Læknissetur, læknamiðstöð, heilsugæslustöð á Launréttarholti.

Það er víst algildur sannleikur, að stofnanir hafa tilhneigingu til að stækka. Þörfin fyrir aukna þjónustu vex með tilheyrandi vaxtarverkjum. Það verður ekki dregið í efa að læknishúsið, sem byggt var á Laugarási og tekið í notkun árið 1938, þótti vegleg bygging á sínum tíma og þjónaði vel hlutverki sínu. Það kom þó að því, að aukið viðhald og auknar kröfur til læknisþjónustu urðu til þess, á fyrri hluta árs 1959, að oddvitarnir komust að þeirri niðurstöðu að frekar ætti “að hefja byggingu á nýjum læknisbústað á öðrum stað, frekar en leggja í kostnaðarsama breytingu á húsi, sem mun ekki lengi enn uppfylla þær kröfur sem nú eru gerðar til læknisbústaða.” Þetta var í framhaldi af innleggi héraðslæknisins, Gríms Jónssonar, á fundi nefndarinnar, þar sem hann sagði, “að nauðsynlegt væri að gera ýmsar breytingar í kjallara hússins til þess að bæta aðstöðu við að taka á móti sjúklingum og veita þeim þjónustu. Einnig þyrfti að gera húsinu ýmislegt, svo sem laga þak, gera við hurðir og glugga o.fl.”

Á aðalfundi í ágúst tók nefndin svo formlega ákvörðun um að hefjast handa, með þessum orðum:

Þar sem héraðslæknirinn telur læknisbústaðinn ekki í þannig standi, að viðhlítandi sé, með tilliti til fullkominnar læknisþjónustu, þá vill fundurinn árétta það álit sitt, frá síðasta fundi, að réttast sé að byggja nýtt hús og felur formanni og héraðslækni að vinna að því við landlækni svo fljótt, að hægt sé að hefja byggingu á næsta ári.

Næstu 38 árin urðu síðan tími mikilla breytinga eða þróunar á læknisþjónustu og mikillar uppbyggingar í tengslum við breytta tíma og kröfur. Eðli og inntak starfs og hlutverks oddvitanefndarinnar þurfti að aðlaga sig þessum breytingum, sem von er. Sérstaklega varð starf formanns nefndarinnar umfangsmeira eftir því sem tíma liðu.

Þetta varð síðan upphafið að sögu læknishéraðsins á nýjum stað í Laugarási. Það var ljóst að það ferli sem framundan var myndi kalla á mikla vinnu af hálfu formanns nefndarinnar, sem Skúli Gunnlaugsson, þáverandi formaður, mun ekki hafa treyst sér í og, að því er virðist, var enginn oddvitanna tilbúinn til að taka að sér það verkefni sem framundan var.

Forystukreppa og ný forysta

Nefndinni var því nokkur vandi á höndum þegar hún þurfti að velja sér formann á aðalfundi, sem haldinn var í ágúst þetta ár.

Vegna mikilla fyrirhugaðra framkvæmda gekk erfiðlega að fá nokkurn oddvitanna til þess að taka formennskuna að sér og varð samkomulag við þá Sigmund Sigurðsson [oddviti Hrunamannahrepps] og Jón Eiríksson [oddviti Skeiðahrepps], að þeir tækju að sér framkvæmdastjórn fyrir nefndina.

Það má ennfremur segja að þarna hafi hafist það starf sem Jón Eiríksson sinnti síðan næstu fjóra áratugina, eða svo, sem formaður oddvitanefndarinnar og síðar framkvæmdastjóri, bæði hennar, heilsugæslunnar og hitaveitunnar í Laugarási.

Hluti teikninga Jörundar Pálssonar. Þetta er sneiðing á vesturhlið hússins og gluggarnir tilheyra lækningaálmunni, eins og hún var í upphafi. Síðar var byggt við norðurendann (vinstra megin). Sjá ljósmynd neðar.

