Hagsmunafélag Laugaráss - börn og unglingar

Hér er fjallað um það starf Hagsmunafélags Laugaráss sem laut að börnum og unglingum í Laugarási frá 1974-1996. Gögnin sem þessi samantekt byggir á, eru að stærstum hluta fundagerðarbækur félagsins og pappírar sem hafa varðveist.

1974

Leikvöllurinn

Á þessum fyrsta fundi var talið að bæta þyrfti við leiktækjum á leikvöllinn. Þessi leikvöllur er vestan vegarins í gegnum þorpið, gegnt þeim stað sem Verzlun G. Sæland og síðar Verslunin Laugartorg stóð.

Leikvöllurinn

Stjórnin tók það mál og fleiri því tengd, fyrir á stjórnarfundi í apríl. Þar var varpað fram hugmynd um að koma upp körfuboltavelli í hlöðunni. Hún yrði þá standsett og foreldrar myndu síðan skiptast á um að hafa þar eftirlit. Þá var einnig fjallað um tækjaskort á leikvellinum; þar þyrfti meðal annars að lagfæra og bæta sandkassa. Stjórnin lagði til að sótt yrði um styrk til hreppsins til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir á leikvellinum.

1975

Á næsta aðalfundi, í mars, 1975, höfðu þessi mál skýrst nokkuð, því þá lá fyrir, annarsvegar, að samningar höfðu ekki tekist við Jón Eiríksson um afnot af hlöðunni og hinsvegar að Biskupstungnahreppur hefði “þverneitað” fjárhagsaðstoð vegna leikvallar í Laugarási.

1976

Eftir þessi málalok virðist hafa dregið nokkuð af fólkinu, því ekki var minnst á leikvallarmál eða annað börnum tengt, fyrr en á almennum fundi sem var haldinn í júní 1976.

Áhugi virtist fyrir því að gera sitthvað til hagsbóta, a.m.k halda því við sem fyrir er: ákveðið að mæta eitthvert kvöldið að frumkvæði formanns og laga það sem þörf kynni að vera á.

Hugsunin var líklega sú, að úr því valdhafar voru ekki reiðubúnir að leggja neitt af mörkum, væri ekki annað í stöðunni en taka málin í eigin hendur. Eftir þetta virðist eitthvað hafa farið af stað, því á næsta almenna fundi sem var haldinn í nóvember þetta ár, lagði Pétur Giðmundsson, hitaveitustjóri, fram tillögu um að leita eftir því að „fá afnot af húsakynnum S.S. á staðnum, til tómstundaiðkunar fyrir unga sem aldna”.

Talið að leigukostnaður yrði lítill sem enginn. Ýmislegt var nefnt sem þarna væri hægt að gera: badminton, bobb, spil t.d. félagsvist og ennfremur var nefnd fótamennt, hvað sem það nú merkir.  Einhverjir höfðu vantrú á því, að þetta hugsjónamál kæmi fullkomlega að tilætluðum notum og jafnvel töldu þetta óheppilegt og studdust þar við reynslu af svipuðu framtaki, sem gert var hér fyrir nokkrum árum. Fríður [Pétursdóttir] spurði hvort möguleikar væru á að fá fræðslu- og skemmtimyndir. Hörður Magnússon kvað góða möguleika á því.
Fríði og Pétri Guðmundssyni (sem kom fram með tilllöguna) var falið að kynna sér aðstæður og áætla kostnað sem þessu kynni að tengjast.

1977

Það næsta sem fjallað er um varðandi afþreyingu barna, er á almennum fundi í maí 1977, en þar kom fram áhugi að að setja upp rennibraut á leikvellinum og að koma upp hindrun við brúna yfir skurðinn, sem þá nýbúið að setja upp, „til þess að börnin hlypu ekki viðstöðulaust út á þjóðveginn, þar sem hætta er mjög mikil vegna bifreiðaumferðar”.

Þarna var einnig ákveðið að fólk kæmi saman til að lagfæra leikvöllinn fyrir sumarið, ásamt ýmsum öðrum verkefnum.

1978

Það var farið af stað með tómstundaiðkun veturinn 1977-78, en aðalfundi um vorið virtist ekki vera áhugi fyrir framhaldi, enda enginn fullorðinn sem reyndist tilbúinn að halda utan um þetta starf. Svo var bara samþykkt einróma, að „hagsmunafélagið gæfi barnaskólanum í Reykholti þau leikföng sem til eru, svo sem manntöfl o.fl.”

