Síminn í Biskupstungum 1927-1983

Steinunn Þórarinsdóttir og Garðar Hannesson á heimili sínu í Hveragerði í mars 2022. (mynd PMS)

Hjónin Garðar Hannesson og Steinunn Þórarinsdóttur (Stenna) störfuðu í Aratungu frá því símstöð var flutt þangað haustið 1961, til ársins 1975, en þá var farið að hilla undir sjálfvirkt símkerfi. Garðar var bæði húsvörður í nýju félagsheimili í Biskupstungum og símstöðvarstjóri. Þau hjón sinntu þessum störfum í sameiningu, þó svo Garðar hafi formlega gegnt báðum hlutverkunum.
Hér er um að ræða spjall við hjónin, sem tekið var í byrjun mars 2022, eða þann hluta viðtalsins sem fjallar um símamál í Tungunum á tíma þeirra í Aratungu, með sérstakri áherslu að það sem snéri að Laugarási. Það sem hér fer á eftir er blanda að því sem fram kom í spjallinu við hjónin og brotum annarsstaðar frá.

Símstöð á Torfastöðum

Sr. Eiríkur Þ. Stefánsson og frú Sigurlaug Erlendsdóttir (myndir frá Stefáni Ásgrímssyni)

Prestshjónin á Torfastöðum, þau frú Sigurlaug og sr. Eiríkur sáu um stöðina til ársins 1945, sem hefur líklega ekki verið mikið verk á þessum fyrstu árum símans, en því fylgdi engu að síður mikil gestanauð. Þarna þurfti fólk að fara á símstöðina til að hringja og ef beðið var um einhvern í símann, þurfti þá að senda eftir honum, líklegast einhvern vinnumanninn eða vinnukonuna.

Það var heilmikið átak að leggja síma í sveitir landsins, þannig að í allmörg ár mátti fólkið búa við það að fara á símstöðina í sveitinni, þyrfti það á slíkri þjónustu að halda.  Á fimmta áratugnum var hinsvegar farið að leggja síma heim á bæi og með því bættist við það starf sem sinna þurfti á símstöðvum í dreifbýlinu.
Það var ekki nóg að það væru þrjár símstöðvar í sveitinni, heldur var Skálholtslínan, línan sem lögð var frá Mosfelli í Laugarás, tengd við Minniborg. Þannig, að ef einhver þurfti á ná í lækninn í Laugarási, þurfti hann að fara í gegnum Borg. Ef einhver á Laugaráslínunni þurfti að hringja í barnaskólann Í Reykholti, þurfti hann að hringja á Borg, sem hringdi í Torfastaði, sem hringdi í skólann. En þetta var liðin tíð þegar Garðar og Steinunn komu í Aratungu. Það breyttist sennilega í kringum 1955. „Svo var sími í Auðsholti hjá Tómasi, hjá Bríeti á Iðu og Króki, þá væntanlega vegna ferjanna.” Það voru einnig nokkrir bæir sem fengu síma, sem borguðu sjálfir, t.d hjá Erlendi á Vatnsleysu. Þá var símalína, sem tengd var aðallínunni, lögð til þeirra og þeir greiddu svokallað viðtengingargjald fyrir.  

Þegar Steinunn var í barnaskóla, var bara kominn sími í Múla, en síðan enginn fyrr en á Syðri-Reykjum, en þar var kominn sími árið 1946. Hvergi var sími með Hlíðunum. Garðar var snúningastrákur í Fjalli á Skeiðum 1946 og þar var ekki kominn sími. Það varð fara út að Húsatóftum.

Það voru nokkrir bæir sem fengu síma, sem borguðu sjálfir, t.d hjá Erlendi á Vatnsleysu. Garðar: „Það var mikið lægra afnotagjald hjá honum, þegar ég tók við – það hét viðtengingargjald. Mig minnir að það hafi verið á Króki líka og mögulega á Spóastöðum. Þessir bæir höfðu borgað til að fá símann. Viðtengingargjald var svona sambærilegt við einkavæðinguna í heilbrigðiskerfinu.“

Þegar verið var að vinna við símalínur um sveitina, tjölduðu vinnuflokkarnir fyrir utan Brúará hjá Spóastöðum. Þeir fóru svo þaðan til viðgerða að línulagningar. Á þessum tíma var Ólafur Magnússon frá Eyrarbakka verkstjóri símamannanna. „Tjaldbúarnir komu að Spóastöðum á morgnana með brúsa til að fá mjólk. Það þótti okkur krökkunum spennandi.“