Læknisbústaður á nýjum stað

Jörundur Pálsson (1913-1993)

Næstu ár áréttaði nefndin vilja sinn til að framkvæmdir við nýjan læknisbústað hæfust sem fyrst. Árið 1962, í janúar, lá fyrir ákveðin tillaga heilbrigðismálaráðherra og landlæknis um byggingu nýs læknisbústaðar og í framhaldinu var Jóni Eiríkssyni, sem þá var einn orðinn formaður nefndarinnar, falið að staðsetja læknisbústaðinn og láta gera af honum teikningu. Svo gerðist það á fundi nefndarinnar með Jörundi Pálssyni, arkitekt, að þetta fór allt að skýrast:

Guðmundur Sveinsson (1923-2011)

Guðmundur Sveinsson (1923-2011)

Rætt var um staðsetningu hins nýja bústaðar og uppdrátt þann, er fyrir lá.
Samþykkt var að staðsetja læknisbústaðinn
á hæðinni austur af dýralæknishúsinu og ætla fyrir hann þrjár samliggjandi lóðir, eins og þær eru teiknaðar á skipulagsuppdrátt frá skipulagsstjóra ríkisins.
Einnig var tillöguuppdráttur Jörundar Pálssonar samþykktur að öðru leyti en því, að óskað var nokkurra breytinga, til rýmkunar á aðstöðu fyrir starfsemi héraðslæknisins.

Eyþór Ingibergsson (1915-1984)

Það var svo leitað til Guðmundar Sveinssonar, húsasmíðameistara um að hann tæki að sér að sjá um bygginguna - “gera tilraun til þess að ráða hann til þess að byggja bústaðinn” . Guðmundur var fæddur og uppalinn á Ósabakka á Skeiðum.
Þetta gekk eftir og í apríl 1963 var húsið staðsett nákvæmlega og síðan ráðist í framkvæmdir.
Það var auðvitað talsvert verkefni að afla fjármagns, en 1963 var kr. 100.000 veitt til þessa á fjárlögum og læknishéraðið þurfti að afla láns í bönkum og sjóðum, auk þess sem ákveðið var að hækka framlög hreppanna úr kr 20 á íbúa í kr. 40.
Í byrjun árs 1964 var kostnaður við bygginguna orðinn tæplega kr. 900.000 og í það kominn hiti og rafmagn og framundan var múrvinna, en til hennar var ráðinn Eyþór Ingibergsson í Hveragerði.

Sigurgeir Þorsteinsson (1904-2000).

Það stóðu vonir til að nýja læknissetrið yrði tilbúið á síðari hluta ára 1964 og reiknað með að kostnaðurinn yrði sem næst tvær milljónir króna. Það var hinsvegar ekki fyrr en í ágúst, 1965, sem nefndin hóf fund sinn með því að ganga um bygginguna sem þá var að mestu lokið. “Nefndarmönnum leist húsið vera hið glæsilegasta og vandað mjög og vel unnið.” Kostnaðurinn var þá orðinn 3.1 milljón króna og ýmissa leiða leitað til fjármögnunar, meðal annars greint frá því að lán hefði fengist hjá Sigurgeir Þorsteinssyni í Stóru-Mástungu að upphæð kr. 200.000. Þá ákvað nefndin að hækka hækka tillag sitt upp í kr. 100 á íbúa, en á þessu ári voru íbúar í héraðinu 1977 talsins.

Auðvitað þurfti að búa húsið viðeigandi tækjum og að ýmsu þurfti að hyggja varðandi húsnæðið hið innra, eftir því sem reynslan leiddi það í ljós. Allt kostaði þetta sitt og kallaði á að leitað yrði til fjárveitingavaldsins um framlög.

Launrétt 2 - læknamiðstöð og læknisbústaður. Jörundur Pálsson teiknaði. Mynd Páll M Skúlason, 2014.

