Framfara- og hagsmunamál

Hér er fjallað um helstu mál sem Hagsmunafélag Laugaráss beitti sér fyrir, önnur er þau sem lutu að hitaveitunni eða málum sem tengdust aðbúnaði og afþreyingu barna og umgmenna.

Skálholti 1975: Helga Gunnlaugsdóttir, Gunnlaugur Skúlason og Renata Vilhjálmsdóttir.

Eitt megin tilefni þess að blásið var til stofnunar félags íbúa í Laugarási í febrúar 1974, var hitaveitan. Málefni hennar tóku síðan langmest pláss innan félagsins, allt þar til Biskupstungnahreppur tók rekstur veitunnar yfir, af Laugaráslæknishéraði 1982 (eða 1981). Þar með var veitunni sett sérstök stjórn, sem í áttu sæti fulltrúar notenda veitunnar og fulltrúar hreppsins.

Það var reyndar upphaflega boðað til stofnfundar Framfarafélags Laugaráss, en á stofnfundinum var samþykkt að það skyldi heita Hagsmunafélag Laugaráss, sem líklega hefur þótt hæfa einum megin tilgangi félagsins: að vinna að hagsmunum notenda hitaveitunnar gagnvart Laugaráslæknishéraði. Á þessum tíma var Jón Eiríksson, oddviti Skeiðamanna, nokkurskonar framkvæmdastjóri í málefnum Laugaráss, fyrir hönd læknishéraðsins.

Það fór ekki hjá því, að mörg önnur mál brunnu á íbúum í Laugarási, eins og sjá má þegar lesið er í gegnum fundargerðir félagsins. Þannig kom t.d. fram á stofnfundinum að bæði sorphreinsun og póstmál væru í ólestri.

Innviðir

Fráveita

Hér verður drepið á aðkomu hagsmunafélagsins að fráveitumálum, en um þau er fjallað sérstaklega hér.

Eitt fyrsta verkefni stjórnarinnar hagsmunafélagins var að vinna að því að skikk kæmist á fráveitu frá íbúðarhúsum og hún sendi hreppsnefnd bréf þar sem ýtt var á að unnið yrði í þeim málum, reyndar var það ári áður en félagið var stofnað (1973), og mögulega einn hvatinn að því að það var gert. Það þótti orðið ekki boðlegt að ekki væri skikk á frárennslinu, ekki síst vegna þeirrar matvælaframleiðslu sem átti sér stað í hverfinu.
Fyrst voru uppi hugmyndir um að setja upp einhverskonar sogkerfi sem flytti öll klóakútföll burt úr hverfinu út í Hvítá. Bæði var að þetta þótti ekki álitlegur kostur vegna framkvæmdarinnar sjálfrar, þar sem stór hlutið byggðarinnar var á mýri og einnig þar sem kostnaðurinn var talinn myndu nema um einni milljón króna á hvert býli.

Það var svo um 1978 að komin var niðurstaða um að sett skyldi rotþró við hvert býli. Rotþræt voru fluttar inn frá Noregi, en þegar til kom þóttu þær of dýrar.

Laugarásbúar og fleiri í Þórsmörk 1977. F.v. Sverrir Ragnarsson, Karítas Melstað, Karítas Óskarsdóttir, Helgi Guðmundsson, Páll M. Skúlason, Dröfn Þorvaldsdóttir, Gunnar Tómasson, Jakob Helgason, Hilmar Magnússon, Sævar Magnússon, Elsa Marísdóttir, Birna Guðmundsdóttir, Ásta Skúladóttir, Margrét Sverrisdóttir, Guðbjörg Kristjánsdóttir. Mynd: Gústaf Sæland.

Laugarásbúar í réttum 1981. F.v. Fríður Pétursdóttir, Elsa Marísdóttir, Gunnar Tómasson, Hörður V. Sigurðsson, Hjalti Jakobsson. Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir.

Árið 1979 var hafi framleiðsla á rotþróm úr trefjaplasti á Selfossi og ákveðið var að festa kaup á þeim og næstu ári, voru síðan settar rotþrær við íbúðarhús í Laugarási.

Sem nærri má get þurfti afrennslið frá rotþrónum að fara eitthvert og þegar vegurinn gegnum hverfið var byggður upp 1984, þurfti að loka skurðinum með honum og þá var sett í hann frárennslislögn, sem liggur niður í lón milli Varmagerðis og Sólveigarstaða. a991 var skurpinum með Ásholtsvegi/Skógargötu síðan lokað og í hann sett frárennslislögn.

