útilegumaðurinn fundinn" og stundum var bara legið í einhverju rjóðrinu og málin rædd. Mér er mjög minnistæð ein slík umræða þegar við nokkrir félagar vorum að reyna að finna út hve gamlir við yrðum við aldamótin og fannst ekki taka því að reikna það út því við yrðum örugglega dauðir úr elli þegar þar að kæmi. 

Sléttir túnblettir eins og við Hveratún og Einarshús voru nýttir óspart til knattspyrnuiðkunar og þurfti oft lítið annað en tuðruna og nokkra krakka til þess að koma af stað hinum æsilegasta kappleik. Engin voru mörkinn, nema þá kannski peysur þeirra sem stunduðu leikinn og vallarmerkingir voru á floti, réðust yfirleitt af þvi svæði sem var hægt að stunda bolta á frekar en einhverjum löglegum mælingum.

Fljótlega fengum við, stærri krakkarnir, reiðhjól. Ekki er nú hægt að segja að þau hafi öll verið ný, en hjól engu að síður. Karl faðir minn fór á uppboð hjá löggunni í Reykjavík og keypti hjól af þeirri frægu gerð Möve, svart og ryðgað og á það vantaði frambrettið sem var ekki gott. 
Á Selfoss þurfti því að fara, en þar var reiðhjólabúð á bak við "Ölfusá" þar sem Doddi réði ríkjum. Þarna gerði ég mig að fífli að mér fannst, þegar ég kom þarna í fyrstu ferð og átti ég alltaf erfitt með að koma þar eftir það. En þannig var að ég fékk aur hjá pabba til þess að kaupa lakkmálningu, en hún átti að vera rauð og hvít því þannig skildi hjólið mitt vera. Fer þarna inn þvalur í lófanum af spenningi og bið um "hjólreiðalakk" í stað reiðhjólalakks. Doddi leiðrétti mig og ég varð sem eldhnöttur í framan af skömm. Ekki má nú mikið. 
En ekki var nóg að mála hjólin, við urðum okkur úti um "súkkulaði gúmmí" og það skorið til og búnir til drullusokkar bæði framan og aftan. Á þá voru síðan keypt kattaraugu sem skreyttu þá. Líka voru keyptir speglar helst beggja megin á stýrið, lukt með dýnamó og einstaka auðmenn eignuðust hraðamæli af gerðinni VDO sem sýndi 60 km hraða og síðast en ekki síst, þeir sem sem höfðu tækifæri til settu heljar stöng aftan á hjólið í anda gömlu Gufunes loftnetanna, en fyrr var ekki fullkomnað reiðhjólið.
Ég sjálfur lærði að hjóla á fullorðins karlmannshjóli undir stöng og hjólaði þannig heilt sumar áður en ég eignaðist mitt eigið hjól.
Allmargar urðu skrámur og byltur þegar við tókum hjólin til kostanna, hvort sem var þegar reynt var að sprengja hraðamælinn með því að hjóla niður brekkuna en þannig hagar til að neðst í henni er beygja til vinstri og skurður meðfram veginum. Talsverða sjálfstjórn þurfti til að hægja á á réttum tíma til þess að ná beygjunni en einhverju sinni var Doddi Gríms full ákeðinn í að ná hámarksárangri, gleymdi sér við að fylgjast með hraðamælinum og hjólaði sem leið lá beint í skurðvegginn handan vegarins. Eitthvað meiddi strákurinn sig, en þó ekki eins alvarlega eins og ætla mætti, því sennilega var hann á 60-80 km hraða þegar hann flaug í bakkann.

Einhverju sinni, eftir að við vissum af því að búið væri að leggja malbik á Austurveginn á Selfossi fengum við þá flugu í höfuðið að prófa að hjóla á malbikinu, lögðum veg undir og hjóluðum á Selfoss. Ekki man ég eftir þessari ferð nema að því leyti, að heimferðin var æði strembinn og þá sem oftar voru verkir og harðsperrur fylgikvillar slíkra átaka eins og eftir stóra fótboltadaga.
Seinna frétti ég að foreldrum okkar barst njósn af þessu hjólaferðalagi okkar á Selfoss, en Arnold í Höfn þekkti til kauða og hringdi í foreldra mína og lét vita af okkur. Ákvörðun þeirra var að láta okkur hjóla til baka, en haft var samband niður á Skeið og óskað njósna af ferðalagi okkur heim á leið. þannig var okkur kennt af reynslunni að klára verkin okkar. 

Þessi árin var lífið leikur, ævinlega voru leikfélagar á hverju strái, nýir krakkar nýir leikir og þá skipti ekki öllu máli aldurinn eða kynið, því eins og í Hálsaskógi hjá Egner, voru öll dýrin í skóginum vinir, kannski ekki alltaf en oftast. 

Páll M Skúlason .... spil fest með þvottaklemmum á gafflana á reiðhjólunum.
.... man aðdáun mína á pabba þínum heitnum fyrir hvað hann gat sparkað fótbolta hátt í loft upp.

Magnus Skulason Já nú ertu farinn að koma á það svæði í tímanum sem ég man vel eftir. Eins og að safna bílnúmerum í glósubók út á brúsapalli. Og reiðhjólin. Ég man að hjólið hans Pallla var svo stórt að það þurfti að hjóla undir stöng ef maður reyndi við það. 

Stofnun og stórfyrirtæki

Á hverju vori alla mína æsku og fram á unglingsár breyttist það umhverfi sem við bjuggum í. Líklega upp úr miðjum maí ár hvert varð hverfið fullt af stelpum/konum á aldrinum 18 ára og sennilega nær 25 ára. Þetta gerðist um leið og "Krossinn" opnaði. Ekki einasta varð allt fullt af fulltíða konum heldur komu í sveitina um 100 börn sem ætlað var að hafa þar sumardvöl.
Ég er að tala um barnaheimili Rauða kross Íslands sem rekið var þarna út undir skyrklettum mót suðri í hvilftinni við framholtið. Einhverra hluta vegna var okkur svo eðlilegt að vita af þessarri starfssemi að við urðum ekkert uppveðraðir við þessa breytingu, en trúað gæti ég að töffararnir í sveitinni og næstu sveitum hafi þurft að mæta auknu hormónaflæði og átt oftar erindi um Laugarás en þeir höfðu efni til.
Þó er því ekki að leyna að margt var þannig að ekki passaði við okkar frjálsræði og lífssýn, s.s. eins og þegar fóstrurnar fóru með krakkahópinn hangandi á bandspotta sennilega einhver 30 í kippu um vegina til þess að komast út í Vörðufell eða norður um til messu í Skálholti.
Ég neita því ekki að illa gekk okkur að skilja hverning krakkarnir gátu hangið svona á spottanum og oft, sérstaklega eftir að reiðhjólagetan var orðin nokkur, gerðum við okkur að leik að hjóla hratt upp að einhverri trossunni, bremsa og skrensa meðfram hópnum sem skældi af skeflingu, fóstrurnar gargandi af illsku og við í adrenalín trippinu hinir ánægðust með vel unnið skrens.

Í Krossinum, þau ár sem ég man best, stýrði þessarri starfsemi, sem var í allmörgum húsum, samföstum á endum og eins byggð þvert á, Jóna Hansen, mikill boldangs kvenmaður á óræðum aldri (sennilega orðin þrítug), sem ók um á fólksvagen bjöllu, sem reyndar varð að virða þyngdarlögmálið og hallaði undan þunga ökumannsins.

