Vatnsveitufélagið 1964-2002

Aðdragandi

Fyrstu ár byggðar í Laugarási björguðu íbúarnir sér með kalt vatn úr opnum lindum eða þá einfaldlega með því að kæla hveravatn. Þannig var, til dæmis, lind í suðvestanverðu Langholti, sem barnaheimilið tók vatn úr og á mörkum Kvistholts (sem tilheyrði áður Hveratúni) og Lyngáss, í brekkurótunum var steypt utan um litla lind, en úr henni var tekið vatn til að brynna sauðfé frá Hveratúni. Fjárhúsið stóð á skurðbakka rétt ofan lindarinnar. Svona björguðu íbúarnir sér, hver með sínum hætti, en um sameiginlega vatnsöflun var ekki að ræða.

Það var svo árið 1960, að fulltrúar Sláturfélags Suðurlands komu á fund oddvitanefndarinnar og óskuðu eftir landi undir sauðfjársláturhús. Landið fékk félagið, en það lá fyrir, að til þess að svo vatnsfrekt fyrirtæki gæti starfað, þurfti nóg að heitu og köldu vatni og því kom strax að fyrsta fundi til tals hverjir möguleikarnir væru í þessu efni. “Rætt var um möguleika þá sem fyrir hendi eru, um kalt vatn. Var upplýst að gott vatnsból væri suður í Vörðufelli fyrir sunnan Iðu. Talið var mjög æskilegt að vatnsveitufélag yrði stofnað til að leysa vatnsspursmálið.”

Ásgeir L. Jónsson (1894-1974)

Ásgeir L. Jónsson (1894-1974)

Ásgeir L. Jónsson, vatnsvirkjaráðunautur var fenginn til að mæla fyrir vatnsveitu. Það var að ýmsu að hyggja varðandi veituna, svo sem þróun byggðar í Laugarási, en þess var vænta að byggðin þar myndi stækka ört. Þá þurfti að vera hægt að sjá sláturhúsinu fyrir miklu vatni í stuttan tíma ár hvert. Allt gekk þetta fremur rólega fyrir sig, en á fundi sínum í upphafi árs 1962, var vatnsveitumálið reifað í fundargerð oddvitanefndar, en komið hafði í ljós, að það væru örðugleikar fyrir nefndina að koma á vatnsveitufélagi, ekki síst vegna þess að hún myndi ekki njóta sömu styrkja úr ríkissjóði og ef um væri að ræða sveitarfélag. Nefndin skoraði því á hreppsnefnd Biskupstungnahrepps að taka að sér forgöngu um stofnun vatnsveitufélags, eða að öðrum kosti annast uppbyggingu veitunnar sjálf. Síðar þetta ár áréttaði nefndin áskorun sína.

Á fundi sem haldinn var í húsnæði Rauða krossins í Laugarási í janúar 1964 reifaði Skúli Gunnlaugsson málið og hvernig það stæði. Hann sagði að það “væri ráðgert að leiða vatn frá Vörðufelli og væri fengið leyfi fyrir nægilegu vatni þar, gegn ½ l af heitu vatni í Laugarási. Lausleg kostnaðaráætlun lægi fyrir og næmi kr 575.000 auk rafmagnsheimtaugar.”

Það sem þarna var “ráðgert” átti eftir að draga dilk á eftir sér áratugina sem fylgdu. Gegn ½ sek/l af heitu vatni átti Laugarás að fá “nægilegt” kalt vatn. Það er, eins og ávallt er, auðvelt að vera vitur eftir á, en sennilega hefði verið betra að ganga frá samningnum um þessi skipti á heitu og köldu vatni með tryggilegri, eða skýrari hætti.

