Hallar undan fæti

Stór hluti þeirrar umfjöllunar sem á sér stað um Krossinn í gögnum Reykjavíkurdeildar RKÍ og Rauða krossins lýtur að ýmsum vandamálum sem upp komu í tengslum við uppbygginguna í Laugarási. Þau sneru aðallega að fjármálum og oft er greint frá því að óskað sé eftir styrk frá Reykjavíkurborg til reksturs og viðhalds.

Húsin, sem höfðu gegnt hlutverki herskála við Hafravatn á stríðsárunum, voru amerísk að uppruna og hentuðu líklega ekkert sérstaklega vel íslenskum staðháttum. Þar fyrir utan voru þau ekkert hugsuð eða hönnuð til langrar framtíðar.

Húsin voru í eigu RKÍ en Reykjavíkurdeildin sá um rekstur sumardvalarinnar og greiddi eigendum leigu fyrir húsnæðið. Leiguupphæðin reyndist ekki duga fyrir þeim kostnaði sem RKÍ hafði af húsunum og í mars 1965 sendu formaður RKÍ og gjaldkeri bréf til Reykjavíkurdeildarinnar þar sem greint er frá því að lengra verði ekki gengið á sömu braut.  Í bréfinu segir svo um leigutekjurnar:

Þessar greiðslur hafa á engan hátt nægt fyrir þeim kostnaði, sem Rauði kross Íslands hefur haft af því að gera húsin í Laugarási hæf til að þjóna hlutverki sínu sem barnaheimili. Samtals hafa þessar greiðslur umfram leigutekjurnar  numið á síðastliðnum tíu árum nálæg 1 milljón króna, og þar af á þessu ári og í fyrra ca. kr. 500.000. Á næsta ári er fyrirsjáanlegt, að barnaheimilið verður ekki rekið án þess að lagt verði enn í kostnað, sem mun sjálfsagt nema 2-3 hundruð þúsund krónum, en þá má ætla, að það lag verði á komið, að húsin verði hlutverki sínu vaxin enn um hríð án mjög stórkostlegra framkvæmda.

Síðar í bréfinu segir:

Í upphafi sýnast húsin hafa verið sett upp til bráðabirgða þannig að ekki hefur verið til þeirra vandað og þrátt fyrir góðan vilja til viðhalds húsa sýnast þau hrörleg 

Þennan kostnað verður að fá greiddan með öðrum hætti og ólíklegt er að Reykjavíkurdeildin sjái sér fært að bera hann. Er þá ekki í önnur hús að venda en til Reykjavíkurborgar. Því sendir stjórn Rauða Kross Íslands nú húsaleigukröfu að fjárhæð kr. 180.000 fyrir sumardvalirnar á síðastliðnu sumri og miðar þá fjárhæð við húsaleigukröfu ríkisins fyrir afnot skólahúss að Efri-Brú fyrir sumardvöl 30 barna, en að Laugarási voru 120 börn.

Skýrsla héraðslæknis

Konráð Sigurðsson

Konráð Sigurðsson

Það er ef til vill ekki ástæða til að fjölyrða um það hvernig húsunum hrakaði smátt og smátt, en 1970 voru unnar skýrslur um ástand húsanna, annars vegar var um að ræða skýrslu læknis, en hún kom í hlut Konráðs Sigurðssonar, héraðslæknis í Laugarási.

Konráð segir um ástand húsakynnanna:

Húsasamstæða sett saman af 9 timburhúsum, ca. 30 ára gömlum. Í upphafi sýnast húsin hafa verið sett upp til bráðabirgða þannig að ekki hefur verið til þeirra vandað og þrátt fyrir góðan vilja til viðhalds húsa sýnast þau hrörleg og  elli...

Konráð greinir síðan frá 13 steypiböðum á staðnum og 12 salernum. Húsin séu upphituð frá hitaveitu og vatnið sé fremur of heitt en svalt. Þrifnað telur hann viðunandi og í húskynnunum geti verið um það bil 100 börn. Um bruna- og aðra slysahættu segir Konráð að  

Húsin séu prýðilegasti eldsmatur, en brunavarnir eins góðar og aðstæður leyfa, neyðarútgöngudyr eru á hverjum svefnskála.

Skýrsla Leifs og Jóns

Leifur Blumenstein og Jón G. K. Jónsson

Leifur Blumenstein og Jón G. K. Jónsson

Hin skýrslan er heldur viðameiri og áhugaverð fyrir þær sakir hve húsakostinum er lýst nákvæmlega. Það eru þeir Leifur Blumenstein og Jón G. K. Jónsson sem skrifa undir skýrsluna:

Húsin eru það illa farin að ekkert vit er í að fara út í algjörar viðgerðir eða endurbætur á þeim,


Byggingarnar:

Húsin samanstanda af fleka húsum alls níu að tölu að viðbættri yngri viðbyggingu. Flatarmál hvers húss er 8-12 metrar eða 96 m². Er því heildarflatar,ál húsanna, ásamt viðbyggingu um 1000 m². 4 hús eru notuð sem svefnskálar dvalarbarna, 1 fyrir starfsfólk, 1 fyrir eldhús, 1 fyrir þvottahús og bað ásamt viðbyggingu og tvö fyrir matsal og setustofu.

