Nýting jarðhitans í Laugarási

Inngangur

Sú var tíð, að fólk leit jarðhitann hornauga, að því er sagt er. Ekkert verður hér fullyrt um það, hinsvegar verður ekki annað séð en jarðhitinn í Laugarási hafi verið nýttur í, að minnsta kosti 900 ár og raunar líklegast að hann hafi gagnast fólki miklu lengur. Í fornleifaskrá sem unnin var af Fornleifastofnun árið 2015, fundust tóftir víkingaskála, sem benda til að byggð hafi verið í Laugarási talsvert áður en fólk hóf búsetu í Skálholti eða Höfða (Fornleifaskráning í Laugarási bls. 35). Hvort víkingarnir hafi talið það til hlunninda að búa í nágrenni við heitar lindir, má telja líklegt. Þær voru hentugar til þvotta og baða, þó ekki væri fyrir annað.

Jarðhitinn í Laugarási hefur sannarlega birst í jákvæðu ljósi gegnum aldirnar: þvottar voru þvegnir og böð stunduð, en skuggalegri, eða dramatískari hliðar hans hafa þó verið meira áberandi í frásögnum sem tengjast honum. Árið 1145 andaðst Hólabiskup í heitri laug í Laugarási, en ekki hefði þótt ástæða til að segja frá þeirri laugarferð, nema einmitt vegna þess mikla atburðar. Þá má gera ráð fyrir, að það hafi verið trú manna, að þar sem heitt vatn sprytti upp úr jörðinni, væri styttra til kölska en annarsstaðar. Það hefur varla þótt við hæfi að nefna kölska á nafn á hinum helga stað, Skálholti og því var frekar vísað til hans sem draugs. Þannig kallaðist einn hverinn í Laugarási Draugadý og til er þjóðsaga um drauginn sem bar hrip með heitu vatni frá Laugarási í Skálholt og skildi eftir sig Draugaslóð. Enn má nefna þjóðsöguna “Kirkjuprestur í Skálholti” en hana er að finna í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Það segir ekki mikið af jarðhitamálum í Laugarási í allmörg hundruð ár og í rauninni ekki fyrr en að því kemur að flytja læknissetrið þangað upp úr 1920. Heita vatnið spratt þó líklegast fram allan þennan tíma, ónýtt til annars en þvotta og baða.

Hverasvæðið í Laugarási er grundvöllurinn að lifibrauði flestra sem þorpið byggja og þannig hefur það verið frá því byggð fór að myndast þar í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar. Hverasvæðið er mjög öflugt og gæti líklega gefið enn meiri orku, ef hennar væri þörf. Eftir því sem fólki fjölgaði í Laugarási þurfti meiri vatnsöflun og þá dugði að grafa í hverina til að þeir gæfu meira vatn. Úr hverasvæðinu í Laugarási sprettur nú fram vatn sem er fast að 100°C.

Hér er sjónum fyrst og fremst beint að nýtingu jarðhitans í Laugarási, en um hverina og hverasvæðið sjálft vísast til umfjöllunar Bjarna Harðarsonar, sem er hér að vefnum og samantektar Péturs Skarphéðinssonar, sem var birt í Litla Bergþór árið 1993.

Fyrstu skrefin í hagnýtingu jarðhitans

Í grein sem Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skrifaði í Suðra, 1970 fjallar hann um upphaf jarðhitanýtingar í Laugarási:

Í Laugarási var jarðhiti nýttur til upphitunar einna fyrst í Árnessýslu. Læknishéraðið hafði keypt jörðina um 1920 og síðan byggt þar læknisbústað (1923) úr viðum konungshússins frá Geysi. Erlendur á Sturlureykjum í Borgarfirði, sem fyrstur leiddi jarðhita heim í hús til upphitunar og eldunar hér á landi, var fenginn til að sjá um hitalögn í húsið.
Læknishúsið var byggt uppi á hæðinni ofan við Hverhólmann, þar sem það stendur ennþá, endurbyggt að vísu. Var leidd gufa þangað upp neðan frá hvernum í gegnum blikkofna, sem smíðaðir voru sérstaklega, og einnig var þró heima við húsvegg, þar sem sjóða mátti mat. Ekki gafst vel að leiða gufuna í gegnum ofnana og var því fjótlega hætt og þá tekin upp hringrásarhitun*.
Byrjað var með gróðurhús 1940, og næsta áratuginn bættust þrjú garðyrkjubýli við. Rauði kross Íslands stofnaði þar barnaheimili 1944 [1952] og ný íbúðarhús voru reist.
Framan af voru allar byggingar í Laugarási hitaðar upp með hringrás út í ýmsa hveri, einnig gróðurhúsin. Laust fyrir 1960 sameinuðust þrír gróðurhúsabændur um hitaveitu úr Hildarhver, og settu þar upp dælustöð. 1965 var gerð hitaveita fyrir allt hverfið og hveravatni dælt inn á hitunarkerfið í öllum byggingum.
(*sjá neðar).