Stofnfundurinn

Þann 12. júní, 1964 var stofnfundur vatnsveitufélagsins haldinn og þar voru saman komin eftirfarandi:

Rögnvaldur Þorkelsson (1916-2019)

Rögnvaldur Þorkelsson (1916-2019)

Fyrir Biskupstungnahrepp: Skúli Gunnlaugsson oddviti, Bræðratungu og Þórarinn Þorfinnsson, hreppsnefndarmaður, Spóastöðum.
Fyrir sláturhús Sláturfélags Suðurlands: Rögnvaldur Þorkelsson, verkfr.
Fyrir stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs: Jón Eiríksson formaður.
Fyrir Sumardvalarheimili Rauða kross Íslands: Jóna Hansen, forstöðukona.
Garðyrkjubændurnir: Skúli Magnússon, Hveratúni, Jón V. Guðmundsson, Sólveigarstöðum og Hjalti Jakobsson, Laugargerði.
Fyrir Skálholtsstað, áheyrnarfulltrúi: Sveinbjörn Finnsson, staðarráðsmaður.
Aðrir fundarmenn voru: Ólafur Einarsson, læknir, Hörður V. Sigurðsson, Lyngási, Einar Ólafsson, Jóhann Eyþórsson, Ljósalandi og Sigmar Sigfússon, Sigmarshúsi.

Lögnin frá Stekkatúni í dæluhús við Hvítárbrú.

Á fundinum var kynnt að til stæði að virkja lind í Vörðufelli, sem myndi gefa 3-4 sek/l. Þaðan átti að leiða vatnið í asbestpípum að dælustöð þar sem væri allt að 15 rúmmetra þró. Í dælustöðinni yrðu tvær dælur, önnur öflugri, til að mæta álagi í sláturtíð.

Talsvert lá á að koma veitunni í gagnið þar sem sláturhúsið átti að taka til starfa þá um haustið, sem það síðan gerði. Byggingarkostnaður veitunnar þetta ár varð ríflega kr. 700.000, þar af kom styrkur frá ríkinu að upphæð kr 358.000. Stofnframlög voru þá orðin kr. 176.000, en þau skiptust þannig, að Sláturfélags Suðurlands greiddi 110.000, Læknisbústaðir og sumardvalarheimili 20.000 hvert og aðrir notendur kr. 4.000 hver.

Sigmar Sigfússon (1932-2001)

Sigmar Sigfússon (1932-2001)

Sigmar Sigfússon, rennismiður og þúsundþjalasmiður, í Sigmarshúsi tók að sér umsjón með dælustöðinni og gegndi hann því hlutverki svo lengi sem hann hafði þrek til, en hann lést árið 2001.

Það virðist eins og það hafi tekið nokkurn tíma að komast að niðurstöðu um hvernig notendur veitunnar skyldu greiða fyrir það ágæta vatn sem þeir áttu þarna kost á að tengja við híbýli sín. Þannig urðu til nokkrar tegundir gjalda, sem félagið innheimti. Fastagjald þurftu allir að greiða svo og gjald fyrir notkunina. Fastagjaldi var þannig skipt við stofnun veitunnar, að SS og barnaheimilið greiddu helming þess.

Stjórn félagsins sá ástæðu til að halda þessu til haga á fundi 1966:

Það kom í ljós þegar lögfræðingur skilaði áliti um stöðu veitunnar, árið 2002, að þessi færsla hafði ekkert gildi að lögum,

Á stofnfundi veitunnar var ákveðið af þeim sem að því unnu, að Sláturfélag Suðurlands tæki að sér að greiða hálfan stofnkostnað og áskildi sér rétt til tveggja sek.ltr. af vatni. En bókun þessara atriða hefur fallið niður í samþykktum veitunnar og fundargerð stofnfundar. Vegna seinni tíma ákveður stjórnin, að eignahlutur og vatnsréttur Sláturfélags Suðurlands og annarra aðila verði samkvæmt því, sem umrætt var á stofnfundi sbr. bókun hér að framan. Verði aukning á vatnsmagni frá því sem nú er, þ.e. ca. 4 sek.ltr., þá skal Sláturfélag Suðurlands eiga rétt á að halda óbreyttum hlutföllum um eignarrétt og vatnsrétt.
Þótt vatnsréttur Sláturfélags Suðurlands sé 2 sek.l., þá skal félaginu heimil meiri notkun, sé nægilegt vatn fyrir hendi, en samkomulag þetta gildir að fullnýtingu 4 sek.ltr., sem er það vatnsmagn, sem eigendur Iðu hafa boðið fram.
Viðvíkjandi greiðslu stofnkostnaðar skal tekið fram, að Sláturfélag Suðurlands og hverfisbúar greiða tvo jafna hluti þegar hlutur Rauða Kross Íslands hefur verið dreginn frá, og eftir þeim hlutföllum verði aðveitukerfi veitunnar við haldið, miðað við óbreytt eignahlutföll, en rekstur vatnsveitunnar sjái um dælur og búnað þeirra.