Framræsluskurðir

Loftmynd af Laugarási frá 1969. Gott yfirlit yfir skurðakerfið eins og það var þá. Myndinni er ætlað að styðja við textann um skurðamálin. (mynd: LMI)

Það var vissulega fjallað um fleiri vinkla á frárennslismálum í hverfinu. Eins og þeim sem til þekkja er kunnugt, er stór hluti þorpsins byggður á mýri milli Laugarásholts og Kirkjuholts. Til þess að hægt væri að nýta landið þurfti að grafa frárennslisskurði þvers og kruss: með vegum og á lóðamörkum. Um var að ræða opna skurði, sem gátu verið varasamir og eru það reyndar margir enn. Með árunum vilja þessir skurðir gróa upp og botninn verður að leðju sem getur reynst varasöm. Skurðamál hafa löngum orðið tilefni umræðna í Laugarási, en lóðasamningar gera ráð fyrir að það sé hlutverk lóðarhafa að sjá um skurði á lóðamörkum í sameiningu. Reyndin hefur verið með ýmsu móti; sumir hafa sett drenlögn í skurði á lóðamörkum, en aðrir hafa alfarið látið vera að hirða um skurðina.

Árið 1978 verður fyrst vart við skurðamálin á vettvangi hagsmunafélagsins, en þá er fjallað um hættur sem fylgdu skurðunum og þau óþægindi sem þeim fylgdu.

Upp úr 1980 var sett dren í skurðinn með Skálholtsvegi. Í það var síðan leitt frárennsli frá rotþróm þar í kring. Þessi lögn var síðan tekin undir veginn milli Varmagerðis og Sólveigarstaða og liggur þar í skurði niður í Lón (Vöðla). Lengst af var þetta eini skurðurinn sem var lokað með þessum hætti.

Þessir frárennslisskurðir komu aftur á dagskrá 1988 þegar bókað er á stjórnarfundi: “Nauðsynlegt að ræsa fram skurði við Dungalsveg og milli Varmagerðis og Sólveigarstaða og loka honum. Sjá má af fyrri fundargerðum að byrjað hefur verið að ræða þessi mál á fundi 1974 og bréf þá sent hreppsnefnd þar um”. Þetta mál hafi augljóslega ekki verið forgangi hjá hreppsnefnd. Á öðrum stjórnarfundi kom síðan fram, að loka eigi skurðinum milli Sólveigarstaða og Varmagerðis þá um vorið.

Seinkun á að farið yrði í að loka skurðinum meðfram “Dungalsvegi”, sem kallast Skógargata nú, reyndist vera til komin vegna þess, að um var að ræða svokallaðan “sýsluskurð” og því ekki í verkahring hreppsins. Sýslunefndarmaður fékk síðan það verkefni teka málið upp á nefndarfundi.
Þessum skurði hafði verið lokað 1991, þegar vakin var athygli á því á aðalfundi, að frágangur við hann væri slæmur og þetta leiddi til kvörtunar til hreppsnefndar. Ekki virðist hafa verið brugðist fljótt við, því á næsta aðalfundi var þetta bókað um skurðamál:

Talsverðar umræður spunnust um skurði og lokun þeirra. Sævar Magnússon benti t.d. á að illa hefði tekist til við fyllingu skurðar við Ásveg (Dunkabraut); vatnsstaða í skurðum hefði ekki lækkað við þær framkvæmdir.
Töldu fundarmenn að að væri í verkahring hreppsnefndar að sjá um að landeigendur og Vegagerð ríkisins sinni slíkum og þvílíkum málum með viðunandi hætti.

Skurðamál voru enn fastur liður í umræðum á fundum í hagsmunafélaginu þegar félagið lagði upp laupana - og þeir eru enn ræddir.

Hveralækurinn

Hveralækurinn eins og hann var 1951 (mynd LMI)

Það er fjallað um hverasvæðið í Laugarási á öðrum stað á vefnum, en fram undir 1980 rann opinn hveralækur frá hverunum sem bera nöfnin Hildarhver, Þvottahver og Draugahver, niður í Vöðla eða Lónið og þaðan út í Hvítá. Í þessum læk var rennslið um 36 l/sek. þegar Orkustofnun mældi rennslið 1967. Vatnið eru rétt undir 100°C þar sem það kemur úr jörðinni í þessum hverum (mæling Orkustofnunar frá 1987 - 97-99°C)

Árið 1978 var formanni félagsins falið að “ræða við oddvitanefnd eð formann hennar um hveralækinn/heitavatnslækinn og skora á þá að loka honum sem allra fyrst”. Læknum var síðan lokað samhliða öðrum framkvæmdum á svæðinu.

