Ábúendur í Skálholti

Hannes [Finnsson] biskup hafði orðið fyrir þungum raunum í sínu einkalífi. Hann missti fyrri konu sína árið 1786 og börn þau, sem þau hjón áttu saman, dóu í æsku. Biskup tók það mjög nærri sér, en æskuvinur hans Jón Jónsson sýslumaður á Móeiðarhvoli sendi dóttur sína Valgerði í Skálholt biskupi til huggunar og svo góður huggari var hún, að biskupinn gekk að eiga hana árið 1789. Aldursmunur þeirra hjóna var talsverður, eða þrjátíu og eitt ár, og andaðist biskupinn eftir að þau höfðu verið í hjónabandi í tæp sjö ár.
Valgerður biskupsekkja giftist síðar Steingrími Jónssyni prófasti í Odda, en hann varð einnig biskup og varð Valgerður einnig ekkja eftir hann, því hefur hún jafnan síðan verið kölluð Valgerður biskupsekkja.
Valgerður biskupsekkja flutti burt úr Tungunum [árið 1816] og afkomendur hennar hafa fáir átt þar heima.

(Hreinn Erlendsson, Litli Bergþór 3. tbl. 1990)

Leiguliðar í Skálholti

Vesturbær

1816-1833 Jón Jónsson og Rannveig Jónsdóttir
1833-1860 Eiríkur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir
1860-1874 Erlendur Eyjólfsson og Margrét Ingimundardóttir
1874-1880 Þórður Halldórsson og Margrét Ingimundardóttir
1880-1883 Ingimundur Erlendsson og Guðfinna Erlendsdóttir
1883-1900 Grímur Eiríksson og Guðrún Eyjólfsdóttir
1900-1911 Skúli Árnason og Sigríður Sigurðardóttir
1911-1927 Skúli Árnason og Steinunn Sigurðardóttir (bústýra)
1927-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir (Skálholt verður eitt býli)

Austurbær

1816-1834 Jón Jónsson og Halla Magnúsdóttir
1834-1862 Ólafur Helgason og Ingiríður Einarsdóttir
1862-1870 Ingiríður Einarsdóttir og Helgi Ólafsson(sonur hennar)
1870-1877 Helgi Ólafsson og Valgerður Eyjólfsdóttir
1877-1897 Einar Kjartansson og Helga Hjörleifsdóttir
1897-1901 Guðmundur Erlendsson og Þórunn Stefánsdóttir
1901-1911 Jón Bergsson og Hallbera Jónsdóttir
1911-1916 Marel Halldórsson og Valgerður Vigfúsdóttir
1916-1919 Jón Gunnlaugsson og Jórunn Halldórsdóttir
1919-1922 Jón Gunnlaugsson
1922-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir
1939-1948 Jörundur Brynjólfsson og Guðrún Helga Dalmannsdóttir
1948-1950 Eyþór Einarsson og Guðfinna Dagmar Hannesdóttir (bústýra)
1950-1993 Björn Guðmundur Erlendsson og Ingunn María Eiríksdóttir

Vesturbær

Árið 1816, þegar Valgerður Jónsdóttir, biskupsfrú flutti frá Skálholti, settust þar að hjónin Jón Jónsson (54), sem fæddur var á Brú og Rannveig Jónsdóttir (50) frá Spóastöðum, ásamt fjórum börnum sínum, Aldísi (18), Ingibjörgu (17), Eiríki (15) og Jóni (12). Þau höfðu áður búið í Bræðratungu. Eftir Jón tók Eiríkur sonur hans við búinu árið 1833 og bjó þar ásamt konu sinni Guðrúnu Bjarnadóttur, allt þar til hann hafði jarðaskipti við Erlend Eyjólfsson á Böðmóðsstöðum, árið 1860.