Það höfðu komið fram áhyggjur á fundum og víðar, vegna staðsetningar leikvallarins við aðalveginn. Leitað var lausna á þessari stöðu á stjórnarfundi í apríl 1978.

Brúsapallur við gatnamót Skálholtsvegar, Skúlagötu og heimreiðar að Lyngási og Laugargerði.

Stjórnin telur nauðsyn á, að gerðar verði ráðstafanir áður en stórslys verður. Rætt um að athuga aðstæður í gömlum malargryfjum vestan við Rauðakrosshliðið, í sambandi við fótboltavallargerð. Þetta skyldi rætt við Jón í Vorsabæ eftir að aðstæður hafi verið kannaðar.

Ekki virðist neitt hafa orðið úr þessum hugmyndum, enda leikvöllurinn enn á sama stað.

Brúsapallurinn

Brúsapallur hafði staðið vestan við Skálholtsveg, norðan við heimreiðina að Lyngási og Laugargerði. Sannarlega hafði þessi pallur verið notaður sem brúsapallur; á pallinn setti bóndinn fulla mjólkurbrúsa, sem mjólkurbíllinn nálgaðist síðan á tilsettum tíma og skellti tómum brúsum á pallinn í staðinn. Hlutverki brúsapallsins sem palls fyrir mjólkurbrúsa lauk þegar kúabúskapur lagðist af í Laugarási um 1970.

Hlutverk þessa brúsapalls var fjölþættara, þar sem hann var einnig notaður fyrir pakka og póstsendingar til íbúa í hverfinu. Þá ber einnig að tilgreina það hlutverk pallsins sem snéri að ungviðinu. Í árdaga sátu börn þar og tóku niður bílnúmer, oft í rykmekki, en síðar varð brúsapallurinn að nokkurskonar félagsmiðstöð unglinga í hverfinu, en á þeim tíma fór umferð að aukast með vaxandi bifreiðaeign og umferðarhraðinn óx samhliða vaxandi hraða í lífi fólks, svona almennt.

Þar kom, að félagsmiðstöð á þessum stað, í vegkantinum þótti orðin hættuleg og á stjórnarfundi í ágúst 1978 var „Talað um að fjarlægja pallinn og flytja hann á stað sem börnunum stafaði minni hætta af.” Ekki er síðan fjallað um þetta brúsapallsmál frekar í fundargerðum og má því reikna með að farið hafi verið í að fjarlægja hann á frekari umræðu.

Leikvallargjald var ákveðið kr. 2500 fyrir þetta ár.

1979

Knattspyrna á leikvellinum sumarið 1979. Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir.

Á vormánuðum 1979 hélt formaður, Hörður Magnússon, fund með börnunum í hverfinu þar sem fjallað var um hvað þau teldu nauðsynlegast að gera fyrir leikvöllinn. Þetta varð niðurstaða þess fundar:

1. girða staðinn og slá völlinn nokkuð reglulega vegna knattspyrnuiðkana.
2. fá langstökksgryfju
3. fá hornabolta.

Stjórnin ákvað að þessu skyldi hrint í framkvæmd á komandi vori. Að auk ákvað stjórnin á að ræða við vegagerðina um að hún setti upp merkingu við leikvöllinn og ennframur að mála skilti sem á stæði: „Leiktækin aðeins ætluð börnum“

Leikvallargjald fyrir árið 1979 var ákveðið kr. 4000.

1980

Dittað að leiktækjum sumarið 1980. Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir

Á aðalfundi félagsins 1980 var í fyrsta sinn getið um „Stjórn og umsjón leikvallar”. Í það hlutverk völdust þær Karítas Óskarsdóttir og Ingibjörg Bjarnadóttir. Megin ástæða þessa var sú líklegust, að um þær mundir voru að verða breytingar í umhverfinu, sem myndi hafa óhjákvæmilegar afleiðingar fyrir hagsmunafélagið eins og það hafði starfað frá stofnun. Það var nefnilega þannig, að á þessum fundi var samþykkt tillaga þar sem skora var á hreppsnefnd Biskupstungnahrepps að stefna að því að taka Laugarásjörðina á leigu af læknishéraðinu.