Jóhannes

Jóhannes Erlendsson. (mynd frá Stefáni Ásgrímssyni)

Árið 1945 var ráðinn sérstakur símvörður að Torfastöðum, Jóhannes Erlendsson (1886-1969), bróðir frú Sigurlaugar.  
Jóhannes var rúmlega fimmtugur þegar hann tók við starfinu á Torfastöðum og átti þá að baki ýmsa reynslu, eins og fram kemur í viðtali Stefáns Þorsteinssonar á Stóra-Fljóti, við hann, sem birtist í Vísi, 25. janúar 1961. Þar segir Stefán um viðmælanda sinn: „Meðreiðarsveinn Jóns Ásgeirssonar á Þingeyrum, leikfélagi Ólafs Björnssonar í Ísafold og Georgs Ólafssonar bankastjóra og heimagangur á æskuheimilum þeirra, verzlunarþjónn í Fjalakettinum hjá Breiðfjörð gamla, verzlunarmaður, bókhaldari og ferðaskrifstofustjóri í Thomsens Magasíni, kennari og sýsluskrifari, kaupmaður, en síðast en ekki sízt heimilismaður og heimagangur hjá frændfólki sínu í Unuhúsi um Iangt árabil, þar sem hann hitti ýmsa af andans mönnum þjóðarinnar á gelgjuskeiði, orkti sjálfur ljóð, og hefur líklega myndað undirstöðu atómkveðskapar Íslendinga, ásamt öðrum góðum mönnum.“

Föðursystir Jóhannesar og Sigurlaugar var Una í Unuhúsi. Hann hóf störf í verslun í Fjalakettinum, 14 ára gamall, en um aldamótin hóf hann störf í Thomsens magasín og vann sig þar upp í að verða einskonar forstjóri ferðaskrifstofu fyrirtækisins. „Áður en Jóhannes kom á Torfastaði hafði hann, meðal annars, verið innanbúðarsveinn í Thomsens magasín. Flottasta verslunin í Reykjavík. Þar fengu þeir staup á kvöldin, að loknum vinnudegi. Jóhannes var töffari“, segir Garðar. „Þegar nýju prestshjónin komu að Torfastöðum var Jóhannes settur í bindindi. Hann sagði það beinlínis við mig þegar hann var hjá okkur í Aratungu. „Ef maður hefði nú mátt þetta“. Þá var ég að kaupa bitter brennivín þegar ég fór um Selfoss – eða Reykjavík sennilega.“ „En hún systir hans var örugglega mikil bindindiskona“, segir Stenna þá.

Vorið 1906 giftist Sigurlaug systir mín séra Eiríki Stefánssyni, frá Auðkúlu, sem þá fékk veitingu fyrir Torfastöðum og fluttu þau þangað ásamt foreldrum mínum. Um haustið bað séra Eiríkur mig að taka að mér barnakennslu í Biskupstungum og kenndi ég þar um veturinn“, segir Jóhannesi í áðurnefndu viðtali.

Í viðtalinu í Vísi kemur fram, að Jóhannes var sjúklingur árin 1912-15. Skömmu áður hafði hann dvalið um tíma á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, þar sem hann kenndi sonum Björgvins sýslumanns, þeim Einari og Páli á orgel. Hann gerðist svo sýsluskrifari hjá Björgvin skömmu fyrir 1920 og sá þá einnig um símgæsluna, meðal annars. Þaðan kom hann svo að Torfastöðum árið 1945, eins og áður segir.

Hinar símstöðvarnar

Egill Geirsson og Sigurður Greipsson

Hinar símstöðvarnar
Frá Torfastöðum var lögð símalína upp Tungurnar, að Múla. Þar var sett upp símstöð sem þjónaði bæjunum með Hlíðunum. Frá Múla var lögð lína að Geysi, þar sem þriðju símstöðinni var valinn staður. Hún þjónaði ferðafólki á svæðinu og bæjunum efst í sveitinni. Þessar stöðvar voru aflagðar líklegast um 1963. Garðar: „Þessar símstöðvar urðu að fara í gegnum Torfastaði. Það var bara ein landssímalína úr sveitinni þá. Þessar stöðvar höfðu þá forgang milli kl 9 og 10 – en þær voru svokallaðar þriðja flokks stöðvar. Ef þeir vildu nota þennan tíma þá gerðu þeir það.“ Þær voru  líklega ekki með skiptiborð, heldur bara símtæki, en það er þó ekki alveg víst. Símstöðvarstjórinn í Múla var Egill Geirsson. „Egill vildi ekki missa stöðina. Hann hafði á orði að þetta væri svo vandasamt orðið, að það þyrfti háskólamenntun til að sinna því“, segir Garðar.  