Árið 1860 fluttu hjónin Erlendur Eyjólfsson og Margrét Ingimundardóttir frá Böðmóðsstöðum í Laugardal á vesturbæinn í Skálholti. Þar bjuggu þau saman þar til Erlendur lést 1874. Í sóknarmannatali frá 1874 er kominn til skjalanna Þórður Halldórsson, 30 ára, skráður sem bóndi og ekkjan Margrét, skráð sem kona hans. Þarna voru einnig níu börn hennar og Erlendar, á aldrinum 5 til 20 ára. Þau Þórður og Margrét bjuggu þarna síðan í fimm ár, eða til 1880. Þá tóku þau við búskap í Vesturkotshjáleigu. Þaðan fór Margrét til Reykjavíkur 1882, en Þórður bjó áfram til 1890. Hann gerðist þá lausamaður á Torfastöðum, en flutti síðan til Vesturheims 1899 (Íslendingabók).

Ingimundur Erlendsson (25), sonur Margrétar tók við búinu í Skálholti ásamt systur sinni, Guðfinnu (22). Þar bjuggu þau til 1883. Það má telja markvert frá búskapartíð systkinanna, að þrítugur hómópati, Guðmundur Vigfússon kom í vist hjá þeim 1882. Má segja að þar hafi verið kominn fyrsti læknirinn á svæðinu. Þau Guðmundur og Guðfinna felldu hugi saman og 1883 voru þau tekin við búi í Laugarási.

Af Ingimundi Erlendssyni er það að segja að hann kvæntist 1887 og sama ár fluttu hjónin vestur um haf. Nánar segir af afdrifum þeirra hér.

Grímur Eiríksson og Guðrún Eyjólfsdóttir

Ung hjón, Grímur Eiríksson (1859-1938) frá Gjábakka í Þingvallasveit og Guðrún Eyjólfsdóttir (1862-1931) frá Laugarvatni, tóku við vesturbænum í Skálholti árið 1883 og ráku það til aldamóta, en þá fluttu þau að Gröf í Laugardal. Þau eignuðust 14 börn. Einn sonur hjónanna, Eiríkur (1892-1980), tók á leigu land í Laugarási 1943, ásamt konu sinni Bergþóru Runólfsdóttur (1909-1994), þar sem Sólveigarstaðir eru nú. Eiríkur hafði þá flutt til Vesturheims tvítugur að aldri árið 1912, en snúið til baka. Dvöl hjónanna í Laugarási var stutt, vegna hörmulegs atburðar sem greint er nánar frá á þessum vef, hér.

Um þau Grím og Guðrúnu segir Karl Jónsson í Gýgjarhólskoti í minningargrein um Einar, son þeirra:

Foreldrar Einars voru merkishjónin Guðrún Eyjólfsdóttir frá Laugarvatni og Grímur Eiríksson frá Gjábakka. Þau hófu búskap Skálholti 1884, en fluttu að Gröf 1901 og bjuggu þar allan sinn búskap upp frá þvi, til ársins 1931. Heimili þeirra var eitt af þessum gömlu afbragðsheimilum. Grímur var mikill dugnaðar- og áhugamaður, leiftrandi af fjöri og áhuga fram á elliár. Hann var mikill hestamaður, og man ég hann það illa kominn líkamlega, að hann gat ekki setið á hesti nema einvega. Þá lagði hann söðul á reiðhestinn sinn og þeysti svo um fullum fetum. Guðrún var rómuð afbragðshúsmóðir og gæðakona, eins og hún átti kyn til. Þegar ég var innan við og um fermingu, átti ég leið um hlaðið í Gröf einu sinni í viku allan sláttinn í 3—4 sumur, við rjómaflutning í Apárrjómabúið. Þá kom ég þar oft inn, misjafnlega fyrir kallaður, og naut hinnar alkunnu gestrisni. Þær áttu það líka stundum til, þessar gömlu konur, að gefa unglingum „bita í lófann", ef ekki var tími til að koma í bæinn.

Fyrsti læknirinn í nýstofnuðu Grímsnesshéraði, Skúli Árnason (1865 – 1954) tók við búinu af þeim Grími og Guðrúnu, ásamt konu sinn, Sigríði Sigurðardóttur.