Sorpmálin

Hugtakið “út á hauga” vísaði á staðinn þar sem brennsluofni var komið fyrir og þangað fóru íbúarnir með sorpið sitt og brenndu í ofninum.

Lengi vel losuðu Laugarásbúar sig við sorp og úrgang af ýmsu tagi, í lítið dalverpi sem er vestan við núverandi veg í Kirkjuholt. Þegar hagsmunafélagið kom til skjalanna var búið að flytja sorpförgunarstaðinn á svæði við Höfðaveg, á móti Brennuhól (sjá mynd). Þarna var komið fyrir miklum járntanki eða brennsluofni, sem sorp var sett í og síðan var kveikt í því. Ekki er fjallað um þessa sorpförgun að ráði í fundargerðum félagsins, sem bendir til að þetta hafi gengið tiltölulega áfallalaust fyrir sig. Þó er tvívegis minnst á sorpeyðinguna, í fyrra skiptið árið 1975, en þá “voru menn sammála um að ofninn á haugunum hefði leyst mikinn vanda, en menn voru hvattir til að hafa með sér eldspýtur á haugana og steinolíu“.

Breytingar urðu í sorpmálunum vorið 1988 þegar sorpgámur var settur niður þar sem sorpbrennsluofninn var, en hann var þá enn í notkun. Síðar var ruslagámum fundinn nýr staður “úti á beygju”, eða við aðalveginn, norðan við þorpið. Þá hófst flokkun á úrgangi og íbúar hvattir til að flokka, en nokkurt bakslag kom í þau mál, þegar í ljós kom að ruslið fór, eftir sem áður á einn og sama staðinn. Þannig var þetta þar til sveitarfélagið fór að hirða rusl á hverjum bæ.

Það er fjallað nokkuð ítarlegar um sorpmálin hér.

Vegir og umferð

Vegir í Laugarási voru bara venjulegir malarvegir, þar til Skálholtsvegur var lagður olíumöl sumarið 1984. Tveim árum fyrr var þó farið að huga að því að endurgera þennan aðal veg í gegnum hverfið, meðal annars að taka niður blindhæð sem var þar sem heimreið að heilsugæslustöðinni er nú. Hagsmunafélagið vildi hafa hönd í bagga með þessum framkvæmdum og ákvað að skrifa Vegagerðinni bréf með óskum sínum varðandi vegamálin: “…fara þess á leit að lögð verði gangbraut [gangstígur]meðfram  veginum gegnum hverfið um leið og bundið slitlag verður lagt. Ennfremur að rimlahliði verði komið fyrir Iðumegin. Loks skyldi bent á  að mikil brögð væru að því að of hratt væri ekið í gegnum hverfið og nauðsynleg væri lausn á því”.

Næsta aðkoma félagsins að vegamálunum var að stjórnin ákvað að takast á hendur ferð á Selfoss til að ræða við Steingrím Ingvarsson “vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda á komandi sumri, með áherslu á gangbrautir, lagnir í gegnum veg og slysavarnir.

Á aðalfundi þetta ár var þetta fært til bókar úr skýrslu formanns:

Í sambandi við vegagerð í hverfinu hefðu verið þó nokkrir snúningar í sambandi við að fá gangbraut með veginum og hvernig hægt væri að standa að hraðatakmörkunum. Stjórnin fór á fund Steingríms Ingvarssonar 29. mars út af þessum vegaframkvæmdum. Þar var ítrekuð sú ósk að fá gangbraut meðfram veginum alveg í gegnum hverfið og að rimlahlið yrði sett við Iðubrú. Í sambandi við hraðatakmarkanir lagði Steingrímur til að málaðar yrðu rendur í veginn, sem virkuðu þannig að ökumömmum fyndist þeir vera á meiri ferð en þeir voru.
Þá gat formaður þess, að lögð yrði olíumöl á Skúlagötu upp að brekku og að fylla ætti upp í vegskurðinn við leikvöllinn og að þá þyrfti að girða hann betur af, sett yrðu rör gegnum veginn [Skálholtsveg] á 4 stöðum fyrir væntanlegar lagnir og að aðrir vegir í hverfinu yrðu rykbundnir.