Það kom í ljós þegar lögfræðingur skilaði áliti um stöðu veitunnar, árið 2002, að þessi færsla hafði ekkert gildi að lögum, það sem hún hafði ekki verið tekin formlega inn í samþykktir félagsins og síðan borin undir félagsmálaráðherra til staðfestingar. Það sama gildir þá einnig um aðrar breytingar á samþykkt félagsins síðar.

Það reyndist nauðsynlegt að prófa sig áfram með gjaldtöku fyrir kalda vatnið. Það voru settir upp mælar hjá notendum, sem síðan gengu úr sér. Þá var ákveðið að stjórn yrði falið að ákveða forsendur þess hvernig greitt yrði fyrir notkunina og þá með hliðsjón af notkun síðustu ára. Hjá venjulegum notendum var bara um heimilisnotkun að ræða, enda var kælt hveravatn notað til vökvunar í gróðurhúsum og görðum. Á hverri garðyrkjustöð höfðu verið steyptar vatnsþrær sem tóku við afrennsli úr gróðurhúsunum og því vatni síðan dælt úr þrónum til vökvunar.

Ekki verður það dregið í efa, að fólkið í Laugarási hafi verið harla ánægt með að fá að njóta þess góða vatns, sem barst nú inn á heimili þess. Þrennt var þó, allavega fljótlega, sem varð til þess að aðlögunar reyndist þörf og vandamál voru uppi:

1. Laugarás stækkaði hratt þá sjöunda áratugnum. Það þurfti að skipuleggja nýjar lóðir og leggja viðbótar stofnlögn og greinar út frá henni, þannig að fólk gæti sótt sér vatnið að lóðamörkum. Þegar félagið var stofnað hafði Biskupstungnahreppur tekið á sig á greiða kr. 4.000 í stofngjald vegna hverrar nýrrar, væntanlegrar leigulóðar, sem hann myndi síðan innheimta hjá lóðarhöfum. Þetta reyndist ekki ganga upp þannig að jafnvægi gæti haldist. Á aðalfundi 1971 var því gerð breyting á samþykktum félagsins:

Þórarinn Þorfinnsson [oddviti Biskupstungnahrepps] talaði um stofna þá er Biskupstungnahreppur lagði á sinni tíð og væri óafturkræft framlag til veitunnar. Nú hefði verið lagður nýr stofn norðaustur að Höfðavegi og lagði hreppurinn hann á sinn kostnað, sem er um kr. 38.000, en hreppurinn taldi sjálfsagt að veitan annaðist þessar lagnir og því bæri hann fram tillögu um breytingu á samþykktum félagsins, þannig að 4. grein verði þannig: Frá og með árinu 1970 kostar vatnsveitan aukningu og viðhald allra stofna vatnsveitunnar frá fyrstu greiningu að heimæðum notenda. Tillagan var samþykkt.

Í samræmi við þetta endurgreiddi félagið útlagðan kostnað Biskupstungnahrepps.

Fleiri heimili kölluðu á meira vatn og það varð fljótt ljóst, að þeir 4 sek/l sem fáanlegir voru úr lindinni á Iðu myndu ekki duga til frambúaðar til annarra nota en heimilisnota.

2. Ræktun varð fjölbreyttari. Framan af var ræktun í gróðurhúsum fyrst og fremst tómatar og gúrkur. Nýir garðyrkjubændur fetuðu sig nýjar leiðir í ræktuninni og hófu til dæmis að rækta blóm. Sú ræktun kallaði á “ómengaðra“ vatn. Kælda hveravatnið fullnægði ekki kröfum um efnainnihald og fór illa í viðkvæman úðavökvunarbúnað. Það varð úr á aðalfundinum 1971 að 5. grein stofnsamningsins var breytt og varð svona:

Stjórninni er þó heimilt að leyfa notkun vatns til græðlingaræktunar svo og blómaræktunar í þeim tilfellum sem hveravatn er sannanlega ónothæft.

