Guðmundur Óskar Einarsson (1893-1967)

Uppruni og starfsferill

G. Óskar Einarsson

G. Óskar Einarsson

Óskar var Rangæingur að ætt og uppruna, sonur hjónanna Einars Guðmundssonar (1860-1948) og Guðrúnar Jónsdóttur (1857-1945) í Rifshalakoti og síðar að Bjólu í Djúpáarhreppi.

Hann varð stúdent 1914 og kandídat í læknisfræði 1920. Eftir skamma dvöl erlendis við framhaldsnám, gerðist hann praktiserandi læknir í Eyrarbakkahéraði, árið 1921. Hann var síðan skipaður héraðslæknir í Grímsneshéraði í byrjun árs 1922, fyrstur lækna í héraðinu til að hafa aðsetur í Laugarási, frá vori 1923. Þegar Óskar fékk héraðið var ekki komið hús fyrir lækni í Laugarási og því varð úr að hann fékk inni í Birtingaholti þar til húsið var tilbúið til íbúðar.
Óskar staldraði stutt við í héraðinu, af heilsufarsástæðum.

Árið 1925 fékk hann veitingu fyrir Flateyrarhéraði, þar sem hann starfaði síðan til 1936, eða þar til heilsa hans olli því að hann lét af því starfi. Að því búnu dvaldist hann um skeið á Englandi við framhaldsnám í lungnasjúkdómum og tók eftir það við stöðu deildarlæknis á Vífilsstöðum og var síðar yfirlæknir við berklahælin í Hveragerði og Kópavogi. Þau voru lögð niður 1938 og 1940 og Óskar flutti til Reykjavíkur, en stundaði lítt eða ekki læknisstörfum eftir það.

Óskar átti við vanheilsu að stríða stóran hluta ævinnar og árið eftir að hann fór frá Laugarási var greint frá því í Læknablaðinu að hann dveldi Kaupmannahöfn, til lækninga við magasári sem hrjáði hann.

Óskari var þvert um geð að fara frá Laugarási, eins og fram kemur í endurminningum Sigurðar Sigurmundssonar, Á milli landshorna (útg. 1993):

Óskar læknir var áhugasmur um búskap og hugðist reka gott bú í Laugarási.

En heilsa Óskars læknis leyfði ekki að hann gæti sinnt svo erfiðu læknishéraði. Hann var því ekki nema eitt ár í viðbót - 1924-1925, og sagði héraðinu lausu árið 1925. Hér var framtíðaráætlun hans brotin og eftirsjá hans var mikil. Hann sagði við móður mína: “Með þér hefði ég viljað búa í Laugarási.”

Fjölskyldan.

Óskar Einarsson og Guðrún Snæbjörnsdóttir. Myndin var tekin 1922, um það leyti sem Óskar varð héraðslæknir í Laugarási.

Óskar Einarsson og Guðrún Snæbjörnsdóttir. Myndin var tekin 1922, um það leyti sem Óskar varð héraðslæknir í Laugarási.

Óskar kvæntist Guðrúnu Snæbjörnsdóttur, árið 1921, en þau slitu samvistir og varð ekki barna auðið. Síðari konu sinni, Jóhönnu Magnúsdóttur lyfsala í Iðunnarapóteki, kvæntist hann 1939 og þau eignuðust þau eina dóttur, Þóru Camillu, sem var gift Ara Ólafssyni verkfræðingi.

Persónan

Hér á eftir fer lýsing á Óskari, sem Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri og námstjóri á Flateyri á tíma Óskars þar, sem hann skrifaði í tilefni af sextugsafmæli Óskars:

Jóhanna Magnúsdóttir og Óskar Einarsson med dótturina Þóru Camillu, árið 1946. Mynd úr Mbl.

Jóhanna Magnúsdóttir og Óskar Einarsson med dótturina Þóru Camillu, árið 1946. Mynd úr Mbl.

