Um vefinn

Aðdragandinn að tilurð þessa vefs nær til ársins 2012, þegar sú hugmynd birtist í kolli mínum að hefja söfnun á upplýsingum um alla íbúa Laugaráss frá því foreldrar mínir fluttu þangað vorið 1946 og voru þá meðal fyrstu íbúa á staðnum.

Í upphafi nýtti ég mér ritið Sunnlenskar byggðir, sem Búnaðarsamband Suðurlands gaf út 1980 í tilefni af 70 ára afmæli sambandsins. Þetta verk þróaðist síðan áfram og úr varð að ég hóf að birta samantekt mína í blaði Ungmennafélags Biskupstungna, Litla Bergþór, 35. árg. 1. tbl. 2014. Umfjöllun um einstaka hús eða býli í Laugarási hefur síðan birst í blaðinu, sú síðasta í 39. árg., 1. tbl. 2018, en þá er ég búinn að taka safna upplýsingum um öll íbúðarhús eða öll býli sem stofnuð voru í Laugarási, til aldamóta.

Ég var strax ákveðinn í því, að ég myndi ekki endilega stefna að því að gera vefinn sagnfræðilega skotheldan, enda ekki sagnfræðingur. Mér var meira í mun að halda til haga upplýsingum; búa til einhverja heillega mynd af þessum litla og unga stað. Ég hef viljað leggja áherslu á fólkið sem hér hefur átt eða á leið um á einhverju skeiði ævinnar. Nú er bara að vona að það markmið náist.

Fljótlega eftir að ég hófst handa við þetta verkefni fór ég að velta fyrir mér hve langt ég treysti mér til að ganga við ritun þessarar sögu og í hvaða formi ég teldi réttast að geyma það. Niðurstaða mín var sú að stefna á að setja upp vef um Laugarás þar sem finna mætti allt það helsta sem um hann væri að segja. Jafnframt hóf ég að taka saman efni um aðra þætti sem þorpinu tengjast eða hafa tengst, safnaði gögnum af vefnum timarit.is, hjá Héraðsskjalasafni Árnesinga á Selfossi, Borgarskjalasafni Reykjavíkur, hjá  fyrrverandi og núverandi íbúum Laugaráss í gegnum hóp sem ég stofnaði á facebook undir nafninu Laugarás - þorpið í skóginum, og facebook-hópnum: Laugarásbúar fyrr og nú. Ég stofnaði lokaðan hóp á facebook Barnaheimili RKÍ, Laugarási  þangað sem ég bauð fyrrum starfsfólki og börnum.

Mér tókst að verða mér úti um heilmikið myndefni og upplýsingar um byggingu Hvítárbrúarinnar frá Vegagerðinni. Það var Viktor A. Ingólfsson útgáfustjóri á þeim bæ sem var mér sérlega hjálplegur.

Það lá strax fyrir að ég myndi ekki skrifa allt efni sem á vefinn færi, einn og sjálfur, heldur leita til fólks um skriftir eða fá heimild til að nýta efni sem það hafði unnið. Þannig leyfði Bjarni Harðarson mér að birta hér greinar sem hann tók saman á æskuárum um sögu Laugaráss og örnefni þar. þessar greinar hafa áður birst í Árnesingi, riti Sögufélags Árnesinga II, 1992 (bls 167) og III, 1994 (bls. 179).

Þær Geirþrúður Sighvatsdóttir og Svava Theodórsdóttir leyfðu mér að nýta viðtöl sem þær höfðu tekið fyrir Litla Bergþór, blað Ungmennafélags Biskupstungna.

Sigurður Erlendsson, Jóhanna Bríet Ingólfsdóttir og Bergljót Þorsteinsdóttir veittu mér upplýsingar um starfsemi sláturhússins og lásu síðan yfir og fjölmargt fólk sem starfaði við Barnaheimili Rauða krossins, eða dvaldi þar sem börn, dýpkaði verulega sýn mína á það starf sem þar fór fram.

Þegar ég hafði ákveðið að samantekt þess efnis sem til var orðið og til yrði, skyldi vera veflægt, kom að því að ég þurfti að verða mér úti um lén og auðvitað kom varla annað til greina en lénið laugaras.is. Þar kom lítilsháttar babb í bátinn því það var Félagsþjónustan í Uppsveitum Árnessýslu sem réði yfir því. Hún hætti hinsvegar að nýta það og forráðamenn Laugaráshéraðs, sem um þessi mál véla, veittu mér heimild til að nýta lénið fyrir það efni sem ég vildi koma þar fyrir.

Eftir þetta er að verða til mikið efni í myndum og máli og ég hef gert áætlun um að vefurinn verði fullbúinn, eftir því sem hann getur nokkurntíma orðið fullbúinn, á fyrri hluta árs 2020.

 
Páll M. Skúlason

Páll M. Skúlason

Guðný Þórfríður Magnúsdóttir

 

Fyrir utan þá sem að ofan eru nefndir og sem hafa aðstoðað mig við þetta verk í smáu og stóru, vil ég nefna Uppbyggingarsjóð Suðurlands, sem hefur styrkt vinnuna og Guðnýju Þórfríði Magnúsdóttur frá Hveratúni, sem setti vefinn upp og  veitti mér ráðgjöf varðandi skipulag hans.

Tileinkun:

Þessi vefur er tileinkaður foreldrum mínum, þeim Guðnýju Pálsdóttur (1920-1992) og Skúla Magnússyni (1918-2014), Hveratúni.

Páll M. Skúlason
Kvistholti

uppf. 09.2018

 
 

Sendu okkur línu

 
Nafn *
Nafn