Sundlaugargerð í Laugarási 1929


Norðarlega á engjunum, beint austur af bæjarhúsunum, í túnfætinum, er Volgalaug , heit uppspretta (40-50 C); þaðan rennur svo lækur niður í á. Rétt neðan og norðan við Volgulaug er dálítil gryfja, gerð af mannahöndum, þannig til komin, að sumarið 1929 tóku nokkrir ungir menn úr Laugarási og nágrannabæjum sig til og gerðu sér þarna litla laug eða bað. Vatninu veittu þeir að sjálfsögðu úr Volgulaug. Við þessa sundlaugargerð voru þeir báðir, Jón Bjarnason og Sigurður Sigurmundsson. 

Heygarður, skjáskot af vef Loftmynda ehf.

Ofan við Volgulaug er forn, hringlaga heygarður frá Skálholti, notaður meðan Skálholt átti slægju í Auðsholti, og var heyið þá geymt þarna á vetrum. 

Auðsholt og Auðsholtshamar (2008) (mynd pms)

Um það bil 400 metrum ofar á árbakkanum er Auðsholtshamar, beint á móti bæjarhúsunum í Auðsholti. Þar er enn ferjustaður [1981].

Einar Tómasson í Auðsholti, lengi ferjumaður, brá sér yfir ána á vormánuðum 1980 til að fræða unglinga úr Reykholtsskóla um ferjuna. Myndin er tekin við Auðsholtshamar. (mynd Reykholtsskóli - pms)

Nokkru fyrir ofan Auðsholtshamar við ána er Efri-Hamar (JB) eða Efri-Auðsholtshamar (GV).

Rétt þar ofan við rennur lækur út í ána. Heitir þar Stórós (ÓE), Fremriós (RG) eða Syðriós (GV).

Auðsholtshamar og Brennuhóll (2008) (mynd pms)

Um það bil 300 metrum ofan við hann, milli eyrarinnar og vegarins, er stakstæður hóll, sem Jón Bjarnason taldi, að gæti hafa heitið Grjóthóll, en Guðrún í Höfða mundi, að var kallaður Hóllinn. [Brennuhóll (PMS), en það heiti tók að festast við hólinn eftir að Laugarásbúar hófu að safna þar til áramótabrennu].
Norðan Hólsins rennur lækur út í ána, Efriós (GV,RG), úr nokkuð stórri, sefi vaxinni tjörn. Þar var áður góð slægja, þó vatnið stæði mönnum upp fyrir ökkla; var það kallað Flóðin.

Mynd af korti á vef Loftmynda ehf. Örnefnum bætt inn á.

Þegar Hvítá flæddi, urðu ósarnir ófærir, svo ekki var hægt að komast venjulega leið upp í Höfða, og var þá farið um Þrengslin , sem lágu vestan Flóðanna, mjó reiðgata undir Holtinu. Nú á seinni árum eru Flóðin kölluð Puttapollur. Tekur það nafn mið af stærð þeirra silunga, sem yngri kynslóðin í Laugarási hefur veitt þar á stöng eða færi. Fyrir ofan Puttapoll er önnur tjörn, mun minni, af sumum líka nefnd Puttapollur (í Höfðalandi). Milli tjarnanna rennur lækur, og þvert á hann liggja landamerki Laugaráss og Höfða. 

Valllendisstykkið milli Flóðanna og árinnar, austan vegarins niður að Efriós, heitir Eyrarsporður.

Holtið vestan við Flóðin heitir samkvæmt herforingjaráðskortinu og landamerkjalýsingunni (rituð 1886) Langholt. Guðrún taldi það aftur á móti rangt, og að Langholt væri mun norðar lengst inni í Höfðalandi. (Sjá örnefnaskrá Höfða.) Umrætt holt upp af Flóðunum sagði hún, að héti einungis Holtið. Runólfur hafði ekki heyrt á Langholt minnst, og taldi útgáfu Guðrúnar vera rétta.
Flestir aðrir, sem ég talaði við, höfðu heyrt holtið kallað Langholt. Nú á seinustu árum hefur það af sumum verið kallað Höfðaholt.

Uppfært 01/2019