Þessi breyting kallaði síðan á breytingu á gjaldskránni, því hvernig átti að verðleggja notkun á kalda vatninu, aðra en til heimilisnota? Þarna taldist venjuleg heimilisnotkun vera það sem kallað var “1 hlutur”. Það varð því úr að stjórn félagsins þurfti að ákveða hve margir hlutir tiltekin önnur notkun, í atvinnuskyni skyldi vera talin, en lágmarksgjald fyrir notkun til ræktunar var ákveðið 2 hlutar notkunargjalda. Þarna var ekki um að ræða spurningu um vatnsmagn, heldur eðli notkunarinnar.

3. Landeigendur á Iðu reyndust ekki sáttir við þann samning sem gerður hafði verið um skipti á heitu vatni og köldu, en eins og fram kemur að ofan, var upphaflega samkomulag um að gegn því að Laugarás fengi allt að 4 sek/l af köldu vatni, fengu landeigendur á Iðu ½ sek/l af heitu vatni.

Á fundi oddvitanefndar í september 1964 lá fyrir bréf frá eigendum Iðu 1 og Iðu 2 og frá því er svo sagt í fundargerð:

Form. las bréf er honum hafði borist  frá eigendum Iðu I og Iðu II dags. 1. sept. 1964, þar sem krafist er nýrra skilyrða um réttindi vegna  neysluvatns til Laugaráshverfisins.
Varðandi þetta efni áréttar stjórnarnefnd Laugarásshéraðs  samþykkt sína frá 9. febrúar s.l. um að láta eigendur Iðu fá ½ sek/l af heitu vatni frá Hitaveitu Laugaráss og að fella niður gjald fyrir vatnsréttindi, enda taki þeir við vatninu við greiningu í læknisbústað og gangist undir ákvæði reglugerðar og gjaldskrár hitaveitunnar, gegn því að Vatnsveita Laugarásshverfis fái, án frekara gjalds, réttindi til töku vatns, eftir þörfum, úr Vörðufelli.
Náist ekki samkomulag á þessum grundvelli, verði vatnsréttindin metin skv. landslögum.

Vatnsveitufélagið sem félag

Tilkoma kaldavatnsveitu í Laugarási skipti miklu máli fyrir vöxt og viðgang byggðarinnar, eins og nærri má geta. Lengi framan af voru félagarnir fólkið sem hafði tekið þátt í að koma veitunni á koppinn, þekktu söguna og skildu það, að kalda vatnið var ekkert sjálfsagður hlutur. Vatnsveitufélagið starfaði í nokkurs konar ungmennafélagsanda og notendur báru hag þess fyrir brjósti. Eins og vænta mátti, eftir því sem árin liðu, fjölgaði fólkinu í Laugarási og smám saman fjarlægðist félagið uppruna sinn; notendurnir létu sig málefni þess smám saman skipta minna máli. Fólk leit svo á, í æ meiri mæli, að réttur þess til aðgengis að köldu vatni væri eitthvað sem sveitarfélagið ætti að sjá um, en eins og ljóst má vera, var og er Laugarás frekar sérstök jörð í uppsveitunum, í eigu sex hreppa. Tilvera vatnsveitufélagsins var að stærstum hluta því að þakka, að Sláturfélag Suðurlands ákvað að reisa sláturhús í Laugarási.
Eignarhaldið á jörðinni flækti málin augljóslega, því málefni Laugaráss voru á höndum eigenda jarðarinnar, hreppanna sex. Það voru síðan oddvitar hreppanna sem tóku ákvarðanir sem máli skiptu varðandi vöxt og viðgang, í umboði hreppsnefndanna.
Af stjórnsýslulegum ástæðum gekkst Biskupstungnahreppur fyrir stofnun félagsins, enda þurfti það að vera svo, til að hægt væri að fá styrk frá ríkinu til framkvæmdanna. Ríkið tók þátt í, allt að hálfu, kostnaði við vatnsveituframkvæmdir sveitarfélaga. Biskupstungnahreppur átti fulltrúa í stjórn félagsins fyrsta starfsárið og síðan ekki söguna meir. Sláturfélag Suðurlands átti fulltrúa í stjórn 12 fyrstu starfsárin, en að öðru leyti skipuðu almennir notendur stjórnirnar. Segja má að félagið hafi fljótlega ekki haft neinn stjórnsýslulegan bakgrunn. Viðgangur þess byggðist bara á notendunum og hafði ekki stuðning eða aðhald frá neinu stjórnvaldi, utan mögulega oddvitanefndarinnar, sem þó fjallaði ekki um neitt nema Iðumálin, sem er sérstaklega fjallað um annarsstaðar í þessari yfirferð. Rekstur veitunnar naut ekki styrkja umfram notkunargjöldin og var þannig óháður aðstoð utan frá.

