Hrefna Hjálmarsdóttir:

Laugarás sumarið 1959 

Hrefna Hjálmarsdóttir

Við Austurvöll í Reykjavík stóð eitt sinn lítið hús við hlið Landsímahússins. Þar var aðsetur Rauða krossins um árabil, en húsið er  löngu horfið. Snemma vors 1959 kom ég í þetta litla hús ásamt vinkonu minni Gígju Árnadóttur. Við vorum báðar búnar að ljúka einu ári í framhaldsskóla og vorum á sextánda og sautjánda ári. Þarna vorum við sem sagt mættar ásamt fjölda ungra stúlkna, sem höfðu áhuga á að fá vinnu á Barnaheimili Rauða krossins en það var  í Laugarási í Biskupstungum. Mig minnir að litla biðstofan hafi verið alveg full. Við vorum kallaðar inn í lítið viðtalsherbergi  hver og ein og við Gígja vorum svo heppnar að komast í þann hóp sem ráðinn var. Sennilega hefur það verið talið okkur til tekna, að sumarið 1958 höfðum við unnið í Leikskólanum  Grænuborg. Við tókum líka virkan þátt í skátastarfi og kunnum mikið af söngvum, leikjum o.þ.h.

Ég mun reyna að festa á blað það helsta sem ég man frá þessu skemmtilega sumri.

Starfsfólkið 1959.
Neðsta röð f.v. Eva, Margrét Schram, Margrét Jónsdóttir, Gegga/Bessa, Margrét ?, ?, Guðríður Thorlacius.
Miðröð: Hrefna, Gígja, Ásta, Dagný, ?, ? (Oddný).
Efsta röð: Rósa Magnúsdóttir vökukona (D) Helga, Major Svava. ?, ?, ?, ?, ?, dóttir Karls O. Runólfssonar, Dísa, Matthías Frímannsson, Sigríður matráðskona.

Mynd frá Hrefnu Hjálmarsdóttur eftir Matthías Frímannsson.

Starfsmannahópurinn var tvískiptur. Við, sem  sem sinntum börnunum vorum a.m.k. 12. Deildirnar voru fjórar. Tvær fyrir stúlkurnar (yngri og eldri) og tvær fyrir drengina. Mig minnir að börnin hafi verið 120, þ.e.  30 á hverri deild.

3. deild, 1959. Vinstra megin er Gígja og Hrefna er hægra megin. Þarna var um að ræða stráka sem voru 4-6 ára sem þær höfðu umsjón með þetta sumar.
Mynd frá Hrefnu Hjálmarsdóttur, eftir Matthías Frímannsson.

Við Gígja vorum með 3. deild en það voru yngri drengirnir. Við vorum þrjár saman í herbergi. Sú sem var með okkur var ágæt vinkona okkar Kristín Bjarnadóttir, en hún var afleysingastúlka - leysti af í veikindum og í fríum. Í herberginu voru kojur fyrir tvær, skrifborð og stóll, eitt rúm og svo fataskápur. Okkur fannst þetta alveg ágætt. Herbergið okkar var við enda svefnsals drengjanna.

Við heyrðum alltaf talað um að þetta hefði upphaflega verið hersjúkrahús. En ég er ekki viss um að það sé rétt. Sýnist annað hafa komið fram í skrifum á Facebook. En þessi bygging var engu lík sem ég hef kynnst.

Matthías fær hármeðferð (permanent) hjá Dísu. Mynd frá HH, eftir MF

Hinn hluti starfsmannahópsins sá um matseld, ræstingar, þvotta o.fl. Þær gistu í annarri álmu. Þar voru yfirleitt eldri starfsstúlkur og höfðu sumar verið þarna nokkur ár. Einn karlmaður var á staðnum, Matthías Frímannsson, sem var þá guðfræðistúdent og var hann ráðsmaður. Ég man ekki betur en þetta vaktafyrirkomulag hefði gengið ágætlega upp.

Við vöknuðum snemma og hjálpuðum drengjunum að klæðast, fara á klósett og þvo sér. Sumir vöknuðu fyrir allar aldir og þá var það vökukonan sem sinnti þeim. Þeir fengu oftast „dönsk blöð“ til að skoða í kojunum. Svo var farið í morgunmat, yfirleitt hafragrautur. Ég man eftir einum strák sem gat borðað 4-5 diska. Það var Örn Petersen, sem sá lengi um útvarpsþáttinn "Lög unga fólksins". Mörgum árum síðar var dóttir hans í minni umsjá á skóladagheimili. Ég minnist þess ekki að börnin hafi verið þvinguð til að borða hafragrautinn. Þau höfðu yfirleitt mjög góða matarlyst. Eftir morgunmat var svo farið út, ég man ekki oft eftir því að þau hefðu verið inni, þó kannske ef  rigndi mikið.