Fyrstu gróðurhúsin í Laugarási voru hituð með hringrásarhitun. Hún fólst í því, að hita vatnið í varmaskipti sem komið var fyrir í hver. Munur á eðlisþyngt heita og kalda vatnsins hélt síðan hringrásinni við. Þar kom, að þegar þrjú býli voru komin næst hverasvæðinu, sameinuðust bændurnir um hitaveitu sem var upphafið að því sem koma skyldi.
Fyrstu íbúarnir í Laugarási, sem hugðust nýta hitann til grænmetisframleiðslu, urðu að sjá um það sjálfir að koma hitanum í gróðurhúsin, en þeir greiddu leigu af réttinum til að nýta heita vatnið.

Þegar oddvitanefndin samþykkti, í maí 1939, að “reyna að hagnýta hlunnindi jarðarinnar, með því að leigja jarðhita og nauðsynlegt land til gróðurhúsa.” ákvað hún að leigja hvern sekúndulítra á kr. 100 á ári, en sú upphæð jafngildir um það bil kr. 26.000 á núvirði. Þá var ákveðið að leiga fyrir hvern hektara skyldi vera kr. 25 á ári, eða um kr. 6.500 á núvirði.

Fyrsti leigusamningurin var gerður við Börge J.M. Lemming, en árið 1940 tók hann á leigu landið sem Hveratún stendur á nú.

Hólmfríður Einardóttir, systir Sigurlaugar, eiginkonu Ólafs læknis, fékk síðan á leigu land árið 1944, 1,5 ha og 1 sek/l vatns, á sömu kjörum og Börge, en 1946 ákvað oddvitanefndin að vísitölubinda samningana: “…að viðbættri vísitölu, eins og hún verður á hverjum gjalddaga þegar reiknað er með meðalvísitölu undanfarna 12 mánuði.” Samningar vegna Hveratúns og lands Hólmfríðar Einarsdóttur voru ekki tengdir vísitölu og lóðarleigan var því óbreytt að krónutölu næstu áratugina.

Það þótti óljóst hve mikið vatn væri að hafa úr hverunum og því ákvað nefndin, strax árið 1947, að bíða með frekari úthlutanir lóða og hitaréttinda. Nefndin samþykkti fyrst árið 1939 að fela héraðslækni að óska eftir því við Búnaðarfélag Íslands, að það mældi Laugarásjörðina og gerði af henni kort. Fátt virðist þó hafa gerst í því máli, því árið 1952 var bókað í fundargerð nefndarinnar: “Form[aður] taldi óhjákvæmilegt að land læknishéraðsins yrði kortlagt og mælt og jarðhiti, magn og hiti, sömuleiðis, vegna frekari leigu þessara jarðargæða í framtíðinni.
Var samþykkt að slík mæling færi fram hið fyrsta.”


Kortlagt og mælt

Jafnframt var ákveðið að fresta frekari ákvörðunum varðandi hitaréttindi þar til kortlagningu og mælingum væri lokið, en enn frestaðist þessi vinna af einhverjum ástæðum og í millitíðinni voru enn veitt loforð fyrir landi og hita.

Uppdráttur Zóphóníasar Pálssonar af hluta Laugarásjarðarinnar frá 1953.  Lóðirnar merktar og litaðar af PMS, 2021.

Uppdráttur Zóphóníasar Pálssonar af hluta Laugarásjarðarinnar frá 1953.
Lóðirnar merktar og litaðar af PMS, 2021.

Zóphónías Pálsson

Zóphónías Pálsson

Umsóknir streymdu inn og það var svo árið 1955 að formlega var samþykkt ”að fela formanni að láta mæla og kortleggja allt Laugarásland og fá þá Pálma Einarsson, Ingólf Þorsteinsson og Hjalta Gestsson, eða aðra hæfa menn til þess að gera tillögur um framtíðarbúskap á landinu. Sé sérstaklega athugað um stofnun gróðurhúsnýbýla, jafnframt því að aðstaða núverandi ábúanda sé ekki skert um of.”

Allt stefnir í stofnun hitaveitu.

