Brúalög

Það voru sett sérstök brúalög árið 1919, en þau voru tilraun til að koma skikki á eða setja fram markmið um brúabyggingar á landinu. Í lögunum voru taldar upp á annað hundrað brýr sem ráðgert var að byggja. Í þessum lögum segir:

Landsstjórninni er heimilt að láta framkvæma, eftir því sem vinnukraftur sá, sem vegamálastjórnin hefir á að skipa, og önnur atvik og ástæður leyfa, byggingu brúa þeirra, er taldar eru upp í þessum lögum.

Allt virðist þarna vera fremur opið og óklárt.

Geir Zoëga

Geir Zoëga

Það næsta sem fannst um fyrirhugaðar framkvæmdir við brýr á Íslandi var erindi sem Geir Zoëga, þáverandi vegamálastjóri, flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands.  Þarna greindi Geir frá því, að hann hefði samið frumvarp til laga  um brúargerðir, sem þá hafði verið lagt fyrir Alþingi sem stjórnarfrumvarp.  Í frumvarpinu eru taldar upp allar þær brýr á landinu sem ætlunin var að ráðast í byggingu á, þar á meðal brú yfir Hvítá hjá Iðu, en hún var tilgreind sem ein níu brúa yfir stórvötn á landinu. Auk hennar var nefnd, á Suðurlandi, endurnýjuð brú yfir Þjórsá.

Þetta var auðvitað gott og blessað, en sannarlega ekki eins einfalt í framkvæmd og það hljómaði, enda stjórnmálin alltaf söm við sig og augljóslega hafa ýmsir þingmenn farið af stað til að þoka málum áfram, hver fyrir sitt kjördæmi. Þetta má glöggt greina í ræðu sem Jón Baldvinsson, þá landskjörinn þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, hélt 1932, en þar sagði hann:

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson

Á verklegum framkvæmdum í landinu er lítið skipulag. Vegalög eru til og brúalög eru til. Allir vita hversu þessi lög eru gegnsýrð af hreppapólitík, og þó það sem verst er, framkvæmdin, á þeim er það líka. Stjórnirnar líta hornauga til þess, hvað getur komið sér vel til að tryggja pólitísk yfirráð í vafasömu héraði, og framkvæmdin oft bundin við. Það, sem kemur sér vel í samkeppninni um kjördæmið, frekar en það, hvað komi að almennum notum. En núverandi kjördæmaskipun býður upp á þetta. Og þingmennirnir, sem venjulega eru áhrifamenn í sínu kjördæmi, eru oft forystumenn í togstreitunni fyrir hérað sitt, jafnvel þótt kröfur þeirra séu blóðugur óréttur fyrir önnur héruð og þeir séu miklu færri, sem hlunnindanna njóta, en hinir, sem óréttinn bíða.

Það er rétt að hafa þessi orð Jóns í huga við það sem á eftir kemur. Það fannst hreint ekki öllum sjálfsagt að Hvítárbrúin yrði byggð.

Tillaga Eiríks

Eiríkur Einarsson

Ekki fann ég, í fljótu bragði, umfjölllun um fyrirhugaða brú hjá Iðu fyrr en  sagt er frá þingsályktunartillögu Eiríks Einarssonar, í apríl 1942, en hún var svona:

 „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta nú á þessu ári gera brú á Hvítá hjá Iðu og heimilar fje úr ríkissjóði, er nægi til þeirrar brúargerðar".

Röksemdir Eiríks lutu að stærstum hluta að samgöngum innan læknishéraðsins, vegna læknisþjónustunnar, þó einnig hafi hann tínt fram fleiri, nokkuð augljós rök fyrir tillögunni.  

Þegar tillagan var lögð fram var ríkisstjórn Hermanns Jónassonar á lokametrunum. Í maí tók við ríkisstjórn undir forystu Ólafs Thors, en hún varð heldur skammlíf og í desember þetta ár tók við utanþingsstjórn undir forystu Björns Þórðarsonar.  Það er því ekki undarlegt að tillagan um Hvítárbrúna hafi ekki fengist samþykkt si svona. Utanþingsstjórnin sat síðan fram í október, lýðveldisárið 1944.

Eitthvað hefur tillagan verið í umræðunni, því í Speglinum, skömmu eftir tillöguflutninginn, sagði:

Brúna, sem Eiríkur vill láta leggja yfir Hvítá, hjá Iðu, þarf að fella í þinginu, ef hún þá er ekki sjálffallin, .......

Spegillinn var, samkvæmt eigin skilgreiningu: Samviska þjóðarinnar, góð eða vond eftir ástæðum og þar með ekki alveg áreiðanlegt rit, þannig séð.

Tillaga Eiríks var tekin fyrir í byrjun árs 1943 og vísað til annarrar umræðu og fjárveitinganefndar. Ekki er fulljóst hvernig henni reiddi af, nema að því leyti, að árið eftir, sjálft lýðveldisárið ritaði Geir Zoëga, ennþá vegamálastjóri, heilmikla grein í þjóðhátíðarblað Morgunblaðsins, þann 17. júní,  þar sem hann greindi frá helstu fyrirhuguðum nýbyggingum í samgöngukerfinu.   Þarna skrifaði Geir um það helsta á Suðurlandi:

 „Á Suðurlandi eru þessir vegir helstir: Krísuvíkurvegur, vegur suður Grímsnes, um nýja stórbrú á Hvítá hjá Kiðjabergi suður á Flóaveg. Vegur frá Skálholti suður yfir Hvítá á nýrri brú hjá Iðu. Vegur úr Hreppum um brú á Þjórsá hjá Þjórsárholti, um Land og Rangárvelli.