Leikvallargjald var hækkað í kr. 6000 á stjórnarfundi í nóvember 1980.

Unnið við völlinn 1980. Mynd IB

1981

Aðalfundur 1981 valdi þær Elsu Marísdóttur og Sigurbjörgu Jóhannesdóttur til að hafa umsjón með leikvellinum.

Biskupstungnahreppur tók við rekstri hitaveitunnar á þessu ári og þar með breyttist hlutverk hagsmunafélagsins umtalsvert. Það fylgdi hinsvegar stöðu formanns félagsins, að hann varð jafnframt formaður stjórnar hitaveitunnar. Tveir fulltrúar Biskupstungnahrepps skipuðu einnig þá stjórn.

1982

Aðalfundur 1982 valdi þær Guðrúnu Ólafsdóttur og Kristínu Sigurðardóttur til að hafa umsjón með leikvellinum.

Brúin inn á leikvöllinn máluð, 1980. Mynd IB

Á stjórnarfundi í febrúar eða mars 1982 ákvað stjórnin að setja nýja brú á skurðinn við leikvöllinn og í nóvember var ákveðið að setja hlið á völlinn.

1983

Aðalfundur 1983 valdi Guðrúnu Ólafsdóttur, Kristínu Sigurðardóttur og Ástu Skúladóttur í leikvallarnefnd.

1984

Formaður félagsins gerði grein fyrir því, í yfirliti sem hann flutti á aðalfundi 1984, að lagaðar hefðu verið girðingar og leiktæki á leikvelli og að fótboltavöllur væri í slæmu ástandi, en reynandi væri að strá sandi á völlinn tvisvar til þrisvar á komandi sumri.

Þá lagði formaður til á þessum fundi, að leikvallarnefnd sæi um fjármál hagsmunafélagsins, þar sem einu útgjöldin væru í sambandi við völlinn.

Loks kom fram á þessum fundi vilji til að skilja á milli hagsmunafélagsins og hitaveitunnar.

Séð yfir Iðu, Hvítá og Laugarás sumarið 1984. Mynd Páll M Skúlason

1985

Leikvallarmálin komu ekki til umræðu á aðalfundinum, en samt má segja að brotið hafi verið blað, með því að karlmaður var í fyrsta sinn kosinn í leikvallarnefnd. Til þessa starfs voru valin Loftur Ingólfsson, Dröfn Þorvaldsdóttir og Sigurlaug Sigurmundsdóttir.


Frá þessum aðalfundi og fram á stjórnarfund 1987 hafa ekki fundist fundargerðir.

1987

Hér höfðu þau Gústaf Sæland, formaður, Sigríður Guttormsdóttur, gjaldkeri og Þóra Júlíusdóttur, ritari, tekið við stjórn í félaginu. Í upphafi fundargerðar segir svo:

Ritari hafði ekki verið á aðalfundi og vissi því lítið um hvað þar hafði farið fram og fundargerð af þeim fundi virðist hafa gufað upp.

Þarna var fjallað um nauðsyn á að skipta um plötu á rennibrautinni, en í leikvallarnefnd voru komin þau Sigrún [Reynisdóttir]og Ingólfur [Guðnason] á Lindarbrekku (Engi síðar), Jóna [Jónsdóttir] og Guðmundur [Indriðason] á Lindarbrekku og Matthildur [Róbertsdóttir] og Jens [Pétur Jóhannsson], Laugarási. Ákveðið hafði verið á aðalfundi að taka heimilin í röð og fara öfugan hring.

1988

Á aðalfundi þetta ár var ákveðið að hætta að innheimta leikvallargjald, en í stað þess var tekið upp s.k. hverfisgjald og skyldi það fé nýtast til skógræktar auk kostnaðar við leikvöllinn.

Þá kom fram að væntanlegt væri hús og leikgrind fyrir boltaleiki á leikvöllinn.

Ákveðið var, að sama leikvallarnefnd starfaði áfram.

1989

Á aðalfundinum þetta ár var ákveðið að leikvallarnefnd skyldi skipuð íbúum á Sólveigarstöðum og Tröðum.

Á fundum stjórnar var ekki fjallað um leikvallarmálin eða afþreyingu barnanna í hverfinu þetta ár.

