Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir:

Frásögn af dvöl í Krossinum sumarið 1967

Ingibjörg (af Fb)

Ingibjörg (af Fb)

Ég var tæplega 6 ára þegar ég dvaldi í 6 vikur í sumarbúðunum að Laugarási í Biskupstungum. Ég er fædd í nóvember 1961 og dvaldi þar sumarið 1967, þ.e. árið sem ég varð 6 ára. Jóna Hansen veitti heimilinu forstöðu á þessum tíma.

Ég var fjórða barn foreldra minna, en þau misstu ársgamla systur mína í janúar 1960. Bræður mínir voru 14 og 16 árum eldri en ég og höfðu báðir verið sendir norður í land í sveit 6 ára gamlir, þar sem þeir dvöldu svo mörg sumur eftir það. Foreldrar mínir vildu ekki gera mig of háða sér og töldu að dvöl í sumarbúðum væri skemmtilegur, þroskandi og styrkjandi kostur fyrir örverpið. Ég var svo sem vön aðskilnaði við foreldra mína, þar sem ég var dagheimilis- eða leikskólabarn frá eins árs aldri en móðir mín vann fullan vinnudag og faðir minn átti við veikindi að stríða. Ég bjó við ástríki og leið vel bæði í leikskólanum og heima og var vön því að gista hjá eldri bróður mínum og konu hans, ömmu minni og nánu vinafólki foreldra minna og þótti það ekki tiltökumál.

Ingibjörg (af Fb)

Ingibjörg (af Fb)

Það er skemmst frá því að segja að tíminn í Laugarási er sá tími í mínu lífi þar sem mér hefur liðið verst og ég var í mörg ár að ná aftur því öryggi og trausti að geta án mikillar heimþrár gist næturlangt annars staðar en heima hjá mér. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna dvölin í Laugarási hafði þessi áhrif á mig. Ég minnist þess ekki að nokkur manneskja hafi verið vond við mig, hækkað róminn eða beitt refsingum, svo ekki var það þess vegna. Ég held að ástæðan hafi frekar verið ópersónuleg samskipti og skortur á einstaklingsathygli og umhyggju. Ég var bara ein af risastórum hópi barna og öll nálgun var á hópinn fremur en einstaklingana.

Ég furða mig á því hvað ég á í raun fáar minningar frá dvölinni. Ég man t.d. ekki mikið eftir því hvað við vorum að sýsla daglega nema rétt einstaka atriði. Ég ætla að leitast við að setja hér niður þau minningarbrot sem ég þó á.

Við fórum í rútu úr bænum að Laugarási. Ég sat örugglega hjá 5 ára gamalli stúlku, Guðrúnu en bræður okkar voru vinir. Við Guðrún þekktumst ekki. Foreldrar okkar leiddu okkur saman við rútuna og meðan á dvölinni stóð fannst mér ég bera nokkra ábyrgð á henni þar sem ég var árinu eldri.

Fötin mín voru öll merkt með númeri. Ég held að ég hafi verið nr. 114 og ég man eins og gerst hefði í gær þegar ég kom fyrst í svefnskálann sem var hólfaður í bása með léttum veggjum. Þar var mér vísað að ljósmáluðu járngrindarúmi sem á hafði verið límt þetta númer…114. Ég gleymi ekki hnútnum í maganum sem tengdist einhverri upplifun um að vera ekki Ingibjörg heldur barn nr. 114.

Húsakynnin eru fremur óljós í minningunni, en mér finnst svefnsalurinn sem ég svaf í hafa verið til vinstri þegar inn var komið. Ég man einnig eftir matsal með langborðum á báðar hliðar og gangvegi eftir miðjum sal. Mér finnst ég geta staðsett mig þar við borð innarlega í salnum. Þær reglur höfðu verið kynntar fyrir foreldrum að bannað væri að senda börnunum pakka, en ein minninga minna er að sum börnin fengu pakka og að nokkuð mikið var gert úr þeim sendinum. Sennilega hafa þeir pakkar tengst afmælum þeirra, því ég tengi þá við það að börn voru keyrð á matarvagninum eftir matsalnum í tilefni þess að eiga afmæli. Ég er ekki sumarbarn og náði ekki að setja þetta í samhengi, en fannst þetta mjög óréttlátt.