Í byrjun 6. áratugarins hófust framkvæmdir við brúna yfir Hvítá, sem ljóst var að myndi breyta aðstæðum í Laugarási í grundvallaratriðum, sem varð og raunin. Sú mikla samgöngubót sem þar var um að ræða, skapaði grunn að fjölgun íbúa og þá einkum fólks sem hugðist leggja fyrir sig ylrækt, sem var þá í mikilli sókn sem atvinnugrein.

“Laust fyrir 1960 sameinuðust þrír gróðurhúsabændur um hitaveitu úr Hildarhver, og settu þar upp dælustöð” segir Kristján Sæmundsson í Suðra, árið 1970. Hér hefur þá verið um að ræða Jón Vídalín á Sólveigarstöðum, Skúla Magnússon í Hveratúni og Hjalta Jakobsson í Laugargerði, en hann ræktaði þá í gróðurhúsi Ólafs Einarssonar læknis. Það var auðvitað ljóst, að hitaveita af því tagi sem þar var um að ræða, myndi duga skammt.

Magnús Már Lárusson (1917-2006)

Magnús Már Lárusson (1917-2006)

Skálholtsþáttur

Það komst hreyfing á umræðu um hitaveitu í apríl, 1958, þegar formaður oddvitanefndarinnar greindi frá því á fundi hennar “að hann hefði vitneskju um að Skálholtsnefndin hefði í huga að sækja um að fá heitt vatn handa Skálholtsstað úr hverunum í Laugarási, gegn því að héraðið fái kostnaðarlaust vatn frá leiðslunni handa garðyrkjubændum er lönd leigja meðfram henni.”

Magnús Már Lárusson kom fram fyrir hönd og í umboði Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Hann kom á fund nefndarinnar í ágúst:

Reifaði hann málið, ræddi fyrst um aðstöðu alla í Laugarási, en bætt aðstaða þar og aukin byggð geti orðið til hagsbóta fyrir Skálholt. Hitaveita frá Laugarási væri öruggari og ódýrari framkvæmd fyrir Skálholt, heldur en veita úr Þorlákshver og um leið ætti dælustöð, er reist yrði í Laugarási fyrir notendur þar, að verða lyftistöng fyrir staðinn.
Lagði hann fram uppkast að samningi og eru meginatriði hans þau, að stjórn Laugaráslæknishéraðs láti Skálholti í té, um aldur og ævi, 5 sek/l af heitu vatni og leyfi, án gjalds, lögn hitaveitu um Laugarásland, gegn því að Skálholtsstaður reisi á sinn kostnað dælustöð í Laugarási, er fullnægi þörfum, miðað við núverandi vatnsmagn jarhitasvæðisins, sem skipulagt hverfi í Laugarási þarfnast til nýtingar hitaveitunnar.
Skálholtsstaður kosti stofnæð til Skálholts, en Laugaráshverfi dreifikerfi frá dælustöð.
Viðhald og rekstur stöðvarinnar kosti Laugaráshérað og Skálholtsstaður í hlutfalli við það vatnsmagn sem þeir nota.

Eftir umræður kváðust nefndarmenn ánægðir með samning á þessum nótum í öllum aðalatriðum og fólu formanni að ganga endanlega frá honum við Magnús Má, prófessor.

Árið eftir, 1959, kom í ljós að formaðurinn oddvitanefndarinnar hafði ekki undirritað samninginn, þar sem hann þyrfti nánari athugunar við. Komu fram óskir um þá breytingu:

1) Að Skálholtsstaður tæki hlutfallslega meiri þátt í reksturs- og viðhaldskostnaði dælustöðvar, sem svarar því, hversu dýrara er að dæla hverjum sek/l í Skálholt en í gróðrarstöðvarnar.
2) Að Skálholtsstaður leggi, á sinn kostnað, stofnlínur um ræktunarlöndin.

Enn frestaðist undirritun samningsins. Magnús Már treysti sér ekki til að undirrita vegna “lítillar fjárveitingar til Skálholtsstaðar,” Því var fyrirséð að ekki yrðu hafnar framkvæmdir við dælustöð og hitaveitu að Skálholti á þessu ári.

Á enn einum fundinum í lok ársins 1959, kom Magnús Már á fund nefndarinnar. Þar lýsti hann “samningsuppkasti að samningi um hitaréttindi í Laugarási til Skálholtsstaðar. Gerðar voru á honum nokkrar breytingar og hann síðan samþykktur.”

