Jón Vídalín Guðmundsson á Sólveigarstöðum.

Árið 1983 gaf Setberg út bókina „Á vina fundi“, sem geymdi 17 samtöl sem Guðmundur Daníelsson  hafði átt við samtíðarfólk. Eitt þessara samtala var við Jón Vídalín Guðmundsson, garðyrkjubónda í Laugarási. Viðtalið er líklegast tekið 1966.

UTAN AF HAFI - UNDIR GLER


JÓN VÍDALÍN SÓLVEIGARSTÖÐUM

Jón Vídalín Guðmundsson

Jón Vídalín Guðmundsson

Ég er kominn að Laugarási, í hús sem heitir Sólveigarstaðir.
Þar býr Jón Vídalín Guðrnundsson garðyrkjumaður. Við fórum að tala saman.

„Ekki ert þú upprunninn héðan, Jón?“ sagði ég.
„Nei, í Önundarfirði, ég er fæddur í Hjarðardal í Önundarfirði. En ég fluttist þaðan þriggja ára gamall og ólst upp á Hesti “
„Er það innst í firðinum — þar sem fjöllin sameinast?“
„Já, það er innst í Önundarfirði, undir Hesti. Ég er frá Hesti undir Hestsfjalli.“
„Já, einhvurn tíma hef ég heyrt að Halldór Laxness hafi sótt fyrirmyndina að nafni sínu „Fótur undir Fótarfæti“ á þennan stað?“
„Gæti verið rétt. Persónur Kiljans eru sumar útkjálkafólk.“
„Júst og Nasi til dæmis?“
„Ég er nú ekki svo kunnugur skáldverkunum. En Pétur þríhross er sagður vera þaðan, og Ólafur Ljósvíkingur líka.“
„Það er dálítið skemmtileg nýbreytni að hitta mann sem er í raun og veru ættaður frá Fæti undir Fótarfæti. Það var víst þarna sem Ólafur heyrði fyrst kraftbirtingarhljóm guðdómsins.“
„Svo er sagt. Faðir minn bjó þarna. Hann byrjaði búskap í Hjarðardal, en fluttist svo að Hesti þegar ég var þriggja ára. Ekki held ég hann hafi nú heyrt mikinn hljóm úr guðdómnum,“ sagði Jón Vídalín.„Hvunær ertu fæddur?“
„Það var 4. desember 1906,“ sagði Jón Vídalín. „Ég ólst upp hjá foreldrum mínum, en var líka í Tröð hjá Rósenkrans Rósenkranssyni og Guðrúnu konu hans, foreldrum Guðlaugs í Þjóðleikhúsinu, ég var hjá þeim hálft annað ár smali. Upp úr fermingu fór ég fljótlega til sjós og í fiskvinnu. Meira að segja gaf ég mér ekki tíma til að fermast á réttu vori. Presturinn seinkaði fermingunni þetta vor, meðan hann beið eftir því úr Reykjavik, að hækkaðir yrðu fermingartollar, en ég var ráðinn í fiskvinnu til Súgandafjarðar, og sú vinna mundi glatast mér, ef ég biði heima eftir fermingunni, svo ég stakk af áður en prísar hækkuðu á prestsverkum. Árið eftir tókst kristnum vinum mínum að telja mig á að leita staðfestingar á skírnarsáttmálanum, og tók prestur mig þá fúslega til fermingar.“

Til sjós.