Sigurður Greipsson var skráður fyrir símstöðinni á Geysi.  Garðar: „Hann þurfti einhverntíma endilega að ná á Selfoss. Hann var búinn að vera að reka á eftir Jóhannesi, og var eitthvað harður við hann og sagðist hafa séð eftir því, þegar hann var búinn að fá samtalið, hvað hann hafði verið skömmóttur, og hringdi í Jóhannes og sagði: „Jæja, Jóhannes minn, það er með mig eins og hann Geysi, gamla, ég rýk þetta upp, en hjaðna svo niður aftur.“ „Ja, það þarf nú ekki að setja sápu í þig!“ svaraði þá Jóhannes. Sigurður varð svo kjaftstopp við þessu svari, að hann lagði bara hægt á. Þetta sagði Sigurður mér sjálfur.“

Flutt í Aratungu

Stenna við skiptiborðið sem flutt var frá Torfastöðum og sem notast var við til að byrja með í Aratungu. (mynd frá Stennu og Garðari)

Það stóð til frá upphafi að símstöð yrði í Aratungu. Um það leyti sem félagsheimilið var vígt, 1961, var gerður samningur um símstöð þar, sem skyldi þjóna öllum Biskupstungum. Samninginn undirrituðu Skúli Gunnlaugsson, oddviti og Ólafur Kvaran ritsímastjóri. “Síminn sá alveg um að innrétta símstöðina, útbúa boxið og borðið sem var.  
Símstöðin var flutt í Aratungu þann 15. nóvember, 1961, í stórt herbergi á annarri hæð, þar sem nú er skrifstofa sveitarsjóra. Þarna var afgreiðsluborð með skilrúmi og talsímaklefi (box). Til að byrja með var notast við sama skiptiborð og hafði verið á Torfastöðum, svokallað pýramídaborð, en nokkru síðar kom snúruborð, sem var talsverð framför, þar sem það var auðveldara að vinna við það.”

Skiptiborðið, sem var lengst af á símstöðinni í Aratungu. Þarna má einnig líta Guðrúnu Hárlaugsdóttur, talsímakonu. (myndin er úr Litla Bergþór)

Starf símstöðvarstjórans fylgdi með húsvarðarstarfi í hinu nýja félagsheimili Tungnamanna. Það var ekkert endilega á áætlun að flytja stöðina frá Torfastöðum svona fljótt, en Jóhannes veiktist og var fluttur á spítala. Hann var þá farinn að nálgast áttrætt. Þá var send, með hraði, stúlka frá bæjarsímanum í Reykjavík til að bjarga málum á Torfastöðum. Steinunn var með henni í tvo daga á Torfastöðum og síðan kom bæjarsímastúlkan með og var í Aratungu einn dag. „Svo fór hún um kvöldið. Guð, hvað ég var stressuð!“, segir Stenna. Garðar hafði nánast aldrei talað í síma þegar þarna var komið, en heima hjá honum hafði ekki verið sími. „Stenna smá kenndi mér svo á þetta.“ Svo kom Jóhannes til þeirra í Aratungu og var með þeim til að byrja með, þannig að þau kæmust inn í öll mál sem rekstri stöðvarinnar tengdust. Árið eftir var ráðin til starfa fyrsti utanaðkomandi starfsmaðurinn og það var Júlíana Magnúsdóttir frá Norðurbrún og var hún ráðin á móti Garðari, en starfið við símavörsluna taldist vera eitt og hálft starf. Stenna vann Garðars hluta að mestu.

Aratunga var, til að byrja með, það sem kallað var II. flokks stöð með 6 tíma viðveru. Þann 15. júní 1962 fékkst stöðin stækkuð í að vera 1. flokks B stöð, með 10 tíma þjónustu á dag, nema 5 tíma á sunnudögum og þar með var hægt að ráða stúlku. Fram að því sáu Garðar og Stenna alveg um stöðina.