Pabbi og Ingólfur á Iðu voru sérlegir viðhaldsmenn þessarar stofnunar og voru oft kallaðir til þegar einhvað á bjátaði, stundum saman, en oftar fór útkallið eftir því hvað var bilað hverju sinni.
Einhverju sinni var pabbi kallaður til viðgerða í þvottahúsi stofnunarinnar því eitthvað var bilað og ekki hægt að þvo, en þvottur af 100 börnum sem höfðu það að leik að drullumalla allan daginn hlýtur að hafa verið nokkur.
Golli bróðir fékk að fara með, sennilega vælt til að komast í þessa för, því eins og gefur að skilja var margt forvitnilegt að sjá.
Nema hvað, pabbi fór að sinna því sem bilað var og Golli rjátlaði um í nágrenninu, fylgdist með krökkunum og reyndi að læra eitthvað. Tíminn leið og eitthvað reyndist biluninn meiri en gert var ráð fyrir, nema pabbi gleymdi stráknum. Það kom að því að það var smalað inn til kvöldmatar og það fannst bróður ekki ónýtt, því hann var alla tíð mikill matmaður.
Heldur fór nú að kárna gamanið þegar strákur var rekinn í sturtu og síðan háttaður ofan í rúm og skipað að fara að sofa, en slíkri meðferð mótmælti hann hátt og skörulega með ógurlegum öskrum svo fóstrurnar vissu ekki sitt rjúkandi ráð, skildu ekki hvað hafði komið fyrir krakkann, búinn að vera þarna í mánuð og hafði aldrei látið svona áður. Ekki veit ég hvernig þetta hefði endað ef pabbi hefði ekki um þetta leyti klárað verkið og farið að kíkja eftir stáksa, sem varð víst frelsinu feginn og vældi sjaldan um það síðar að fá að fara með í slíka Bjarmalandsför.

Sjálfur hef ég komist að því seinna, að sennilega hef ég hitt konu mína heittelskaða í fyrsta sinn þarna fram á girðingunni á holtinu þar sem Krosskrakkarnir léku sér við að bræða vaxliti á hitavatnsrörinu og við handan girðingar eitthvað að prakkarast gagnvart þeim. 

Síðustu ár þessarar stofnunar voru húsakynni hennar nýtt sem vinnubúðir fyrir byggingaverkamenn sem komu til þess að byggja sláturhús SS, en það var mikil framkvæmd og flókin og eru mér minnistæðir margir karlar sem þar unnu, bæði verkamenn og ekki síður Helgi Valdimarsson sem var byggingarverktakinn og ók um á Trabant og Rögnvaldur Þorsteinsson, sem var staðarverkfræðingur, oftast kallaður "rúsínu Rögnvaldur", feitur kall og pattarlegur, rauður í framan og blásinn af víndrykkju, en hann hafði þá trú að með því að borða nóg af rúsinum væri ekki einasta unnið gegn áhrifum vínsins heldur fyndist engin lykt af þeim þó drykkja væri nokkur.
Einhverju sinni þegar Helgi og Rögnvaldur sátu að drykkju upp í Krossi tóku smiðir og verkamenn sig til og héldu á Trabantinum inn í bygginguna og komu honum þar fyrir þannig að útlokað var að aka honum í burtu. Þetta var seinnipart föstudags og verkamenn að fara til síns heima í helgarfrí, en þetta breytti þá kumpána engu, því þeir nýttu helgina bara til áframhaldandi drykkju þannig að ekki reyndi á verkfræðisnilld Rögnvaldar við að koma bílnum í burtu.

Eitt atriði man ég þó af verkfræði snilld þeirri sem beitt var við byggingu þessa annars ágæta húss og mér er minnistætt enn hve kallarnir í hverfinu voru ofandottnir yfir, en það var þegar settar voru saman kraftsperrurnar í fjárréttinni, sem enn standa. Þá skyldi setja ákveðinn naglafjölda í hverja festu (ég man ekki hve margir þeir voru en vel gæti ég trúað að þeir hafi talið á tugum) og sveitamanninum fannst það mikið verkfræðiafrek að koma svona miklum fjölda nagla í sömu spýtuna og hún samt hangið saman. Þetta má enn sjá í þessum, annars ágætu kraftsperrum sem hafa haldið fram á þennan dag þrátt fyrir spár um annað.

Matráskona þessa stóra vinnuhóps var Ingigerður Einarsdóttir (seinna Inga á Ljósalandi) en þessi framkvæmd varð til þess að þau hjón fluttu í Laugarás og settust síðar að á Ljósalandi og bjuggu sér þar bú. 

Eftir að starfsemi sláturhússins hófst var Krossinn nýttur fyrstu árin sem gistiaðstaða fyrir þá starfsmenn sem þurftu á gistingu að halda, en hjá SS í Laugarási störfuðu á hverri sláturtíð um 80 manns. Sögur af verbúðarlífnu í Krossinum og síðar í sláturhúsinu sjálfu eru margar til en engar þeirra sagðar hér.

Magnus Skulason Það væri gaman að fá komment frá Golla um þessa lífsreynslu. Settur í sturtu og háttaður ofaní rúm hehehe

Hafsteinn Rúnar Hjaltason  (Golli) Þetta var ekki samþykkt þegjandi og hljóðalaust.

Magnus Skulason Ég skellihlæ alltaf þegar ég hugsa um þetta!

Magnus Skulason Á ekki einhver mynd af Krossinum sem hægt væri að setja hér inn? Það var allt jafnað við jörð og ekkert sést lengur.

Páll M Skúlason Ég man að við stóðum oft við girðinguna að Rauðakrosslandinu - fyrir ofan þar sem Laugargerði er núna og reyndum á kjark og þor með því að hlaupa mislangt innfyrir - vissir um að ef við næðumst ættum við ekki afturkvæmt.

Magnus Skulason Já Golli fékk að finna fyrir því?

Í skólanum

Ég held ég muni það rétt að nóbelsskáldið okkar sagði einhversstaðar (sennilega í Brekkukotsannál) að næst því að missa föður sinn væri engum ungum manni jafn hollt og að missa móður sína.
Þó skólaganga mín hafi nú ekki verið það tragísk, þá má telja að heimavist á allri skólagöngu frá barndómi til manns sé talsverður skóli ungum manni og óhörðnuðum, en meira um það síðar.


Ætli sé ekki rétt að byrja á byrjuninni og segja frá því hvernig skólagangan mín hófst. Þannig var að ég hafði eins og áður var sagt frá tekið forskóla hjá Guðnýju Páls og síðan hjá Sigurbjörgu í Launrétt, þannig að móðir mín taldi með nokkru stolti að ég yrði ekki alveg óundirbúiinn þegar kæmi til skóla. Því átti að láta kappann taka einhverskonar inntökupróf, þar sem mat yrði lagt á getu hans til lestrar og reiknings og skriftar held ég.  Til verksins kæmi maður,"skólastjórinn" og bara það að þurfa að hitta einhvern sem væri "skólastjóri" var nóg til þess að mitt litla hjarta var alveg að gefast upp, ég náði vart að sofa næturnar á undan og var orðin taugaflak þegar umræddur dagur rann upp.
Ég man að það var vor, og ég man að ég var sérlega klæddur uppá til þess að mæta örlögum mínum, mátti ekki fara neitt frá húsinu og varð að halda mér hreinum. Mamma var kominn í rósótta kjólinn sinn, búinn að setja á sig betri svuntuna og spennan var gífurleg. Þar sem ég beið örlaganna eins og fangi eftir aftöku sá eg hvar bíl var ekið inn í hverfið og strax áttaði ég mig á að úrslitastund nálgaðist. 
Þá brugðust allar varnir og ég flúði af hólmi, nýtti mér sinuna sem var mikil og lét mig hverfa inn í háa sinuna og inn í kjarrið. Þaðan gat ég fylgst með þegar stór maður, afskaplega feitur, kjagaði upp heimtröðina og inn í bæ. Mamma kom út á tröppur og kallaði á mig en ég svaraði ekki, var gjörsamlega horfin af yfirborði jarðar og sama hvað var kallað þá gaf ég mig ekki, og leið þannig lengi dags.
Að lokum gafst kvalari minn upp og kjagaði til bílsins aftur og hefur eflaust hugsað mér þegjandi þörfina.
Þannig varð það að ég mætti í skólann án þess að hafa tekið inntökuprófið og eflaust hefur það skemmt fyrir mér síðar, en maður verður að taka afleiðingum gerða sinna.

