Ábúendur í Laugarási 1820 - 1923

Varðandi ábúendur í Laugarási fyrir 1820 er vísað til samantektar Bjarna Harðarsonar.

Frá 1820 til 1868 bjó sama fjölskyldan í Laugarási.

Hjónin Diðrik Stefánsson (1791-1831) og kona hans Kristín Gissurardóttir (1789-1846) fluttu í Laugarás 1820 en næstu ár þar á undan hafði Diðrik verið húsmaður á Spóastöðum, en var upprunninn í Neðridal í Biskupstungum. Kristín var frá Felli í Biskupstungum.

Þegar þau komu í Laugarás, áttu þau soninn Guðmund (1818-1886), síðar bónda í Laugarási og Kjarnholtum í Biskupstungum. Síðan fæddust þeim börnin:
Gissur (1822-1879), síðar bóndi í Vatnsenda í Villingaholtshreppi og víðar,
Vigdís (1828-1908), sem var síðar húsfreyja á Eiríksbakka og vinnukona í Syðra Langholti og á Ósabakka og
Diðrik (1831-1870) sem varð bóndi í Kálfhaga og síðar Króki í Hraungerðishreppi. Guðni, sonur hans (1864-1940) varð bóndi á Gýgjarhóli í Biskupstungum.

Prestþjónustubók greinir frá því að Diðrik hafi látist úr slagi í mars 1830 þannig að yngsti sonurinn fæddist tæpum mánuði eftir lát föðurins.

1846
Kristín bjó áfram í Laugarási með börnum sínum, allt þar til hún lést 1846 og þá tók Guðmundur, sonur hennar alfarið við búrekstrinum ásamt konu sinni Ástríði Guðmundsdóttur (1811-1876) frá Læk í Hraungerðissókn. Börn þeirra voru:
Helga
(1843-1875) og
Diðrik (1845-1909), síðar bóndi í Selskarði á Álftanesi og Bala í Garðssókn.

1857
Árið 1857 skildu þessi Laugaráshjón og Ástríður gerðist vinnukona í Fjalli á Skeiðum. Þá var komin á heimilið bústýran Vilborg Guðmundsdóttir (1832-1912) frá Útverkum á Skeiðum. Árið eftir fæddist þeim Guðmundi dóttirin, Guðfinna (1858-1934). Börn Guðmundar og Ástríðar, Diðrik og Helga voru áfram í Laugarási. Svo bættist Guðbjörg (1860-1900) í barnahópinn, en hún varð síðar húsfreyja í Hólshjáleigu í Stokkeyrarsókn. Þar sem Guðjörg er skráð í Prestþjónustubókina er Guðmundur sagður vera ekkjumaður, en ekki hefur fundist staðfesting þess að Ástríður hafi verið látin þarna, enda segir í Íslendingabók að hún hafi lifað til 1876.

Guðmundur (46) og Vilborg (31) eignuðust dótturina Margréti 18. október, 1861, en hún lifði stutt. Þau gengu síðan í hjónaband 11. júlí, 1862 og þar var Guðmundur einnig skráður ekkjumaður. Það ár fæddist þeim síðan sonurinn Guðmundur (1862-1921). Hann varð síðar bóndi í Kjarnholtum, húsmaður á Gýgjarhóli 1889-1891 og síðan bóndi á Stærribæ í Grímsnesi 1891-1898 og Arnarholti í Biskupstungum.

Í júlí 1864 fæddist í Laugarási piltur sem hlaut nafnið Magnús og var Guðmundsson Diðrikssonar og Oddnýjar Þorsteinsdóttur (1835-1890) sem þá var vinnukona á bænum. Magnús lést rétt fyrir áramótin þetta ár. Ári síðar, í apríl, fæddist enn einn drengurinn, nú sonur hjónanna. Hann var skírður Magnús líka, og hann lést fyrir tveggja ára aldur.
Í júní 1866 fæddist síðan Guðmundi og Vilborgu sonur sem hlaut nafnið Gísli, en hann lést í byrjun árs 1867. Í október það ár fæddist þeim hjónum síðan piltur sem einnig hlaut nafnið Gísli (1867-1921). Hann var afi Gísla Einarssonar (1932-1999), sem lengi var oddviti Biskupstungnahrepps.

