Aðalfundur Reykjavíkurdeildar 1973

.... þau væru ekki nógu trygg sem dvalarstaður fyrir svo mörg börn, nema umtalsverðar lagfæringar yrðu framkvæmdar á húsunum.

Í skýrslu á aðalfundi Reykjavíkurdeildar 1973 kemur fram, að engin starfsemi var í Krossinum sumarið áður. Tilgreind ástæða var sú að eldvarnaeftirlit ríkisins hafði gert úttekt á húsunum og kveðið upp þann úrskurð að þau væru ekki nógu trygg sem dvalastaður fyrir svo mörg börn, nema umtalsverðar lagfæringar yrðu framkvæmdar á húsunum. Stjórn deildarinnar komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri ráðlegt að leggja í þær kostnaðarsömu breytingar sem krafist var, enda væru húsin ekki til frambúðar og frekar væri þörf á endurnýjun þeirra.

Í skýrslunni var greint frá þeirri niðurstöðu Laugarásnefndar, að “unnið verði að því markmiði að byggja upp í Laugarási fyrst og fremst til reksturs sumardvalarheimilis”.
Þarna var ennfremur greint frá því áliti stjórnar RKÍ að áhugi væri fyrir uppbyggingu í Laugarási, “sér í lagi, ef hægt yrði að nýta væntanleg ný hús í lengri tíma en sumarmánuðina”.
Augljóslega er þarna nokkur áherslumunur og auðvitað er vel skiljanleg áhersla stjórnar RKÍ á að unnt skuli vera að nýta húsakost sem byggður yrði, í meira en 3 mánuði ári.

Uppbyggingin í Laugarási verður því meðal helstu verkefna næstu stjórnar

Til marks um hve ákveðin Reykjavíkurdeildin var í að byggja upp í Laugarási er niðurlag skýrslunnar sem var til umfjöllunar á fundinum:
Rekstur sumardvalarheimila fyrir Rvíkurbörn hefur verið einn meginþáttur í starfi deildarinnar á umliðnum árum og hefur sennilega aflað henni meiri vinsælda en nokkurt annað starf, sem hún hefur innt af hendi. Foreldrar barnanna svo og borgaryfirvöld hafa metið þetta starfs og hafa borgaryfirvöld sýnt það í verki með því að greiða hallann á rekstri barnaheimilanna. Þörfin fyrir þessa starfsemi er enn fyrir hendi og það í vaxandi mæli í borg sem ves eins ört og R.vík. Þessvegna álítur stjórn deildarinnar það rétt, að vinna áfram af alúð að þessum málum. Uppbyggingin í Laugarási verður því meðal helstu verkefna næstu stjórnar”.

Þann 18. febrúar 1974 samþykkti hreppsnefnd Biskupstungnahrepps meðmæli með því að Reykjavíkurdeildin stofni garðyrkjubýli í Laugarási.

..., sé gagnmerk þjóðnytjastarfsemi og vitað er að stofnun garðyrkjubýlis er liður í uppbyggingu og endurreisn barnaheimilis þar.

Nefndin lítur svo á, að rekstur sumardvalarheimilis fyrir börn, eins og Reykjavíkurdeild. R.K.Í. hefur starfsrækt í Laugarási fram að síðastliðnu ári, sé gagnmerk þjóðnytjastarfsemi og vitað er að stofnun garðyrkjubýlis er liður í uppbyggingu og endurreisn barnaheimilis þar.
Hreppsnefnd gefur því Reykjavíkurdeild R.K.Í. umbeðin meðmæli mjög fúslega

Þetta svar til Reykjavíkurdeildar undirritaði oddvitinn Þórarinn Þorfinnsson.

Landnámsstjórn ríkisins samþykkti um sama leyti viðurkenningu á býli Rauða krossins í Laugarási, að því tilskildu að lögð yrðu fram þau gögn sem landnámið kynni að óska eftir.

1975

Sameignar- og samvinnusamningurinn frá 1975

Þar kom, árið 1975, að Rauði Krossinn og Reykjavíkurdeildin gerðu með sér sameignar- og samvinnusamning um Laugarás. Það lá einhvernveginn í loftinu og Rauði Krossinn vildi draga sig smátt og smátt út úr þessari starfsemi af ýmsum ástæðum, ekki hvað síst líklega, vegna þess að ekki var um að ræða annað en hefja mikla uppbyggingu.
Eftir skoðunarferð í Laugarás í júní 1976, tók Gunnar Torfason, verkfræðingur, saman skýrslu um ferðina.

Skýrsla Gunnars Torfasonar

Um miðjan júli sendi Gunnar Torfason Reykjavíkurdeild RKÍ það sem hann kallaði lauslega framkvæmdaskýrslu þar sem hann fór yfir það sem gert hafði verið í framhaldi af skoðunarferðinni í Laugarás í júní og þar kom svo sem ekki margt nýtt fram:
- nefnd fyrirhuguð loftmynd frá landmælingum sem ætlað var að auðvelda heildarskipulag svæðisins.
- leitað var til Reynis Vilhjálmssonar, skrúðgarðaarkitekts, varðandi skipulagninu gróðuruppbyggingar á svæðinu.
- leitað var til Byggðastofnunar varðandi tillögur að húsaskipan á svæðinu, en þar reyndist ekki mikillar aðstoðar að vænta og önnum borðið við.
- ekki tókst að nálgast frekari upplýsingar um lagnir á svæðinu.
- Haft hafði verið samband við danskt ráðgjafarfyrirtæki sem hefði heitið aðstoð við gagnasöfnun og úrvinnslu verkefnisins.

Í framhaldinu setti Laugarásnefndin saman vangaveltur sínar um uppbyggingu og þá miðað við að nýta nýtilega hluta húsanna meðan svám saman yrði byggt upp það sem ónothæft var. Þarna var gert ráð fyrir að í fyrsta áfanga yrðu reistir tveir skálar og gamli kjarninn að öðru leyti lagfærður og heimilið opnað með 40 börnum sumarið 1978. Síðan yrðu tveim skálum bætt við fyrir 40 börn og teknir í notkun sumarið 1979. Þar með yrðu svefnskálar klárir fyrir 80 börn sem hugsað var sem endanleg stærð, en þá væri uppbygging gamla kjarnann eftir, en gert var ráð fyrir að hann gæti mögulega enst í 5-6 ár til viðbótar.

Svo virðist sem smám saman hafi fjarað undan hugmyndum um enduruppbyggingu í Laugarási. Annarsvegar virðist fé til slíkra framkvæmda ekki beinlínis hafa legið á lausu og hinsvegar voru tímarnir farnir að breytast í þá átt að ekki þætti sveitavist Reykjavíkurbarna jafn ákjósanlegur kostur og áður var og vissulega fór barnsfæðingum fækkandi er á leið sjöunda áratuginn og ómegð því minni.

Krossinn skömmu eftir 1980. Mynd frá Sólveigarstöðum.

Sláturfélag Suðurlands fékk inni á haustin fyrir starfsfólk í fæði og gistingu fram um 1980, en þá voru skálarnir orðnir afar hrörlegir og einungis hluti þeirra nýtilegur.

Krossinn jafnaður við jörðu.

.... en engar raunhæfar tillögur hafa komið um nýtingu landsins.

Í starfsskýrslu Reykjavíkurdeildar 1987 segir svo:

Á síðasta ári voru rústir síðustu húsa á leigulandi Rauða krossins í Laugarási jafnaðar við jörðu. Tæp 20 ára eru eftir af leigutíma, en engar raunhæfar tillögur hafa komið um nýtingu landsins.

Uppfært 12/2018