Í sex ár vorum við Óskar Einarsson saman á Flateyri, nánir kunningjar og samstarfsmenn. Eru ógleymanlegar margar enduminningar frá þeim árum, og rifjast nú margt upp. Ég undraðist oft kjark og karlmennskubrag læknisins, þegar ég vissi hversu vanheill hann var. En áhugi hans á starfinu og öllum verkefnum líðandi stundar, og hinn sterki vilji hans að verða að liði og koma miklu til leiðar, var svo magnaður og karlmennskan svo ódrepandi, að helzt leit út fyrir stundum, að bjóða mætti vanlíðaninni birginn og að allt væri í stakasta lagi með heilsufarið. En því miður reyndist það ekki svo. En aldrei tókst því samt að drepa áhuga hans og starfsvilja, og enn er hann logandi.
Störf Ó. E. á Flateyri voru margþætt. Hann reyndist ágætur læknir, einlægur og traustur, falsaði aldrei staðreyndir, fyrirleit hræsni og hálfvelgju í öllum efnum og öllu starfi. Og hjálpfýsi hans og drenglyndi brást aldrei. En þótt hann reyndist vel hinum sjúku, þá beindist áhugi hans og starf sérstaklega að því, sem mest er um vert í þessum efnum, en það er varðveizla hinnar dýrmætu heilsu og hreysti samborgarans. Þess vegna var hann óþreytandi aðdáandi og fyrirsvarsmaður óbrotinna og einfaldra lifnaðarhátta og heilsusamlegs lífernis, en lét jafnan í ljós óbeit á óhófi og slarki. Og ekkert var honum andstæðara og ógeðfelldara en að sjá unga menn brjóta niður þrek sitt og manndóm með óreglu og ómennsku. Það var og er sannkallað eitur í beinum Óskars Einarssonar. Og svo hitt, að horfa á menn, sem ekki nenna að bjarga sér.
Á Flateyri lét Ó. E. sér ekkert málefni samfélagsins óviðkomandi. Hann sat í hreppsnefnd flest árin, og var um skeið oddviti hennar. Hann var fulltrúi hreppsins í sýslunefnd hin síðari ár sín þar. Og hann var í stjórn Sparisjóðs Önfirðinga flest árin. Og víðar kom hann við.
En ekki var þetta nein sýndarmennska. Hann sat ekki í nefndum fyrir siðasakir eða aðeins til að vera þar, heldur blátt áfram af því, að hann vildi vinna, vinna mikið og gera gagn. Hann varð því lífið og sálin í flestum nefndum og stjórnum, sem hann kom nærri á þessum árum, því að hvorttveggja var, að ekki skorti hann viljann og áhugann, né heldur gáfur og hyggindi. Og þess vegna fékk hann oft miklu áorkað. Enda er það sannast mála, að Ó. E. er ráðsnjall og ráðhollur svo að af ber. Og þá hitt líka að hann hefur yndi af að ráða og að sjá þau ráð vel takast. Enda má segja að fátt hafi það verið stærri og smærri málefna, sem á baugi voru á embættisárum Ó. E. í Önundarfirði, að hann væri þar ekki til kvaddur, að meira eða minna leyti. Því að menn fundu það, að ráð hans voru hyggileg og holl og að vel var ráðið. Og þeir vissu, að óhætt var að treysta honum.

Aðkoma að skólamálum í Biskupstungum

Í tímaritinu Menntamál, sem kom út árið 1925 var birtur fyrirlestur sem Óskar hafði flutt á Vatnsleysu árið áður, . Hann var svohljóðandi:

Börnin og berklaveikin

Í sambandi við skoðun skólabarna þykir mjer hlýða að fara nokkrum orðum um heilsu þeirra, og hvernig jeg álít að bæta megi úr stærsta meininu, án þess þó að ykkur, aðstandendum þeirra, sjeu lagðar neinar nýjar kvaðir á herðar, sem teljandi sjeu.

Jafnframt almennri skólaskyldu og stofnun barnaskóla um land alt, hafa lagst nýjar og áður óþektar skyldur á herðar læknum og leikmönnum, en þær eru, að sjá um, að börnin bíði ekki heilsutjón af skólaverunni. Frá þeim, sem eru þessarar skyldu sinnar meðvitandi, eru altaf að heyrast háværari kröfur um að skólahús sjeu reist í hverju einasta fræðsluhjeraði, og þau skólahús sjeu bæði björt, hlý og rúmgóð. Jeg þarf ekki að skýra nauðsyn þessarar kröfu fyrir ykkur, því að þið þekkið öll, altof vel, hve gersamlega óhæf þau húsakynni oft eru, sem farskólarnir verða að sætta sig við, bæði hjer og annarsstaðar.

