Talsíminn og það sem síðar gerðist

Inngangur

Gerum ráð fyrir að þessi atburður hafi átt sér stað á þorra, árið 1924. Það er vorhret á glugga í uppsveitum Árnessýslu. Húsfreyjuna í Haga í Gnúpverjahreppi er farið að lengja eftir bóndanum, en hann fór út snemma þennan morgun til að sinna skepnum. Hún sendir stálpaðan son sinn til að athuga með föður sinn. Innan skamms kemur hann hlaupandi inn og hrópar að hann hafi fundið föður sinn meðvitundarlausan fyrir utan lambhúsið. Þau mæðginin stökkva þegar af stað og tekst með herkjum að drösla bóndanum í hús og upp í rúm, en hann bærir ekki á sér, en andar þó. Það er ekki um annað að ræða en að sækja lækninn, og það kemur í hlut unga mannsins. Hann þarf að byrja á því að leggja á þann hestanna sem best er á sig kominn, og velja annan, helst ekki síðri, til að flytja lækninn frá Iðu að Haga, en síðan bíður hans um ríflega 30 kílómetra ferðalag í Laugarás. Það gengur á með hvössum éljum og varla veður til ferðalaga. Það er þó ekki val um annað og pilturinn leggur í hann.

Þetta er tilbúin saga, en hún hefði alveg getað gerst, engu að síður.
Myndin hér fyrir ofan sýnir þá leið sem lá frá Haga í Laugarás og pilturinn hefði líklega farið leiðina sem rauða brotalínan sýnir, en gula línan sýnir núverandi vegstæði..
Það eru til margar sögur af því þegar sækja þurfti lækni við ýmsar aðstæður til sveita fyrir tíma bifreiða og síma. Oft voru þetta miklar svaðilfarir, þar sem vegaslóðarnir gátu verið erfiðir yfirferðar, óbrúaðar ár og lækir eða fúamýrar.

“Það mætti miða við 1 klst. ef ríða ætti 10 km. leið. En ef farið er um lengri veg, dagleið, næðist varla sá meðalhraði, þá þarf að æja regulega. Tæki svona um 6-8 tíma að fara 40 km. dagleið, eftir aðstæðum. Fljótlegra ef maður er einn í ákveðnu erindi á velþjálfuðum hestum heldur en í (stórum) hópi, hvað þá einhesta á lítt þjálfuðu hrossi dregnu af mýrinni.” (Gylfi Þorkelsson)

Ef við gerum ráð fyrir að pilturinn hafi haldið í þessa för með tvo til reiðar, klukkan níu að morgni, og áð reglulega, má gera ráð fyrir að hann hafi verið kominn að ferjustaðnum á Iðu um kl. 14. Ef allt væri eðlilegt við ferjuna, ekki ísskrið úr hófi, ætti hann að vera kominn yfir Hvítá um 14.30 og til læknisins, gangandi frá ferjustaðnum um kl. 14.45. Þá hefur læknirinn þurft að taka sig til og þeir hraðað sér til baka á ferjustaðinn, þar sem ferjumaður beið tilbúinn með bátinn. Reikna má þá með að þeir hafi verið klárir til að leggja af stað frá ferjunni um kl. 15.15 og síðan verið komnir í Haga milli 20 og 21 um kvöldið.

Hér skal því haldið til haga, að ekki er vitað hvort læknirinn geymdi hest á Iðu, eða hvort Iðumenn höfðu ávallt hest til taks fyrir hann, eða hvort það var venja að þeir sem sóttu lækninn kæmu með hest með sér, undir hann.

Annars komu menn að sækja lækninn að Iðu eða Auðsholti og biðu þar eftir að læknirinn væri ferjaður yfir. Ólafur bar hnakk sinn á bakinu að ferjunni, því hann vildi bara nota sinn hnakk. Svo fékk hann oft bikkjur til reiðar þegar hann var sóttur í vitjanir. (Viðtal við börn Ólafs Einarssonar)

Þessi inngangur er aðeins tilraun til að reyna að átta sig á hvað það gat þýtt að þurfa á lækni að halda við slys eða skyndileg áföll fyrir tíma símans.

