Sorpið og fráveitumálin

Sorpförgun

Sorpgryfjur í Laugarási (mynd: LMÍ)

Um sameiginlega fráveitu var ekki að ræða í Laugarási fyrr en seint á áttunda áratugnum og allt sorp frá íbúunum endaði í gryfju sem var í kvosinni vestan við veginn sem lá að barnaheimili Rauða krossins, sem nú er Kirkjuholtsvegur.
Þannig var gengið frá sorpinu til ársins 1973, en þá var opnuð ný gryfja vestan við Höfðaveg, á móti Brennuhól. Þá voru uppi hugmyndir um að “koma fastri skipan á sorphreinsun í þéttbýlisstöðum hér í sveitinni. [Oddviti] skýrði ennfremur frá því, að þegar hefði verið grafin sorpgryfja í landi Laugaráss, en ekki liggur fyrir leyfi stjórnar Laugarásslæknishéraðs til að hafa þar sorpgryfju fyrir sveitina eða hluta hennar.” (hreppsnefnd 1. nóv. 1973)
Ekki kemur fram í fundargerðum oddivitanefndar að hún hafi veitt leyfi til allsherjar sorplosunar fyrir þéttbýlisstaði í þessari gryfju.

Það varð brátt ljóst að það væri engin framtíð í að losa sorp, eins og það kom fyrir, í gryfjur og farið var að leita leiða til að leysa sorpmálin til framtíðar á öllu Suðurlandi.

Sigfinnur Sigurðsson (1937-2004)

Í ársbyrjun 1974 tók hreppsnefnd fyrir bréf frá Sigfinni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra SASS um sorpeyðingu. Þar fjallar hann um “hönnun sem unnið hefur verið að, á möguleikum á sorpeyðingu fyrir Suðurland.” Í bréfinu segir hann að ástandið í sorförgunarmálum sé neyðarástand og að talið sé að sorphaugar eða sorpgryfjur samrýmist ekki umhverfissjónarmiðum. Talið sé að sorpbrennsla sé hagkvæmasta lausnin og unnið sé að því að koma slíkri upp á Suðurlandi.

Eftir lestur þessa bréfs varð þetta niðurstaða hreppsnefndar: „Ákveðið að reyna að koma upp einni eða tveimur brennslustöðvum til bráðabirgða, en gera ráð fyrir að taka þátt í byggingu Sorpeyðingarstöðvar Suðurlands.“

Sorpbrennsluofn, ekki ósvipaður þeim sem var í Laugarási. Þessi var settur upp á Spákonufellsmelum við Skagaströnd.

Það var síðan settur upp sorpbrennsluofn við Höfðaveg, þar sem sorpgryfju hafði verið valinn staður (sjá mynd ofar) og Laugarásbúar tóku þar til við að brenna sorp sitt. Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum smíðaði, eða útbjó ofninn, sem síðan var endurbættur, þegar komin var reynsla á hann. Efnið í honum var brennari úr graskögglaverksmiðjunni á Stórólfshvoli, tunnulaga, um það bil 1,50 m. í þvermál og 3 metrar á hæð. Framan á honum var lok þar sem ruslinu var hent inn og síðan borinn eldur að. Aftan á honum var op þar sem hægt var að fjarlægja öskuna úr honum. Upp úr honum var síðan strompur. Þessi ofn var, af einhverjum Laugarásbúum, kallaður Appollo, en meðal annarra gekk hann undir nafninu Ketilbjörn.

Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorp í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarás, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum.
Augljóslega var ofninn bara nothæfur fyrir heimilissorp og var stærri hlutum áfram komið fyrir í gryfju sem síðan var mokað yfir.
Þá mátti vel halda því fram að umgengni hafi ekki verið eins og best var á kosið og á síðari hluta árs 1976 greindi oddviti frá því á fundi hjá hagsmunafélaginu, að til stæði að girða svæðið af og síðan var umsjónarmanni ætlað að skipuleggja opnunartíma.