1990

Á aðalfundinum þetta ár voru leikvallarmál rædd, ekki síst um uppbyggingu vallarins. Stjórninni var falið að leggjast yfir þetta mál nánar og gera áætlun um kostnað við framkvæmdir á vellinum. Ekki var kosið í leikvallarnefnd á fundinum, en stjórninni þess í stað falið að skipa fólk í hana.

Pétur Skarphéðinsson var þeirrar skoðunar, að það ætti að reyna að fá sláturhúsið sem nokkurskonar félagsmiðstöð, en þar var kostnaður talinn geta orðið hindrun.

Leikvallarmál voru síðan til umræðu á stjórnarfundum.

Laugarásbörn 1990, f.v. Guðni Páll Sæland, Ólafur Loftsson, Sigurbjörn Þrastarson, Þorvaldur Skúli Pálsson, Egill Árni Pálsson. Fyrir framan stendur Guðný Rut Pálsdóttir. Mynd: PMS

Laugarásbörn 1990, f.v. Guðni Páll Sæland, Ólafur Loftsson, Sigurbjörn Þrastarson, Þorvaldur Skúli Pálsson, Egill Árni Pálsson. Fyrir framan stendur Guðný Rut Pálsdóttir. Mynd: PMS

1991

Launrétt 3 (Pétur og Sigríður) var valin til að sjá um leikvöllinn, en jafnframt var þess getið að stjórn myndi finna annað heimili í nefndina, sem reyndist svo verða Gunnlaugur Skúlason og Renata Vilhjálmsdóttir.

Innan stjórnar var rætt hvort ekki væri eðlilegt að sveitarsjóður hirti um útisvæði í Laugarási, líkt og gert væri í Reykholti, einkum leikvöll og vegbrúnir. Í framhaldinu sendi stjórn Hagsmunafélagsins bréf til hreppsnefndarfulltrúa þar sem óskað var úrbóta í ýmsum málum sem snertu Laugarás.

Í desember er fjallað frekar um málið á stjórnarfundi og þar kom frma að í framhaldi af sendingu bréfsins hafi stjórnarmenn farið á fund sveitarstjórnar og kynnt óskir og hugmyndir félagsins enn frekar.

Stjórn lagði sérstaka áherslu á að lagfæra leikvöllinn þannig að hann yrði í raun nothæfur sem slíkur.  Hreppsnefnd óskaði eftir kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna.

Lögð hefur verið fram áætlun vegna kostnaðar við að setja drenbarka í völlinn, ásamt frágangi, jöfnun og sáningu.  Kostnaður er mismikill eftir aðferðum.

Stjórn ákvað að einbeita sér að þessu verkefni um sinn.

1992

Fimm frá Laugarási og einn frá Skálholti. Það má ef til vill segja að þarna hafi mótast grunnurinn að Laugaráskvartettinum, sem síðar varð til. Myndin er frá skólaslitum í Reykholtsskóla 1992 og á henni eru frá vinstri, Georg Kári Hilmarsson, Egill Árni Pálsson, Þorvaldur Skúli Pálsson, Þröstur Freyr Gylfason, Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Ólafur Loftsson. Stjórnandi piltanna við þetta tækifæri var Ingrid Hoffmann.

Á stjórnarfundi í maí var þetta bókað:

Rætt um leikvallarmál. Sveitarsjóður hefur sett inn í fjárhagsáætlun kr 230.000 vegna leikvallar í Laugarási, sem er sú upphæð sem við töldum nægja.
Eftir umræður um framkvæmdaratriði var ákveðið að leita til Benedikts Skúlasonar um að hann taki að sér verkið.
Páll taldi að færa mætti leiktækin ofar núverandi leikvelli meðan framkvæmdir standa yfir, þ.e. í allt sumar.

Á aðalfundi var greint frá stöðu leikvallarmálsins og kom fram að sveitarstjórn hefði samþykkt að leggja fram fé til framræslu á vellinum og að fariðð verði í framkvæmdirnar á komandi sumri. Leikvöllurinn verði þar með lokaður allt sumarið og leiktækin færð ofar í brekkuna.
Jafnframt greindi stjórn frá því að hún hefði óskað eftir því við sveitarstjórn að hreppurinn tæki að sér rekstur leikvallarins.