Núna, í upphafi ársins 2022, myndi húsfreyjan í Haga grípa farsímann sinn og hringja í 1-1-2 og sjúkrabíll væri kominn, við nokkuð eðlilegar aðstæður, eftir um það bíl hálftíma og bóndinn á sjúkrahús eftir rúman klukkutíma.
Milli ársins 1924 og 2022 eru 98 ár og á þeim tíma hefur margt breyst, eins og getur nærri.

Aðdragandi

Seyðisfjörður um 1900 - úr myndasafni Howell’s

Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina.

Menn voru farnir að vonast eftir símanum talsvert fyrr: “Ef einhvern tíma kæmi hér á landi talsími, mætti síma atkvæðagreiðsluna til Reykjavíkur og á þann hátt þyrftu menn eigi lengi að bíða, þangað til það yrði kunnugt um land alt, hvernig kosningar hefðu fallið.” (Páll Briem, erindi birt í Eimreiðinni 1. janúar, 1900).

Um þetta verður ekki fjallað frekar, heldur reynt að gera grein fyrir því hvernig það gerðist smám saman að sími var lagður í Laugarás og þróaðist þar.

Sýslufundur Árnessýslu samþykkti árið 1910 að fela oddvita “að útvega símaleiðar útmælingu til Grímsness, Biskupstungna, Hrunamanna og Gnúpverjahreppa.”

Í upphafi setti fólk víða um land spurningamerki við að fé væri sóað í lagningu á símalínum þvers og kruss um landið, í stað voru þeir sem vildu koma upp þráðlausu sambandi. Að því kom þó, að það varð baráttumál byggðanna að fá að njóta þægindanna sem talsíminn hafði í för með sér. Þannig voru uppsveitamenn orðnir langeygir eftir símalögn til sín árið 1919, sem sjá má í Þjóðólfi í ágúst það ár:

Síminn í uppsveitir Árnessýslu.
Eftir margítrekaðar kröfur sýslunefndar Árnessýslu, er nú komin fram í neðri deild Alþingis tillaga til þingsályktunar um að skora á rikisstjórnina, að nú í sumar, eða svo fljótt sem unt er, verði rannsökuð fyrirhuguð símaleið frá Kiðjabergi um Minni-Borg að Torfastöðum í Biskupstungum og þaðan austur í Hreppa. Jafnframt sé það rannsakað, hvort heppilegra muni eða kostnaðarminna að leggja símann upp í Hreppana frá Þjórsártúni upp Skeið eða hina leiðina — frá Torfastöðum — svo sem lögákveðið er. Jafnframt rannsaka leiðina frá Minni Borg út í Grafning að Úlfljótsvatni og hvað sími mundi kosta þá leið. Drátturinn á símalagningu um uppsveitir Árnessýslu er orðinn svo langur og meinlegur að hvorugt er að efa, að jafn sjálfsögð tillaga sem þessi verði samþykt, þó að henni verði framfylgt, svo að síminn fáist án óeðlilegs dráttar ennþá.

Árið 1920 var lögð símalína frá Kiðjabergi að Minni-Borg og árið eftir voru einhverja vonir uppi hjá Tungnamönnum um að af lagningunni yrði innan skamms, en þeir ræddu málið a almennum sveitarfundi:

Oddviti minntist á að ekki væri með öllu vonlaust um að lagður verði sími hingað upp í sveitina innan skamms. Spurði um hvort ekki væri það vilji fundarins að sveitarfjelagið legði fram ¼ - einn fjórða -af flutningskostnaði. Var það samþykt í einu hljóði.

Árið eftir þokaðist línan ekkert áfram og ekki heldur árið 1922.