Starfsfólki fjölgar

Næsta framkvæmdaverkefni nefndarinnar var að byggja íbúðarhús yfir lækni og útbúa íbúð, eftir að samþykkt hafði verið að tveir læknar og hjúkrunarkona skyldu þjóna í héraðinu. Fjölgun starfsfólks kom til bæði vegna mikillar íbúafjölgunar í héraðinu og vegna nýrra laga um heilbrigðisþjónustu nr. 35/1969. Þá þurfti einnig að breyta lækningaálmunni þannig, að þar kæmist fleira starfsfólk fyrir með góðu móti.

Í byrjun árs 1971 lágu fyrir teikningar að nýju íbúðarhúsi fyrir lækni og lengingu lækningaálmu, sem Jörundur Pálsson (1913-1993) hafði verið fenginn til að gera. Jörundur hafði þá staðsett hið nýja íbúðarhús í samráði við Jón Eiríksson og Konráð Sigurðsson. Því var valinn staður fyrir austan læknishúsið sem fyrir var, ofar í holtinu.
Í tengslum við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir var sett á fót byggingarnefnd, sem í áttu sæti formaður oddvitanefndarinnar, oddviti Biskupstungnahrepps og héraðslæknir. Þessi nefnd var einskonar undanfari stjórnar heilsugæslustöðvarinnar.

Íbúðarhús læknis, sem Hilmar Ólafsson teiknaði. Mynd: Páll M. Skúlason, 2014)

Hilmar Ólafsson (1936-1986)

Hilmar Ólafsson (1936-1986)

Sem fyrr segir, hafði Jörundur Pálsson verið ráðinn til að teikna þarna það sem teikna þurfti, en vegna veikinda hans, varð ekkert úr því og í hans stað var Hilmar Ólafsson, arkitekt, fenginn til að teikna íbúðarhúsið. Hilmar var sonur Ólafs Einarssonar, héraðslæknis í Laugarási 1932 - 1947 og Sigurlaugar Einarsdóttur. Jörundur tók þó að sér að teikna stækkun lækningaálmunnar.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar sem þarna fóru í hönd hljóðuðu upp á kr. 3.936.000 fyrir íbúðarhúsið og kr. 700.000 fyrir stækkun lækningaálmu. Enn þurftu hrepparnir á auka framlög sín og ákveðið var að framlög hreppanna fyrir árið 1971 yrðu kr. 250 á íbúa og á sama tíma var ákveðið, í samráði við hreppsnefnd Biskupstungnarepps, að framlag Tungnamanna skyldi verð 25% hærra en hinna hreppanna. Þessi skipan hélst síðan.

Eggert Jóhannesson (1968-2014). Gunnar Kristófersson (1933-2002). Páll Árnason (1932- )

Eggert Jóhannesson, byggingameistari á Selfossi var ráðinn til að byggja íbúðarhúsið og viðbygginguna og framkvæmdir hófust í ágúst 1971 og þeim lauk í september árið eftir. Pípulagnir annaðist Gunnar Kristófersson í Hveragerði og múrverk Ágúst Sigmundsson frá Reykjavík, málun var í höndum Páls Árnasonar á Selfossi og innréttingar komu frá Kaupfélagi V.-Skaftfellinga.

Eftir að nýja lækningaálman var tekin í notkun kom í ljós að skipan þar var meingölluð hvað vinnuaðstöðu snerti, þar sem vantaði samgang milli nýju og gömlu lækningarstofanna.
Það var fallist á að umbóta væri þörf, en “það þurfi að athuga á breiðari grundvelli með aukið starfssvið læknamiðstöðvarinnar fyrir augum, enda verður hér heilsugæslustöð með tveim starfandi læknum samkvæmt nýsamþykktum lögum um heilbrigðisþjónustu.”

