Söguskilti afhjúpuð við Hvítárbrú

Það kom upp sú hugmynd í tengslum við hátíð í tengslum við 60 ára afmæli Hvítárbrúar í dessember 2017, að koma upp söguskilti um ferjuna, brúna og Laugarás. Til þess að stuðla að því að eitthvað yrði nú gert í málinu ákváðu systkinin frá Iðu, þau Guðmundur, Jóhanna Bríet, Hólmfríður og Loftur Ingólfsbörn, að leggja fram fjárupphæð til styrktar verkinu. Síðar komu systkinin frá Hveratúni í Laugarási til skjalanna og lögðu fram samsvarandi upphæð og ákveðið var að skiltin skyldu gerð í minningu þeirra Ingólfs Jóhannsonar og Margrétar Guðmundsdóttur á Iðu og Guðnýjar Pálsdóttur og Skúla Magnússonar í Hveratúni.

Það voru þau Páll M. Skúlason og Elinborg Sigurðardóttir sem tóku að sér að safna og vinna efni á skiltin.

Unnið við uppsetningu söguskiltanna og bæjarskiltis fyrir Laugarás.




Þann 24. ágúst, 2019 var það síðan afhjúpað með athöfn þar sem Elinborg Sigurðardóttir á Iðu og Páll M. Skúlason í Kvistholti (frá Hveratúni) fluttu ávörp og greindu frá aðdraganda og framkvæmd verksins. Síðan afhjúpuðu systkinin frá Iðu og Hveratúni skiltin.

Í lok athafnarinnar tók sveitarstjóri Bláskógabyggðar, Ásta Stefánsdóttir, við skjali þar sem afkomendur hjónanna á Iðu og í Hveratúni afhentu Sveitarfélaginu Bláskógabyggð skiltin til umsjónar og varðveislu.

Talsverður mannfjöldi var þarna saman kominn í blíðskaparveðri.

Hér fyrir neðan eru birt ávörp þeirra Elinborgar og Páls.


Lokafrágangur á degi afhjúpunar


Ávarp Elinborgar

Veriði öll velkomin

Elinborg Sigurðardóttir flytur ávarp sitt. Mynd Magnús Skúlason

Elinborg Sigurðardóttir flytur ávarp sitt. Mynd Magnús Skúlason

Afhjúpun þessara skilta átti að vera um síðustu helgi í tengslum við að stórfjölskyldan á Iðu kom saman til að heiðra minningu aldarafmælis tengdaföður míns Ingólfs Jóhannssonar bónda á Iðu, en af óviðráðanlegum ástæðum tókst það ekki. Því eru nokkrir úr fjölskyldunni fjarverandi sem gjarnan vildu vera hér viðstaddir í dag.

Upphafið má rekja til byrjunar árs 2017. Þá varð til sjálfskipuð nefnd sem í settust þau Elinborg Sigurðardóttir Iðu, Páll Magnús Skúlason Kvistholti og Jakob Narfi Hjaltason Vesturbyggð. Tilefnið var að minnast 60 ára afmæli Hvítárbrúar. Vígsla hennar hafði aldrei farið fram þegar hún var tekin í notkun árið 1957. Við undirbjuggjum veglega hátíð með myndasýningu og táknrænum vígslugjörningi á brúnni og efndum til söfnunar svo endurnýja mætti ljósakeðjuna sem komin var til ára sinna, en hún skreytir brúna í mesta skammdeginu.

Þegar myndasýningin var í undirbúningi fæddist hugmyndin að söguskilti. Markmiðið var að miðla arfi fortíðar til framtíðar. Systkinin á Iðu þau Jóhanna, Guðmundur, Hólmfríður og Loftur Ingólfsbörn ákváðu að ljá hugmyndinni brautargengi með því að gefa minningargjöf um foreldra sína þau Margréti Guðmundsdóttur sem lést árið 2015 og Ingólf Jóhannsson sem lést árið 2005. Blessuð sé minning þeirra hjóna.

Hugmyndin lá að mestu í dvala þar til nú í byrjun yfirstandandi árs, að við hjónin fengum fund með Ástu Stefánsdóttur sveitarstjóra Bláskógabyggðar og Páli Halldórssyni frá Vegagerðinni. Við erum mjög þakklát fyrir að þau tóku vel í hugmyndina og voru tilbúin að veita henni brautargengi.