„Gott. Þar með lauk heiðindómi þínum. Og eftir það hefur þú getað farið sem kristinn maður frjáls ferða þinna til sjós og lands?“
„Eftir það má heita að leiðin lægi óslitin til sjós, utan eitt ár, vegna sjúkdóms, þar til 1951 í byrjun árs, þegar ég flutti hingað.“
,,Og hvar varstu til sjós og á hvurnig skipum?“
,,Ég byrjaði á færafiskiríi frá Flateyri. Síðan var fiskað með línu á útilegubátum. Árið 1927 var ég í Vestmannaeyjum. Eftir það var ég á útileguskipum frá Faxaflóa á línu, tilmynda með Guðmundi Jónssyni frá Tungu, sem var landskunnur aflamaður, mjög skemmtilegur í umgengni,  harðsækinn og heppinn fiskimaður, gætinn og djarfur í senn.“
,,Á stríðsárunum — varstu þá á sjó?“
„Ég sigldi öll stríðsárin og þá á togurum, og líka á fisktökuskipum, sem keyptu fisk og sigldu með hann til Englands."
„Tókuð þið fisk á Vestfjörðum?“
,Já, og í Vestmannaeyjum og sigldum til Englands með farminn.“
„Til hvaða hafna?
„Mest til Fleetwood, en í stríðslokin var farið að sigla til Hull og Grimsby.“
„Urðuð þið aldrei fyrir skakkaföllum af völdum stríðsins?“
„Nei, okkur henti aldrei neitt í hafi.“
„Og urðuð ekki sjónarvottar að slysförum?“
,Jú, maður sá margt. Til dæmis á Humberfljótinu á leið til Grimsby og Hull, þar stóðu möstrin og skorsteinarnir upp úr vatninu, og sums staðar efri hluti brúarinnar. Þessum skipum hafði verið sökkt með segulduflum. Þjóðverjar tóku upp á því snemma í stríðinu að varpa úr flugvélum segulmögnuðum tundurduflum. Og þegar skip komu í námunda við slík dufl, þá verkaði segulaflið í skipinu á sigurverkið í duflinu og framkallaði í því sprengingu. Þetta var ekki notað nema á grunnu vatni. En Englendingar fundu fljótlega ráð við þessu. Þeir byrjuðu þannig, að þeir festu segulmagnaðan hring neðan á flugvél, og maður sá slíka flugvél fljuga lágt yfir Humberfljót, hún nærri því straukst við vatnið. Segulhringurinn neðan á flugvélinni sprengdi svo duflin, sem vélin flaug yfir. Seinna tóku þeir upp á að afsegulmagna skipin. Þá lögðu þeir rafmagnskapal utan um skipin, og í landi voru einhvur tæki, sem afsegulmögnuðu þau, svo að þau verkuðu ekki lengur á duflin, en þetta varð að endurtaka með vissu millibili.“
„Siglduð þið aldrei í skipalestum?“
„Ekki öðruvísi en svo, að það voru kannski tveir eða þrír togarar sem höfðu samflot, en aldrei undir herskipavernd.“
„Þýskar flugvélar eða kafbátar hafa ekki ráðist á ukkur?“
„Nei, við sluppum alltaf við það. Við vorum heppnir. En oft sáum við verksummerkin: brak úr sokknum skipum, og einu sinni tókum við upp 7 eða 9 skipbrotsmenn. Skipi þeirra hafði verið sökkt norðan til í írska kanalnum. Við ætluðum að koma þeim á enskan tundurspilli sem sigldi nærri okkur, en hann sinnti ekki beiðni okkar, og við fórum með mennina, sem voru norskir, til Reykjavíkur, og það vildu þeir líka helst“
„Höfðu sjómenn vel upp úr sér á stríðsárunum?“
,,Já, eftir að áhættuþóknunin kom. En fyrsta árið var það nú ekki. Það ár voru mínar tekjur 12 þúsund krónur. Það þótti gott þá, en áhættuþóknunin hleypti tekjunum mikið upp. Annars fannst mér siglingin milli landa ekki það versta á þessum tíma, heldur fiskiríið kringum landið, til dæmis á Halanum. Það var lagt meira á skipin en góðu hófi gegndi. Áður höfðu þau verið talin fullhlaðin með 2 þúsund kitt, en það þótti ekki afli í stríðinu, ef það voru ekki yfir 4 þúsund kitt
sem látin voru í skipin. Þau voru drekkhlaðin og illa hlaðin. Þau lágu svo mikið fram, að viðtökunum að aftan höfðu þau tapað. Það erfiðasta var að Ijúka fiskiríinu og sigla með aflann
í heimahöfn. Í heimahöfn voru skipin létt mikið, til dæmis teknir úr þeim trollvírar og öll veiðarfæri og fleira lauslegt. Á siglingu milli landa var skipið því eins og allt annað skip“.
„Að stríðinu loknu — hvað tókstu þá fyrir?“
„Ég var áfram til sjós, þangað til ég hætti endanlega og flutti hingað um mánaðamótin febrúar — mars 1951.“

Konan.