Helstu símalínur um Biskupstungur frá 1927 og þar til almennt var farið að leggja síma heim á einstaka bæi. Tekið fram að hér er bara um ágiskun að ræða, en rauðu punktarnir sýna hvar símstöðvarnar í Biskupstungum voru.

Fyrsta talsímasúlkan sem ráðin var til starfa í Aratungu, var Júlíana Magnúsdóttir á Norðurbrún, en það var vorið 1962. Hún hafði þá verið um tíma á Torfastöðum til að aðstoða Jóhannes í veikindum hans og þekkti því starfið. Hún var í Aratungu fram á haustið, en fór þá til starfa á símstöðinni á Laugarvatni.
Hrefna Kristinsdóttir frá Brautarhóli tók við af henni og var í ein tvö ár með hléum.

Á eftir Hrefnu kom síðan Ásta Skúladóttir frá Hveratúni, þá Klara Sæland frá Espiflöt og Guðrún Hárlaugsdóttir frá Hlíðartúni. Fleiri komu við þessa sögu í skemmri tíma.
Vöktum var skipt yfir daginn. Til að byrja með var stöðin lokuð vegna hádegishlés milli kl. 12.30 og 14, en seinna opin samfellt og þá fékk Stenna 25% starf.

Stenna: „Það var heilmikið um símhringingar það þurfti að sitja alveg við – var ekkert um að ræða að sinna neinu öðru með, nema hafa kannski prjónana við höndina.“ Þegar send voru símskeyti þurfti oft að stafa orðin og til þess voru notuð samræmd mannanöfn, t.d þannig að T – Teitur og N- Nonni og O var Oddur.

Viðtalsbil var 3 mínútur þegar verið var að hringja langlínusímtal. Þá voru 2 klukkur á skiptiborðinu sem settar voru í gang. Þá voru komnar tvær landssímalínur þannig að hægt var að tala tvö símtöl í langlínu í einu. Símtöl innansveitar voru óháð þessu og kostuðu ekkert.  Langlína þýddi, að hringt var í gegnum Selfoss, en þaðan þurfti að gefa samband áfram, oft í gegnum margar símstöðvar.

Flestar talsímakonurnar eða símverðirnir, sem unnu í Aratungu frá 1961-1979. Frá vinstri: Bryndís G. Róbertsdóttir, Guðrún Sveinsdóttir, Guðrún Hárlaugsdóttir, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Ásta Skúladóttir, Bjarney Þórarinsdóttir, Guðríður Þórarinsdóttir, Steinunn Þórarinsdóttir, Hrefna Kristinsdóttir og Júlíana Magnúsdóttir. (Myndin var tekin þegar 50 ára afmæli Aratungu var fagnað og birtist í Litla-Bergþór 2. tbl. 2011)

Lífið með símanum

„Svo var þetta með að þekkja fólkið. Það vissu fljótlega allir orðið hver var Garðar í Aratungu. En oft þegar fólk var að koma til að hringja eða borga þá læddist ég fram í eldhús til Stennu til að fá að vita um hvern þar var að ræða. Svo gat ég ávarpað viðkomandi með nafni, og leit þannig vel út.“

Garðar og Stenna ásamt syninum Þórarni, fyrir utan Aratungu um miðjan 7. áratuginn. (Mynd Garðar og Stenna)

„Það þurfti ekki bara að sinna mannfólkinu, heldur einnig kúnum.“ Á símstöðinni voru teknar niður sæðingapantanir, auk þess að boða fundi, messur og fleira. Engum datt í hug að þetta væri eitthvert starf. Svo þurftu þau að vita hvar rútan hjá Ólafi Ketilssyni væri og hvernig færðin væri niðureftir. „Það var hringt og spurt um ýmislegt af þessum toga. Þetta var svona svipað og 118 núna. Það þurfti að byrja á að kynna sér færðina á morgnana.“

Á föstudögum kom mjólkurbíllinn með póstinn að Brautarhóli og þá átti Garðar að bíða þar til að kvitta fyrir móttöku. Þá var bréfhirðing í Aratungu og fólk þurfti að koma þangað til að ná í póstinn. Ef um var að ræða ábyrgðarpóst eða eitthvað sem þurfti að kvitta fyrir, var hringt í viðkomadi og látið vita. Þarna var um að ræða póst fyrir allar Tungurnar.  Það var líka póstlagt og Garðar segir sögu af bónda sem kom um kl. 11 að kvöldi Þorláksmessu til að póstleggja jólakortin. Ekki nefnir hann viðkomandi á nafn, en telur að mögulegt að einhverjir geti áttað sig á hver viðkomandi var.