“Sól úti —- sól inni” Mynd Hrefna Hjálmarsdóttir

Útileiksvæðinu var skipt í fjögur svæði og vorum við eina viku í senn með yfirumsjón með hverju svæði. Við höfðum heyrt af slysinu sem hafði orðið sumarið áður og flestum var illa við að vera á 4. svæði og við reyndum að fylgjast sérstaklega vel með börnunum þar.
Börnin komu inn skömmu fyrir hádegismat, en það fór eftir veðri. Ef þeim var að verða kalt fóru þau fyrr inn, þvoðu andlit og hendur og svo sungum við með þeim og sögðum sögur. Ekki man ég eftir að þarna hefðu verið neinar bækur, hvað þá leikföng. Svo var farið í hádegismat í borðsalnum. Önnur okkar aðstoðaði börnin við matarborðið en hin borðaði í matsal starfsfólks og svo skiptumst við á. Mér fannst maturinn alveg ágætur. Eftir hádegi var aftur farið út alveg fram að kaffi. Ef veður var gott fengu börnin að drekka úti. Það fannst okkur og vonandi börnunum líka mjög skemmtilegt. Ef börnin voru lasin fengu þau að vera inni og liggja í svokallaðri sólstofu sem var í miðju húsinu og var reynt að fylgjast með þeim.

2. deild (hjá Svövu) Mynd frá HH, eftir MF

Eftir kvöldmat voru börnin orðin ofurþreytt og við starfsfólkið líka. Síðasta verkið okkar á kvöldin var að ganga frá fötum barnanna, setja í þvott það sem var óhreint og taka til hrein föt. Fötin þeirra voru öll í merktum hillum og það voru engin ósköp af fötum sem þau voru með. Það hafði myndast sú hefð að þegar börnin voru komin í náttföt fóru þau fram í starfsmannasalinn. Stóðu þar í  í röð og Major Svava, sem var forstöðukona, skoðaði þau sem það vildu. Stundum þurftu þau plástur, krem eða annað. Svava var hjúkrunarkona og gekk yfirleitt í hvítum slopp. Þegar börnin voru komin í ró þá tók vökukonan við. Hún gekk á milli deildanna og fylgdist með að allt væri í góðu lagi.

Krossinn - barnaheimili í Laugarási í Biskupstungum. Mynd frá HH, eftir MF

Á kvöldin söfnuðumst við stelpurnar saman í starfsmannasalnum. Það var oft mjög gaman hjá okkur. Við prjónuðum mikið, gerðum einhverja púða með fléttusaum, spiluðum og spjölluðum. Gott ef við fórum ekki líka í andaglas. Ef veðrið var gott á kvöldin, gengum við gjarnan niður að Iðubrú. Við skrifuðum líka talsvert af sendibréfum. Svo þvoðum við fötin okkar í þvottahúsinu. Þegar einhver okkar átti frídag var gjarnan reynt að komast í næsta kaupfélag, t.d. á Minni Borg. Sú hin sama var send með lista yfir sælgæti sem við vildum láta kaupa fyrir okkur.
Ég fór eina fríhelgi heim til mín og aðra helgi fórum við Gígja að Úlfljótsvatni í Grafningi í skátaskólann. Líklega höfum við farið á puttanum og eins með Ólafi Ketilssyni. Einn frídaginn gengum við á Vörðufell og upp að vatninu eins og Daði og Ragnheiður Brynjólfsdóttir gerðu í sögunni Skálholt. Það fannst okkur afskaplega rómantískt. Gígja vinkona mín sem vann þarna einnig sumarið 1960 sagði mér að seinna sumarið hefðu unnið þarna stúlkur frá Keflavík og þær hefðu stofnað saumaklúbb síðar meir þannig að þarna var stofnað til langrar vináttu.

Gönguferð í umsjá Kristínar og Dagnýjar. Mynd frá HH, eftir MF

Dagarnir voru yfirleitt hver öðrum líkir. Sennilega eitthvað betra í matinn á sunnudögum. En fimmtudagarnir voru þó öðruvísi. Það voru baðdagar. Stúlkurnar voru baðaðar f.h. Við sem vorum með strákadeildirnar lögðum af stað í gönguferð um morguninn og gengum yfir að Skálholti. Fórum gjarnan í undirgöngin sem þar voru, það þótti mikið sport. Það var yfirleitt kjöt í matinn þessa daga og við vorum öll glorsoltin þegar við komum til baka. Eftir hádegi voru svo drengirnir baðaðir. Tekin voru til hrein föt. Tvær starfsstúlkur voru á sundbolum og böðuðu börnin í baðkeri. Svo tóku aðrar við, þurrkuðu hárið og kroppana. Ég var sett í að klippa neglur á tám og fingrum og loks klæddu börnin sig í hreinu fötin. Það var mikið fjör þarna enda þurfti fleira fólk þessa daga.

“Aní Kúní” indjánadansinn

Þegar líða tók á sumarið kviknaði sú hugmynd að hafa skemmtun fyrir börnin. Líklega vorum það við, skátastúlkurnar, sem höfðu forgöngu um það, en við vorum nokkrar þarna. Við lékum nokkur leikrit, sungum og sýndum indíánadansinn Aní kúní. Fengum lánuð handklæði í þvottahúsinu nældum þau utan á okkur, lituðum okkur með sósulit og stungum fjöðrum í hárið. Þetta gerði mikla lukku. Rósa Magnúsdóttir, sem var vökukona, lék indíánahöfðingjann. Matthías Frímannsson var ágætur ljósmyndari og tók myndir af herlegheitunum.