Fáar minningar tengjast því sem við börnin gerðum úti við, en í eitt skipti gerðist það í útiveru að Guðrún kúkaði í buxurnar. Það lýsir því kannski hvað við vorum lítið tengdar starfsfólkinu, að við leituðum ekki til þess, heldur laumuðumst við inn á salernið, sem var nokkuð stórt herbergi, að mér finnst, með útgangi beint út í garð eða að útisvæði. Þar fór ég að hjálpa henni við að komast úr buxunum og ætlaði að þrífa hana. Við vorum þó ekki búnar að bauka við þetta lengi þegar starfsstúlka kom að, tók við verkinu og vísaði mér út.

Á meðan á dvöl minni stóð varð ég veik. Ég fékk hita og útbrot og man eftir mér inni í litlu herbergi, kannski skrifstofu, þar sem var beddi með ullarteppi eða værðarvoð yfir. Þar voru einhver fleiri börn og við lágum tvö eða þrjú á beddanum samtímis með hitamæli í rassinum. Ég man einnig eftir konu sem mér fannst vera fullorðin og stjórnaði því sem fram fór og gaf fyrirmæli. Í tengslum við þessi veikindi var farið með mig til læknis í bíl. Við finnst við hafa keyrt yfir brúna á Hvítá, en það kann að vera misminni og að brúin hafi bara í þessari ferð blasað svo við að hún festist sterkt í minninu. Einhverja lyfjagjöf skrifaði læknirinn upp á því mér var gefið meðal áður en ég fór að sofa. Kvöldin voru auðvitað erfiðasti tíminn og ég grét mikið í koddann minn. Ljúfasta minningin frá dvöl minni á Laugarási er þegar fullorðin kona – kannski næturvakt - kannski Jóna sjálf - fór með mig inn í eldhús til að gefa mér lyfið. Við borð í eldhúsinu sátu nokkrar starfsstúlkur sem sennilega hafa verið unglingar. Það var kátt hjá þeim, skrafað og hlegið. Þær veittu mér enga athygli, en þessi kona lyfti mér upp á eldhúsbekkinn, náði í lyfið og gaf mér. Síðan fór hún með mig fram og áður en hún fór með mig í rúmið settist hún í ruggustól – tók þetta vansæla barn í fangið og sat með það svolitla stund. Þetta er eina notalega minning mín frá þessari dvöl og oft hef ég hugsað hlýlega til þessarar nafnlausu konu sem skynjaði vanlíðan mína og lét sig hana varða.

Það er nokkuð sérstakt að aldrei var haft samband við foreldra mína og þeim gerð grein fyrir því að ég væri lasin og þyrfti á lyfjagjöf að halda, né heldur að mér liði svona illa. Þó veit ég að mamma hringdi af og til, til að spyrjast fyrir. Það var ekki fyrr en ég kom heim og sagði þeim frá þessu sem þau fengu þessar fregnir og það var satt að segja ekki ánægð móðir sem hringdi í forstöðukonuna, Jónu Hansen, eftir heimkomu mína.

Ég man eftir að hafa farið í sturtu, sennilega vegna þess að ég var vönust baðkari en ekki sturtu. Mér finnst eins og maður hafi farið í gegnum matsalinn til að fara í sturtuherbergið sem var þar aftar í húsunum. Við vorum nokkrar stúlkur í sturtunni í einu. Mér finnst eins og ég hafi verið látin fara í ullarbol og tengdi sjálf veikindin og útbrotin við það. Ég var ekki vön slíkri flík og klæjaði undan henni. Mér finnst líka að ég hafi ekki þurft að fara í ullarbolinn eftir að ég varð veik.

Í eitt skipti datt okkur Guðrúnu í hug að strjúka; við ætluðum heim! Ég man að við gengum eftir vegarslóða, sem mér finnst hafa legið til vinstri þegar komið var út úr húsinu og yfir litla hæð. Leið okkar varð ekki lengri því þar gerðum við okkur grein fyrir að við vissum ekki í hvora áttina við ættum að fara þegar við komum út á veginn.