Heilsugæslustöð í Laugarási

Þegar þarna var komið, blöstu við breytingar á heilbrigðisþjónustu, en það gerðist með lögum nr. 56/1973. Þau lög tóku gildi 1. janúar 1974 og leystu af hólmi dreifð lagaákvæði um skipan heilbrigðisþjónustu, sjúkrahús og heilsuvernd og var ætlað að efla og einfalda yfirstjórn heilbrigðismála í landinu. Ekki var ljóst, til að byrja með, hver staða læknastöðvarinnar væri gagnvart þessum nýju lögum, aðallega þá vegna bráðabirgðaákvæða, sem þar var að finna. Engu að síður var einhugur um að beita sér fyrir því að ákvæði um heilsugæslustöð tæki gildi frá og með áramótum 1973-4. Á fundi nefndarinnar kvað formaður upp úr með það, að eftir samskipti sín við ráðamenn, lægi það fyrir að stöðin myndi, frá áramótum, “njóta sömu réttinda og fullgild heilsugæslustöð, þó svo bráðabirgða ákvæði með lögunum setti hana á biðlista sem slíka.”

Það varð fljótt ljóst, að lækningaálman var of lítil fyrir þá starfsemi sem hún þurfti að hýsa. Strax árið 1974 sammæltist nefndin um að “ef læknamiðstöðin ætti að þjóna sínu hlutverki, svo vel væri, yrði að stækka lækningaálmu og þá líklega helst til suðurs*, svo að starfsaðstaða fengist fyrir starfsfólk, lækna, hjúkrunarkonu og ritara og pláss fyrir tæki.
(
*ekki er ljóst hvernig unnt hefði verið að stækka stöðina til suðurs)

Það voru gerðar tillögur að viðbyggingu sem gerðu ráð fyrir að byggja 170-360 fermetra við stöðina. Svo tók við bið eftir fjárveitingum til að hægt væri að hefja framkvæmdir. Svo leið og beið án þess að nokkuð gerðist í bygginarmálunum og það var ekki fyrr en í boði sem Heilsugæslustöðin hélt í nóvember 1977, sem Jón Eiríksson tæpti á því í ræðu sem hann hélt af því tilefni, að tími væri kominn til að byggja heilsugæslustöð, en hann sagði þar meðal annars:

Þyrfti að stækka lækningaálmu eða byggja nýja, kaupa röntgentæki o.fl. Tryggja þyrfti stöðu stöðvarinnar í lögum, en stofnun heilsugæslustöðvar í Laugarási var frestað, með lögum, 1973. Þrátt fyrir það hafi stofnunin notið fullra réttinda sem heilsugæslustöð.

Stjórn heilsugæslustöðvarinnar

Árið 1974 var kosin sérstök 5 manna stjórn yfir heilsugæslustöðinni. Fulltrúar hreppanna voru þeir Jón Eiríksson, Gísli Einarsson og Þórir Þorgeirsson og fulltrúar starfsfólks þau Ingveldur Valdimarsdóttir og Guðmundur Jóhannesson. Þeir Jón, Gísli og Þórir sátu síðan í stjórninni meðan þeir voru oddvitar sinna hreppa. Læknarnir skiptu með sér setu í stjórninni og annað starfsfólk valdi einhvern fulltrúa úr sínum hópi. Með þessu var Heilsugæslustöðin í Laugarási orðin sjálfstæð stofnun.

Með lögum árið 1978 var staðfest að heilsugæslustöðin væri orðin fullgild heilsugæslustöð í flokknum H2. Þá var, með lögunum, fækkað í stjórnum heilsugæslustöðva, þannig að í þeim skyldu sitja þrír í stað fimm fulltrúa.

