Grjótgarður úr Vatnsleysulandi


Í Holtinu eru þrjár fjárhústóftir; Mangatóft á brekkubrúninni beint ofan við ruslahaugana, Stekkatún syðst og vestast í Holtinu, og sú elsta nokkru norðan við Stekkatún vestan megin í Holtinu. Líklega er það hún, sem kölluð er Sauðahústóft í landamerkjalýsingunni.

Séð frá Skálholtsásum yfir til Heklu. (mynd pms)

Nokkurn spöl austan hennar er afgirt, handgrafin þró, og er það gamalt vatnsból barnaheimilis Rauða krossins. Þetta sama vatnsból notaði Þröstur Leifsson garðyrkjubóndi á Birkiflöt fyrir fáum árum.

Stekkatúnsfjárhúsin voru rifin í kringum 1930, og líklegast er, að Stekkatúnsnafnið hafi komið til eftir það, og að þar hafi aldrei verið stekkur.

Mýrin sunnan við Holtið, sem byggðin stendur í núna, heitir Laugarásmýrin (GV). Hún var mjög votlend og ill yfirferðar, nema farið væri rétt sunnan Stekkatúns, um hlaðinn garð sem enn má sjá leifar af. Munnmæli herma að garður þessi sé frá tímum Stefáns grjótbiskups (1481— 1518) sem varð meðal annars frægur fyrir grjótgarða og hleðslur sem hann lét gera.

,,Hafði hann tvo menn vetur og sumar til að draga að grjót og sótti upp að Vatnsleysu. Var það flutt á bát niður fljótið á sumrin, en naut látin draga það á vetrum“ 
(Inn til fjalla I Rv. 1949, bls. 32).

Garður þessi er að líkindum með grjóthellum undir en nú mjög sokkinn í jörð. Á einum stað hefi ég fundið hellur í skurðbarmi á leiðinni milli Skálholts og Laugaráss og gætu þær hafa tilheyrt garðinum sunnan við Stekkatún. Vitanlega var þetta vegur frá biskupssetrinu að ferjustaðnum á Auðsholtshamri og annar vegur var áleiðis að Iðuferju.

Önnur leið til að komast yfir Laugarásmýrina var að fara suður fyrir, utan í Launréttarholtinu og mátti þá stikla á steinum yfir Ósinn neðan við Lónið.

Um örnefnið Holtsrana hef ég engar heimildir nema landamerkjalýsinguna hér að framan. Greinilega er átt við nyrsta hluta Holtsins, þar sem hallar lítillega til norðurs. Umræddar vörður eru nú horfnar, en girðing er á landamerkjum.

Í sundinu, sem minnst er á í landamerkjalýsingunni, er lítil tjörn, Markatjörn.

Í landamerkjalýsingunni er sagt, að landamerkin taki stefnuna frá vörðu á Holtsrana í norðuröxl Mosfells, niður í Undapoll . Þarna er keldan í sundinu milli Skálholts og Laugaráss öll kölluð Undapollur, en samkvæmt örnefnaskrá Skálholts, svo og eftir því sem heimildamenn mínir hafa sagt mér, heitir sundið Langasund, og eftir því liggur Keldan eða Langasundskeldan (GV), sem endar í Undapolli, niður undir Hvítá.

Í Ferðabók Stanleys eru skemmtilegar lýsingar á svaðilförum hans yfir Kelduna, sem sýnir okkur, hve illfær hún hefur verið ókunnugum, áður en hún var ræst fram. (Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Rv. 1979).

Söðulhóll (mynd pms)

Í sundinu rétt við þjóðveginn stendur Söðulhóll, og hefur líklega hlotið nafn sitt af því, að þarna hafa söðlar verið geymdir, meðan fólk fór til kirkju . Í hólnum er talið, að Diðrik frá Minden sé dysjaður, en hann drápu uppsveitamenn sem kunnugt er, í þeim átökum sem hér voru
vegna siðaskiptanna.

Frá þeim stað, þar sem hóllinn stendur við Kelduna, hefur hún verið orðin að læk, sem hét Pollrás. Neðan við Pollrás tekur við allstórt lón, hvers nafn hefur þegar verið nefnt, en það heitir Undapollur, en var stundum nefnt Hundapollur. Neðsti hluti pollsins heitir Pollsbotnar, og þar sem hann rennur út í Hvítá, heitir Ós.

Tekið af Vörðufelli. (mynd pms)

Rétt við Ósinn, Laugarásmegin, er tangi út í pollinn, sem heitir Orustutangi . Þar var einhvern tíma háður bardagi, og eftir hann þvoðu menn sár sín (undir) í pollinum, og dregur hann nafn sitt af því. Nafnið á tanganum og sögn þessa sagði mér Runólfur Guðmundsson. Engjarnar næst Undapolli voru slegnar, en fyrir kom líka að vaðið var út í pollinn og ,,skorið á“. Í pollinum óx sef og fergin og var þetta dregið á land og þurrkað þar. Fyrir kom að pollurinn botnfraus. Í vorleysingum hækkaði vatnið í ánni og klakinn flaut upp, reif upp með sér botngróðurinn úr pollinum og skilaði honum upp á engjarnar og var það til óþæginda við heyskapinn (RG).

Yfirlitsmynd tekin af Vörðufelli. (mynd pms)

Mýrin ofan og sunnan við Söðulhól heitir Geymsla (GI) eða Gœsla (ÓE). Þar hafa hestar verið geymdir meðan fólk gekk til tíða í Skálholti. Suðsuðaustur af Gæslu taka við holt og móar, sem ná alveg inn í byggðina, og standa vestustu hús hverfisins í þessum holtum, sem heita einu nafni Smáholt (GI).

Uppfært 01/2019