Sá sem heimsótti mig þennan vordag var Óli Möller skólastjóri og hjá honum átti ég eftir að vera við nám næstu árin í heimavist, því þó ekki væri langt á milli Reykholts og Laugaráss þá vorum við öll höfð í heimavist hálfan mánuð í skóla og hálfan mánuð heima. Skólinn var þá orðinn tvær byggingar, gamli skólinn með sundlaug sem viðbygginu, í kjallara hans var mötuneyti, á hæðinni var kennslustofa og einhverjar vistarverur og á efri hæðinnni og upp í risi voru vistir stelpnanna.
Í nýja skólanum var fyrst komið inn í forstofu og þar inn af í einhverskonar holi var farið til vinstri inn að kennarstofu, þar framanvið var gangur sem var nýttur til íþróttaiðkunar og tvær kennslustofur með glugga sem sneru að Aratungu (sem var reyndar ekki byggð fyrr en seinna) Úr holinu var einnig farið niður stiga niður á neðri hæð þar sem snyrtingar voru á vinstri hönd við sambærilegt hol og á efri hæð. Á móti stiganum var herbergi sem eini fasti kennarinn bjó í, en á þessum tíma var þar Ólafur Þ. Þórðarson, ljóshært glæsimenni með liðað hár og afskaplega gott orðfæri, síðar þingmaður Vestlendinga og eiginmaður frænku minnar úr móðurætt.
Þar til hægri gangur sambærilegur þeim á efri hæðinni, herbergi við enda gangsins og tvær stofur viðlíka stórar og í þessum stofum og herberginu inn af ganginum voru kojur með þremur innveggum og lág rúm undir gluggum þar sem við gistum. Mér finnst eins og okkur hafi verið raðað til rúma eitthvað eftir aldri, en þó er ég nánast viss um að nokkur aldursblöndun átti sér stað þó ég muni það ekki gjörla. 
Í viðlíka heimavist var ég allan barnaskólann, reyndar var tvö síðustu árin búið að stytta úthaldið í eina viku og breyta mörgu öðru í kennslu, t.d. var búið að færa íþróttakennsluna yfir í aðalsal félagsheimilisins, smíðar voru kenndar í kjallara Aratungu, en alltaf var þetta heimavist. 
Mér skilst reyndar að ég hafi verið síðasti árgangur sem kláraði minn skóla allan í heimavist, árið eftir að ég hætti í Reykholti var byrjað að keyra krakka til skóla daglega og var það mikil breyting fyrir allt samfélagið.

Þeir kennarar sem ég man eftir frá barnaskólaárum mínum voru fyrir utan þá sem áður eru nefndir, Þórarinn Magnússon, sem var skólastjóri síðustu tvö eða þrjú árin sem ég sat þennan skóla, með honum ný fjölskylda þar sem ég man best eftir Silla sem var jafnaldri okkar. Frú Anna Magnúsdóttir prestfrú, mikil ágætis kona, Þuríður í Vegatungu, Sigurður Ágústsson frá Birtingarholti, Arnór á Bóli og eins finnst mér eins og séra Guðmundur Óli hafi kennt einhvað við skólann en ekki þori ég að ábyrgjast það.
Óli Möller var eftirminnilegur maður, mikill vexti. Í dag mætti sennilega segja hann jafn háan hvort sem hann stóð eða lá, tók í nefið mikið og hafði flautu eina sérstaka sem hann notað bæði til þess að kalla til tíma og eins til þess að skakka leik á göngum ef þar stefndi í óefni. Hann kenndi einhverja þá frábærustu hönd sem ég man eftir því að hafa séð og er alveg viss um að mörg okkar, þó svo ekki sé hægt að hrósa rithönd minni , búum að þvi enn hvernig okkur var kennt á þessum árum í Reykholti.
Ætli sé ekki rétt að setja punkt hér og rifja upp síðar ýmsa merkisatburði og samnemendur mína á þessum annars frábæru tímum

Guðbjörg Elín Hjaltadóttir Mikið rosalega finnst mér þú vera orðin gamall!

Páll M Skúlason ...sammála síðasta ræðumanni :)

Guðbjörg Elín Hjaltadóttir Er búinn að lesa alla kaflana fyrir mömmu gömlu hún hafði gaman af var þó með nokkrar athugasemdir, ekki mikið þó. Þetta með soðna skyrið er eitthvað skrítið.

Pétur Hjaltason Þetta verður sennileg sæmilega prófarkarlesið og leiðrétt á staðreyndir þegar allir hafa sagt sitt, sem er gott því það er mikið skemmtilegra að hafa þetta rétt.


Pétur fjallaði, í minningum sínum, talsvert um sumardvalir sínar í Laxnesi, hjá afa sínum og ömmu. Hér verður þeim hluta minninganna ekki gerð skil en vísa að Facebook síðu Péturs.



Seinna var farið að senda mig til dvalar í Laxnes, mér talin trú um að ég þyrfti að aðstoða við búskapinn, en grun hef ég um að ástæður þessara vistaskipta hafi verið húsnæðisþrengsli í Einarshúsi, því fjölskyldan stækkaði og einn strákur bættist við enn, Kobbi bróðir, eða Jakob Narfi sem er fæddur 2. febrúar 1960.

Vettlingar í vetrarríki

Það er svo skrítið með þetta veður, hér áður fyrr var alltaf gott veður, hvort sem var sumar eða vetur. Ég get til dæmis engan veginn munað eftir einstökum rigningardögum þó svo að ég muni oft eftir því að hafa verið úti í sól og sumaryl en þannig voru öllu mín bernsku sumur, alltaf sól. 
Eins voru veturnir. Ég man ekki eftir öðru en einstöku veðri alla dag enda eins gott, því ef við vorum ekki í skólanum eða áttum að vera að læra vorum við send út að leika okkur og þá voru alltaf stillur, hægviðri og ekki alltof kalt þannig að ævinlega var veður til að vera úti. 

Sennilega vorum við hvattir út svo pláss væri á bæjum því fátt er fyrirferðameira en krakkar á aldri upp á unglingsár, þegar leikþörfin er í hámarki og og athafnaþörfin hávær þannig að sker í eyru. Og hvað er þá betra en drífa sig út í snjóinn að renna, fara á skauta eða hvað annað sem okkur datt í hug. 

Sleðaeign okkar var nokkuð mismunandi. Einhver okkar höfðu aðgang að skíðasleða, sem var afskaplega mömmulegt verkfæri á tveim meiðum, eins og skautar, uppbeygðir að framan, með sæti fyrir einn framan við handfang þar sem hægt var að standa og ýta sér áfram á fótum. Þessi gerð sleða hentaði vel á ís, en verr venjulegum brekkum, þó svo að stundum hafi það verið reynt. Á mínu heimili voru til svokallaðir magasleðar, sem voru búnir til úr járnrafmagnsrörum af föður okkar, tiltölulega einföld grind soðin saman með meiðana beygða upp að framan og einföldum palli þar sem hægt var að sitja eða liggja. Þessir sleðar hentuðu vel á harðfenni eða ís og fóru vel í góðri brekku. Einstaka sinnum urðum við okkur úti um gúmmíslöngu úr bíl eða traktór og voru þetta hin skelfilegustu farartæki, runnu hratt hvar sem var, þó svo þær væru aðallega notaðar á mjöll og harðfenni. Nær vonlaust var að stýra þessum græjum en mikið afskaplega var gaman að renna sér á þessum túttum því flugið var gífurlegt.

Í vegstæðinu upp á brekku voru magasleðarnir vinsælastir, því á þeim var hægt að ná góðum hraða, tiltölulega auðvelt var að stýra þeim, lægi maður á maganum og stýrði með höndum og þær mátti líka nota til að auka ferð ef sýndist svo. Ég fullyrði að ferðir upp þá brekku skipta þúsundum hjá flestum okkar með sleða hróið í eftirdragi bara til að renna niður og reyna að ná eins mikilli ferð og mögulegt var. 

Á hæðinni frá læknisbústaðnum og yfir að Lindarbrekku dró oft í miklar hengjur sem oft urðu margra metra háar og af þessum snjóhengjum var síðan snarbratt alveg niður að hverasvæði. Gúmmíslöngum eða öðrum búnaði sem vel rann var beitt og látið renna fram af á mikilli ferð, tekið flugið fram af snjóhengjunni og látið stökkva og síðan runnið á hraða djöfulsins niður snarbratta brekkuna og alveg niður á jafnsléttu. Þaðan hófst síðan klifur upp aftur, sem gat verið ærið klifur bara til þess að láta sig vaða aftur fram af og niður. 
Í þessum miklu snjóhengjum var líka efni til að byggja sér einhverjar þær mestu hallir sem byggðar voru í snjó, margar vistarverur, miklir gangar, stofur og svalir þaðan sem hægt var að horfa út yfir hinar miklu víðáttur. Viss er ég um að við mokuðum mörgum tonnum af snjó úr sköflunum og mótuðum þessar snjóhallir okkar með skóflubrotum, því ekki fengum við alvöru verkfæri lánuð, sennilega vegna þess að ekki var alltaf skilað öllu þangað sem það hafði verið tekið. 