Þegar fulltrúi sláturfélagsins hætti að sitja í stjórn, árið 1977, má heita að félagið hafi bara orðið að nokkurskonar íbúafélagi. Það má halda því fram að vissu leyti, að það hafi orðið að táknmynd fyrir nokkurskonar “sjálfstæði” Laugaráss, en smátt og smátt fór að bera á því, að þetta fjöregg fjarlægðist fólkið, aðallega vegna þess, að það flutti stöðugt nýtt fólk í þorpið, sem ekki þekkti þessa sögu. Frumkvöðlarnir eltust og drógu sig út úr daglegu amstri, fluttu burt, eða dóu. Þegar sláturhúsið var aflagt hvarf einnig ein megin stoð þessa félags út úr samfélaginu.

Síðan gerðist það, að sláturhúsið var selt. Nýr eigandi taldi sig eiga helming vatnsins og hugðist nýta sér eignarhlut sinn til tekjuöflunar. Stöðugt varð erfiðara til að fá fólk til að sitja í stjórn félagsins, og þar með halda utan um reksturinn. Það var aðallega vegna þess, að ungmennafélagsandinn, sem einkennt hafði félagið, var ekki lengur fyrir hendi. Loks má nefna sem ástæðu, að það var farið að bera á vatnsskorti á álagstímum á sumrin.

Það varð úr, eftir allmikil átök, að "félagar" samþykktu að afhenda sveitarfélaginu veituna gegn því að þeim væri áfram tryggt nægilegt kalt vatn. Þetta “sjálfstæðistákn” Laugarásbúa rann þar með inn í Bláskógaveitu.

Aðrir punktar úr starfseminni

Auðsholt: Árið 1972 óskuðu íbúar í Auðsholti, sem er handan Hvítár, eftir að fá vatn frá veitunni, en ekki taldist annað fært en að hafna erindinu. Samningurinn um vatn úr Stekkatúnslæk gerði ráð fyrir að þaðan fengjust allt að 4 sek/l. Vissulega notaði sláturhúsið ekki vatn nema á haustin í sláturtíð og þá var vatnsþörf vegna ræktunar farin að minnka, svo það var í raun aldrei einhver tími árs, sem hætta væri á að vatnið dygði ekki. Samt var óttinn við vatnsskort alltaf fyrir hendi og stjórnir félagsins urðu því að fara varlega í að veita heimildir til vatnsnotkunar í ræktun.

Skálholt: Í síðari hluta ágúst 1980 óskaði Skálholtsstaður eftir aðild að veitunni, en þá var þar uppi bráður vandi. Skálholtsstaður fékk þá að tengja í stút Rauða krossins til bráðabirgða, en þá var þar ekki lengur starfsemi. Vandi Skálholts reyndist viðvarandi og staðurinn sótti um fulla aðild að veitunni og lagði stofn frá Skálholti að Ljósalandi 2-3" víðan að öllu leyti á sinn kostnað. Árið eftir var gert bráðabirgðasamkomulag um vatn til Skálholts þar sem staðnum var “heimilað að fá næturrennsli frá 20-8, en heimilt væri að loka fyrir vatnið ef þurfa þætti þegar sláturhúsið væri að störfum. Nokkuð var rætt um vatnsveitu Biskupstungna og hvernig Vatnsveita Laugaráss myndi tengjast því máli og stjórninni falið að kanna þau mál.”

Þegar þarna var komið gerðust þær raddir háværari sem vildu tryggja öruggt og nægilegt vatn til framtíðar í Laugarási og nágrenni. Það var ekki bara í Laugarási sem mögulegur var að verða skortur á köldu vatni og á hreppsnefndarfundi í júlí, 1980, kom fram að “oft hefði komið fyrir að vatnið þryti hér í hverfinu [Reykholtshverfi] að undanförnu.” Hreppsnefnd samþykkti þá að fá vatnsvirkjanaráðunaut Búnaðarfélags Íslands til að gera tillögur um úrbætur.