Aðeins að ánni og sögunni:

Hvítá er hvergi talin reið hestum frá því Tungufljót kemur í hana. Ferðafólk þurfti að komast leiðar sinnar í árdaga sem og nú. Lögboðin skylda hvíldi á ábúendum Iðu að ferja fólk og hesta yfir ána. Stjórnvöld útveguðu bátinn, sem var árabátur, en ábúendur sáu um viðhald hans.

Ingólfur Jóhannsson tengdafaðir minn var fæddur á Iðu árið 1919 og hefði orðið 100 ára þann 14. ágúst s.l. Hann fæddist og ólst upp á Iðu og bjó þar alla tíð með fjölskyldu sína. Hann var bóndi og að auki mikill hagleiksmaður. Hann var síðasti ferjumaður á ánni og sá fyrsti sem ók bíl yfir brúna þegar hún var tekin í notkun árið 1957.

Þess má geta að hann var aðeins 10 ára gamall þegar hann ferjaði fólk í fyrsta sinn yfir ána.

Ábúendur á Iðu þurftu alltaf að vera til taks ef kallað var eftir ferju. Ingólfur segir í skrifaðri minningu: “Ferjan tók oft mjög mikinn tíma og þurfti alltaf einhver að vera til staðar þegar ferja þurfti. Einkum kom það sér illa að tefja sig frá heyskap á sumrum.”

Eftir að læknirinn settist að í Laugarási árið 1923 varð enn meira álag á ferjuna, þegar fólk þurfti að vitja læknis og/eða læknirinn að fara í vitjanir niður á Skeið eða austur í Hreppa. Oft var þá teflt í tvísýnu í vályndum veðrum.

Í tengslum við kappreiðar á Sandlækjarholti var oft mikið að gera við ferjustörfin. Þegar hestamennirnir riðu aftur heim á leið, var eldhúsið á Iðu oft eins og kaffihús. Sjálfsagt þótti að stoppa þar áður en lagt var af stað yfir ána. Maðurinn minn (Guðmundur) minnist þess að þá var oft glatt á hjalla og mikið sungið.

Einnig minnist hann mikils álags við ferjuna í tengslum við fyrstu Skálholtshátíð sem haldin var árið 1956. Þá þurftu systkinin á Iðu að færa ferjumönnunum þeim Lofti Bjarnasyni og Ingólfi föður sínum bæði mat og kaffi norður að á, því þeir komust ekkert frá.

Þegar hugsað er til baka þá skil ég vel orð Margrétar tengdamóður minnar er hún sagði eitt sinn: “Ég vildi nú heldur missa rafmagnið en brúna.” en rafmagn kom að Iðu um svipað leyti og brúin var tekin í notkun.

Bygging brúarinnar hófst árið 1951 og lauk sem fyrr segir árið 1957. Þetta var mikil og stórhuga framkvæmd á þessum árum. Tilkoma brúarinnar gjörbreytti samgöngum hér á svæðinu. Okkur er hollt að minnast þessa alls þegar við þjótum á bílum okkar yfir brúna í hraða nútímans.

Við fjölskyldan á Iðu reyndum að segja söguna með myndum og texta á skilti sem við kusum að nefna Frá ferju til brúar og verður afhjúpað í minningu þeirra hjóna hér á eftir.


Athöfnin sjálf

Flestar myndanna tók Magnús Skúlason, en Páll M Skúlason aðrar


Ávarp Páls

„Halló, halló, ferja!”
Svona kölluðu mjóróma læknissynirnir Einar, Jósef og Grétar Ólafssynir á ferjuna héðan af Skálholtshamri á fjórða áratug síðustu aldar. Svona var nú farið að því.

Páll flytur ávarp sitt. Mynd Magnús Skúlason

Páll flytur ávarp sitt. Mynd Magnús Skúlason

Skiltin sem við ætlum að afhjúpa hér, köllum við annarsvegar „Frá ferju til brúar“ og hinsvegar „Laugarás – þorpið í skóginum“ Á þeim er að finna texta á íslensku og ensku og myndir úr ýmsum áttum.