Uppi á túni fyrir innan Laugarásbæinn vildi, á haustin, myndast tjörn ein mikil sem varð að hinu mikilfenglegasta skautasvelli þegar frysti og fóru þá allri sem vettlingi gátu valdið til þeirrar iðju þrátt fyrir að ekki væri mikið úrval skauta í hverfinu, en eitt og annað mátti gera í staðinn. Einhver okkar komust í það að byggja sér siglara, sem var þríhyrningur með járnmeiðum undir. Ég man að ég notaði undir minn siglara svokallað T járn sem var fest undir þríhyrninginn með nöglum beygðum yfir járnið. Á langhlið þríhyrningsins var síðan sett mastur með segli sem mig grunar að móðir mín hafi skaffað úr einhverju sængurveri eða laki, en lök þessarra ára voru oft búin til úr hveitipokum og oftar en ekki svaf maður á hinu fræga merki Pillsbury Best. Á þessum skaðræðis tækjum sigldum við þöndum seglum á tjörninni og náðum oft ótrúlegum hraða. Hugmynd af þessum siglurnum held ég að sé kominn úr strákabók sem heitir "Sandhóla Pétur" sem var hetja mín á þessum tíma en nafni minn bjó einhverstaðar í skerjagarði í Danmörku og þar sigldu strákar svona bátum um frosinn skerjagarðinn. Þessa bók fann ég í pappakassa fyrir nokkrum árum og las aftur, og hafði verulega gaman af. 

Eftir að við fluttum í nýja húsið fórum við að stunda holtið yfir hjá Krossinum, einhverjum tókst að finna gömul skíði með gormabindingum og við hófum skíðaiðkun, en einhver slys urðu, því þetta lagðist snemma af aftur, kannski vegna þess að tíðarfar breyttist og snjóalög minnkuðu, en allavega finnst mér í dag að vetur æskunnar hafi verið mikið stórkostlegri heldur en þekkjast í dag og ég held að það hafi ekkert með að gera æsku og hæð.

Draugagangur

Í sveit barnæskunnar var myrkur þegar það var myrkur og það var dimmt, vissulega voru útiljós á flestum íbúðarhúsum, en það voru litlar perur sem lýstu bara næst útidyrum. Sjaldnast var um aðra útilýsingu að ræða. Einnig var, að þögnin var oft þrúgandi, engin vélahljóð eða annað sem rauf kyrrð rökkurs eða myrkurs. Þegar þetta tvennt fór saman urðu áhrifin oft mikil. Fyrir vikið voru öll óvænt hljóð eða atburðir sem barnseyrað greindi skilgreind sem draugagangur enda ímyndurnaraflið gífurlegt. 

Ég man nokkur atvik þegar óttinn við hið ókunna varð skynseminni sterkari og þá fyrst að kvöldi til, snemma vors þegar ungir menn og metnaðarfullir æfðu jafnvægið á reiðhjólum og hjólað undir stöng út á vegi svona um það bil fyrir framan nýja húsið í Hveratúni. Eitthvað var liðið á kvöld, en áhuginn hélt okkur föngnum. Þrátt fyrir köll og hróp mæðra okkar var erfitt að gegna, æfing skildi stunduð því enginn vildi verða eftirbátur annars í listinni. Allt í einu kváðu við, í kvöldkyrrinni hin ógurlegustu öskur sem hægt var að hugsa sér. Hljóðin voru slík, að engu var líkara en verið væri að aflima lifandi mann með bitlausum hníf. Ekki svo að skilja að ég hafi verið viðstaddur slíka aflimun, en get ímyndað mér hljóðin.
Við vorum þarna á götunni nokkrir krakkar og vissum ekki okkar rjúkandi ráð. Það var eins og tíminn stæði kyrr. Svo allt í einu var sem sprengju væri varpað í hópinn, hjól voru yfirgefin þar sem þau voru og undir iljar okkar sá hvert til síns heima. Þar lýstum við þessum skelfilegu atburðum fyrir foreldrum okkar og ég man að pabbi fór út til að kynna sér hvað um væri að vera. Hann kom inn stundu síðar glottandi og sagði frá því að þetta væru hestar að kljást uppi á mýri og í kvöldkyrrðinn hefðu þessi hljóð magnast upp í að verða þetta skelfileg. Ungum dreng var ekki um sel en bar sig mannalega. 

Ég veit að flestir lenda í því einhverntíma á lífsleiðinni að hafa tilfinningu fyrir því að einhver sé á eftir manni og sama hvernig maður reynir að breyta göngulagi eða stefnu þá fylgir einhver alltaf í fótspor manns. Í það eina skipti sem ég tapaði mjólk var þegar ég var í fjósleiðangri og lenti í því, í svarta myrkri. Ég var nýkominn út úr mjólkurhúsinu hjá Helga og framundan brekkan sem ég fór venjulega, beint niður, hál og erfið yfirferðar. Þáákvað ég að fara lengri leið fram ásinn og ætlaði þar niður gamlan vegslóða sem einhvertíma hafði verið notaður. Ég var varla kominn úr ljósinu þegar ég heyrði einhvern á eftir mér. Ég vissi að allt svona var hugarburður, en eftir því sem ég gekk lengra með fullan mjólkurbrúsan þá fór ég að heyra andardrátt og fleiri hljóð sem gátu ekki bent til neins annars en að það væri draugur á eftir mér. Því herti ég gönguna og áður en varði hljóp ég við fót niður bratta brekkuna. Ennheyrði ég andardrátt og eitthvað sem ég skildi ekki og þá varð ég fyrst alvarlega hræddur, tók það til bragðs að stoppa snögglega án þess að hugsa og finn þá að einhver kemur að mér þeim megin sem ég hélt á brúsanum. Ég hafði engar vöflur, og sveiflaði brúsanum frá mér og fann að hann lenti í einhverju og heyrði um leið ámátlegt ýlfur því þarna var kominn hundurinn hans Helga bónda, sem hafði læðst út með mér úr mjólkurhúsinu og fylgt mér á leið eins og hlýðnum hundi ber. Eftir í brúsanum urðu bara örfáir mjólkurdropar og ekki fékkst ég til að fara aftur í fjósið að sækja mjólk þann daginn og þurfa að viðurkenna að ég hefði lamið hundinn með mjólkurbrúsanum. En af þessu ævintýri hafðist það að ég fékk vasaljós til að hafa með í mjólkurferðir á vetrum. 

Einhverju sinni höfðu foreldrar okkar eitthvað við og var móðursystir mín fenginn til að sitja yfir okkur bræðrum á meðan, kannski var útstáelsi þeirra bara tilkomið af þeirri einföldu staðreynd að þau væru að fjölga mannkyninu (Kobbi bróðir Jakob Narfi fæddur 2. febrúar 1960). Ég bara man það ekk,i en allavega var hún móðursystir mín að passa okkur. Einhver ókyrrð var í veðri þetta kvöld og höfðum við verið að hlusta á útvarpið, sennilega eitthvert leikrit sem gat örvað ímyndunaraflið, alla vega þegar leið á kvöldið fór að heyrast bank utan á húsinu og ágerðist heldur. Drífa fór út að gá hverju sætti, en sá ekkert, en svo undarlega vildi til að bankið hætti og byrjaði ekki aftur fyrr en hún var komin inn. Leið svo kvöldið og fór að ágerast sú trú okkar að einhver mórinn riði húsum, en við höfðum heyrt af því að þessir mórar væru hin mestu skaðræðis gerpi. Ekki varð okkur svefnsamt um nóttina og er ekki frá því að frænka hafi verið hræddust allra, en enginn kom draugurinn til að vitja okkar. Síðar kom í ljós að um haustið höfðu símamenn verið að breyta inntaki fyrir síma og aftengt loftlínu sem í húsið lá og skilið eftir smá spotta og á enda hans einangrara sem í ákveðnu veðri fór að lemjast til og hræða úr okkur líftóruna. 
Af þessum hremmingum og fleirum náði ég að losna alveg við myrkfælni og ótta við það sem maður ekki sér og hef ekki fundið fyrir síðar.