Jóna Sólveig

Jóna Sólveig

„Þú hefur verið kvæntur maður þegar þú komst hingað?“
,,Nei, það var ég ekki. Ég kvæntist ekki fyrr en 1954.“
,,Er konan þín héðan úr Biskupstungum?“
„Nei, hún er alin upp á Vattarnesi fyrir austan, hún er sem sé Austfirðingur. Við eigum fjögur börn. Það elsta verður ellefu ára í vor (Guðmundur Daníel), hin eru níu ára (Lára Vilhelmína Margrét), sex ára (Guðný Aðalbjörg) og fjögra ára (Arngrímur).“ (pms setti nöfnin inn)
„Hvað heitir konan þín?“
„Hún heitir Jóna Sólveig Magnúsdóttir.“
„Þú hefur þá skírt húsið ykkar í höfuðið á henni.“
„Já, það ber seinna nafnið hennar.“

Moldin kallar

„Hvurnig stóð á því að þér datt í hug að gerast garðyrkjumaður hérna lengst upp í sveit eftir að hafa verið sjómaður svo lengi?“
„Ég hafði komið hingað, og systir mín var orðin búsett hér í Laugarási, gift Helga Indriðasyni. Þau hafa stundað garðyrkju meðfram. Ég sá gróðurhúsin hér, og ég var víst eitt af þeim flónum, sem hélt að peningar væru fljótteknir í gróðurhúsunum. Annars var þetta víst eitthvað í blóðinu. Ég var búinn að reyna að fá skipsfélaga mína til að koma með mér í land og reyna að fá aðstöðu í Krýsuvík, vegna heita vatnsins, og hefja gróðurhúsarækt. Þetta var svona umtal sem aldrei komst lengra. En ég get sagt þér, að árið 1938 bjó Konráð bróðir minn á Efra-Seli í Hrunamannahreppi. Ég var þá á togaranum Hafsteini, en hann var stopp, svo ég fór að heimsækja Konráð. Ég plægði þá fyrir hann kartöflugarðinn og setti niður kartöflurnar. Það var bara plógur sem gerði rásirnar, svo gekk maður á eftir með kartöflurnar og tíndi þær í plógfarið. En í mörg ár á eftir, þegar vora tók, þá var eins og ég fengi einhvurn kláða í höndurnar, moldarminningin kitlaði mig í fingurna. Þetta var í blóðinu, kannski eitthvað skylt því sem vísar fuglunum til varpstöðvanna.“
„Var það miklum erfiðleikum bundið að komast hingað og setjast að sem garðyrkjumaður?“
„Onei. En náttúrlega var þetta töluverð lífsvenjubreyting, og ég var ókunnugur öllu þessu. Og oft hef ég undrast það síðan, hvað mikið flón ég var að leggja út í þetta jafnlítið og ég þekkti það. Ef ég hefði þekkt til þeirra vandkvæða sem mættu mér og fylgdu þessu, ja, þá held ég að ég hefði aldrei reynt það — ef ég hefði sem sagt vitað hvað ég var að gera.“
„Viltu segja mér í fáum dráttum og skýrum sögu garðyrkjubúskapar þíns í Laugarási?“
„Ja, ég get til dæmis sagt þér það, að ég keypti hér 600 fermetra stöð. Fyrsta árið hafði ég brúttó tekjur af henni 52 þúsund krónur. Síðasta árið sem ég var á Neptúnusi, þar var ég
kokkur, þar var þénustan 76 þúsund. Mér fannst þetta nú ekki efnilegt útlit, en þraukaði samt. Erfiðleikar voru ýmsir. Þá var það fjárfestingarstefnan, að það var ekkert lánað til gróðurhúsabygginga, það var blátt bann við því. Það var þegar Amríkaninn hafði hvað mest áhrif á fjármálastefnuna hér. Það voru skilyrði sem hann setti, að ekki væri lánað til gróðurhúsa.“
„Veistu nokkuð hvað Amríkaninn hafði fyrir sér í því?“