Þessi frestun á samningi kom sér illa fyrir garðyrkjubændurna, eins og sjá má í fundargerð: “Hefur þetta skapað vandamál fyrir gróðurhúsamenn, sem telja sig þurfa að fá dælt vatni í hús sín í vetur og hafa þá orðið að setja upp eigin dælustöð.
Fundurinn getur ekki leyft gróðurhúsmönnum að setja upp varanlega dælustöð, meðan samninga er von við ríkið um hitaveitu að Skálholti og í dýralæknisbústað.”

Á þessu ári voru þrjár garðyrkjustöðvar reknar í Laugarási, þar sem greiðendur voru þeir Skúli Magnússon, Jón V. Guðmundsson og Hjalti Jakobsson. Fleiri garðyrkjustöðvar voru í pípunum og krafan um að komið yrði á fót sameiginlegri hitaveitu varð stöðugt háværari.

Skálholtsmálið átti eftir að teygja sig allt til ársins 1967, þrátt fyrir að samningur hefði verið undirritaður 1959. Árið 1962 ritaði formaður nefndarinnar Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf vegna samningsins. Svar barst ekki, utan umsögn Magnúsar Más Lárussonar. Þrátt fyrir að formaður hefði gengið eftir svörum frá ráðuneytinu, höfðu engin fengist árið 1963 og þá þótti fullreynt með aðkomu Skálholtsstaðar að hitaveitu í Laugarási. Þörf fyrir hitaveitu var þarna orðin brýn og oddvitarnir ákváðu á þessum fundi “að láta gera áætlun um heildar hitaveitu fyrir Laugarásbyggðina hið allra fyrsta, svo að unnt verði að ráða bót á þessu vandamáli fyrir næsta vetur.”
Til þessa verks var ákveðið að ráða verkfræðing og Eirík Eyvindsson á Laugarvatni.

Sigurbjörn Einarsson, biskup (1911-2008)

Sigurbjörn Einarsson, biskup (1911-2008)

Enn vantaði heitt vatn í Skálholt og árið 1965 hafði borist bréf frá Sigurbirni Einarssyni, biskup þar sem óskað var aðildar Skálholtsstaðar að Hitaveitu Laugaráss.

Niðurstaða nefndarinnar, eftir að hafa fjallað um bréfið, var þessi:

Með vísun til bréfs Sigurbjarnar Einarssonar, biskups, dags. 15. des. s.l., þar sem spurst er fyrir um möguleika á heitavatnsafnotum fyrir Skálholt, frá Hitaveitu Laugaráss, vill stjórnarnefnd Laugaráshéraðs taka fram, að endurnýjun á fyrra tilboði kemur ekki til greina, þar sem hitaveitan er þegar tekin til starfa og er bundin staðfestri gjaldskrá og reglugerð. Hinsvegar samþykkir nefndin að bjóða Skálholtsstað aðild að Hitaveitu Laugaráss á eftirfarandi grundvelli:
1. Skálholtsstaður fái til afnota 5 sek/l af heitu vatni frá Hitaveitu Laugaráss.
2. Skálholtsstaður gangist undir ákvæði reglugerðar og gjaldskrár Hitaveitu Laugaráss, eins og hún er á hverjum tíma, eftir því sem hún getur átt við í þessu tilfelli.
3. Skálholtsstaður greiði Laugaráshéraði sérstakt gjald fyrir hitaréttindi eftir nánara samkomulagi.
4. Skálholtsstaður taki við hinu heita vatni við Auðsholtsveg [Ferjuveg]. Samráð skulu þó höfð við stjórnarnefnd Laugaráshéraðs um staðsetningu hitaleiðslu og pípuvídd fyrir Laugarásslandi.
5. Samningur sem gerður sé á þessum grundvelli, skal gilda ákveðinn tíma, t.d. 10 ár, en skal þó endurskoðast á 3ja ára fresti

Áfram héldu síðan þreifingar um aðild Skálholtsstaðar að hitaveitunni, en hvorki virðist hafa gengið né rekið, ef marka má samþykkt oddvitanefndarinnar árið 1967:

Fundur í stjórn Laugaráshéraðs 25/11 1967 samþykkir að fela formanni sínum að halda áfram viðræðum við forráðamenn Skálholtsstaðar um aðild að Hitaveitu Laugaráss, á grundvelli tilboðs nefndarinnar frá 6/2 1965. Fullnaðarsvar Skálholtsnefndar skal þó liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl, n.k. svo hægt sé að undirbúa óhjákvæmilegar framkvæmdir við hitaveituna á árinum 1968, í tíma.

Ekki er fjallað frekar um vatn úr Laugarási til upphitunar á Skálholtsstað.


Uppfært 12/2023