Minningar barna sem dvöldu í Krossinum

Ég setti upp lokaðan hóp á Facebook og bauð þangað fólki sem dvaldi á barnaheimilinu sem börn og einnig fólki sem starfaði þar. Ég bað þetta fólk að skrá minningar sínar frá dvölinni eftir því sem þær kæmu í hugann.

Eins og ég hafði átt von á, var fólk ekki á einu máli um reynsluna og það er ekki verkefni mitt að leggja mat á starfsemina eða þær ástæður sem lágu að baki því að þar var svo mikil ásókn í sumardvöl í sveit fyrir borgarbörn sem raun bar vitni.

Ég tel mikilvægt að hafa í huga, að tíðarandinn og aðstæður í samfélaginu fyrir fimmtíu til sjötíu árum voru afskaplega ólík því sem við þekkjum nú. Svo má deila um hvor tíðarandinn er betri, sá sem taldi eðlilegt að senda börn til þriggja mánaða vistar á barnaheimili uppi í sveit yfir sumartímann, eða sá sem telur eðlilegt að vista börn á leikskólum í átta til níu klukkustundir á hverjum virkum degi, árið um kring.

Talsvert var um fólkið í Facebook-hópnum setti inn athugasemdir, misítarlegar. Afraksturinn má lesa hér fyrir neðan:

Ólafur Haukur nálægt þeim tíma sem hann dvaldi í Laugarási. (mynd frá Ólafi)

Þrjú þeirra sem dvöldu í Krossinum sem börn áttu afar sterkar og skýrar minningar frá dvöl sinni og voru tilbúin að deila sögum sínum. Það varð úr að við hjálpuðumst að við punkta þær niður og þær birtast á sérstökum síðum, sem opnast þegar smellt er á nöfn þeirra.

Ólafur Haukur Matthíasson.

Ólafur Haukur var á sjöunda ári þegar hann var sendur til fjögurra vikna dvalar á barnaheimilinu í Laugarási, Krossinum, sumarið 1957.

Þessi tími reyndist hafa heilmikil áhrif á líf hans og reynslan er honum enn ofarlega í huga.

Petur Holm 1962 (mynd frá Pétri)

Petur Holm

Petur Holm, eða Pétur Sophus Hreiðarsson fæddist 1954 og dvaldi sem barn í Krossinum í tvö sumur, líklegast, að því er hann telur 1959 og 1960. Hann er þó ekki alveg viss, en veit að seinna sumarið kom gamall strætisvagn á svæðið og þar með meiri fjölbreytni í leiktækjum.

Pétur á ekkert sérlega góðar minningar frá dvölinni og hefur leyft mér að birta þau minningabrot sem hann hefur skráð niður. Kvikmyndin Sumarbörn, í leikstjórn Guðrúnar Ragnarsdóttir (2017) varð að hans sögn til að kveikja minningar frá þessum tíma.

Petur hefur nú búið erlendis í 44 ár og breytti nafni sínu af hagkvæmnisástæðum.

Ingibjörg (af Fb)

Ingibjörg (af Fb)

Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir

Ingibjörg dvaldi í Krossinum, sennilega sumarið 1967.

Frásögn hennar af dvölinni gefur til kynna að ekki hafi henni líkað vistin neitt sérstaklega.


Minningar og minningabrot annarra.

Þau sem hér leggja til málanna greina frá dvöl sinni í Krossinum á ýmsum tímum.

Hörður (af Fb)

Hörður (af Fb)

Hörður Harðarson dvaldi í Krossinum tvö sumur, einhverjar vikur hvort sumar, trúlega 1958 og 1959.

Ofarlega í ásnum sem snýr að Laugarási var grafin gryfja/stór hola þar sem úrgangi frá eldhúsi var komið fyrir.

Bíll frá Ólafi Ketilssyni kom með vörur sem tekið var á móti á vegamótum heimreiðar og þjóðvegar. Oft voru þetta bílar bæði fyrir vörur og farþega. Einnig var farangur eða vörur undir segli á þaki bílsins.
Oft voru útlendingar með bílnum, sem voru framandi í augum okkar krakkanna. Og við kannski líka í þeirra augum?

Fóstrurnar: Ég man einna helst eftir tyggjólykt frá þeim. Annars voru þær ágætar.
Snyrtingar: Klósettin voru stundum stífluð í langan tíma. Við fórum út í móa og það var ekki mikið mál fyrir krakka á þessum tíma.
Það komu einhverntíma smiðir til að laga verönd og palla.
Ég missti 70 prósent sjón á öðru auga við þvottahúsið. Enginn bati hefur orðið á auganu og engar bætur komu fyrir.
Fórum í nokkrar gönguferðir að Skálholti þar sem kirkjan var í byggingu.
Það komu einusinni þrumur og eldingar og þá voru krakkarnir hafðir inni.
Barn hafði látist í ánni árið fyrir fyrra árið mitt.
Aðstandendur fengu aðeins að sjá börnin í svefni og skilja eftir pakka.