Fólkið á símstöðinni kynntist fólki miklu betur en það gerði sér grein fyrir. „Maður kom að öllum, sem þurftu að hringja, eða kalla í símann, í því hugarástandi sem það var á þeim tíma. Sumir voru reiðir, aðrir kátir, enn aðrir hlökkuðu til. Svo var það var frekar sérstakt, að þegar gerði þurrk á sumrin og það var heyskapur, þá fóru bændur að hringja og hringja því það voru bilaðar vélarnar og ýmislegt – engin fyrirhyggja. Þetta fannst mér alveg hreint furðulegt.“  Öllum lá á og oft þurfti afgreiða hraðsímtöl. Hraðsímtöl kostuðu þrisvar sinnum meira en venjuleg, en slík símtöl voru tekin fram fyrir öll hin, sem voru að bíða eftir að komast að. Línurnar tvær voru alltaf uppteknar og símtöl gefin í röð eftir því sem losnaði. „Það var náttúrulega mannalæknir í Laugarási og dýralæknir í Reykholti.“

„Það var búið að segja mér að Ólafur Sveinsson í Víðigerði, væri mjög skuldseigur, og ég man þegar hann kom að borga - man ekkert hvort það var búið að dragast lengi, þá sagði ég við hann: „Þú ert skilamaður, þú er bara strax á eftir Skúla í Bræðratungu“, sem alltaf borgaði fyrstur. Ólafur setti síðan metnað sinn í það að vera á undan Skúla að borga.  Mér fannst Ólafur mjög skemmtilegur maður.“

Eftir að símstöðin í Múla var lögð af, voru þeir til sem voru ósáttir við þá ráðstöfun, meðal annarra Jón í Stekkholti og hann var sagður fremur erfiður viðskiptavinur við alla, ekki síst KÁ. Hann hafði um það orð, að aldrei skyldi hann borga neitt, ef hann þyrfti að þvælast í Aratungu til þess. Svo komu þeir feðgar einn daginn, hann og Halldór, í gúmmístígvélum – ætli það hafi ekki verið blautt úti – til að hringja. Það var oft komið í boxið til að hringja, þegar mátti ekki hlusta. Þá fór ég fram til Stennu og stakk upp á að við byðum þeim í kaffi, svona til að sjá hvernig þeir tækju því. Steinunn hitaði kaffi og fann með því. Svo sagði ég við Jón: „Jæja Jón minn, má ekki bjóða ykkur feðgum kaffi? Það er langur vegur í Stekkholt.“ Dóri sagði strax „Jú takk“, og þeir fóru báðir úr stígvélunum fyrir utan eldhúsið. Það voru aldrei nein vandræði í samskiptum við þá feðga.“

Hluti starfsfólks símstöðvarinnar í Aratungu árið 1990. Þarna er, frá vinstri: Garðar, Stenna, Júlían Magnúsdóttir, Guðríður (Gurra) Þórarinsdóttir, Jónína Margrét (Gréta) Egilsdóttir, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Guðrún Hárlaugsdóttir, Bjarney (Badda) Þórarinsdóttir og Hrefna Kristinsdóttir. (mynd: Garðar og Stenna)

Þarna um 1960 var stór hluti sveitarinnar kominn með heimasíma, en þó var hann ekki kominn allsstaðar, til dæmis þá þurfti alltaf að senda eftir Njáli Þóroddsyni í Friðheimum. „Helvítis vesenið alltaf, hann var ekki alltaf í miklum fötum.“  

Hver bær hafði sitt símanúmer, sem var vinnunúmer á símstöðinni. Númerin fóru eftir á hvaða línu bæirnir voru. Bæirnir á Laugaráslínunni voru, til dæmis, á línu 5 og þar voru Spóastaðir með símanúmerið 5A. Syðri Reykir voru á línu 4 – hjá Grími (Ögmundssyni) 4A og Stefáni Árnasyni 4B. „Stefán fattaði þetta, enda maður glöggur, þannig að þegar hann var í Reykjavík og þurfti að hringja heim, þá pantaði hann bara 4B. Það gerði enginn nema hann.“ Fólkið á símstöðinni lærði númer bæjanna smám saman. Símanúmerin, eða vinnunúmerin, voru reikningsnúmer. Á þau voru langlínusímtölin skráð og þá hver talaði úr þeim síma. Svo hafði hver bær sína hringingu og það var mikið atriði að læra  hringingarnar fljótt  - stuttlöngstutt, eða stuttstuttlönglöng, en það skipti máli upp á hraðann á afgreiðslunni, því oft hringdu margar línur í einu.