Þá sjúkdóma, sem menn hafa tekið eftir að eru sjerstaklega tíðir á skólabörnum, og menn álíta að standi í meira eða minna sambandi við skólaveruna, hafa menn nefnt skólasjúkdóma. Meðal þeirra má nefna hryggskekkjuna, sem títt mun stafa af slæmum skólabekkjum og óhentugum. Sjúkdómur þessi er miklu sjaldgæfari í sveitum heldur en í kaupstöðunum, mun þó því ekki til að dreifa, að skólabekkirnir í sveitaskólunum sjeu nein fyrirmynd, síður en svo, heldur mun styttri skólavera og bætiefnaríkari næring sveitabarnanna, fram yfir mörg kaupstaðabörnin, valda mun þessum.

Þá er blóðleysi talið til skólasjúkdóma, og er víst um það, að enginn sjúkdómur, nema tannskemdir, og ef til vill lúsasýki, er algengari í skólabörnum; en hætt er við, að dulin eða augljós kirtlaveiki eigi ekki lítinn þátt í að stuðla að blóðleysinu, eða jafnvel valdi því, og ætti það í þeim tilfellum rjettilega að teljast undir þann sjúkdóm. Jeg ætla þó ekki að fara að gera lítið úr því, hve skaðlegt heilsu manna, og ekki hvað síst barna og unglinga á þroskastigi, það hlýtur að vera, að sitja meginið af deginum hálfbogin og dofin af kulda og hreyfingarleysi í dimmum, köldum og loftillum skólakytrum. En þetta á sjer enn þá stað víðast í sveitum, og mun ykkur ekki ókunnugt um það.

Loks má telja kirltabólguna. Flest börn munu vera orðin smituð af þeim sjúkdómi löngu fyrir skólaaldur, en á því skeiði og upp frá því, fara afleiðingar þeirrar smitunar að koma greinilegar í ljós, einkum ef börnunum er ofþyngt með miklum lærdómi og inniverum, samfara misjöfnum aðbúnaði í einu eða öllu.

Þessi kirtlabólga, sem jeg hefi nefnt hjer, og í daglegu tali oftast er nefnd kirtlaveiki eða bólgnir kirtlar, er altaf af völdum berklagerla, og eru til ýmsar tegundir af henni. Á ungum börnum sjáum vjer t.d. oft þá tegund, er scrophulosis nefnist. Hún kemur mest fram í sífeldri slímhimnubólgu í vitum barnanna og þarafleiðandi smitun eða rensli úr augum, eyrum og nefi. Ennfremur lýsir hún sjer í þrálátu kvefi og suðu fyrir brjósti, blóðleysi, lystardeyfð og stækkun á kok- og hálskirtlum. Flestir sjúklingar, sem þjást af bein- eða liðaberklum, hafa þá sögu að segja, að þeir í æsku hafi þjáðst af kirtlaveiki þessari. Aftur á móti má nefna aðra tegund, sem mjög er illræmd fyrir hve oft hún breytist í eða hefir í för með sjer lungnaberkla, hún lýsir sjer í því, að börnin eru mögur og krankaleg, blóðlaus og oft lystarlítil, brjóstkassinn langur, mjór og innfallinn og andardrátturinn grunnur.

Milli þessara tveggja aðalflokka, sem stuttlega hefir verið drepið á, eru svo öll hugsanleg millistig: alt frá lítilsháttar blóðleysi og tregum framförum upp í tíð og langvinn hitaköst með eða án kvefs.

Margir vinna bug á sjúkdómi þessum, en hjá fleirum mun þó lifa í kolunum, þó það ef til vill komi aldrei í ljós. Berklabakteríurnar geta haldist lifandi i innvortiskirtlum árum og áratugum saman, og svo geta þær við ofkælingu eða ofreynslu eða önnur tækifæri, þegar lífsþrek manna þver, skyndilega brotist úr hömlum og fargað heilsu manna og lífi.

Jeg gat þess áðan, að það væru berklagerlar, sem yllu kirtlabólgunni, hún er því ekki neinn sjerstakur sjúkdómur eins og fólki hættir við að álíta, heldur berklar á byrjandi stigi og ætti helst að nefnast barnaberklar. Upp úr þessu fyrsta stigi koma svo síðari og illkynjaðri stig berklaveikinnar, svo sem beina-, liða-, heilahimnu-, lífhimnu- og lungna-berklar, og þótt sjerstaklega gildi um þá síðastnefndu, að þeir geri sjaldan vart við sig fyr en á unglings- eða fullorðinsaldri, er það engu síður ætlun manna, að rætur sínar muni þeir jafnan eiga í kirtlabólgu bernskuáranna.