Í Fjallkonunni, í ágúst 1899 er svo greint frá skipun Skúla:

Læknaskipun. Sigurður Magnússon aukalæknir á Dýrafirði hefir fengið konungsveitingu fyrir Barðastrandarlæknishéraði hinu vestra (bústaður á Patreksfirði), en Magnús Ásgeirsson aukalæknir í Árnessýslu ofanverðrl hefir fengið aukalæknishéraðið í Dýrafirði; en upphreppa Árnessýslu hefir fengið Skúli Árnason aukalæknir í Ólafsvík, ...

Í Skálholti bjó Skúli til 1927, en flutti þá til Reykjavíkur. Sigríður lést 1911. Jörundur Brynjólfsson tók við af Skúla og þar með varð Skálholt einbýli.

Austurbær

Eftir að Valgerður Jónsdóttir, ekkja Hannesar biskups Finnssonar, flutti frá Skálholti, árið 1816, settist bróðir hennar Jón Jónsson (hr. J. Johnsen) fæddur á Stórólfshvoli, þá 36 ára, þar að, ásamt konu sinni Höllu Magnúsdóttur, sem var 39 ára, og 4 fjórum börnum: Helgu 11, Jóni 10, Magnúsi 9 og Þorsteini 2. Þau hjón voru flutt að Stóra-Ármóti 1824 og í þeirra stað komin á staðinn Ketill Þorgeirsson (27) og Ingiríður Einarsóttir (31) með 3 börn, Vilborgu (5), Helgu (3) og Guðrúnu (2). Ketill drukknaði 1826: „hann druknaði 1827 fram í tungusporði, er hann var að bjarga fje sínu undan árflóði“ (Lýsing Skálholtsstaðar, að fornu og nýju. Eptir Bjarna Guðmundson ættfræðing).

Ingiríður var aftur gift 1838, Ólafi Helgasyni frá Grafarbakka en hann var þá 21s árs, en hún 35. Þau bjuggu saman í Austurbænum til 1862, þegar Ólafur „drukknaði líka á ferðareisu af Eyrarbakka, reið drukkinn út í vatn“. (Lýsing Skálholtsstaðar, að fornu og nýju. Eptir Bjarna Guðmundson ættfræðing).
Ingiríður dvaldi áfram í Skálholti þar til hún lést 1875, 82 ára að aldri. Helgi Ólafsson, sonur hennar og Ólafs (1834-1883) rak búið þar til hann flutti í Drangshlíð undir Eyjafjöllum, 1876 ásamt eiginkonu sinni Valgerði Eyjólfsdóttur frá Vælugerði í Flóa(1841-1922), sem hafði verið vinnukona í Skálholti á tíma Helga þar. Áður hafði Helgi verið kvæntur systur Valgerðar, Þórunni Eyjólfsdóttur (1842-1864, sem hafði verið í Skálholti frá því hún var barn. Þau eignuðust dótturina Sigríði (1862-1945). Þórunn drukknaði rúmlega tvítug, niður um ís, í Hvítá hjá Auðsholti. Helgi lést úr taugaveiki tæplega fimmtugur. (Þórunn Helga Eyjólfsdóttir, dóttir Sigríðar fjallar um þetta fólk í æskuminningum sínum í Litla Bergþór. 1. tbl. árið 2000).

Einar Kjartansson (1828-1912) og kona hans Helga Hjörleifsdóttir (1828-1917) tóku við búskap í austurbænum í Skálholti, 1877. Þau komu frá Drangshlíð undir Eyjafjöllum og bæði komin undir fimmtugt. Með þeim voru sex börn þeirra: Kjartan (21),Valgerður (20), Hjörleifur (19), Einar (18), Þorsteinn (14) og Sigurjón (10) og að auki tökubarnið Guðlaug Steingrímsdóttir (12). Vinnufólkið á bænum taldi sex manns og því var þarna um að ræða 14 manna heimili. Á austurbænum voru þetta ár 15 manns og því alls 29 í Skálholti.