“Þegar við fórum að Flúðum” Mynd frá HH

Og svo voru það sveitaböllin. Þeirra var beðið með eftirvæntingu. Við fórum að Flúðum, Minni Borg og svo á einhvern stað sem ég man ekki hvað heitir. Þetta var gaman fyrst en svo missti ég alveg áhugann. Var ekki vön svona miklu fylliríi. Mig minnir að það hafi verið mest gaman á Flúðum. Vinsælasta lagið þetta sumar var Hvítir mávar.
Svava major var ekki hrifin af þessum ballferðum og stóð eitt sinn svartklædd uppi við hlið til að fylgjast með hverjar okkar færu. En þetta var okkar frítími og ekkert hægt að amast við því, þó ungar stúlkur færu á ball. Kannske hófust  einhver ástarævintýri þarna, a.m.k. einhverjir jeppakossar. Enn vitna ég í Gígju vinkonu, sem sagði mér að  vinkona hennar sem vann í Laugarási hefði kynnst mannsefninu sínu á einu sveitaballinu.

Þegar komið var að síðasta degi fórum við og tókum upp úr töskum barnanna, en þær voru geymdar í húsi sem stóð stakt á lóðinni. Þar var eitt sett af fötum sem hafði verið geymt svo börnin væru þokkaleg til fara þegar þau kæmu heim.

Mér fannst þetta mjög skemmtilegt sumar og hefði gjarnan viljað fara aftur. En þetta var aðeins vinna í tvo mánuði og ég vildi gjarnan vinna lengri tíma og þá á sama stað. Ég var nemandi  í Versló og reyndi að vinna sem mest til að eiga vasapeninga til vetrarins. Hins vegar kveikti þetta í mér áhuga á uppeldi ungra barna, fór í leikskólakennarnám síðar og vann bæði á skóladagheimilum og leikskólum lengst af.

Lokaorð

Fóstrurnar sumarið 1959.
Neðri röð f.v Gígja Árnadóttir, Hrefna Hjálmarsdóttir, Margrét Schram, Margrét Jónsdóttir, Margrét Thorlacius, ?, Ásta Vígbergsdóttir, Eva ?
Efri röð f.v. Gegga eða Bessa (Gerður og Bergljót voru tvíburar “Man ekki hvor þeirra þetta var”), Kristín Bjarnadóttir, Guðríður Thorlacius, ?.

Sú mynd sem ég hef dregið upp er kannske nokkuð yfirborðskennd og lýsir mest minni reynslu.
En hvernig leið börnunum á þessum stað?
Eftir að ég fór að læra uppeldis og sálarfræði þá fór ég að velta þessu mikið fyrir mér. Við fengum enga tilsögn, það voru engir starfsmannafundir haldnir, okkur var aldrei hrósað og aldrei vandað um við okkur. Engar bækur til, engin hljóðfæri, engin leikföng. Við tókum börnin í fangið þegar þurfti að hugga þau og reyndum að stilla til friðar þegar þess þurfti. En einstaklingsumhyggju var ekki hægt að sinna af nokkru viti. Ég er viss um að mörg barnanna grétu sig í svefn á kvöldin. Ekki minnist ég þess að foreldrar hafi komið í heimsókn. Ég man eftir mörgum af þessum börnum og hef hitt fáein síðar á lifsleiðinni. Vissi að mörg þeirra bjuggu við erfiðar félaglegar aðstæður og komst að síðar að tveir bræður hefðu „lent“ á Breiðuvíkurheimilinu.

Þess ber að geta að þekking á þroskasálarfræði var afar takmörkuð á Íslandi á þessum árum. Fyrstu sálfræðingarnir voru að koma til landsins og þóttu framan af mjög skrítnir. Svo komu uppeldisfræðingar eins og Valborg Sigurðardóttir með ýmsar kenningar varðandi uppeldi ungra barna, sem áttu ekki alltaf uppá pallborðið þó að þær séu vissulega  viðurkenndar í dag.

Stuttu eftir að ég kom aftur í bæinn var ég beðin um að vera barnfóstra hjá konu sem átti tvö börn, dreng og stúlku sem höfðu verið í Laugarási sumarið 1959. Ég man ekki hvernig þetta kom til en finnst líklegast að ég hafi rekist á  börnin  í búðinni ásamt móður sinni, en við bjuggum í sama hverfi. Við Gígja fórum þarna í allmörg skipti og mamman var einstaklega góð við okkur. 

Ég tel mig hafa bærilegt minni en þó er þess að gæta að minningum sem eru skrifaðar um sumar fyrir sextíu árum ber að taka með fyrirvara. Gígja Árnadóttir hefur lesið þetta yfir og komið með gagnlegar ábendingar.

Akureyri í mars 2018

Hrefna Hjálmarsdóttir

Uppf. 11.2018

Myndir frá Hallfríði Konráðsdóttur frá sumrinu 1960