Síðasta stríðið

Sem fyrr segir, þá var það í ræðu sem Jón Eiríksson hélt í boði sem heilsugæslustöðin hélt í nóvember 1977, að tæpt var á því að það þurfi að byggja nýja heilsugæslustöð frá grunni. Í nóvember 1978 skrifaði Jón í erindi til Fjárveitinganefndar Alþingis, meðal annars:

Stutt lýsing á aðstæðum:
Heilsugæslustöðin hefur verið byggð upp þannig:
a. Læknisbústaður og lækningaálma byggð 1963-1965
b. Annar læknisbústaður og viðbygging við lækningaálmu 1971-1972
c. Íbúð fyrir hjúkrunarfræðing og annað starfsfólk 1975-1976
Góðar íbúðir eru fyrir starfsfólkið, en starfsaðstaða er þröng og óhæg og heilsugæslustöðin uppfyllir ekki þær kröfur sem nú eru gerðar til þeirra um húsnæði. Það er álit heilbrigðisráðuneytis og stjórnar heilsugæslustöðvarinnar, að byggja verði nýja heilsugæslustöð.
Heilsugæslustöð 2 er í Laugarási. þar starfa tveir læknar og hjúkrunarkona. Stöðin þjónar nær 3000 manns.

Þarna hófst nær tveggja áratuga barátta fyrir nýrri heilsugæslustöð. Á fundi sínum í júní 1979 samþykkti stjórn heilsugæslustöðvarinnar “að byggð skyldi ný heilsugæslustöð í Laugarási og að sækja um fjárveitingu til hennar nú.” Á aðalfundi skömmu síðar, ákváðu oddvitarnir að þeir skyldu kanna “heima hjá sér hvort hrepparnir væru tilbúnir og hvort tímabært væri, að hefja byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar.” Fyrsta niðurstaða þeirra könnunar leiddi í ljós óskir hreppsnefnda um frekari upplýsingar varðandi byggingar- og rekstrarkostnaðar nýrrar stöðvar.

Áfram hélt stjórn heilsugæslustöðvarinnar að ítreka óskir um nýbyggingu, meðal annars á fundi 1982:

Niðurstöður fundarins urðu að stefna beri að því að byggja nýja heilsugæslustöð og væntir stjórn þess að fjárveiting til byggingar fáist sem allra fyrst því öll vinnuaðstaða í stöðinni er orðin mjög ófullkomin og erfið vegna þrengsla.

Oddvitanefndin samþykkti einnig að halda áfram með þetta mál og á aðalfundi 1982 kom fram, að þeir væru “meðmæltir því að farið verði að vinna að undirbúningi að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar og var samþykkt að þetta mál verði tekið fyrir í hreppsnefndum sem fyrst og óskað eftir svari þeirra fyrir næstu áramót.”

Hreppsnefndirnar brugðust við og frá því er skýrt á fundi í stjórn heilsugæslustöðvarinnar í byrjun árs 1982, með þessum hætti:

Svörin væru öll á einn veg: að hefja beri undirbúning að byggingu og sækja þurfi um fjárveitingu á fjárlögum 1984.
Í bréfi hreppsnefndar Gnúpverjahrepps er minnt á þá miklu þörf sem er á byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða og spurt hvort ekki muni vera rétt að byggja það í tengslum við nýja heilsugæslustöð.
Samþykkt að fela formanni að sækja um fjárveitingu til ráðuneytisins.
Samþykkt að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps láti skipuleggja landsvæði það sem ætlað er undir heilbrigðisþjónustuna með tilliti til væntanlegrar nýbyggingar.
Formaður var með sýnishorn teikninga af heilsugæslustöð og var honum falið að afla frekari teikninga og stefna að ferðalagi til að skoða heilsugæslustöðvar síðar.

Þarna vekur athygli afstaða hreppsnefndar Gnúpverjahrepps um þörfina fyrir hjúkrunarheimili í tengslum við heilsugæslustöðina. Ekki virðist hún hafa fengið einróma undirtektir, ef tekið er mið af því sem ritað er í fundargerð oddvitanefndarinnar í framhaldinu:

Rætt var um hvort heppilegt væri að byggja hjúkrunarheimili í eða í tengslum við stöðina. Ákvörðun var ekki tekin í málinu, en talið rétt að fram fari könnun á þörfinni í hreppunum og eins hvort rekstrargrundvöllur slíks heimilis sé fyrir hendi.