„Nei. En ég fékk þessar upplýsingar hjá bankastjóra, sem ég tel að ekki hafi farið með fleipur. Það var Hilmar Stefánsson sem sagði mér að Kaninn ákvæði þetta. Hann hefði gert skrá yfir það, sem lána mætti til í sveitabúskap. Á þeirri skrá voru þvottahús, hænsnahús og ýmislegt slíkt, en það mátti ekkert lána til gróðurhúsastarfsemi, og þetta var innifalið í þeim fjármálasamningum, sem Benjamín Eiríksson gerði við Amríkanann á sínum tíma.“
„Var það einhvurs konar Marshallhjálp sem þeir voru að úthluta?“
„Það var eitthvað slíkt. Þeir þóttust eiga með að ráða þessum hlutum. Ég átti í pexi við bankastjóra út af þessu, og ég sagði við hann: „Ekki koma þeir þó til að kíkja í, hvað hvurjum einstaklingi sé lánað?“ „Það liggur við. Jafnvel það leyfa þeir sér.“ „Ég fékk þetta svar niðrá Selfossi, að það væri fjárfestingarregla, að lána ekki út á gróðurhús á þessum tíma.“
„Hvaða tími var það þegar Amríkaninn réði svona lögum og lofum á íslandi?“
„Þessi ár sem ég á við þarna eru, skal ég segja þér, fyrsta árið mitt, 1951, 1952 og 1953. Ég skal segja þér, að árið 1953 þurfti ég að byggja eitt hús upp af þeim fjórum sem ég keypti, en það
var útilokað að fá lán. Og ég get sagt þér til gamans, að ég var á ferð niður á Selfossi og hitti þar Þorstein Sigurðsson, formann verkstæðis K.Á., og fór að tala um timburverð við hann. Timbur var þá lækkað og hann segir mér hvað það kostar. „Nei, hvur andskotinn! Þetta kostar þá ekki meira en það sem ég fer með í tóbak yfir árið.“ „Ég kláraði pakkann sem ég var með, en hætti svo. En síðan fór þetta nú að breytast, eitthvað að linast, en var þó undir góðvild bankastjórans komið. Út á þetta hús fékk ég lán í Búnaðarbankanum. Byggingarsjóður mun það hafa heitið í þá
daga, sú bankadeild, ég fékk þar 21 þúsund króna lán um haustið.
Aftur brotnaði niður hús hjá mér 1954, og sömuleiðis fékk ég þá lán í Búnaðarbankanum. Upp úr því fór að losna um þetta. Og svo eitthvað seinna tóku þessi mál þá stefnu, að við áttum ákveðinn rétt til lána. Við vorum sem sagt komnir það langt, að þetta voru viðurkennd garðyrkjubýli. Þar með áttum við rétt til lána. En vegna fjárskorts varð bankinn sjálfur að meta byggingarkostnaðinn og skammta manni eftir sinni eigin mælistiku. Við urðum þarna út undan. Það er hægt að sanna hvunær sem er.“

Ingólfur bjargaði

Á þessu varð ekki breyting fyrr en í tíð Ingólfs Jónssonar sem landbúnaðarráðherra. Ég tel okkur standa í stórri þakkarskuld við hann, og jafnvel Magnús Jónsson líka. Það eru starfandi hjá okkur garðyrkjubændafélög. Ég er formaður þeirra í uppsveitunum, í Laugardal, Biskupstungum og Hrunamannahreppi, og það kom í minn hlut að fara í gegnum þetta, ásamt matsmönnum frá bankanum, og það kom í ljós, að við höfðum fengið húsin metin á nálægt því hálfu verði. Á þessu varð nú veruleg breyting strax, og hefur síðan svona langt til fylgt byggingarkostnaðinum. Ég held við megum una sæmilega við úrslitin í þessum málum, en það var fyrst og fremst eindreginn og drengilegur stuðningur Ingólfs Jónssonar sem þarna rétti okkar hlut.“