Ekki gekk allt eftir sem gera átti þar sem “gröftur og lokun skurða” reyndust kostnaðarsamari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Því var lagning göngustígs með Skálholtsvegi slegin af. Stjórnin samþykkti því að “reyna að ná tali af ráðherra vegamála til að fá hann til að koma því í kring að framkvæmdum verði lokið á þessu ári”.

Stjórn félagsins hélt áfram að berjast í þessum málum og kynnti á aðalfundinum 1985 bréf sem hún hugðist senda á Vegagerðina.

Þar var farið fram á:
1. að rimlahlið verði sett upp við Iðubrú.
2. að lagningu gangbrautar verði hraðað.
3. að malarvegir í hverfinu verði rykbundnir.
4. að lokið verði við uppsetningu götulýsingar svo fljótt sem auðið er.

Bréfið skilaði harla litlu, því stjórnin fjallaði enn um þessi mál tveim árum síðar. Ekkert hafði bólað á göngustígnum, hraðahindrunum eða rimlahliði við Iðubrú. Þá var enn ekki búið að ljúka uppsetningu lýsingar við Skálholtsveg.


Skipulag og umhverfi

Hagsmunafélagið fjallað um allskyns mál sem tengdust skipulagi og umhverfi, bæði í smáu og stóru. Hér verður látið duga að fjalla um tvö, sem voru heilmikið rædd meðal íbúa á sínum tíma.

Vesturbyggð og Austurbyggð

Það kom að því, að íbúafjölgun kallaði á að skipulagðar yrðu nýja lóðir fyrir íbúðarhús í Laugarási. Þegar búið varð að byggja flestar garðyrkjulóðanna við “stóra hringinn” sem markast af Skálholtsvegi, Ferjuvegi, Skógargötu og Skúlagötu og þegar tekið hafði verið fyrir að byggð yrðu íbúðarhús í mýrlendinu milli Kirkjuholts og Laugarásholtsins, var skipulagt svæði fyrir íbúðabyggð þar sem kallaðist Vesturbyggð. Þar voru síðan byggð þrjú íbúðarhús árin 1979 og 1980, en síðan liðu 14 ár þar til næst var byggt þar. Eftir eindregnar óskir þar um, var skipulagt svæði fyrir íbúðarhús þar sem kallaðist Austurbyggð, í beinu framhaldi. Þar voru síðan byggð þrjú íbúðarhús á árunum 1980 til 1983. Eins og nærri má geta kölluðu bæði þessi svæði á innviðauppbyggingu; heitt og kalt vatn, vegi og rafmagn. Þetta ráðslag fór öfugt ofan í marga Laugarásbúa, svo mjög að aðalfundi 1985 var gerð sérstök samþykkt um þetta mál:

Skipulagssvæðin Vesturbyggð og Austurbyggð.

Almenn óánægja kom fram með að tengigjöld þeirra lóða sem ekki munu byggjast á þessu ári lendi á herðum annarra notenda veitunnar. Töldu menn eðlilegt að úr því hreppurinn er búinn að lofa og skipuleggja lóðir í hverfinu þá standi hann straum af kostnaði vegna þeirra stofngjalda sem ekki verða greidd á þessu ári. Um þetta mál urðu menn harðorðir og vildu mótmæla þeirri „skipulagsvitleysu“ sem hér hefur viðgengist, sem hefur í för með sér stóraukinn kostnað við nýlagnir og þessvegan hærri gjöld á neytendur. Var talið að fylgt væri einhverri hentistefnu í skipulagsmálum hverfisins.

Samþykkt var eftirfarandi tillaga:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 22/4, 1985 mótmælir eindregið þeirri aðferð sem notuð er við skipulagningu Laugaráshverfis, en hún felst í því, að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps lætur skipuleggja lóðir hingað og þangað í landi Laugaráss og ætlar síðan Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitu Laugaráss að leggja stofna á þessi svæði, án þess að tryggt sé að þau byggist í náinni framtíð, eða jafnvel yfirleitt, eins og skipulag gerir ráð fyrir.

Af þessu ráðslagi leiðir, að kostnaður hitaveitu og vatnsveitu verður óhóflega mikill fyrir þá íbúa sem fyrir eru í Laugarási.