Það er þó greint frá því á fundi nefndarinnar árið eftir (1984) að fram hafi komið “áhugi á fundinum fyrir því, að vel væri athugað um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í tengslum við nýbyggingu heilsugæslustöðvar.”

Næstu árin átti sér stað ýmiss undirbúningur í héraði og meðal annars heimsótti stjórn stöðvarinnar og læknir heilsugæslustöðvar víða um land til að kynna sér húsakost og átta sig betur á hvað myndi helst henta í Laugarási. Þá var stöðugt ýtt við fjárveitingavaldinu og þingmönnum. Svo gerðist það á fundi stjórna heilsugæslustöðvarinnar í byrjun árs 1987 að formaðurinn tilkynnti að fengið hefði verið framlag á fjárlögum til hönnunar nýrrar stöðvar.

Geirharður Þorsteinsson (1934-2017)

Geirharður Þorsteinsson (1934-2017)

Stjórnin var sammála um að teikningar arkitektanna Geirharðs Þorsteinssonar og Hróbjarts Hróbjartssonar væru álitlegastar og var samþykkt samhljóða að leita til Geirharðs Þorsteinssonar um hönnun stöðvarinnar, enda náist við hann samningar um nauðsynlegar breytingar á þeim teikningum sem til eru.
Þá samþykkti stjórn og starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar einróma, að fela sama arkitekt að gera tillöguteikningu að byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á lóð heilsugæslustöðvarinnar í tengslum við nýja stöð.

Geirharður var fenginn til að hanna heilsugæslustöð og gera jafnframt ráð fyrir “dvalarheimili fyrir aldraða á lóð stöðvarinnar.”

Nýr hönnuður?

Þegar hér var komið, kom upp mál sem olli nokkrum vandræðum. Á fund stjórnar stöðvarinnar, ásamt Páli Sigurðssyni, ráðuneytisstjóra og Ingibjörgu R. Magnúsdóttur, frá heilbrigðisráðuneytinu, í nóvember 1988, var mættur byggingafræðingurinn Björgvin Magnússon. Hann hafði þá unnið teikningu að nýrri heilsugæslustöð í Laugarási, sem prófverkefni í námi sínu í Danmörku. Það er skemmst frá því að segja að fundarmenn voru svo ánægðir með teikningar Björgvins að þeir “samþykktu að nota teikningar Björgvins Magnússonar með umsókn um fjárveitingu á næsta ári, en fundarmenn voru sammála um að hún væri álitleg með nokkrum, smávægilegum breytingum.”

Þarna virðist stjórnin hafa verið orðin langeyg eftir teikningum frá Geirharði, sem ekkert hafði bólað á. Í skýrslu sinni á aðalfundi stöðvarinnar í byrjun desember, segir Jón Eiríksson um þetta teikningamál:

Fundarmönnum þótti margt athyglisvert í teikningunum og var form falið að kanna hvort Geirharður Þorsteinsson vildi falla frá ráðningu sinni, ef stjórnin vildi nota teikningu Björgvins.
Þessu hafnaði Geirharður bréflega og ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis segir í bréfi, dags. 18.11., að ráðning Geirharðs sé bindandi fyrir báða aðila og því séu allar umræður um kaup á teikningum úr sögunni.
Nú hefur Geirharður lagt fram tillöguteikningar að nýrri heilsugæslustöð og eru þær til umræðu.

Geirharður skilaði þrem tillögum að afstöðumynd.

Tillaga 1 - 1. nóvember, 1988.