Enn var enginn sími kominn á fyrri hluta árs 1923, en þá kom málið til umræðu á almennum sveitarfundi í maí:

1. Símamál. Út af því að frjest hefur að þingið hafi veitt fje til síma frá Hraungerði að Húsatóftum, en þó eigi endilega til þess síma, ef út- og uppsveitir sýslunnar krefðust fjárins til framlengingar á Borgarsímanum, var samþykt svolátandi tillaga:
Fundurinn ályktar að skora á yfirstjórn símamálanna að láta leggja þegar í sumar, síma frá Borg í Grímsnesi að Torfastöðum í Biskupstungum, samkv. lögum nr. 35, 20. október 1913, 4. gr.
Samþykt í einu hljóði.

En ekki kom síminn og mun hann líklega hafa verið lagður frá Hraungerði að Húsatóftum, en þar var sett upp símstöð 1926.

Árið 1926 var sett upp símstöð á Húsatóftum á Skeiðum og lína var lögð frá Ölfusárbrú austur að Þjórsá og upp að Sandlæk, tvöföld lína 35 km löng, úr 4mm járnvír á 7 m háum gegndreyptum staurum. (Tímarit Verkfræðingafélagsins 3. tbl. 1927)

Síminn kemur

Skýringarmynd sem sýnir hvernig símalína var lögð frá Kiðjabergi að Torfastöðum og Laugarási.

Á vorhreppskilaþingi (almennum sveitarfundi) í Biskupstungum þann 4. júní, 1927 virtust símamálin loksins komin á rekspöl.

Oddviti tilkynti, að sameiginlegur oddvitafundur Grímsneslæknishéraðs, að oddvitar: Hrunam.hr., Gnúpv. hr., Skeiðahr., Laugard.hr. og Grímsneshr. lofa að stuðla að því að leggja fram allir í sameiningu 1000 kr. úr sveitarsjóðum þessara hr. gegn því að Biskupstungnahr. leggi fram úr sveitarsjóði sínum 1000 kr. auk flutnings á efni til símalínunnar.
Jafnframt lofa þeir að leggja til, hver í sínum hr. að kostnaður við starfrækslu stöðvarinnar verði greiddur að tiltölu við fólksfjölda úr hverjum hreppi.
Fundurinn samþykkir að sveitarsjóður Biskustungnahr. greiði flutning á efni til Laugarássímans og auk þess 300 kr. af því 2.000 kr fjárfamlagi er tilskilið hefir verið af stjórnarráðinu, til þess að símalínan verði lögð í sumar. En jafnframt samþykkir fundurinn að það fé, er sýslusjóður kann að leggja til símalínunnar, teljist Biskupstungnahreppi sem fjárframlag frá hjeraðinu eftir sama hlutfalli og öðrum hreppum læknishéraðsins.

Á þessu ári var röðin komin að Tungnamönnum að fá til sín símalögn. Í tímariti Verkfræðingafélagsins, 3. tbl. 1928, er birt yfirlit yfir helstu mannvirki á árinu 1927, en það ár var lögð lína að Torfastöðum, þar sem símstöðin skyldi vera og einkalína frá Mosfelli í Laugarás. Einkalína, vegna þess að Laugarás var ekki við megin línustæðið upp í Tungur, en þar var læknissetrið:


Torfastaðir um það bil 1917-1925 (mynd Haraldur Lárusson Blöndal 1882-1953)

Biskupstungnalína, svokölluð, var lögð frá Minniborg að Torfastöðum. Hún var 17,3 km, tvíþætt úr 4 m/m járnvír á 7 m gegndreyptum staurum. Kostnaður um kr. 14900.00 auk 2000 króna tillags frá héraðinu og flutnings á öllu efni.
Þetta sama ár var lögð lína frá Mosfelli í Laugarás í Biskupstungum. Hún var 7,5 km einkalína úr 3 m/m járnvír. Kostnaður um kr. 2500.00.

Sr. Eiríkur, frú Sigurlaug og Jóhannes.