Berklaveikin er þjóðarböl, hún drepur og gerir óvinnufæra fleiri menn af þjóð vorri, en nokkur annar sjúkdómur, og það er langflest fólk á besta skeiði æfi sinnar. Þetta er þjóðartjón mikið og ómetanlegt, en hún gerir þó enn þá meira tjón, þótt sjaldan sje það talið, hún drepur dug og táp úr fjölda manna og veiklar afkvæmi þeirra, þótt þeir komist aldrei á það stig, að kallast sjúklingar eða verði frá vinnu, en þetta er líka tjón mikið.

Það er því ekki að ástæðulausu, að við Íslendingar höfum hafið öfluga baráttu gegn berklaveikinni, en sú barátta virðist mjer vera öflugust í því að eyða fje ríkis- og sýslusjóða, en uppskeran verði ekki að sama skapi. Jeg er þó ekki að gera lítið úr því, að margan manninn auðnast að lækna. En þrátt fyrir alla þessa miklu baráttu, er þó svo langt í frá, að nokkur sigur von sje, eða von um að gera berklaveikina landræka, að telja má að veikin ágerist hröðum skrefum, svo að fyrir hvern einn, sem læknist komi tveir nýir sjúklingar. Það er því öðru nær, en að nokkuð miði á leið með þessari bardagaaðferð; en sje betur að gætt, er þess heldur ekki að vænta, því að undanteknum allströngum lögum og lagabókstöfum um að fjarlægja berklaveika menn frá börnunum eða öfugt, höfum vjer í allri baráttunni alveg gleymt gamla spakmælinu í SnorraEddu, að á skuli að ósi stemma. Allan þann langa tíma, sem svæsnari stig berklaveikinnar (svo sem lungnaberklar) eru að þróast í kirtlum barna og unglinga, hreyfum vjer hvorki hönd nje fót börnunum til hjálpar, og þó sjáum vjer, að kirtlaberklarnir eru svo auðlæknanlegir, að flest vinna bug á þeim, en hin, sem í valinn falla síðar, vantar um þetta skeið lang flest að eins herslumuninn.

En hvernig er þá hægt að hjálpa börnunum um þennan herslumun, hvernig er hægt að hjálpa þeim um það lóð á metaskálina, sem myndi tryggja þeim heilsu og líf gegn hvíta dauðanum — munið þið spyrja. Jeg svara hiklaust, jeg get bent ykkur á veg til þess, en sá vegur hefir tvær álmur og þarf helst að þræða báðar. Hin fyrri er fullkomið hreinlæti, björt og góð húsakynni, gott og kröftugt fæði, hæfileg vinna og mikil útivera. Þetta eru þær kröfur, sem vjer fátæktar vegna, getum hvergi nærri fullnægt, en þó er jafn sjálfsagt, að hafa þær stöðugt hugfastar, því að hver sá, sem vill vernda heilsu barna sinna, verður að kappkosta, eftir því sem hann hefir vit og getu til, að komast sem næst því að fullnægja þeim. Vjer sjáum því að þessi álman mun reynast flestum torsótt, en því torsóttari sem hún er, því meiri nauðsyn er vissulega að þræða hina leiðina hiklaust til enda, en hún er í því fólgin að herða líkamann og styrkja í baráttunni við berklasmitunina, svo að veikin nái aldrei að fasta rætur.

Ef sterkur stofn hefði ekki í upphafi bygt vort kalda og hrjóstuga land, myndum vjer, greinar þessa stofns, fyrir löngu fúnir eða fallnir í baráttunni við sult og seyru; en til eilífðar lifum vjer ekki á þessum efniviði. Sjálfir verðum vjer að kappkosta að viðhalda og efla hreysti vora. Ef vjer vanrækjum þetta er fyrirsjáanlegt að berklaveikin mun á næstu árum taka mjög hörðum tökum á sveitum þessa lands. Óblíða íslensku náttúrunnar og erfiðir hagir manna ljetta henni áreiðanlega gönguna inn á hvert sveitaheimili.

