Draugaslóð djöfulsins


Í Draugahver var mikil ólga og læti, og lagði af honum mikla gufu. Tengd honum er gömul þjóðsaga, sem hefur að líkindum ekki verið skráð fyrr. Margir Tungnamenn kannast við þessa sögu, en hún er hér skráð eins og þeir Runólfur og Ögmundur mundu hana.
Meðan enn var biskupsstóll í Skálholti, var það einhverju sinni, að þar var í fjósverkum barnshafandi vinnustúlka. Að vonum þreyttist hún á vinnunni, og eitt sinn, þegar hún kveinkaði sér undan  þungum vatnsburði, þá kom til hennar ókunnugur maður og bauðst til þess að færa henni hver neðan úr Laugarási heim á hlað í Skálholti, gegn því að hann ætti það, sem hún bar undir svuntunni. Stúlkan hélt manninn vera að gantast með sig og gekk að þessu.
Ekki löngu síðar kom svo maður gangandi yfir mýrina í átt til Skálholts með sín hripin í hvorri hendi, og rauk úr báðum. Varð stelpan þá hrædd og leitaði til biskups með vandræði sín. Biskup brá skjótt við og sendi strax menn út í kirkju og lét samhringja. Við það missti djöfsi laupana rétt í túnfætinum í Skálholti, og mátti þar vart tæpara standa.
Þar heitir Draugadý og er í Skálholtslandi. Draugaslóð eða Draugaslóði er þar sem djöfullinn gekk.

Draugaslóð, eins og Atli Harðarson teiknar hana inn á örnefnakort sem fylgdi grein Bjarna í Árnesingi.

Sigurður Skúlason frá Skálholti minnist á Draugadý í grein sinni um örnefni í Skálholtslandi, en sögnin bakvið örnefnið er þar nokkuð öðruvísi og lík því sem Guðmundur Indriðason mundi hana og fleiri í Laugarási. Sigurður segir:

Draugadý ber ef til vill að setja í samband við örnefnin Draugahver og Draugaslóð, sem bæði eru í Laugaráslandi. Það síðarnefnda er nafn á keldu einni mikilli í mýrinni skammt vestur af Laugarási.
En bæði þessi örnefni hafa varðveizt í sambandi við þá sögn, að eitt sinn hafi kölski ætlað að bera
Draugahver alla leið frá Laugarási út að Skálholti, en orðið að snúa aftur, vegna þess að kirkjuklukkunum á biskupssetrinu var hringt kröftuglega til þess að skjóta honum skelk í bringu og fá hann ofan af þessu tiltæki.
(Sigurður Skúlason: Nokkur örnefni í Skálholtslandi. Inn til fjalla II , Rv. 1953, bls. 165).

Asparlundur og Ekra 1982 (mynd pms)

Slóðinn liggur nokkuð beina leið í gegnum hverfið, eins og merkt er á kortinu, og síðan austan vegar að austurenda Smáholta en þaðan vestan vegar alla leið í Draugadý í Skálholtslandi . Sá staður er beint neðan kirkjunnar, þar sem tveir framræsluskurðir mætast. Greinilegust var slóðin, þar sem aðalbyggðin er nú, og þar liggur hún meðal annars gegnum gróðurhús að Ekru. Við holræsagerð í húsinu fyrir um það bil 20 árum lentu þeir sem við það unnu, í stökustu vandræðum, vegna þess hve jarðvegur í slóðinni er blautur og linur. Hefur þar vafalaust verið ,,kelda ein mikil“ áður en land var þurrkað“, svo vitnað sé til orða Sigurðar. Við sérstakar aðstæður að vetri er mögulegt að greina Draugaslóð í mýrinni (Geymslu) gengt Skálholtsstað. Helst er það þegar þunnt klaka- eða snjólag er yfir og virðist það þá þynnra yfir þar sem Djöfsi gekk.

Uppfært 01/2019