Hagsmunafélag Laugaráss

Hagsmunafélag Laugaráss var stofnað 9. febrúar 1974 í Varmagerði. Ekki verður annað séð af stofnfundinum og fundum næstu ára, en að megintilgangur félagsins hafi verið að gæta hagsmuna garðyrkjubænda gagnvart hitaveitunni, sem hún hafði þá verið starfrækt í 10 ár, eða frá því sláturhús Sláturfélags Suðurlands tók til starfa.

Á þessum fyrsta fundi var samþykkt tillaga að lögum félagsins, en eintak af þeim hefur ekki fundist í gögnum þess enn.

Hörður Magnússon í Varmagerði var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun félagsins og var kjörinn formaður þess á stofnfundinum. Aðrir í þessari fyrstu stjórn voru Gunnar Tómasson, gjaldkeri og Gunnlaugur Skúlason, ritari. Meðstjórnendur þeir Hjalti Jakobsson og Sverrir Ragnarsson.

Umfjöllunin hér styðst að mestu við gögn sem Hagsmunafélagið lét eftir sig, að stærstum hluta fundagerðarbækur. Ég hef farið þá leið að segja sögu hitaveitunnar í sérstökum kafla undir flokknum “Starfsemin”. Að öðru leyti skipti ég starfsemi félagsins í tvennt, annarsvegar aðkomu félagsins að málefnum barna og ungmenna í Laugarási og hinsvegar að ýmsum framfaramálum í Laugarási. Þá ákvað ég að birta upplýsingar um allt það fólk sem sat í stjórn of nefndum á vegum félagsins, þann tíma sem það starfaði.

Kveikjan að þessu ágæta félagi virðist mér að hafi verið sú þörf sem Laugarásbúar höfðu fyrir að fjalla um og berjast fyrir hagsmunamálum sínum, einkum þeim sem lutu að samskiptum við eiganda jarðarinnar, Laugaráslæknishérað.

Langmestur kraftur félagsins fyrstu 5 árin, um það bil, fór í umfjöllun um hitaveituna. Um 1980 tók Biskupstungnahreppur yfir umsjón með málefnum Laugaráss, þar með einnig hitaveitunni og við það breyttist eðli félagsins og það hóf að einbeita sér meira að öðrum málum sem til framfara horfðu. Blómatími þess í þeim takti var líklega níundi og fram á tíunda áratuginn.

Um miðjan 10. áratuginn dó félagið eiginlega hægt og hljótt. Ég leyfi mér að halda því fram, að stærsta eina ástæða þess hafi verið heilmikil óeining sem varð, þegar hluti íbúanna vildi efla ferðaþjónustu í þorpinu, en aðrir voru því mjög mótfallnir. Hugmyndirnar um göngustígagerð í Laugarási og nágrenni voru, að mínu mati, dropinn sem fyllti mælinn, ekki síst hugmynd um að leggja göngustíga við hverasvæðið.

Hagsmunafélagið skipti Laugarásbúa miklu máli og stóran hluta þess sem þó hefur náðst fram, má þakka því. Tilvera þess var einkar mikilvæg þegar ekki sat fulltrúi frá Laugarási í hreppsnefnd.

Það er ástæða til að íbúar í Laugarási hafi með sér félagsskap til að berjast fyrir og gæta hagsmuna sinna. Ekki virðist veita af.


Uppfært 10/2021