Stjórn vatnsveitufélagsins sendi hreppsnefnd bréf sem tekið var fyrir á hreppsnefndarfundi í nóvember 1980:

… þar er greint frá því að borist hafi umsókn frá Skálholtsstað um inngöngu í Vatnsveitu Laugaráss. Óskað er eftir því að fá upplýsingar um fyrirhugaðar vatnsveituframkvæmdir á vegum Biskupstungnahrepps, hvernig þeim verði háttað og hvenær áætlað er að vatnsveitan komi í gagnið, þar sem þeir telja eðlilegra að Skálholtsstaður verði með í vatnsveitu Biskupstungna, en jafnframt lýsa þeir sig tilbúna að leysa vatnsþörf þar, þar til vatnsveita Biskupstungna kemur í gagnið.
Fram kom, að undirbúningur að vatnsveitu Biskupstungna er ekki kominn á það stig að unnt sé að svara þeim spurningum efnislega, sem fram koma í þessu bréfi.
Samþykkt var að leggja áherslu á að hraða undirbúningi að lagningu vatnsveitu Biskupstungna og voru eftir taldir tilnefndir til að vinna að honum: Þórfinnur Þórarinsson, Sveinn Skúlason og Sigurður Þorsteinsson.

Síðari hluta árs 1982 var gengið frá samningi um kalt vatn, við Skálholtsstað og hann var síðan endurnýjaður með lítilsháttar breytingum árið 1989.

SS og RKÍ
Síðustu sumarbörnin hurfu úr Krossinum haustið 1971 og sauðfé var síðast slátrað í Laugarási haustið 1988. Vissulega hafði þetta áhrif á tekjur félagsins og eðli þess, ekki síst brotthvarf sláturfélagsins. Félagið varð enn frekar félag íbúa í Laugarási. Afskipti opinberra aðila, fyrirtækja eða stofnana voru engin.
Sláturfélagið nýtti húsakynni Krossins meðan enn var slátrað.

Breyttar samþykktir:
Árið 1973 var ákveðið að fella niður svokölluð stofngjöld, en þar var um nokkurskonar aðildargjöld að félaginu að ræða. Á móti voru fastagjöld hækkuð.

Árið 1976 var ákveðið að breyta samþykktum félagsins þannig að aðalfundur teldist lögmætur ef þriðjungur félagsmanna mætti. Það verður að gera ráð fyrir að fyrir þessu hafi verið sú ástæða veigamest, að fundasókn fór dvínandi og þar með áhuginn á starfi félagsins.

Ný íbúðarhverfi
Þegar ný íbúðarhverfi eru skipulögð, þá kemur það í hluta sveitarfélags að sjá til þess að innviðir séu fyrir hendi, þar með kalt vatn. Sveitarfélagið rak ekki vatnsveitu í Laugarási og því vafi á því að vatnsveitufélaginu bæri skylda til að kosta stofnlagnir í ný hverfi, sem ekki lá fyrir hvenær myndu byggjast. Þegar nýtt svæði var skipulagt á Laugarástúni (nú Austurbyggð) treysti vatnsveitufélagið sér ekki til að leggja stofninn, enda gerðu notendagjöldin ekki meira en standa undir rekstrarkostnaði. Því fór félagið fram á að Biskupstungnahreppur greiddi stofngjöld fyrir óúthlutaðar lóðir.

Vatnsskortur?
Í ljósi þess vatnsmagns sem samningurinn við landeigendur á Iðu, um skipti á heitu og köldu vatni fól í sér, var gert ráð fyrir að úr lindinni kæmu 3-4 sek/l að jafnaði. Vatnsveitufélagið fór í að mæla raunverulegt vatnsmagn árið 1982, fyrst í janúar og febrúar, en þá reyndist vatnsmagnið vera, að jafnaði 2,84 sek/l. Næst var mælt í mars og apríl og þá reyndist mesta vatnsmagn sem mælr var vera 3,81 sek/l. Enn var mælt og 21. júní var vatnsmagni 2,97 sek/l, 8. ágúst, 3,42 sek/l og 26. sept. 3.3 sek/l.