Aðalfundurinn telur hreppsnefnd ábyrga fyrir þessu skipulagshneyksli og fer þess á leit, að kostnaður sá sem hitaveita og vatnsveita verða fyrir, verði greiddur úr hreppssjóði.

Svo mörg voru þau orð, en ekki hafa enn fundist upplýsingar um hver viðbrögð hreppsnefndar urðu við þessari samþykkt.

Göngustígar

Það kom sá tími á tíunda áratugnum, að umræða óx um að efla ferðaþjónustu í Laugarási, en slíkar hugmyndir fóru misvel í fólk. Einn þeirra þátta sem var ætlað að gera þorpið meira aðlaðandi, var að merkja skemmtilegar gönguleiðir í og í grennd þorpsins. Að tilhlutan ferðamálanefndar Biskupstungnahrepps vann Jóhanna B. Magnúsdóttir, umhverfisfræðingur tillögu að legu og uppbyggingu gönguleiða um Laugarás. Það var árið 1994. Hér fyrir neðan hef ég teiknað, í grófum dráttum þær tillögur sem Jóhanna gerði. Lýsing hennar, sem fylgdi tillögunni er svona:

Kort af gönguleiðunum. Tölur í hringjum vísa til umfjöllunar í textanum. PMS teiknaði upp eftir frumteikningu JBM.

Upphaf gönguleiðarinnar er á bílastæðinu við hina fyrirhuguðu heilsugæslustöð (1). Við upphaf leiðarinnar þarf að setja skilti þar sem sagt er hversu löng leiðin er. Æskilegt væri, að á því skilti væri einnig kort af gönguleiðinni fyrir þá sem ekki hafa bækling í höndum.

Lagt er til, að lagður verði stígur frá bílastæðinu að hringleiðinni (frá 1-2). Sá stígur myndi tengjast stígnum um hverasæðið. Annars liggur leiðin undir bakkanum til hægri og yfir lækinn á nýju brúnni (3) Rétt þykir að hafa gönguleiðina ofan við eyna eða hólmann til þess að trufla sem minnst fuglalíf. Fyrst um sinn nægir að stika þessa leið (frá 2). Rétt áður en komið er í skógarlundinn skiptast leiðir (4). Önnur leiðin liggur inn í skógarlundinn meðfram ánni og norður fyrir Laugarásinn (5), þaðan til baka eftir vegum að hverasvæðinu (6). Möguleiki er að benda á gönguleið áfram upp með ánni þó hún verði ekki merkt að sinni. Nauðsynlegt verður að stika gönguleiðina þar sem hún liggur eftir vegum.

Undir ásnum um hverasvæðið (6-7) er lagt til að leggja göngustíg eins og áður er lýst. Þegar honum verður valin lega þarf að hafa bæði í huga öryggissjónarmið og að göngufólkið geti notið þess að skoða hveri.

Þá er einnig lagt til að kannaður verði sá möguleiki að leggja stíg vestan við hverasvæðið (6-2), en það svæði mun tilheyra Sólveigarstöðum.

Lengri hringleiðin er u.þ.b. 1600 m. en sú styttri u.þ.b. 750 m., þar af eru göngustígar 750 m.

Brúin yfir affallslækinn byggð árið 1997. Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir

Það kom auðvitað í hlut hagsmunafélagsins að fjalla um þessar tillögu og að framkvæma þær eða sjá til þess að þær yrðu framkvæmdar. Það varð aldrei mikið úr framkvæmdum, utan það að hópur Laugarásbúa kom saman og setti brú á affallslækinn frá hverasvæðinu. Brúin sú flaut upp veturinn eftir.

Þessar hugmyndir um göngustíga komust aldrei á umtalsvert flug og það má segja að þær hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir Hagsmunafélag Laugaráss.

Samtaka

Á aðalfundi 1975 var samþykkt tillaga um að efna til vinnukvölds íbúanna í Laugarási og með því hófst fastur þáttur í starfi félagsins meðan það lifði.

Hreinsun og snyrting umhverfis

Laugaráskonur sinna verkefnum á leikvellinum 1980, F.v. Karítas Óskarsdóttir, Margaret Brown, Margrét Sverrisdóttir, Ásta Skúladóttir, Jósefína Friðriksdóttir. Barnið og konan í Skálholtsskólabolnum enn óþekkt. Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir.