Vjer getum á engan hátt hert líkamann betur, en með ljós- og vatnsböðum, einkum þeim fyrnefndu. Ljósböð má fá frá quartz og kolbogalömpum, sem lýstir eru með rafmagni, hinir síðarnefndu þykja betri, enda líkist ljós þeirra meira því ljósi sem best er og ódýrast, en það er sjálft sólarljósið. Það eigið þið að nota til þess að styrkja börn ykkar og unglinga í baráttunni við berklaveikina. Ljósið eykur blóðið, en við það eykst öll efnabreyting líkamans, en aukin efnabreyting hefir í för með sjer hreysti og þor.

Jeg hefi áður opinberlega leitast við að sýna fram á, að sólböð væru ugglaust ráð við barnaberklum (kirtlaveiki), og það besta ráð sem vjer þektum við byrjandi og langvinnum (chroniskum) lungnaberklum. Jeg fer ekki frekar út í þetta hjer, enda munu þeir vera til meðal ykkar, sem þekkja það orðið af eigin reynslu.

Sólin er það lóð á metaskálinni, sem getur trygt börnum ykkar heilsu og líf gegn hvíta dauðanum og fylgikvillum hans.

Þá vaknar spurningin hvernig þið getið notað þetta lækninga- og hreystivekjandi afl sólarinnar. Á sumrum er oft mögulegt að fá sjer sólböð úti í skjólgóðum, sólríkum hvömmum eða tilbúnum byrgjum, en þá, um bjargræðistímann, hafa menn sem starfhæfir eru, öðrum hnöppum að hneppa, en að sóla sig eða sjá um að börnin geri það. Á útmánuðunum, þegar á norðan blæs hjer, eru oft sólríkir dagar, jafnvel sterkara sólskin en um hásumarið, því að geislunum veitist svo auðvelt að komast í gegnum loftið, þegar það er kalt og saggalítið, en þá er líka kuldinn svo mikill úti og inni, og gluggarnir á baðstofunum svo litlir, að þá er ekki heldur í lófa lagið að stunda sólböð í heimahúsum.

En það ráð er til við þessu, að þið reisið myndarlegan heimavistarbarnaskóla, ásamt skála til þess að sóla börnin í. Þetta getið þið gert fyrir hina svonefndu vatnspeninga, sem þið nú á annað ár hafið verið að reyna að losna við í lýðskólann fyrirhugaða, en eftir öllum sólarmerkjum að dæma, munu þeir ekki verða þegnir, með þeim skilyrðum sem þið hafið sett. Á engan hátt getið þið betur varið peningum þessum, en til þess að tryggja líf og heilsu barna ykkar og annarra afkomenda, fyrir plágu þeirri, sem þegar er orðin hjer sveitarplága og þó á eftir að rumska fastar við ykkur, ef þið bíðið eftir því. Lítið mun þeim, sem eiga að sjá á bak heilsu sinni, gagna þótt hreppsfjelagið geymi þessi þúsund í kistuhandraða sínum, og ljettvæg huggun þeim, sem eftir eiga að sjá á bak börnum sínum og ástvinum.

Heimavistarskólinn ætti að standa nálægt hver, bæði hann og sólarskálinn ættu að vera hitaðir upp með vatni eða gufu frá þeim hver. Þá daga síðla vetrar, er sólar nyti vel, ættuð þið svo að fela kennaranum á hendur að láta öll börnin, eða að minsta kosti öll, sem nokkur kirtlaveikisveila er í, sóla sig og baða, því að auðvitað má það ekki gleymast, að útbúa skólann ykkar með baðáhöldum.

Í stuttu máli: Þið eigið að gera skólann þannig úr garði, að börnin sæki þangað ekki einasta andlega fræðslu, heldur einnig og ekki síður, líkamlega og andlega hreysti.

Á sumrum gæti svo slíkt skólahús verið tilvalið hæli fyrir kirtlaveik smábörn, en þörfin fyrir þannig sumarhæli er afar brýn, einkum fyrir kaupstaðina.