Árið 1864 var kominn tveggja ára piltur í Laugarás, Guðbrandur Guðmundsson. Um uppruna hans er ekki víst, utan það, að í prestþjónustubók fæddist hjónunum í Auðsholti, Pétri Einarssyni og Helgu Eyjólfsdóttur, sonur 1861, sem hlaut nafnið Guðbrandur. Hann lést samdægurs. Ekki verður fullyrt um að þarna séu tengsl á milli. Þessi Guðbrandur Guðmundsson fylgir fjölskyldunni síðan í Kjarnholt.

“Diðrikarnir” hverfa úr Laugarási.

1867 fluttu afkomendur Diðriks Stefánssonar og Kristínar Gissurardóttur í Kjarnholt og eru þar með úr þessari sögu.

Þarna áttu sér stað jarðaskipti, en Guðmundur Pálsson (1816-1905) og Guðrún Jónsdóttir (1818-1899) sem höfðu búið í Kjarnholtum, skiptu við Guðmund Diðriksson og Vilborgu Guðmundsdóttur. Ekki verður fullyrt hér, hvort annar hvor gaf á milli í þessum jarðaskiptum. Guðmundur hafði verið bóndi í Miklaholti áður en hann fór í Kjarnholt.

Guðmundur og Guðrún komu í Laugarás með börn sín, sem voru:
Þóra (1842-1924), var hjú í Stekkholti 1920.
Jónas (1854 - ) var vinnumaður á Þorsteinsstöðum í Mosfellssókn, en fór til Vesturheims 1887.
Eyvindur (1858-1914) gerðist sjómaður í Reykjavík og drukknaði 1914.
Rannveig (1855-1916) var í vinnumennsku á Móeiðarhvoli, Rang. og Ásgautsstöðum í Stokkeyrarsókn.
María (1853-1939) var í Kjarnholtum og síðar í Auðsholti.

Hjónin voru komin um miðjan aldur (52 og 53 ára). Í Laugarási bjuggu þau síðan til 1881, eða í 15 ár. Eftir það fóru þau að Gýgjarhóli Í Biskupstungum, þar sem Guðmundur lést í hárri elli. Frá andláti hans var greint í Fjallkonunni ó október 1905, með þessum hætti:

Dáinn er seint í þ. m. að Gígjarhóli í Biskupstungum Guðmundur Pálsson (hreppstjóra í Haukadal), fyrrum bóndi í Kjarnholtum og Laugarási. Var um nírætt. Um hann mátti það einkennilegt heita, að hann lifði og dó án þess að kenna nokkurn tíma verulegs sjúkleika. Hann var nýtur maður og drengur góður, léttur í lund og þó stiltur, skemtinn, íróðleiksmaður og hinn vinsælasti.

1877 var kominn á bæinn vinnumaður, Jón Guðmundsson, (1848-1940) frá Höfða. Hann og María, yngsta dóttirin á bænum rugluðu saman reytum og úr varð sonur þeirra Jón (1879 - fyrir 1930), en hann varð síðar lausamaður á Bóli í Biskupstungum og bóndi í Stekkholti. Fór að Óseyrarnesi 1923.

Jón og María hófu eigin búskap í Laugarási 1882, en hann stóð skammt, því 1883 varð heilmikil breyting í Laugarási.

Fyrsti læknirinn í Laugarási

Guðmundur Vigfússon og Guðfinna Erlendsdóttir.

Guðmundur Vigfússon og Guðfinna Erlendsdóttir.

Guðmundur Vigfússon – læknir/hómópati (1852-1927) keypti Laugarásjörðina og átti hana síðan til 1917. Hann, ásamt Guðfinnu Erlendsdóttur bústýra (1859-1950) hófu búskap í Laugarási 1883. Jón Guðmundsson og María Guðmundsdóttir voru þá enn þar búandi, með Jón son sinn. Þau hurfu á braut 1884.

Móðir Guðmundar, Auðbjörg Þorsteinsdóttir (1828-1924) bjó þá hjá þeim og fjögur hjú. Hún mun hafa verið húsfreyja í Syðra-Langholti, síðan í Reykjakoti. Vinnukona var hún í Úthlíð 1880. Loks fór hún til Vesturheims árið 1900, þá 72 ára að aldri.