Kveikjan að því að íbúarnir komu sér saman um að hittast og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum, var hreinsun og snyrting umhverfisins í hverfinu og lagfæringar og viðhald á leikvellinum. Þar að auki þurfti að ganga á girðinguna norður og vestur af hverfinu á hverju ári og lagfæra hana eftir þörfum. Þessar sameiginlegu vinnustundur voru á vorin og miðað við að hreinsun og snyrtingu yrði lokið fyrir 17. júní.

Þessi vinna þróaðist síðan eftir því sem árin liðu og þannig var ákveðið, 1978, að “Fólki verði gefinn kostur á að safna saman  fokdrasli og ýmisskonar dóti af lóðum sínum í haug út við aðalveg, sem yrði svo hirt þaðan á hreinsunardegi”.

Fyrst var það í höndum stjórnar félagsins að ákveða dagsetningu fyrir þessa vinnu, en síðan var valið fólk í nefnd sem sá um að halda utan um girðinguna og hreinsunina ár hvert. Ef ekki var ákveðin dagsetning á aðalfundi félagsins var beitt þeirri aðferð við boðun á rusladegi, að hringja á alla bæi. Ekki var um að ræða aðrar aðferðir, hentugri, á þeim tíma.

Árið 1987 var samþykkt að hefja sameiginlega útrýmingu á njóla á opnum svæðum, en þetta illgresi var orðið heldur áberandi í hverfinu. Þessi aðgerð gaf góða raun, en fór þannig fram, að sveitarfélagið kostaði kaup að eitri, sem síðan var geymt á Sólveigarstöðum. Þangað komu síðan eigendur úðadæla og fylltu á, áður en þér héldu á þau svæði sem þeim hafði verið úthlutað. Njólaeitrun varð síðan fastur liður í hreinsunardeginum.

Laugarásbúar ganga samanm á þjóðhátíðardegi 1983. Mynd Ingibjörg Bjarnadóttir

Árið 1989 var ákveðið að skella í grillveislu og hreinsun og njólaeyðingu lokinni, en þá var farið að bera æ meira á því, að fullorðna fólkið sendi börn til hreinsunarstarfa, þannig að þessi sameiginlega stund fór aðeins að missa miklvægi í hugum hverfisbúa.
1990 “Njólaeyðing gekk vel og sömuleiðis hreinsunardagur, en fleiri mættu mæta úr hópi fullorðinna”.

Meira virðist hafa þurft til, til að fólkið sameinaðist á hreinsunardegi, eins og sjá má af fundargerð 1992: “Gústaf Sæland lagði til að hreinsunardegi verið lokið með hverfishátíð, grillveislu og þess háttar. Tekið var vel í það.
Bent var á að stjórn væri tæpast nægilega fjölmenn til að standa að þess háttar án hjálpar annarra fullorðinna. Stjórn lýsti áhuga á að taka þetta til athugunar.

Það síðasta sem nefnt er um hreinsunardag er frá aðalfundi 1994, en þá hafði verið ákveðinn hreinsunardagur fyrir alla sveitina (Biskupstungur) sem skyldi ljúka með grillveislu í Skálholti.

 Skógrækt

Það þurfti hver íbúi að girða af lóð sína meðan ekki var búið að girða Laugarás af. Því hafði svo sem verið lofað en efndir orðið minni. Á stjórnarfundi 1974 er bókað: „Laugarásbúar eru mjög óánægðir með efndir á því loforði að Laugarás yrði örugglega afgirtur“. Árið eftir er greint frá því að pípuhlið sé tilbúið til niðursetningar, bara beðið veðurs.

Hveratúnsfjölskyldan um jól, 1989. Mynd PMS

Árið 1977 bar Gunnar Tómasson fram þá “stórskemmtilegu” tillögu, að íbúar plöntuðu trjágróðri í brekkuna neðan við gamla læknisbústaðinn, ef unnt væri að fá plöntur á hagstæðum kjörum hjá skógræktinni. Að þessu var gerður góður rómur”.

Áhugi var áfam á að stunda útplöntun trjáplantna. Gunnar Tómasson var umsjónarmaður verkefnisins og ráðunautur og sá um að útvega plöntur.

Lengst af var Gunnar Tómasson skógræktarstjóri eða skógræktarráðunautur í Laugarási. Íbúar tóku þátt í útplöntun á heppilegum svæðum og má þar til dæmis nefna brekkuna fyrir ofan hverasvæðið og svæðið í kringum vatnsveitukofann niðri við brú.

