Söguskilti og fleira

Söguskilti og fleira

Laugardaginn 24. ágúst, síðastliðinn, fögnuðum við því í aldeilis ágætu Laugarásveðri, að tvö söguskilti voru afhjúpuð við norðurenda Hvítárbrúar. fjölmargir núverandi go fyrrverandi Laugarásbúar, ásamt nágrönnum nær og fjær, komu þarna saman af þessu tilefni.

Nú hef ég tekið saman efni um aðdragandann og athöfnina á sérstaka síðu á vefnum, sem finna má með því að smella hér, en þessi síða fellur í flokkinn Mannlíf.

Það er nú ýmislegt annað sem ég hef unnið að og það helsta er þetta:

Hátíðirnar sem við höfum haldið í Laugarás frá aldamótum og þorrablót Skálholtssóknar gegnum tíðina. Þá fékk ég skemmtilegar myndir frá fjölskyldu Ólafs Einarssonar, sem var héraðslæknir hér frá 1932-1947.

Svona smá bætist við þetta, eftir því sem tími vinnst til.

Örnefni og saga á janúardegi

Örnefni og saga á janúardegi

Í dag kynni ég til sögunnar tvennt og hvorttveggja úr fórum Bjarna Harðarsonar, sem ólst upp í Lyngási og sem flestir sem þetta lesa, munu kannast við.

Í Árnesingi II (Árnesingur var eða er rit Sögufélags Árnesinga) árið 1992, birtist eftir Bjarna grein sem bar heitið: Laugarás í Biskupstungum - örnefnaskrá Laugarásjarðar.

Í Árnesingi III, sem kom út 1994 birtist svo nokkurskonar framhaldsgrein undir heitinu Laugarás í Biskupstungum þar sem Bjarni rekur sögu Laugaráss.

Bjarni veitti mér, fúslega, leyfi til að birta þessar greinar á vefnum og þangað eru þær nú komnar. Það sem ég hef bætt við, er aðallega myndefni eftir föngum, sem ég vona að geti orðið til nokkurrar aðstoðar lesendum.

Á næstsíðasta degi ársins

Á næstsíðasta degi ársins

Í dag opna ég á nýjan þátt á þessum vef og það er sannaralega tilefni til, en ég fjölyrði ekki um það.

Þessi þáttur hefur reynst heldur fjölbreyttari en ég átti von á þegar ég hélt af stað og mér segir svo hugur um, að enn eigi eftir að bætast við efni, bæði frásagnir og myndir.

Hér er um að ræða sögu barnaheimilisins sem Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands rak hér í Laugarási, Krossinn, í um tvo áratugi. Þetta var stórt barnaheimili, rúmaði 120 börn í einu og var starfrækt frá um það bil miðjum júní til síðari hluta ágúst ár hvert. Þetta þýðir að um eða yfir 3000 börn á aldrinum 3-8 ára áttu hér viðdvöl, í allt að átta vikur. Á síðari hluta starfstímans var dvalartíminn reyndar styttur hjá mörgum, en það þýddi að á hverju sumri voru mögulega um 180 börn í Krossinum einhvern tíma.

Á 100 ára afmæli fullveldisins

Á 100 ára afmæli fullveldisins

Til hamingju með daginn, við öll. Hann kann að vera að einhverju leyti litaður að atburðum undanfarinna daga, en er samt bara talsvert merkilegur.

Í dag opna ég fyrir umfjöllun um hús og íbúa í Laugarási frá 1971 til 1990.

Sem fyrr: ef þú rekst á eitthvað sem betur má fara eða réttara telst, treysti ég á að þú látir mig vita. (pallsku (hjá) gmail.com

Hús og íbúar 1961 til 1970

Hús og íbúar 1961 til 1970

Áratugurinn sem hér um ræðir markar hröðustu uppbygginguna í Laugarási og meginástæðuna má rekja til þess að hér var hægt að fá nóg land og hita. Auk þess var auðvitað búið að opna Hvítárbrúna.

Mér finnst við hæfi að taka þátt í hátíðahöldum vegna loka fyrri heimstyrjaldar, með því að opna fyrir aðgang að umfjöllun um húsin og íbúana í Laugarási frá 1961 til 1970.

Á þessum degi var faðir minn 43 daga gamall og bjó sig undir veturinn á Rangárlóni í Jökuldalsheiði ásamt fjölskyldu sinni, allsendis óvitandi um það, að loksins hafði stórgölluðu mannfólkinu tekist að hætta að drepa hvert annað í stríði, allavega í bili.