Einar og Helga bjuggu í Skálholti til 1896, en fluttu þá að Holti í Vestur-Eyjafjallahreppi, til Kjartans, sonar síns. Líklega bjó Sigurjón, sonur þeirra ár til viðbótar, eða til 1897.

Í viðtali, sem sr. Guðmundur Óli Ólafsson í Skálholti átti við Margréti Halldórsdóttur, og sem birtist í Bergþór í desember 1963, minnist Margrét þeirra hjóna svona:

Góður maður. Sem barn held ég, að ég hafi einna fyrst gert mér grein fyrir því, að Einar Kjartansson í Skálholti væri eitthvað meira heldur en aðrir menn. Hann var þá hreppstjóri,— stór maður, gerðarlegur og laglegur og sérstaklega bjart yfir honum, — fjarskalega mikið glæsimenni, hugljúfur og barngóður.

Hann var mikill vinur foreldra minna og kom oft að Hrosshaga. Ég vissi, að pabba þótti afar vænt um þau bæði, hjónin. Kona hans hét Helga Hjörleifsdóttir. Þau höfðu komið austan undan Eyjafjöllum, ég held frá Drangshlíð. — Þau hættu búskap og fóru frá Skálholti sumarið, sem jarðskjálftarnir urðu, 1896. Ég man, að þau komu að Hrosshaga til að kveðja. Það var þurrkur og var verið að hirða, og þann sama dag byrjuðu jarðskjálftarnir. — Þau fluttust til sonar síns, séra Kjartans í Holti. — Ég man ekki, hvort Sigurjón, sonur þeirra, bjó ár eftir það í Skálholti. Ég held það.

Þau hjónin voru gæða manneskjur bæði tvö. Þau gátu ekkert aumt séð, en vildu leysa hvers manns vanda, einstaklega miklar mannúðar manneskjur. Þau urðu þessvegna aldrei rík, en höfðu talsvert umleikis. Hann var líka fjarska mikið á ferðalögum, og var þá glaður og höfðinglegur í fasi. Það var ekki laust við að sumum fyndist eins og dálítið loft í honum. Hann var ekki meiri bóndi en það. En okkur krökkunum þótti Einar í Skálholti mikill höfðingi.

Dálítið var hann vínhneigður. Pabbi var alveg laus við alla brennivínslöngun og hafði heldur ógeð á víni og vínmönnum, en Einar átti alltaf vísa fylgd hans, þegar hann kom við í Hrosshaga á heimleið. Einkum var það, þegar hann var að koma úr réttum, að hann vildi verða heldur seint á ferð. En samferðafólkið varð aldrei hrætt um hann, þótt hann yrði á eftir, því það vissi, að hann átti vísa fylgd heim í hlað í Skálholti. — Einar hefur efalaust kunnað að meta þetta, því að hann átti einhvern tíma að hafa sagt: „Dóri minn í Hrosshaga er svo góður maður sem einum syndugum manni er unnt að vera."

Guðmundur Erlendsson og Þórunn Stefánsdóttir

Guðmundur Erlendsson og Þórunn Stefánsdóttir

Guðmundur Erlendsson (1865-1949) og kona hans Þórunn Stefánsdóttir (1862-1941) komu í austurbæinn 1897 með tvö börn sín, Sigrúnu (1895-1978) og Stefán (1897-1982). Þau höfðu áður búið á Brjánsstöðum, þar sem Guðmundur fæddist. Hann hafði tekið við búi eftir móður sín 1891 og þau Þórunn gengu í hjónaband 1893. Hún var frá Mosfelli.

Þau hjón stöldruðu stutt við í Skálholti, en þau festu þau kaup á Skipholti í Hrunamannahreppi og fluttu þangað vorið 1901.