Guðbjörg Elín Hjaltadóttir Það voru alltaf draugar undir rimlahliðunum, oft erfitt að fara yfir þau þegar dimmt var orðið.

Skemmdarverk og prakkaraskapur

Allir verða að læra og suma hluti er ekki hægt að læra nema prófa, gera tilraunir og komast að því að þetta er alveg eins og manni var sagt. Samt verður maður að prófa sjálfur. Mér skilst að strákar séu heldur tilraunaglaðari en stelpur en það sel ég ekki dýrar en ég kaupi. 

Ein fyrsta minning mín um tilraun sem mér var refsað fyrir, var þegar við strákarnir hófum vopnagerð með slíkum árangri að hverfisráðið ákvað að boða til borgarafundar og refsa þeim sem höfðu forgöngu með þeim eina hætti sem viðgekkst þá, opinberri hegningu, í formi flengingar á almannafæri.

Við félagar höfðum lengi glímt við að smíða okkur teygjubyssur að hefðbundinni gerð, járngrind með handfangi og samsettri teygju með leðurpjötlu um miðju, sem var fest við þar til gerða ása sem stóðu upp af handfanginu með ca. 10 cm bili. Galdurinn við að búa til byssur sem drógu eitthvað, var að hafa teygjuna nógu og stífa og réðst það nokkuð af þeim krafti sem við höfum í höndum til að draga hana upp. Einnig fundum við upp og endurbættum svokallaða túttubyssu sem er plaströr með fingur af gúmmíhanska límdan við annan endar rörsins. Þessar græjur okkar og búnað þurfti að prófa og fá um það staðfestingu hver ætti öflugasta vopnið og til þess datt okkur í hug ein leið sem væri sannanlega best til þess fallin að ákvarða gæði vopnana. 
Við fórum upp á brekku milli Laugarásbæjarins og Læknishússins, stóðum þar á veginum og skutum völdum steinum fram af brekkunni í átt að gróðurhúsum föður míns, Ólafshúsum/Einarshúsum. Þeir sem drógu lengst náðu að húsunum og þá fór það ekkert á milli mála, því oftast brotnaði rúða, þannig að ekki þurftu að deila um hversu langt næði.
Nokkur skot drógu og brothljóðið heyrðist upp á brekkubrún, þeim til ánægju sem byssuna átti. Gekk svo nokkra stund og einhver brothljóð heyrðust þar til fyrir lá hver ætti öflugasta vopnið.
Sem nærri má geta líkaði garðyrkjubændum það ekki vel að drengirnir þeirra væru að brjóta rúður í lífsviðurværi þeirra og því var gripið til drastískra aðgerða til þess að stemma stigu við þessu. 
Rasskellurinn sjálfur var kannski ekki það versta, þó vondur væri, en hitt var sýnu verra, að láta bera á sér botnin fyrir framan fjölda manns. Það var ógurleg skömm og ævarandi. Þessi réttarhöld fóru fram fyrir framan Einarsbragga að viðstöddu fjölmenni. 

Oft á vorin þegar við vorum orðin sjálfstæð, var mikið sport að fara til eggja út í Þengilseyri, sem er sandeyrin handan ár, neðan brúar. Þar úti í eyju var nokkurt kríuvarp og reyndar varp margra annara fugla, s.s. anda, gæsa og álfta og fátt var meira spennandi en sækja sér þangað egg til suðu í hverum staðarins og átu. Við vissum reyndar að Ingólfi bónda á Iðu líkaði þetta verulega illa og hann kom oft ef til okkar sást og rak okkur með harðri hendi af eyrinni, en það gerði þessi ferðalög bara enn meira spennandi.

Einhverju sinni vorum við á eyrinni og vorum búin að birgja okkur upp af eggjum og vorum að leggja af stað aftur til lands þegar við sjáum til Ingólfs þar sem hann steðjar út á eyrina í átt til okkar. Við tókum það ráð að flýja innar á eyna og fela okkur, en hættum okkur of nærri álftaparinu sem þar var og vorum nú skyndilega á milli tveggja óblíðra kosta, Ingólfs sem nálgaðist óðfluga og álftaparsins sem sótti að okkur með mikilli grimmd og illsku og vildi ganga að okkur, að ég held, dauðum. Við urðum að hörfa undan og færðust þá álftirnar í aukana og hröktu okkur grenjandi og gólandi í fangið á Ingólfi sem tók okkur ekki vel, smalaði í bíl sinn og keyrði upp í Laugarás þar sem hann og faðir minn réðu ráðum sínum um hvernig ætti að taka á þessum óknyttapiltum sem þarna voru. Ekki man ég eftir neinni refsingu, en hitt er víst, að við hættum okkur lengi vel ekki fram á Þengilseyri eftir þetta af ótta við álftarfjandann sem var svo grimm sem raun bar vitni. Æ síðan setur að mér óhug þegar ég hugsa um þetta atvik. 

Eitt sumarið í Laugarási var hjá pabba kaupamaður sem ég man ekki hvað hét, en hann var þeirrar gerðar sem vissi allt og gerði betur en þessir aumu sveitastrákar sem þarna bjuggu. Og víst er að við höfðum ekki séð allt og prófað eins og þessi, enda fæddur og uppalinn í Reykjavík og því sigldur vel. 
Einhverju sinni, þegar við Doddi höfðum ákveðið að fara að veiða austur á hamar (Auðsholtshamar), vildi strákur verða okkur samferða, sem var óvanalegt, bæði var hann nokkuð eldri en við og svo var hann ekki vanur að vilja vera með svona lúðum.
Á leiðinni fórum við um nýrækt sem Helgi bóndi var að rækta upp og beitti kúm á og stýrði beitinni með rafmagnsgirðingu. Þegar við gengum meðfram girðingunni kom upp lítil hugmynd sem varð að tilraun þegar kom upp að horni. Þannig hagaði til, að þar á horninu var rafgeymirinn og spennudeilirinn sem sá girðingunni fyrir straumi. Kassinn var þeirrar náttúru, að til þess að hleypa straum á girðnguna lyfti boxið kólf þannig, að til þess að hafa girðinguna straumlausa var nóg að halda kólfinum niðri. Við ræddum það okkar á milli við Doddi hversu mikil heljarmenni við værum, því við gætum pissað á girðinguna án þess að fá straum. Kaupamaðurinn var ekkert sérstaklega vel að sér í þessarri tækni, en vissi þó hversu straumurinn beit og vildi því tæplega trúa þessum heljarmönnum sem þar fóru. Við Doddi ákváðum að sýna þetta og þar sem mér var mál stillti Doddi sér við rafmagnskassann og hélt kólfinum á meðan ég pissaði, myndarlega bunu beint á girðinguna og án þess að verða nokkuð meint af. Síðan fórum við til veiða út á hamar og segir fátt af fiskiríi. 
Á heimleið, fisklausir, var kaupamaður nokkuð þögull og hálf fúll þar til kom í nýræktina hans Helga. Þá tilkynnti hann okkur að fyrst að við gætum pissað á rafmagnsgirðingu þá gæti hann það sko líka og ætlaði að sýna okkur. Ekki er ég viss um að við Doddi höfum latt hann þessa, en spenntir vorum við að sjá árangurinn og við þurftum ekki að bíða lengi. Kaupamaður handleikur heilagleika sinn og lætur bunu, sem hann var ábyggilega búinn að safna lengi, vaða á hávolta girðinguna. Ég efast um að nokkur maður hverki fyrr né síðar hafi náð öðrum eins árangri í langstökki án atrennu og það afturábak. Og gargið sem heyrðist var ógurlegt og líður mér seint úr minni. Það kann að hljóma einkennilega, en alltaf þegar ég rifja upp þetta atriði, skelli ég upp úr. Pissublautur og heldur lúpulegur dröslaðist strákur heim og ekki hafði hann oft orð á því eftir þetta að við værum einhverjir lúðar, sem ekkert gætum og ekkert vissum. 
Einhverjum árum seinna frétti ég af þessum strák. Hann var þá kominn með konu og barn, þannig að þó svo vont hafi það verið, þá bar hann ekki varanlegan skaða af, og ekki leyni ég því að mér finnst það nú betra.