Ásgrímur (af Fb)

Ásgrímur (af Fb)

Ásgrímur Guðmundsson
Þetta var ekki góður staður. Man vel eftir stráknum með heimþrána sem reyndi nokkrum sinnum að strjúka. Hann var bundinn á stól úti á palli á nærbuxunum og krökkunum safnað saman til að hía á hann. Hvaða áhrif ætli þetta hafi haft á hann?


Erla  (af Fb)

Erla
(af Fb)


Erla A Boren

Var þarna líklega fyrsta sumarið. Ég man eftir einni fóstrunni sem var með eldrautt hár og var sérstaklega góð við mig.


Ólafur  (af Fb)

Ólafur
(af Fb)

Ólafur Gunnarsson
Ég á góðar minningar frá dvölinni þarna.
Ég hitti eina fóstruna, sem heitir Maja. Hún átti fullt af myndum. Ég ætla að reyna að finna hana aftur.Ylfa Carlsson

Mér leiddist ógurlega. Þarna voru allt of mörg börn, fáar fóstrur og fúkkalykt.

Jón Valsson
Ég á góðar minningar frá þessum stað. Starfsfólkið var ótrúlega flott fólk.

Jökull  (af Fb)

Jökull
(af Fb)

Jökull Jörgensen
Ég og Haffi bróðir vorum sendir þangað eitt sumar. Vondar minningar.


Rósa (af Fb)

Rósa (af Fb)

Rósa Guðbjörg Svavarsdóttir
Ég var þarna í kringum 67-68 þá 6-7 ára gömul. Ég man nú ekki mikið frá þeim tíma, en minnisstæðast er þegar við áttum að fara út í móa og leita að appelsínum sem búið var að fela eða dreifa og mig minnir að ég hafi verið heppin og fundið tvær.

Ágúst nær og Jón fjær, sumarið 1957 (mynd frá Ágústi)

Ágúst Ragnarsson
Þessi mynd var tekin sumarið 1957. Á henni er ég Ágúst Ragnarsson og bróðir minn, fyrir aftan, Jón G Ragnarsson. Annar bróðir okkar sem er nokkuð yngri var þarna nokkrum sumrum seinna.

Það sem er okkur minnistæðast frá þessari dvöl var þegar Bolli drukknaði. Hann var í sama svefnherbergi og ég og á sama ári.

Ágúst (af Fb)

Ágúst (af Fb)

Annað minnistætt var þegar við vorum að bræða liti á hitaveiturörunum sem var mikið sport í. Svo og þegar þegar fólk kom gangandi frá bæjunum í kring þá földum við krakkarnir okkur því fyrir okkur voru þetta tröll og annað þý 😊.

Ekki man ég eftir því að fólk væri vont við okkur nema einu tilviki þar sem tvær starfsstúlkur voru að reyna að fá mig til sín og ég valdi aðra fram yfir hina, þá brást hin illa við seinna um kvöldið þegar ég nálgaðist hana og hrinti mér frá sér. En að öðru leyti ekkert sem alvarlegt þætti.

Jón (af Fb)

Jón (af Fb)

Jón G. Ragnarsson
Ég var á Laugarási sumrin 1956 og 1957 ásamt bróður mínum Ágústi Ragnarssyni sem var þar 1957 og munum við eftir þessu atviki með Bolla og höfum oft talað um það, en ég man ekkert eftir starfsfólkinu sem þar var.

Ólafur (af Fb)

Ólafur (af Fb)

Ólafur Ragnarsson
Ég er yngri bróðir Ágústar og Jóns Ragnarssona og var þarna sumrin 63-4 eða 64-5
..... man bara hvað maður var lítill í sér að fara með rútunni en nammipokinn og litla kókflaskan léttu lífið
…. lét gæslustúlkurnar hafa nammið og reyndi að rukka það seinna en var vísað frá, þær gæddu sér sjálfar á góðgætinu, sé enn eftir kókflöskunni!
….. ég finn enn lyktina þegar ég hugsa til þess af litunum sem við bræddum á hitaveiturörunum.
..… vistin hefur eflaust verið tíðinda- og áfallalaus, man ekki mikið, helst svefnskálinn sem er í huga mér og hversu feginn ég var þegar ég komst aftur heim 😊

Sigurbjörg (af Fb)

Sigurbjörg (af Fb)

Sigurbjörg Níelsdóttir Ég er fædd 63 og fór fyrst í heimsókn þriggja ára. Sumarið eftir fórum við bróðir minn og vorum allt sumarið. Síðan fórum við á hverju ári þar til Jóna Hansen hætti að vera forstöðukona.
Ég man eftir að hafa farið í fjós og heimsótt gróðurhús. Við vorum með garða og ræktuðum grænmeti. Ég á margar góðar minningar úr Laugarási, sunnudagaskóli í Skálholti, flaggað á sunnudögum. Fórum í ferðir og veiddum skordýr í krukkur og margt fleira skemmtilegt.

Uppfært 12/2018