Það gat verið óþægilegt ef var verið að tala um símstöðvarfólkið þegar það þurfti að fara inn á línuna  til að slíta fyrir langlínusamtal. „Einu sinni þurfti ég að ná í Stennu og biðja hana að slíta samtal,  því þá var kona að segja annarri konu að ég héldi við einhverja, sem hún nafngreindi, sem ég varla þekkti. Ég gat ekki gert þeim það að láta vita af mér og fór því og bað Stennu að slíta samtalið.“

„Það var eins gott að sofa ekki yfir sig í þessu starfi. Það var einhverju sinni, þegar Stenna var ekki heima, að ég svaf yfir mig. Þegar ég loks kom fram, þá var hringt og hringt og hringt á 5 línunni. Það var Jón Vídalín. „Kva, þið ansið ekki!“ Þá svaraði ég: „En hvað það er gott að heyra í þér, Jón. það var einhver bilun í skiptiborðinu og ég þurfti að rífa það í sundur og eiga við þetta í morgun. Þakka þér fyrir að hringja, nú er þetta komið í lag.“ „Já ég vissi það að það væri gott að fá ungan mann þarna. Það þýðir ekkert að vera með einhver gamalmenni!“ sagði Jón þá.  Þarna fékk ég hrós, sem ég átti alls ekki skilið.“, segir Garðar.

Þegar Skálholtskirkja var vígð, árið 1963, var hátíðin send út beint í gegnum símstöðina. „Símasendingin var einhvernveginn dobbluð upp. Þá var hægt að flytja tvö símtöl eftir sömu línunni. Það var risastór kassi sem tiheyrði þessri huldulínu. Vírinn var enn sá sami en ný tækni gerði þetta kleift. Okkur var harðbannað að fara inn á línuna meðan á útsendingunni stóð.“

Þegar þurfti að koma auglýsingum um viðburði í fjölmiðla fór það oft í gegnum símstöðina og Garðar minnist þess, þegar frú Anna í Skálholti þurfti að koma auglýsingu um orgeltónleika Hauks Guðlaugssaor í hinni nýju kirkju. „Frú Anna var eins og hún var. Hún lét mig finna það alveg að ég væri lítið menntaður og vissi lítið - þekkti ekki tónlist eftir Buxtehude og kunni ekki heldur að skrifa það.“ Þetta kom til vegna auglýsingar sem átti að fara í útvarpið og Garðar bað um að hún stafaði fyrir sig nafnið á tónskáldinu: „Nú þekkirðu ekki Buxtehude? Þetta er frægt tónskáld!“.

Lega jarðkapals um Langasund - ágiskun (mynd kortasjá LMÍ)

Það voru óskaplega margir bæir á Laugaráslínunni, sem kölluð var 5 línan. Um 1970 fékk Garðar hreppsnefndina til að skrifa Póst- og símamálastjóra, þar sem þess var krafist, að lagðar yrðu fleiri línur í Laugarás. Þá var línunni skipt í þrennt, línu 5, línu 12 og línu 14. Svo fékk Garðar Ársæl Magnússon, sem var yfir jarðsímadeild, til að setja niður jarðkapal eftir Langasundi frá Aratungu og hann auðveldaði þessa fjölgun á línunum og síðar tilkomu sjálfvirka símans. Ársæll Magnússon var yfir jarðsímadeild og þeir Garðar voru ágætir kunningjar. Þeir kynntust þegar hann vann hjá rafveitunum, þar sem þurfti að setja síma í jörð þar sem háspnnustrengur var yfir.
„Þetta var um 1970 og þá var kominn annar læknir í Laugarás. Konráð kom 1967 og hann bjargaði lífi Hannesar, sonar okkar. Hann var á fyrsta ári og fékk hastarlega lungnabólgu. Konráð var bara hjá okkur fram á nótt því hann þorði ekki að fara.“
Þarna var læknirinn settur einn á línu og var tengdur beint á Selfoss þegar símstöðin í Aratungu var lokuð. Ef hann pantaði einhver símtöl var Garðar bara látinn vita morguninn eftir.