Í skólanum

Ég veit ekki af hverju það er, en ég man mikið betur eftir leikjum okkar krakkanna og strákapörum, en einhverju lærdómsstagli, þó svo að meiri hluti tímans sem við vorum í skólanum færi í lærdóm. Þó eru ákveðin atriði sem mér eru afskapleg minnistæð af kennslu t.d. eins og ískrið í krítinni hjá Óla Möller þegar hann dró til stafs upp á töflu, en það var gert að mikilli vandvirkni og stunið og dæst út í gegnum stíflað neftóbaksnefið í takt við krítarískrið.
Eins eru leikfimitímarnir hjá Þóri á Geysi afskaplega eftirminnilegir, en leikfimi var stunduð á efri gangi nýja skólans. Þar hlupu á annan tug skólapilta hring eftir hring í upphitun, stilltum upp í tvær raðir fyrir armsveiflur og stukkum yfir hest eða tókum kollnísa á dýnu á miðju gólfi, eða handstöðu upp að vegg. Þegar ég kom í skólann fyrir örfáum árum og gekk inn þennan fræga gang þá undrast ég hvernig þetta var almennt hægt, en þetta gekk og við ekki lakara fólk eftir. 

Bekkjarsystkin í Reykholtsskóla: Aftasta röð f.v. Guðrún Hárlaugsdóttir, Geirþrúður Sighvatsdóttir, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Sigurður Ágústsson kennari, Pétur Á Hjaltason, Páll M Skúlason. Miðröð f.v. Hjálmur Sighvatsson, Sveinn A. Sæland, Gunnar Sverrisson, Sigurður Þórarinsson. Fremst f.v. Einar Jörundur Jóhannsson, Magnús Kristinsson.

Önnur kennsla rennur í einn graut í hausnum á mér hvert heldur við tölum um landafræði, sögu, stærðfræði eða kristinfræði, sem þó var fag sem mikil áhersla var á lögð, en þar fór fyrir frú Anna prestfrú, sem hélt að okkur kristnifræði eins og það væri fátt annað sem læra þyrfti en biblíusögurnar og jafnvel þannig, að þegar það gerðist eitt sinn að einn nemenda hafði að orði að ekki væri hægt að læra þetta helv..... þá varð fjandinn laus í skólanum og ef þarna hefði ekki verið sonur skólastjórans, veit ég ekki hvernig málinu hefði lokið, en slæmt var það.

Fyrrum skólafélagar í Reykholtsskóla komu saman árið 2011 ásamt nokkrum kennurum. Aftari röð f.v. Páll M Skúlason, Sveinn A. Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pátur Á Hjaltason, Gunnar Sverrisson, Ragnar Lýðsson, Eyvindur Magnús Jónasson, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Þorsteinn Þórarinsson, Guðrún Hárlaugsdóttir. Fremri röð f.v. Geirþrúður Sighvatsdóttir, Renata Vilhjálmsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Þórir Sigurðsson, Kristín Björnsdóttir.

Þeir krakkar sem ég man eftir voru helstir jafnaldrar mínir og bekkjarfélagar, Palli Skúla, Stína í Skálholti, Ragnhildur á Spóastöðum, Gunni í Hrosshaga, Gunna Hárlaugs, Raggi á Gýgjarhóli, Maggi á Kjóastöðum, Steini í Fellskoti, Þrúða í Miðhúsum, Maggi í Austurhlíð, Bjössi í Neðra Dal og jafnframt einstaka aðrir krakkar, svo sem Indriði í Arnarholti, Jón Þór frá Reykjum, Gísli í Hrosshaga, Heimir á Krók, Bjarni á Brautarhóli, Stígur Sæland , Loftur á Kjóastöðum og eflaust fleiri þó þeirra sé ekki sérstaklega getið hér.

Ég verð að segja að það eru ekki margir sem geta sagt frá því að samferða í skóla hefði verið strákur sem átti 15 systkini og mamma hans bara 12 ára, eða, eins og var hjá einum skólabróðir mínum, þar sem pabbi hans og afi voru jafn gamlir upp á dag. Þetta fannst mér allavega mjög sérstakt og í raun einstakt þó svo maður hugsaði ekki mikið um það á þessum árum.

Ekki treysti ég mér að segja hvort eða hvernig stendur á því að ég man ákveðna hluti afar vel, en annað er í móðu eða ég man hreint ekkert eftir, en mér er mjög minnstæð ráðskonan hún Ásdís á Brún sem stóð eldhúsvaktina í einhver ár og Robbi hennar maður (Róbert á Reykjum) sem kom á kvöldin til að sækja spúsu sína eða lúlla hjá henni og vildi gjarnan sýna okkur uppeldisaðferðir sínar.
Þannig háttaði til, að við fórum oft í sund eftir kvöldmat og voru þá ærsl og læti rétt framan við eldhúsið. Einhverju sinni kom Róbert fram á sundlaugarbakkann og vildi hafa á því skoðun hvernig við létum. Ekki vildi betur til en svo, að sökum hálku missti kall fótanna og steypist í allri sínn lengd og dýrð út í laug þar sem hún var hvað dýpst. Þar komumst við að því, að sennilega var karlinn ekki syndur, eða honum var brugðið því einhvað saup hann á og bægslagangurinn var mikill þegar hann þrælaði sér upp á bakkann aftur.

Eins er mér minnistætt, að í eldhúsinu veru eldhússtelpur, systurnar frá Fellskoti og kennarinn okkar hann Óli Þórðar var eitthvað að reyna að skjóta sér. Einhverju sinni urðum við vitni að æsilegum eltingaleik milli borða í borðsalnum með tilheyrandi látum, þegar Óli elti stelpurnar frá Fellskoti til þess að fá til fylgilags við sig og við fylgdumst með inn um gluggana. Gekk svo lengi kvölds. Ekki veit ég hvort honum varð eitthvað ágengt en þetta var spennandi viðureign, svo mikið er víst og minnistæð.

Eins man ég eftir kvöldi í skammdeginu þar sem við sátum, strákar, í brekkunni fyrir ofan gamla skólann og biðum þess að sjá stelpurnar skólasystur okkar hátta sig. Þannig að snemma var farið að velta fyrir sér hinu og þessu þó svo að ég efist um að maður hafi gert sér nokkra grein fyrir því til hvers var norpað þarna og til þess að sjá ekki neitt .........

Þessi tími var, að mér finnst, í minningunni ofsalega góður og ekki síður þeir leikir sem sem við stunduðum eftir skóla, í frímínútum eða helgina sem við vorum í skóla án náms, en meira um það næst.
(Vildi gjarnan sjá fleir nöfn í nafna skránna en gat ekki munað fleiri svona við fyrstu umferð)

Í Jesú nafni

Einhvern veginn hef ég það á tilfinniningunni að ég hafi ekki fengið sérstaklega kristilegt uppeldi í foreldrahúsum, ekki það að mínir foreldrar væru einhverjir trúleysingjar, ég held að það hafi verið öðru nær, en þau voru ekki áköf í sinni trú og héldu henni ekki sérstaklega að okkur bræðrum í æsku. Aldrei man ég eftir því að við værum settir á kvöldbænir eða annað slíkt bænahald eða að trú eða trúarbrögð væru rædd heima nema ef vera skyldi gagnvart dauðanum og því hve eðlilegur hann væri í raun. 
En á móti kom að við fengum líka að sækja þá kristinfræðslu sem í boði var í sveitinni og á þeim árum var hún töluverð. 

