Stjórnarnefndin - Oddvitanefndin

Þegar uppsveitahrepparnir höfðu eignast Laugarásjörðina, til að koma þar upp læknissetri, var talsverð eðlisbreyting á samskiptum þeirra. Þessi nýja sameign kallaði á allskyns umsýslu og það kom, eins og vænta má, í hlut oddvita þessara hreppa að sinna henni. Fyrstu tuttugu árin eða svo voru verkefnin tiltölulega einföld, svo sem, en þegar Laugarásbúum fór að fjölga á fimmta og sjötta, svo ekki sé talað um sjöunda áratugnum, komu stöðugt fjölbreyttari úrlausnarefni á borð stjórnarnefndarinnar, eins og hún var oft kölluð. Nefndin gekk einnig undir fleiri nöfnum.

Skúli læknir Árnason í Skálholti sagði stöðu sinni lausri frá og með 1. janúar, 1922, en hugðist halda áfram búskap í Skálholti.

Oddvitar hreppanna, þegar komið var að því að finna lausn á málefnum læknisseturs voru Þeir sr. Eiríkur Þ, Stefánsson á Torfastöðum, Guðmundur Lýðsson í Fjalli, Helgi Ágústsson á Syðra-Seli, Magnús Jónsson á Klausturhólum, Ólafur Valdimarsson Briem á Stóra Núpi og Páll Guðmundsson á Hjálmsstöðum.

Þeir sr. Ólafur, Guðmundur og sr. Eiríkur áttu þarna stutt eftir af oddvitatíð sinni. Eiríkur Jónsson í Vorsabæ tók við af Guðmundi árið 1922, árið 1923 tók Páll Stefánsson á Ásólfsstöðum við af Ólafi og Einar J. Helgason í Holtakotum tók við af sr. Eiríki árið 1925.

Tungnamenn voru einna duglegastir við að skipta um oddvita á þriðja áratugnum. Þannig tók Jóhann Kristján Ólafsson á Kjóastöðum við keflinu af Einari árið 1928. Þegar hann flutti síðan úr sveitinni 1931 tók Guðjón Rögnvaldsson á Tjörn við og gegndi embættinu í ein 18 ár, eða til 1947. Páll á Hjálmsstöðum lét af embætti 1926 og við tók Teitur Eyjólfsson í Eyvindartungu.

Það næsta sem gerðist í breytingum á oddvitanefndinna var þegar Árni Ögmundsson í Galtafelli tók við sem oddviti Hrunamanna, árið 1935 og gegndi því embætti líklega til 1942. Við af honum tók Helgi Kjartansson í Hvammi og hann var oddviti til 1946.

Í Grímsneshreppi er óljóst hvenær sr. Guðmundur Einarsson á Mosfelli tók við oddvitaembættinu af Magnúsi í Klausturhólum, en hann var í það minnsta oddviti árið 1935 og hélt því til 1942.

Páll Guðmundsson á Hjálmsstöðum tók við oddvitaembættinu öðru sinni, árið 1940 og gegndi því í tvö ár, eða þar til Bergsteinn Kristjónsson á Laugarvatni tók við af honum. Hann sat síðan sem oddviti Laugardalshrepps til ársins 1966.

Þegar sr. Guðmundur á Mosfelli lét af embætti Grímsneshrepps tók Stefán Diðriksson á Minni-Borg við og var síðan oddviti hreppsins til 1956.

Sigmundur Sigurðsson í Syðra Langholti tók við oddvitaembættinu í Hrunamannahreppi af Árna Ögmundssyni árið 1946 og gegndi því til 1966. Það sama ár tók Steinþór Gestsson á Hæli við í Gnúpverjahreppi og var þar oddviti allt til 1973. Loks tók Skúli Gunnlaugsson í Bræðratungu við í Biskupstungnahreppi 1946 og hann var oddviti til 1966.

Það má segja að tuttugasta öldin í sögu uppsveita Árnessýslu, hafi verði öld þeirra feðga Eiríks Jónssonar og Jóns Eiríkssonar í Vorsabæ á Skeiðum. Jón tók við af föður sínum sem oddviti Sheiðahrepps árið 1952 og gegndi því embætti til ársins 1990.

Í Grímsnesi varð Páll Diðriksson á Búrfelli oddviti 1957 og sat í því til 1971 og Biskupstungnamenn völdu sér Þórarin Þorfinnsson á Spóastöðum til að gegna oddvitaembætti 1967 og því gegndi hann til 1973.

Daníel Guðmundsson á Efra-Seli var oddviti Hrunamannahrepps frá árinu 1967 til 1981, en þá tók Loftur Þorsteinsson við af honum.
Magnús Böðvarsson á Laugarvatni gegndi embættinu í 4 ár í Laugardalshreppi, eða frá 1966 til 1969, en þá tók Þórir Þorgeirsson á Laugarvatni við keflinu og var oddviti Laugardalshrepps til ársins 1997.

Ásmundur Eiríksson í Ásgarði var oddviti Grímsneshrepps frá 1972 til 1982, Gísli Einarsson í Kjarnholtum stýrði Biskupstungnahreppi frá 1974 til 1997 og Steinþór Ingvarsson í Þrándarlundi var oddviti Gnúpverjahrepps frá 1974 til dauðadags 1995.

Kjartan Ágústsson á Löngumýri tók við oddvitaembættinu í Skeiðahreppi þegar Jón Eiríksson lét af embætti. Hann var síðan oddviti til 2002. Bjarni Einarsson á Hæli tók við embætti oddvita í Gnúpverjahreppi 1995 og gegndi því til 2002. Þegar Bjarni og Kjartan hættu tók við sameiginlegt sveitarfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps undir forsæti Más Haraldssonar í Stóru-Mástungu.

Sveinn A. Sæland á Espiflöt settist í oddvitasætið í Biskupstungnahreppi á eftir Gísla Einarssyni, árið 1997 og gegndi því til 2006. Guðmundur Rafnar Valtýsson á Laugarvatni tók við af Þóri Þorgeirssyni í Laugardalshreppi og sat til 2002. Þá sameinuðust Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur og Þingvallasveit og urðu Bláskógabyggð. Sveinn A Sæland á Espiflöt var síðan oddviti Bláskógabyggðar til 2006.

Við af Lofti Þorsteinssyni, sem oddviti Hrunamannahrepps tók Sigurður Ingi Jóhannsson í Syðra -Langholti, árið 2002. Loks er nefnt hér, að Gunnar Þorgeirsson í Ártanga tók við embætti oddvita Grímsnes og Graningshrepps árið 2002 og gegndi því í fjögur ár.

Hrepparnir sex urðu að fjórum með sameiningum upp úr aldamótunum. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi tók Már Haraldsson í Mástungu við oddvitaembætti og Gunnar Þorgeirsson í Ártanga tók við embætti oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps.

Uppfært 01/2022