Guðmundur og Guðfinna voru barnlaus, en þau höfðu bæði verið í Skálholti hjá Ingimundi Erlendssyni, bróður Guðfinnu. Guðfinna hafði verið í Skálholti frá barnæsku, en hún var dóttir hjónanna Erlendar Ejólfssonar og Margrétar Ingimundardóttur. Í Laugarási bjuggu hjónin til aldamóta, eða 1901. Þá fluttu þau til Reykjavíkur, þar sem Guðmundur starfaði sem hómópati.

Tími leiguliðanna

Guðmundur hómópati átti Laugarásjörðina áfram og leigði hana þar til hann seldi, Guðmundi Þorsteinssyni, árið 1917.

Tvenn hjón komu í Laugarás 1901.

Annarsvegar voru það ung hjón, Kjartan Vigfússon (1878-1943) og kona hans Þórunn Björnsdóttir (1868-1959) og hennar barn Guðrún Guðjónsdóttir (1899-1991).

Faðir Kjartans var Vigfús Ásmundsson (1859-1945), sonur Ásmundar Benidiktssonar (1827-1916) frá Stóru-Völlum í Bárðardal, síðar í Haga í Gnúpverjahreppi. Vigfús var lengi á Baugsstöðum og síðar á Seli í Grímsnesi.

Þórunn var frá Galtalæk í Biskupstungum, dóttir Björns Björnssonar (1828-1915). Langalangafi hans var Bergur Sturlaugsson, sem Bergsætt er komin af.

Hin hjónin sem komu í Laugarás 1901 voru þau Ögmundur Gíslason (1871-1901) uppalinn í Borgarholti í Biskupstungum og Helga Einarsdóttir (1872-1969) frá Bergvík í Leiru, með barnið Steinunni (1901-1989) sem starfaði síðar sem hjúkrunarkona.

Ögmundur varð bráðkvaddur í árslok 1901. Í Fjallkonunni var greint svo frá láti Ögmundar:

Bráðkvaddur varð aðfaranótt hins 4. f. m. Ögmundur bóndi Gíslason i Laugarási; Vaknaði í rúmi sínu við óþolandi höfuðverk og var látinn eftir stutta stund. „Hann var ungur maður og efnilegur, nýgiftur og byrjaði búskap næstl. vor; greindur vel, stiltur og vinsæll; — hafði áður kent höfuðveikiskasta".

Steinunn ólst upp fyrstu árin hjá hjónunum Grími Einarssyni og Kristínu Gissurardóttur á Syðri- Reykjum, en fór síðan til móður sinnar í Reykjavík. Um fimmtugsaldur varð sjaldgæfur augnsjúkdómur til þess að hún misst sjón, varð alblind.

1902

Guðmundur Ófeigsson

Guðmundur Ófeigsson

Þetta ár voru komin í Laugarás: Guðmundur Ófeigsson (1865-1943) og kona hans Guðríður Erlingsdóttir (1861-1936) með börn sín: Jóhann (1896-1904), Sigríði (1897-1980), sem varð síðar húsfreyja í Núpstúni í Hrunamannahreppi, Jón Erling (1899-1985), sem varð síðar bóndi á Galtastöðum og Vilborgu Þuríði (1900-1987), sem varð síðar húsfreyja í Reykjavík.

Guðmundur og Guðríður höfðu þá verið á Fjalli á Skeiðum en síðar bjuggu þau á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi. Þau voru í Laugarási til ársins til 1908 og Guðmundur var þar bóndi fyrstu tvö árin, en síðan bar hann titilinn húsmaður.

1904 komu í Laugarás Magnús Halldórsson (1859-1941), faðir hans Halldór Sveinsson (1828-1909) og tvær systur Ragnhildur (1855-1914) og Kristín (1868-1948). Þau komu úr V.-Skaftafellssýslu.