Sóknarpresturinn okkar, séra Guðmundur Óli Ólafsson, sat á Torfastöðum í byrjun, en hann þjónaði öllum sóknum sveitarinnar og sinnti all öflugu æskulýðsstarfi og naut til þess aðstoðar eiginkonu sinnar frú Önnu Magnúsdóttur, sem var sko betri en enginn þegar að því kom.
Frú Anna var glæsileg kona og sópaði af henni hvar sem hún kom. Hún hafði mikla söngrödd og leiddi söng við messur og aðrar athafnir og var potturinn og pannan í flestu sóknarstarfi þau ár sem hennar naut við.
Frú Anna mun hafa verið dóttir séra Magnúsar í Ólafsvík, en hann er talinn fyrirmynd Laxness að Jóni prímus í Kristnihaldinu, en það sel ég ekki dýrar en ég keypti. 
Þeim presthjónum varð ekki barna auðið, en aldrei skorti á barnaskara í kringum frúna bæði meðan þau bjuggu á Torfastöðum og ekki síður eftir að þau fluttu að Skálholti, en þar kynntist ég þeim helst og átti margar ánægjulegar stundir. Sennilega, svona eftir á að hyggja, má telja að þau hafi verið mjög trúuð og þá frekar frúin, þó svo að séra Guðmundur hafi átt sína spretti, en stundum gat verið erfitt að átta sig á hvar trú hans lá.
Um tíma heillaðist ég með og tók þátt í starfi safnaðarins, hreifst með þegar presturinn sagði frá krossinum á Torfastaðakirkju, ljóskrossinum sem lýsti þeim sem væru villuráfandi, ljósinu sem væri til í myrkri heimsins og allt það en honum var umhugað um að halda að okkur, hörmungum heimsins og öllu því slæma sem þar væri. 
Stundum hreifst maður með og tók þátt og meðal annars var ég flest árin þátttakandi í jólahelgihaldinu, sem var í raun mjög falleg og skemmtileg samkoma þar sem börn safnaðarins settu upp helgileik sem fjallaði um jólaguðspjallið með söng og látbragði þar sem allir tóku þátt.
Ég vann mig upp úr því að vera ómerkilegur fjárhirðir, í það að vera aðalstjarna sýningarinnar, sem var Gabríel erkiengill, hápunktur sýningarinnar og aðalstoð hennar. Ef einhverjir eiga myndir frá þessum atburði hvort heldur sem var frá Torfastöðum eða Skálholti væri gaman að komist í þær.

Alla skólagönguna var kristnifræði og kristilegt uppeldi stór þáttur og með frú Önnu var auðvelt að hrífast með og taka þátt, hún var þannig persóna, því var það nokkuð áfall þegar ofsinn kom í gegn, en eitt atvik örðum fremur situr í minni mínu frá þeim tíma en það var þegar Silli ræfillinn Þórarinsson missti út úr sér í helgistund á sunnudegi að hann gæti ekki lært helv...... trúarjátninguna.
Það varð í raun allt brjálað og eftir á veltir maður því fyrir sér hvort Silli hafi nokkurntíma boðið þess bætur sem hann varð að þola í þeim atgang. Eitt er víst, að ég leit ekki prestfrúna sömu augum eftir þetta.

Einni upplifun má ég til með að segja frá, en það var veturinn sem ég átti að fermast og við í fermingarundirbúningi heima hjá prestinum í Skálholti, en þá voru þau hjón flutt þangað niðureftir.
Á þeim árum var ég alæta á bókmenntir og las allt sem ég komst yfir og einhverra hluta vegna var ég að pæla í gegnum þær eðalbókmenntir sem Pétur Gaut geyma og þær skrautlegu æfingar sem hann stóð fyrir. 
Ég var sendur út í kirkju til þess að kveikja, en það hafði ég gert oft áður. Til þess að fá ljós í kirkjuna þurfti að ganga inn skipið allt inn að altaranu og þar vinstra meginn í herberginu voru rofarnir til þess að fá ljós. Þegar inn eftir kirkjunni var komið tók ég eftir einhverri hreyfingu framan við gráturnar og ekki var laust við að mér yrði illa við, hélt samt áfram og nálgast miðskipið en sá að það var einhver svartklædd vera sem kraup þar. Ég var farinn að læðast og stefndi á tröppurnar vinstra megin, þegar veran stóð upp og snéri sér að mér með óskum um gott kvöld. Ég fraus og kom ekki upp orði, en flýtti mér inn í skrúðhúsið og kveikti öll ljós sem fyrirfundust í kirkjunni, á tíma sem sennilega verður aldrei bættur. 
Eftir smá stund þorði ég að líta fram í kirkjuna aftur og sá þá áðurnefnda veru, sem stóð þar og virti fyrir sér kirkjuskipið allt og ekki síður altarastöfluna, sem var uppljómuð í allri þeirri birtu sem ég hafði framkallað. Þarna var kominn vígslubiskup okkar Sunnlendinga Sr. Sigurður Pálsson, dökkklæddur og dökkur á brún á brá.  Sennilega má telja viðbrögð mín eðlileg í ljósi þess sem ég hafði verið að lesa og aðstæðna allra, en ekki varð mér meint af og aldrei sagði ég neinum frá þessu atviki því ég var karl í krapinu. 

Fermingardagur í maí 1967: Aftari röð f.v. Pétur Á Hjaltason, Einar J. Jóhannnson, Þorsteinn Þórarinsson, Sr. Guðmundur Óli Ólafsson. Fremri röð f.v. Páll M. Skúlason, Sigurður Þórarinsson (Silli), Gunnar Sverrisson, Magnús Kristinsson, Loftur Jónasson, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Geirþrúður Sighvatsdóttir. (Mynd frá Hveratúni)

Að lokinni fermingu sem var öll hin fallegasta og eftirminnilegasta lokaði ég trúarglugganum nánast alveg og fór að velta fyrir mér ýmsum öðrum hlutum, svo sem Allah, Budda, Mao Tse Tung, og Lenin og er ekki fyrr en hin allra síðustu ár sem eitt og annað úr kristnifræði æskunnar er að rifjast upp og ég aðeins að byrja að taka upp þráðinn aftur eftir skipbrot eða trúaröfga ungdómsins.

Fullorðinn

Á skólaspjaldi Héraðsskólans á Laugarvatni 1969-70

Í minni sveit urðu menn fullorðnir á einum degi, í mínu tilfelli á öðrum degi í hvítasunnu, 1967. Bara svona allt í einu eftir hádegi í húsi foreldra minna, innan um fjölda fólks, að mestu ættingja. Þá gerðist það ég varð fullorðinn. Allar frænkur mínar ötuðu mig varalit, mismunandi rauðum og frændur og afar tóku í hendina á mér slógu kumpánlega á bakið á mér eða á öxlina og allir óskuðu mér til hamingju með það að vera orðinn fullorðinn, og ég sem var bara að fermast.

En þannig gerðist það, ég var reyndar orðinn yfir 190 cm á hæð, en hékk varla saman nema á sinunum sem héldu grindinni samann, bólutíminn var líka genginn í garð, svitaútstreymi á höndum og enni. Nánast í hvert sinn er þurfti að vera í nálægð einhverra og á ögurstundum brást röddinn og varð að kerlingar skrækjum. Í einu orði sagt, ömurlegt. Ef þetta var að vera fullorðinn, þá var það nú ekki spennandi kostur, en varð ekki umflúið. 

Þegar menn eru orðnir fullorðnir þá verða þeir að fara að vinna á því varð ekkert undanfæri. Leikur æskunnar var liðinn nú horfði til þess að vakna á hverjum morgni kl sjö, belgja sig út af graut og staulast til vinnu, þó svo aðrir mættu sofa. Ég var, sumsé, ráðinn sem fyrsti slöngutemjari hjá föður mínum og mátti sinna því allt það sumar með örlitlum undantekningum og gilti þá einu hvort var mánudagur eða laugardagur; alla daga þurfti að fara niður í stöð og vökva.
Að vera slöngutemjari fólst sem sagt í því að vökva tómata og gúrkuplönturnar sem stóðu í röðum sitthvorumegin örmjós moldargangs langsum eftir gróðurhúsnunum og þessar elskur þurftu að fá sopann sinn og eftir fræðunum var best að gera það á morgnana, eða það var mér alla vega sagt. 

Með hæfilegri ástundun og natni tókst mér að treina þetta starf fram undir hádegi, en þá var það líka búið og hæfilegt að fara heim og fá sér hádegismat. Og við erum að tala um hádegismat, heitur matur í hádeginu, fiskur eða kjöt grautur á eftir og mjólk með, sjö daga vikunnar og alltaf lambalæri á sunnudögum.
Svo hallaði maður sér í sófann eða dívaninn, eða, eins og pabbi gerði oft, lagðist á gólfið með koddaræfil undir hausnum og hlustaði á fréttir. Oftast sofnaði hann eftir fréttayfirlitið, nema stórfréttir væru á döfinni og dúraði þar til kom að veðurfréttum, sem voru korter í eitt, á þær hlustaði hann og skellt í sig úr einum kaffibolla eða svo og fór aftur að vinna. 