Í hálfan annan áratug var sorbrennsluofninn starfræktur í Laugarási, eða þangað til Biskupstungnahreppur ákvað ákvað að koma fyrir ruslagámi í Laugarási á vormánuðum 1989. Þá hafði hreppurinn verið aðili að gámaþjónustu frá vorinu 1988. Hagsmunafélag Laugaráss ýtti eftir því að gámur kæmi einnig í Laugaráss, en í bréfi til oddvita í júli 1988 segir: “Sorphirðing var einnig til umræðu. Í norðaustanáttinni leggur reykinn frá ofninum hér í Laugarási niður yfir byggðina og veldur þetta að sjálfsögðu mestum vandræðum í þeim húsum og garðyrkjustöðvum sem næstar ofninum liggja.
Nú þegar sorpmálum Reykholtshverfis hefur verið skipað í gott horf, væntum við þess að það sama gangi yfir íbúa Laugaráss í þeim efnum."

Ákveðið var að fá tvo ruslagáma til viðbótar þeim sem eru í sveitinni. Annar þeirra skal vera í Laugarási og skal Hagsmunafélagi Laugaráss falið að finna stað fyrir hann. Hinn gámurinn á að verða þar sem sumargestaálagið er hvað mest upp við Hlíðar. (fundargerð hreppsnefndar).

Til að byrja með ákvað stjórn Hagsmunafélagsins að gáminum skyldi valinn staður “við veginn nálægt hlaði inn að ruslabrennsluofni, sem enn er notaður.”

Síðar var svo ákveðið að setja gáminn úti við Skálholtsbeygju, svokallaða og þar var síðan gámasvæði, þar til sorphreinsum fór í það horf sem nú er (2021).

Fráveita/skólp

Fyrst er minnst á fráveitumál, í fundargerðum, í bréfi frá notendafélagsins til hreppsnefndar í júní 1973, en þar sem farið er fram á “að fullkomin lausn fáist á skólplagnamálum í Laugarási.” Þá var oddvita falið “að athuga hverjar eru skyldur sveitarfélagsins vegna skolplagna í hverfum eins og Laugarási og leita ráða sérfróðra manna um lausn, ef sveitarfélagið þarf að sjá um það.”
Það þótti þarna ástæða til að athuga hvort þetta væri eitthvað sem hreppurinn þyrfti að sinna. Oddviti kom, síðar þetta sama ár, á hreppsnefndarfund með þær upplýsingar “að aðkallandi væri að ganga frá skolpveitu í Laugarási. Samþykkt var að fela oddvita að undirbúa setningu reglugerðar um skolpveitur á skipulagsskyldum svæðum í Biskupstungum, og athuga jafnframt hverjar eru skyldur sveitarfélagsins í þessu efni.” Þar sem Laugarás féll undir skipulagsskylt svæði, var auðvitað ekki annað í boði en endurskoða það skipulag sem unnið hafði verið eftir, með tilliti til fráveitu.

Það gætti nokkurrar óþolinmæði í Laugarási með drátt á því að framkvæmdir hæfust en í maí 1974 var kynnt bréf hagsmunafélagsins þar sem stjórn félagins “ítrekar að nú þegar verði hafist handa um lagningu skolpleiðslu í hverfinu, sem fullnægi núgildandi kröfum Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Óskað er skriflegs svars hið allra fyrsta, ella verði málinu vísað til viðkomandi yfirvalda.” (úr fundargerð hreppsnefndar)

Það var síðan höggvið í sama knérunn með bréfi Guðmundar Jóhannssonar, héraðslæknis sem kynnt var að næsta fundi hreppsnefndar: “Niðurstöður hans eru þær, að ástandið sé fyrir neðan allar hellur, sérstaklega með tilliti til þess, að í hverfinu er framleitt allmikið af matvælum, sem er neytt án undanfarandi suðu eða sótthreinsunar.
Héraðslæknirinn lýsir yfir stuðningi við kröfu íbúanna um úrbætur og ætlast hann til að hreppurinn komi þessum málum í lag.”

Við svo búið mátt greinilega ekki standa því oddvita var falið “að reyna að fá tæknifróðan mann til að gera tillögu að áætlun um skolpveitu í Laugarási.”

Hreppsnefnd fékk síðan á fund Ingólf Pétursson, frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Hann taldi “úrbóta þörf á skolpveitu, þar sem óviðunandi væri að láta skolp renna í opna skurði eins og gert er í Laugarási, ekki síst vegna þess, að þetta er mikið matvælaframleiðslusvæði.”