Gísli Guðmundsson og Sigríður Ingvarsdóttir. (mynd úr Litla Bergþór 2. tbl. 2016)

Gísli Guðmundsson og Sigríður Ingvarsdóttir. (mynd úr Litla Bergþór 2. tbl. 2016)

1907 komu þau þau Gísli Guðmundsson (1876-1959) bóndi og Sigríður Ingvarsdóttir (1882-1972) kona hans með soninn Erlend (1907-1997). Þá voru þeir Magnús Halldórsson og Guðmundur Ófeigsson orðnir húsmenn, en Guðmundur hvarf á braut með sitt fólk 1908 og flutti að Galtastöðum. Magnús og systur hans tvær virðast hafa flutt til Reykjavíkur 1911.

Annað barn þeirra Gísla og Sigríðar fæddist í Laugarási árið 1909 og hlaut nafnið Jónína Þorbjörg (1909-1979).
Gísli og Sigríður fluttu úr Laugarási 1916 í Úthlíð og Hrauntún í Bisk.
Erlendur varð bóndi í Úthlíð og sjómaður og síðar bóndi í Dalsmynni. Hann eignaðist Hrein, Eyvind, Örn, Sigrúnu og Eddu með konu sinni Guðrúnu Guðmundsdóttur.
Jónína varð húsfreyja í Úthlíð, og eignaðist Gísla, Ingibjörgu, Björn, Sigrúnu, Kristínu, Jón Hilmar og Baldur, með eignmanni sínum Sigurði Tómasi Jónssyni.

Í stað Guðmundar og Magnúsar komu í Laugarás, árið 1911, þau Hallur Guðmundsson (1868-1911) húsmaður og Járngerður Jóhannsdóttir (1866-1957) bústýra, með son sinn Finnboga (kirkjubók segir hann hafa heitið Boga og han mun ávallt hafa verið kallaður því nafni) (1902-1988). Þau bjuggu áður á Stóra-Fljóti.
Aðeins meira um Hall og Járngerði:
Þetta fólk bjó áður á Stóra-Fljóti, en Hallur tók þar við búi af foreldrum sínum, Guðmundi Jónssyni og Jóhönnu Jónsdóttur, árið 1891, þá 23 ára, á nýgiftur Sigríði Skúladóttur (1867-1898), sem var ári eldri. Ári síðar var Járngerður komin til þeirra sem vinnukona og fyrsta barnið, Jóhanna (1892-1976) komið í heiminn. Börnin komu síðan eitt af öðru og það fimmta, Sigríður, fæddist sama dag og móðir hennar lést í október 1898. Þá kom móðir Halls aftur á heimilið, þá komin undir sjötugt, en Járngerður gegndi áfram stöðu hjús.
1902 bættist við barnahópinn, þegar Finnbogi fæddist og var hann sonur Járngerðar, en hún var áfram talin sem hjú til 1907, þegar hún var skráð sem ráðskona.
Móðir Halls lést í ágúst 1908, farin að nálgast áttrætt. Árið eftir var komið nýtt fólk á Stóra-Fljót, Þórður Halldórsson (45) og Kristín Pálsdóttir (31) bústýra. Þá gegndu þau Járngerður hlutverki hjúa og sömuleiðis Guðmundur, 14 ára sonur Halls. Með þeim var einnig Finnbogi, þá 7 ára, en fjögur barnanna voru horfin á braut og hefur líklegast verið komið í fóstur, eins og ekki var óalgengt, svosem.
Árið 1910 fluttu þau Hallur og Járngerður frá Stór-Fljóti og gerðust hjú eða leiguliðar hjá Gísla og Sigríði í Laugarási. Þar var með þeim sonur þeirra, Bogi að nafni, sem ekki hafa fundist frekari upplýsingar um.
Börn Halls og Sigríðar voru:
Jóhanna (1892-1976) húsfreyja í Borgarnei og síðar á Akranesi.
Skúli (1893-1967) bifreiðastjóri og forstjóri Sérleyfisleiða Keflavíkur.
Guðmundur (1895-1942) bóndi í Auðsholti.
Elín (1896-1942) húsfreyja á Kaldbak í Hrunamannahreppi.
Sigríður (1898-1982) húsfreyja á Akranesi.
Sonur Halls og Járngerðar var
Finnbogi (1902-1988) trésmíðameistari

Hallur veiktist á geði og tók líf sitt 1911.
Járngerður fór til Reykjavíkur, en Finnbogi ólst upp hjá móðursystur sinni, Jóhönnu, á Þórarinsstöðum. Hann flutti til Hafnarfjarðar 1924 og tveim árum síðar flutti móðir hans til hans og var hjá honum og síðar konu hans, eftir að hún kom til skjalanna, upp frá því.