Á fundinum var ákveðið að skipa ekki í sérstaka leikvallarnefnd enda verði hún óþörf ef tækist að koma rekstri vallarins yfir á sveitarsjóð.

Um miðjan júní er þetta bókað á stjórnarfundi:

Möl er komin á leikvöll, einnig drenlagnir. Útvega þarf mannskap til að flytja leiktækin upp fyrir brekkuna ofan leikvallarins. Stefnt verður að því að grafa upp skurðinn ofan vallarins og girða hann síðan af.

Það varð síðan úr að miklar framkvæmdir voru á leikvellinum þetta sumar. Í hann voru lagðar drenlagnir og hann síðan jafnaður og sáð grasfræi.

Þessi loftmynd var líklegast tekin sumarið 1993, síðara sumarið sem leikvöllurinn var lokaður vegna framkvæmda. Tvennskonar rök eru fyrir þessu ártali: a. Leiktækin standa fyrir utan völlinn og b. upphækkunin sem er í horni vallarins fremst á myndinni, er komin, en hún var einmitt útbúin samhliða drenlögn og frágangi vallarins. Myndina tók Guðbjörg Runólfsdóttir á Flúðum.

Þessi loftmynd var líklegast tekin sumarið 1993, síðara sumarið sem leikvöllurinn var lokaður vegna framkvæmda. Tvennskonar rök eru fyrir þessu ártali: a. Leiktækin standa fyrir utan völlinn og b. upphækkunin sem er í horni vallarins fremst á myndinni, er komin, en hún var einmitt útbúin samhliða drenlögn og frágangi vallarins. Myndina tók Guðbjörg Runólfsdóttir á Flúðum.

1993


Þetta var bókað á stjórnarfundi í apríl:

Leikvöllur:
Sveitarsjóður sér um slátt og viðhald vallarins skv. ákvörðun sveitarstjórnar.
Svo virðist sem sá þurfi aftur og valta flötina, einnig bera á og friða í sumar.
Kostnaður við völlinn var greiddur af sveitarsjóði, að undanskildum kr. 75.000 sem Hagsmunafélag Laugaráss greiðir.

Einnig var ákveðið að leita til Péturs Jónssonar arkitekts um skipulag leikvallarins.

Í skýrslu stjórnar á aðalfundi í maí kom fram að aðalverkefni ársins væri endurgerð leikvallarins.

Sveitarstjórn ákvað að taka þátt í lagfæringu vallarins með því að leggja til fé á móti framlagi íbúanna. Benedikt Skúlason var fenginn til að leggja dren í völlinn og slétta hann. Þorfinnur Þórarinsson og hans menn sáu um tækjavinnu sem tengdist sáningu og áburðargjöf.
Áhugasamir félagsmenn tóku þátt í undirbúningi undir sáningu.
Nú liggur fyrir að ákveða skipulag svæðisins og sækja um framlag til leiktækjakaupa. Á vegum sveitarfélagsins er ákveðinn leiktækjasjóður sem leita má til.

Sveitarsjóður hefur ákveðið að sjá um rekstur og viðhald vallarins í framtíðinni (sláttur þar með talinn)

Heildarútgjöld vegna leikvallarins þetta ár voru kr. 412.578.

Samantekt stjórnar hagsmunafélagsins um framkvæmdir við leikvöllinn og stöðu mála, árið 1996 (smella til að sjá stærri mynd)

Á stjórnarfundi í júni kom fram það mat stjórnar að “brýnasta verkefnið á árinu væri að halda áfram uppbyggingu leikvallarins. Arkitekt verði fenginn til að gera uppdrátt að svæðinu og fjármagns aflað til verksins hjá sveitarsjóði”.

Í síðustu færslunni sem minnst er á leikvallarmál, í maí 1994, ákvað stjórnin að fela ritara að skrifa bréf til að sækja um framlag úr leiktækjasjóði. Þá var einnig ákveðið að stjórnin sæi um að dreifa grasfræi og áburði á völlinn sem fyrst og þannig yrði hann tilbúinn til notkunar á komandi ári.

Það var unnið við völlinn þetta sumar, áburði og grasfræi dreift og valtað. Þegar teikning Péturs Jónssonar lá fyrir, var hafist handa við að vinna völlinn samkvæmt henni. Það var mótaður hringurinn sem sjá má á teikningunni og innan hans komið fyrir þeim fátæklegu leiktæækjum sesm voru arfur frá barnaheimili Rauða krossins.