Alla jafna var minna undir eftir hádegi, þó þurfti stundum að "brjóta þjófa" af tómatplöntunum, sem fólst í því að nýgræðingssprotar sem uxu upp af greinarskilum varð að fjarlægja til þess að plantan fengi betri vöxt. Þetta var ekki erfið vinna, en sóðaleg vegna þess að tómatplantan gaf frá sér litarefni sem settist á hendur þeirra sem handléku og náðist illa af. Eins þurfti að sinna gúrkuplöntunum með þvi að hjálpa þeim að vefja sig upp bandið sem þeim var sett til stuðnings. 

Seinnipartinn var síðan farið í tómathúsin með fötur og rauðu tómatarnir tíndir af plöntunum og pabbi fór í gúrkuhúsin og valdi þær gúrkur sem taldar voru fullvaxnar og tíndi af plöntunum. Við gúrkutínsluna var ekki notað neitt burðarílát heldur var þeím gúrkum sem týndar voru stungið undir handlegginn og haldið svo áfram meðan pláss var þar undir, en sennilega komust í handarkrikann um 20-30 gúrkur í hverri ferð.
Eftir að inn í pökkunarskúr var komið, var vinna við að setja hverja og eina gúrku í plastpoka þar til gerðan og við það þurfti að hafa ákveðið lag svo greiðlega rynni inn, en oft vildi gúrkan vera stöm á móti pokanum svo illa gekk að pakka. 

Svona leið sumarið, reynt var að hafa ekki mjög mikið að gera um helgar, þá var ekki pökkun, en oft vökvun ef þannig viðraði og þá áttum við lausa stund um miðjan daginn til þess að leika okkur, annars voru kvöldin björt og hlý og ekki var sjónvarpið til þess að glepja á þessum árum þannig að nægur var frítíminn. 

Ég vil ekki hljóma gamall en góðu stundirnar voru þegar sest var fyrir framan gamla Radíonett lampatækið og hlustað á útvarpsleikrit eins og "Hulin augu" eða "Ambros í París". Maður sat stjarfur og átti stundum erfitt um svefn eftir spennu þáttarins, en það er nú önnur saga. 

Um haustið var stefnan sett á Laugarvatn í fullorðinsskóla og það var nú ævintýri.

Héró

Skólalið HL í körfubolta 1969-70 Aftari röð f.v. Eiríkur Jónsson, Ólafur Þór Jóhannsson, Pétur Á. Hjaltason, Jason Ívarsson, Páll M. Skúlason. Fremri röð f.v. Hafsteinn Stefánsson, Kristinn?(Krilli), Ágúst Þór Árnason.

Laugarvatn í Laugardal
Lengi skal ég muna
Í þeim fagra fjallasal
fékk ég náttúruna. 


Ekki veit ég hver hnoðaði þessarri vísu saman, en fer nokkuð með rétt mál því á þessum árum tóku ungir menn út þroska, auk þess sem á svo stórum skóla var eitt og annað brallað sem byggði upp til framtíðar. 

Nú þarf ég að fara að passa mig, kominn nærri fullorðinsárum og ætlandi að fjalla um fullorðið fólk sem voru mér samferða í gegnum skóla öll unglingsárin, en á Laugarvatni var ég í þrjá vetur og lærði margt, já og það ekki allt af bókum, ó nei. 

Ekki veit ég hvað olli því og stýrði að ég færi til náms á Laugarvatn, hugsanlega margir þættir eins og nálægð, sú staðreynd að flest minna jafnaldra voru að fara þangað og hugsanlega einhver metnaðarþörf foreldra minna, sem sáu fyrir sér menntamanninn mig koma upp úr hérðasskólanum í menntaskóla og það allt á sömu torfunni. En niðurstaðan var að ég skyldi á Laugarvatn og ég skyldi læra. 
Og stóra stundinn rann upp. Ég var búinn út til vistar í Héraðsskólanum á Laugarvatni og fjölskyldunni troðið í rússajeppa og ekið sem leið lá um uppsveit, yfir hjá Reykjum og á Laugarvatn. 
Kvíðahnútur í maganum, svitakóf og flökurleiki, fylgifiskar sem erfitt var að búa við en héldu vinskap alltaf þegar mikið stóð til. Systur mínar blaðskellandi, forvitnar, óþreytandi í því að koma með asnalegar athugasemdir um það sem fyrir augun bar. Foreldrar mínir í sínu betra pússi, stolt af syninum sem var að fara til náms, en hann feiminn og óánægður með flest sem þau gerðu, fann fyrir minnimáttarkennd og ekki laust við að hann skammaðist sín fyrir þau; pabbi í asnalegum jakka og mamma í kápu sem var einhvern veginn ekki hún og svo þessar systraskammir, ömurlegt. 

Áður en varði var ég kominn á Laugarvatn, ekið upp að einhverju reisulegasta húsi og fallegasta sem ég hafði augum litið, eins og í útlöndum, þó ég hefði aldrei verið þar, háar burstir á hvítum húsum með grænum þökum og mikilli hliðarbyggingu brúnleitri sem hýsti sundlaug og íþróttahús, heimtröð vörðuð hvítmáluðum steinum, hringakstur og mikið af fólki á þönum. Fjölskyldan út úr bílnum, inn í húsið, upp nokkrar tröppur og að kennarastofunni, ég á milli foreldra minna og systurnar eins og gæsaungar á eftir.
Ég hefði getað gubbað. 
Í Héraðsskólanum réðu ríkum þau mektarhjón Benedikt Sigvaldason og Adda Gerisdóttir og höfðu með sér úrvals fólk sem kennara, Helga Geirsson íslenskukennara, Óskar Ólafsson, Þórarin Stefánsson, Óskar Jónsson smíðakennara, Bergstein Kristjónsson og fleiri sem eru hér ónefndir, auk aðstoðarfólks eins og kokksins í eldhúsinu og stelpnanna sem þar unnu. 

Mér var tekið af föðurlegri festu og vísað til herbergis þar sem ég skyldi búa veturinn. Húsakostur var með þeim hætti, að í skólabyggingunni sjálfri bjuggu stelpurnar á efri og neðri burst í miðjuhúsinu, en við strákarnir í úthúsum sem hétu Hlíð, Mörk og Grund, sem stóð næst vatninu og að auki var hús sem stóð uppi við þjóðveg, Björkin, sem hýsti ólofaða kennara og starfsfólk í eldhúsi. Nemendafjöldi var um 120 og skólinn spannaði það sem í dag væru taldir áttundi til tíundi bekkur, þannig að þetta var enginn smá stofnun.

Ég fékk vist í Hlíðinni í öðru þriggja manna herberginu og sveitungar mínir þar með mér þeir Gunni í Hrosshaga og Raggi Lýðs (verð þó að setja við þetta fyrirvara því í hinu þriggjamanna herberginu bjuggu líka sveitungar og ég er ekki alveg viss hvernig skipanin var). 

Þarna voru saman komnir í skóla krakkar víðsvegar af landinu þaðan sem ekki var hægt að stunda nám í heimabyggð og líka krakkar sem rákust einhvernveginn illa í hópi. Oft var það þannig að frá einstaka stöðum kom nokkur hópur, svona nokkurs konar hjarðeinkenni. Þannig voru þennan fyrsta vetur minn margir frá Höfn í Hornafirði, frá Eskifirði og fleiri stöðum. Árið eftir mikill fjöldi krakka úr Grindavík og norðan úr Eyjafirði, þannig má nærri geta að þarna komu saman misjafnir siðir og venjur sem fylltu ungan manninn hugmyndum sem mótuðust í nánu sambýli við mikla festu og oft á tíðum þvergirðingshátt skólayfirvalda sem seinna verður sagt frá. 


Ekki hefur Pétur enn birt frásagnir sínar frá tímanum í Héraðsskólanum og það er víst ekki líklegt að svo verði. Unglingsárin eru erfiður tími að skrifa um :)

uppf. 09.2018