Símasamband batnaði mikið eftir kapalinn um Langasund. Þegar símstöðin var komin í Aratungu, voru nánast allir í Laugarási komnir með síma. Það var að vissu leyti mikið hagræði að því að allir bæir við Laugaráslínu gátu haft samband sín á milli allan sólahringinn, en á móti kom, að margir gátu „hlerað“ símtölin.

Það voru ekki allir ánægðir þegar línunni var skipt upp. Einn notandinn taldi að með því væri verið að taka af sér öll réttindi, en það var nú ekki þannig. „Það var á ákveðnum bæjum sem var hlustað og maður þekkti þá orðið á klukkuslættinum í bakgrunni“, segir Garðar. Það var talsvert var um að línur slitnuðu eða biluðu, mikið austur í Auðsholt, þegar áin átti það til að slíta Auðsholtslínuna í leysingum. Í þessu sambandi nefnir Garðar, að hann gerði oft sjálfur við símalínur sem biluðu í sveitinni. „Eitt sinn kom ég á sveitabæ til að gera við símann og Þórarinn (Doddi) var með í för, um fjögurra ára gamall. Ég tók hann á háhest og klifraði þannig með hann upp símastaur, en þá voru notaðir svokallaðir stauraskór við að klífa síma- og rafmagnsstaura. Þetta óábyrga athæfi olli nokkurri hneykslun.“

„Við vorum svo heppin að hafa hana fyrir Grýlu. Ef nefnt var að senda Þórarin, son okkar, til Jónu Hansen, var hann eins og bráðið smjör.“ Garðar telur, að ástæðan geti hafa verið að þegar Jóna hafi komið  einhverntíma í Aratungu, hafi Doddi verið eitthvað að fikta í bílnum hennar og hún hafi þá skammað hann. „Jóna var „hörkukvenmaður“ og góður viðskiptavinur símstöðvarinnar.“

Þessi var staðan þar til sjálfvirki síminn kom.

Gréta frá Múla og Ásgeir.

Garðar segist geta sagt margar sögur til viðbótar, af því sem gerðist í tengslum við símann, en telur rétt að þær hverfi með sér.
Hann hætti störfum í Aratungu 1. maí, 1975 og tók við stöðu símstöðvarstjóra í Hveragerði, en Stenna var áfram í Aratungu fram í júní. Við af þeim tóku Valur Friðriksson (1953) og Ragna Björk Proppe (1954), en stöldruðu stutt við (1975-76). Jónína Margrét Egilsdóttir (Gréta) (1939-2010) frá Múla og Eiríkur Ásgeir Þorleifsson (1938-2008), tóku þá við húsvörslu og símstöðvarstjórn og voru í Aratungu til 1979.

Guðrún Sveinsdóttir var síðasti símvörðurinn í Aratungu, en hún tók við af Guðrúnu Hárlaugsdóttur frá Hlíðartúni. Hún starfaði í Aratungu frá 1975 fram í mars 1979. Símstöðin var þá opin virka daga milli kl 9 og 20, nema á sunnudögum, en þá var hún opin frá 11 til 16. Á þeim tíma sinntu þau Gréta frá Múla og Eiríkur Ásgeir, húsvörslu og símstöðvarstjórn. Stöðin var þó starfrækt í skamman tíma eftir að Guðrún hætti, en þá var kominn sjálfvirkur sími um allar Biskupstungur, nema bæi með Hlíðum og efstu bæi. Þeir bæir sem þá átti enn eftir að tengja, voru beintengdir við Selfoss þar til sjálfvirknivæðingunni var endanlega lokið árið 1983. Þegar Guðrún hóf störf var bara kominn sjálfvirkur sími í heilsugæslustöðina í Laugarási.

Þegar sjálfvirki síminn kom – þá fékk fólk gráa skífusímann, en hann var innifalinn í símaáskriftinni. Ef fólk vildi íburðarmeiri síma þurfti að kaupa hann. Fyrsta lína til að fá sjálfvirkan síma var Laugaráslína, vegna læknastöðvarinnar. Með sjálfvirka símanum þurfti að leggja línur upp á nýtt. Þær voru plægðar niður og þar með hurfu staurarnir með símalínunum.

Heimildir, auk Garðars og Stennu: timarit.is, Hrefna Kristinsdóttir, Guðrún Sveinsdóttir, Júlíana Magnúsdóttir og Bryndís G. Róbertsdóttir.

Uppfært 05/2022