Stjórnendur í Krossinum

Forstöðukonurnar urðu sjö á þeim 19 sumrum sem barnaheimilið var starfrækt. Af þeim átti Jóna Hansen lengstan starfsaldurinn, en hún stýrði heimilinu í nánast helming starfstímans, eða í 9 sumur. Sú sem næst lengst starfaði, Guðrún Ólafsdóttir var í 4 sumur og því næst kom Major Svava Gísladóttir í þrjú. Aðrar gegndu þessu starfi í eitt ár eða skemur.

1952

Ingibjörg Ingólfsdóttir

Ingibjörg Ingólfsdóttir

Ingibjörg Ingólfsdóttir frá Fjósatungu í Fnjóskadal (1912-2010)

var fyrsta forstöðukona heimilisins, sumarið 1952. Hún var dóttir Guðbjargar Guðmundsdóttur (1896-1951), húsmóður og Ingólfs Bjarnasonar (1874-1936), alþingismanns Framsóknarflokksins frá 1922-1934. 

 

1953-1956

Guðrún Ólafsdóttir

Guðrún Ólafsdóttir

Guðrún Ólafsdóttir (1892-1957)

var fædd að Reykjarfirði í N.-Ísafjarðarsýslu, dóttir hjónanna Ólafs Jónssonar og Evlalíu Kristjánsdóttur. Eftir að hafa lokið námi í Flensborgarskóla fór Guðrún til Noregs þar sem hún stundaði húsmæðrakennaranám í tvö ár. 1917 giftist hún  Bjarna Hákonarsyni frá Reykhólum þar sem þau bjuggu um tveggja ára skeið, en þá fluttu þau að Reykjarfirði þar sem þau bjuggu til 1931. Þau fluttu síðan til Akureyrar og voru þar í 11 ár áður en þau lögðu leið sína til Reykjavíkur, þar sem þau bjuggu upp frá því. Í minningargrein um Guðrúnu segir svo:

Eftir komu hennar frá Noregi starfaði hún sem farkennari við húsmæðrafræðslu all víða um Vestfirði. Meðan þau hjónin bjuggu á Akureyri var Guðrún heitin forstöðukona við Sjúkrahús Akureyrar, um 6 ára skeið. Og eftir að þau fluttust hingað til Reykjavikur hún fjögur sumur forstöðukona við barnaheimili Rauða krossins í Laugarási. Slík störf munu hafa verið henni hugstæðust og kærust, því uppeldis-, líknar- og mannúðarmál stóðu hjarta hennar næst, af því að hún skildi að við úrlausn þeirra var menning og framtíð þjóðar vorrar bundin. Umhyggja hennar og nærgætni gerði henni ljúft að annast hina ungu, leiðbeina þeim og stuðla að heilbrigðum þroska þeirra.

Guðrún lést í maí 1957, 64 ára að aldri og var þá búin að gegna starfi forstöðukonu í 4 sumur.

 1957

Auglýsing 16. apríl, 1957

Auglýsing 16. apríl, 1957

Þegar Guðrún lést þurfti að ráða nýja forstöðukonu og það var sett auglýsing í blöðin. Til starfa var ráðin kona sem mér hefur ekki tekist að finna nafn á, eða nokkuð um, utan að hún mun hafa haft hjúkrunarfræðimenntun. Starfstími hennar varð endasleppur og hætti hún af persónulegum ástæðum einhverntíma um sumarið. Hún var í að minnsta hætt störfum þegar barn drukknaði í Hvítá þann 18. júlí.
Valgarð Runólfsson tók við forstöðu það sem eftir lifði sumars (sjá neðar).

1958-1960

Major Svava.JPG

Major Svava Gísladóttir (1891-1982)

fæddist á Ísafirði, dótti hjónanna Margrétar Jónsdóttur og Gísla Jónssonar. Svava var ung að árum þegar hún fékk þá lífsköllun að boða kristna trú. og trúin varð leiðarstefið í öllu lífi hennar. „Hún var trygg og góð kona. Allir sem kynntust henni litu þar mikinn persónuleika og stórbrotna konu“, segir í minningargrein um hana.  Hjálpræðisherinn varð starfsvettvangur hennar alla tíð. 1945 hélt hún til London þar sem hún stundaði nám í líknarstarfsemi í aðalstöðvum hersins.  Eftir það fór hún til Danmerkur og gerðist annar æðsti yfirmaður líknarstarfs hersins í því landi.  Svava var ógift og barnlaus, en tók að sér fósturdóttur. 