Elinborg gerði grein fyrir ferjuskiltinu og ég mun hér viðhafa nokkur orð um Laugarásskiltið, en það fjallar um helstu þættina í sögu Laugaráss frá því uppsveitahrepparnir sameinuðust um kaup á jörðinni 1922, til að gera hana að læknissetri í Grímsneslæknishéraði. Einnig segir þar frá fyrstu garðyrkjubýlunum, frá starfstíma barnaheimilis Rauða krossins á sjötta og sjöunda áratugnum og sláturhúss Sláturfélags Suðurlands frá miðjum sjöunda áratugnum langt fram á þann níunda.

Þessi saga er hvorki löng né flókin og tiltölulega auðvelt að ná utan um hana. Samt er hún miklu stærri en svo að hægt sé að koma henni á fullnægjandi hátt fyrir, á einu svona skilti. Í textanum sem þar er að finna, er stiklað á stóru um helstu þætti og það viðurkenni ég, að myndirnar voru valdar nokkuð handahófskennt, en sýna samt ýmislegt sem var á einhverjum tíma.

Skiltunum er ætlað að leiða áhugasama dýpra inn í söguna með því þar er vísað á vefinn laugaras.is og meira að segja er þar að finna svokallaðan QR-kóða, sem maður skannar með farsíma til að komast inn á síðuna. Vefnum þessum er ætlað að fjalla um Laugarás frá sem flestum hliðum og ég verð bara að krossa fingur og vona að mér endist aldur og andlegt atgerfi til að fjalla um öll þau blæbrigði sem er að finna á þessum lognværa og undurfagra stað.

Þó við Elinborg, sem ég þakka auðvitað ágætt samstarf, höfum nú komið af nokkrum krafti að þessu verki, þurftu sannarlega fleiri að koma að á öllum stigum þess og ég mun hér nefna þá helstu:

Þorsteinn Tryggvi Másson héraðsskjalavörður Héraðsskjalasafni Árnesinga fyrir aðstoð við uppsetningu og gagnrýni á texta. Yfirlesarar á textana fá einnig ómældar þakkir.

Vegagerð ríkisins og Landmælingar Íslands, ásamt ýmsum einstaklingum fyrir afnot af myndum.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fyrir að taka vel í hugmyndina og styrkja framkvæmdina, en eins og þið sjáið varð að ráði að sameina uppsetningu bæjarskiltis og söguskiltanna.

Fagform á Selfossi fyrir prentun skiltanna

BK hönnun - Birkir Kúld, fyrir málsetningu og útlitshönnun á umgjörð skiltanna.

Hákon Páll Gunnlaugsson, fyrrum Laugarásbúi, hjá Selásbyggingum fyrir að koma skiltunum í ramma, steypa undirstöður og setja þau upp. Þar naut hann dyggrar aðstoðar Guðmundar Ingólfssonar á Iðu sem sá að auki um að keyra möl og útbúa planið.

Öllum þessum færum við bestu þakkir fyrir stuðninginn og vinnuna sem þau hafa á sig lagt svo þetta mætti verða.

Það vill svo skemmtilega til að aldarafmæla foreldra þessara tveggja systkinahópa er minnst á árunum 2018 – 2020. Skúla á síðasta ári, Ingólfs á þessu og síðan þeirra Margrétar og Guðnýjar í október á næsta ári.

Nú langar mig að biðja systkinin frá Iðu og systkinin frá Hveratúni, sem hér eru stödd, að ganga fram og afhjúpa skiltin.

Að því búnu gefst ykkur kostur á að kynna ykkur skiltin nánar, eftir því sem þið óskið og/eða setjast niður í Dýragarðinum Slakka, þar sem hægt er að kaupa sér hressingu.

Kærar þakkir fyrir komuna.

Systkinin frá Iðu og Hveratúni afhjúpa söguskilti við norðurenda Hvítárbrúar. Halldór Páll Halldórsson tók myndskeiðið.

Athöfnin sjálf - seinni skammtur

Myndirnar tóku Magnús Skúlason og Páll M Skúlason, utan hópmyndir sem Halldór Páll Halldórsson tók.

Uppfært í ágúst 2019