Húsin eru níu herskálar úr timbri með asbest þökum og timburklæddir að utan. Munu húsin bandarízk að uppruna og notur sem herspítali á stríðsárunum 1942-1945 upp við Hafravatn í Mosfellssveit og gefin Rauðakrossinum í stríðslok. Sennilega hafa þetta verið nokkuð vönduð hús miðað við að þau hljóta að hafa verið byggð til bráðabirgðanotkunar.
Ekki virðist hafa verið grafið fyrir undirstöðum húsanna niður á frostfrítt heldur rétt niður fyrir yfirborð. Settir þannig niður steinsteypustólpar, stoðir á milli og flekagólfin á þær. Fyllt með jarðvegi að húsunum. Dýpi niður á fast 2,50 – 3,00 m.
Sjá má við eina húshliðina tvö eða þrjú rör upp úr jörð og gætu það verið leifar  loftræstingar undan húsunum, en ætla má að þau hafi verið sett síðar.
Fyrir um það bil fjórum árum var grafið frá húsunum og trérimlar setti milli undirstaða upp úr jörð í stað jarðvegs, en það hefur því miður verið orðið of seint.

Þegar komið er að húsunum sést strax að þau hafa missigið vegna frosts. Þakmænar eru söðulbakaðir eða öfugt. Slakkar eru í þök á nokkrum stöðum og húsin mishá. Málning flögnuð og húsin heldur óhrjáleg á að líta. Asbest á þökum virðist heilt að mestu og munu húsin ekki leka, enda vatnshalli þaka góður. Panil klæðning á útveggjum sumstaðar farin að gefa sig, þá meir neðst á veggjunum. Einfalt gler er í gluggum og einangrað með trétexi.

Eitt af því fyrsta, sem tekið er eftir þegar inn er komið, er hve gólf eru mishæðótt og óstinn. Þetta stafar sennilega af missigi húsanna og fúa í gólfbitum. Þá eru veggir og loft að innan klædd með masonit plötum. Litur á lofti og veggjum er masoniteliturinn, eins og hann kemur fyrir þegar búið er að lakka hann, en heldur í dekkra lagi. Litlir glugga og dökkur litur inni gefa húsakynnunum þröngan svið pg sést þétta bezt þegar komið er inn í eldhús eða böð, sem eru í ljósari tón. Enda mun starfsfólk ánægt með eldhúsið, en böðin eru lögð mosik á steypt gólf og viðarveggi fyrir nokkrum árum og skólplögn endurlögð og teiknuð upp og munu þær framkvæmdir hafa kostað um 400 þús. kr.   Allar hurðir og gluggar í lélegu ástandi, enda varla annars að vænta. Ofnar á miðjum gólfum í svefnskálum og munu húsin ekki kynt á veturna.

Húsin eru það illa farin að ekkert vit er í að fara út í algjörar viðgerðir eða endurbætur á þeim, þar sem það myndi þýða algjöra endurbyggingu, en hinu verður ekki neitað að hægt væri að halda þeim í núverandi ástandi í nokkur ár, jafnvel 10 ár, en hætt er við að viðhaldskostnaður yrði hár, því ástand þeirra er þannig að á öllu má vera von, sérstaklega með gólf húsanna og veggi að neðan, utan húss.

Þvottavélar í þvottahúsi munu vera lélegar. Kaldavatnslögn að byggingu frýs, að sögn, á hverjum vetri.

 Þegar horft var raunhæft á ástand húsakynnanna þegar hér er komið, virtist fátt geta komið í veg fyrir að rekstrinum verði hætt. 
Á stjórnarfundi RKÍ  í ágúst 1969 var samþykkt að leitað yrði heimildar aðalfundar til að ráðstafa húsunum, annað hvort selja þau eða breyta notkun þeirra með einhverjum hætti.
Á aðalfundi Reykjavíkurdeildar 1970 var fjallað  um bágborið ástand húsanna, óhemju kostnað sem fylgja myndi því að koma þeim á viðunandi ástand og fjárskort.

..... einfaldlega ekki nógu tryggt, sem dvalarstaður

Síðasta sumarið sem börn svöldu í Laugarási var sumarið 1971. Á því ári gerði Eldvarnaeftirlitið athugasemdir við húsnæðið, sem lutu að því að það væri einfaldlega ekki nógu tryggt, sem dvalarstaður fyrir svo mörg börn sem þar dvöldu. 

Sumarið 1971 dvaldi alls 161 barn í Laugarási, sum í sex vikur en önnur í 12. Þessi börn voru á aldursbilnu 6-8 ára.

En það var ekki þar með sagt að sögu barnaheimilisins í Laugarási væri lokið.

Uppfært 12/2018