1962

Solveig Hjörvar.JPG

Sólveig Hjörvar 1921-1995

fæddist í Reykjavík, dóttir hjónanna Helga Hjörvar, kennara og útvarpsmanns og Rósu Daðadóttur.  Sólveig var tvígift, en fyrri maður hennar var Haraldur Samúelsson (1910-1992) og sá síðari Þorsteinn Eiríksson (1920-1978), kennari og skólastjóri, en hann var fæddur og uppalinn á Löngumýri á Skeiðum.

Sólveig var mikil hannyrðakona, stundaðu nám í saumaskap hér á landi og í Noregi. Á sjötta áratugnum kenndi hún handavinnu og matreiðslu í Brautarholtsskóla á Skeiðum.

Hún var þó með afbrigðum góð hannyrðakona, hafði verið í saumanámi hjá Guðrúnu Arngrímsdóttur og stundað nám í Statens kvinnelige industri og Hellens skole í Noregi og unnið sem handavinnukennari í heimavistarskólanum Brautarholti á Skeiðum frá 1953 til 1960

(Úr minningargrein):
Hún hafði skáldlegt ímyndunarafl og var gædd þeirri gáfu að sjá lífið sem litríkt yrkisefni og fann því farveg í skemmtilegri frásögn. Solveig unni íslenskri tungu og hafði sjálf gott vald á henni og nýtti þann hæfileika vel og gat reyndar á stundum sviðið undan beinskeyttum tilsvörum hennar. Hún var rómantísk og hafði einstakt lag á því að horfa á menn og málefni með rómantískum augum ungu stúlkunnar og þegar hún var í essinu sínu var frásögnin gjarnan með léttu dramatísku ívafi.

 

1961 og 1963-1970

Jóna Ingibjörg Hansen

Jóna Ingibjörg Hansen

Jóna Ingibjörg Hansen (1935-2006)

fæddist í Reykjavík, dóttir þeirra Sigurbjargar Magnúsdóttur Hansen frá Blikastöðum og Thorkild W. Hansen. Jóna lauk kennaraprófi 1956 og stundaði framhaldsnám í Danmörku. Þegar heim kom réði hún sig til starfa í Réttarholtsskóla en frá 1965-2002 var hún kennari í Hagaskóla og kenndi þar dönsku, ensku og náttúrufræði.  Hún var ógift og barnlaus.

Sumarið 1961 tók hún við starfi forstöðukonu, en árið eftir hélt hún til Bandaríkjanna til að kynna sér starfsemi barnaheimila og skóla.  1963 tók hún aftur við Krossinum og stýrði starfinu þar til 1970, eða í 9 ár og var þar með sú sem lengst kom að sumardvöl barna í Laugarási.

Alls starfaði Jóna fyrir RKÍ í 40 ár, að ýmsum verkefnum, en hún var eindreginn talsmaður enduruppbyggingar barnaheimilis í Laugarási og sat í nefnd sem ætlað var að gera áætlanir um framtíð þess.

Jóna vann einnig fjölmörg nefndarstörf og var í stjórn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins frá árinu 1973 og í um tuttugu ára skeið. Hún sat einnig í stjórn Reykjavíkurdeildar Norræna félagsins frá 1976 ásamt því að starfa sem sjálfboðaliði í Neskirkju, bæði við barna- og unglingastarf, og frá 1980 til ársins 2004 að öldrunarstarfi kirkjunnar.

1971

Guðrún Ingvarsdóttir

Guðrún Ingvarsdóttir

Guðrún Ingvarsdóttir (1949-2008)

fæddist í Reykjahlíð á Skeiðum, dóttir hjónanna Sveinfríðar Sveinsdóttur og Ingvars Þórðarsonar.

Guðrún (Gígja) var húsmæðrakennari að mennt en að auki las hún tvö ár í lyfjafræði við HÍ.

Hún starfaði í Krossinum í þrjú ár, frá 1969-1971, síðasta árið veitti hún barnaheimilinu forstöðu, tvítug að aldri. Hún tók sér ýmislegt fyrir hendur framan af ævi, en 1983 gerðist hún kennari á Selfossi, fyrst á grunnskólastigi, en síðan við Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem hún starfaði til dauðadags.

 

Karlar og Krossinn

Það er auðvitað gömul saga og ný að stúlkur og konur hafa annast barnauppeldi að stærstum hluta. Karlar sem störfuðu í Krossinum voru harla fámennur hópur og ekki verður betur séð en þarna hafi verið um að ræða kennara eða guðfræðinga sem höfðu nýlokið námi. Í Krossinum höfðu þeir titilinn "eftirlitskennarar", þó ekki hafi verið um að ræða neina formlega kennslu.

