Börnin

Hér er athyglinni beint að mikilli aðsókn að sumardvöl fyrir börn og einnig lífi barnanna í Krossinum

Strákahópur léttklæddur í blíðviðri sumarið 1959 (mynd Matthías Frímannsson, fengin hjá Hrefnu Hjálmarsdóttur)

Mikil aðsókn

Manstu, lesandi góður, þegar þú varst barn að aldri, hvað þig langaði til að fara í sveitina, — vera frjáls og sjá öll dýrin og allt sem sveitin býður upp á. Ef til vill hefur þú fengið þessa ósk þína um sveitadvöl uppfyllta. Ef til vill hefur þú eða einhver sem þú þekkir ekki fengið þessa sömu ósk uppfyllta. En löngun þín eða nágranna þíns var söm þrátt fyrir það.
Er þá nokkuð göfugra til en að stuðla að því með ráðum og dáð að sem flest börn fái ósk sína um sumardvöl í sveit uppfyllta. Um 13 ára skeið hefur Rauði kross Íslands átt sinn virka þátt í því, í fyrstu ásamt ýmsum öðrum aðilum, en síðar upp á eigin spýtur, að sem flest börn yrðu þessarar hamingju aðnjótandi.

Með þessum hætti voru sumardvalir barna settar í ákveðinn ævintýraljóma í Morgunblaðinu lok fyrsta starfsárs Krossins. 

Sigurjón Björnsson

Næstu allmörg árin var mikil aðsókn í sumardvalirnar og í grein sem Sigurjón Björnsson, sálfræðingur, skrifaði í Vísi 1963 segir:

Vitað er að miklu fleiri umsóknir berast um sumardvöl en nokkur leið er að anna og má af því ætla, að mjög mörgum foreldrum sé það mikið kappsmál að losna við börnin yfir sumarið, jafnvel þótt þau séu ekki eldri en 4—5 ára. Í mörgum tilfellum munu að vísu erfiðar heimilisástæður valda. En einna helzt er að sjá, að það sé að verða tízka, að foreldrar komi litlum börnum sínum fyrir yfir sumartímann. 

Vorið 1963 var í blöðum fjallað um sókn í sumardvalir og og talað um mjög brýna þörf á að fjölga dvalarplássum. Þá voru um 300 börn á biðlista. 

Hefur aldrei orðið að vísa jafn mörgum börnum frá og nú. Fyrir ganga ekkjur með börn, ógiftar mæður og barnmargar fjölskyldur. Var ástandið slíkt nú, að ekki þýddi fyrir hjón með þrjú börn að beiðast dvalar fyrir börn sín.   
- Alþýðublaðið maí 1963.

Það fyrsta sem kom í hugann þegar ég renndi yfir upplýsingar um sumardvalir á vegum Rauða krossins var eiginlega undrun og í kjölfarið vangaveltur um hvernig það hefði getað gengið að senda börn frá þriggja ára aldri burt frá fjölskyldum í tvo mánuði yfir sumarið. Ef maður léti sér detta annað eins í hug nú, í upphafi 21. aldar yrði sennilega upp fótur og fit. 
Niðurstaðan er því sú, að hver tími býr við sinn veruleika og viðhorf. Það var ekkert óalgengt að börn væru send í sveit, eða í fóstur hjá vandalausum, af ýmsum ástæðum.

Þessi sprenging í sumardvölum ungra barna sem varð upp úr styrjaldarárunum tengdist einnig þeirri sprengingu í barnsfæðingum sem hófst á síðustu árum styrjaldarinnar og stóð fram á sjöunda áratuginn. 

Strákahópur í klifurgrind sumarið 1959 (mynd Hrefna Hjálmarsdóttir(

Fyrstu árin, eða nokkuð fram á sjöunda áratuginn, voru börnin í Krossinum á aldrinum þriggja en síðan fjögurra til 7 eða 8 ára.  Síðustu árin voru dvalargestirnir eldri, eða sex til átta ára og dvalartíminn sex eða tólf vikur.  Þau börn sem dvöldu í tólf vikur komu úr erfiðum heimilisaðstæðum, t.d. ef foreldri gekk í gegnum alvarleg veikindi.

Lífið í Krossinum

Það má nærri geta að það var heilmikið mál að halda heimili með þann barnafjölda sem dvaldi í Krossinum yfir sumarið.  Það hefur kallað á festu og aga, mikið skipulag og utanumhald af hálfu starfsmannanna. Auðvitað er rétt að hafa í huga að um miðja síðustu öld voru samskipti fullorðinna og barna með öðrum hætti en nú er og skýrari skil á milli þeirra sem hlýddu og þeirra sem hlýtt skyldi.