Torfastaðir
Það var, sem sagt, sett um símstöð á prestssetrinu á Torfastöðum, sem sr. Eiríkur Þ. Stefánsson þjónaði. Koma hans var frú Sigurlaug Erlendsdóttir. Prestshjónin sáu um símstöðina í ein 18 ár, en árið 1945 var ráðinn til að vera símstöðvarstjóri, Jóhannes Erlendsson (1883-1969), bróðir Sigurlaugar. Hann hafði þá starfað sem skrifari hjá sýslumanni Rangæinga, Björgvin Vigfússyni og hafði þar kynnst símstöðvarumsýslu. Hann sinnti starfinu þar til símstöðin var flutt í Aratungu, haustið 1961.

Árið eftir, 1928, var svo haldið áfram að leggja símalínur í uppsveitirnar og svona sagði tímarit verkfræðingafélagsins frá því árið 1929:

Hrunamannalína frá Sandlæk á Skeiðum til Hruna 13,4 km, einföld lína úr 4 m m járnvír á 6,5 m gegndreyptum staurum. Kostnaður ca. kr. 5,900,00 auk 900 kr. tillags frá hreppnum og flutnings á efni, er hreppurinn annaðist og mu n hafa kostað ca. kr. 900,00.

Gnúpverja- og Landsveitarlína frá Sandlæk um Ása í Gnúpverjahreppi að Fellsmúla á Landi, 19,67 km einföld lina úr 4 m m járnvír á 6,5 m gegndreyptum staurum. Kostnaður ca kr. 8,850,00 auk 1600 kr. tillags frá hjeraðinu og flutnings á efni, s"m hjeraðið annaðist og mu n hafa kostað um kr. 1,750,00.

Laugarvatnslína frá Minniborg í Grímsnesi að Laugarvatni í Laugardal, 17,5 km úr 4 m m járnvír, þar af 5 km tvöföld lína á gömlu staurarröðinni og 12,5 km einföld lína á 6,5 m staurum. Kostnaður kr. 6900,00, auk flutnings á efni, sem mu n hafa kostað um 1,600 kr.

Skúli Magnússon á Syðri-Reykjaárunum.

Svavar Sveinsson 14 ára 1956 (mynd úr Litla Bergþór)

Það var, sem sagt árið 1928, sem allir hrepparnir sem tilheyrðu læknishéraðinu voru komnir í símasamband. Vissulega átti það ekki við um einstaka bæi og til að byrja með þurfti fólk að sækja símaþjónustu á símstöðvarnar, hvert í sínum hreppi. Sími var kominn að Syðri-Reykjum í mars 1946, en í bréfi sem Skúli Magnússon (síðar í Hveratúni) skrifar þaðan þann 12. mars, segir hann meðal annars:
”Ég þakka þér fyrir bréfið og símtalið áðan. Ég komst bókstaflega í illt skap vegna þess, enda að vonum, þar sem ég þurfti að tala af öllum kröftum og var það þó varla nægilegt. Það er nú víst allt í lagi með símann hjá þér, eftir því sem Áslaug [húsfreyja á S.-Reykjum] segir. Hún ætlaði að tala við Rvík rétt áður og sagði að varla hefði nokkuð heyrst til hennar.”
Í viðtali í Litla Bergþór 2. tbl. 2019 segir Svavar Sveinsson um símamálin á Drumboddsstöðum:
“Síminn kom snemma í Drumboddsstaði, vegna þess að ljósmóðirin bjó þar, eða árið 1947. Þótti nauðsynlegt að sem auðveldast væri að ná í hana. Ég man að Loftur á Felli plægði niður símakapalinn, hann var plægður fremur grunnt niður, ekki komnar þessar fínu græjur eins og eru í dag.”
Það þótti sem sagt bara gott að fá heimilissíma 20 árum eftir að símstöð var komin á Torfastöðum.

Ekki verður hér reynt að gera grein fyrir hvernig framhaldið á dreifingu símans var á einstaka bæi, utan þau tvö dæmi sem hér hafa verið nefnd, en þau sýna að sími hafi verið að tínast á bæina upp úr miðjum fimmta áratugnum, en við það að fá síma á símstöð nokkuð miðsvæðis í hverri sveit, varð augljóslega miklu betra í aðgengi að læknisþjónustu.