Ekki hefur mér tekist að hafa upp á mörgum þeirra karla sem þarna störfuðu við umönnun barnanna, en segir svo hugur um að þeir hafi ekki verið hluti starfsmannahópsins nema til til þess tíma þegar Jóna Hansen tók við forstöðukonustarfinu 1961. Fjóra hefur mér tekist að nafngreina:

Þórður Kristjánsson

Þórður Kristjánsson

Þórður Kristjánsson (1915-1991)
Eftirlitskennari 1952

Þórður var frá Suðureyri við Súgandafjörð. Kennaraprófi lauk hann 1943 og fór þá að kenna á Hellissandi. Eftir nokkur ár þar hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á kristinfræði og barnasálfræði við háskólann í borginni. Að því búnu dvaldi hann eitt ár við nám í Noregi áður en hann kom heim og hóf störf við Laugarneskóla haustið 1950.

1957 varð Þórður starfsmaður á fræðsluskrifstofu Reykjavíkur með kennslustarfinu og var meðal annars námsstjóri í kristnum fræðum.  

 

Hinrik Bjarnason

Hinrik Bjarnason

Hinrik Bjarnason (1934-)
Eftirlitskennari 1956

Hinrik Bjarnason fæddist á Stokkseyri. Hann stundaði nám við Leikskóla Lárusar Pálssonar 1952-54, lauk kennaraprófi frá KÍ 1954, stundaði nám í félagsfræði í Danmörku og Svíþjóð 1958-59 og í Bandaríkjunum með Fulbrightstyrk 1959-60, sótti námskeið í upptökustjórn kvikmynda og sjónvarpsþátta hjá sænska sjónvarpinu 1968 og hefur sótt fjölda námskeiða í uppeldis- og kennslufræði, tómstunda- og æskulýðsstarfi, kvikmyndagerð og sjónvarpsstörfum.

Hinrik hefur starfað við ýmislegt, m.s. var hann skólastjóri Vistheimilisins í Breiðuvík 1956-58, grunnskólakennar, framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs og þáttagerðarmaður við sjónvarpið var hann 1966-75 og deildar- og dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarps 1979-85 og deildarstjóri innkaupa- og markaðsdeildar Sjónvarps frá 1985-2000.

Hinrik Bjarnason starfaði í Krossinum sumarið 1956 og segir hlutverk eftirlitskennaranna af karlkyni hafa verið að vera "karlarnir á staðnum" og sinna málum stráka, sérstaklega þar sem þörf var á aðkomu einstaklings af sama kyni". Þetta snéri oft að því að kenna þeim það sem tengdist frumþörfum af ýmsu tagi”.

Valgarð Runólfsson

Valgarð Runólfsson

Valgarð Runólfsson (1927-2015)
Eftirlitskennari 1957

Valgarð ólst upp í Reykjavík og lauk kennaraprófi 1952. Hann kenndi síðan við Langholtsskóla til 1958, en þa gerðist hann skólastjóri í Hveragerði. Því starfi gegndi hann til 1988, utan að hann var námsstjóri Suðurlands á árunum 1971-73.

Valgarð stofnaði og rak ásamt eiginkonu sinni Námsflokka Hveragerðis og síðar Öldungadeildina í Hveragerði í samvinnu við MH, á árunum 1967-1981. Hann var stundakennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands 1981-1996.

Hann var leiðsögumaður á hverju sumri allt frá árinu 1972.

Þegar forstöðukonan, sem ráðin hafði verið til starfa, sumarið 1957, hætti af persónulegum ástæðum, tók Valgarð við stjórn Krossins og gegndi því starfi til loka sumars.

Matthías Frímannsson.JPG

Matthías Frímannsson (1932 -)
Eftirlitskennari 1959-1960

 Matthías fæddist í Grímsey en ólst upp í Hrísey frá því á þriðja ári og fram á það fimmtánda.

Hann lauk fyrsta og öðru stigi til BA-prófs í þýsku við HÍ 1958, lauk embættisprófi í guðfræði frá HÍ í ársbyrjun 1959, stundaði framhaldsnám við Kielarháskóla í kirkjusögu, predikunarfræði og þýsku 1956-57.

Hann lauk prófi í uppeldis- og kennslufræðum við HÍ 1967 og var kennari við gagnfræðaskóla til 1977 og síðan við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Matthías var leiðsögumaður erlendra ferðamanna, einkum þýskumælandi, á sumrin frá 1969 og að hluta íslenskra ferðamanna erlendis frá 1982.

Matthías starfaði í tvö sumur í Krossinum og tók mikið af ljósmyndum. Allmargar myndir hans prýða umfjöllunina um Krossinn á vefnum.

 

Uppfært 12/2018