Garðyrkjuskólinn

„Hvurnig er með skólastofnun þessarar atvinnugreinar, Garðyrkjuskólann?„
„Hann starfar á Reykjum í Ölfusi. Það hefur margt um skólann verið sagt, en ég er þeirrar skoðunar, að það hafi legið of mikið í láginni, sem best hefur verið gert fyrir garðyrkjubændur, og það er frá þeirri stofnun komið, og er sérstaklega verk skólastjórans. Á ég þar við jarðvegsrannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið á vegum þeirrar stofnunar. Því að árin
1954 og 1955 náði skólastjóri hárri fjárveitingu til þessara hluta — jarðvegsrannsókna og jurtasjúkdómagreiningar, og voru tveir menn sendir út til að sérhæfa sig í þessu. Annar var Axel Magnússon, en hinn var Óli Valur Hansson. Axel tók til starfa á þeim tíma sem fyrirhugaður var, en Óli fór aðeins seinna út, kom svo heim, tók við kennslu í skólanum, en aldrei varð úr að hann byrjaði að vinna með þeim tækjum, sem keypt höfðu verið til rannsóknanna. Ástæðan var sú, að leiðir hans og skólans skildu, og tel ég það verr farið. Óli Valur hefur að vísu verið ráðunautur Búnaðarfélags Íslands síðan, en hann hefur ekki þá aðstöðu þar, sem búið var að leggja upp í hendur hans við skólann. Skólinn hefur ræktun og framleiðslu á sínum vegum, en Búnaðarfélagið hefur ekkert slíkt til að styðjast við. Það er skrifstofa, og þar sitja fræðimenn sem gefa ráðleggingar, en þeir hafa hvorki jörð né gróður til þess að gera tilraunir með.
Búnaðarsamband Suðurlands er betur sett, það styðst við tilraunir í Laugardælum, og þar starfa ráðunautar þess í búfjárrækt.“
„Hvað er framleiðsla íslenskra garðyrkjubænda mikil á ári?“
„Hún er engin ósköp. Sölufélag garðyrkjumanna seldi fyrir sirka 17 milljónir miðað við heildsöluverð árið sem leið. Reyndar fer ekki öll framleiðslan gegnum hendur Sölufélagsins, en
maður gæti hugsað sér að öll framleiðslan, blóm og annað, sé einhvurs staðar milli 30 og 40 milljónir.“
„Garðyrkjuskólinn er í endurbyggingu núna?“

„Já, þarna lítur út fyrir að upp komi mjög myndarlegt skólahús, og eru — að mér finnst — rausnarlegar fjárveitingar til skólans. Miklar vonir eru bundnar við þennan skóla, en ekki
má gleyma hvursu merkilegt afrek Unnsteinn Ólafsson vann fyrir okkur, þegar hann kom í framkvæmd jarðvegsrannsóknunum. Við getum ekki án þeirra verið, það skilja allir núna.“
„Er ylræktin í vexti?“
„Já, heldur mun hún vera að aukast, fermetrafjöldinn undir gleri, þó hefur það farið hægt, og valda því meðal annars afsetningarörðugleikar, sérstaklega á grænmeti. Skipulag sölunnar er ekki sem skyldi. Tómatsalan eykst til dæmis ekki í hlutfalli við fólksfjölgun. Ég tel það líka vandræði, að fólk skuli ekki geta fengið grænmeti öðruvísi en á smásöluverði, því að álagningin er, að meðtöldum söluskatti, 50 til 60%. Við erum margir á þeirri skoðun að það vanti markað, sölustaði þar sem grænmeti er langt undir smásöluverði. Auk þess eru almennar matvörubúðir alls ekki lagaðar til að geyma og versla með grænmeti, því að grænmeti er viðkvæmt í geymslu. Fólk sem vill sjálft gera sér mat úr grænmeti með því að sulta og sjóða niður og því um líkt, það ætti auðvitað að geta fengið vöruna á heildsöluverði. Við ættum að eiga dreifingarstöð á Egilsstöðum, vegna sölu til Austfjarða. Frá Egilsstöðum eru daglegar ferðir á alla firðina. Ég er gamall skipskokkur og veit þess vegna hvurnig flotinn hagar sér, hann leggst á þessa höfn í dag,
hinn fjörðinn á morgun. Sjómenn vilja hafa mat sinn en öngvar refjar, maturinn verður að vera til þegar skipið kemur inn, það er ekki beðið eftir að dólað sé við að keyra hann langar leiðir
eftir að komið er í höfn.“
„Við verðum að fá einhvurn Dawson til að hleypa fjöri í þetta.“
„Ja, Dawson — kannski, en þó þess konar Dawson sem ekki gufar upp eftir fyrsta sprettinn. Við þurfum byltingu sem heppnast.“