Nýr veruleiki með símanum

Þegar læknissetrið var komið í símasamband og símstöðvar teknar til starfa, má segja að sá tími sem það tók að kalla til lækni, þegar mikið lá við, hafi allt að því helmingast og fór það þá eftir því hve langt frá símstöðinni fólk bjó.
Smám saman fjölgaði þeim bæjum sem fengu eigin síma og bæir sem voru í nágrenni hver við annan, voru á sömu línu og hverjum um sig var úthlutað hringingu, til dæmis var einn með hinginguna “tvær stuttar og ein löng”, annar með “ein löng og tvær stuttar”, sá þriðji með “ein stutt, ein löng ein stutt” og sá fjórði með “fjórar stuttar”. Þeir bæir sem voru saman á línu, gátu hringt sín á milli án milliliðs, en þegar þurfti að hringja á bæ sem var á annarri línu, þurfti að hringja í símstöðina (á Torfastöðum og síðar Aratungu) og biðja um að fá samband. Fyrir fólk sem ef til vill áttar sig ekki á því hvað “stutt” þýðir eða “löng”, þá er frá því að segja, að á símtækinu var sveif. Til þess að hringja “stutta” var sveifinni snúið rösklega einn hring, en þegar hringd var “löng” var sveifinni snúið 3-4 hringi.

Fólk sem það kaus, gat hlustað á allt sem fram fór í símum fólks sem var á sömu línu og eru til margar sögur um slíkt og byrja flestar á “Ég ætlaði að fara að hringja …..”.

Aratunga

Steinunn Þórarinsdóttir og Garðar Hannesson

Haustið 1961 var símstöðin flutt frá Torfastöðum í Aratungu. Þangað fluttu þau Garðar Hannesson og Steinunn (Stenna) Þórarinsdóttir, en Garðar hafði verið ráðinn til að stýra símstöðinni og halda utan um félagsheimilið. Jóhannes Erlendsson, þá farinn að nálgast áttrætt, var með þeim til að byrja með, til að leiða þau í allan sannleik um hvernig allt virkaði.

Á þessum tíma voru eftirtaldir 15 bæir, eða staðir, í Skálholtssókn og allir á sömu línu: Spóastaðir, Skálholt býli, Skálholt (biskupshús), Læknissetur, Hveratún, Sólveigarstaðir, Helgahús, Lindarbrekka, Launrétt 1 (dýralæknisbústaðurinn), Laugargerði, Sigmarshús, Ásholt, Iða, Eiríksbakki og Helgastaðir, auk barnaheimilis Rauða krossins á sumrin. Auðvitað voru þessir bæir ekki allir komnir með síma, en nógu margir til þess að það var úr ýmsu að velja, hefði fólk áhuga á að hlera símtöl, ekki svo að hér sé gert ráð fyrir að það hafi verið alsiða. Það var vissulega akkur í því, að fólk í sókninni gæti hringt sín á milli hvenær sem var sólarhrings, en þyrfti ekki að vera háð opnunartíma símstöðvarinnar, en fyrsta árið var símstöðin í Aratungu svokölluð II fl. stöð með þjónustutíma frá 9–12 og 4–7, sex daga vikunnar, á sunnudögum 11–12 og 4-5, en varð síðan, árið 1962, stöð í flokknum 1B.- þá væntanlega með meiri opnunartíma.

Á sjöunda áratugnum fjölgaði bæjum og fólki hratt í Laugarási, en í lok hans voru mögulegir símnotendur í Skálholtssókn orðnir 26. Þetta varð til þess að línum var fljótlega fjölgað í þrjár. Viðbrögð við þessu voru blendin: “Einn símnotandinn hafði þá samband við Garðar, var öskureiður og taldi að búið væri að taka af honum öll réttindi.” (Steinunn Þórarinsdóttir).