Í Búnaðarriti 1901 úr skýrslu Sigurðar Sigurðssonar ráðunauts Búnaðarfélags Íslands:

Úr Villingaholtshreppnum fór jeg 16. dag októbermán. og upp í Hrunamannahrepp, að Skipholti. Guðmundur Erlendsson, bóndi í Skálholti, sem fest hefur kaup á nefndri jörð og flytur þangað í vor að öllu forfallalausu, fór þess á leit við „Búnaðarfjelag Íslands", að lána sjer mann til þess að gjöra þar mælingar og ýmsar aðrar athuganir. Tilgangur minn með ferðinni upp í Hrunamannahrepp var því sá, að verða við þessari beiðni Guðmundar..... Guðmundi Erlendssyni er trúandi til að koma þar einhverju áleiðis, er hann sezt þar að, jafnmikill dugnaðarmaður sem hann er í hvívetna;

Jón Bergsson og Hallbera Jónsdóttir með börn sín átta.

Næst komu við sögu í vesturbænum í Skálholti hjónin Jón Bergsson (1843-1924) og Hallbera Jónsdóttir (1848-1924). Með þeim voru 8 börn þeirra:
Bergur (1877-1921) síðar bóndi á Helgastöðum,
Sigríður (1878-1958) síðar húsfreyja og ljósmóðir á Bergsstöðum, en lengst af á Syðri-Gegnishólum,
Jónína (1880-1970) húsfreyja í Reykjakoti, Kotstrandarsókn,
Ísleifur (1883-1906) drukknaði þegar fiskibátur fórst í Vestmannaeyjum,
Ólafur (1884-1916) trésmiður í Skálholti,
Jón (1886-1965) bóndi í Reykjakoti, Kotstrandarsókn 1930,
Guðbjörg (1887-1976) húsfreyja á Grjótlæk, Gaulverjabæjarhreppi, síðan á Grund á Stokkseyri og
Guðleif (1888-1972) síðar Lövdal, húsfreyja í Reykjavík.

Í minningargrein um Jón í Lögréttu, 13. janúar, 1926, segir svo, meðal annars um þessa fjölskyldu:

Hinn 19. ágúst f. á. andaðist að Skúfslæk í Flóa merkisbóndinn Jón Bergsson, nær áttræður að aldri. Honn var fæddur í Múlakoti á Síðu, og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Bergi og Guðleifu. Bergur var sonur Jóns hospítalhaldara á Hörgslandi Bergssonar prests, er átti Katrínu, dóttur síra Jóns Steingrímssonar.

Árið 1873 fluttist hann að Hólmum í Landeyjum og gekk þar að eiga Hallberu dóttur Jóns bónda, er þar bjó, þá unga og bráðmyndarlega stúlku, enda varð hún hin mesta sóma- og myndarhúsfreyja. Um sama leyti munu þau ungu hjónin hafa reist bú á Hólmum og bjuggu þar myndarbúi til vorsins 1901.

Hreppsnefndaroddviti og um leið einn aðalforvígismaður sveitarinnar var hann lengst af þann tíma, er þau bjuggu á Hólmum, og í sem fæstum orðum sagt var hinn mesti myndarbragur á heimili þeirra hjóna, þrátt fyrir mikla ómegð og frekar erfiðan efnahag, einkum hin fyrstu búskaparár þeirra.

Vorið 1901 fluttust þau hjón búferlum að Skálholti (hálflendunni) og bjuggu þar rausnarbúi til 1911, er þau ljetu af búskap, hann þá orðinn sjónlaus. þegar hjer var komið fluttust þau hjónin að Helgastöðum á Skeiðum með Bergi syni þeirra og konu hans.