Þarna var um að ræða „helztu fyrirhugaðar framkvæmdir“. Hluti af þeim voru sem sagt tvær stórbrýr í uppsveitum, hvorki meira né minna.

Jörundur Brynjólfsson

Jörundur Brynjólfsson

Svo virðist sem ekki hafi allir verið á eitt sáttir um byggingu brúar hjá Iðu og hugmyndin virðist ekki hafa fengið neitt sérstaklega jákvæðar undirtektir. Þingmenn Árnesinga, þeir Jörundur Brynjólfsson og Eiríkur Einarsson fluttu tillögu til þingsályktunar í janúar 1945 um að kannaðir yrðu möguleikar á að flytja gömlu Ölfusárbrúna að Iðu.  Brúin sú var vígð 1891 og hafði því staðið á Selfossi í 53 ár, þegar annar burðarstrengur hennar slitnaði í september 1944, með þeim afleiðingum að tveir mjólkurbílar féllu í ána.   Í greinargerð þeirra með tillögunni sögðu þeir m.a.:

Ölfusá hjá Selfossi: hengibrúin frá 1891; fyrsta brú úr varanlegu byggingarefni á landinu. Ný hengibrú kom í stað þessarar árið 1945. (Mynd af póstkorti)

Áður, er leitað hefir verið á alþingi framlags til brúargerðar á Iðu, hafa hinar neikvæðu undirtektir öðrum þræði stafað af því, að ástæða hefir þótt til að bíða og sjá, hvort eigi veittist bráðlega tækifæri til að bæta úr þessari viðurkenndu nauðsyn með flutningi hinnar gömlu Selfossbrúar að Iðu.

Það var, sem sagt, mismikil ánægja með hugmyndir um brú á Hvítá hjá Iðu, en í greinargerð með tillögunni óskuðu flutningsmenn eftir að gerð yrði úttekt til að skera úr um hvort þetta væri raunhæf framkvæmd. Tillögunni var vísað til vegamálastjóra sem mælti með samþykkt hennar, en sagði: „að brúarstæðið hjá Iðu sje talsvert lengra en Ölfusárbrúin. — En hinsvegar sje ekki útilokað, að nota megi brúna þar efra, með breytingum og endurbótum.

Þingsályktunartillaga Eiríks og Jörundar var í kjölfarið samþykkt úttektin gerð. Niðurstaðan, sem lá fyrir í nóvember var sú, að þessi flutningur Selfossbrúarinnar væri ekki raunhæfur af þrem ástæðum:

Brúin væri og stutt svo nam 30 metrum, járnin í henni væru of ótrygg og að hún væri alltof mjó.

Þar fór það, en Eiríkur og Jörundur brugðust við þessari niðurstöðu með því að leggja fram þessa tillögu í Sameinuðu þingi þann 29. nóvember:

 „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar hefja undirbúning til brúargerðar á Hvítá hjá Iðu í Biskupstungum. Skal brúin síðan reist eigi síðar en svo, að hún verði fullgerð á árinu 1947. Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði".

Ferjustæðið við Iðu 1946. Greina má ferjubát við bakkann nær, Iðuhamar. Hinumegin er Skálholtshamar og síðan sést yfir hverasvæðið í Laugarási og þar má greina gamla bæinn í Hveratúni. Ofarlega vinstra megin sér í barnaheimilið í byggingu. Mynd: Geir Zoëga, varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Ekki verður í fljótu bragði séð hvað varð svo sem um þessa tillögu, en í leiðara Morgunblaðsins í júní 1946 sagði í lofsamlegri umfjöllun um Eirík Einarsson í aðdraganda kosninga:

„Hann hefir trygt nýja brú á Hvítá hjá Iðu. Hann hefir komið því til vegar, að reistur verði myndarlegur búnaðarskóli að Skálholti, þessu fornfræga höfuðbóli“.

Ferjustæðið við Iðu 1946. Vinstra megin er Iðuhamar. Hinumegin er Skálholtshamar og síðan sést yfir að húsum fyrirhugaðs barnaheimilis Rauða kraossins. Mynd: Geir Zoëga, varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Ekki verður annað séð en að tillaga þingmanna Sunnlendinga hafi fengist samþykkt, en svo kom babb í bátinn.
Í umræðum á Alþingi í nóvember 1947, um brúaframkvæmdir, kom fram að brúin yfir Þjórsá (vígð 1895) væri orðin hættuleg og bráðlægi á að byggja nýja. Það varð síðan úr, að farið var í að byggja nýja brú á Þjórsá. Þar með fór sú brú fram úr Hvítárbrúnni í forgangsröðinni og ekki bara hún, heldur einnig brúin á Blöndu.  

Ferjustæðið við Iðu 1946. Greina má ferjubát við bakkann neðst hægra megin, við Iðuhamar. Hinumegin er Skálholtshamar og síðan sést yfir á Laugarásholtið þar sem við blasir læknisbústaðurinn, sem byggður var 1938. Vinstra megin við hann eru útihúsin. Mynd: Geir Zoëga, varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Undir lok fimmta áratugarins voru hugmyndir um brú á Hvítá hjá Iðu komnar það langt að ráðamenn sögðu brúna vera „mjög nauðsynlega“.  Brúin á Blöndu kom samt á undan, eða 1951. 
Þar með höfðu allar stórbrýrnar sem rætt hafði verið um, verið byggðar, nema Hvítárbrúin.

Í tímariti Verkfræðingafélagsins í apríl 1949 ritaði vegamálastjóri grein um Vega- og brúagerðir á því ári og sagði að nokkuð hafi verið unnið að Skálholtsvegi sunnan Hvítár, en þar væri áformað að byggja mikla hengibrú hjá Iðu.

uppf. 12.2019