Oddviti upplýsti þarna, að Gunnar Pálsson, verkfræðingur, hefði verið ráðinn til að gera áætlun um skolpveitu í Laugarási.

Í apríl 1975, var haldinn fundur í Laugarási, um frárennslismál. Þá voru íbúar milli 70 og 80. Þarna voru saman komnir, auk fulltrúa oddviitanefndar og heimamanna, Baldur Johnsen, yfirlæknir heilbrigðiseftirliti ríkisins, Eyjólfur Sæmundsson efnaverkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og Ingólfur Pétursson heilbrigðisráðunautur, heilbr. eftirl. ríkisins. Á fundinum var ástandi frárennslismála í Laugarási lýst svo:

Rotþrær eru við læknisbústaði og sláturhús. Rotþró er einnig við Rauða kross skálann (notaður sem mötuneyti fyrir sláturhúsið), en ekki er vitað til að fylgst væri með ástandi hennar.
Annarsstaðar eru rotþrær engar eða mjög ófullkomnar (gjarnan olíutunnur sem tengdar eru saman) og lítið vitað um hæfni þeirra. Frárennslið fer niður í opna framræsluskurði. Frá tveim húsum á hæðinni austan ylræktarsvæðisins rennur vatnið í opnum lækjum niður á flatlendið.

Um mögulegar úrbætur á frárennslismálunum var þetta skráð á fundinum:

Mjög erfitt mun vera að leggja holræsi í hinn gljúpa jarðveg ylræktarsvæðisins. Hefur því helst komið til tals að leggja þar rotþrær fyrir hvert hús. Hefur verið leitað tilboðs í norskar rotþrær úr plasti, í því skyni, en einnig stungið upp á að byggja þær úr fúavörðu timbri.
Með tilliti til þess, sem fram kom á fundinum, verður að telja eftirfarandi hið vænlegasta til úrbóta í núverandi byggð:

1. Verkfræðifyrirtækið haldi áfram könnun sinni á málinu og hafi samráð við heilbrigðiseftirlit ríkisins um sínar tillögur til úrbóta.

2. Hreppsnefnd komist að niðurstöðu um hvernig fjármögnun framkvæmdanna verður háttað.

 Öllum má ljóst vera, að núverandi ástand þessara mála er slíkt, að skjótar úrbætur eru forsenda áframhaldandi matvælaframleiðsu á staðnum.
Varðandi nýbyggingar var lögð á það áhersla að áætlanir um frárennslislagnir og rotþrær verði teknar nógu snemma til athugunar, þannig að framkvæmdum á því sviði yrði lokið áður en flutt yrði í nýbyggingarnar.
Lögð var á það áhersla, að samkvæmt núgildandi lögum og reglum væri skylt að ganga þannig frá nýbyggingum í sveit, að frárennsli sé hreinsað í rotþró. Samkmvæmt þessu væri eðlilegt að lán til slíkra framkvæmda fengist hjá lánasjóðum landbúnaðarins, enda hreinsibúnaður utanhúss ekki annað en framhald af hreinlætistækjum innanhúss.

Í maí 1976 greindi oddviti frá því á fundi hreppsnefndar að “borist hefði skýrsla frá Gunnari Pálssyni verkfræðingi hjá Önn sf. um áætlun um skolveitu í Laugarási.
Er í einni áætluninni gert ráð fyrir að
nota, að verulegu leyti, það sem til er af lögnum og rotþróm.
Í annarri áætlun er gert ráð fyrir
sogkerfi úr rotþróm hjá þeim húsum sem eru í lægðinni milli ásanna, en rennslislögn úr hinum.
Í þriðju áætluninni er gert ráð fyrir að
losa úr rotþróm með haugsugu.

 Oddviti kynnti þetta svo á almennum fundi í Laugarási skömmu síðar, undir lið í fundargerð hagsmunafélagsins sem nefndist: „Skólpfrárennslisspursmál“ hverfisins.