Það sem vísast hefur þó verið enn mikilvægara var sálrænt utanumhald um börnin. Mörg tárin féllu, ekki síst á kvöldin þegar hugur fékk tíma til að reika heim.

 

Hér birti ég tvær frásagnir af því hvernig þessu var öllu háttað. Annarsvegar vegar frásögn Hrefnu Hjálmarsdóttur, sem starfaði í Krossinum sumarið 1959 og hinsvegar úr umfjöllun um heimilið sem birtist í Morgunblaðinu 1952.

Frásögn Hrefnu Hjálmarsdóttur

Frásögn Morgunblaðsins

Morgunblaðið 24. ágúst 1952

Klukkan 7 á morgnana vakna 112 börn, 55 drengir og 57 stúlkur, í þægilegum rúmum að barnaheimilinu í Laugarási. Og kl. 7.30 klæða þau sig og snyrta. Að sjá 112 greiður í barnshöndum á lofti í einu, hlýtur að vera skemmtileg sjón.

Drengirnir eru miklu fljótari að greiða hár sitt og komnir að matborðiu kl. 8.15 og borða hafragraut, brauð og mjólk. Stundarfjórðungi síðar koma telpurnar til borðsins.

Södd og hrein halda börnin út til leikja með fóstrunum. Allt er tekið í notkun, rólur, klifurgrindur og sölt. Litlir fætur stíga létt til jarðar um grundir og móa meðan leitað er að berjum. Fyrr í sumar vöndust börnin á að borða grænjaxlana. Nú er leitin að þeim erfiðari, en framkvæmd samt sem áður og fullorðna fólkinu eru gefin svörtu berin.

Þennan morgun gerðist atburður, sem er einstæður á barnaheimili. Stundu eftir að börnin voru komin út til leiks komu tugir þeirra hlaupandi heim aftur og var mikið niðri fyrir. „Við fundum kálfinn, sem mennirnir fundu ekki!“ stundu þau upp. – Sagan var sú, að kálfur hafði tapazt frá bæ einum í grenndinni. Nú fundu börnin hann þar sem hann hafði drukknað í skurði.

Matast (mynd mbl. 1952)

Klukkan 11.30 myndast biðraðir við handvaskana og hálftíma síðar eru allar hendur hreinar. Matsalurinn fyllist. — Dauðakyrrð ríkir. Allar hendur eru undir borðum, en maturinn bíður rjúkandi. „Gjörið þið svo vel," segir ein fóstranna. Þögul og næstum hljóð borða börnin. Engin köll um meiri mat. Þarna gilda ákveðnar reglur. Hægri hendin réttist upp, ef einhvers er ábótavant. Þennan dag borðuðu börnin 15 kg af pakkafiski og skyrsúpu á eftir. Mjólk er að sjálfsögðu veitt með matnum.

Þennan dag sem aðra voru drukknir 150 l af mjólk. — Að máltíðinni lokinni hljómaði söngur. „Litla flugan" fyrst og síðan sumarlag. Stærri börnin hjálpuðu til við eldhússtörfin og það er eftirsótt starf meðal barnanna. Hin hurfu til leiks að nýju. Vinir saman eins og gengur. Það var sullað í volgum læknum, sem hefur ótrúlegt aðdráttarafl og dundað við margvísleg störf, fram til 3 að enn er gengið til matstofu, drukkin mjólk og borðað smurt brauð. –

Kvöldþvottur (mynd mbl. 1952)

Leikurinn bíður úti en kl. 6.30 bíður sama verkefni barnanna og um hádegið: þvottur og að matast. – Að þeirri máltíði lokinni er enn vendilegri snyrting fyrir höndum. Andlits- og fótaþvottur sem hlýtur misjafnar undirtektir.

Kl. 8 eru allir tilbúnir í háttinn. Fram til 10 situr forstöðukonan Ingibjörg eða Þórður kennari hjá börnunum og segja þeim sögu eða aðrar frásagnir. Syfjaður kollur dettur út af annað slagið og um kl. 10 sofna stærstu börnin.

Dagurinn er að kvöldi kominn að Laugarási. Börnin svífa inn í draumalönd sín ánægð og þreytt eftir dagsins erfiði. Ef til vill dreymir sum þeirra um kálfinn. Sængin fær óþægilega meðferð hjá sumum, en umhyggjusöm vökukongn hlúir að þeim jafnóðum.

Það er auðskilið hvers vegna börnin vilja vera lengur í sveitinni en dvalartíminn er.

Uppfært 12/2018