Jeg get ekki stilt mig um að bæta því við, þótt ekki komi það beint þessu máli við, að jeg get sannað ykkur með mörgum dæmum, að með vatns-, loft- og sólböðum er hægt að herða líkamann gegn fleiru en berklunum. Það má einnig á þann hátt losna við kvefsmitun og þær lungnabólgur, sem upp úr því koma, og er það út af fyrir sig ekki lítils virði, því að þótt einfalt kvef sje allajafnan hættulaust heilbrigðu fólki, verða kveflungnabólgurnar hreint ekki fáu ungu fólki að bana.

Jeg fer nú að ljúka máli mínu, og fel það hreppsnefndinni og öðrum góðum mönnum, sem á mál mitt hafa hlýtt. Hjer er mikið og göfugt verkefni, sem bíður þess að þið beitið ykkur fyrir því, og leysið það af hendi. Því til sönnunar, að þörfin sje brýn, skal jeg enn taka það fram, að meiri hluti barna hjer hafa kirtlaveikisvott, eða eins og jeg tók fram áðan að rjett væri að nefna það, hafa barnaberkla, þ. e. berkla á fyrsta og lægsta stigi. Hve mörgum af þessum börnum auðnast að vinna bug á smitun þessari veit jeg ekki, reynslan hefir sýnt, að meiri hlutanum tekst það, en hitt veit jeg, að sum af þessum börnum á berklaveikin eftir að gera óvinnufær og skapa aldurtila, nema þið þegar hefjist handa. Jeg hefi nú bent ykkur á hvernig þið getið hjálpað börnunum um herslumuninn til þess að yfirvinna berklana á byrjandi stigi. Ætlið þið svo lengur að horfa á, með hendur í vösum, meðan þessi erkifjandi er að kúga og drepa afkomendur ykkar?

Tungnamenn virðast hafa tekið fyrirlesturinn alvarlega og má segja að hann hafi orðið til þess að tveim árum seinna var samþykkt að hefja byggingu á heimavistarbarnaskóla í Reykholti.

Hér eru færslur úr gjörðabók Biskupstungnahrepps, þar sem skólamálin eru rædd:

Almennur sveitarfundur í Biskupstungum 18. maí, 1925.

4. Barnaskólamál sveitarinnar. Framsögu hafði oddviti, sr. Eiríkur á Torfastöðum. Kvað nauðsyn barnaskólahúss mjög mikla. Áleit ekki vansalaust að ganga algjörlega framhjá hugmynd Óskars læknis, er hann bar fram á fundi hjer í vetur, að byggja barnaskóla fyrir vatnspeninga sveitarinnar, sem nú voru orðnir um 30.000 kr. Í Reykholti myndi fást blettur undir skólann sveitinna að kostnaðarlausu. Einnig gæti komið til mála að 2 fræðsluhéruð , Biskupstungna og Grímsness, bygðu saman skólahús.
Málið var rætt fram og aftur og þótti öllum margir gallar á farkenslufyrirkomulaginu.
Stefán [Diðriksson] kaupstjóri á Borg, sagði frá reynslu Grímsnesinga. Kvað nokkra óánægju með skólann í seinni tíð, sem meðfram stafaði af ófullkomnu húsnæði. Árlegur rekstrarkostnaður skólans taldi hann myndi vera 12-13 hundruð krónur og voru af því um 400 kr, sem færu fyrir ljós og hita, sem að mestu myndi sparast, ef skólinn stæði við hver.
Nokkrir ræðumenn bentu einnig á ýmsa galla við fastaskólann, svo sem smitun og að ekki væri víst að betri kennarar fengjust að fastaskóla en farskólum, reynslan sýndi það.
Eftir langar umræður kom fram svohljóðandi, sem var samþykt í einu hljóði:

„Fundurinn ályktar að kjósa 3ja manna nefnd, er útvegi sjer þegar allar upplýsingar um hvað kosta muni að koma upp hæfilegum barnaskóla fyrir sveitina og gera allan nauðsynlegan undirbúning undir byggingu hans.“
Í nefndina voru kosnir þeir: Guðjón Rögnvaldsson, Tjörn, Þorsteinn Sigurðsson, Vatnsleysu og Jóhann Ólafsson, Kjóastöðum.
Var nefndinni falið að hafa lokið störfum sínum fyrir haustfund.