Þarna las oddviti álit verkfræðingsins, en “það eina sem hann taldi koma til greina var „sogkerfi“ sem flytti öll klóak útföll burt úr hverfinu í rotþró niðri við Hvítá, þaðan myndi saurinn renna út sem ómengað efni.” Það var gert ráð fyrir að kostnaður við þetta væri 17.3 milljónir, eða um 1.000.000 á hvert býli (rúmar 3 milljónir í sept. 2021). Að auki varð að koma til dæla sem myndi valda umtalsverðum reksturskostnaði.
Þá kom fram að heilbrigðiseftirlitið teldi rotþrær við hvert býli algjörlega ófullnægjandi.  Niðurstaða varð um að senda heilbrigðiseftirliti ríkisins erindi um að benda á “viðráðanlega lausn”.

Stjórn hagsmunafélagsins samdi bréf til Heilbrigðiseftirlits ríkisins, svohljóðandi:

Þann 8. maí var haldinn almennur fundur í Hagsmunafélagi Laugaráshverfis í Biskupstungum. Gísli Einarsson oddviti mætti á fundinn til að kynna okkur áætlanir yfir gerð klóaks og skólpveitu fyrir hverfið.
Um tvær tillögur var að ræða:
I. Sogdælukerfi. Það virðist mjög fullkomið og auðvelt í uppsetningu með tilliti til röralagna hér við okkar erfiðu aðstæður. En stofnkostnaður er mjög hár, eða ca. 20 milljónir og þar að auki rekstrarkostnaður á dælum. Við sjáum ekki að svo fámennt byggðarlag, ca. 80 íbúar geti staðið undir slíkri framkvæmd og erfitt fyrir Biskupstungnahrepp að leggja í framkvæmd sem þessa fyrir lítinn hluta hreppsins.
II. Þar sem reiknað er með 3m³ rotþró við hvert hús, eða ef fleiri geta sameinast um rotþró. Þessi tillaga býður ekki upp á nema 40-50% hreinsun á mengandi efnum, en er langtum ódýrari í stofnkostnaði og er að því leyti álitlegri en tillaga I.

Því viljum við undirritaðir, húseigendur í Laugaráshverfi óska eftir áliti heilbrigðiseftirlitsins á því hvort rot væri fullkomnara ef þrærnar væru stærri og hvað þær þyrftu að vera stórar til þess að fullkomin rotnun fáist. Ennfremur hvort unnt sé, með þróakerfinu að fá afföllin svo hrein að veita megi þeim beint í opna framræsluskurði. Hér eru mjög góðir möguleikar á að auka hitastig í rotþrónum til að flýta fyrir rotnun. Við komum ekki auga á annan, viðráðanlegan möguleika til að leysa sólpveitumál hér.

Laugarásbúar sáu ástæðu til að fjalla um “sívaxandi nauðsyn á að byggðar [yrðu] rotþrær” í hverfinu á aðalfundi hagsmunafélagsins í apríl 1978 og fólu stjórn að fylgja málinu eftir við oddvita, en oddviti greindi frá því á hreppsnefndarfundi í lok júli að tilboð hefði “borist frá Noregi um rotþrær, sem eru 1,5 rúmmetrar að stærð og er reiknað með að þær kosti um 200.000 krónur hver, komnar hingað. Til að fullnægja kröfum Heilbrigðiseftirlits ríkisins þarf tvær þrær við hvert hús.”

Þetta kynnti oddviti síðan Laugarásbúum og það með að hreppurinn myndi taka að sér að útvega lán handa þeim sem þess þyrftu, sjá um niðursetninguna og síðan annast hreinsun á þrónum eftir þörfum.

Þar með var rótþróamálum ekki lokið, því á aðalfundi hagsmunafélagsins árið eftir voru norsku þrærnar taldar dýrar og búið var að finna aðila á Selfossi sem væri “tilbúinn að gera þær á umtalsvert lægra verði. Ákveðið að fylgjast með því.”

Ári síðar (1979) fór oddviti yfir stöðu fráveitumálanna á hreppsnefndarfundi: “Nokkrar þrær voru keyptar frá Noregi í fyrra, en flestar þeirra hafa ekki verið settar niður enn. Ákveðið mun hvernig gengið verður frá þeim og munu þær verða settar niður nú á næstunni.
29 þrær hafa verið pantaðar hjá fyrirtæki á Selfossi og er nú unnið að smíði þeirra.
Einnig var rætt um nauðsyn þess að koma upp rotþróm við aðra bæi í sveitinni.”

Fyrirtækið á Selfossi, sem þarna er nefnt, mun hafa verið Fossplast hf. sem hóf að framleiða rotþrær út trefjaplasti á síðari hluta áttunda áratugarins.

