Biskup deyr í Launrétt

Úr teikn. AH


Eyrin austan hamarsins nær að klettum, öllu tilkomumeiri en steinninn vestan megin. Heitir þar Launrétt, og hæðin eða holtið þar upp af
Launréttarholt, og klettabeltið í því ofarlega austan megin Launréttarklettar. Læknissetrið er nú á Launréttarholti, en áður voru þarna fjárhús. Þau stóðu á þeim stað sem er mitt á milli bústaða heilsugæslulæknanna.

Fyrsti læknirinn sem hér sat, Óskar Einarsson, lét taka þessi
hús ofan og byggði fyrstur upp hús í Langholti þar sem heitir Stekkatún
(sjá síðar).

Séð frá Lindabrekkuheimreið yfir Lónið. (mynd pms)

Neðan við Launréttarkletta rennur volgur lækur frá hverasvæðinu og sameinast ánni í Launrétt. Fyrir tveimur áratugum var þarna ákjósanlegur baðstaður ef ekki hefði spillt mengun af frárennsli þorpsbúa. Þá var vatnið milli klettanna í Launrétt volgt en nú hefur áin fært sig miklu nær Laugarási og af þeim sökum er vatnið við klettana kaldara og dýpra.

Laugarásbúar á baðströndinni í Launrétt 1962 (Mynd Ásta Skúladóttir)

Í Hungurvöku segir frá því, að Ketill Þorsteinsson, biskup á Hólum frá 1122, hafi andast í laug í Laugarási 1145, er hann og Magnús Skálholtsbiskup fóru þangað síðla kvölds úr veislu mikilli, er haldin var í Skálholti.

Mikill hryggleiki var þar á mörgum mönnum í því heimboði, þar til er biskup var grafinn ok um hann búit. En með fortölum Magnúss biskups og drykk þeim hinum ágæta, er menn áttu þar til at drekka, þá urðu menn nökkurt afhuga skjótara en elligar mundi.
(Byskupa sögur, I. bindi. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Rv. 1953, bls. 22)

Hvar þessi laug í Laugarási hefur verið, veit sjálfsagt enginn með vissu, en langlíklegast er, að hún hafi verið í Launrétt. Vel gæti líka verið, að hér hafi verið laug svipuð Snorralaug, enda hefur fundist fornt hellugólf á Hverahólma (sjá síðar), ef til vill eftir einhvers konar baðhús eða laug.

Uppfært 01/2019