Á almennum sveitarfundi sem haldinn var á Vatnsleysu þann 27. október, var þetta bókað um skólamálið:

7. Guðjón R.[Rögnvaldsson] á Tjörn mintist á barnaskólabyggingu fyrir sveitina, og gjörði grein fyrir störfum þeirrar nefndar er kosin var í vor til athugunar á því máli. Nefndir réði í einu hljóði frá að ráðast í byggingu á barnaskóla, að svo vöxnu máli. Bjóst við að varla mundi unt að koma upp skólahúsi, viðunanlegu, fyrir minna en 20.000 kr.

Á almennum hreppsfundi á Vatnsleysu 20. maí, 1926 voru bygggingamál næst á dagskrá:

3. Samkomuhús og barnaskóli:
Mint var á byggingu samkomuhúss, sem Ungmennafjel. hafði áður hugsað um og hreppurinn hafði heitið styrk til, á funsi 18. jan., s.l. Kom fram í umræðum um þetta tilboð frá Jóni Halldórssyni, Stóra-Fljóti, um 2000.00 kr. gjöf til barna skóla, sem bygður yrði í Reykholti. Skyldi fylgja 2 dagsl. af landi, en skólinn yrði að byggjast á þessu ári. Urðu um þetta: byggingu skólahúss og samkomuhúss, miklar umræður og að lokum samþykkt svohljóðandi tillaga:
Fundurinn ályktar að fresta til næsta fundar ákvörðun um byggingu barnaskólahúss, en fram að þeim tíma sje leitað upplýsinga um kostnað við það og annað þar að lútandi.

Á næsta fundi, almennum hreppsfundi á Vatnsleysu, 5. júní, var málið aftur á dagskrá:

5. Barnaskólamálið
Sjera Eiríkur hafði framsöguna og skýrði frá þeim upplýsingur sem nefndin hafði útvegað sjer, næði hjá fræðslumálastjóra og kennara Eystrihreppsmanna, svo og sjera Ingimar á Mosfelli, sem er prófdómari í Grímsnesi.
Urðu um málið töluverðar umræður, fram og aftur. Að lokum kom fram svohljóðandi tillaga frá sjera Eiríki Þ. Stefánssyni:
„Fundurinn ályktar að koma upp föstum heimavistarbarnaskóla á næsta ári og þyggja með þakklæti gjöf Jóns Halldórssonar á Stóra-Fljóti svo og aðrar gjafir sem kunna að berast skólanum.“
Svohljóðandi viðaukatillaga kom frá Jörundi Brynjólfssyni: „ Þegar teikning og áætlun er fengin af skólahúsinu, skal leita samþykkis almenns sveitarfundar áður en byrjað er á byggingu skólans.“

Tillagan, ásamt viðaukatillögunni var borin upp í einu lagi og samþykkt með 29 átkv., 18 voru á móti, 4 greiddu ekki atkv.

Óskar lét til sín taka á ýmsum sviðum eins og eftirfarandi grein sem birtist í Tímanum árið 1925:

Stutt áminning og áskorun

Óskar Einarsson

Óskar Einarsson

Það er hörmulegt að vita, að enn þann dag í dag skuli fólk ná. að smitast af sullaveiki hér á landi, jafn auðvelt og það sýnist þó að koma algjörlega í veg fyrir það, ef menii fengjust ti) að muna eftir þeirri skyldu, sem hvílir á herðum hvers einasta bónda á landinu: að passa að hundar nái aldrei í neitt hráæti af sláturf je.

En það mun ekki þýða mikið að vera að víkja að því að útrýma sullaveikinni, þar sem trassæði manna og dáðleysi stendur svo föstum fótum, að það sem í raun og veru er ekki nema fárra ára verk, verður verið að gaufa við í marga áratugi eða jafnvel öldum saman. Mönnum hættir við að láta allar leiðbeiningar og áminningar eins og vind um eyrun þjóta, þangað tíl menn sjálfir eru orðnir tví- og þrígildir af sullum og naumast hægt að bjarga Iífi þeirra.

Jeg myndi því naumast færast í fang að ýta við dauðamóki því, sem á seinni árum hefir frá allra hálfu færst yfir sullaveikisbaráttu vora, ef eg hefði ekki komið auga á nýja hættu, sem myndi geta haft í för með sér stórkostlega aukningu á sullaveikinni, verði bráður bugur ekki unninn á því að byrgja brunninn áður. Og eg er ekki svo bjartsýnn að ímynda mér að svo fljótt og vel verði brunnurinn byrgður/ að margir nái ekki að hrapa ofan í hann; en ekki veldur sá er varir og má vera að einhverjir noti sér orð mín í tíma töluð svo færri verði aumingjarnir af völdum hirðuleysisins og sullaveikinnar og er þá tilgangi mínum að nokkru náð.