Rotþróavæðingin í Laugarási ýtti heldur betur við hreppsnefnd, því síðar þetta sama ára lagði Skúli Magnússon fram tillögu í nefndinni um forgöngu hreppsnefndar um gerð rotþróa í sveitinni. “Samþykkt var að gera ráðstafanir til að viðunandi rotþrær komi við alla bústaði í sveitinni innan ákveðins tíma. t.d. þriggja ára. Kannað verði mjög rækilega, af til þess hæfum mönnum, kostnaðarhlið framkvæmdanna og gerður verði samanburður á plastþróm og steyptum þróm með sérhönnuðum mótum.”

Árið 1981 var rotþróamálið að sigla í höfn, en þá greindi oddviti frá því í hreppsnefnd, “að Fossplast h.f. á Selfossi byðist til að veita um 30% afslátt af rotþróm fyrir býli hér í sveit, ef pantaður verður dálítill fjöldi, eða 25 þrær. Samþykkt var að auglýsa þetta og leita eftir pöntunum.”

Lokun skurða í Laugarási - rauð brotalína (loftmynd frá LMÍ 1980)

Þegar vegagerðin fór í það verk, að byggja upp Skálholtsveg í gegnum Laugarás árið 1984, þurfti að loka skurðinum sem lá meðfram honum. Þá varð það úr, að hreppurinn legði skólpögn í skurðinn og vegagerðin framkvæmdi það. Þessi lögn tók síðan við frárennsli frá byggðinni vestan við veginn. Hún liggur frá vegamótum Skálholtsvegar og Kirkjuholtsvegar, að heimreið í Sigmarshús og þar undir veginn eftir skurðinum milli Varmagerðis og Sólveigarstaða, en skurðinum þeim var ekki lokað fyrr en 1991.
Á hreppsnefndarfundi í júní 1987 vakti Gústaf Sæland athygli á ástandi þessa skurðar og einnig skurðsins meðfram Ásholtsvegi (Skógargötu): “Skurður meðfram Ásholtsvegi er mál sýsluvegasjóðs og er málinu vísað til sýslunefndarmanns sveitarinnar. Í landamerkjaskurði milli Varmagerðis og Sólveigarstaða rennur klóak og voru hreppsnefndarmenn sammála um að loka þyrfti skurðinum. Oddviti tók að sér að skoða málið og bíður ákvarðanataka í málinu þar til síðar. Gústaf skal vera oddvita til ráðuneytis.”

Framkvæmdir við lokun skurðsins með Ásholtsvegi munu hafa hafist sumarið 1991, en það verk gagnrýndi Gústaf Sæland á aðalfundi hagsmunafélagsins það ár og svo einnig Sævar Magnússon í Heiðmörk á aðalfundi í október 1992: “illa hefði tekist til við fyllingu  skurðar við Ásveg (Dunkabraut); vatnsstaða í skurðum hefði ekki lækkað við þær framkvæmdir.”

Með skólplögnunum sem lagðar voru með Skálholtsvegi og Ás(holts)vegi, höfðu frárennslismálin verið leyst hjá stærstum hluta byggðarinnar í lægðinni milli Kirkjuholts og Laugarásholts. Þarna höfðu frárennslismálin á Ekru, garðyrkjustöð Asparlundar og Ljósalands ekki verið leyst, eftir því sem séð verður. Í apríl 1994 var tekið fyrir bréf frá Þórarni Helgasyni á Ekru, þar sem hann segir “að skurðir sem taka við rennsli frá garðyrkjubýlinu Ekru séu í ólestri.” Þórarinn hafði þarna fengið sér lögmann til að athuga hver á að sjá um að halda skurðunum við. Hann kvaðst ekki myndu greiða leigu af býlinu meðan sú athugun stæði yfir. Við þetta virðist hreppsnefnd farið í að skoða þessi mál, en á fundi hreppsnefndar í júlí, var oddvita falið að fylgja eftir lokun skurða, sem ákveðin hefur verið í Laugarási. Ekki liggur fyrir hvaða skurði var um að ræða, né heldur hvernig sú áætlun um framræslu, sem kynnt var á hreppsnefndarfundi í september, leit út.