Nokkrum árum síðar flutti Bergur frá Helgastöðum að Hurðarbaki í Flóa og gömlu hjónin með. Eftir eins eða tveggja ára dvöl þar dóu bæði ungu hjónin, Bergur og kona hans, í sömu vikunni, og ljetu eftir sig 2 ungar dætur. Er auðsjeð að dauflega hefir þá litið út fyrir gömlu hjónunum, hann þá búinn að vera blindur í mörg ár, og þau áður búin að sjá á bak mjög efnilegum 2 sonum sínum, er þeir voru að komast á þroskaskeiðið, en alt þetta báru þau hjón með hinni mestu stillingu og rósemi. þegar þau urðu að sjá af Bergi og tengdadóttur sinni ofan í gröfina, lá við borð, að heimilið yrði að leysast upp, en svo varð þó ekki, því 2 börn gömlu hjónanna, Jón og Jónína, voru einnig með þeim á Hurðarbaki og rjeðust í að halda heimilinu saman, og var þó við lítil efni að styðjast, en frá Hurðarbaki fluttu þau strax á næsta vori að Skúfslæk með foreldra sína og ungu stúlkurnar, sem fyr voru nefndar, og hlúðu að þeim mjög sómasamlega meðan þess var þörf. Hallbera mun hafa andast rúmu ári á undan manni sínum.

— Alls eignuðust þau hjón 11 börn, en nú eru eigi nema 5 þeirra á lífi, öll mannvænleg. Allir, sem nokkuð kyntust Jóni, munu minnast hans með virðingu og söknuði, þeir hljóta að muna hinn hugumstóra, þróttmikla drenglynda, góðláta og síglaða vin, enda er eigi ofsagt, að hann hafi notið almenns trausts og virðingar allra, sem nokkur kynni höfðu af honum, og þeir munu ávalt muna hann og konu hans með þakklátum vinarhug. Jeg hefi ekk sjeð getið um andlát þessara sæmdarhjóna í neinum af blöðum landsins, og því bið jeg Lögrjettu fyrir þessar línur, þó þær komi seint og ver af hendi leystar en vera átti.

Einn af vinum og frændum hins látna.

Eftir Jón og Hallberu tóku við búskap í austurbænum, árið 1911, þau Marel Halldórsson frá Bræðratungu (1868-1954) og Valgerður Vigfúsdóttir (1873-1924?). Þau voru barnlaus.

Marel var sonur Halldórs Þórðarsonar bónda í Bræðratungu og seinni konu hans, Margrétar Halldórsdóttur.

Marel og Valgerður stöldruðu við í 5 ár, eða til 1915 og ekki verður annað séð en þau hafi flutti til Reykjavíkur, en þar var starfaði Marel sem verkamaður 1930.

Jórunn Halldórsdóttir

Jórunn Halldórsdóttir

Árið 1916 fluttu ung hjón í austurbæinn, Jón Ólafur Gunnlaugsson (1890-1979) og Jórunn Halldórsdóttir (1892-1919) ásamt þrem ungum börnum sínum, sem voru:

Þuríður (2) (1913-1996) Hún var fósturbarn að Kiðjabergi 1930 síðar hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, Sörensen.
Sophia/Soffía (1) (1915-1917) lést eins árs.
Gunnlaugur Jón Halldór (0) (1916-1919) lést þriggja ára.

Jón var bróður Skúla Gunnlaugssonar bónda í Bræðratungu, sem lengi var oddviti í Biskupstungum.

Jón Ólafur Gunnlaugsson

Jón Ólafur Gunnlaugsson

Baldur Möller fjallaði um ævi Jóns í minningargrein í Morgunblaðinu 2. sept. 1979. Þar segir, meðal annars:

Jón Ól. Gunnlaugsson, fyrrv. stjórnarráðsfulltrúi, lézt á sjúkrahúsi 23. f.m. nærri 89 ára.
Hann fæddist 8. október 1890 að Kiðjabergi í Grímsnesi, sonur hjónanna Gunnlaugs óðalsbónda þar Þorsteinssonar kansellíráðs Jónssonar, og eiginkonu hans Soffíu Skúladóttur prófasts Gíslasonar að Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Hann stundaði nám í Reykjavíkur menntaskóla en síðan í lýðháskólanum í Askov og loks á Ladelund búnaðarskóla.
Að loknu námi 1912 hóf Jón búskap en gekk jafnframt að eiga unnustu sína, Jórunni Halldórsdóttur bónda Jónssonar í Þorlákshöfn.
Varð Jón þá bóndi á þrem nafnfrægum býlum næsta áratug, Hjalla í Ölfusi, Minniborg í Grímsmesi og Skálholti í Biskupstungum.
Jórunn dó 1919, aðeins 27 ára, og varð Jón þá afhuga búskap að sinni, þó hann brygði ekki búi í Skálholti að fullu fyrr en 1922. Hafði hann þá tekið við, frá 1. maí 1920, starfi í skrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytis og starfaði þar til 1923, er hann tók við starfi í atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti og stóð þar um árabil fyrir sjúkramáladeild.
Árið 1950 varð Jón aftur starfsmaður dóms- og kirkjumálaráðuneytis og annaðist hin síðari árin útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, en hann lét af störfum vegna aldurs eftir áramótin 1960—61.

Þá segir Gísli Sigurbjörnsson þetta, m.a. í minningargrein í sama blaði:

Jón Gunnlaugsson var athugull og ráðsnjall maður, sem gott var að starfa með. Áhugi hans á vandamálum smælingja, aldraðra og vanheilla var mikill og lagði hann gjörva hönd á plóginn til úrlausnar mála. Þáttur hans í störfum Góðtemplara var mikill og farsæll og verður efalaust lengi í minnum hafður og þá ekki síður barátta hans og störf í þágu vangefinna, en hann var einn stofnenda Skálatúnsheimilisins í Mosfellssveit.

Jörundur Brynjólfsson

Jörundur Brynjólfsson

Jörundur Brynjólfsson (1884-1979) og kona hans Þjóðbjörg Þórðardóttir (1889-1969) voru komin undir fertugt þegar þau komu í Skálholt árið 1922. Með þeim komu börn þeirra, Haukur (1913-2002), Guðrún (1916-1998), Guðleif (1916-2000) og Þórður (1922 - ).

Í Tímanum birtist minningargrein eftir Ágúst Þorvaldsson, alþingismann, 15. des, 1979:

Árið 1919 gerði Jörundur breytingu á högum sínum, flutti úr Reykjavík og gerðist bóndi austur í Biskupstungum, á jörðinni Múla. Ástæðurnar fyrir þessu voru tvær. Í fyrsta lagi, að ofarlega í huga Jörundar bjó löngun til búskapar í sveit, en í öðru lagi mun það þó hafa vegið þyngra, að hann vildi láta börnin sín alast upp í sveit og venjast störfunum þar. Umgengni við jörðina og dýrin.

Jörundur kvæntist 20. október 1910 Þjóðbjörgu kennara Þórðardóttur trésmiðs í Reykjavík, Narfasonar og konu hans Guðrúnar Jóhannsdóttur. Þau Þjóðbjörg eignuðust nokkur börn, sem öll hafa orðið kunnir borgarar og góðir Íslendingar. Þau hjón skildu og Jörundur kvæntist aftur.

Var síðari kona hans Guðrún Dalmannsdóttir og eignuðust þau einn son: Gauk prófessor í lögum.

Eftir þriggja ára búskap að Múla flutti Jörundur vorið 1922 að Skálholti í sömu sveit og þar bjó hann stórbúi i 26 ár.

Frá Skálholti fór hann árið 1948 vegna þess, að þar stóð til að setja á stofn bændaskóla, varð hann því að víkja af staðnum, en þó hann væri þá kominn nokkuð á sjötugsaldur var hugur hans óbugaður til búskapar og stórræða. Réðist það þá, að hann fékk stórbýlið Kaldaðarnes í Flóa keypt og flutti þangað.

Hér er látið staðar numið í bili, en ábúendasaga í Skálholti frá því Hannes Finnson var þar biskup og til þess tíma er Skálholtsjörðin er komin í eigu þjóðarinnar, eða kirkjunnar. Það er önnur saga.

Uppfært 10/2021