Í grein sem ég síðastliðið vor ritaði í Læknablaðið, benti ég meðal annars á það, hvernig heimaslátrun á sölufé í Grímsnesinu hefði haft í för með sér tíðari orma í hundum þeirra, sem þangað ráku fé sitt til slátrunar. Drög þau, sem til þess liggja rakti ég þar nánar og má af þeim sjá að sama hættan vofir hvarvetna yfir, þar sem almenn en ófullkomin sláturhús rísa upp til sveita.

Nú stendur til heimaslátrun í stórum stíl austur í Rangárvallasýslu í haust, síst mun hættan verða minni þar í mesta sullabæli landsns, ef ekki verða þegar frá byrjun reistar rammar skorður gegn því að hundarnir nái í nokkurt hráæti af blóðvellinum.

Því leyfi ég mér að beina þeirri áskorun til allra góðra manna, en fyrst og fermst til oddvita og sýslunefndanna í Árnes- og Rangárvallasýslum og til þeirra sem fyrir þessum nýju sláturskálum standa, að gera alt sem í þeirra valdi stendur til þess að afstýra því að hætta hljótist af óvarlegri meðferð sullmengaðs sláturs á stöðum þessum, en eina leiðin til þess er í fjórum aðaldráttum þessi:
- Að nokkrir hundaklefar verði reistir við hvern sláturskála.
- Að öllum sem þangað koma verði gert að skyldu að byrgja hunda sína inni í klefum þessum, meðan þeir dvelja þar og þessu verði svo ríkt fylgt fram, að hver sá hundur, er kemur á blóðvöllinn verði tafarlaust drepinn.
- Að nóg sé til af tunnum eða öðrum ílátum til að safna í öllum sullum og sullabrisum. Ílát þessi þurfa að vera svo há að hundar nái ekki úr þeim og svo mörg að ætíð sé eitt við hendina þar sem innyfli eru aðskilin.
- Að sérstökum ábyggilegum manni verði, á hverjum stað, falið á hendur að hafa eftirlit með þessu. Hann sjái einnig um eyðingu sullanna og sullabrisanna, eða með öðrum orðum: við hvert sláturhús sé einn hreinlætis- og heilbrigðisvörður, sem beri ábyrgð á að alt vaði þar ekki út í skít og óreglu.

Óskar Einarsson.

Baráttumaður gegn berklum

Óskar Einarsson

Óskar Einarsson

Það virðist ljóst að Óskar var einstaklega ötull í baráttunni við berkla á Íslandi og má ganga svo langt að segja að hann hafi helgað líf sitt þeirri báráttu.
Í riti SÍBS, Reykjalundi, í júní 1958, er greint frá því að Samband íslenzkra berklasjúkinga hafi gert hann að heiðursfélaga sambandsins:

Á s. l. ári var Óskar Einarsson læknir kjörinn heiðursfélagi Sambands íslenzkra berklasjúklinga. Óskar var yfirlæknir Reykjahælis og síðar Kópavogshælis. Þegar S.Í.B.S. var stofnað, nutu sjúklingar stuðnings yfirlæknisins í smáu og stóru. Hann ók Reykjahælissjúklingunum í bifreið sinni á milli hælanna, ræddi við þá áhugamál þeirra og hvatti eindregið til stofnunar félagsskaparins.
Á stofnþingi sambandsins hélt hann ræðu og benti þar á möguleikann á byggingu vinnuheimilis í líkingu við Papworth í Englandi, sem þar hafði starfað með góðum árangri um árabil.
Um berklaveikina fórust honum orð á þessa leið: Berklaveikinni má útrýma á sama hátt og holdsveiki og taugaveiki. Til þess þarf aðeins samstillt átak lækna og heilbrigðisyfirvalda. Berklasjúklingar fögnuðu þessum boðskap, fundu að þeir gátu orðið liðtækir í þessari baráttu og settu S.Í.B.S. markmiðið: Útrýming berklaveikinnar á Islandi.
Nú þakkar sambandið Óskari ómetanlegan stuðning með því að gera hann heiðursfélaga sinn.

Uppfært 02/2021