1916

Þinglýst afsal Laugarásjarðarinnar 1916. (smella til að stækka)

Þetta ár komu hjónin Guðmundur Guðmundsson (28) og Ingibjörg Gunnarsdóttir (1891-1964) í Laugarás, ásamt nýfæddu barni sínu, sem hét Guðmundur (1916-1978) og hann varð ógæfumaður og lést eftir hrap niður í stórgrýtisurð við Keflavíkurhöfn. Ekki hefur tekist að finna margt um þessi hjón, utan að Ingibjörg var síðar húsfreyja í Hafnarfirði og árið 1922 eignuðust hjónin soninn Ingiberg (1922-1976), sem lést í bílslysi í Hafnarfirði.

Guðmundur hómópati selur jörðina

Dvöl þessar ungu hjóna varð harla stutt í Laugarási því þetta ár, 1916, seldi Guðmundur Vigfússon jörðina og samningurinn kvað á um, að hún yrði laus á fardögum 1917.
Í afsalinu, sem er dagsett 2. nóvember, 1916, segir að jörðin sé 21,40 hndr. að dýrleik., eftir nýju mati, með einu kýrkúgildi og tveimur ásauðarkúgildum. Umsamið kaupverð var kr. 4.000.

Guðmundur Þorsteinsson og Steinunn Ögmundsdóttir.

Kaupendurnir voru Guðmundur Þorsteinsson (1881-1961) og Steinunn Ögmundsdóttir (1889-1961). Guðmundur var frá Höfða í Biskupstungum, en Steinunn frá Þórarinsstöðum.
Þau keyptu Laugarásjörðina 1917 og fluttu þangað það ár.
Þau komu frá Lambastöðum í Flóa og frá Laugarási fóru þau 1922 á Þórarinsstaði, en þá höfðu þau selt jörðina undir læknissetur.
Þau komu í Laugarás með tvo syni: Ögmund (1913-1987) sem varð síðar bóndi á Þórarinsstöðum í Hrunamannahreppi og Þorstein (1917-1943), sem varð síðar bifreiðastjóri í Hafnarfirði.

Runólfur Guðmundsson í Ölvisholti

Þá var einnig hjá þeim Runólfur Guðmundsson (1904-1990), léttadrengur og síðar vinnumaður. Runólfur fæddist í Úthlíð í Biskupstungum, sonur Guðmundar Runólfssonar frá Holti í Álftaveri og Katrínar Sveinbjörnsdóttur frá Klauftum í Hrunamannahreppi. Móður sína missti hann að verða tveggja ára gamall, fluttist með föður sínum að Bryggju í sömu sveit, en þar lést faðir hans þegar hann var tólf ára. Þegar átti að ráðstafa honum á eitthvert heimili í sveitinni, eins og þá var gert, tók Ögmundur móðurbróðir hans hann heim með sér og vistaði hann hjá Steinunni dóttur sinni og Guðmundi. Hjá þeim var hann fyrst á Þórarinsstöðum í Hrunamannahreppi og síðar í Laugarási. Hann varð, í fyllingu tímans, bóndi í Ölvisholti í Hraungerðishreppi.

Árið 1923, þegar læknirinn koma á staðinn, voru í Laugarási Sigurður Eiríksson (1883-1945) bóndi og Guðrún Þorsteinsdóttir (1876-1951). Þau voru úr Hrunamannahreppi, hún frá Haukholtum og hann frá Sólheimum. Þau settust að í Langholtskoti, eftir að hafa dvalið þetta ár í Laugarási.

______________________

Hér er sleginn botn í þessa ábúendasögu Laugaráss, enda læknir kominn á staðinn og um framhald sögunnar er vísað til umfjöllunar um hann og reyndar þá alla sem á eftir komu, annarsstaðar á vefnum.