Það þarf ekki að fara í grafgötur um það, að tilkoma símans gerði læknisþjónustuna í Laugarási skilvirkari en áður hafði verið og jafnvel má gera sér í hugarlund að í símtölum við lækninn hafi sjúkdómar og sjúkdómseinkenni ásamt ýmsum persónulegum málum, komið til umræðu, þó vafalaust hafi fólk reynt að fara ekki út í nein smáatriði.
Þegar Konráð Sigurðsson kom til starfa og með honum hjúkrunarkona og aðstoðarlæknir hluta úr ári, var hugað að símamálunum og oddvitanefndin fól Steinþór Gestssyni, árið 1968 “að gera tilraun til að fá bætta þjónustu í símamálum læknishéraðsins svo fljótt sem kostur er á.”. Árið eftir hafði verið ráðin bót á þessu: “Læknisbústaðurinn hefur fengið einkasímalínu að Aratungu og nætursamband við Selfoss.”

Símatæknin þróast

Upp úr 1970 hillti undir nýja símatækni í uppsveitunum. Frést hafði af því árið 1973, að á því ári stæði til að setja upp sjálfvirkt símkerfi í Skeiðahreppi og héraðslæknirinn hvatti mjög til þess, á stjórnarfundi læknamiðstöðvarinnar, að stöðin fengi að tengjast því. Sama ár var þetta erindi tekið fyrir á oddvitafundi og þar var formanni “falið að kanna það, ásamt héraðslækni hvort ekki væri unnt að bæta símaþjónustuna við héraðslæknana og heimilast honum að greiða fyrir framkvæmdum með útvegun fjármagns í þessu skyni.”

Það varð bið á því að sjálfvirkur sími kæmi í Laugarás. Því var það, að upp kom sú hugmynd árið 1974, að tengjast þráðlaust við símstöðina á Selfossi. Þessu fylgdi heilmikill kostnaður, en “Þar sem símasamband er slæmt við sumar sveitir í héraðinu og óvíst hvenær sjálfvirkur sími kemur um allt héraðið, var ákv að vinna að því að koma þessu radíosambandi á,” og það varð úr. Árið eftir var komið radíósamband, með ærnum tilkostnaði, en uppsetning kerfisins kostaði 168.000 krónur, eða um 1.2 milljónir framreiknað til febrúar 2022. Þá var einnig umtalsverður kostnaður vegna notkunar á kerfinu, eða kr 825 á km. loftlínu á Selfoss, árfjórðungslega. Á núvirði væri þessi kostnaður rúm 1 milljón á ári. Radíósambandið hafði meint, truflandi áhrif á sjónvarpstæki Laugarásbúa og bættist við talsverður kostnaður vegna athugunar á þeim.

Bílasími frá 1986

Það var svo árið 1979 sem sjálfvirkur sími kom í Laugarás og þá var hægt að leggja radíósambandið af og spara kostnaðinn sem því fylgdi. Heilsugæslustöðin óx og þar kom, árið 1984, að þörf var orðin fyrir aðra línu. Um mitt ár 1986 bólaði enn ekki á línunni og stjórnin sá ástæðu til að lýsa “áhyggjum sínum yfir því ófremdarástandi sem ríkir í símamálum á svæðinu, þar sem ógerlegt er að ná sambandi við stöðina eða frá henni á álagstímum.” Stjórnin skoraði á ráðamenn Pósts og síma svo og þingmenn Suðurlandskjördæmis að kippa þessum málum í lag hið bráðasta og ætlaði að halda áfram að berjast við að fá aðra símalínu á stöðina.
Á þessum tíma var nýkomin fram nýjung í símamálum, bílasímar og auðvitað var farið í að athuga með að kaupa slíka gripi.

Oddvitanefndin tók af skarið á aðalfundi héraðsins 1986 og fól formanni að kaupa tveggjalína síma og farsíma (bílasíma) fyrir heilsugæslustöðina og 1987 var greint frá því að keypt hefði verið “tveggja línu símstöð og farsímar handa sitt hvorum lækninum”. Hjúkrunarforstjóri fékk síðan farsíma rúmu ári síðar.