Útplöntun. Fv. Magnús Skúlason, Jakob Narfi Hjaltason, Kristín Þóra Harðardóttir, Guðmundur Indriðason, Ágúst Eiríksson, Skúli Magnússon Guðbjörg Kristjánsdóttir, Hera Hrönn Hilmarsdóttir. Mynd Karítas Óskarsdóttir.

Hugmyndir um skógrækt þróuðust með árunum og 1988 var kynnt kort með áætlun frá Skógrækt ríkisins um skógræktarsvæði á Laugarásjörðinni. Þessi áætlun fékk heldur blendnar viðtökur, helst frá hestamönnum sem voru andvígir því að missa með þeim hætti beitarland. Hugmyndin um skógrækt lifði þó áfram og á félagsfundi 1988 og nú var samþykkt að kanna hug íbúa til málsins.

Bændaskógahugmyndin og staða þess máls rædd og skýrð af Gústaf Sæland. Samþykkt að kanna hug Laugarásbúa til þeirrar huugmyndar að taka hluta af landi Laugaráss undir skógrækt.

Árið eftir, eða 1989 tók Ingólfur Guðnason við sem skógræktarstjóri. Það ár ákvað stjórn félagsins að “Skrifa bréf til að benda á að flytja megi aðalstöðvar Skógræktarinnar í Laugarás”. Ekki varð af flutningi höfuðstöðvanna, en skógræktaráform voru rædd áfram og áfram plantað trám á völdum svæðum.

Ingólfur lagði til, árið 1990, að landið frá brú og að vatnsveituskúr yrði sléttað og settar þar trjáplöntur og voru skógræktarmál til umræðu á fundum fram á 10. áratuginn.

Trjáplöntun. Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Gunnar Tómasson og fleiri. Mynd Karítas Óskarsdóttir.

Þannig var greint frá tillögu að útplöntunarstöðum sumarið 1993: “Neðan fjóss, meðfram vegi að hverasvæði ofan hverasvæðis. Mikið til af greni og furu í eigu félagsins sem þarf að koma niður sem fyrst”.

Eitthvað virðist svo fara að draga af fólki við útplöntun, því á aðalfundi 1994, er þessi færsla: “Trjáplöntun: „ Léleg þátttaka dregur úr áhuga stjórnar“ Trjáplöntur í eigu félagsins greni og fura sem þarf að koma út”.

Girðingar

Það var eitt sinn regla, þegar fólk var búið að setja út kálið, planta trjám, eða setja sumarblómin út, að sauðfé af nágrannabæjum sótti inn í hverfið í fæðuleit og fæðan sem var vinsælust var einmitt sá gróður sem fólkið hafði plantað út, sér til lífsviðurværis eða ánægju. Við þessar aðstæður þurftu allir að girða lóðir sínar af, en girðingarnar þær áttu það til að bila eða þá að sauðféð fann einhverja veikleika á þeim. Það var því eitt af baráttumálum Laugarásbúa, að hverfið yrði afgirt.

Í kjölfar þess að hverfið hafði verið girt af og sett upp pípuhlið norðan þess, var greint frá því á aðalfundi 1977, “að 1976 væri fyrsta árið sem friður hafi verið í Laugarási vegna ágangs kvikfénaðar og var fólk mjög ánægt með að fá loksins frið í görðum sínum”. Girðingin hafði einnig áhrif á skógræktarhugmyndir áhugafólks í hverfinu.

Það varð síðan fastur liður í starfi hagsmunafélagsins, að dytta að girðingunum norður og vestur af þorpinu. Fyrstu árin varð þetta viðhald girðinganna hluti af árlegum hreinsunardegi í júní, en síðar var kosin sérstök girðinganefnd. Slík nefnd virðist fyrst hafa verið kosin 1982. Það ár kom einnig fram krafa um að pípuhlið yrði sett Iðumegin einnig, þar sem fé virtist vera farið að koma þaðan. Það varð bið á slíku pípuhliði, þrátt fyrir ítrekanir næstu sex árin. Aldrei varð af því að pípuhlið kæmi Iðumegin.

Árið 1985 var byggð í hverfinu farin að teygja sig lengra í norður og því þörf á að færa girðinguna.