Tveggja viðfangsefna minnist ég.

Annað var þegar við sátum, nokkur börn í hópi, með starfsstúlku og vorum látin lesa upphátt. Ég var orðin sæmilega læs og þegar röðin kom að mér byrjaði ég á textanum á sama stað og sá sem las á undan mér. Ég var strax leiðrétt og sagt að ég ætti að byrja þar sem hinn endaði. Ég skammaðist mín fyrir að hafa ekki gert þetta rétt og þess vegna er þetta minnisstætt.

Hitt atriðið var að einu sinni voru fengnir hestar á nágrannabæ og börnunum leyft að fara á bak. Til að byrja með fékk hvert og eitt barn að fara á bak og teymt var undir því hringinn í kringum húsið. Mér fannst biðin löng eftir því að röðin kæmi að mér og þegar henni loksins lauk þá hefur mannskapnum sennilega verið farið að finnast þetta taka of langan tíma því ég man að við vorum tvö á baki í einu og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að fá aðeins að fara hálfan hring.

Síðasta minning mín frá Laugarási er frá heimferðardeginum. Við sátum, hópur barna, sennilega 20-30 börn, á gólfinu, að mér finnst inni á áðurnefndri snyrtingu. Það var setið afar þröngt og starfsstúlka stóð fyrir framan hópinn með viðurkenningarskjöl. Ég man að stúlkan var full gleði og galsa þar sem hún afhenti hverju barni viðurkenningarskjal. Á skjalinu var lituð mynd af Andrésínu og texti með viðurkenningu fyrir góða hegðun eða frammistöðu. Ég sat í hópnum og var viss um að ég fengi ekki svona skjal. Auðvitað var mér afhent skjal eins og hinum, en tilfinningin um að það væri ekki verðskuldað var sterk; ég hafði ekki staðið mig vel þessar 6 vikur!

Þegar ég steig út úr rútunni í Reykjavík þar sem foreldrar mínir tóku á móti mér var það fyrsta sem ég sagði við þau: „ Af hverju fékk ég ekki pakka?“ Mömmu sárnaði þetta mikið og þetta var örugglega eitt af því sem hún fór yfir í símtali sínu við Jónu Hansen eftir heimkomu mína. Það var hins vegar glöð stúlka sem gekk inn heima og við henni blasti fagurrautt tvíhjól að gjöf við heimkomuna.

Að lokum.

Eins og áður hefur komið fram þá minnist ég þess ekki að neinn hafi verið vondur við mig en þetta ópersónulega umhverfi, í svo stórum barnahópi, hafði djúp áhrif á mig. Þessi skyndilegi og langi aðskilnaður við foreldra mína skiptir þar auðvitað líka miklu máli. Það var ólíkt foreldrum mínum að láta mig afskiptalausa í svo langan tíma og sennilega hafa hinar ströngu reglur heimilisins um að foreldrar hefðu ekkert samband við börnin orsakað þetta mikla öryggisleysi og heimþrá sem þjáði mig þessar sex vikur. Ég hafði fyrir dvölina verið örugg og óhrædd að gista hjá nánum ættingjum og vinum en alveg ómöguleg hvað þetta varðar í mörg ár eftir dvölina í Laugarási.

Lengi vel var ég ekki viss um hvar sumardvalarheimilið stóð, en fyrir nokkru gerði ég mér ferð í Laugarás til að ganga um þetta svæði og upplifa staðhætti aftur. Ég stóð þar sem ég held að húsið hafi staðið og kannaðist vel við mig þótt gróður sé nú allur annar og meiri. Veðrið var dásamlegt og það snerti mig djúpt hvað svæðið og staðhættir eru fallegir. Það er synd að þetta sé sá staður sem mér hefur liðið verst á, á ævinni; á svo fallegum stað hefði öllum börnum átt að líða vel og njóta dvalarinnar.

Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir

Ingibjörg á staðnum þar sem Krossinn stóð, sumarið 2018

Ingibjörg á staðnum þar sem Krossinn stóð, sumarið 2018