Tölvuöld gengur í garð

Tölva

Hér er aðeins fjallað um innreið tölvunnar, aðallega vegna þess, að með tímanum má segja að síminn og tölvan hafi orðið eitt. Í apríl 1989, á fundi stjórnar og starfsfólks heilsugæslustöðvarinnar: “Pétur Skarphéðinsson taldi tímabært að kaupa tölvur í stöðina. Formanni var falið að athuga með tölvukaup, enda fáist samþykki ráðuneytisins fyrir þeim kaupum.” Þarna voru um átta ár frá því fyrsta PC tölvan kom fram á sjónarsviðið og því má segja að þarna hafi fólk verið nokkuð með puttann á púlsinum. Pétur ítrekaði þessa ósk síðar á árinu á fundi stjórnar og undirbúningsstjórnar heilsugæslustöðvarinnar, og þar kom fram að tölvan væri ætluð ritara stöðvarinnar. Svo var greint frá því á fundi stjórnar stöðvarinnar í febrúar 1990, að tölva hefði verið keypt, ásamt viðeigandi búnaði, á rúmlega kr. 200.000. Þarna hafði tölvan komið til sögunnar, en þeirri þróun sem síðar varð, verða ekki gerð skil hér, enda varð tölvubúnaður af ýmsu tagi smám saman eðlilegur þáttur í starfsemi þessarar heilsugæslustöðar eins og annarra. Þróunin varð hröð og því keypt nýtt nokkurnveginn í takt við fullkomnari tölvubúnað. Til dæmis var keypt árið 1993, tölvuforrit “til að skrá með rannsóknir og hefur gjörbreytt skýrslugerð.”

Enn er ónefnt tæki sem nauðsynlegt þótti að hafa við höndina, en það voru símboðar.
“Símboði (sjaldnar friðþjófur) er þráðlaust símtæki sem tekur við símanúmeri þess sem hringir og/eða raddskilaboðum og pípir um leið. Notandi símboðans getur þá hringt í viðkomandi þegar hann hefur tíma og aðgang að síma.
Símboðar urðu fyrst algengir á 8. áratug 20. aldar. Þeir voru um tíma mjög útbreiddir meðal starfsfólks í neyðarþjónustu, öryggisþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Með aukinni notkun farsíma eftir aldamótin 2000 hurfu þeir mikið til af sjónarsviðinu.”
(Wikipedia)
Símboðar voru keyptir handa læknunum árið 1991.

Faxtæki 1990

Það þótti talsverð bylting þegar svokölluð telefaxtæki komu til sögunnar. Slíkt tæki var keypt til heilsugæslustöðvarinnar árið 1992. Þessi tæki voru síðan í daglegu tali kölluð faxtæki.


Niðurlag

Það er nú næstum öld síðan símastaurarnir fóru að setja svip sinn á landslagið í uppsveitum Árnessýslu. Það verður seint gert of mikið úr mikilvægi þeirrar tækni sem þarna var um að ræða fyrir flesta þætti mannlífsins. Þróunin var hæg fyrstu áratugina en svo jókst hraðinn smám saman.
Þegar uppsveitamenn höfðu fengið símstöð í hver í sínum hreppi, árið 1928, voru símnotendur í Reykjavík orðnir 2400, en þar hafði notendum fjölgað nokkuð hratt frá því um 1910.
Þessi þróun varð síðan smám saman hraðari og með tölvuöldinni hafa menn þurft að hafa sig alla við, ætli þeir sér að halda í við stöðugar nýjungar í samskiptatækni. Ekki er ljóst hvort einhvern endi er hægt að sjá fyrir á þeirri þróun. Aðstæður húsfreyjunnar í Haga, eiginmanns hennar og sonar, árið 1924, eru orðnar breyttar.

Uppfært 03/2022