Alþýðublaðið 20. júní, 1967:

Greinargerð frá Reykjavíkurdeild RKÍ
vegna gagnrýni

Vegna ummæla konu nokkurrar í einu dagblaðanna fyrir nokkrum vikum, og þá um leið vegna greinargerðar, sem Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur látið birta síðar, og óneitanlega vakti furðu okkar, biður Reykjavíkurdeild RKÍ dagblöðin fyrir þessa greinargerð:

Konan, sem úr skálum sinnar „heilögu reiði" hellir, talar um „fjöldabúðir" þar sem börnum sé „hrúgað saman í þröng húsakynni."

Í Laugarási eru 118—120 börn. Eftir að ný reglugerð var sett með auknum kröfum um húsrými í barnaheimilum, létum við mæla upp skálana í Laugarási í vetur. Þá kom í ljós, að þótt fylgt væri ströngustu kröfum um húsrými, væri heimilt að hafa mun fleiri börn í Laugarási en þar eru höfð.

Svo er börnunum „hrúgað saman" þar!
Í Laugarási er fremur um fjögur 30-barna heimili að ræða en eitt heimili með 120 börnum.
Svefnskálum er þar að auki verið að skipta meira en gert hefur verið fyrr. Við máltíðir sitja börnin saman í tveim 60-barna matskálum. Og þau sitja saman við kvikmyndasýningar eftir kvöldverð. Að öðru leyti er þeim skipt í fjóra 30-barna flokka, og annast 3 fóstrur hvern flokk. Og leitast er við, að á daginn hafi börnin hvert sitt athafnarsvæði, sín viðfangsefni, sitt leiksvæði, sitt dagsverk. Með því að leysa heimilið þannig upp í 4 einingar verður hér fremur um fjögur 30-barna heimili að ræða en „fjöldabúðir" með 120 börnum.

Um „versnandi rekstur," „skort á hæfu starfsfólki" og að „kornungum stúlkubörnum" sé falin gæzla „allstórra" hópa barna, er sannleikurinn sá, sem grandvar gagnrýnandi hefði kynnt sér, að á síðari árum hefur fóstrum verið fjölgað, aldurslágmark þeirra fært upp, og til þeirra gerðar auknar kröfur.

Þrem fóstrum er ætlaður 30 barna hópur, og tvær þeirra eru 18—20 ára gamlar. Þætti það einhversstaðar sæmilega séð fyrir barnagæzlu. En starfskonur heimilisins eru 32.

Að heimilið sé „snautt af leikföngum," eins og konan fullyrðir, getur naumast verið rétt, þegar þess er gætt, að t.d. voru í hitteðfyrra keypt leiktæki að Laugarási fyrir rúmlega 30 þúsund krónur — og flest árin keypt leiktæki auk þeirra, sem heimilinu eru gefin. Þetta hefði konan getað kynnt sér og séð með eigin augum, þó leiktækin í Laugarási liggi ekki fægð eins og sýningargripir á hillum, heldur liggi allflest í lautum og brekkum, þar sem börnin nota þau daglega undir umsjá fóstranna.

Við svörum aðfinnslum konunnar ekki vegna þess að þær séu í raun og veru svaraverðar, — en vegna þeirra fjölmörgu heimila, sem biðja árlega um dvöl fyrir börn sín í Laugarási, og vegna starfsfólksins, sem þar hefur vissulega unnið gott verk.
Og vegna þess hve margir spyrja um þennan rekstur þykir rétt að gefa almenningi, sem auðvitað á ekki aðgang að heimilinu, tækifæri til að kynnast einum degi barnanna í Laugarási:

Vökukona og aðstoðarstúlka gæta barnanna í svefnskálunum um nætur, en upp úr kl. 7 hefst dagurinn með því að 3 fóstrur klæða og aðstoða hver sinn hóp.

Eftir sameiginlegan morgunsöng er sezt að morgunverði kl. 8.

Kl 8.30-9 leggja fóstrurnar út með börnin. Víðlent er sæmilega um heimilið og fer hver barnahópur á sitt svæði. Þarna er verið að leikjum, börnin látin bjástra við sem mest frjálsræði sjálf.

Kl. 11.30 koma flokkarnir aftur heim. Í snyrtiskálum þvo börnin andlit og hendur, og eftir sameiginlegan söng er sezt að miðdegisverði kl. 12. Rúmri klukkustund síðar er aftur haldið út.

Kl. 3-3.30 er drukkinn síðdegisdrykkur, oftast heima, en stundum er hann færður börnunum - og raunar stundum miðdegisverður - ef börnin eru „í ferðalagi" uppi í Vörðufelli eða annarsstaðar, þar sem þeim þykir bezt á blíðviðrisdögum.

Kl. 5.30 er útivistum dagsins lokið. Eftir sameiginlegan söng setjast börnin hrein og þvegin að kvöldverði. Að honum loknum er stutt kvikmyndasýning, sem börnin horfa að jafnaði á í náttfötum sínum. Síðan er gengið til sængur, þar sem fóstran segir kvöldsöguna, eða syngur með gítarleik lög og ljóð við hæfi lítilla barna.
Svo er svefntími kl. 9. Þá fellur kyrrð yfir Laugarás eftir ys og eril 120 barna og rúmlega 30 starfskvenna. Vökukonan tekur við gæzlu barna og húsa.

Tilbreytingar frá venjulegri dagskrá eru ýmsar.

Eftir fánahyllingu að skátasið er farið til kirkju í Skálholti á sunnudögum. Farið er með börnin í smáflokkum í fjósin og gróðurhúsin í nágrenninu og börnin frædd um dýr og gróður.
Ferðir eru farnar til náttúruskoðunar og margar berjaferðir upp úr miðju sumri. Þá er börnunum stundum færður út miðdegisverður eða sídegisdrykkur, sem jafnan vekur mikinn fögnuð. Í þeim ferðum eru börnin höfð í 30 barna hópum, hver hópur með sínum fóstrum.

Læknisskoðun fer fram á öllum börnum, áður en þau fara austur og héraðslæknirinn í Laugarási fylgist með heilsufarinu í heimilinu.

Tækifærið, sem aðfinnslur hafa gefið, þótti okkur rétt að nota til þess að skýra fyrir almenningi rekstur sumardvalaheimilisins í Laugarási. Hann er ekki sérmál okkar. Hann er mál fjölmargra heimila í Reykjavík. Hann er mál barnanna, sem á heimilinu dveljast. Og hann er mál mæðranna, sem margar fá hvorki notið nauðsynlegrar hvíldar né nauðsynlegrar sjúkrahúsvistar, ef ekki eru tekin af þeim börnin í nokkrar vikur sumarsins í Laugarási, frá sex vikum upp í þrjá mánuði.

Að Rauði krossinn muni „leitast við, eftir því sem tök eru á, að stytta sumardvalir yngstu barnanna", eins og segir í viðbót ályktunar Barnaverndarnefndar, kom stjórn Reykjavíkurdeildarinnar algerlega á óvart, þegar við lásum það í blöðunum.

Jafn óskiljanlegt er hitt, að úr því að Barnaverndarnefnd er búin að slá því föstu, að slíkar sumardvalir barna yngri en 6—7 ára barna séu þeim skaðlegar, að nefndin skyldi þá ekki hafa tilkynnt Reykjavíkurdeild RKÍ þann úrskurð fyrr en vitað var að búið var að taka mörg slík börn af heimilum þar sem erfiðar eru heimilisástæður og mæður veikar og þreyttar.

Reykjavík, 31. maí 1967
Stjórn Reykjavíkurdeildar Rauða Kross Íslands.

Uppfært 12/2018