Hestamennska

Hestaáhugafólk hóf að beita sér fyrir uppbyggingu aðstöðu fyrir sig í hverfinu flljótlega eftir stofnun félagsisns. Stjórnin ákvað árið 1979 “að rita oddvita bréf þess efnis að athugun verði látin fara fram hið bráðasta á því hvar landi skyldi úthlutað undir félagshesthús í Laugarási svo að unnt verði að hefjast handa um byggingu í vor”. Á aðalfundi skömmu síðar var tilkynnt að íbúar sem vilja geta farið að huga að framkvæmdum innan tíðar. Húsinu er ætlaður staður vestur af húsi Gunnars Tómassonar”.

Það fór ekki hjá því að óánægju gætti meðal þeirra sem ekki deildu hestaáhuganum, ekki síst með það að hesthúsinu var ætlaður staður innan hverfisgirðingarinnar. Svo fór, að á stjórnarfundi í nóvember 1980 ákvað stjórnin að rita bréf til oddvita, Gísla Einarssonar, en hann var jafnframt formaður byggingarnefndar. Bréfið er svohljóðandi:

Laugarási 20. nóv., 1980

Hr. oddviti Gísli Einarsson

Stjórn Hagsmunafélags Laugaráshverfis lýsir óánægju sinni og meginþorra fólks í Laugarási, vegna ákvörðunar byggingarnefndar um, að setja niður hesthús innan girðingar í Laugaráshverfi og mótmælir eindregið slíkum og þvílíkum ákvörðunartökum.
Þessi mótmæli eru til áréttingar fyrri samþykkt um að halda skuli hverfinu gripalausu. Fremur ber mönnum að vinna í þá átt að draga úr búpeningshaldi í þéttri byggð, heldur en skapa skilyrði til að auka það, sér í lagi ef það er í óþökk íbúanna.
Formaður byggingarnefndar er vinsamlega beðinn að íhuga málið.

Bestu kveðjur, f.h. stjórnar hagsmunafélagsins
ritari, Skúli Magnússon.

Á aðalfundi árið eftir var “Fjallað um beitarhólf beitarþol, veg að húsi, skurði, girðingar og hitt og þetta í sambandi við hestahald.
Gunnlaugur taldi þörf fjármuna 100-200 kr til að koma af stað félagsskap um málið”.

Hesthúsið í Laugarási. (af vef ja.is)

Umræðan um hesthúsmálið var talsvert ofarlega á baugi þessi árin og sýndist sitt hverjum. Á aðalfundi 1982 þykir ástæða til að skrá þetta fundargerð:

- lítið rætt um hesta að þessu sinn en einhver tregða mun vera með lóð undir hesthús, sem þó átti að vera komið á hreint.

Ekki er vikið að hesthúsbyggingu fyrr en á stjórnarfundi í júlí 1984, þegar lending virðist vera komin í málið:

Staðsetning hesthúss fyrir hverfið.
Samþykkt að beina eindregnum tilmælum til bygginganefndar að:
1. Húsin skulu staðsett utan hverfisgirðingar.
2. Staðsetning gefi möguleika á fleiri húsum í framtíðinni.
Hugsanlegir staðir skoðaðir með Jakob og Guðbirni. Allir sammála um, að svæðið norðan girðingar RKÍ og vestan marlargryfjanna væri best fallið til byggingar af þessu tagi. Húsin væru úr sjónmáli frá þjóðvegi og rými nægjanlegt.

Svo var það á aðalfundi 1985 að stofna undirbúningshóp til að vinna að stofnun félagsskapar hestamann í Laugarási:

Jakob [Hjaltason]mælti fyrir hugmynd að félagsskap um beit hesta. Núverandi beitarsvæði talið þola 10-15 hross. Gunnlaugur kvað hægt að auka beitarþol með áburðargjöf – þá myndi framræsla verða til góðs.

Rætt um úttekt á beitarþoli – girðinar til varnar ágangi sauðfjár og fleira.

Samþykkt að Jakob, Gunnlaugur [Skúlason] og Gústaf [Sæland] (sem fltr Hagsmunafél) tækju sæti ú undirbúningsnefnd sem ynni að stofnun félags eða klúbbs innan hagsmunafélagsins.

Þar með hvarf umræða um hesta og hestamenn úr fundargerðum hagsmunafélagsins, utan eitt skipti, á aðalfundi 1988 þegar kynnt var áætlun um skógrækt á Laugarásjörðinni. “Gunnlaugur Skúlason gerði athugasemd við þessa áætlun í Laugaráslandi vegna þess að hestaeigendur á staðnum þurfa á landinu að halda til hrossabeitar”.


Uppfært 07/2020