Tillaga 2 - 1. nóvember, 1988

Tillaga 3 - maí/1990

Tillögurnar hér að ofan ættu að skýra sig sjálfar, en eftir því sem leið á biðtímann eftir að heimild og fé fengist frá ríkisvaldinu og með meiri umræðum, varð það úr að hætta að hugsa um einhverskonar dvalar- eða hjúkrunarheimili fyrir aldraða í tengslum við stöðina og einnig var íbúð fyrir afleysingalækni slegin af.
Það var haldið áfram að beita tiltækum ráðum við að þoka málinu áfram næstu árin og það var uppi ákveðin bjartsýni á aðalfundi oddvitanefndarinnar 1991 þegar Jón Eiríksson skýrði frá því að á fundi Heilbrigðismálaráðs Suðurlands hafi verið samþykkt “tillaga um að bygging nýrrar heilsugæslustöðvar í Laugarási [væri] forgangsverkefni á Suðurlandi.”
Það kom hinsvegar engin fjárveiting árið á eftir og á stjórnarfundi stöðvarinnar í byrjun árs 1992 var samþykkt að lýsa miklum vonbrigðum með stöðu mála. Þá var samþykkt að bjóða þingmönnum kjördæmisins í heimsókn í stöðina sem fyrst til þess að þeir sæju með eigin augum hversu þörfin á byggingu væri brýn.

Birtir til

Svo gerðist það, að í fjárlögum fyrir árið 1993 var gert ráð fyrir “kr. 3.000.000 til byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar og því fylgdu fyrirheit ráðuneytis um áframhaldandi fjárveitingu til framkvæmda.”

Tillaga að heilsugæslustöð í Laugarási / GÞ. nóv/1988

Tillaga að heilsugæslustöð í Laugarási / GÞ jan/1989

Tillaga að heilsugæslustöð í Laugarási / GÞ maí/1990

Þorsteinn Geirharðsson (1955 -)

Þorsteinn Geirharðsson (1955 -)

Árið 1993 var unnið í teikningunum og nú kom til sögunnar sonur Geirharðs, Þorsteinn. Hann vann teikningarnar áfram og þær voru samþykktar í oddvitanefndinni í apríl 1993. Á aðalfundi nefndarinnar það ár var lagt fram bréf frá heilbrigðisráðherra, þar sem hann “tilkynnir að fjárveiting muni koma til þess að hægt verði að byrja framkvæmdir á næsta ári.”

Oddvitum var falið að fá samþykki hreppsnefnda til að hefja framkvæmdir á næsta ári [1994] og standa sameiginlega undir 15% af byggingarkostnaði, sem er lauslega áætlaður 80 milljónir

Árið 1994 var kr. 10.000.000 veitt til verksins á fjárlögum og hafist var handa af fullum krafti, en miðað var við að byggingu stöðvarinnar yrði lokið árið 1997. Stjórn stöðvarinnar reyndi að hnika til framkvæmdalokum á fundi sínum í ágúst þetta ár:

Stjórn heilsugæslustöðvarinnar getur fallist á að bygging nýrrar heilsugæslustöðvar hefjist ekki fyrr en 1995, enda verði byggingunni lokið og hún tekin í notkun í árslok 1996, eins og samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir leggur til.

Heilsugæslustöðin í Laugarási, sem vígð var 1997. Arkitektar Geirharður Þorsteinsson og Þorsteinn Geirharðsson. Mynd Páll M. Skúlason, 2014.

Ný heilsugæslustöð var vígð í Laugarási þann 21. júní, árið 1997. Það var 20 árum eftir að ljóst var orðið, að það þyrfti að stækka stöðina umtalsvert.

Árið 1982 lá fyrir samþykki allra hreppanna við tillögu um byggingu nýrrar stöðvar.
Árið 1984 fékkst framlag á fjárlögum til hönnunar nýrrar stöðvar.
Árið 1993 var veitt þrem milljónum til byggingarinnar ásamt loforði um frekari framlög.
Árið 1994 kom 10.000.000 inn í verkið og ákveðið að ljúka því árið 1997.

Jón Eiríksson í Vorsabæ var einn baráttumanna fyrir byggingunni og fylgdi málinu eftir, sem formaður stjórnar heilsugæslunnar og framkvæmdastjóri. Hann skráði framvindu verksins í máli og myndum, sem gerð er grein fyrir á sérstakri síðu.



Uppfært 01/2022