Það var einnig sett upp karfa og hellur lagðar á svæði sem þótti hæfilegt, fyrir framan hana.

Það var ýmislegt gert, en eins og með hagsmunafélagið sjálft, þá fjaraði undan áhuganum og eljuseminni, eftir því sem fólkið sem helst stóð að leikvellinum; það eltist og börn þess einnig, svona eins og gengur.


Teikning Péturs Jónssonar, landslagsarkitekts að leikvelli í Laugarási, 1994. Myndin orðin mjög máð.

Í mars 1996 sendi stjórn hagsmunafélagsins bréf til hreppsnefndar, ásamt greinargerð um framkvæmdir við leikvöllinn á árunum 1995 og 1996. Í bréfinu óskar stjórnin eftir “viðræðum við hreppsnefnd eða fulltrúa henna, um fyrirkomulag á umsjón og viðhaldi vallarins og um framkvæmdir við leikvöllinn í framtíðinni”. Undir bréfið ritar Þórður G. Halldórsson.

Greinargerðin er svohljóðandi:

Laugarásbörn 1995: Efsta mynd Sigurður Skúli Benediktsson og Herdís Anna Magnúsdóttir.
Miðmynd Jakop Trausti Þórðarson og Brynjar Steinn Pálsson. Neðsta mynd Hjörtur Freyr Sæland og Sigrún Kristín Gunnarsdóttir. Mynd PMS

Leikvöllur í Laugarási - framkvæmdir 1995 og 1996

Leikvöllurinn í Laugarási hefur verið í umsjá hagsmunafélagsins. Tekjur þess, 15-20.000 kr. á ári, hafa farið í viðhald á leiktækjum, en þau eru nú flest úr sér gengin og aðstaða á leikvellinum léleg.
Veturinn 1994-5 var gerð áætlun um endurgerð leikvallarins í samvinnu við Pétur H. Jónsson landslagsarkitekt. Hafist var handa sumarið 1995.

- Leiktækin voru öll færð í burtu um stundarsakir.
- Skipt var um jarðveg á um það bil 250 fermetra hringlaga svæði á vellinum samkvæmt skipulagi.
- Gerður var gangstígur frá þjóðvegi inná hringsvæðið, úr sama efni.
- Ætlunin var einnig að ljúka við hellulagningu 75 fermetra körfuboltasvæðis, en vegna peningaleysis reyndist það ekki hægt.
- Talsverð vinna var lögð í að þökuleggja, ganga frá og snyrta í kringum leiksvæðið að loknum jarðvegsskiptum.
- Að því loknu voru leiktæki sett inn á völlinn aftur og þau lagfærð eins og tök voru á.
- Sett voru net í fótboltamörk og þeim komið fyrir samkvæmt skipulagi.

Öll vinna, að undanskilinni vélavinnu við jarðvegsskipti, var unnin í sjálfboðavinnu af íbúum í Laugarási.

Ekki var lokið við framkvæmdir, eins og til stóð í upphafi, vegna þess að hagsmunafélagið fékk miklu minna framlag til vallarins en sótt var um. Til að ljúka því sem byrjað er á, þarf að setja yfirborðslag á gangstíg að leiksvæði., slétta það og valta. Þá þarf að ganga frá hellulögn á leiksvæði skv. skipulagi, en gert var ráð fyrir því við jarðvegsskipti. Ljúka þarf við körfuboltavöllinn.
Hagsmunafélagið og Verslunin Laugartorg leggur til körfu o.þ.h. og hellur að hluta.

Sækja þarf um að starfsfólk hreppsins sjái um slátt og umhirðu vallarins næsta sumar.

Ath. að enn er ólokið 1. áfanga upphaflegrar áætlunar vegna fjárskorts.. Næsta sumar þarf að gera m.a. eftirfarandi:
- Ljúka við 1. áfanga sbr. að ofan.
- Gróðursetja umhverfis leikvöllinn.
- Bæta við leiktækjum.
- Athuga aðkomu að vellinum, t.d. skilti, brú, hlið, girðingar.

Í Laugarási eiga nú lögheimili um það bil 33 börn, 15 ára eða yngri, en miklu fleiri nota leikvöllinn, sérstaklega á sumrin.

Uppfært 06/2020