Laugarás verður þorp.

„Laugarás er að verða þorp. Þú hefur fylgst með þróun þessarar byggðar frá byrjun?“
„Já, það má nokkurn veginn segja það. Þegar ég kom hingað, þá voru hér þrjú heimili. Og þá held ég að ekki hafi verið nema eitt barn innan sextán ára aldurs. Nú eru börn og unglingar á þeim aldri milli þrjátíu og fjörutíu. Það eru alltaf að koma nýir og nýir menn sem taka sér land og setjast hér að, bæði garðyrkjumenn og menn sem stunda aðra atvinnu, til dæmis smiðir. Skólabörnum er ekið daglega í skólann að Reykholti, þar sem áður hét Stóra-Fljót. Laugarástorfan er eign læknishéraðsins, og það leigir út löndin til erfðafestu. Oddvitar hreppanna sem læknishéraðið mynda, þeir sjá um þetta. Og þeir hafa byggt hér sameiginlega dælustöð fyrir heita vatnið, og svo borgum við ákveðið gjald fyrir hvurn dældan sekúndulítra. Hér munu hafa verið mældir 45 sekúndulítrar af heitu vatni, sem er við það 100 gráðu heitt.“
„En hvurnig er með kalt vatn hérna?“
„Það voru vandræði með það. Það var ekki gott. Hvur og einn varð að leggja í sinn mýrarpytt eða dý. Vatnið var járnmengað og tærði fljótt rör og leiðslur. En svo var byggt hér sláturhús. Sláturfélag Suðurlands byggði það, og þá þurfti mikið kalt vatn, og það var ekki til nær en uppi í Vörðufelli sunnan við Hvítá. Þá var sá háttur hafður á, að héraðið skaffaði vatnsréttinn með því að leggja heitt vatn til Iðu í staðinn fyrir kalda vatnið. Hér var stofnað vatnsveitufélag, og stærsti aðilinn að því er Sláturfélag Suðurlands. Vatnið er leitt úr fjallinu, yfir brúna og í vatnsgeymi sem tekur 50 tonn. Hvur notandi hefur mæli og greiðir eftir notkun. Það kemur í veg fyrir óþarfa rennsli og sparar dælurnar sem eru dýr verkfæri. Þetta hefur gefist vel og allir eru ánægðir með vatnið. Ríkið styrkir vatnsveitur allt upp í 50%. Kaldavatnsnotkun er hér minni en víðast annars staðar, vegna þess hvað hveravatnið er hér sérstaklega gott, kísillítið og laust við hveralykt.”
 

Látum hér við sitja.
Og mega nú allir sjá, að Jón Vídalín Guðmundsson lét mig ekki fara bónleiðan til búða sinna, heldur hafa erindislok góð. Og þó að ég efist ekki um að hann sé ósvikinn garðyrkjubóndi á Suðurlandi og traustur forystumaður í sinni stétt, þá virðist mér að hugur og hjarta þessa vestfirska sjómanns beri samt síns heimalands mót, svo sem segir í margsungnu kvæði Stephans G. Ég þakka Jóni Vídalín og frú hans fyrir viðtökurnar á Sólveigarstöðum.

uppf. 09.2018