Bjarni Harðarson

Laugarás í Biskupstungum

fyrri hluti

Örnefnaskrá Laugarásjarðar

Inngangur:

Ritgerð þessi er að mestu samin sumarið 1981 og þá „gefin út“ í 15 eintökum. Frumdög þessarar ritsmíðar höfðu orðið til í íslenskunámi hjá Kristjáni Eiríkssyni í Menntaskólanum að Laugarvatni veturinn áður. Hér birtist helmingur ritgerðarinnar. Í síðari helmingi ritgerðarinnar er fjallað um jörðina Laugarás, sögu hennar, ábúendatal, tildrög þess að læknishéraðið keypti jörðina og drepið á upphaf garðyrkju og þéttbýlismyndunar í Laugarási.
Ritgerðin hefur nú öll verið aukin nokkuð og endurbætt enda má segja að sífellt bætist við í sarp heimilda og fróðleiks um Laugarás. Ég leyfi mér þó að halda mig við þá málvenju sem var í upphaflegu ritgerðinni að sagt er „hér í Laugarási“ enda urðu frumdrögin til í föðurhúsum meðan ég átti þar heima. Viðtöl við heimildamenn fóru öll fram 1981 en við suma þeirra hef ég rætt oft síðan.

Heimildamenn eru:
Guðmundur Indriðason, húsasmiður og garðyrkjubóndi í Laugarási frá 1951, f. 1915 að Ásatúni , Hrunamannahreppi.

Jón Bjarnason, bóndi Auðsholti, f. þar 1906 [d. 2000] og hefur búið þar alla ævi.

Ólafur Einarsson, f. 1895 [d. 1992] á Svalbarða , Dalasýslu, héraðslæknir og bóndi í Laugarási frá 1932-47. Nú búsettur í Hafnarfirði.

Guðrún Víglundsdóttir, f. 1918 [d. 2002] í Höfða og átti þar heima til 1980, nú búsett í Revkjavík.

Runólfur Guðmundsson, bóndi Ölvisholti , Flóa, f. í Úthlíð 1904, d. 1990. Vinnumaður í Laugarási 1917-23.

Ögmundur Guðmundsson, bóndi Þórarinsstöðum, Hrunamannahreppi, f. 1913 að Lambastöðum, Flóa, d. 1987. Sonur hjónanna sem hér bjuggu frá 1917-23.

Sigurður Sigurmundsson, bóndi og fræðimaður í Hvítárholti , Hrunamannahreppi, f. á Breiðumýri í S-Þing. 1915 [d. 1999].  Sonur Sigurmundar Sigurðssonar læknis í Laugarási 1925-32.

Ingólfur Jóhannsson, bóndi Iðu, f . þar 1919 [d. 2005] og hefur búið þar alla ævi.

Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi í Hveratúni í Laugarási frá 1946, f. 1918 í Rangárlóni í Jökuldalsheiði [d. 2014].
 

Heimildamenn f.v. Guðmundur, Jón, Ólafur, Guðrún, Runólfur, Ögmundur, Sigurður, Ingólfur og Skúli.

Eins og gefur að skilja, breytast örnefni jarða jafnan eitthvað með nýjum ábúendum, og þegar svo er komið, að hefðbundnum búskap á jörð er hætt, hverfa þessi nöfn fljótlega.

Hér í Laugarási voru tíð ábúendaskipti síðustu áratugina áður en héraðið keypti jörðina. Búskapur var svo í höndum læknanna frá 1923- 46, en frá 1946-70 var bóndi í Laugarási Helgi Indriðason, bróðir Guðmundar heimildamanns míns. Eftir það er hefðbundinn búskapur enginn.

Það þarf því engan að undra, að upp koma mörg vafamál og tvímæli varðandi örnefni, þegar rætt er við svo marga, sem kynnst hafa jörðinni hver á sinn hátt.
Enn ber að líta á það, að þau Jón í Auðsholti, Ingólfur á Iðu og Guðrún í Höfða þekkja helst örnefni, sem notuð eru á næstu bæjum yfir þau kennileiti, sem blasa við þaðan, en það þurfa ekki alltaf að vera sömu nöfnin og notuð voru af heimilisfólki í Laugarási. Sem dæmi er, að nöfnin Laugarásmýrin og Laugarásholtið hafa líklega verið önnur í munni Laugarásbúa.
Þar sem heimildamönnum mínum ber ekki saman, eða aðrar aðstæður bjóða upp á það, hef ég einkennt uppruna örnefna með fangamarki heimildamanna. 

Uppfært 01/2019